28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

127. mál, umferðarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er ekki langt síðan hámarkshraði var aukinn upp í 70 km, og enn liggur fyrir till. um heimild handa dómsmrh. að auka hann meir. Að vísu á þetta að gilda á hraðbrautum eða þar sem vegir eru góðir. En ég vil vara við svona breytingum á ökuhraðanum. Mönnum finnst kannske, að það sé ekki mikil hætta á ferðum að auka hann úr 70 upp í 80 eða kannske 90 km á vegi eins og Reykjanesbraut. En ég held, að reynslan sé sú, að slysin verða jafnvel mest, þar sem vegirnir eru beztir, og að sá hraði, sem nú er í lögum ákveðinn, 70 km, sé ærið nógur og af auknum hraða geti jafnvel enn aukizt slysahættan. Það er ekki langt síðan slys varð á hinni nýju Reykjanesbraut og það mjög alvarlegt, og auðvitað er tiltölulega mestur hluti allra slysa fyrir of hraðan akstur. Ég held, að Alþ. ætti að fara varlega í það að vera að auka þennan hraða. Og hvað er unnið við þetta? Það kann að vera, að menn verði örfáum mínútum fljótari suður í Keflavík með þessu móti, og munar þó sáralitlu. En hættan eykst, og ég vil alvarlega vara við þessu, að það sé látið undan kröfum um að auka enn hraðann. Það er að vísu sagt, að þetta eigi að vera á vissum tímum árs, og þar mun vera átt við sumarið, þegar ekki eru frost a.m.k. venjulega og ekki hætt við klaka, þá verði þetta leyft, en ekki á öðrum tímum árs. En frost geta komið að sumrinu, ísing getur komið að sumrinu á þennan veg, og þá er hann stórhættulegur. Mér finnst ávinningurinn við þetta nauðaómerkilegur, en hættan ákaflega mikil. og ég mun því ekki greiða atkv. með þessari tillögu.