02.04.1966
Neðri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Með þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr., leggur hæstv. ríkisstj. fyrir Alþingi samning, sem hún er búin að gera við erlendan hring, erlent auðfélag, og búin að undirskrifa, að vísu með fyrirvara, eins og hæstv. ráðh. sagði.

Ég álit, að þetta sé óeðlileg málsmeðferð og Alþ. sé misboðið með þessu og að hæstv. ríkisstj. hefði átt að leggja þennan samning fyrir, áður en hún var búin að binda sig fyrir sitt leyti með undirskrift sinni, því að þá hefðu hv. alþm., einnig alþm. stjórnarflokkanna, getað fjallað um málið minna háðir en þeir eru, eftir að hæstv. ríkisstj. hefur undirskrifað samninginn og þannig ótvírætt gert hann óbreyttan að sínu máli.

Ég get ekki varizt þeirri hugsun, að þetta hljóti að vera gert til þess að þvinga stuðningsmenn ríkisstj. á Alþ. og setja þá upp við vegg í þessu efni, geirnegla þá, ef svo mætti segja, með því að festa sjálfa ríkisstj. við samninginn. Það er í raun og veru það, sem gert hefur verið. Ríkisstj, hefur hnýtt sig við samninginn. Þar er allt orðið í einni kippu, í einu lagi, og það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun, að hæstv. ríkisstj. geri þetta af þessum ástæðum. En þetta, eins og gefur auga leið, verður til þess, að hv. stuðningsmenn ríkisstj. eru mjög þvingaðir.

Ég mun fyrst varðandi þessi málefni fara fáeinum orðum um stefnur varðandi öflun erlends fjármagns í landið. Þar er um tvær stefnur að ræða að sjálfsögðu: Annars vegar þá stefnu, sem Íslendingar hafa yfirleitt fylgt, að taka lán erlendis, hafa atvinnureksturinn sjálfir með höndum og nota lánin til að byggja upp á vegum Íslendinga sjálfra í landinu. Þetta er sú stefna, sem yfirleitt hefur verið fylgt hér um langa hríð og gefizt Íslendingum vel, og það er með þessum aðferðum, sem þjóðin hefur brotizt úr fátækt í bjargálnir. Það hefur yfirleitt verið forðazt að ljá máls á því, að erlendir aðilar færu með atvinnurekstur, en þegar það hefur verið reynt, þá hefur sú reynsla ekki verið góð.

A hinn bóginn er hægt að fylgja þeirri stefnu að afla erlends fjármagns í landið með því að leyfa erlendum aðilum að setja upp atvinnufyrirtæki í landinu sjálfu og reka þau. Ég tel, að sú stefna sé hættuleg fyrir smáþjóðir og því hættulegri sem þjóðin er smærri, af mörgum ástæðum, sem ég skal minnast á sumar, en aðrar ekki. Mun ég ekki tefja tímann við að rekja þær allar nú.

Af og til hefur risið hér upp barátta fyrir því að breyta algerlega um stefnu í þessum málum og fara inn á að leyfa atvinnurekstur útlendinga. En sjaldan hefur mikið orðið úr og ekki staðið til langframa það, sem upp hefur verið sett. En þeir, sem hafa staðið að því að berjast fyrir stefnubreytingu, hafa venjulega annaðhvort verið hreinir úrtölumenn í íslenzkum þjóðarbúskap, fullir af vantrausti á þjóðina og möguleika hinna hefðbundnu atvinnuvega landsins, eða örgeðja draumóramenn, sem hafa verið óþolinmóðir í skapgerðinni, fundizt ganga of seint og talið sér trú um, að hægt væri að taka framfarir og framkvæmdir allar í stórum stökkum með því að láta útlendinga koma inn í landið með stóran rekstur. Má í hópi þeirra manna, sem þannig hafa litið á, telja þá, sem á sínum tíma börðust mjög fyrir því, að erlendir aðilar eignuðust vatnsréttindi, og var komið svo um skeið, að erlend auðfélög áttu ýmis þýðingarmestu vatnsréttindi landsins. En sem betur fór varð ekkert úr því, að þeir draumar rættust, að útlendingar kæmu hér og reistu iðjuver á sinum vegum, enda liti hér vafalaust öðruvísi út í dag, ef það hefði orðið, áreiðanlega orðið þröngt fyrir dyrum á margan hátt í okkar sjálfstæðisbaráttu, ef þannig hefði æxlazt. Sem betur fór varð það ekki. En samt sem áður hefur íslenzka þjóðin risið vel á legg og á þann hátt, sem við getum verið ánægðir með og stoltir af. En það hefur ekki verið vegna þess, að hér hafi komið stórfyrirtæki erlend og tekið af okkur ómakið, eins og sumir héldu, að væri eina leiðin.

Það er ýmislegs að minnast, ef ætti að fara aftur í fortíðina. Ég skal ekki gera mikið að því. En einu sinni átti að gera hér stóra hluti með því að láta útlendinga setja hér upp banka, sem Íslandsbanki hét, og þá gengu þeir svo ötullega fram, sem höfðu ekki trú á framkvæmdum Íslendinga sjálfra, að þeir lögðu til, að Landsbankinn yrði lagður niður og þessi banki útlendinganna gerður að aðalbanka landsins. Það er yfirleitt talið, að það hafi verið sérstaklega fyrir atbeina eins manns á Alþingi Íslendinga, að ekki varð úr þessum bollaleggingum, að leggja niður sjálfan Landsbankann og láta hluthafabanka útlendinga taka við. En þetta átti að gera vegna þess, að banki, sem Íslendingar stæðu að sjálfir, hlyti alltaf að verða mjög veikur og fátækur og lítils megnugur. En hinir erlendu aðilar, sem stæðu að hinum bankanum, hefðu svo mikla möguleika og það væri sjálfsagt að fela þeim forustuna í peningamálum þjóðarinnar.

Það hefur ýmislegt skeð í þessum málum áður, og er margs að minnast, ef út í það væri farið. Það er skynsamlegt að rifja upp þessa hluti, þegar málefni af þessu tagi ber á góma, því að þótt hér sé að vísu um einstakt stórt málefni að ræða, þá snertir það meginstefnuna í þessum efnum og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hver hún á að vera framvegis. En reynslan hefur yfirleitt sýnt, að Íslendingar hafa þurft að treysta á sjálfa sig og það hefur gefizt þeim bezt.

Þá er spurningin, hvort það er nokkur ástæða til þess að vera að tala um stefnubreytingu í sambandi við þetta mál, sem hér er til umr. Það er full ástæða til þess, vegna þess að upp á síðkastið, bæði í umr. um þetta mál og önnur mál, hafa komið fram mjög háværir og að ýmsu leyti kröftugir talsmenn þess að breyta um stefnu frá því, sem fylgt hefur verið á Íslandi í þessu tilliti, og taka hér erlenda aðila inn í atvinnureksturinn í stórum stíl. Í sambandi við þetta mál verður mjög vart við, að atvinnurekstur sá, sem hér stendur til að innleiða í landið, er lagður alveg til jafns við atvinnurekstur Íslendinga að gæðum fyrir þjóðarbúið og jafnvel talinn það bezta, sem hægt er að hugsa sér, og betri en það, sem íslenzkir menn gætu tekið sér fyrir hendur. Er fullum fetum stundum talað um þetta sem íslenzkan atvinnurekstur. Það er því auðheyrt, hvað á spýtunni hangir. Á hinn bóginn hafa komið fram bollaleggingar um að ganga lengra á þessari braut. T.d. hefur verið talað mikið um að setja upp olíuhreinsunarstöð erlendra aðila hér í landinu og jafnvel fullum fetum rætt um það af og til af sumum, að skynsamlegt gæti verið. að erlendir aðilar eignuðust hlutabréf í fiskiðnaði og öðrum fyrirtækjum. Það úir sem sé og grúir af bollaleggingum um að breyta í mjög verulegum atriðum um stefnu og hætta að treysta þeirri leið að taka erlend lán og að Íslendingar leggi þau í fyrirtæki og reki þau sjálfir og láta í þess stað útlendinga koma inn í atvinnureksturinn. En það mundi ég telja stórhættulega stefnu, bæði vegna þess, að með því móti mundum við, áður en langt um líður, missa forræði í atvinnumálum okkar og síðan okkar málefnum yfirleitt, ef langt væri gengið á þeirri braut, en einnig vegna þess, að með því móti mundi mikill hluti af arðinum af atvinnurekstri í landinu hreinlega verða fluttur út úr landinu, eins og gert var, þegar verzlun og annar atvinnurekstur var í höndum útlendinga, en Íslendingar sátu eftir með sárt enni og nálega allur arðurinn af stritinu var fluttur á brott úr landinu. Þess vegna álit ég, að það eigi að fara mjög varlega í þessum efnum og alls ekki breyta um þá meginstefnu, sem uppi hefur verið höfð. Enda sjáum við, að það er auðvitað miklu skynsamlegra og verður miklu praktískara og ódýrara á allan hátt fyrir þjóðarbúið að taka lán og borga af þeim fasta vexti og endurgreiða þau en að útlendingar komi inn í atvinnureksturinn, reikni sér stórfelldan gróða, sem fer út úr landinu. Það verður auðvitað margfalt dýrari aðferð til þess að afla fjármagns erlendis frá en sú aðferð, sem við höfum haft, þ.e.a.s. lántökuleiðin.

Ég vil enn einu sinni í sambandi við þessi efni vara við þeirri tilhneigingu, sem maður verður nokkuð mikið var við, að leggja fyrirtæki erlendra aðila, sem þeir reka hér, til jafns við innlend fyrirtæki í gagnsemi fyrir þjóðarbúið. Ég vil í því sambandi nefna eitt dæmi, sem mér kemur í hug. Það er ekkert á móti því að nefna það, því að það er nokkuð glöggt um þessi atriði. Hér var lengi á vegum varnarliðsins verktakafélag erlent, sem hét Hamilton og var ekkert vel þokkað af Íslendingum á sinni tíð og olli miklum óróa í sambandi við sínar framkvæmdir og sambúð við landsmenn. Þetta var fyrirtæki erlendra manna, og hjá því höfðu margir Íslendingar vinnu, það borgaði íslenzkum vinnulaun, en gróði félagsins kom aldrei til Íslands og rann út úr landinu. Þannig stóð þetta og olli miklum vandkvæðum, þangað til Framsfl. beitti sér fyrir því af talsverðri hörku, sem þurfti til, að koma þessu erlenda félagi burt úr landinu og setja upp í staðinn íslenzkt verktakafélag, sem hefði þau verkefni með höndum, sem útlenda félagið hafði áður. Það skipti algerlega um, því að með þessu fór sá gróði, verktakagróði, sem þarna kom til greina, að renna inn í landið. Íslenzkur atvinnurekstur kom í staðinn fyrir erlendan. Það má gjarnan vera mönnum í minni, að elnmitt þetta íslenzka verktakafélag, sem kom í staðinn fyrir útlenda félagið og sýnir muninn á íslenzku félagi og erlendu félagi, hefur eignazt mikla fjármuni og þ. á m. stórkostleg vinnutæki, sem hafa verið notuð til þess að leggja myndarlegasta veg á Íslandi, frá höfuðborginni og á Suðurnes. Og það er alveg óhætt að fullyrða, að það hefði aldrei getað komið til greina, að menn hefðu lagt í slíka vegagerð, ef ekki hefði verið þetta innlenda félag, stofnað í staðinn fyrir erlenda félagið. Yfirburðir þess komu á þennan hátt greinilega í ljós að hafa íslenzkan atvinnurekstur í staðinn fyrir atvinnurekstur útlendra í landinu. Það vantaði ekki, að Hamilton-félagið borgaði Íslendingum kaup svipað og álbræðslan á að gera, en gróðinn rann út úr landinu eins og gróðinn af álbræðslunni á að gera. En þegar þarna kom íslenzkt fyrirtæki í staðinn, Íslenzkir aðalverktakar, fór að byggjast upp fjármagn í landinu á vegum þessa fyrirtækis, sem hefur komið landsmönnum sjálfum til góða. Nú ættu þessar stórkostlegu vélar t.d., sem þarna hafa komið inn í landið, að geta orðið mikil lyftistöng við framkvæmdir á Íslandi, ef haldið verður áfram að nota þær á skynsamlegan hátt í þágu þjóðarbúsins.

