18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft frv. það, sem hér liggur fyrir, til meðferðar, en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki náð samstöðu um afstöðu til frv. Við 4, sem að nál. á þskj. 488 stöndum, leggjum til, að það verði samþ. óbreytt, en aðrir nm. leggja til, að frv. verði fellt, og hafa á þskj. 487 skilað nál. í samræmi við það.

Efni þessa frv. er, eins og hv. þdm. er kunnugt, það að heimila ríkisstj. að gerast aðili að alþjóðlegum samningi um lausn fjárfestingardeilna milli ríkja og þegna annarra ríkja. Nú liggur, eins og kunnugt er, fyrir hv. Alþ. frv. til l. um staðfestingu á fjárfestingarsamningi milli íslenzka ríkisins og erlends einkafyrirtækis, og er því skiljanlegt, að það mál blandist saman við það mál, sem hér liggur fyrir, eins og líka kom í ljós við 1. umr. málsins hér í hv. d. Ég mun þó forðast eftir mætti að ræða álsamninginn og ákvæði hans í þessu sambandi. Það mál kemur hér fyrir, áður en langt um líður, og er það fjarri mínum vilja að freista manna hér til þess að fara að taka forskot á þá sælu. En hins vegar mun ég m.a. að gefnu tilefni við 1. umr. málsins ræða nokkuð hina almennu hlið þeirra málefna, sem snerta erlenda fjárfestingu, frá íslenzku hagsmunasjónarmiði, því að hin almennu viðhorf til þeirra málefna hljóta eðlilega að marka afstöðu okkar til þess máls, er hér liggur fyrir.

Í innganginum að samningi þeim, sem prentaður hefur verið sem fskj. með frv. þessu, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samningsríkin gera sér ljóst, hver þörf er á alþjóðlegri samvinnu um efnahagslegar framfarir og hvern þátt alþjóðleg einkafjárfesting á í þeim. Hafa ber það hugfast, að öðru hverju geta deilur risið upp í sambandi við slíka fjárfestingu milli samningsríkja og þegna annarra samningsríkja.“

Um fyrsta atriðið, sem hér er nefnt, þörf alþjóðlegrar samvinnu um efnahagslegar framfarir, vænti ég ekki, að neinn ágreiningur sé hér í hv. d. Ég efa ekki heldur, að öllum hv. þm. sé ljóst, að sú alþjóðlega samvinna, sem hér um ræðir, hefur lengst af verið fólgin í því, að lönd, sem haft hafa fjármagn aflögu, hafa látið það þeim löndum í té, sem á því hafa þurft að halda til þess að byggja upp atvinnuvegi sína. Engin dæmi munu um það, að gerð hafi verið stórátök í neinu landi til uppbyggingar atvinnuvegum þess, án þess að til kæmi erlend fjármagnsaðstoð í einhverri mynd. Má í þessu sambandi nefna hinar stórfelldu lántökur Bandaríkjanna erlendis á s.l. öld, þegar þeir voru að byggja upp iðnað sinn.

