09.11.1965
Efri deild: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er ekki margt, sem komið hefur fram við þessa 2. umr. málsins, sem ekki var þegar ljóst við 1. umr. þess, og af þeim ástæðum ekki sérstök ástæða til að lengja umr. um málið nú.

Ég vil aðeins í sambandi við lokaorð hv. frsm. 2. minni hl. varðandi síðustu till. hans á þskj. 72 taka það fram, sem ég áðan sagði, að ég tel, að till. sé þess eðlis, að það sé eðlilegt, að n. athugi nánar um, hvort hún stenzt við venjulega meðferð mála hér og hvort hún geti staðizt í reynd, — eðlilegt, að n. íhugi það mál á síðari stigum málsins. Ég sé hins vegar ekki sérstaka ástæðu til, samkv. ósk hv. frsm. 2. minni hl., að umr. sem slíkri sé frestað. Ég sé ekki annað en það sé í lófa lagið, að hann dragi þá till. til baka til 3. umr. og n. athugi þessa till. milli umr., en skal að öðru leyti ekki frekar skipta mér af þessari málmeðferð.

Hv. frsm. 1. minni hl. n., hv. 9. þm. Reykv. (AG), lagði nú, sem og við fyrri umr. málsins, mikla áherzlu á það í sambandi við það, að láglaunafólk í verkalýðsfélögum skuli hafa forkaupsrétt að þeim íbúðum, sem frá greindi í 3. gr. frv., þá sagði hann, að það væri mikill meiningarmunur á því, hvort í lögunum stæði, að húsnæðismálastjórn væri heimilt að lána allt að því hundraðshlutfalli, sem þar er gert ráð fyrir, eða hvort rétturinn væri skýlaus. Ég vil aðeins í þessu sambandi minna á það, að það hefur oft komið fyrir í starfssögu húsnæðismálastjórnar, að ýmsir aðilar, þó að þess séu ekki mörg dæmi, hafa ekki óskað eftir fullu hámarksláni, en samkv. því orðalagi, sem hv. þm. vill hafa á þessu, skal þeim veitt hámarkslán, hvort sem þeir sækja um það eða sækja ekki. (Gripið fram í.) Þeir eiga þann skýlausa rétt eins og er, það er skýlaus réttur til. Ég gat um það í framsöguræðu minni fyrir málinu hér við 1. umr., að það væri alls ekki hugmynd neinna aðila, sem að frv. stæði, að skerða það samkomulag á einn eða annan hátt, sem gert var við verkalýðsfélögin á s.l. sumri, og ég tel, að það standi óhaggað enn, og tel, að ég hafi gert nægilega grein fyrir því þá. Þetta er aðeins spurning um lagalegt form, en ekki neinn meiningarmunur, og ég mótmæli því eindregið, að það sé nokkur meiningarmunur að baki þessu orðalagi.

Báðir minni hl. hv. heilbr.- og félmn. eru sammála um að mótmæla hækkun á fasteignamati til fasteignaskatts, eins og gert er ráð fyrir, úr þreföldun í sexföldun og telja, að það sé mjög óeðlilegt, að teknanna sé í fyrsta lagi aflað á þennan hátt, Alþingi hefur einu sinni ákveðið þá reglu með því lagaákvæði frá því í fyrra, og telja í öðru lagi, að fyrir því sé engin trygging, að það geti aflað þeirra viðbótartekna, sem talið er nauðsynlegt, frá því, sem skatturinn hefur sýnt sig að gefa þá mánuði, sem reynsla er af því fengin. Það er alveg rétt hermt, að hér er um áætlun að ræða, eins og reyndar allar fjárhagsáætlanir ríkisins og bæjarfélaga, og verður ekki nákvæmlega séð upp á krónu eða þús. kr., hver árangur verður af skattlagningu hverju sinni. Hins vegar er það staðreynd, að þessi skattur sýnir sig að gefa ekki á þessu ári yfir 16–19 millj. kr., og var honum þó ætlað að gefa allt að 40 millj. kr. samkv. þeim athugunum, sem gerðar voru í fyrra. Ég skal ekki dæma um þá athugun, sem á því fór fram þá, en augljóst er, að þarna er verulegra viðbótartekna þörf, og ber því að óska eftir því, að jafnframt því sem menn mótmæla því, að þessi aðferð sé farin til tekjuöflunar fyrir húsnæðismálastjórn, þá sé jafnframt bent á aðra leið, sem heppilegri sé og jafntrygg fyrir því, að þetta fjármagn fáist til ráðstöfunar. Það hefur ekki verið gert, og meðan verður að taka mótmælum út af þessu ákvæði frv. með hæfilegri varúð.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK), frsm. 2. minni hl. n., lagði á það mikla áherzlu í ræðu sinni, að ríkisstj. hefði látið kúga sig til aðgerða í húsnæðismálum, sem hún hefði neitað á síðasta Alþingi, af utanþingsaðilum og að í hættu væri þingræðið í landinu, og jafnvel minntist hann á orð eins og afnám þingræðisins. Ég var sannast sagna ofur lítið hissa á þessari fullyrðingu hins gamalreynda þm. og ágæta vinar míns, því að ég veit ekki betur en við höfum báðir af öðrum aðila legið undir ásökunum um það að taka tillit til utanþingsaðila fyrr á árum og þá undir svipuðum upphrópunum og hér voru hafðar. Ég minni í því sambandi aðeins á störf hinnar margnefndu 19 manna n. á dögum vinstri stjórnarinnar. Það var ekkert ágreiningsmál á milli okkar, mín og hv. 1. þm. Norðurl. e., að taka fullt tillit til þessarar n. og þeirra starfa, sem hún vann fyrir þá ríkisstj., þó að ekki væru í henni þm., nema að örlitlu leyti. En það vil ég þó segja því til stuðnings, sem nú er fundið ríkisstjórninni til foráttu, að hún tekur hliðsjón af þeim loforðum, sem hún gefur utanþingsaðilum, og mismunurinn liggur í því að fara eftir því samkomulagi, sem þar var gert, og þeim till., sem hv. þm. Framsfl. fluttu hér á síðasta þingi, að þar var jafnframt samið um tekjuáætlunina, tekjuhlið málsins. Það er ekki einhlítt að bera fram frómar óskir, hvernig menn vilja hafa hluti í landinu, sem kostar peninga að framkvæma, ef ekki er jafnframt fyrir því séð, að þessara tekna sé aflað. En í þessu samkomulagi, ásamt því samkomulagi, sem gert var í júní 1964, var séð fyrir þeim tekjum, sem gerðu þessar ráðstafanir mögulegar. Það er mismunurinn á þeim till. og því samkomulagi, sem þar var gert, og till. hv. framsóknarmanna.

Ég læt svo að öðru leyti útrætt um einstök atriði í framsöguræðum hv. frsm. minni hl. n., en fagna því, sem er höfuðatriði málsins, að meginefni frv. eru þeir samþykkir. Hvort þeir hafi áður flutt till. um einstök atriði frv., sem hafi farið í sömu átt og hér um ræðir og eru undirstaðan undir þessari samstöðu þeirra um meginefni frv., það skal ég ósagt láta.

Hitt er engum vafa undirorpið, að með þeim breyt., sem í þessu frv. felast, er stórkostlegt spor stigið í réttlætisátt í þessum málum og til fullnægingar þeim óskum, sem uppi hafa verið hér á undanförnum árum til úrlausnar þessum vanda. Það er að sjálfsögðu ekkert lokaspor í þeim atriðum. Hér er um lög að ræða, sem með stuttu millibili er brýn nauðsyn á að verði endurskoðuð, ekki sízt með hliðsjón af breyttu verðlagi, og ef vinnast á í áttina að settu marki um lausn á þessum málum, þá er, eins og ég áðan sagði, brýn nauðsyn, að endurskoðun fari fram á l. og einstökum atriðum þeirra með hæfilegu millibili.

Ég hygg, að þrátt fyrir ágreining um einstök atriði málsins, þá sé það sannmæli, sem fram hefur komið í framsöguræðum allra hv. n., sem til sín hafa látið heyra um málið, að það sé einlægur vilji Alþingis, að þarna verði svo að unnið sem frekast er kostur á og efnahagur þjóðarinnar framast leyfir. Það er ekkert álitamál og reyndar löngu viðurkennt af öllum þeim, sem hafa viljað skoða efnahagsmál þjóðarinnar ofan í kjölinn, að hér er eitt viðkvæmasta atriðið og mikilsvert, að sem bezt lausn fáist á. Endanleg lausn verður ef til vill aldrei á þessu vandamáli fundin, en hverju spori í þá átt ber vissulega að fagna.