Ég nefni þetta sem dæmi, en þannig mætti nefna fjöldamörg önnur dæmi um þann stórkostlega mismun, sem á því er að hafa erlendan atvinnurekstur eða hafa innlendan atvinnurekstur. Það er á engan hátt sambærilegt, sem glöggt kemur fram af þessu og reyndar líka getur glöggt komið fram, ef við skoðum þetta dæmi, sem nú er verið að ræða, þ.e.a.s. ál- eða alúmínverksmiðjuna. Þá blasir við, að ef alúmínverksmiðja verður sett upp á þann hátt, sem gert er ráð fyrir, mun gróði hennar aldrei koma til Íslands. Hagnaður íslenzkra atvinnurekenda rennur hins vegar inn í landið. Og þeir fjármunir, sem ætlaðir eru til afskrifta í verksmiðjunni, koma aldrei til Íslands. Þetta jafngildir því, að verksmiðjan flyzt út úr landinu aftur, jafnóðum og hún slitnar, en einmitt gróðinn og afskriftaféð í íslenzkum fyrirtækjum er aðalgrundvöllur að uppbyggingu atvinnulífs í landinu sjálfu. Hvernig færi í þjóðarbúskapnum, ef þessir liðir féllu niður og mikill hluti af atvinnurekstrinum væri þannig, að hann borgaði bara laun og þjónustu og ekkert annað?

Sannleikurinn er sá, að þær þjóðir, sem hafa gengið mjög langt í því að láta útlendinga reka atvinnurekstur í sínu landi, hafa lent í stórkostlegum vandræðum einmitt út af þessu, eins og Kanadamenn og fleiri. Þarna hefur vantað inn í sjálfan grundvöllinn. Það verður aldrei hægt að komast langt, ef ekkert fæst út úr atvinnurekstrinum annað en kaupgjaldið, sem á að borga, og endurgjaldið fyrir þjónustuna. Þetta vita þeir bezt, sem eitthvað hafa komið nærri atvinnurekstri, og það er því augljóst, að þetta mál, sem við erum að ræða, er dæmi, sem er mjög gott fyrir þjóðina að kryfja til mergjar og gera sér alveg ljóst, því að þetta sýnir mjög vel muninn á þessu tvennu: atvinnurekstri landsmanna sjálfra annars vegar og atvinnurekstri erlendra í landinu hins vegar. Þess vegna er alls ekki hægt að sætta sig við þessar sífelldu tilraunir frá sumra hendi til þess að villa um fyrir mönnum í þessu tilliti og telja atvinnurekstur af þeirri tegund, sem hér er gert ráð fyrir, íslenzkan atvinnurekstur. Því verður að mótmæla, að þannig sé villt um í þessum málum.

Það er margt fleira en það efnahagslega, fjárhagslega, sem kemur til greina í þessu sambandi. Það er líka það mikla áhrifavald, sem hætt er við, að sterk útlend fyrirtæki hafi í löndunum, og eftir því meiri hætta á þessu sem fyrirtækin eru stærri og löndin smærri. Sérstaklega megum við auðvitað vara okkur á þessu. Mér hefur verið sagt, að það væru 42 fyrirtæki í VesturÞýzkalandi einu, sem hefðu meiri umsetningu hvert um sig en næmi öllum þjóðarbúskap Íslendinga. Við höfum það smávaxinn þjóðarbúskap, að við verðum auðvitað að gæta alveg sérstaklega að okkur í þessu tilliti. Og það er vitað mál, að stórfyrirtæki, sem hefur hér verulegan atvinnurekstur, er orðið áhrifavald í þjóðfélaginu, hvernig sem menn fara að. Það er óhugsandi að komast hjá því. Menn verða að horfast í augu við, að það er áhrifavald. Þetta er stórkostlegur galli á þessari leið, sem sumir vilja nú fikra sig inn á, að hafa hér erlend fyrirtæki. Það er stórkostlegur galli, að þessum atvinnurekstri fylgir mikið áhrifavald. Það þýðir ekkert að neita því. Það verður að horfast í augu við það. Það er staðreynd, að slíku peningaflóði sem á vegum þessara fyrirtækja er fylgir áhrifavald.

Ég nefni eitt dæmi, eitt atriði, sem verið er að ræða í sambandi við þetta sérstaka mál. Það er um þátttöku þessa alúmínfyrirtækis í atvinnurekendasambandinu. Atvinnurekendasambandið er vitanlega mikið áhrifavald í íslenzku þjóðlífi og hefur stórkostleg áhrif á þjóðarbúskapinn. Og eitt, sem kemur upp í þessu sambandi, er þetta: Á þetta fyrirtæki að vera í Vinnuveitendasambandinu og beita áhrifum sinum þar í íslenzkum þjóðarbúskap? Menn geta náttúrlega alla vega leikið sér með orðið „pólitískt“, en auðvitað er okkur ljóst, að það er auðvitað pólitískt atriði, hverjir hafa áhrif í atvinnurekendasambandinu eða Vinnuveitendasambandinu. Það er meira og minna pólitískt, hvernig fjallað er um slíka þætti eins og kjaramálin í þjóðarbúskapnum. Það sýnir nokkuð, hvernig þetta horfir og hvað hér er um vandasamt mál að ræða, að það eru fleiri en stjórnarandstæðingar, sem hafa komið auga á þetta. Talsmaður Alþfl. í vantraustsumr., Benedikt Gröndal, kom einmitt inn á þetta mál, og það var auðheyrt, að hann hafði gert sér grein fyrir því, að hér var um stórkostlegt vandamál að ræða og það ekki minna en svo, að hann lýsti því yfir, að það væri stefna Alþfl., að álfélagið eða hringurinn gangi ekki í atvinnurekendasamtökin, — það væri stefna Alþfl. Nú vil ég spyrja Alþýðuflokksmenn: Hvernig ætla þeir að framkvæma þessa stefnu sína? Þeir sjá, að þarna er um stórfellt vandamál að ræða, og segjast hafa í þessu ákveðna stefnu. En hvernig ætla þeir að framkvæma þessa stefnu? Hvernig ætla þeir að tryggja, að þessi hringur fari ekki í atvinnurekendasamtökin næstu 45 árin? Ég spyr, og það munu fleiri spyrja. Og ég vænti, að það verði gerð grein fyrir þessu.

Ég tók eftir því í sambandi við viðtalið, sem íslenzkir blaðamenn áttu við forstöðumenn þessara mála af hálfu alúmínhringsins, þ. á m. mann að nafni herra Meyer, að hann var spurður um þetta efni. Og Morgunblaðið segir þannig frá því atriði: „Aðspurður um það, hvort Swiss Aluminium Ltd. mundi gerast aðili að vinnuveitendasamtökum hérlendis, kvað herra Meyer það mál ekki á dagskrá.“ En Alþfl. álitur á hinn bóginn, að því er mér skilst, að það sé á dagskrá. En herra Meyer sagði, að það mál væri ekki á dagskrá, þar eð enn væri langur tími þar til rekstur bræðslunnar gæti hafizt. En hvenær kemur þetta á dagskrá hjá herra Meyer og hans mönnum? Það vitum við ekki. En þetta flettir alveg ofan af þessum vandasama þætti í málinu. Þess vegna þýðir ekki að láta eins og hér sé ekki um neitt að ræða og þetta vandamál t.d. sé ekki til. Það kunna meira að segja að vera til einhver hliðstæð vandamál þessu. En fyrsta spurningin er náttúrlega þessi: Hvernig ætlar Alþfl., sem sér þennan stórfellda vanda og hefur gefið stefnuyfirlýsingu, hvernig ætlar hann að framkvæma stefnu sína í þessu máli, sem er sú, að alúminhringurinn gangi ekki í atvinnurekendasamtökin? En að því er Morgunblaðið hefur eftir herra Meyer, er svo að sjá, að frá þessu hafi alls ekki verið gengið, hringurinn telji þetta ekki á dagskrá, þetta sé atriði, sem hann hugsi sér að taka ákvörðun um síðar.

Ég hef nú bent á meginstefnur í þessum efnum og varað við því að breyta um meginstefnuna. En þá kemur spurningin, hvort ég og Framsfl. teljum, að það eigi aldrei að ljá máls á atvinnurekstri erlendra aðila í landinu. Er þá rétt að víkja að því, að Framsfl. hefur ekki tekið þá afstöðu, að slíkt gæti aldrei komið til greina, þó að hann hafi lagt feikilega sterka áherzlu á, að meginstefnan ætti að vera þessi, sem ég hef lýst, í því að ná erlendu fjármagni inn í landið. Flokkurinn hefur viljað leggja áherzlu á, að það yrði aðeins gert, ef til þess þyrfti að grípa til þess að leysa sérstök vandamál, sem á annan hátt væru ekki leysanleg. Og það leiðir af því, sem ég hef sagt, og af því, sem Framsfl. hefur haldið fram í þessu efni um það, hver eigi að vera meginstefnan, að það beri að fara alveg sérstaklega varlega í þessum efnum og það komi ekki til mála að ljá máls á atvinnurekstri erlendra aðila, nema brýna þjóðarnauðsyn beri til og þá að sjálfsögðu tryggilega frá öllu gengið.