Erlend fjármagnsaðstoð getur verið í þrenns konar formi: gjafafé, lán og það, sem kallað hefur verið bein fjárfesting. Um fjármagnsaðstoð í mynd gjafafjár er ekki ástæða til að ræða í þessu sambandi. Langmestur hluti aðstoðarinnar hefur verið í mynd lánveitinga, sem jöfnum höndum geta átt sér stað á vegum opinberra aðila og einkaaðila. En sú tegund fjármagnsaðstoðar, sem þetta frv. einkum snertir og ég mun eingöngu ræða hér, er hin beina fjárfesting, en með því er átt við það, að hin veitta fjármagnsaðstoð er í mynd áhættufjármagns, sem fest er í öðru landi. Getur þetta verið í ýmsum myndum, svo sem þeirri, að aðili sá, sem fjármagnið leggur fram, leggur fram hlutafé í fyrirtæki, sem staðsett eru erlendis og að öðru leyti í eign þarlendra aðila, eða hinn erlendi aðili, sem fjármagnið leggur fram, stofnsetur fyrirtæki í öðru landi, sem hann rekur fyrir eigin reikning. Sem millistig milli þessara leiða má nefna það, sem mjög er algengt, að erlent fyrirtæki, er fjárfestir erlendis, kemur á fót dótturfyrirtæki í landi því, sem fé er fest í, en dótturfyrirtækið getur svo verið meira eða minna háð opinberum aðilum eða einkaaðilum í móttökulandinu. Engar skýrar markalínur eru að mínu áliti milli þeirra tegunda beinna fjárfestinga, sem nefndar hafa verið. Þar sem fjármagnsaðstoð í mynd lána getur auðvitað jöfnum höndum verið á vegum opinberra aðila og einkaaðila, munu það vera undantekningar, sem raunar leiðir af eðli málsins, að bein fjárfesting eigi sér stað á vegum annarra en einkaaðila. Hin beina fjárfesting hefur alltaf verið óverulegur hluti þeirra fjármagnshreyfinga, sem átt hafa sér stað landa á milli. Samt sem áður erum við, sem að þessu nál. stöndum, sammála þeirri forsendu samnings þess, sem hér liggur fyrir, að hún eigi mikilvægu hlutverki að gegna. Leyfi ég mér að benda á eftirfarandi rök því til stuðnings:

Í fyrsta lagi, að frá sjónarmiði þeirra landa, sem á fjármagni þurfa að halda, er oft hagkvæmara og minna viðsjárvert að fá það fjármagn frá einkaaðilum en opinberum aðila. Ef opinber aðili lætur fjármagnið í té, verður ágreiningur, sem verða kann út af slíkum viðskiptum, ágreiningur við ríkisvaldið í umræddu landi, en árekstrar milli ríkja eða þar sem ríkið er annar aðilinn hafa að jafnaði alvarlegri afleiðingar fyrir sambúð þjóða en tilsvarandi árekstrar milli einkaaðila, og ætti ekki að þurfa að skýra það nánar.

Í öðru lagi hefur hin beina fjárfesting að jafnaði þann kost samanborið við lánveitingar, að þegar hún á sér stað, er það ekki eingöngu hið erlenda fjármagn, sem móttökulandið nýtur, heldur líka sú kunnátta og tækni, sem að jafnaði fylgir með fjármagnsflutningum þeim, sem eiga sér stað í þessari mynd. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt atriði frá sjónarmiði þeirra landa, sem nota erlent fjármagn til þess að koma á fót nýjum atvinnugreinum, og má í því sambandi minna á það, að ein meginástæðan til þess, að efnahagsaðstoð við þróunarlöndin í mynd gjafa- og lánsfjár hefur oft ekki borið tilætlaðan árangur, er sú, að þessi lönd hefur skort þá verkkunnáttu, sem nauðsynleg var til að hagnýta það fjármagn, sem þeim var þannig látið í té.

Í þriðja lagi má á það benda, að þeir aðilar, sem leggja í beina fjárfestingu í einhverju öðru landi, taka venjulega að sér að sjá um að koma framleiðsluvörunni á markað, og er það ekki lítilvægt atriði, þegar um framleiðslu er að ræða; sem ekki hefur áður verið stunduð í hlutaðeigandi landi, því að oft geta örðugleikarnir á því að afla markaða verið meginhindrunin fyrir því, að nýjungar í framleiðslu geti rutt sér til rúms. Ýmsa fleiri kosti mætti nefna, sem hin beina fjárfesting erlendra aðila hefur í för með sér, en ég læt þetta nægja.

