05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í dag gerði ég að umtalsefni í nokkrum orðum ákvæðin um aðflutnings- og útflutningsgjöld, sem eru í 14. gr. samningsins, aðalsamningsins, sem fylgir þessu frv. Ég benti á það, að í þessari gr. er tekið fram, að undanþeginn skuli aðflutningsgjöldum innflutningur af hálfu ISALs, eða fyrir þess hönd eða verktaka, sem ISAL ræður til sín, á öllum efnum, vélum, ökutækjum, eldsneyti, smurningsefnum, búnaði og vistum, þar á meðal auka- og varahlutum til notkunar, neyzlu eða ísetningar við byggingu bræðslunnar, og enn fremur innflutningur af hálfu ISALs eða fyrir þess hönd til neyzlu, notkunar og vinnslu af hálfu ISALs á hráefnum, eldsneyti og smurningsefnum, vélum, búnaði, vistum, sérstökum prömmum, farartækjum og umbúðum, auka- og varahlutum, sem ISAL þarf á að halda til rekstrar bræðslunnar. Allt á þetta að vera undanþegið aðflutningsgjöldum. Nú liggur það í hlutarins eðli, að ekki hefði hinn útlendi viðsemjandi ríkisstj. farið fram á þessar undanþágur, ef hann ekki ætlaði sér að flytja inn þessar vörur, enda er séð fyrir því í 18. gr. samningsins, að hann hefur rétt til þess, og skal ég víkja að því nánar. Ég lét uppi þann skilning minn á þessu, að fyrirtækið ISAL gæti flutt þessar vörur inn án tolla og söluskatts, því að það er ákvæði um söluskattsundanþágu í 31. gr. samningsins. Ég benti á það, að fyrirtækið mundi ekki hafa þörf fyrir vistir, hvorki við byggingu eða rekstur bræðslunnar, nema það ætlaði að nota þær handa þeim verkamönnum, sem hjá því vinna við bygginguna og reksturinn. Þeir gætu sett upp og mundu hugsa sér að setja upp mötuneyti fyrir verkafólk, og samkv. þessu gætu þeir flutt inn vistir handa þessu fólki án þess að greiða af þeim nokkra tolla eða söluskatt. Hæstv. iðnmrh. kvaddi sér hljóðs, þegar ég hafði lokið mínu máli og hélt því fram, að þetta væri á misskilningi byggt hjá mér, og hann benti þarna á sérstaka mgr. í þessari 14. gr., þ.e.a.s. 14.02, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Benzín, neyzluvörur til persónulegra nota, matvæli, skrifstofuvörur, fólksbifreiðar og önnur ökutæki, sem eru ekki notuð beint í byggingu og rekstri bræðslunnar, skulu ekki undanþegin aðflutningsgjöldum.“

Þetta breytir engu um það, sem ég sagði áður. Áður er búið að tala um að undanþiggja vistir t.d., sem notaðar verði við byggingu og rekstur bræðslunnar. Þarna er aðeins verið að taka fram,að matvæli, sem ekki séu notuð beint við byggingu og rekstur bræðslunnar, skuli ekki undanþegin aðflutningsgjöldum. Það er þarna í næsta lið einnig talað um efni, vistir, vörur og búnað af sérhverri tegund, sem flutt sé inn tollfrjálst, en síðan sé notað annars staðar en á bræðslulóðinni, af því skuli greiða aðflutningsgjöld. Það er dálítið skrýtið orðalag á þessum lið þarna, 14.03. Þar segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Efni, vistir, vörur og búnaður af sérhverri tegund, sem flutt er inn tollfrjálst til notkunar á bræðslulóðinni en síðan er ráðstafað á Íslandi, skal háð aðflutningsgjöldum.“

Það lítur út fyrir, að þeir, sem sömdu þetta, hafi talið, að bræðslulóðin væri ekki á Íslandi. Ég hygg, að þeir útlendu hafi nú samið þetta, en íslenzkir aðeins þýtt enska textann á íslenzku án þess að beita mikilli hugsun við það. (Gripið fram í.) Því er eiginlega slegið föstu þarna, að bræðslulóðin sé ekki á Íslandi. Það er nú út af fyrir sig ekki stórt atriði, en hitt er stærra atriði, ef hið útlenda fyrirtæki eða ISAL, sem á nú að heita íslenzkt, getur flutt inn það, sem því sýnist, þ. á m. vistir, tollfrjálsar og söluskattsfrjálsar, til notkunar handa sínu fólki við bræðsluna. Og ég hef þann skilning á ákvæðum 18. gr., að þeir geti þetta. Þar segir í upphafi þeirrar gr. með leyfi hæstv. forseta:

„Við byggingu og rekstur bræðslunnar skal ISAL veita forréttindi: a) efnum og framleiðsluvörum af íslenzkri gerð eða uppruna, að því tilskildu, að þær séu samkeppnisfærar um verð og gæði við efni og framleiðsluvörur af erlendum uppruna.“

En hvað ætli það verði mörg framleiðslufyrirtæki íslenzk, sem verða samkeppnisfær við þau útlendu, þegar ekki á að taka nein aðflutningsgjöld eða söluskatt af hinum útlenda varningi? Ég hygg, að það sé tómt mál að tala um það, að ISAL hafi viðskipti við íslenzk fyrirtæki. Síðar í þessari 18. gr., þ.e. 18.03, segir svo:

„Með fyrirvara um ákvæði mgr. 18.01,“ — þ.e. sú, sem ég var að lesa áðan, — „mun ríkisstj. ekki setja neinar takmarkanir eða fyrirmæli varðandi: a) kaup og innflutning á neinum efnum, framleiðsluvörum né þjónustu af öðrum uppruna en íslenzkum til notkunar við byggingu og rekstur bræðslunnar.“

Þarna er því slegið föstu, að það skuli ekki setja nein höft á þá í þessu efni, þeir geti flutt inn það, sem þeim sýnist, þ. á m. landbúnaðarvörur erlendis frá, eða ég skil þetta þannig. Þarna er talað um framleiðsluvörur af öðrum uppruna en íslenzkum, og það er búið í 14. gr. að undanþiggja vistir aðflutningsgjöldum.

Ég vildi nú, því að hæstv. landbrh. er hér viðstaddur nú á fundinum, spyrja hann að því, hvort hann hafi gert sér ljóst, hvað í þessum ákvæðum felst. