18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Mér fannst hv. 3. þm. Norðurl. v. kvarta hálfvegis undan því, hvað ég hafi verið langorður í framsögu minni, en ég tel, að hann hafi nú talað töluvert lengur en ég gerði. Mín ræða stóð, held ég, ekki nema 40—45 mín., en hann var rúman klukkutíma. En hvað sem því líður, þá er þetta mál að mínu áliti ekki svo ómerkilegt, að ekki geti verið verjandi að ráðstafa til þess nokkrum tíma, þó að vissulega sé tími okkar þm. dýrmætur þessa daga, þannig að ég skal reyna að verða ekki of langorður í svari mínu, sem verður þó að þýða það, að það verður ekki nema sumt af því, sem þeir tveir hv. ræðumenn sögðu, sem talað hafa á undan mér, sem ég get tekið hér til meðferðar.

Ég skal þá fyrst víkja ofurlítið að því, sem sagt hefur verið út af upplestri mínum úr ævisögu Hannesar Hafsteins. Ég vil nú fyrst taka það fram varðandi það, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði um sagnfræði Kristjáns Albertssonar, sem ég skal ekki deila um hér, að það var aðeins ein mjög stutt klausa, sem ég las upp eftir honum. Allt hitt var tekið upp úr blöðum andstæðinga símamálsins á þessum tíma, þannig að það voru þeirra orð, sem ég fór með, og ég hygg, að hvað sem segja má um sagnfræði Kristjáns Albertssonar, — um hana skal ég ekki dæma hér, — þá hygg ég þó ekki ástæðu til að væna hann um það, að hann hafi farið þar með rangar tilvitnanir. — Þetta hefur verið sagt. Hins vegar er það rétt, að það eru teknar klausur úr þessum greinum, þannig að eitthvað annað kann að hafa verið í þeim, sem mildar þetta. Það skal ég ekki segja um, en hitt tel ég ekki ástæðu til að vefengja, að þessi orð, sem ég las upp, hafi þeir haft um þetta mál.

Ég vil enn fremur taka það fram, að það er ákaflega fjarri mér að vilja á nokkurn hátt rýra minningu þeirra manna, sem hér var um að ræða. Hér voru merkir menn að verki, sem á öðrum sviðum hafa afrekað miklu í þágu föðurlands síns og e.t.v. ekki minna en formælendur símamálsins á sínum tíma, ef það mál er gert upp í heild. En hitt er skoðun mín, að í þessu máli missýndist þeim.

Hv. 5. þm. Reykv. las hér upp tvær tilvitnanir, aðra eftir Einari Kvaran og hina úr bók Þorsteins Gíslasonar, þáttinn úr stjórnmálasögu Íslands. Seinni tilvitnunina, sem hv. 5. þm. Reykn. las upp, tekur Kristján Albertsson með í ævisögu sinni. Nú er erfitt fyrir okkur að deila um það hér, að hve miklu leyti Marconitilboðið hafi verið hagstætt fyrir Íslendinga. Hitt finnst mér gefa auga leið, að loftskeytasambandið hefði aldrei getað komið í stað símans. En svo að annað sjónarmið komi fram í þessu máli, þá vil ég nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa það, sem Kristján Albertsson segir frá eigin brjósti, í framhaldi af því, sem hv. 5. þm. Reykn. las hér upp fyrir okkur, en hann segir svo:

„Ekki skal rengja, að Valtýr eigi það lof, sem hann telur sér, fyrir afskipti sín af símamálinu í Danmörku 1898. En við hvaða lögum Valtýr Guðmundsson telur Hannes Hafstein hafa tekið fullbúnum, verður aldrei að eilífu vitað. Hann getur ekki átt við heimildir til símasamnings í fjárlögum frá 1899 og 1901, því að þær taldi hann og flokkur hans úr gildi fallnar 1904 og óheimilt að semja eftir þeim. Hann getur ekki heldur átt við ákvæði fjárlaga frá 1903, sem hann og flokkur hans sögðu 1905, að ekki veitti heimild til að semja um annað en loftskeyti. Það verð, sem Valtýr nefnir á skeytum, er líka villandi. Verð skeyta var í upphafi 70 aurar til landa, sem mest var símað til, Danmerkur og Stóra-Bretlands, en fór hækkandi til fjarlægari landa. Þó var aðalatriðið, að gert var ráð fyrir lækkandi taxta, strax og farið væri að nota ritsímann að ráði. Taxtinn átti að endurskoðast fimmta hvert ár, og frá 1. jan. 1912 lækkaði hann niður í 45 aura fyrir orð til Danmerkur og Stóra-Bretlands, en frá 1. jan. 1917 niður í 35 aura.“ En Valtýr nefnir þarna 85 aura, sbr. það, sem hv. 5. þm. Reykn. las upp. Enn fremur segir Kristján Albertsson:

„Það er í fyrsta lagi rangt hjá Valtý Guðmundssyni, að hann og flokkur hans hafi 1905 viljað „þræði yfir landið“. Það var Hannes Hafstein, sem það vildi, en Valtýr og flokkur hans vildu taka tilboði Marconi-félagsins um selflutning loftskeyta annes af annesi. Og í ræðum sinum á Alþingi 1905 reiknar Valtýr ævinlega með 50 aura meðalverði fyrir orðið í loftskeytum milli landa. Hitt skiptir þó í þessu sambandi mestu, að enginn vissi né mun nokkurn tíma vita, hvað verðið hefði orðið. Marconi-félagið bauð aldrei upp á neitt verð á skeytum.“

Ég læt þetta nægja varðandi þetta atriði. Hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi mig ekki hafa efnt loforð, sem ég gaf í upphafi framsöguræðu minnar um það, að ég skyldi sneiða hjá álmálinu í framsöguræðu minni. Ég taldi mig í öllum aðalatriðum hafa haldið mig einvörðungu að því, sem þetta frv. gefur tilefni til, en það er frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til þess að gerast aðili að alþjóðasamningi um stofnun gerðardóms til þess að leysa fjárfestingardeilur milli ríkja og þegna annarra ríkja. Mér fannst einmitt eðlilegt í því sambandi að ræða almennt um alþjóðlega fjárfestingu, hvaða hagsmuna við Íslendingar hefðum haft að gæta í því sambandi og hvaða hagsmuna væri líklegt, að við hefðum að gæta í því sambandi framvegis. Ég taldi mig hafa haldið mig að hinni almennu hlið þessara mála. Hins vegar fannst mér nærtækt að nefna sem dæmi í einum eða tveimur tilvikum álsamninginn, og gagnrýndi ég í því sambandi málflutning hv. stjórnarandstæðinga, bæði eins og hann kom fram við 1. umr. málsins og almennt í þessu sambandi.

Það má vera, að barátta mín við þennan málflutning hafi verið barátta við vindmyllur. Um það skal ég ekki deila við hv. 3. þm. Norðurl. v., hvort málflutningnum beri að líkja við vindmyllur. En það er eitt atriði í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., sem ég vil leiðrétta, því að það er á misskilningi byggt af hans hálfu. Hann túlkaði þá skoðun mína, að ekki væri um að ræða fullt réttaröryggi í millilandaviðskiptum, þannig að þegar dómstólar einhvers lands, — og mundi það þá eiga við Ísland eins og önnur lönd, dæmdu í málum milli innlendra aðila og erlendra aðila, þá hlytu þeir alltaf að vera hlutdrægir í garð landa sinna. Það var mjög fjarri mér að vilja halda þessu fram. Þvert á móti tók ég skýrt fram, að það væri engin ástæða til þess í löndum, þar sem vestrænar réttarfarshugmyndir væru ríkjandi, að væna dómstóla um slíka hlutdrægni, og þá átti ég auðvitað ekki síður við Ísland en önnur lönd. En hins vegar sagði ég, og við það stend ég, að þrátt fyrir þetta geti aldrei verið um jafnréttisaðstöðu að ræða, þegar sækja á mál fyrir erlendum dómstóli, og stendur það auðvitað bæði í sambandi við þann kostnað, sem af því leiðir auðvitað alltaf að sækja mál í öðru landi, sem að jafnaði verður miklu meiri en ef málið er rekið fyrir dómstól heimalands, og í öðru lagi, að öll aðstaða hlýtur að vera erfiðari, þegar mál er rekið fyrir dómstólum annars lands, val málflutningsmanns o.s.frv. Það var þetta, sem ég átti við og ég hygg raunar að séu meginrökin fyrir því, að Alþjóðabankinn hefur talið rétt að beita sér fyrir samningsgerð sem þessari. Þetta vildi ég gjarnan undirstrika.