En hvernig stendur þá á því, að það er staðreynd, sem ég áðan nefndi, að bein fjárfesting á vegum einkaaðila hefur að jafnaði ekki numið nema litlu broti af þeirri heildarfjárfestingu, sem á sér stað með erlendu fjármagni? Í þessu sambandi vil ég byrja á því að leiðrétta misskilning, sem virðist vera töluvert almennur og mér fannst m. a. skjóta upp kollinum í ræðu, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. flutti hér í hv. d. við 1. umr. þessa máls, þegar hann gat þess til, að alþjóðasamningur sá, sem hér liggur fyrir, væri runninn undan rifjum þeirra ríkja, sem áhuga hefðu á því að festa fé erlendis. En sá misskilningur er í því fólginn, að það séu þeir aðilar, sem fjármagn hafa aflögu, sem sæki á í þessum efnum, þannig að ástæðan til þess, að slik fjárfesting sé ekki meiri en raun er á, sé eðlileg tregða þeirra landa, sem á fjármagninu þurfi að halda, að taka á móti því. Þetta er alveg gagnstætt staðreyndum. Það er yfirleitt mjög lítið framboð af einkafjármagni til fjárfestingar erlendis. Hv. stjórnarandstæðingar hafa líka einmitt lagt áherzlu á það í hina röndina, að hin siðmenntuðu ríki, sem fjármagn hafa aflögu, hafi verið svifasein í því að fullgilda samning þann, sem hér liggur fyrir, það hafi aðeins gert fáein ósiðuð Afríkuríki, sem Íslendingar séu of fínir til að vera í félagsskap með. Þetta er einmitt ekki tilviljun. Framboð á einkafjármagni til fjárfestingar í öðrum löndum er og að því er ég bezt veit hefur ávallt verið miklu minna en eftirspurnin eftir því. Og hvers vegna? Vegna þess að eigendur fjármagnsins telja jafnan, að fjárfestingu erlendis fylgi slík óvissa og öryggisleysi, að miklu hagkvæmara sé að festa það í heimalandinu. Til þessa liggja margar ástæður, sem ég skal þó ekki ræða hér til þess að ræna ekki of miklu af dýrmætum tíma hv. þdm., að undanteknu þó einu atriði, sem deilur þær, sem staðið hafa að undanförnu hér á landi í sambandi við þá erlendu fjárfestingu, sem fyrir dyrum stendur, hafa snúizt mjög um og sérstaklega snertir það mál, sem hér liggur fyrir. En þetta atriði, sem hefur verið ein mikilvægasta hindrunin í vegi einkafjárfestingar erlendis, er það ófullkomna réttaröryggi, sem þeir, er lagt hafa í slíka fjárfestingu, telja sig eiga við að búa. Það hefur skort hlutlausa, alþjóðlega dómstóla, sem úr deilum út af fjárfestingarmálum gætu skorið, þannig að báðir deiluaðilar teldu sig hafa jafnréttisaðstöðu gagnvart þeim. Ef ágreiningur kom upp, var eina leiðin til þess að fá úr honum skorið sú, að sá aðili, sem taldi samning við sig vanefndan, varð að lögsækja gagnaðilann fyrir dómstólum heimalands hans.

Það er ekki hægt að afgreiða þetta mál á þann einfalda hátt, sem hv. minni hl. allshn vili gera, þegar hann .vitnar til þess í nál. sínu, að útlendir menn njóti hér á landi sömu eignarréttarverndar sem innlendir samkv. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Í fyrsta lagi ber að hafa hugfast, að það er aðeins takmarkaður hluti heimsins, þar sem hinar vestrænu réttarfarshugmyndir um hlutlausa dómstóla, óháða ríkisvaldinu, eru ríkjandi. Við könnumst við alþýðudómstóla Austur-Evrópulandanna, þar sem yfirleitt eru ekki gerðar þær kröfur til dómara, að þeir séu löglærðir, en þeim mun strangari kröfur til þess, að stjórnarvöldin megi treysta þeim í stjórnmálalegu tilliti. Dómsvaldið er þar m.ö.o. aðeins angi af hinu pólitíska framkvæmdavaldi. En réttarfarshugmyndir, sem eru mjög frábrugðnar þeim, sem við Íslendingar og grannþjóðir okkar hafa, einskorðast ekki við hin sósíalísku Austur-Evrópuríki. Ég skal játa, að ég er ekki kunnugur dómstólum og réttarfari í ríkjum Afríku, Asíu og Mið- og SuðurAmeríku, en ég býst þó við því, að í mörgum þeirra ríkja séu réttarfarshugmyndir æði frábrugðnar þeim, sem við höfum. En þó að við höldum okkur nú aðeins við þann hluta heimsins, þar sem vestrænar réttarfarshugmyndir eru ríkjandi og ekki er nein ástæða til að væna dómstóla um neina hlutdrægni, er þeir dæma í málum milli innlends og erlends aðila, fer því þó fjarri, að um jafnréttisaðstöðu sé að ræða, þegar erlendur aðili þarf að lögsækja innlendan aðila fyrir dómstólum heimalands hans. Allir vita, að það er ólík aðstaða að þurfa að sækja mál fyrir erlendum dómstóli eða innlendum. Kostnaður, ókunnugleiki á mönnum og málefnum, sem m.a. veldur hinum erlenda aðila erfiðleikum í því að fá hæfa menn til að flytja mál sitt í framandi landi, og margt fleira gerir það að verkum, að í viðskiptum þegna mismunandi þjóða hefur sá alltaf óviðjafnanlega sterkari aðstöðu, sem sótt getur eða varið mál sitt fyrir innlendum dómstóli. Þetta þýðir það, að ef ekki er kostur þess að bera mál undir alþjóðadómstól, hefur sá aðili í viðskiptum milli þegna mismunandi ríkja, sem sakaður er um vanefndir og lögsækja verður því fyrir dómstólum eigin lands, miklu sterkari réttarlega aðstöðu en sá aðilinn, sem telur misgert við sig. Þetta hefur svo leitt til þess, að ófyrirleitin fyrirtæki og einstaklingar hafa beinlínis gert sér það að gróðalind að vanefna samninga sína við erlenda aðila í trausti þess, að þeir hefðu ekki fjárhagslegt bolmagn eða aðra aðstöðu til að lögsækja sig.

