29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorð. Það hefur farið svo gagnstætt því, sem ég hafði vonað, að hér hafa nú verið fluttar allmargar brtt. við frv. Ég skal aðeins víkja fáeinum orðum að brtt. hv. 9. þm. Reykv., sem hann nú hefur gert grein fyrir.

Um þá till. hans, að félmrn. skuli hafa yfirstjórn barnaverndarmála, vil ég vísa til þess, eins og hann reyndar gerði í ræðu sinni, sem n. sú, sem undirbjó frv., segir í þeirri grg., sem fylgdi frv., þegar það var lagt fram á þinginu í fyrra. N. telur þar fram ýmislegt það, sem með því mæli, að þessi mál heyri undir félmrn., en ekki menntmrn., og vitnar m.a. til þess, að barnaverndarmál í nágrannalöndum okkar falli undir félmrn., en n. taldi þó ekki rétt að leggja til, að sú breyting yrði gerð á skipulagi þessara mála hér, heldur að áfram héldist, að menntmrn. færi með yfirstjórn barnaverndarmálanna. Þetta hefur hv. þm. verið kunnugt allan tímann síðan frv. var lagt fram í fyrra, og ætla ég, að hv. 9. þm. Reykv. hafi líka þá flutt brtt., sem gengu í þessa átt, en komu reyndar aldrei til atkvæða. En ég verð að segja það, að þó að menn hljóti að fallast á öll þau rök, sem n., sem undirbjó frv., greinir frá í þeirri grg., sem fylgdi frv. frá henni, tel ég rétt að halda sig við það, sem í frv. er, því að n. hefur vissulega ekki tekið þá ákvörðun að leggja til, að núverandi skipulagi verði haldið áfram, nema að vel athuguðu máli.

Þá vil ég aðeins víkja að brtt. hv. þm., að í Reykjavík skuli vera sérstök barnaverndardeild í Heilsuverndarstöðinni og að kaupstöðum, sem þess óska, skuli vera heimilt að fela heilsuvernd á sínum stað vernd barna og ungmenna. Hv. þm. vék að því, sem út af fyrir sig er alveg rétt, að manni finnst það vera heldur óæskilegt, að fólk, sem kosið er, eða n., sem kosin er pólitískri kosningu, einstakir meðlimir slíkrar n. séu að vafstrast í einkamálum og það viðkvæmustu einkamálum fólks, inni á þess heimilum jafnvel. En við skulum athuga það, og hefur reyndar hv. þm. fallizt á það sjónarmið, að í dreifbýli er varla hægt að hugsa sér annað en að það verði góðir og gegnir íbúar eða borgarar, sem þessum störfum gegni, vegna þess að það er óvíða aðstaða til þess að hafa til slíkra starfa sérmenntað starfslið. En hér í Reykjavík, eins og hv. þm. sagði, kemur þetta auðvitað mjög til greina, og er reyndar í þjónustu barnaverndarnefndar hér sérmenntað starfsfólk, sem annast dagleg störf og framkvæmd í barnaverndarmálunum. Þegar hægt er að koma málum í þetta horf, þá er hlutverk barnaverndarnefndarinnar í rauninni það að hafa þarna yfirstjórn. Þetta starfslið leggur málin fyrir barnaverndarnefndina á hennar fundum og þar tekur svo barnaverndarnefndin endanlegar ákvarðanir og ef svo ber undir visar meðferð vissra mála og vissra atriða til ákveðinna aðila, sem starfa í hennar þágu.

Þetta er auðvitað allt annað en meðan sú var tíðin, að meðlimir barnaverndarnefndarinnar voru meira og minna í eftirliti á heimilum og að segja mátti kannske inni á gafli á þeim heimilum, sem barnaverndarnefnd þurfti að hafa eftirlit með eða afskipti af í þann og þann svipinn, svo að það gegnir allt öðru máli nú. Og ég held, að það mundu kannske líka sumir telja, að það gæti verið varhugavert í málum, sem eru svona ákaflega viðkvæm eins og þessi mál eru, og það er alveg vist, að oft og einatt þykja fólki afskipti barnaverndarnefndar kannske þungbærari og koma sárar við það og þær ráðstafanir, sem n. gerir, heldur en flest annað, sem það getur hugsað sér, — það geti verið varhugavert, að endanlegan ákvörðunarrétt um slík mál eigi ákveðnir embættismenn. Ég veit til þess a.m.k., — ég hef rætt þetta oft við fólk, sem ég veit, að hefur áhuga á barnaverndarmálum, að það mundi margur telja í rauninni meira öryggi í því að eiga víst, að þarna muni fjalla um málíð hópur fólks, þar sem ýmis sjónarmið geta komizt að, og það mundu telja sér margir meira öryggi í slíkri meðferð heldur en ef allt væri lagt segjum til dæmis í hendur eins embættismanns. Ég get því ekki verið hv. þm. sammála í þessum efnum og mundi ekki geta fallizt á brtt., sem gengur í þessa átt.

Þá vil ég um brtt. hv. þm. við 36. gr. segja það, að ég sé ekki beint, að það sé ástæða til að taka slíkt ákvæði upp í lögin, því að annars staðar er beinlínis barnaverndarnefndunum það upp á lagt, að við úrlausnir barnaverndarmála skuli ávallt miða við það, hvað ætla megi barninu fyrir beztu, og það er auðvitað það, sem á að vera það fyrsta, sem til greina kemur við úrlausn þeirra mála.

Um 41. gr. skal ég ekki fjölyrða. Það kemur bæði fram í grg. með frv. og kom hér einnig greinilega fram við 1. umr. málsins, að það efni, sem hún fjallar um, — það er sem sé vinnuvernd barna — það er til athugunar í annarri n., og hefur frv. verið lagt fram nú á þessu þingi með 41. gr. þess í sama formi og var í frv. upphaflega, þegar það var lagt fyrir þingið í fyrra.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um brtt., en vil segja það, að ég mun greiða atkvæði á móti þessum brtt. Ég get að vísu ekki fullyrt neitt um afstöðu meðnm. minna í menntmn., þó að ég hins vegar ætli, að þeir muni með vísun til þess, að þeir hafa í n. látið í ljós, að þeir mundu ekki vilja hreyfa brtt. við frv., til þess að því yrði ekki stefnt í tvísýnu á þinginu, — með tilliti til þess mundi ég telja, að þeir væru kannske sama sinnis og ég um afstöðu til brtt., því að það má öllum ljóst vera, eins og nú er skammt til þingloka, að allar breytingar, sem á þessu frv. kynnu að verða gerðar, mundu stefna því algerlega í tvísýnu.