29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Hv. 9. þm. Reykv. taldi, að það væri eiginlega ekki neinn ágreiningur okkar á milli eða sáralítill varðandi brtt., sem gengur í þá átt, að í Reykjavík skuli ekki kjósa barnaverndarnefnd, heldur skuli vera sérstök deild í Heilsuverndarstöðinni, sem annist vernd barna og unglinga. En ég held, að ég hafi tekið það greinilega fram, að ég mundi ekki fallast á, að hér yrði ekki kosin barnaverndarnefnd. Ég reyndi að gera lítillega grein fyrir því, hvernig hún mundi starfa, og það verður nú þegar og f framtíðinni býsna ólíkt því, sem áður var, þegar nefndarfólkið var sjálft í daglegum störfum að barnaverndarmálum. Það var líka eitt atriði, sem mér láðist að minnast á áðan í ræðu minni, að hv. þm. leggur til, að þetta verði deild í Heilsuverndarstöðinni. Ég hefði talið, að það mál þyrfti að athuga betur, áður en slegið yrði föstu, því að ég held, að það gæti t.d. alveg eins komið til greina, að þetta væri deild í félagsmálaskrifstofu borgarinnar. Hv. þm. sagði einmitt áðan, að ef nokkuð væri félagsmál, þá væru það barnaverndarmálin, og hann vill láta þau heyra undir félmrn., og þá finnst mér, að það væri fullt samræmi í því, að þau væru einmitt deild í félagsmálaskrifstofu borgarinnar.

Fleiri orðum sé ég ekki ástæðu til að fara um ræðu hv. þm.