Ég minnist þess, — það var held ég skömmu fyrir heimsstyrjöldina síðari, — að ég ræddi einu sinni við mann, sem kunnugur var fisksölumálum Íslendinga erlendis. Hann komst svo að orði að að vísu væri það þannig, að ef samningur væri gerður við brezkt fyrirtæki, mætti treysta því nálægt 100%, að sá samningur væri efndur. En þegar kæmi sunnar og austar í álfuna, yrði sú prósenta töluvert miklu lægri, og ákveðin lönd nefndi hann, — ég hef það að vísu ekki eftir hér, — þar sem varla væru meir en 20—30% líkur fyrir því, að samningur, sem þar væri gerður, yrði efndur. Það hefur því lengi verið ljóst öllum þeim, sem skilið hafa nauðsyn alþjóðlegrar samvinnu í efnahagsmálum, hver fjötur skorturinn á réttaröryggi í alþjóðlegum viðskiptum var slíkri samvinnu um fót. Hefur því verið að því unnið á alþjóðlegum vettvangi, bæði af samtökum ríkja og einkaaðila, að ráða hér bót á. Á sínum tíma var Haag-dómstóllinn stofnaður til þess að skera úr ágreiningsmálum milli ríkja, og fyrir fáum árum hefur einnig verið heimilað að skjóta til hans ágreiningsmálum milli aðila í mismunandi ríkjum, þótt einkaaðilar eigi hlut að máli. Kringum 1950 var svo fyrir atbeina alþjóðlega verzlunarráðsins komið á fót alþjóðlegum verzlunardómstól, sem einkaaðilar gátu skotið til ágreiningi út af viðskiptum vegna annarra ríkja.

Hins vegar hefur verið vöntun á því, að hægt væri að skjóta ágreiningsmálum ríkja og þegna annarra ríkja til alþjóðlegs dómstóls. Hefur sú vöntun einkum bitnað á einkafjárfestingu erlendis, og er það því engin tilviljun, að Alþjóðabankinn, sem hefur það hlutverk að efla alþjóðlega samvinnu á sviði fjárfestingarmála, hefur beitt sér fyrir því meðal aðildarríkja sinna, að gerður yrði sá samningur, sem liggur nú fyrir hv. Alþ. til staðfestingar með frv. þessu. En sú virðist vera afstaða hv. stjórnarandstæðinga í sambandi við þetta mál og það stóra mál, sem inn í það hefur blandazt, álmálið, að þetta megi ekki gera, því að ekkert ríki geti verið þekkt fyrir það vegna sjálfstæðis síns og sæmdar dómstóla sinna að skjóta ágreiningsmálum, sem upp kunna að koma í sambandi við viðskipti þess við einkaaðila í öðrum ríkjum, til alþjóðlegs gerðardóms. Nú eru hugtök eins og sjálfstæði og virðing dómstólanna að vísu æðiafstæð, þannig að í rauninni getur hver skilgreint þau eins og honum sýnist og því haft sínar skoðanir á því, hvenær þetta sé skert, sem hvorki verða staðfestar né hraktar með neinum almennum rökum. En hinu vil ég eindregið mótmæla, sem haldið hefur verið fram í þessum málflutningi, að það sé um einhver einsdæmi að ræða, ef ríki sætti sig við það að skjóta ágreiningi við erlendan einkaaðila til úrskurðar alþjóðlegs dómstóls, og að sú skoðun sé almenn meðal þjóða, er svipuð menningarviðhorf hafa og við, að það sé skerðing á sjálfstæði og móðgun við innlenda dómstóla að ljá máls á slíku. Í fyrsta lagi vil ég á það benda, að íslenzk stjórnarvöld hafa ekki verið þessarar skoðunar, og er þar nærtækt að vitna í olíusamninginn, sem hæstv. viðskmrh. ræddi í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv. við 1. umr. En hann hef ég skilið þannig, að hinn sovézki dómstóll, sem þar var samið um að láta úrskurða um ágreining, skæri ekki einvörðungu úr ágreiningi um vanefndir Rússa, sem Íslendingar kynnu að ásaka þá um, heldur líka ef Rússar kærðu Íslendinga fyrir vanefnd samningsins. Ef það væru eingöngu fyrrnefndu ágreiningsatriðin, sem dómstóllinn ætti að skera úr um, hefði slíkt leitt af sjálfu sér án nokkurs samnings og því óþarft að setja nokkur ákvæði um slíkt í samninginn. Hér virðist mér því um tvímælalaust fordæmi að ræða fyrir því, að íslenzka ríkið hefur fallizt á það, að öll deilumál út af samningi, sem það hefur gert við erlendan aðila, sem ekki starfar þar a.m.k. lagalega séð í umboði ríkisins, skuli útkljáð af erlendum dómstóli.

En ef við svo litum á hinn innlenda vettvang, hygg ég það hina mestu firru að halda því fram, að það sé almennt viðurkennd regla, að ekkert ríki geti með tilliti til sjálfstæðis síns og þeirrar virðingar, sem sýna beri dómstólum landsins, fallizt á alþjóðlegan gerðardóm í ágreiningsmálum við einkaaðila. Hvað vilja menn þá t.d. segja um kola- og stálsamninginn, sem gerður var árið 1952 af þeim ríkjum, er síðar stofnuðu Efnahagsbandalag Evrópu, og svo Efnahagsbandalagið sjálft, þegar það var stofnað? Í báðum þessum tilvikum sömdu aðildarríkin um það að afsala sér beinlínis löggjafarvaldi í þeim efnum, sem um var samið, fyrst með kola- og stálsamningnum og síðar Rómarsáttmálanum, og fela það í hendur stofnunar, sem aðildarríkin komu sameiginlega á fót. Öll ágreiningsmál í sambandi við samninga þessa skyldi úrskurða af sameiginlegum yfirdómstólí, þannig að dómstólar hinna einstöku ríkja fengu það hlutverk eitt að veita atbeina sinn til þess, að úrskurðum yfirdómstólsins yrði framfylgt í hinum einstöku ríkjum.

Það stóð, eins og kunnugt er, til um skeið, að Noregur og Danmörk yrðu aðilar að Efnahagsbandalaginu. Og þó að ekki yrði af því, var það ekki vegna þess, að stjórnmálamenn og lögvitringar í þessum löndum teldu það almennt ekki samrýmast stjórnar- og réttarfarslegu sjálfstæði þessara landa að gerast aðilar að þessu samkomulagi. Ég hef t.d. kynnt mér álit prófessors Frede Castbergs, hins kunna norska lögfræðings, sem hann lét norsku ríkisstj. í té, þegar aðild Noregs að Efnahagsbandalaginu var til umræðu, en niðurstaða hans var sú, að slík aðild mundi á engan hátt skerða sjálfstæði Noregs. Efnahagsbandalagið og skuldbindingar aðildarríkjanna gagnvart því skyldu þó vera óuppsegjanlegar. Er því að mínu áliti þess vert að bera saman afstöðu þá, sem fram hefur komið í þessum ríkjum í sambandi við aðild að Efnahagsbandalaginu, við hinar fáránlegu fullyrðingar stjórnarandstæðinga nú um þá skerðingu á sjálfstæði Íslands, sem hin tímabundnu gerðardómsákvæði álsamningsins eiga að þeirra dómi að hafa í för með sér.

