22.04.1966
Efri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. 9. þm. Reykv. (AG) vil ég aðeins undirstrika, að það er auðvitað ekki svo, að lagt sé til eða ætlazt sé til þess, að ágreiningur sá, sem varð á síðasta þingi um einstök atriði í lagaákvæðum um barna- og unglingavinnu, verði til þess, að engin ákvæði skuli vera í barnaverndarlögum um barna- og unglingavinnu. Það ber ekki svo að skilja, að það samkomulag, sem varð á milli forseta Alþýðusambands Íslands og forsrh. um það að fela vinnuverndarnefnd að fjalla m.a. um þann ágreining, sem komið hafði í ljós hér á hinu háa Alþingi um barna- og unglingavinnu, skyldi verða til þess að fella niður öll ákvæði um barna- og unglingavinnu úr barnaverndarlögum. Í frv., eins og það nú er flutt og komið til hv. Ed., eru ákvæði um þetta, eins og þau voru í upphaflega stjfrv., þ.e.a.s. eins og sérfræðinganefndin, sem upphaflega samdi frv., taldi þessi ákvæði eiga að vera og taldi algerlega fullnægjandi. Þau eru ýtarleg. Ég vitna til 41. gr. og vil leggja áherzlu á, að þeir sérfræðingar, sem frv. sömdu upphaflega á vegum menntmrn., töldu þau ákvæði vera algerlega fullnægjandi lagaákvæði til verndar börnum og unglingum gegn ofþjökun við vinnu.

Varðandi það, sem hv. þm. sagði um vernd gegn ofþjökun í skólum, tel ég raunar, að í skólalöggjöfinni séu alveg fullnægjandi ákvæði til þess að koma í veg fyrir slíkt, ef rökstudd ástæða virðist til þess að halda, að slíkt eigi sér stað. Ég er honum alveg sammála um, að rík ástæða er til þess að stemma stigu við slíku.

En erindi mitt hingað var aðeins að undirstrika, til þess að sá misskilningur gæti ekki komizt neins staðar að, að ríkisstj. hafi talið þann ágreining, sem upp kom, mega verða til þess að fella alveg niður úr barnaverndarlögum öll ákvæði um barna- og unglingavinnu. Það hefur okkur að sjálfsögðu aldrei dottið í hug, heldur teljum við rétt að halda sér við skoðun sérfræðinganna á þessu efni og láta ágreininginn, sem upp hefur komið um einstök framkvæmdaatriði, um skilning á lagabókstaf, ekki verða til þess að koma algerlega í veg fyrir setningu almennrar barnaverndarlöggjafar. Ég tel mjög sómasamlega séð fyrir þessum ákvæðum með 41. gr., eins og hún er, og teldi mikla bót að því yfirleitt fyrir þessi mál, ef frv. fengi að ná fram að ganga í því formi, sem það nú hefur á sér. Vinnuverndarnefndin mun hins vegar halda áfram að athuga þau einstök atriði, sem ágreiningur varð um á milli menntmn. hv. Nd. og hv. Ed., og væntanlega gera sínar till. um það á sínum tíma.