Ég vil í sambandi við þetta sérstaka mál, sem er hér verið að fjalla um, leyfa mér að minna á ályktun, sem gerð var af hálfu Framsfl., þ.e.a.s. miðstjórnar flokksins, í marzmánuði 1965 að gefnu tilefni vegna þessara samninga, sem þá voru komnir talsvert áleiðís og menn höfðu nokkrar upplýsingar um, en ályktunin er á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af þeim samningaumleitunum, sem nú standa yfir um alúmínvinnslu hér á landi, lýsir miðstjórnin því yfir, að slíkt stórmál má ekki afgreiða nema sem lið f heildaráætlun í framkvæmda- og efnahagsmálum og ekki tiltök að hefja þær framkvæmdir við þá verðbólguþróun og vinnuaflsskort, sem íslenzkir atvinnuvegir búa nú við. Eins og sakir standa er því ný stefna í efnahags- og atvinnumálum landsins forsenda þess, að unnt sé að ráðast í stóriðju. Hið erlenda fyrirtæki njóti engra hlunninda umfram íslenzka atvinnuvegi og lúti í einu og öllu íslenzkum lögum og raforkusala til þess standi a, m. k. undir stofnkostnaði virkjunar að sínu leyti. Enn fremur hafi íslenzk stjórnarvöld á hverjum tíma íhlutun um skipun stjórnar verksmiðjunnar og meiri hluti stjórnenda sé íslenzkir ríkisborgarar. Miðstjórnin minnir sérstaklega á, að staðsetning alúmínverksmiðju á mesta þéttbýlissvæði landsins mundi, eins og nú háttar, auka mjög á ójafnvægi í byggð landsins. Að óbreyttum þeim aðstæðum felur miðstjórn framkvæmdastjórn og þingflokki að beita áhrifum sínum þannig, að verksmiðjan verði staðsett annars staðar.“

Í ljósi þessarar stefnuyfirlýsingar eða ályktunar vil ég fara nokkrum orðum um málið. Fyrsta spurningin er auðvitað frá sjónarmiði þeirra, sem svipað líta á þessi efni: Hvernig er ástandið í íslenzkum þjóðarbúskap? Ástandið er þannig hjá okkur, að við búum við stórkostlegan vinnuaflsskort, sem háir okkar eigin atvinnuvegum og framförum stórlega, og við búum þar að auki við dunandi verðbólgu, sem er afleiðing af ofþenslu, sem ég mun ekki fara út í að ræða að öðru leyti, því að það er svo kunnugt, að það þarf ekki að færa um það dæmi. Okkur vantar því sannarlega ekki verkefni. En þá segja sumir, að við megum ekki fara eftir þessu, og það segja þeir, sem standa fyrir þessu máli, því að þetta muni breytast og sé líklegt til að breytast á næstunni, — þó að verkefnin séu stórkostleg núna og vinnuaflsskorturinn sé mikill núna, þá sé líklegt, að þetta breytist. Í því sambandi benda þeir á ýmis atriði, t.d. að ofveiði geri vart við sig í fiskistofnunum og því megi gera ráð fyrir samdrætti í sjávarútvegi, a.m.k. engri aukningu, að iðnaður Íslendinga sjálfra muni eiga fram undan erfiðleika og jafnvel hljóti að dragast saman eða a.m.k. hætta að vaxa ört og að landbúnaður framleiði of mikið og eigi að dragast saman Ég lit allt öðruvísi á þessi mál en þannig, að það sé fram undan samdráttur í þessum efnum. Skal ég benda á, hvað ég tel líklegra og nauðsynlegra að verði í þessu sambandi. Auðvitað er hægt að halda þannig á málum, að það verði samdráttur, og gæti farið svo. Ef haldið verður áfram að þjarma að íslenzkum atvinnurekstri, eins og er gert með núverandi stjórnarstefnu og þeirri verðbólgu, sem látin er grafa undan atvinnurekstrinum og fyrirtækjunum, þá gæti svo farið, að þessar hrakspár úrtölumannanna rættust. En ef skynsamlega er að farið, þá er auðvitað siður en svo nokkur ástæða til þess að halda, að það verði verkefnaskortur á Íslandi á næstu árum. Þvert á móti er það nokkurn veginn augljóst, að ef skynsamlega er á málum haldið, eru verkefnin svo stórfelld, að líklegt er, að okkar aðalvandamál um æði langa framtíð verði einmitt vinnuaflsskortur, einmitt það, hvað við erum fá til þess að takast á við þau verkefni, sem þarf að vinna og hægt er að vinna. Í því sambandi vil ég benda á tvo eða þrjá þætti.

Ég vil benda á, að ef ekki á algerlega að snarast í íslenzkum þjóðarbúskap, þá verður að beita sér fyrir stórfelldum framkvæmdum víðs vegar um landið til þess að auka á jafnvægi í byggð landsins. Þetta er alveg óhjákvæmileg nauðsyn, ef okkur á að búnast farsællega í landinu. Þá verðum við að stórauka framkvæmdir í þessu sambandi, og þessar framkvæmdir munu þurfa, ef rétt er á haldið, aukið vinnuafl úti um landið og verða að gera það.

Ég vil benda á, að það eru fram undan stórkostleg verkefni við að auka framleiðni og véltækni og vélvæðingu í okkar atvinnuvegum, t.d. í sjávarútvegi, sérstaklega að því er varðar að vinna úr okkar þýðingarmikla hráefni. Það þarf að lyfta grettistökum í því efni og verða að eiga sér stað stórfelldar framkvæmdir í því einmitt á næstu árum. Og því sama er til að dreifa í mjög mörgum greinum iðnaðarins, ekki sízt þeim, sem vinna úr íslenzkum hráefnum, og einnig vafalaust þeim iðnaði, sem byggður er á smíðum margs konar. Ég nefni í því sambandi skipasmíði og vélsmíði. Og þannig mætti endalaust telja, og alls staðar eru menn með áætlanir um nýjar framkvæmdir einmitt í þessum efnum, sem komast ekki í framkvæmd vegna skorts á vinnuafli, og það er tæpast hægt að reka þau fyrirtæki, sem fyrir eru í landinu, vegna skorts á vinnuafli.

Loks ef við lítum á þann þátt þjóðarbúskaparins, sem ríkisvaldið hefur með höndum, þ.e.a.s. opinberar framkvæmdir, þá er sömu sögu að segja. Okkur vantar skóla. Það þarf að vísa frá ungmennum, sem vilja skólavist, vegna þess að skólahúsnæði er ekki til og það vantar kennara. Heilbrigðisstofnanir, þýðingarmestu heilbrigðisstofnanir, eru í smiðum áratugum saman vegna skorts á vinnuafli og öðru því, sem þarf til þess að hrinda þeim áleiðis, — áratugum saman í byggingu, og ástandið hefur farið versnandi í þeim efnum. Í samgöngumálum er sömu sögu að segja, ástandið sízt betra, því að það hefur verið sagt, og ég býst við, að það sé sagt með miklum rétti, að vegakerfi landsins fari versnandi að sama skapi og umferðarþörfin vex. E.t.v. væri ekki hægt að gera neitt, sem væri jafnarðgefandi fyrir íslenzkan þjóðarbúskap og einmitt það að ráðast í stórfellda vegagerð, leggja t.d. varanlega vegi á þeim leiðum, þar sem umferðin er mikil. E.t.v. eru engar framkvæmdir til, sem mundu bera sig jafnvel og einmitt þessar framkvæmdir.

Það er þess vegna alveg sama, hvar við lítum, að fram undan eru verkefnin ótæmandi og aðalvandamálið er þetta, að það vantar vinnuafl til þess að hrinda þeim áleiðis. Og mörg af þessum verkefnum, sem ég hef verið að minnast á, og náttúrlega fjöldinn allur annarra verkefna er svo aðkallandi, að núverandi framkvæmdahraði er með öllu gersamlega óviðunandi og hlýtur að verða að auka hann, t.d. í sambandi við opinberu framkvæmdirnar, ef skortur þeirra á ekki að verða stórfelldur fjötur um fót eðlilegum hagvexti þjóðarinnar á næstu árum eða áratugum. Það er alveg óhugsandi að búa t.d. við það ástand, þann framkvæmdahraða, sem er í vegamálum, í hafnamálum, í skólamálum, í heilbrigðismálum, svo að aðeins nokkur atriði séu nefnd. Það er alveg óhugsandi að búa við þann hraða, sem nú er í þessum greinum. Það verður að auka hraðann, ef þetta á ekki að verða stórfelldur fjötur um fót í atvinnurekstri landsmanna og almennum framförum. Þess vegna þýðir ekkert að vera að koma hér með vinnuaflsútreikninga eins og þá, sem settir eru fram í grg. þessa frv., þar sem verið er að reikna fram í tímann, að menn hafi svo og svo mikið vinnuafl miðað við óbreyttan framkvæmdahraða í þessum greinum, að því er manni skilst helzt, eða nokkurn veginn óbreyttan eða jafnvel minni. Það kemur ekki glöggt fram, við hvað miðað er, en a.m.k. kemur það glöggt fram, að það er ekki miðað við aukinn framkvæmdahraða. Það hefur enga praktíska þýðingu að draga upp slíkar myndir af vinnuaflsþörf þjóðarinnar og framkvæmdaþörf á næstu árum, ef menn ætla í alvöru að reyna að gera sér grein fyrir þeim vandamálum, sem í þessu sambandi verður að skoða og reyna að leysa, og enga þýðingu til rökstuðnings því, að óhætt sé að láta verða hér á næstu árum mörg þúsund milljóna fjárfestingu á vegum erlendra aðila, án þess að nokkur finni fyrir því í íslenzkum þjóðarbúskap eða nokkuð þurfi yfirleitt að víkja fyrir því, eins og var helzt að heyra á hæstv. ráðh. hér áðan. Það er ekki hyggilegt að leggja málin þannig fyrir, því að það er allt of gegnsætt.

Ef menn horfast í augu við þessi málefni af raunsæi, verða menn að gera sér grein fyrir því, að til þess að koma þessum stórframkvæmdum, sem hér eru ráðgerðar á vegum erlendra aðila, inn í íslenzkan þjóðarbúskap, þá verður eitthvað að víkja, meira að segja af því, sem nú á sér stað, hvað þá heldur af því, sem þyrfti að gera og ég hef aðeins drepið á.

Ofan á ofþensluna bætist sú ofþensla og ofsahræðsla, sem ríkir í landinu við stjórnarstefnuna í efnahagsmálum, og sú ofsahræðsla, sem ríkir í landinu við hæstv. ríkisstj. og hennar aðferðir í stjórnarmálefnum og veldur því, að ýmiss konar óhagkvæm fjárfesting á sér stað, og hún fylgir alltaf slíkri ofsahræðslu við efnahagsmálastefnuna, og með heilbrigðri efnahagsmálapólitík mundi slíkt vafalaust minnka og þannig koma eitthvert rúm í þjóðarbúskapnum fyrir betri framkvæmdir, ýmislegt af því, sem ég var að tala um hér áðan að vantaði. Það eru engar horfur á því, að hæstv. ríkisstj. ætli sér að breyta nokkuð til um efnahagsmálastefnu, og það er áreiðanlegt, að þessi ótti við hana og hennar stefnu fer sízt minnkandi, þannig að þessar framkvæmdir, sem eru byggðar á flótta undan hæstv. ríkisstj., minnka víst ekki á næstunni, þannig að það geri ástandið viðráðanlegra að þessu leyti.

Þess vegna er það alveg ljóst, að ef hæstv. ríkisstj. ætlar sér að hrinda því í framkvæmd, sem hún hefur samið um, og hv. Alþ. fellst á það, dæmir hæstv. ríkisstj. sig til þess að herða stríðið gegn framkvæmdum Íslendinga sjálfra í landinu, og þá er spurningin: Hvað á að verða fyrir barðinu á hæstv. ríkisstj. og hennar liði í því sambandi, og hvaða aðferðum ætlar hæstv. ríkisstj. að beita í þeirri styrjöld? Ætlar hún að beita áfram þeim aðferðum, sem hún hefur notað að þessu, eða ætlar hún að breyta eitthvað til? Aðferðin, sem hæstv. ríkisstj. hefur reynt að beita til þess að draga úr framkvæmdahraðanum og afleiðingum þess fjárfestingarkapphlaups, sem myndazt hefur og haldizt hefur við vegna ótta við hana sjálfa og hennar stefnu, hefur nær eingöngu verið fólgin í því að herða að viðskiptabönkunum, þ.e. að nota lánaskrúfu til að reyna að draga úr framkvæmdahraðanum.

Þessi lánaskrúfa, sem hæstv. ríkisstj. hefur sett á í gegnum viðskiptabankana með því að draga fjármagn þeirra í vaxandi mæli inn í Seðlabankann, hefur áreiðanlega verkað þannig, að mörg fyrirtæki íslenzk hafa fengið sig fullkeypt nú þegar, en þetta verkar eins og rekstrarfjárlánaskrúfa, og ef hæstv. ríkisstj. ætlar að vinna á móti áhrifum alúmínfjárfestingarinnar, þessarar gífurlegu fjárfestingar, með sömu aðferðum áfram eins og hún hefur reynt að vinna fram að þessu, til þess að hamla fjárfestingu, þ.e.a.s. með því að nota viðskiptabankana, þvinga þá á þennan hátt til þess að pressa sína viðskiptamenn, þá er ég hræddur um, að fari að verða þröngt fyrir dyrum á næstu missirum og næstu árum hjá ýmsum íslenzkum fyrirtækjum, og að það verði hreinlega gengið svo í þetta, að mörg af þeim verði að hætta rekstri, og hefur það þá kannske komið fram, sem sumir telja, sem fyrir þessu standa, að þurfi að koma fram, að eitthvað af þeim víki hreinlega fyrir því, sem á að koma. En aðra aðferð en þessa hefur hæstv. ríkisstj. ekki talið geta komið til mála, og því verður að gera ráð fyrir því, að hún haldi sér við þetta sama heygarðshorn og noti þessar aðferðir áfram með hinum alvarlegustu afleiðingum fyrir íslenzkt atvinnulíf.

Það er enginn vafi á því, að þessar aðferðir ríkisstj. hafa að einhverju leyti dregið úr fjárfestingu, — ég dreg það ekki í efa, — hjá þessum fyrirtækjum, en þá stundum þeirri fjárfestingu, sem sízt skyldi, einmitt þeirri fjárfestingu, sem mörg af þessum fyrirtækjum þyrftu að koma í framkvæmd til að auka framleiðni og vélvæðingu, eins og ýmsir atvinnurekendur hafa gert mjög skörulega grein fyrir á undanförnum missirum. Er þeir koma því ekki í framkvæmd vegna þessara aðfara, sem hæstv. ríkisstj. notar gagnvart viðskiptabönkunum, og svo neyðast þeir til að klemma þessi fyrirtæki og þau geta ekki aukið sína framleiðni og ekki sín afköst og geta varla borgað það kaup, sem fólkið þarf til þess að halda óbreyttri kaupgetu miðað við það, sem hún var fyrir 7 árum, vegna þess, hvernig að þeim er þrengt.

Það er þessi peningamálapólitík hæstv. ríkisstj., sem hún notar, og hún heldur, hæstv. ríkisstj., að það sé hægt að stjórna íslenzkum efnahagsmálum með peningapólitískum ráðstöfunum einum saman. En það er ekki hægt og hefur aldrei verið hægt og er að skýrast alltaf betur og betur, eftir því sem lengra líður, og aldrei mun það verða jafnömurlega ljóst eins og það verður á næstu missirum, ef hæstv. ríkisstj. heldur áfram með þessa áætlun, sem er verið að ræða í dag, og ætlar sér að mæta þessu með lánasamdrætti hjá íslenzkum atvinnuvegum, sem hefur, eins og ég segi, verið hennar eina leið til þess að hafa hemil á efnahagsmálunum. En þó að þjarmað hafi verið að fyrirtækjunum, hefur þetta ekki læknað verðbólguna, eins og kunnugt er, því að hún hefur haldið áfram. Það eru álit aðrir aðilar, sem dansa lausir og standa að verulegu leyti fyrir þeirri þenslu, sem við búum við. Þeir eiga sjálfsagt að halda áfram. En það eiga að verða íslenzk fyrirtæki, þ.e.a.s. þau, sem þurfa að sækja rekstrarfé til bankanna, og opinberar framkvæmdir, sem verða fyrir þessu og víkja. Það er þessi þáttur í þjóðarbúskapnum, sem á að taka þetta á sig. Það eru opinberar framkvæmdir og fyrirtæki, sem sérstaklega þurfa rekstrarfé hjá rekstrarlánabönkunum. Þetta er svo kallað frelsi, og á þessari frelsisbraut á að halda áfram. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ríkisstj. að láta eins og þetta sé ekki til. Þetta er öllum ljóst, sem fást við bankaviðskipti og þurfa að sækja fjármagn inn í peningakerfið til þess að sjá sínum atvinnurekstri borgið.

Það einkennilegasta er, að það skuli vera Sjálfstfl., sem hefur talið sig fram að þessu vera flokk atvinnurekenda í landinu, sem stendur fyrir pólitík af þessu tagi. Þetta hefði einhvern tíma þótt skrýtið, að sá flokkur stæði fyrir þessu. Og það er að verulegu leyti vegna þessa, að það er skipt alveg um menn í forustu flokksins. Það eru ekki lengur atvinnurekendur, sem hafa ráðin í Sjálfstfl., eins og einu sinni var. En atvinnurekendur, — hvað sem hægt er að segja um þá að öðru leyti, — voru yfirleitt kjarkmiklir menn, ekki hræddir, þeir voru yfirleitt kjarkmiklir menn, sem höfðu lagt í miklar framkvæmdir, mjög miklar sumir á okkar mælikvarða, og oft staðið frammi fyrir miklum vanda. Þetta voru menn, sem létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna, og ég geri ekki ráð fyrir því, hefðu þeir mátt ráða eða mættu ráða, að þeir stæðu fyrir pólitík af þessu tagi. Þeirra hugsun er allt öðruvísi, eins og kemur raunar fram í vaxandi mæli af ýmsum vitnisburðum, sem ganga nú úr herbúðum atvinnurekenda og koma illa heim við það, sem heyrist úr herbúðum ríkisstj.

Það er mikill munur á því mati, sem hæstv. ríkisstj. leggur á sína pólítík, og því mati, sem þeir, sem standa fremstir í íslenzku atvinnulífi, leggja á framkvæmdir og pólitík ríkisstj. Ganga vitnisburðir þétt, eins og kunnugt er og hefur oft verið til þeirra vitnað hér á Alþ. Ég skal ekki gera það núna. Það mætti þá síðar, ef eitthvað yrði vefengt í þessu. Það eru annars konar menn, sem hafa nú tekið forustuna í Sjálfstfl., eins og augljóst er, bæði af þeirri stefnu, sem upp hefur verið tekin almennt í sambandi við erlendan atvinnurekstur, og í sambandi við þá fjármálapólitík, sem rekin er.

Ég spurði áðan, hvað það væri, sem ætti að víkja. En hæstv. ráðh. talaði hér áðan eins og ekkert þyrfti að víkja, það væri hægt að halda öllum fyrirætlunum eins og áður og hægt að koma því öllu við, þó að þessi nýja stórfellda fjárfesting kæmi til greina. Ekki virðast allir vera jafnáhyggjulausir um þetta í stjórnarherbúðunum eins og hæstv. ráðh. og sumir vera nær því að viðurkenna staðreyndir en hann, a.m.k. að svo komnu, og í hópi þeirra má telja hv. þm. Benedikt Gröndal, sem um þessi efni ræddi í vantraustsumr. og gerði grein fyrir stefnu Alþfl. Hann sagði, að þegar til kæmi yrði annað að koma til á undan opinberum framkvæmdum, sem sé annað yrði að víkja fyrir þessu. Og þó að hæstv. ráðh. væri svona bjartsýnn í dag, hefur hann ekki alltaf verið svona bjartsýnn, því að í grein, sem hann ritaði um þessi málefni í Morgunblaðið, lýsir hann því yfir sem sinni stefnu og að því er manni skildist stefnu ríkisstj., að fyrir þessu verði að sjá, og segir hæstv. ráðh. orðrétt, með leyfi forseta:

„En fyrir því má sjá,“ — þ.e.a.s. vinnuaflsvandamálinu, — „með skipulögðum ráðstöfunum til þess í bili að draga úr öðrum framkvæmdum á vegum þess opinbera, ríkis og sveitarfélaga.“

M.ö.o.: talsmaður Alþfl. hefur lýst yfir, að hér yrði eitthvað annað að víkja á undan opinberum framkvæmdum, en hæstv. ráðh. hefur aftur á móti lýst yfir því, að það séu einmitt opinberar framkvæmdir, sem eigi að víkja.

Ég veit ekki, hvað á að leggja upp úr þessu öllu saman satt að segja. Það má vel vera, að það eigi að skipta með sér verkum þannig, að Sjálfstfl. eigi að segja við atvinnurekendur, að opinberar framkvæmdir eigi að víkja: Það er engin hætta fyrir ykkur, það verður ekkert við ykkur blakað eða ykkar fyrirætlunum. — Alþfl. eigi svo aftur á móti að segja við þá, sem finna sárt fyrir því, hve seint gengur með opinberu framkvæmdirnar: Hafið þið engar áhyggjur, það verður annað að víkja á undan opinberum framkvæmdum. — En eitthvað skýtur hér meira en lítið skökku við, og virðast þessi mál óuppgerð hjá hæstv. ríkisstj., hvernig á þessu eigi að halda, hvað það er, sem á að víkja fyrir þessum nýju framkvæmdum, hvað það er, sem á að draga í land af því, sem væri að öðrum kosti hægt að gera.

Það er full ástæða til í þessu sambandi — og ég geri það hér með — að spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún ætlar að breyta um starfsaðferðir í peningapólitík og efnahagspólitík eða hvort hún ætlar að halda starfsaðferðum sínum óbreyttum, þ.e.a.s. þeim að reyna að stjórna gegnum lánapólitíkina eina og sérstaklega gegnum rekstrarlánapólitík bankanna. Er ætlunin, að sú aðferð verði notuð áfram eins og verið hefur?

Ég hef nú rætt ofurlítið um það, hvort skynsamlegt væri að gera þennan samning og leggja út í að veita erlendum aðilum leyfi til að byggja alúmínbræðsluna, vegna þess að okkur vanti verkefni. Slíku er auðvitað alls ekki til að dreifa og við höfum fjölmargar heppilegri og vænlegri leiðir fyrir okkar þjóðarbúskap til þess að gera okkar atvinnulíf fjölbreyttara og þá á vegum Íslendinga sjálfra. Frá þessu sjónarmiði á því að mínum dómi ekki að koma til greina að leggja út á þessa braut.

En þá kemur spurningin, hvort það eru einhver sérstök vandamál af öðru tagi heldur en þau, að okkur vanti verkefni, sem gætu valdið því, að út í þetta ætti að leggja samt sem áður þrátt fyrir þá galla, sem á þessari leið óneitanlega eru.

Tvennt virðist mér þurfa að íhuga í því sambandi aðallega, eins og ástatt er í okkar þjóðarbúskap. Annað er það, hvort þetta gæti orðið til þess að auka á jafnvægi í byggð landsins, hjálpað til þess að leysa það stórkostlega vandamál. og hitt atriðið, sem ég kem að síðar, er það, hvort út í þetta ætti að leggja þrátt fyrir þá stórfelldu ágalla, sem á því eru, til þess að geta fengið viðunandi eða stórum betri lausn á raforkumálunum en ella. Ég mun ræða fyrra atriðið fyrst.