Þá virðist mér undirskrift 35 ríkja undir samning þann, sem hér liggur fyrir, skera úr um það, að ríkisstj. þessara landa líta svo á, að það sé ekki ósamboðið sæmd og sjálfstæði einstakra ríkja að leggja ágreiningsatriði milli þeirra og þegna annarra ríkja fyrir alþjóðlegan gerðardóm. Að vísu eru það rétt, sem hv.3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) ræddi hér við 1. umr. málsins, að undirskrift ríkis undir alþjóðlegan samning er ekki það sama og fullgilding, og þess má mörg dæmi finna, að slíkur samningur, sem undirritaður hefur verið af einhverju ríki, hefur aldrei hlotið fullgildingu löggjafarþings þess ríkis. Í þessu sambandi skiptir þetta þó að mínu áliti ekki máli, því að það gefur auga leið, að væri ríkisstj. þeirrar skoðunar, að það að notfæra sér þá þjónustu, sem samningur sá, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, væri skerðing á sjálfstæði ríkisins og móðgun við dómstóla þess, þá hefði hún ekki gefið fulltrúum sínum á þeim vettvangi, sem samningurinn var gerður, umboð til þess að undirrita hann. Slíkt væri hræsni og yfirdrepsskapur, sem engri ríkisstj. væri sæmandi. Á það má og benda í þessu sambandi, að hvað sem öðru líður virðist gagnrýni hv. 3. þm. Norðurl. v. á því, að þingið sætti sig við gerðardómsúrskurð í deilu við erlendan einkaaðila, snerta í rauninni meira form en efni. Hann hefur ekkert við það að athuga, þótt deilumáli milli ríkja sé skotið til alþjóðlegs gerðardóms, og ég býst ekki við, að hann hafi heldur neitt við það að athuga, þótt einkaaðilar notfæri sér þjónustu alþjóðaverzlunardómstólsins. Aðeins deilumálum milli ríkja og þegna annarra ríkja má ekki skjóta til alþjóðadómstóls. Skv. þessu mundi, að mér skilst, ekki vera neitt við það að athuga frá hans sjónarmiði, að ef t.d. svissneska ríkið væri aðili að svissneska álhringnum, þá væri við hann samið um alþjóðlegan gerðardóm, þar eð þá mætti líta á ágreining, er upp kynni að koma í viðskiptum við hann, sem ágreining milli ríkja.

