28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Hv. þdm. er vel kunnugt efni þessa frv. frá síðasta þingi, en þá var frv. að mestu leyti samhljóða þessu til meðferðar hér í þessari hv. þd., en það frv. var ekki útrætt. Hæstv. menntmrh. skipaði s.l. vor nefnd þm. úr menntmn. beggja þd. til þess að samræma skoðanir manna um einstök atriði frv., sem menn hafði greint á um hér á hv. Alþ. N. skilaði áliti til ráðh. og lagði til fáeinar brtt. við frv., sem hafa verið teknar inn í það frv., sem hér liggur fyrir, og í skýrslu þm. nefndarinnar, sem birt er sem fskj. með frv., er gerð grein fyrir þessum breytingum. Ég skal víkja lítillega að fáeinum þeirra, en aðrar eru svo glöggt skýrðar í fskj. með frv., þ.e.a.s. skýrslu mþn., að frekari skýringa er tæpast þörf.

Ég skal þá koma fyrst að þeirri breytingu, sem hefur orðið á 12. gr. frv. Inn í hana hefur verið tekið ákvæði þess efnis, að barnaverndarráðsmaður skuli ekki veita forstöðu uppeldisstofnun, sem frv. tekur til. Þetta ákvæði er sett með hliðsjón af því, að barnaverndarráð hefur samkv. 55. gr. frv. yfirumsjón með þessum stofnunum og óeðlilegt, að æðsta eftirlit sé í höndum þeirra, sem sjálfir veita forstöðu stofnun, sem er undir því eftirliti. Í frv., eins og það var lagt fyrir þingið í fyrra, var ákvæði um það, að barnaverndarráðsmaður mætti hvorki veita forstöðu stofnun, sem l. taka til, né heldur eiga sæti í stjórn slíkrar stofnunar, og í núgildandi barnaverndarl. eru í 12. gr. ákvæði þess efnis, að barnaverndarráðsmaður megi ekki veita forstöðu barnahæli né sitja í stjórn þess. Að athuguðu máli taldi n. þó ekki rétt að ganga svo langt að meina þeim, sem eiga sæti í stjórn barnaheimila, setu í barnaverndarráði, með hliðsjón af því, að það kynni að verða til þess að útiloka frá barnaverndarráði æskilega aðila og áhugasama, því að einmitt slíkt fólk velst að jafnaði til starfa í slíkum stjórnum. Í þessu sambandi má t.d. geta þess, að hér í Reykjavík rekur Barnavinafélagið Sumargjöf svo til öll dagheimllin og leikskólana í borginni. Í stjórn þess félags veljast að jafnaði sérstakir áhugamenn um velferðarmál barna, konur og karlar, og ef ég man rétt, hefur það áður skeð, að meðlimir úr stjórn þess félags hafa átt sæti í barnaverndarráði og unnið þar gott starf. Það má e.t.v. segja, að það sé matsatriði, hvort menntmn. hefur gengið hér of skammt, en þessi var sem sé niðurstaðan.

Eins og kemur fram í 39. gr. frv., eins og það nú liggur fyrir, hefur orðið á henni allmikil breyting frá því, sem var í frv. eins og það lá fyrir hv. þd. á síðasta þingi. Inn í 39. gr. hafði þá við meðferð hv. Nd. á frv. verið bætt að tilmælum kennarasamtaka ákvæði, sem tæpast fékk staðizt við nánari athugun. Þm.-nefndin leitaðist við að flokka þau barnaheimili, sem þarna er um að ræða í 3. mgr., flokka þau eftir eðli þeirra orsaka, sem til vistunar barna á heimilinu leiða, og þá var einnig að till. mþn. sveitarfélögunum falið frumkvæði að því að koma þessum heimilum á fót, og geta þá eftir atvikum fleiri en eitt sveitarfélag sameinazt um slíka framkvæmd, en ríkissjóður greiði hluta af stofn- og rekstrarkostnaði þessara heimila, sem sveitarfélög koma á stofn og reka, greiði hann eftir sömu reglum og gilda um skóla skyldunámsstigsins, þ.e.a.s. barna- og gagnfræðaskóla, þ. á m. um það, hvenær hefja má byggingu slíkra stofnana, ef ríkið á að taka þátt í kostnaði þeirra.

Um 41. gr. frv., sem skoðanir hafa verið hvað mest skiptar um, var rætt allýtarlega við 1. umr. hér í hv. þd. og einnig í skýrslu þm. nefndarinnar. Í hv. Nd. var flutt brtt. í þá átt að breyta 41. gr. í það horf, sem hún var í, þegar frv. lá fyrir þessari hv. þd. í fyrra, en sú brtt. hlaut ekki samþykki.

Það frv. til l. um vernd barna og unglinga, sem hér liggur fyrir, felur ekki í sér neina gerbyltingu á barnaverndarlöggjöfinni, en þó hefur það að geyma ýmis ákvæði, sem ég hygg, að allir hv. þdm. geti verið sammála um, að séu til mikilla bóta frá því, sem er. Það má þar til nefna þau ákvæði frv., sem miða að því að auðvelda barnaverndarnefndum að koma börnum í einkafóstur, svo að komizt verði hjá því í lengstu lög að vista börn á uppeldisstofnunum, sem geta, hversu góðar sem eru, aldrei komið í stað sómasamlegs heimilis fyrir börnin, enda mun sú vera stefnan hvarvetna nú í barnaverndarmálum að forðast eftir föngum, að börn þurfi að alast upp á stofnunum, þó að ekki verði reyndar hjá því komizt í sumum tilfellum.

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem kom fram við 1. umr. málsins hér í hv. þd., að vonandi geta hv. þm. séð sér fært að samþykkja frv., eins og það liggur nú fyrir. Í menntmn. kom það fram, að einstakir nm. töldu svo mikinn ávinning að samþykkt þessa frv., að ekki væri rétt að beita sér fyrir breytingum á því, þó að þeim kynni e. t. v. að sýnast, að sitthvað mætti þar betur fara, því að það kynni að stofna afgreiðslu málsins á þessu þingi í tvísýnu, ef breytingar yrðu nú gerðar á frv. Eins og fram kemur, í nál. á þskj. 615, leggur n. til, að frv. verði samþ.