Það mun nú láta nærri, að það búi um 100 þús. manns á svæðinu frá Kollafirði og suður að Straumsvík og 93 þús. manna alls staðar annars staðar á landinu. Við búum því líklega við stórfelldara byggðavandamál en nokkur önnur þjóð. Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé nokkur önnur þjóð, sem býr við annan eins vanda í þessu tilliti, og þessi vandi er stórum vaxandi vegna þess, að þegar svo margt fólk tiltölulega er komið saman á einn stað, dregst atvinnureksturinn alveg vélrænt á þann stað. Þjónustufyrirtæki sækja vitanlega á að setja sig niður þar, sem mannfjöldinn er mestur fyrir, og það sama er að segja um allan heimaiðnað, allan iðnað, sem er byggður upp fyrir innanlandsmarkað. Hann sækir allur í það að vera á þessum sama stað, þar sem markaðurinn er orðinn svo stórfelldur og ósambærilegur við allt annað, sem í boði er markaðslega séð í landinu. Þess vegna verður alitaf verra og verra að rífa sig út úr þessum vanda, eftir því sem lengur líður og byggðin á þéttbýlissvæðinu hleður meira og meira utan á sig. Alltaf verður erfiðara og erfiðara að finna þau verkefni, sem hægt er að taka fyrir annars staðar og geta gefið þar góða raun, vegna þess, hvað aðstaða þeirra fyrirtækja, sem byggjast á innlendri þjónustu og iðnaði fyrir heimamarkað, verður sífellt misjafnari og misjafnari, eftir því sem þetta ósamræmi í byggðinni eykst. Því eykst alltaf hættan á því, að vandinn vaxi og að byggðin dragist meira og meira saman, enda sjáum við þetta glögglega. Ég veit satt að segja ekki, hvernig væri komið núna, ef ekki hefði komið síldarmokið við Austur- og Norðausturland síðustu missirin til þess að draga ofurlítið úr í þessu tilliti. Það, sem gæti munað mest um í þessu sambandi til lagfæringar, væri það, ef hægt væri að efla útflutningsframleiðsluna í strjálbýlinu og þá væri náttúrlega sérstaklega þýðingarmikið, ef væri hægt að koma þar upp útflutningsiðnaði. Þetta hafa menn mjög haft í huga á undanförnum árum, og hér var samþ. á sinni tíð í hv. Alþ. þáltill. sérstaklega um þessi efni, þar sem lagt var fyrir að athuga sér í lagi um möguleika á því að virkja Dettifoss með það fyrir augum, að stóriðja kæmi á Norðurlandi út frá þeirri virkjun. Þá var meginhugsunin, hvort þetta gæti ekki hjálpað til þess að stiga stórt skref í því að leysa byggðavandamálið. Með öðrum þjóðum er þessi vandi fyrir hendi, en miklu minni en hér. T.d. mun láta nærri, að í Osló búi um 17% af þjóðinni, en hér á Faxaflóasvæðinu yfir 50%. Telja Norðmenn sig þó búa við mikinn vanda, og eitt af því, sem þeir hafa gert að stefnumáli hjá sér, hreinlega stefnumáli, og er að finna í stefnuyfirlýsingum norsku ríkisstj., er að setja þau skilyrði fyrir stóriðju, að hún sé þannig sett í landi, að hún hjálpi til að leysa byggðavandamálið. Þetta hafa Norðmenn framkvæmt þannig, að þeir hafa gert það að skilyrði fyrir samningum sinum við erlenda aðila, t.d. um alúmínverksmiðjur, að þær yrðu staðsettar þar, sem sérstök þörf væri á vegna atvinnuástandsins, og hafa erlendir viðsemjendur Norðmanna orðið að sætta sig við að leggja fram hærri stofnkostnað til þess að uppfylla þetta skilyrði.

Nú er ekki því að heilsa, að þetta mál. sem hér er í uppsiglingu, verði til þess að hjálpa okkur til þess að leysa þennan vanda, heldur alveg þvert á móti, því að þessi þáltill. um rannsókn á Dettifossi í þessu sambandi og möguleikum á stóriðju á Norðurlandi hefur í raun og veru aldrei verið framkvæmd. Sú hugmynd að virkja Dettifoss hefur verið lögð til hliðar sýnilega mjög snemma í þessu máli og þá á þeim grundvelli, að það væri gert ráð fyrir aðeins 30 þús. tonna alúmínverksmiðju og ef ekki væri gert ráð fyrir stærri alúmínverksmiðju, væri Dettifossvirkjun ekki hentug fyrir alúmínvinnslu. En rétt eftir að þessu hafði verið lýst yfir í plöggum þeim, sem alþm. fengu um þessi málefni í fyrrahaust, var því svo aftur lýst yfir, að nú vildi hringurinn endilega hafa 60 þús. tonna alúmínverksmiðju, og átti þá vitanlega ekkert að vera til fyrirstöðu því, að þetta mál yrði endurskoðað, því að þá var komin sú stærð, sem hentaði Dettifossi. En þá fékkst ekkert á það hlustað á nokkurn hátt, og var auðséð, að það var búið að ákveða allt saman, búið að ákveða að staðsetja verksmiðjuna í Straumsvík og ekkert hlustað á till. um nýja athugun í sambandi við þessa breytingu, sem orðin var á málinu, og yfirleitt ekki á neinar uppástungur eða ábendingar um að finna aðra heppilegri staðsetningu fyrir verksmiðjuna en þá að setja hana hér á mesta þéttbýlissvæðið. Það er nú augljóst, að þessi framkvæmd mun auka stórkostlega byggðavandamálið í stað þess að hjálpa til að leysa það.

Í þessu sambandi hefur verið lagt fram frv. um atvinnujöfnunarsjóð og sagt, að það væri tengt þessu máli og þá m.a. vegna þess, að gert væri ráð fyrir, að í þennan atvinnujöfnunarsjóð færi nokkur hluti af skatttekjum alúmínvinnslunnar. Það er um þetta frv. um atvinnujöfnunarsjóð að segja, að svo langt sem það nær er það augljóslega afkvæmi þessa frv. um ráðstafanir til jafnvægis í byggð landsins, sem framsóknarmenn hafa flutt á fjórum þingum. En það er til marks um þann skilning, sem hefur verið varðandi þessi efni í herbúðum hæstv. ríkisstj., að því frv. var t.d. vísað frá vorið 1963 með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Telur deildin samþykkt frv. með öllu óþarfa.“

Ég hygg, að það hafi svo verið á þinginu áður eða þar áður, sem mikil áherzla var lögð á, að frv. af þessu tagi og ráðstafanir væru algerlega óþarfar, því að það væri þegar í gildi löggjöf, sem gerði ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi í atvinnubótasjóð, og það væru nægilegar ráðstafanir í þessu sambandi. En 1964, árið eftir, er aftur visað frá þessu sama máli með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Telur deildin ekki þörf nýrrar lagasetningar um þetta efni og samþykkt frv. því óþarfa.“

Síðan kemur árið 1965. Þá er ofurlítið farið að breytast hljóðið, og þá er að vísu lagt til að vísa málínu frá enn, en tekið fram í dagskránni, að ríkisstj. hafi ákveðið að undirbúa og leggja fyrir næsta þing. frv. til l. um framkvæmdasjóð strjálbýlisins. Það er sem sagt ofurlítið farið að skima, enda eru þá komnar á hraða ferð hugleiðingar hæstv. ríkisstj. um að setja upp stóriðju hér á aðalþéttbýlissvæðinu. Þá eru þeir aðeins byrjaðir að rumska.

Þetta frv., sem hér hefur verið lagt fram, er augljóslega afkvæmi þessa frv., sem flutt hefur verið á undanförnum árum. En okkar frv. gerði ráð fyrir, að 2% af ríkistekjunum yrðu sett í sérstakan sjóð til þess að vinna að auknum ráðstöfunum til jafnvægis í byggð landsins, og mundu það vera núna um 70—80 millj. og svo vaxandi, ef ríkistekjur fara vaxandi. Þetta frv., sem hér er gert ráð fyrir, er miklu smærra í sniðunum, enda þótt þessari nýju stórframkvæmd sé nú bætt við hér. Atvinnubótasjóðurinn, sem nú er, gengur inn í þessar tölur, sem nefndar hafa verið í sambandi við frv. og ríkisstj. greinir frá. Það er alveg óhætt að fullyrða, að það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er aðeins brot af því, sem hefði þurft að gera, þótt engin alúmínbræðsla hefði komið til. Það er óhætt að fullyrða þetta. Við sjáum svona hér um bil, hvernig skammtað er eða hve stórt er skorið, á því, að það mundi ekki vekja mikla athygli hér á Alþ. t.d., þótt einhver þm. skyti fram brtt. um að auka uppbætur um 30—40 millj. t.d. í einhverri grein eða niðurgreiðslur, svo að dæmi séu nefnd til þess að sýna stærð málsins. En okkur er sagt að hér séu á ferðinni stórfelldar ráðstafanir í jafnvægismálum. Það, sem hér gerist, er því, að hér er farið af stað of seint og það, sem gert er, er of lítið. Samt sem áður er þetta þó örlitill ávöxtur af þeirri baráttu, sem haldið hefur verið uppi. En þeirri baráttu verður vitaskuld haldið áfram, því að þetta er eins og krækiber í ámu að sjálfsögðu miðað við þá fjármuni, sem renna fram og aftur í þjóðarbúinu. Við sjáum bezt, í hvaða hlutfalli þessar ráðstafanir eru, þegar við berum þetta saman við uppbótagreiðslur og niðurgreiðslur og aðrar slíkar ráðstafanir. En það er þó auðséð, að vond samvizka hefur gert vart við sig hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við staðsetningu stóriðjunnar, og það kemur fram í því, að farið er að tengja tekjuöflun í atvinnujöfnunarsjóð skattgjaldi alúmínverksmiðjunnar. En því miður hossa þeir fjármunir ekki hátt, sem fljóta af því, og það er alveg vist, að við þyrftum ekki að innleiða stóratvinnurekstur erlendra aðila til þess að geta varið sem svarar andvirði 1—2 vélskipa á ári til jafnvægis í byggð landsins. En eitthvað þvílíkt er það, sem á að fljóta inn í atvinnujöfnunarsjóð frá stóriðjunni, enda fær þá ríkissjóður ekkert, ekki eina krónu frá alúmínhringnum til þess að leggja í almennar þarfir ríkisins, og þá verða aðrir íslenzkir atvinnurekendur og íslenzkir borgarar að taka að sér að standa undir þeim hluta af ríkisútgjöldunum almennu, sem atvinnurekstur hringsins að réttu lagi hefði átt að bera. Ekki er hátt á þessu risið, þegar þetta er skoðað í eðlilegu ljósi, og tæpast viðeigandi, að því er mér sýnist, að vera að hafa stór orð eða fyrirsagnir í þessu sambandi. Annað er það svo, að það má fá nokkuð stórar tölur með því að reikna alla líði 20—30 ár fram í tímann og vexti ofan á, eins og ríkisstj. gerir. Það væri fróðlegt, þegar hæstv. ríkisstj. er að koma hér með skattalög og bæta við álögurnar, að reikna út, hvað þetta yrði mikið fram að aldamótum með vöxtum og vaxtavöxtum. Það yrðu þokkalegar summur. Með svona reikningsmáta er náttúrlega hægt að berast talsvert á, — það er ekki hægt að neita því, — en hitt er svo annað mál, hversu rétta mynd þetta gefur af því, sem er að ske. En þetta geta orðið laglegar glansmyndir, þangað til farið verður að reikna skattana á sama hátt. Þá dregur gamanið af, og það er ómögulegt að vita, nema einhverjir finni upp á því. Maður veit aldrei, upp á hverju menn geta fundið. Nú byrja menn kannske á því að reikna skattana svona. Ég hugsa, að ríkisstj. geri það ekki, en það gæti verið, að einhverjir aðrir yrðu til þess.