Við, sem að þessu nál. stöndum, teljum, að Ísland hafi mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við alþjóðlega einkafjárfestingu og því beri að taka þátt í því að efla réttaröryggi hennar með fullgildingu þessa samnings. Eins og ég sagði í upphafi mun ég ekki ræða þann mikla fjárfestingarsamning, sem nú liggur fyrir hv. Alþingi til staðfestingar, enda fær framtíðin ein úr því skorið, hvort þær vonir, sem við stuðningsmenn hans gerum okkur um það, að hann muni efla okkar þjóðarhag, rætast. En erlend einkafjárfesting er ekki nein nýjung hér á landi, og einmitt í tilefni af því, að í gær gerði annað aðalmálgagn hv. stjórnarandstöðu það að umtalsefni, að á þessu ári væri 60 ára afmæli Íslandsbanka eða réttara sagt húss Íslandsbanka, og ræddi um það í því sambandi, að eins og örlög Íslandsbanka, sem öllum eru kunn, bentu til, þannig hefði farið um þá fyrstu erlendu fjárfestingu, sem ráðizt hefði verið í hér. En ég hygg nú, að skírskotun til sögunnar í þessum efnum sé málflutningi hv. stjórnarandstæðinga ekki hagstæð. Hitt er rétt, að um s.l. aldamót átti sér hér á landi stað mikilvæg fjárfesting á vegum erlendra einkaaðila, þar sem var stofnun Íslandsbanka með erlendu hlutafé og samningurinn við Mikla norræna ritsímafélagið um lagningu síma til landsins. Hvort tveggja þetta var íslenzku atvinnulífi hin mesta lyftistöng og olli raunar gerbyltingu. Hið erlenda fjármagn, sem kom inn í landið með stofnun Íslandsbanka, gerði okkur kleift að koma okkur upp myndarlegum togaraflota á þeirra tíma mælikvarða á síðasta áratugnum fyrir heimsstyrjöldina fyrri, og má í rauninni segja, að með því haldi nútímatækni og nútíma atvinnuhættir innreið sina hér á landi. Sæsímasambandið við Evrópu svo og símalagningin um landið var hvort tveggja einnig meginskilyrði fyrir því, að nútíma atvinnuhættir gætu blómgazt. En mikið var deilt um þessa erlendu fjárfestingu á sínum tíma, ekki síður en þær fjárfestingarfyrirætlanir, er nú standa fyrir dyrum, og á það sér í lagi við samninginn við Mikla norræna ritsímafélagið. Og ég býst við, að ef stjórnmálaskörungar þeirra tíma, svo sem Hannes Hafstein og Jón Ólafsson, mættu líta upp úr gröf sinni og hlusta á það, sem sagt hefur verið um þessi mál síðustu vikur, mundi þeim verða að orði eitthvað á þá leið: Mér finnst ég hafa heyrt þetta áður. — Og til þess að finna þessum orðum stað ætla ég að lokum, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp örfáar tilvitnanir úr ævisögu Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson, þar sem rakin er saga ritsímamálsins.

Í blaðinu Fjallkonunni segir svo 28. apríl 1905: „Þá er nú Danaríki farið að verða nokkuð megnt hér á landi, þegar stjórn vor er ekki aðeins í höndunum á dönskum ráðherrum, heldur jafnframt í höndunum á dönskum stórgróðafélögum, eins og þessi samningur ber svo átakanlega vitni um. Vér erum fjötraðir á höndum og fótum og jafnframt þessum ókjörum öllum eigum við að skuldbinda okkur til landssímalagningar, sem enginn veit enn, hvort ekki verði oss með öllu ókleift, getur jafnvel orðið til þess, að Danir verði að taka fjárhag vorn náðarsamlegast upp á sína arma og þá að sjálfsögðu þjóðarsjálfstæði vort um leið.“

Blaðið Ingólfur segir svo 30. apríl: „að hagsmunir og réttindi Íslands eru fyrir borð borin í hverri einustu grein, þar sem þau snertir, en hvarvetna svo um hnútana búið, að félagið og Danastjórn hefur tögl og hagldir.“ Greinin endar: „Ísland er gert ómyndugt í mesta stórmáli þess og steypt í óbotnandi útgjöld og kostnað, sem enginn veit, hvar staðar nemur, og hæglega getur orðið þjóðinni um megn, svo að hún verði með öllu gjaldþrota. Samningurinn í heild sinni er hið hættulegasta vopn, sem reitt hefur verið að sjálfstæði Íslendinga á síðari tímum. Hann ristir þjóðinni blóðörn á bak. Þjóðin þarf að rísa upp til að gæta réttar síns og hagsmuna. Það er nú orðið fullreynt, að ráðherrann,“ — þ.e. Hannes Hafstein, — „er því ekki vaxinn.“

Og hinn 19. apríl s. á. segir svo í Ísafold um þennan samning: „Danskur ráðherra er gerður að hæstarétti um skilning á leyfisskjalinu.“ Afsal úrskurðarvalds til erlendra aðila, kannast menn við það? — „Hannes Hafstein hefur með einum pennadrætti snarað 100 þús. kr. í Dani.“ Samningurinn er fjárhagslega séð skammarlega óhagstæður. Kannast menn líka við það? En hættulegast af öllu sé þó það samningsákvæði, að næstu 20 ár megi ekki veita neinu öðru félagi leyfi til skeytasambands milli Íslands og annarra landa. „Vér erum heftir á höndum og fótum, bundnir á klafa við danskt stórgróðafélag.“ Samningstíminn allt of langur! Kannast menn ekki líka við það? Er eiginlega hægt öllu betur að þræða fornar götuslóðir?

