09.11.1965
Efri deild: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um eitt atriði, sem hér hefur nokkuð borið á góma og ég a. m. k. vil gera hreint fyrir mínum dyrum með og vil ekki, að neinn misskilningur sé um afstöðu mína í því máli, og það er varðandi eignarskattinn. Ég vil strax taka það fram, sem reyndar hv. 9. þm. Reykv. gerði, og árétta það, sem hann sagði um það, að fyrir okkur Alþb.-mönnum er það síður en svo nokkurt trúaratriði, að ekki megi afla tekna, hvort heldur er til einstakra þarfa ríkissjóðs eða almennra, í sambandi við hækkun eignarskattsins. Og ég verð að segja það, að mér finnst það mjög koma til greina og ekki sízt í sambandi við mál eins og það, sem hér ræðir um. Það er vissulega ekkert óeðlilegt við það, þó að hækkun eignarskatts sé beitt í sambandi við úrbætur í húsnæðismálum. En ég vil þó jafnframt benda á, að það eru auðvitað til margar fleiri leiðir í þeim efnum að breyta eignarskattinum, hafa af honum meiri tekjur, en sú, sem hér er farin. Og ég tel það vera a. m. k. efni til miklu ýtarlegri athugana en hér hafa getað farið fram, hvort sú aðferð, sem hér á að beita, er í sjálfu sér sú eðlilegasta eða hvort aðrar koma þar frekar til greina.

En í þessu sambandi vil ég segja það, sem hér kom fram reyndar við 1. umr. málsins og mjög greinilega hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að um þetta mál hefði auðvitað átt að fjalla sérstaklega og í sambandi við almenna endurskoðun á l. um tekju- og eignarskatt. Og þeim mun meiri ástæða þykir mér til þess, að þetta væri gert, sem mér virðist, að hér sé beinlínis verið að fara bakdyramegin að því að afla ekki aðeins tekna til þess, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. til þess að geta fullnægt skuldbindingum í sambandi við húsnæðismálin, heldur til almennra tekjuþarfa ríkissjóðs. Og ég tel þess vegna, að þetta mál hefði hæstv. fjmrh. átt að flytja sem almenna breytingu á þeim l., því að það er alveg greinilegt, að hér er ekki aðeins verið að leysa þær tekjuþarfir upp á 40 millj., sem hér ræðir um, heldur einhverja upphæð. sem er áreiðanlega miklu hærri, og ég trúi því ekki, að það sé nokkur hér inni svo lítill reikningsmaður, að hann sjái það ekki, að sexföldun á eignarskattinum úr þreföldun gerir miklu meira en tvöfalda tekjurnar. Og strax má benda á þá einföldu ástæðu til þess, að frádráttarliðirnir í sambandi við það, sem lagt er til grundvallar eignarskatti, standa vitanlega í stað, en skalinn tvöfaldast. Mér þykir því ákaflega líklegt, að hér sé um a. m. k. þreföldun á þeirri upphæð að ræða. En það er að vísu alger ágizkun. Mér þykir líklegt, að það sé ekki of djúpt tekið í árinni, en það skal ég ekki fullyrða um nema að undangenginni frekari rannsókn, sem ég tel nauðsynlegt að fari fram, áður en þetta mál er afgreitt úr þessari hv. d. Það er a. m. k. augljóst, að með þessari breytingu bætast hundruð, ef ekki þúsundir af nýjum gjaldendum eignarskatts í hópinn. Og hverjir skyldu þeir verða, sem þarna bætast í hópinn? Það eru fyrst og fremst menn, sem eiga íbúð yfir höfuðið á sér og skulda ekki ákaflega mikinn hluta af henni. Hingað til held ég, að það hafi verið nokkurn veginn samdóma álit manna hér á hv. Alþ., að það bæri ekki að skattleggja menn stórkostlega fyrir það, þó að þeir ættu hóflega íbúð, hóflegt þak yfir höfuðið á sér. En það er greinilegt, að með þessari hækkun á eignarskatti er verið að fara út á þá braut. Þetta þarf vitanlega ekki að þýða, að það sé ófær leið og ósamrýmanleg þeirri stefnu að hækka eignarskattinn, því að það er hægt að gera með ýmsum öðrum hætti en þessum einfalda og tilviljanakennda hætti, sem hér er á ferðinni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri, en vil taka undir þau tilmæli, sem hér hafa komið fram um það, að umr. yrði frestað og ýmis atriði í sambandi við þetta yrðu athuguð frekar. Ég álít það að vísu ekki nauðsynlegt í sambandi við 3. till. hv. 2. minni hl. n., því að mér þykir alveg sýnilegt, að hún standist, þó að hún sé kannske lagatæknilega ekki miklu betri en sumt, sem kemur frá hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál. En ég tel þó alveg greinilegt, að það mundi standast og skiljast, sem meint er með þeim till. En ég tel ástæðu til þess af hv. þd. að krefjast þess af hæstv. fjmrh., að hann komi með áætlanir um það, hvað þessi tekjustofn gefi mikið, og komi með umsagnir manna, sem eitthvert mark er á takandi í þeim efnum, því að með allri virðingu fyrir hæstv. félmrh. tek ég ekki mark á því, sem hann gizkar á í þessum efnum.

Ég vil líka segja það í sambandi við þetta mál. að úr því að sjálf tekjuöflunin hefur verið tengd þeim samningi, sem gerður var á s.l. vori, og látið liggja að því, að A.S.Í. eða þeir, sem sömdu fyrir þess hönd um þessi mál á s.l. vori, hefðu verið út af fyrir sig ekki andvígir eignarskattinum, — ef á að tengja það að einhverju leyti saman, hefur mér líka þótt ástæða til þess, að það væri leitað umsagnar þess aðila um þetta atriði og hvort hann telur. að það sé í samræmi við anda samkomulagsins og tilganginn að fara þessa leið, sem hér er farin í sambandi við hækkun eignarskattsins, og hvort sá aðili telur hér eitthvert hóf á.