15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þessi endurskoðun l. um vernd barna og ungmenna á sér þegar nokkra sögu, bæði hér á þingi og utan þings. Endurskoðunin var upphaflega gerð af allfjölmennri n., sem menntmrn. skipaði til þess verks. Frv., sem sú n. skilaði, var flutt á þingi haustið 1964. Það hlaut mjög ýtarlega meðferð í menntmn. Nd. og var afgr. út úr d. snemma árs 1965. Nokkrir kaflar l. voru þar teknir sérstaklega til meðferðar, og var kaflinn um vinnu barna og unglinga líklega þar veigamestur. Málið var afgr. út úr þessari hv. d., en stöðvaðist í Ed. og náði ekki fram að ganga.

Ég hygg, að allir hafi verið sammála um, að í þessu endurskoðaða frv. hafi verið og sé enn mjög mikið af nauðsynlegum og merkum breytingum varðandi barnavernd á Íslandi, en aðalágreiningur um frv. hafi verið um kaflann um vinnu barna og unglinga og hans vegna hafi málið stöðvazt. Menntmrn. skipaði því 5 þm. úr menntmn. beggja d. til þess að fara yfir frv. s.l. sumar á milli þinga og freista þess að ná samkomulagi um þau mál, sem helzt var deilt um. Þessi n. gerði enn allmiklar breytingar á frv., sérstaklega á 39. gr., en þar náðist ekki samkomulag um gr. um vinnu barna og unglinga. Þá gerðust þau tíðindi, að samkv. viðræðum milli forseta A.S.Í. og ríkisstj. var ákveðið að taka þetta atriði, um vinnuvernd barna og unglinga, og fá annarri n. það til meðferðar. Þess vegna var frv. nú á þessu þingi flutt eins og þm.-nefndin síðast gekk frá því s.l. haust og með 41, gr., sem er um vinnu barna og unglinga, eins og hún stendur í núgildandi l., miðað við, að sú gr. verði tekin til endurskoðunar á öðrum vettvangi.

Menntmn. hefur fjallað um málið. Henni bárust nokkrar ábendingar frá menntmrn. varðandi 39. gr., sem n. þó taldi ekki gefa ástæðu til beinna lagabreytinga. Það stendur í gr., að kostnaður við tilteknar uppeldisstofnanir skuli vera samkv. fræðslulögum. Þó að ákvæði um greiðslu skólakostnaðar kunni að einhverju eða öllu leyti að vera í öðrum l., hygg ég, að það valdi engum misskilningi. Og annað ákvæði er sambærilegt, þannig að okkar skoðun á því var, að ekki væri ástæða til breytinga.

Menntmn. varð sammála um að mæla með samþykkt frv., eins og það nú liggur fyrir eftir þessa meðferð s.l. vetur og á milli þinga, þó þannig, að í n. er enn ekkert samkomulag um 41. gr. Hún afgreiðir málið frá sér á þann hátt, að nm. hafa algerlega frjálsar hendur um afstöðu til þeirrar gr. eða till., sem kunna að koma fram um breytingar á henni. Þar að auki hafa 2 nm. gert almennan fyrirvara. Það eru þeir hv. 3. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Sunnl., en ég vil taka fram, að hvorugur þeirra var í þessari n. í fyrravetur og þeir hafa því ekki haft sömu aðstöðu og aðrir nm. til þess að kynnast frv. og efni þess jafnvel og aðrir. Ég hygg, að þetta mál liggi nú þannig fyrir, að samkomulag sé svo að segja um öll atriði þess nema þetta eina, um vinnu barna og unglinga, og þingið geti raunverulega ráðið því, hver framgangurinn verður, hvort það tekst nú að ná samkomulagi um 41. gr. á einhvern hátt eða hvort þingið vill fá fram aðrar breytingar, sem í frv. eru, og afgreiða það með 41. gr. nánast til málamynda í trausti þess, að hún sé í endurskoðun annars staðar. Þetta er það, sem við blasir. Um þessa gr. tekur menntmn. sem sagt enga afstöðu, en ég get getið þess fyrir sjálfan mig, að afstaða mín til þeirrar gr. er óbreytt frá því, sem var í fyrravetur, sú afstaða, sem varð ofan á og afgr. nálega andstöðulaust hér í þessari hv. deild.