29.04.1966
Efri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

171. mál, vernd barna og ungmenna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég er ekki í menntmn., en samt sem áður vildi ég leyfa mér að bera fram þá ósk, að það yrði nú orðið við þeirri sjálfsögðu beiðni, að málinu yrði frestað svo sem einn sólarhring, svo að menntmn. gæfist tækifæri til að athuga þessar till. Ég álit t.d., að till., sem hljóðar um breytingu viðvíkjandi dvöl fósturbarna hjá fósturforeldrum, sé mun betur orðuð hjá hv. flm., 9. þm. Reykv., en er í frv., og ég get ekki séð, að málinu sé stefnt í nokkra tvísýnu, þó að það bíði einn sólarhring eða svo. Við erum hér með fullt af málum enn, og það er ekkert ákveðið enn, svo að ég viti til, hvenær Alþingi lýkur, þannig að þó að þessi d. kæmist við enn frekari athugun að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að gera einhverjar smávægilegar breytingar á þessu frv., er það síður en svo, að því sé teflt í nokkra tvísýnu. Það eru nægir möguleikar til þess, að það gangi til Nd., af því að ég geri ráð fyrir því, að hér sé ekki eða geti verið um stórfelldar breyt. að ræða. Mér sýnist þarna viss atriði, sem eru þess háttar, að þau biðu engan skaða af því, þó að þau væru athuguð svolítið betur.