Annars er það sannast bezt að segja um málefni eins og þetta frv. um atvinnujöfnunarsjóð, í sambandi við þetta mál og heildarmyndina, að það segir ákaflega lítið. Það er t.d. ekki lengi verið að taka aftur með hægri hendinni það, sem látið er með þeirri vinstri. Ríkisstj. þarf t.d. ekki að draga mikið úr opinberum framkvæmdum úti um land til þess að hafa þar á móti þessum einu eða tveim vélskipum, sem látið er hilla undir í sambandi við þetta nýja frv. Það dugir nefnilega ekki að líta á eitt atriði, það verður að líta á heildina. Það er enginn vandi fyrir ríkisstj. að sýna svona veiði og láta hana aldrei verða gefna, ef hún vill. Það fer allt eftir því, hvað hún gerir að öðru leyti til viðbótar því, sem hér er gert ráð fyrir. Það veltur t.d. á miklu, hvort stefna dómsmrh. verður ofan á, sem hefur lýst því yfir, að það eigi að draga úr opinberum framkvæmdum, eða hvort hv. þm. Benedikt Gröndal hefur betur, en þá kemur það raunar niður á einhverjum öðrum, — og hverjir verða það?

Hvort hér verður yfirleitt um nokkrar jafnvægisráðstafanir að ræða eða ekki, fer eftir heildarstefnunni, sem ofan á verður. Þetta er aðeins einn lítill liður, sem þetta frv. fjallar um. En það er óhætt að segja, að hvað sem þessu frv. líður um atvinnujafnvægissjóð, þá verður útlitið verra en nokkru sinni fyrr í byggðavandamálunum, ef verður úr þessum ráðagerðum, sem hér er stungið upp á.

Það er því síður en svo, að ástæða sé til að taka á sig þá áhættu, sem fylgir erlendum atvinnurekstri, til þess að fá með því stuðning í baráttunni við þetta mikla vandamál. Þar snýr allt öfugt, að þetta stóreykur þann vanda.

Þá eru það raforkumálin. Það er mikið gert úr þeim ávinningi, sem hljóti að verða í sambandi við raforkumálin, og þar notaði hæstv. ráðh. óspart þessa nýstárlegu reikningsaðferð, sem ég minntist á áðan, og reiknaði eða lét reikna fyrir sig og hefur látið reikna eftir sinni fyrirsögn með vöxtum og vaxtavöxtum langt fram í tímann, ég held til 1985. Við skulum íhuga raforkumálin og hvort þau knýja okkur til að leggja út á þessa braut. Ég vil halda því fram, að því fari alls fjarri, víðs fjarri. Búrfellsvirkjunin, virkjun Þjórsár við Búrfell er, að því er mér er sagt, hagstæðari virkjun en Íslendingar hafa nokkru sinni ráðizt í. Hún er hagstæðari fyrir Íslendinga, fyrir íslenzka rafmagnsnotendur en t.d. Sogsvirkjanir gætu verið í dag. En þó höfum við talið Sogsvirkjanir á undanförnum áratugum okkur mjög hagstæðar og verið stoltir af þeim. Þessi virkjun án alúmíns mundi gefa mun betri raun fyrir þjóðarbúið en þessar okkar uppáhaldsvirkjanir. Um það er svo ekkert að villast, að það er miklu léttara og miklu minna átak fyrir Íslendinga nú að virkja Þjórsá við Búrfell en að virkja Sogsvirkjanirnar á sinni tíð, einkum þó fyrstu virkjunina.

Hæstv. forsrh. var hér um daginn að leika sér að því að tala eitthvað um, að íslenzkum þjóðarbúskap hefði miðað aftur á bak á árunum fyrir styrjöldina, árunum fyrir 1940. Eg held, að þetta sé mikið öfugmæli hjá hæstv. forsrh., því að það er alveg ljóst mál, að á árunum næst fyrir styrjöldina, a.m.k. á árunum 1935—1939, miðaði mjög hratt áfram í íslenzkum þjóðarbúskap þrátt fyrir gífurleg vandkvæði, sem við var að fást. Og einmitt á þessum árum var fyrsta Sogsvirkjunin byggð. Það var mikið átak þá fyrir íslenzku þjóðina að byggja fyrstu Sogsvirkjunina. Hún kostaði sem samsvaraði nálega hálfum fjárlögunum þá. Það var ráðizt í þetta samt, það datt engum í hug, að það þyrfti að taka erlendan atvinnurekstur inn í landið til að koma þessu í framkvæmd. Þannig er núna miklu léttara fyrir Íslendinga að koma í framkvæmd Búrfellsvirkjuninni án alúmíns en var að koma upp Sogsvirkjuninni á sinni tíð.

Varðandi svo hitt, hvort það sé svo stórkostlegur ávinningur að hafa alúmínverið með, að það séu þess vegna takandi á sig öll þau vandkvæði, sem því fylgja, þá vil ég svara þeirri spurningu afdráttarlaust neitandi fyrir mitt leyti. Mér sýnist sá hagnaður mjög vafasamur og alveg borin von og líklegast, að hann verði enginn um það bil, er upp verður staðið. En þetta getur enginn okkar sýnt með tölum, hvorki ég né hæstv. ráðh. Þó að hæstv. ráðh. þykist vera að reyna, er það alveg út í bláinn, vegna þess að í þessu dæmi eru of margir óþekktir til þess, að hægt sé að komast að fastri niðurstöðu. En ég vil benda hér á nokkur atriði, sem sýna veilurnar í röksemdafærslu hæstv. ráðh. og sýna, að hann fer þannig með þetta mál, að það er ekki verjandi.

Í fyrsta lagi er þetta þannig vaxið, að hæstv. ráðh. telur með raforkuverðinu til þess að fá fallegra dæmið hluta af skattgjaldi hringsins og reiknar svo auðvitað með vexti og vaxtavexti langt fram í tímann, eins og aðra líði. Þetta munar eitthvað nálega 200 milljónum, aðeins þetta eina atriði. Hæstv. ráðh. sagði svo hér áðan, að það hefði enginn haft neitt við þessa útreikninga hans að athuga. Það fannst mér hraustlega talað eftir útvarpsumræðurnar, sem síðast voru haldnar. En þarna er strax 200 millj. skekkja. Í öðru lagi reiknar ráðh. með föstu verðlagi í landinu allan þennan tíma, og nær slíkt auðvitað engri átt, og þá óbreyttum rekstrarkostnaði. Enn fremur reiknar hann með óbreyttum kostnaði, a.m.k. að mestu leyti, meðan á byggingu stendur, sem er líka með öllu ólíklegt. Hæstv. ráðh. veit ekki, hvað það muni kosta að ráða við ísvandamálið, sem hefur áhrif á útkomuna úr þessu dæmi, og hæstv. ráðh. veit ekki, hve mikils muni þurfa að afla af varaorku með fokdýrum aðferðum, sem er stór liður í þessu dæmi og alger áætlunarliður. Og þar er ekkert við að styðjast, en ýmsir álita, að það sé of lítið áætlað fyrir því. Það er því með öllu óverjandi að birta tölur og útreikninga og slá föstu, þegar botninn er á þessa lund.

Þá skilst mér dæmið vera sett upp þannig, að það er ekki reiknað með því, að afgangsorkan geti orðið notuð til eins eða neins, ef alúmínhringurinn kemur ekki til. En mætti manni ekki leyfast að álita, að einhverjum gagnlegum fyrirtækjum yrði komið upp á Íslandi, ef það færist fyrir að koma inn þessum alúmínhring, sem yrðu þá orkunotendur? Og fleira kemur þar til greina, sem ýmsir aðrir hafa bent á.

Ég hygg, að ályktun hæstv. landbrh. um þetta efni sé miklu nær lagi en þetta skrumdæmi hæstv. iðnmrh., því að hann sagði hér í umr. um landsvirkjunarfrv. 4. maí 1965, að það mætti gera ráð fyrir lítið eitt dýrari raforku fyrstu árin, eftir að stórvirkjun yrði gerð, ef það yrði án alúmínverksmiðju, á meðan við værum að byggja markaðinn upp. Þetta sagði hæstv. landbrh. orðrétt. Ég geri ráð fyrir því, að þessi ályktun hans sé miklu nær því að vera skynsamleg en þær skrumtölur, sem hæstv. iðnmrh. er að birta og skora á menn að vefengja, en ekki eru byggðar á sterkari grunni en ég nú hef rakið.

Ég ætla síðan — með leyfi hæstv. forseta –af því að mér finnst, að það eigi vel við, að það komi hér inn í þessar umr. einmitt í hv. Nd. við 1. umr. málsins, að leyfa mér að lesa hér upp kafla úr ræðu um þetta efni, sem hv. þm. Sunnl., Helgi Bergs, flutti við vantraustsumr., þar sem hann tók einmitt þessi málefni til rannsóknar, því að hæstv. iðnmrh. talaði hér áðan eins og hann hefði alls ekki heyrt þetta. En það var á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Orka frá Búrfellsvirkjun mundi endast okkur einum til 1985, en með alúmínbræðslu aðeins til 1976, og ekkert liggur fyrir um, hvað þá taki við. Aðeins hlýtur að verða að gera ráð fyrir, að sú orka muni verða dýrari, þar sem Búrfellsvirkjun er talin ódýrasta virkjunin, sem völ er á. Birtar eru ýktar, villandi og beinlínis rangar frásagnir af því feiknafé, sem á að sparast við að selja útlendingum ódýrustu orku okkar. Í Morgunblaðinu 24. febr. birti Jóhann Hafstein grein, þar sem segir, — og það er efnislega það sama og hæstv. ráðh. hefur í grg. frv. og hann vísaði til áðan: „Sé munurinn á rekstrargjöldum frá ári til árs lagður á 6% vexti, safnast í sjóð, sem árið 1976 er orðinn rúmar 300 millj. og árið 1985 rúmar 600 millj., ef bræðsluleiðin er farin.“ — En svo segir þm. Sunnl.: „Og nú í kvöld er ráðh. kominn upp í 860 milljónir,“ en það er sú tala, sem hæstv. ráðh. mun hafa nefnt áðan. „En hvort tveggja er rangt og villandi. Í fyrsta lagi vegna þess, að reiknað er með 2.2 aurum á kwst. hærra rafmagnsverði frá bræðslunni fyrstu 6 árin en raunverulegt er, en þessir aurar eru millifærsla til Landsvirkjunarinnar af skatttekjum af verksmiðjunni. En gert er ráð fyrir, að fyrstu 6 árin renni 3/8 hlutar skattanna til Landsvirkjunarinnar. Með 6% vöxtum til 1985 nemur þessi munur 194 millj. miðað við samningsbundið orkumagn, og um þessa upphæð eiga útreikningar ráðh. í fyrsta lagi að leiðréttast. Í öðru lagi eru útreikningarnir villandi vegna þess, að orka Búrfells verður fullnotuð 1976, ef bræðsla verður byggð, og enginn veit, hvað sú orka, sem við bætist eftir það, kostar, því að engar viðhlítandi áætlanir hafa verið um það gerðar og enginn veit, hvar næst verður virkjað. Í þriðja lagi eru áætlanir um rekstrarkostnað virkjunarinnar vægast sagt ónákvæmar, m.a. vegna óvissunnar um ísmyndunina og þær truflanir, sem af henni leiðir. Þessi óvissa er viðurkennd af öllum sérfræðingum, sem um málið hafa fjallað, og mat þeirra á því, hversu varlegir eða óvarlegir útreikningarnir séu, er mismunandi. En jafnvel þó að fallizt væri á þessa útreikninga, hvað kemur þá í ljós? Sparnaður ráðh. ávaxtaður með 6% til 1985 og leiðréttur vegna skattamillifærslunnar var í febr. talinn 400 millj. og nú 660 millj. Það er hægt að fá háar tölur með því að reikna vexti langt fram í tímann. En hvað þýðir þetta í tölum, sem auðvelt er að átta sig á? Hvað þarf að spara árlega héðan í frá til 1985, til þess að það verði 400 millj. kr. þá með 6% vöxtum? Svarið er 10.9 millj. á ári, eða ef nýja talan er tekin, 660 millj., verður svarið 18 millj. á ári. Samkv. bjartsýnustu útreikningum ráðh. er þá meðalsparnaður á ári 10—18 millj. frá 1966—1985.

