22.04.1966
Efri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það er allt rétt, sem hæstv. menntmrh. segir í sinni síðari ræðu. En þar fyrir stendur það óhaggað, að það hefur verið gefizt upp við það hér á Alþingi að koma ákvæðum um vinnuvernd barna í viðunandi horf. Þetta er staðreynd, og sönnunin fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hefur gefizt upp við þetta, er, að nú kastar hún öllum sínum áhyggjum í þessu efni upp á þá n., sem undirbýr almenna vinnuverndarlöggjöf í landinu. Það er eingöngu vegna þess, að það hefur verið gefizt upp við að ráða fram úr hlutunum í bili og hér.

Mig langar til að fræðast um það hjá hæstv. ráðh., úr því að um þetta er rætt nú, hvernig verður með eftirlitið, ef ákvæði eru í verðandi vinnuverndarlöggjöf, annarri en löggjöf um barnavernd, hver lítur eftir því, að ákvæðum þeirra laga um vinnuvernd barna sé framfylgt. Verður það barnaverndarnefnd eða ekki? Mér skilst, að eins og nú standa sakir, þá sé hlutverk barnaverndarnefndar að framkvæma ýmis störf í samræmi við gildandi lög um barnavernd. Verður hennar verksvið viðtækara, þannig að hún verði að vinna í samræmi við önnur lög, eða verða það aðrir aðilar, sem hafa eftirlit með framkvæmd þeirra laga? Þetta finnst mér skipta nokkru máli, því að ég tel óhæft, að nokkrir aðilar aðrir en barnaverndarnefndir og barnaverndarráð sjái um, að ákvæðum laga um barnavernd, þ. á m. vinnuvernd barna, sé framfylgt. En mér skilst, að það geti komið til greina, að það verði aðrir aðilar, sem eigi að fjalla um málið, t.d. fulltrúar frá verkalýðsfélögunum eða svo. Og ég tel það satt að segja okkur til lítils sóma að fara að hafa ákvæði um vinnu barna í löggjöf um almenna verkamannavinnu. Börnin eiga ekki heima í verkalýðsfélögum og eiga ekkert þangað að gera.