21.03.1966
Efri deild: 53. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

127. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar aðallega um breyt. á tveim atriðum í gildandi umferðarlögum. Hið fyrra í 1. gr. frv. er um útgáfu ökuskírteina. Aðalreglan í gildandi umferðarlögum er sú, að ökuskírteini gildir í 5 ár frá útgáfudegi. Frv. gerir ráð fyrir, að þessu verði breytt á þá lund, að ökuskírtelni verði tvenns konar, bráðabirgðaskírteini og fullnaðarskírteini, sem gildi í 5 ár. Bráðabirgðaskírteini sé gefið út til byrjenda og gildi í eitt ár frá útgáfudegi. Að liðnu því ári getur skírteinishafi fengið fullnaðarskírteini. Áður en það er gefið út, skal þó rannsaka ökumannsferil hlutaðeiganda, og þyki ástæða til, má láta hann taka próf í akstri og umferðarreglum á nýjan leik og sæta rannsókn lækna um líkamlega og andlega heilbrigði.

Því er oft haldið fram og vafalaust með fullum rökum, að ungum mönnum, sem nýlega hafa fengið ökuréttindi, hættir við að aka óvarlega. Þá skortir reynslu í akstri, og þeir gera sér stundum ekki grein fyrir, hvenær varúðar er þörf. Er því algengt, að ökuóhöpp hendi unga menn, sem hafa nýlega fengið ökuréttindi. Ætla má, að fyrirkomulag það, sem gert er ráð fyrir í frv., geti í mörgum tilfellum orðið ungum mönnum hvöt til þess að aka varlegar en ella, ef þeir eiga það á hættu að þurfa að taka ökumannspróf að ári liðnu, ef eitthvað hefur út af borið með akstur þeirra, og vera jafnvel synjað þá um ökuskírteini.

Hið síðara meginatriði, sem frv. fjallar um, er í 2. mgr. 2. gr. um breytingu á reglum þeim, sem fjalla um heimild lögreglustjóra til þess að svipta menn ökuleyfi til bráðabirgða. Samkv. lögum þeim, er nú gilda, skal ákvörðun lögreglustjóra um að svipta mann ökuleyfi til bráðabirgða borin undir úrskurð dómara svo fljótt sem við verður komið og eigi síðar en viku eftir sviptingu. Frv. gerir ráð fyrir, að þessu verði breytt á þann veg, að lögreglustjóri skuli tilkynna dómara innan viku ákvörðun sína um ökuleyfissviptingu. Aðili geti sjálfur krafizt úrskurðar dómara um sviptinguna og dómari geti einnig af sjálfsdáðum, ef honum sýnast efni standa til, fellt niður ákvörðun lögreglustjórans.

Í fyrri mgr. 2. gr. frv. er nýtt ákvæði til samræmis við frv. til l. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála, sem samþ. var í hv. d. fyrir nokkru og nú er til meðferðar 1 Nd. Ræði ég það atriði ekki frekar, enda mun hv. dm. það í fersku minni.

Allshn. hefur fjallað um frv. á nokkrum fundum og fellst á að mæla með samþykkt þess. Jafnframt leggur n. til, að breyting verði gerð um enn eitt atriði umferðarl., eins og fram kemur á þskj. 324. Þessar brtt. eru fluttar að tilmælum dómsmrn. og eru að efni til um reglur þær, sem nú gilda um reiðhjól með hjálparvél.

Í 1. gr. umferðari. er reiðhjól með hjálparvél

skilgreint þannig: „Reiðhjól með hjálparvél: Sérhvert reiðhjól, sem í er aflvél minni en 1 hestafl, þó ekki yfir 50 rúmcm strokkrúmmál og ekki yfir 50 kg að þyngd.“ Lagt er til í till. n., að liðurinn orðist svo: „Létt bifhjól: Bifhjól, sem í er aflvél eigi stærri en 2.5 hestöfl og ekki yfir 50 rúmcm að slagrúmmáli, enda sé það eigi gert til hraðari aksturs en 50 km á klst. án verulegra breytinga á því.“

