09.11.1965
Efri deild: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Frsm. meiri hl. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þarf reyndar ekki að ræða mikið um þetta mál í framhaldi af því, sem ég sagði í ræðu minni áðan. Mér þykir samt rétt aðeins að víkja að nokkrum atriðum, sem fram hafa komið.

Hér hefur verið rætt nokkuð um Alþ. og vald þess og gerður nokkur samanburður í því sambandi á núv. ríkisstj. og vinstri stjórninni. Ég ætla ekki að blanda mér í þau mál. Þar hafa deilt þeir, sem betur þekkja, hvernig vinstri stjórnin stóð í þessu tilliti. En þó verð ég að segja, að ég er algerlega sammála hæstv. félmrh. um það, að hlutur núv. ríkisstj. er betri í þessum efnum eins og öðrum.

En ummæli hv. 1. þm. Norðurl. e. gæfu vissulega tilefni til þess að ræða þessi mál nokkuð ýtarlegs. Það tíðkast nú mjög, að stjórnmálaflokkarnir haldi því fram, að þeir vilji og telji rétt að hafa góða samvinnu við almannasamtök í landinu. Ég hef ekki orðið var við annað en flokkur hv. 1. þm. Norðurl. e. telji sig ekki eftirbát í þessu efni. Það mætti þess vegna spyrja í tilefni þess, sem hann sagði um yfirlýsingu ríkisstj. í júlí s.l., með hverjum hætti hann teldi, að stjórnmálaflokkarnir eða ríkisstj. á hverjum tíma ætti að hafa samvinnu við almannasamtökin í landinu, ef sú samvinna á að vera hneykslunarefni, sem ríkisstj. hafði við verkalýðssamtökin í sambandi við kaupgjaldsdeilurnar á s.l. sumri. Ég get ekki séð, að það sé nokkuð athugavert við það. En hv. þm. bregður sér á bak við það, að sumt hafi verið ákveðið í sumar, sem ekki mátti ákveða í fyrra. En hvað sannar það? Dettur einhverjum í hug, að hlutirnir séu svo óbreytilegir, að það megi ekki gera eitthvað á þessu þingi, sem ekki kann að hafa verið tímabært að gera á síðasta þingi? Nei, þetta getur enginn látið sér koma til hugar og haldið fram í hreinni alvöru. En ég hygg, að sígilt dæmi um það, hvernig ekki á að vera samband ríkisstj. og verkalýðssamtakanna og hvernig slíkt samband getur vanvirt Alþ., sé, þegar hæstv. þáv. forsrh., forsrh. vinstri stjórnarinnar, fór á fund alþýðusamtakanna í árslok 1958, en gekk bónleiður til búðar og sagði af sér. Þá er virkilega farið að færa vald Alþ. út fyrir sali þess, þegar slíkir hlutir gerast. En að ætla að halda því fram, að það sé vanvirða við Alþ., þó að ríkisstj. á hverjum tíma hafi eðlilegt samband og eðlilega samvinnu við verkalýðssamtökin í landinu, það fær ekki staðizt.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. vék nokkuð að margföldun fasteignamatsins. Ég hef ekki miklu þar við að bæta. Hæstv. félmrh. hefur svarað því, sem kom fram hjá hv. þm. En hann sagði, að hann eða þeir framsóknarmenn hefðu komið með till. eða hugmynd um það, hvernig ætti að afla fjár til íbúðalána með öðrum hætti. Og það er góðra gjalda vert. Og ég viðurkenni það og kemur ekki til hugar að halda öðru fram, að það er náttúrlega mikið matsatriði, hvað er heppilegasta og bezta leiðin til þess að afla þessa fjár. En hitt er það, að mér finnst þetta að vissu leyti ekki óeðlilegt, þegar haft er í huga, hvernig aflað er fjár til stofnlánadeildar landbúnaðarins. Stofnlánadeild landbúnaðarins á að veita íbúðalán í sveitum. Fjár til þeirra þarfa er aflað með sérstökum hætti, og það eru lagðar sérstakar kvaðir á bændur í þeim tilgangi. Með margföldun fasteignamatsins og gildandi lagaákvæðum um það efni frá síðasta ári er aflað fjár til íbúðarlána húsnæðismálastjórnar, sem ekki eru veitt til bænda. En í gildandi l. er gert ráð fyrir því, að þessa fjár sé ekki aflað hjá bændum, heldur hjá því fólki, sem getur notið góðs af lánveitingum þessa sjóðs. Ég fyrir mitt leyti tel, að það sé ekkert ósamræmi eða óeðlilegt við að hafa þessa skipan á. En mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar sjálfskipaðir forsvarsmenn bænda eru að ráðast sérstaklega á þessa tilhögun og leggja til, að á sama tíma sem bændur eru sérstaklega látnir standa undir fjáröflun til þeirra lánasjóða, sé allur almenningur í landinu, bændur líka, látinn standa undir fjáröflun til þess lánasjóðs, sem ekki nær til bænda. En hv. þm. getur haft sínar skoðanir á þessu, og ég skal ekki fjölyrða frekar um það.