Og 1. júlí 1905 segir svo í Ísafold aftur, með leyfi hæstv. forseta: „að okursamningurinn hneppi ekki einasta þjóðina í 20 ára ánauð, heldur leggi hann það fáheyrða haft á frelsi hennar að öðru leyti, að hún má ekki hagnýta loftið, sem um hana leikur, nema þá rétt aðeins til þess að anda því að sér, og ef þeirri náð verður þá ekki af henni kippt með tímanum og ef hún hirðir þá um það og vill ekki heldur reyna loftið í annarri heimsálfu.“

Svo virðulegt blað sem Ísafold gerir jafnvel gælur við þá hugmynd, að ekki dugi annað en láta handaflið ráða, því að svo segir í tilefni aðstreymis fólks að bænum, sem var undanfari mótmælafundarins fræga fyrir framan stjórnarráðshúsið: „Ístöðulitlar sálir í karlmannshreysum ekki síður en kvenna, prúðbúnum og borðalögðum, eigi síður en lélega klæddum, tóku til að sjá ískyggilegar ofsjónir, m.a. gilda bændur og vasklega vinda sér inn í þingsalina og snara löggjöfunum út þaðan, meira að segja taka suma þeirra og binda þá upp á mótruntur og hafa með sér í nokkurs konar gæzluvarðhald, að þeir gerðu ekki skaða af sér framar í lögréttu, — með öðrum orðum, þjóðræðið í algleymingi.“ Já, orðið þjóðræði hefur líka borið á góma undanfarna daga, eins og hv. þingdeildarmenn kannast við.

Og eftir að samningurinn hafði verið gerður, eða í októbermánuði sama ár, kemst einn af höfuðklerkum þjóðarinnar á þeim tíma þannig að orði í tilefni af athöfn, sem fram hafði farið, meðan sumarþingið stóð, við leiði Jóns Sigurðssonar: „Við vorum látnir beygja bökin í auðmýkt undir splunkunýjan einokunarklafa, sem merktur er brennimarki hinnar fornu útlendu áþjánar. Betra sé hverjum andlegum Íslendingi að liggja dauður undir merki Jóns Sigurðssonar heldur en sitja fullur og feitur við kjötkatla Hins sameinaða gufuskipafélags eða Hins stóra norræna“. Já! betra er að vanta brauð o.s.frv.

En þrátt fyrir þennan gauragang allan hygg ég nú, að allir geti tekið undir það með Kristjáni Albertssyni, sem hann segir um þetta mál að lokum á bls. 105 í öðru bindi ævisögunnar: „Allar hrakspárnar um símann áttu eftir að reynast, eins og vænta mátti, tómt glórulaust blaður, spárnar um, að þjóðin mundi ekki framar mega nota loftið nema rétt aðeins til að anda því að sér, að siminn mundi koma henni á vonarvöl. fólkið þyrpast af landi burt til þess að forðast drápsklyfjar og eitur einokunar og áþjánar læsast um þjóðarlíkamann.“

Hin mikla erlenda fjárfesting, sem átti sér stað í byrjun aldarinnar, var sjálfstæði þjóðarinnar síður en svo fjötur um fót, eins og allir gera sér ljóst nú. Þvert á móti var sú atvinnulega uppbygging, sem átti sér stað í skjóli hennar, ein meginforsendan fyrir því, að Íslendingar gætu siðar öðlazt fullt sjálfstæði. En eins og ég hef sagt, ætla ég hvorki að ræða né spá um þá erlendu fjárfestingu, sem nú stendur fyrir dyrum, en ég aðvara hv. stjórnarandstæðinga um það, að þeir hagi ekki málflutningi sínum þannig, að þeir reisi sér minnisvarða sem nátttröllum á sama hátt og þeir að öðru leyti mætu menn gerðu, sem höfðu forustu í andspyrnunni gegn símamálinu.