09.11.1965
Efri deild: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Frsm. 1. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir í sumar, að þeir láglaunamenn verkalýðsfélaganna, sem hlytu íbúðir sveitarfélaga; skyldu eiga rétt á 80% láni. Í frv. stendur hins vegar, að húsnæðismálastjórn sé heimilt að veita þessum mönnum 80% lán. Hér er greinilega meiningarmunur, þótt hæstv. félmrh. komi ekki auga á hann eða vilji ekki viðurkenna hann. Hins vegar þegar þetta kom til umr. í hv. heilbr.- og félmn., viðurkenndi hv. frsm. meiri hl, þennan mun. Hann gaf á honum sínar skýringar að vísu, sem voru á þá leið, að upprunalega hefði verið gert ráð fyrir Reykjavíkurborg einni sem aðila að þessu ákvæði í l., en síðar hefði verið horfið að því ráði að láta þetta gilda um öll sveitarfélög. Út frá þessari breyt. taldi hann þessa breyt. á orðalagi eðlilega. Ég get að vísu ekki fallizt á það heldur, en þessi hv. þm. viðurkenndi þó, að hér væri um meiningarmun að ræða, eins og það greinilega er og sést augljóslega við samanburð.

Ég vil taka undir tilmæli hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK), tilmæli til hæstv. forseta um að fresta þessari umr. og gefa bæði hv. heilbr.- og félmn. og hv. þdm. tækifæri til að athuga málið eilítið nánar. Ég vil jafnframt mælast til þess við hæstv. félmrh., að hann láti hv. þd. í té reikningslegan rökstuðning fyrir hækkun eignarskattsins, sem ráðgerð er í 2. gr. frv. Ég tel, að sérstaklega hv. heilbr.- og félmn. og einnig hv. þdm. eigi fulla siðferðilega kröfu eða rétt á því að fá slíkan útreikning í hendur, áður en ætlazt er til, að þeir samþykki þessa miklu hækkun.