Þá vil ég aðeins víkja að einu atriði, sem hv. 9. þm. Reykv. ræddi um. Hann hélt því fram, að það væri ósamræmi milli yfirlýsingar ríkisstj. og frv., þar sem í yfirlýsingu ríkisstj. væri sagt, að þeir, sem kaupa þær íbúðir, sem reistar eru samkv. þeim ákvæðum, sem hér um ræðir, skuli eiga kost á allt að 80% láni, en í frv. segir, að það skuli heimilt að veita meðlimum verkalýðsfélaga lán til kaupa á þessum íbúðum, sem nemi 4/5 hlutum eða 80%. Ég held, að það sé gersamlega óþarft að deila um þetta atriði, vegna þess að það liggur fyrir yfirlýsing hæstv. félmrh. um það, að þeir menn, sem kaupa þær íbúðir, sem gert er ráð fyrir í yfirlýsingu ríkisstj., geta fengið 80% lán. En það verður að hafa í huga, þegar um þetta er rætt, að ákvæði frv. eru almenns eðlis um þetta efni, en yfirlýsing ríkisstj. á einungis við tiltekinn fjölda íbúða, sem ríkisstj. stendur að í samvinnu við Reykjavíkurborg. Yfirlýsingin nær ekki yfir annað. Ég verð að viðurkenna það, að mér hefði ekki þótt yfirlýsingin nægilega góð, ef ekki hefði komið meira til, því að ég sé ekki annað en það geti verið víðs vegar um landið fullkomin ástæða til þess að gera svipuð átök af hálfu hins opinbera. En yfirlýsing ríkisstj. fjallar ekki um það. Hins vegar gerir frv. ríkisstj. betur. Í því eru almenn ákvæði, sem hægt er að beita um allt land. Þau ákvæði frv. eru ekki staðbundin eða miðuð við neinar sérstakar íbúðir. En þegar svo almenn ákvæði eru, hygg ég, að flestir sanngjarnir menn sjái, að það verður að taka sérstakar ákvarðanir um það, hvort á að beita þessum almennu heimildum, sem ríkisstj. hefur samkv. þessu frv. Það verður að taka ákvörðun um það, hvort á að gera t.d. slíkt á Akureyri eða Ísafirði o.s.frv., og það þarf sérstakt fjármagn til þess að gera slíka hluti. Það er ekki dæmi til þess í nokkrum l. og ekki dæmi til þess, að nokkur ríkisstj. hafi borið fram frv. um svo alhliða og víðtæka skyldu á hendur ríkissjóði, að það ætti að vera fortakslaust, að hvar sem mönnum dytti í hug að beita þessum ákvæðum, þar ætti það að vera gert og ríkissjóður að tryggja fjármagn til þeirra hluta. Þetta verður að sjálfsögðu að taka ákvörðun um í hverju einstöku tilfelli. Ef farið er að því ráði að binda orðalag yfirlýsingar ríkisstj. inn í frv., er það að mínu viti spor aftur á bak frá því, sem nú er, vegna þess að þá værum við búnir að binda ákvæði frv. aðeins við tiltekinn fjölda íbúða í Reykjavík. En eins og frv. er, gefur það ríkisstj. almenna heimild, sem hlýtur að gilda um landið allt og að mínu viti á að nota, þar sem sérstakar ástæður mæla með.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í fleiri atriði, sem hér hefur borið á góma, en ítreka það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að ég vona, að frv. fái góða og skjóta afgreiðslu í deildinni.