Annars, ef ég tók rétt eftir, þá sagði hv. 3. þm. Norðurl. v. eitthvað á þá leið, — það má vera, að mér hafi misheyrzt, og það er fjarri mér að vilja rangtúlka hans málflutning, — en hann hefur tekið það skýrt fram, að hann telji eðlilegt, að þegar um er að ræða deilur milli ríkja, þá séu þær útkljáðar af alþjóðadómstólum, — að þegar tvö ríki deila og dómstólar annars ríkisins ættu að dæma málið, væri það sama og að annar málsaðilinn fengi sjálfdæmi. Ég á erfitt með að skilja þetta öðruvísi en sem vissa viðurkenningu á því, að sá aðili, sem sækir mál fyrir dómstólum eigin lands, hafi sterkari aðstöðu en hinn erlendi aðili. En vera má, að þetta sé á misskilningi byggt. Það er alveg rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að það eru margar leiðir, sem þau lönd hafa farið, sem hafa talið sig hafa þörf fyrir notkun erlends einkafjármagns, og í því sambandi má t.d. nefna, að Norðmenn hafa í allríkum mæli farið aðra leið en við, nefnilega þá, að hið erlenda einkafjármagn, sem þeir hafa fengið til afnota, hefur verið lagt fram í þeirri mynd, að hinir erlendu aðilar hafa lagt hlutafé í fyrirtæki, sem hafa svo fengið leyfi til atvinnurekstrar í Noregi, og þá gert ráð fyrir því, að norskir aðilar legðu fram meira eða minna hlutafé á móti þessum aðilum. Þá þarf ekki að semja í einstökum tilvikum, eins og tilfellið er með okkur varðandi t.d. bæði álsamninginn og kísilgúrsamninginn. En það, að við förum ekki þessa leið í sama mæli og þeir, stafar m.a. af því, að okkar löggjöf um atvinnuréttindi erlendra manna er miklu strangari í þessum efnum heldur en löggjöf Norðmanna, og alveg nýverið var hér á hv. Alþ. verið að afgreiða lög um eignarréttindi útlendinga, sem ganga í þá átt að takmarka þetta meira en áður. Það kemur bæði til þetta og svo í öðru lagi það, að við höfum ekki talið okkur fært, t.d. í sambandi við álsamninginn, að leggja fram fjármagn af okkar hálfu að sama skapi og þeir gera í fyrirtæki, sem starfa með erlendu fjármagni, sem fest hefur verið þar í landi. Það er þetta, sem er ástæðan til þess, að okkar leiðir til þess að fá erlent fjármagn m.a. verða aðrar en þeirra.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði að umræðuefni Íslandsbanka og örlög hans Það er alveg rétt, að yfir síðustu árunum, sem Íslandsbanki starfaði, hvílir lítill ljómi. En það breytir engu um það, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að það erlenda fjármagn, sem kom inn við stofnun Íslandsbanka, var undirstaða þess, að við gátum komið okkur upp togaraflota í byrjun aldarinnar, en með því tel ég, að nútíma atvinnuhættir hafi haldið innreið sína hér á landi.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. ræddi allmikið um það í framhaldi af þeim orðaskiptum, sem áttu sér stað milli hans og hæstv. viðskmrh. við 1. umr. þessa máls út af olíusamningnum, að þessir samningar væru ekki sambærilegir. Að vísu mundi ég vilja lita þannig á, að álsamningurinn sé líka viðskiptasamningur, en það er nú e.t.v. meira deila um form. Að öðru leyti gerði ég ekki neinn samanburð á álsamningnum og olíusamningnum. Það má auðvitað finna margt, sem frábrugðið er í þessum samningum. Í tæknilegum skilningi er olía annað en rafmagn og fram eftir þeim götum. En það snertir að mínu áliti ekki það, sem ég tel aðalatriði þess máls, nefnilega að með olíusamningnum var gefið fordæmi fyrir því, að íslenzk stjórnarvöld sættu sig við gerðardóm í hugsanlegri deilu víð erlendan aðila, sem í þessu sambandi ber að skoða sem einkaaðila.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. talaði talsvert um það, að álsamningurinn og sá samningur, sem hér er um að ræða, væru ekki sambærilegir, vegna þess að í þeim samningi, sem hér liggur fyrir, sé það frjálst í hverju tilviki, hvort málinu er vísað til gerðardóms eða ekki. Og það er alveg rétt, að samningurinn skuldbindur auðvitað ekki aðildarríkin til þess að vísa ákveðnum málum til gerðardóms. Ég skildi það þannig, að hann hugsaði sér, að það eina viðunandi í þessu máli væri, að það væri fyrst ákveðið, þegar deila kæmi upp, til hvaða dómstóls skyldi skjóta ágreiningnum. En það tel ég, að hljóti alltaf að vera mjög óraunhæf vinnubrögð, þegar samningar eru gerðir. Hvort sem þeir eru gerðir yfir skemmri eða lengri tíma, er auðvitað eðlilegt, að um það sé samið í eitt skipti fyrir öll, hvernig skuli skera úr þeim ágreiningi, sem rísa kann í sambandi við þessa samninga, og þannig hefur íslenzka ríkið samið um í olíusamningnum, að svo lengi sem hann gildir, þá er samkomulag um það, að þessi sovézki dómstóll, sem hér hefur borið á góma, skeri úr ágreiningi, sem upp kann að koma. Og ég tel víst, að það, sem fyrir Alþjóðabankanum hefur vakað með því að beita sér fyrir þeim alþjóðasamningi, sem hér liggur fyrir, sé, að þegar einkafjárfesting ætti sér stað í einhverjum löndum, þá yrði um það samið varðandi þann samning, að hann yrði úrskurðaður af þeim gerðardómstól. sem gert er hér ráð fyrir. Annað finnst mér, að hlyti að verða algerlega óraunhæf vinnubrögð. Ég man nú satt að segja ekki eftir því að hafa haft það eftir hv. 3. þm. Norðurl. v., að álsamningurinn fari í bága við stjórnarskrána. Hafi ég sagt það, þá er það á einhverjum misskilningi eða mismælum byggt. Ég kannast ekki við, að ég hafi heyrt hv. þm. fara með það, svo að hér held ég, að sé um einhvern misskilning að ræða.