Ástæður fyrir brtt. hygg ég, að auðveldast sé að skýra með því að lesa upp meginhluta af grg. umferðarlagan. um málið, en frá þeirri n. eru till. þessar runnar, og eins og ég gat um áðan, hefur dómsmrn. komið þeim á framfæri við allshn. Grg. umferðarlagan. eða sá hluti hennar, sem hér skiptir máli, hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á undanförnum árum hefur þróunin orðið sú, að naumast munu fáanleg reiðhjól með hjálparvél, sem falla undir skilgreiningu umferðarl. Breytingin er sú, að hestorkutala tækjanna hefur vaxið og þyngd þeirra aukizt. Hins vegar er yfirleitt miðað við óbreytt slagrúmmál aflvélar ökutækjanna. Þrátt fyrir það, að þessi ökutæki falli eigi undir skilgreiningu umferðarl., voru fjölmörg þeirra þó skráð sem reiðhjól með hjálparvél allt fram á árið 1963. Þótti þá eigi lengur fært að halda slíkri skráningu áfram, enda höfðu þá verið skráð sem reiðhjól með hjálparvél nokkur ökutæki, sem ekki þótti rétt að leyfa unglingum innan 17 ára aldurs að nota. Í upphafi árs 1964 voru þó skráð þau ökutæki, sem flutt höfðu verið til landsins eða pöntuð, þegar fyrirmæli um stöðvun á skráningu voru gefin. Síðan má heita, að ekki hafi verið flutt til landsins ökutæki, sem falla undir skilgreiningu umferðarlaganna um reiðhjól með hjálparvél. Fullyrða má, að reynsla af notkun þeirra tækja, sem skráð voru á árinu 1964, hafi gefið góða raun. Eru þau að jafnaði traustari en hin eldri tæki, endingarbetri og hagkvæmari í viðhaldi. Þá veldur aukinn þungi þeirra því, að meira öryggi fæst í akstri. Ökutæki þessi eru mikið notuð af unglingum, sem eigi hafa öðlazt aldur til að aka bifhjólum eða bifreiðum. Þau eru ódýr í rekstri og notuð jöfnum höndum í tómstundum eða við ýmiss konar störf. Þeir, sem fást við uppeldismál unglinga, fullyrða, að við akstur slíkra hjóla fáist góður undirbúningur að akstri stærri og þyngri ökutækja. Hafa þessir aðilar lagt til, að breytt verði ákvæðum umferðarlaga þannig, að heimild verði veitt til þess að skrá stærri ökutæki en nú sem reiðhjól með hjálparvél. Að athuguðu máli telur umferðarlaganefnd rétt að leggja til, að reiðhjól með hjálparvél verði talið sérhvert reiðhjól. sem í er aflvél eigi stærri en 2 1/2 hestafl og ekki yfir 50 rúmcm að slagrúmmáli, enda sé hjólið eigi gert til hraðari aksturs en 50 km á klst. án verulegra breytinga á því. Till. þessar eru í samræmi við norskar reglur, enda er landslag og vegir í Noregi ekki ósvipað og hér á landi.

Eins og getið er hér að framan, er hér í raun og veru um sérstaka gerð bifhjóla að ræða. Heiti það, sem notað hefur verið um ökutæki þessi, reiðhjól með hjálparvél, er hins vegar eigi réttnefni lengur, þar sem þau verða eigi knúin áfram eins og venjuleg reiðhjól, heldur eru þau að öllu háð aflvél, sem í þeim er. Er því lagt til, að tekið verði upp heitið „létt bifhjól“ um ökutæki þessi.

Nái þessi breyting fram að ganga, telur n. rétt, að hert verði á þeim kröfum, sem gerðar eru til kunnáttu og hæfni þeirra, sem heimild hljóta til að aka léttum bifhjólum. Eiga ákvæðin um það efni heima í reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., nr. 57 1960.“

Þetta var úr grg. umferðarlaganefndar. Allshn. hefur á þetta fallizt, eins og fram kemur á þskj. 323 og 324. Þess ber þó að geta, að tveir nm., þeir hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 1. þm. Vestf., voru ekki viðstaddir, þegar n. afgreiddi málið.