Þótt um þennan sparnað væri að ræða, fer því víðs fjarri, að það réttlæti, að ráðizt verði í alúmínbræðsluna, eins og nú er ástatt, og öðrum atvinnuvegum þar með stefnt í tvísýnu. Það er smápeningur miðað við það, sem í húfi er,“ segir hv. þm. Sunnl. „En svo fer því raunar víðs fjarri,“ heldur hann áfram, „að þetta sé allt sparnaður. Það er nefnilega að verulegu leyti lán hjá framtíðinni. Ef við seljum ódýrustu orkuna útlendingum, förum við sjálfir fyrr að nota dýru orkuna. Af hverju skyldi ráðherrann reikna dæmið til 1985, en ekki t.d. til 1995 eða þá til enda samningstímans 2014? Það er af því, að upp úr 1985 fer að koma í ljós, hvernig þessi sparnaður hefnir sín, þegar við förum að nota dýrari orkuna sjálfir. Þá þarf að fara að borga lánið, sem nú á að taka, í rafmagnsreikningum okkar í framtíðinni. Það verða önnur sjónarmið en rafmagnsgróði að ráða um það, hvort hér verði útlend stóriðja eða ekki,“ segir hv. þm. Sunnl.

Ég held, að það þurfi ekki um þetta að bæta til þess að sýna fram á það, hvaða gagn er að þessum skreyttu reikningum hæstv. ráðh., sem hann hefur sjálfur gefið forsendurnar í. En auðvitað er rétt reiknað út frá þeim forsendum, sem hann setur sjálfur í dæmið.

Þá ber líka þess að gæta, að það hefur tekizt þannig til, að raforkuverðið á að vera hér 28% lægra en t.d. í Noregi, sem er sambærilegast og næst, og þá ekki heldur von á góðu, enda voru hringsins menn hróðugir mjög yfir því, að þeir hefðu fengið lægsta rafmagnsverð, sem þeim hefði nokkurs staðar verið gefinn kostur á. Mér er spurn: Hvernig getur staðið á því, að hæstv. ríkisstj. skuli fylgja þessu fram með slíku ofurkappi sem hún gerir? Og það er tæpast hægt að finna á þessu nokkra skýringu aðra en helzt þá, að hæstv. ríkisstj. hafi gengið til þessara samninga heltekin af þeirri minnimáttarkennd, að Íslendingum væri um megn að leysa raforkumál sin nema í tengslum við stóriðju útlendinga, og setið síðan föst í þessu allan tímann og ekki getað rifið sig út úr því. En það á sér enga stoð í veruleikanum, að þess hafi þurft eða verið skynsamlagt, eins og ég tel, að sýnt hafi verið fram á, sérstaklega í því, sem ég hafði eftir hv. þm. Sunnl., sem hefur kynnt sér þetta mál mætavel.

Ég tel mig hafa sýnt fram á, að það, sem hér stendur til, er ekki heppilegasta leiðin til þess að gera atvinnulífið hér í landinu, — ég segi ekki íslenzkt atvinnulíf, heldur segi ég: til að gera atvinnulífið hér í landinu fjölbreyttara. Þvert á móti eru allt aðrar leiðir miklu heppilegri til þess. Þetta stóreykur okkar byggðavandamál. sem er mjög stórfelldur þáttur í þessu efni, og þetta verður vægast sagt vafasamur hagnaður fyrir raforkumál landsmanna.

Ég ætla ekki að fara mikið út í það núna, að ræða þann samanburð, sem gerður hefur verið á tekjum af samningi þessum fyrir þjóðarbúið annars vegar og svo fiskveiðum eða íslenzkum atvinnurekstri hins vegar. En það verð ég að segja, að þeir reikningar þurfa sannarlega endurskoðunar við ekki síður en þessir rafmagnsreikningar. En ég hef ekki haft aðstöðu til að leggja vinnu í að fá mér aðstoð til að kryfja það dæmi til mergjar, en ég gæti trúað því, að þar ætti eftir að koma eitthvað krumfengið fram ekki síður en í sambandi við rafmagnsútreikningana, því að okkur er boðið upp á þá fullyrðingu, að íslenzka þjóðarbúið eigi að hafa 600 þús. kr. upp úr hverjum manni, sem vinnur hjá alúmínhringnum, en við höfum ekki nema, — ég held, að ég muni það rétt, –250 þús., segja þessir sömu menn, eða svo upp úr hverjum manni, sem vinnur við sjávarútveginn. Þessar röksemdir er okkur boðið upp á. Ég hygg, að það sé strax sú endaleysa í þessu dæmi, að það séu ekki dregnar frá í dæminu þær greiðslur, sem eiga að fara til útlanda vegna greiðslna af raforkuláninu. Ég hygg það, en mun strax leiðrétta þetta, ef svo er ekki. (Gripið fram í.) Er það dregið frá? Það má skoða það náttúrlega, gefa sér tóm til þess. En a.m.k. á einu stigi þessara mála var það nú ekki gert, og það vekur grun hjá mér, að þessi tala er óbreytt enn, 600 þús.

En við skulum athuga þetta, leggja á borðið fyrir okkur, hvernig þetta er vaxið. Þeir eiga að borga sama kaup og borgað er í sjávarútvegi. Ég geri ekki ráð fyrir, að þeir ætli sér að borga hærra kaup en gert er hér í sjávarútvegi upp og ofan. Íslenzkur sjávarútvegur þarf ekki síður þjónustu ýmsa í landinu en alúmínhringurinn, og ekki ætla þeir að borga hærra kaup en íslenzkur sjávarútvegur gerir og aðrir, sem í kringum hann eru, borga fyrir sína þjónustu. Það á allt að vera á sama grundvelli. Við vitum vel, að þó að gengið hafi skrykkjótt stundum í íslenzkum sjávarútvegi, hefur orðið stórkostleg eignamyndun í landinu á vegum íslenzks sjávarútvegs, ekki aðeins fiskiskip, heldur líka allur fiskiðnaðurinn, sem hefur byggzt upp. Það er engin smáræðis nettó-eign, sem í landinu hefur byggzt upp á vegum þessa atvinnurekstrar, og ef við deilum því niður á fólkið, sem vinnur að þessu, kemur það inn í þessa meðaltölu umfram kaup. Hvað ætlar hringurinn að borga? Hann ætlar að borga kaup eins og hinir, en engan gróða inn í landið. Íslenzkur sjávarútvegur borgar mikla skatta. Það eru engir smáræðis skattar, sem hann borgar, og ég leyfi mér að draga í efa, að þetta gjald, sem hringurinn á að borga, verði meira á mann en í sjávarútvegi, stundum a.m.k. Ég skal þó ekki segja, þegar illa gengur. En sem sagt, báðir aðilar borga skatta. En gróði sjávarútvegsins og afskriftafé er í landinu, í þessari stórkostlegu eignasöfnun, og hann kemur inn í þetta dæmi. En gróði hringsins fer allur út úr landinu. Hann kemur aldrei til Íslands og afskriftaféð ekki heldur, ekki króna. Verksmiðjan flyzt út úr landinu jafnótt og hún slitnar, ef svo mætti segja. Hún fer sína leið, og ekkert byggist hér upp á vegum fyrirtækisins, — ekki neitt. Samt er sagt, að fyrir íslenzka þjóðarbúið eigi að fást tvöfalt meira á mann út úr þessu fyrirtæki en út úr íslenzkum sjávarútvegi. Þetta þarf áreiðanlega endurskoðunar við. Það er gersamlega fyrir ofan minn skilning, hvernig svona dæmi eru gerð. Ég sagði um daginn einu sinni, að þetta væri svona álíka og að halda því fram við okkur, að það væri arðvænlegra, kæmi meira út úr því fyrir Íslendinga, að t.d. útlendingar rækju hér fiskiðjuver og báta. Verulegur hluti af bátaaflanum færi úr landi eða kæmi aldrei til Íslands. Og það ætti að vera einhver sérstakur búhnykkur að því. Ég skil ekki þetta. Og þetta þarf áreiðanlega gaumgæfilegrar endurskoðunar við. Mér þætti það ekki mikið, þó að í þessu dæmi yrðu ekki síður veilur en í öðru því talnamoði, sem hæstv. ráðh. hefur dreift út í sambandi við þetta mál.

Það er skýlaus réttur í samningnum til þess að flytja inn erlent vinnuafl og af og til gefið í skyn, að vinnuaflsvandamálið skuli leysa með því. Hæstv. ráðh. segir stundum að ekkert vinnuaflsvandamál sé um að ræða. En í þessari margumtöluðu grein, sem hann ritaði í Morgunblaðið nýlega, viðurkennir hann, að vinnuaflsvandamálið sé verulegt, og talar m.a. um að leysa það með því að flytja inn erlent vinnuafl. Ég skal ekki fara langt út í þetta, en ég vil bara segja, að mér sýnist réttur útlendinganna alveg skýlaus til þess að flytja inn vinnuafl, og mér sýnist, að þeir muni gera það. Svo framarlega sem ekki verður búið að þrengja svo að íslenzkum atvinnuvegum, að vinnuaflið verði laust handa hringnum, þá koma þeir með erlent vinnuafl. En það tel ég hið mesta óráð að fara að byggja hér upp atvinnurekstur á erlendu vinnuafli. Sannleikurinn er sá, að við höfum mikið vandamál hér í sambandi við veru útlendinga í landinu, þó að þeir séu ekki hér við framkvæmdir. Þar á ég við varnarliðið og allt í sambandi við það. Það mundi ekki vera hyggilegt fyrir okkur að bæta öðru hliðstæðu vandamáli við. Sannleikurinn er sá, að dvöl stórra erlendra vinnuflokka í ýmsum löndum er þegar orðin að stórkostlegu vandamáli og það meðal stórþjóða, og þeir fylgjast ekki mikið með í nálægum löndum, sem gera sér ekki grein fyrir því, að þar er vandi á ferðum.