Að lokum vildi ég aðeins minnast á það, sem hv. þm. ræddi um Efnahagsbandalagið að gefnu tilefni í framsöguræðu minni. Auðvitað er margt mjög ólíkt með álsamningnum, þeim samningi, sem hér liggur fyrir, og Efnahagsbandalaginu. En það, sem fyrir mér vakti með því að nefna Efnahagsbandalagið í þessu sambandi, var það, — og það skildist mér nú, að hv. 3. þm. Norðurl. v. í rauninni féllist á, — að sú skerðing í fyrsta lagi á löggjafavaldi og á dómsvaldi, sem þau ríki gangast undir, sem aðilar voru að Efnahagsbandalaginu, getur ekki á nokkurn hátt verið sambærileg við þá skerðingu, ef þannig á að orða það, sem gengizt er undir með álsamningnum. Það var ástæðan til þess, að ég nefndi þetta, því að það getur ekki verið neitt álitamál, að þessi skerðing var auðvitað miklu víðtækari, þar sem um Efnahagsbandalagið var að ræða, fyrir utan það, að Rómarsáttmálinn var óuppsegjanlegur. Það var þetta, sem fyrir mér vakti. Hitt er auðvitað rétt, að það var samningur á milli ríkja, en ekki ríkis og einkaaðila. En eins og ég minntist á í framsöguræðu minni, þá finnst mér það að leggja ákaflega mikið upp úr því vera að hengja sig meira í formsatriði en hagkvæmt er. Annað mál er það, að það er einmitt ástæðan fyrir því, að til þessa samnings hefur verið stofnað, að það hefur verið vöntun á því, að sú þjónusta á alþjóðagrundveili væri fyrir hendi, sem samningurinn gerir ráð fyrir að veitt sé.

Síðast vildi ég aðeins minnast á það, að hv. 3. þm. Norðurl. v. gagnrýndi fráganginn á þessum samningi. Ég verð að játa það fyrir hönd allshn., að við höfum ekki farið gaumgæfilega yfir þýðinguna. Það gefur auga leið, að Alþingi getur auðvitað ekki breytt hinum enska texta samningsins, og það má vel vera, að íslenzka þýðingin sé í einstökum atriðum ónákvæm. En eins og oft vill verða, þegar mál eru lögð fyrir þing á síðustu dögum þess, þá vinnst blátt áfram ekki tími til tæknilegra atriða eins og þeirra að endurskoða þýðingar og þess háttar. Í því efni verður að treysta á sérfræðingana. En þó að um ónákvæmni í þýðingu kunni að vera að ræða, þá held ég, að hægt sé að bæta úr því, þó að það sé ekki gert hér á hv. Alþ., en það finnst mér meira aukaatriði.