Sérréttindi margs konar er gert ráð fyrir, að þessir aðilar hafi í samanburði við íslenzka atvinnurekendur. Það á að vera sérregla um þeirra skatta. Þeir eiga ekki að breytast í 25 ár, þó að skattar á Íslandi breytist yfirleitt. Það er sett nú regla um þetta, sem á að gilda í 25 ár fyrir þessa aðila, en þó að íslenzkir skattar hækki á þessum 25 árum, eiga þeir ekki að taka neinn þátt í því. Þetta eru því sérréttindi, sem þeir hafa í því tilliti. Tollfrelsi eiga þeir einnig að hafa, sem er mjög þýðingarmikil sérréttindi, og það mundi sannarlega birta hjá íslenzkum atvinnurekendum, ef þeir gætu fengið að búa við tollfrelsi, og mundi verða nokkuð ólík útkoma hjá ýmsum íslenzkum atvinnugreinum, ef búa mætti við algert tollfrelsi. Ég er hræddur um, að samanburður um þessi efni mundi ekki verða hagstæður fyrir þennan rekstur, ef dæmið um íslenzka atvinnuvegi væri gert upp, án þess að nokkrar tollgreiðslur kæmu þar til greina af vélum eða hráefnum eða nokkru því, sem til þarf. Það væri fróðlegt að setja upp slíkt dæmi. Þá mundi það koma bezt í ljós, hve stórkostleg sérréttindi það eru, sem hér eru ráðgerð.

Eigendur hlutabréfanna, þeir, sem eiga hlutabréfin í þessu fyrirtæki, sem eru Swiss Aluminium, eiga ekki að borga neinn eignarskatt af þeim og engan tekjuskatt af arðinum, sem úthlutað er á þessi hlutabréf. En íslenzkir atvinnurekendur verða að borga skatt af sínum hlutabréfum og þeir verða að borga líka skatt af þeim arði, sem þeir fá úthlutað úr fyrirtækjunum af hlutafénu. Hér er líka um mjög stórkostleg sérréttindi að ræða til handa þeim erlendu aðilum, sem eiga að leggja í þennan atvinnurekstur.

Þá er þýðingarmikið atriði, sem hefur verið talað um, og m.a. var rætt um í sambandi við ályktanir framsóknarmanna, miðstjórnarinnar, og það var, að fyrirtæki, ef til kæmi, yrði að lúta algerlega íslenzkum lögum. En því fer alls fjarri, að það sé gert ráð fyrir því í þessu sambandi, því miður, því að þetta á ekki að ganga undir íslenzka lögsögu eða íslenzka dómstóla, og hér er um mjög alvarlegt málefni að ræða. Ég held, að það sé einfaldast, að það komi hér inn í umr., 1. umr. máls f hv. d., álit hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafs Jóhannessonar prófessors, sem hann lét í ljós um þetta efni í vantraustsumr. á dögunum, og a.m.k. vil ég leyfa mér að vitna til þess, og ég mundi telja, að hann væri af flestum talinn vel dómbær ekki sízt um þennan þátt málsins. En hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er og vitað, að gert er ráð fyrir sérstöku og alveg óvenjulegu réttarfari í ágreiningsmálum, sem rísa kunna út af stóriðjusamningunum eða í sambandi við þá. Í þeim málum eiga íslenzkir dómstólar ekki að hafa lögsögu, nema um það verði samkomulag á milli aðila. Þau ágreiningsmál eiga að fara fyrir eins konar alþjóðlegan gerðardóm, sem sitja skal í útlöndum og skipaður skal fulltrúum frá aðilum, en oddamaður tilnefndur af þeim í sameiningu. En ef samkomulag næst ekki, þá af forseta Alþjóðadómstólsins.

Segja má, að þetta væri ekki athugavert, ef um væri að ræða venjulegan milliríkjasamning. En hér er ekki um milliríkjasamning að ræða. Hér er ekki um samning milli tveggja ríkisstj, að tefla. Hér er um að ræða samninga ríkisstj., Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar við einkafyrirtæki. Eftir öllum venjulegum reglum heyra ágreiningsmál út af slíkum samningum undir almenna dómstóla, þar sem málið er hafið, þ. e. hér á landi, undir venjulega dómstóla, alveg án tillits til þess, hvort samningsaðili er innlendur eða útlendur. Þetta er viðurkennd regla í öllum réttarríkjum. Ég efast um, að í nágrannalöndum okkar séu fordæmi fyrir því, að ríkisstj. semji hliðstæð mál undan eigin dómstólum. Krafa einkafyrirtækis, erlends hlutafélags, um að taka þessi ágreiningsmál undan lögsögu íslenzkra dómstóla hlýtur að byggjast á vantrausti á íslenzku réttarfari og tortryggni í garð íslenzkra dómstóla. Á bak við hlýtur í raun og veru að búa sú skoðun, að hér sé ekki fullkomið réttarríki.

Víst er þetta óvenjulegt og óviðunandi, þegar um er að ræða ágreining hins svissneska hlutafélags við stjórnarvöld hér á landi. En þó ofbýður manni þá fyrst, þegar gert er ráð fyrir, að sama regla gildi um ágreiningsmál út af samningum við hið Íslenzka álfélag, sem svo er kallað. En það félag er látið heita íslenzkt félag, á að skrásetjast hér sem slíkt, á samkv. orðanna hljóðan að fara að íslenzkum lögum og hafa stjórn, sem að meiri hl. er skipuð íslenzkum ríkisborgurum. Hérna á ríkið að semja svo um, að ágreiningsmál þess, Hafnarfjarðarkaupstaðar eða Landsvirkjunar við íslenzk hlutafélög séu tekin undan íslenzkum dómstólum og fengin alþjóðlegum gerðardómi til úrlausnar. Fyrr má nú rota en dauðrota. Og hvernig í ósköpunum er hægt að kalla það íslenzkt félag, sem lýtur ekki lögsögu íslenzkra dómstóla? Ég efast ekki um, að ráðh. hafi lagt sig allan fram við þessa samningsgerð, og ég efast ekki um, að ráðh. hafi ýmsu fengið breytt til batnaðar í þessum samningum. Ég tel víst, að hann hafi reynt að fá breytingu á þessum ákvæðum. En það hefur ekki tekizt. Þá hefði hann að mínum dómi átt að setja hnefann í borðið og segja: Hingað og ekki lengra. — Undir svona nokkuð er ekki hægt að skrifa fyrir fullvalda ríki, sem vill telja sig í hópi réttarríkja. Það er niðurlægjandi og í því felst frekleg móðgun, bæði gagnvart þjóðinni og íslenzkum dómstólum. Og ég verð að segja það eins og það er, að ég vorkenni dómsmrh. að verða að ganga undir það jarðarmen að undirrita slíkt. Finnst mönnum nú vanþörf á, að svona samningar séu bornir undir kjósendur, áður en þeir eru undirskrifaðir?“

Þetta sagði hv. þm. um þessi efni, og undir þetta vil ég leyfa mér að taka og til þess að visa, og við þetta hef ég ekki neinu að bæta. En þegar viðtal var birt við forráðamenn alúmínfélagsins um þessa samninga, var sagt frá því í ríkisútvarpinu, hvernig orð hefðu fallið um þennan þátt málsins, og þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Um það ákvæði samningsins, að skipaður yrði alþjóðlegur gerðardómur til að skera úr ágreiningsmálum, sem hugsanlega gætu risið milli Swiss Aluminium og íslenzka ríkisins varðandi verksmiðjuna, sagði hann, að þessi samningur væri einstæður að því leyti.“

Ég held, að það komi nokkuð vel heim við það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði um það, sem hér á að gerast, og um það, hvernig hann fann til í sambandi við þetta og hvaða dóm hann lagði á þessar fyrirætlanir.

Ég hef rakið þetta efni nokkuð almennt og einstaka þætti málsins og fer nú að ljúka máli mínu. Ég geri ekki ráð fyrir því, að neinn sé hissa á því, miðað við þá stefnu, sem Framsfl. hefur haft í þessum málum, og þær samþykktir, sem af flokknum hafa verið gerðar, þó að Framsfl. ákvæði það eftir jólin, þegar tilkynnt var opinberlega um þessa samningagerð, og því væri þá lýst yfir af Framsfl. hendi, að hann mundi beita sér á móti samningunum, enda vissu menn þá um flest þau atriði, sem nú eru komin fram, þó að ekki væri hægt að greina frá þeim þá, því að þm. hefðu fengið málið afhent sem trúnaðarmál.

Ég vil svo aðeins segja að lokum, að mér sýnist augljóst, að mörg þúsund milljóna fjárfesting erlendra aðila verki eins og olía á verðbólgueldinn. Margar leiðir eru opnar til þess að gera atvinnulífið fjölbreyttara á vegum Íslendinga sjálfra, og fæstu af því er hægt að koma í framkvæmd vegna manneklu. Skortir því sízt verkefnin. Þegar fyrirhuguð er stórframkvæmd erlendra aðila, verður að ryðja til hliðar íslenzkum atvinnurekstri og lífsnauðsynlegum, opinberum framkvæmdum landsmanna sjálfra. Með samningi þessum yrði hleypt inn í landið sterku, erlendu auðfélagi, sem nyti fjölmargra sérréttinda umfram landsmenn sjálfa. Engar líkur eru til þess, að samningurinn mundi leiða til lægra raforkuverðs í landinu, þegar fram í tímann er litið, og Búrfellsvirkjun án alúmínvers er hagstæðasta virkjun, sem Íslendingar hafa nokkru sinni átt kost á. Stórfelld erlend fjárfesting, þar sem þenslan er mest, magnar byggðavandamálið og gerir það hættulegra en nokkru sinni. Breytir það ekki þessari staðreynd, þótt verja eigi nokkrum milljónatugum árlega framvegis til framkvæmda úti um land, en þær ráðstafanir eru þó aðeins brot af því, sem gera hefði þurft, þótt engin stóriðja á þéttbýlissvæðinu kæmi til greina, og þessar ráðstafanir er auðvelt að gera að engu með því að draga úr öðrum framkvæmdum í þessum byggðarlögum. Full ástæða er til að ætla eftir yfirlýsingum úr ráðherrastólunum sjálfum, að það sé það, sem eigi að gera.

Samningur þessi hefur inni að halda ákvæði, sem jafngilda niðurlægjandi vantrausti á íslenzkum dómstólum og íslenzkri réttargæzlu og eru því vansæmandi fyrir íslenzku þjóðina. Það ber því að mínu viti að hafna þessum samningi, sem mætti kalla óhagstæðan forréttindasamning. Framsfl. mun því beita sér gegn löggildingu samningsins. Á hinn bóginn tel ég eðlilegt, að nál. komi fram, og mun því ekki ganga gegn því, að frv. fari til 2. umr. og nefndar.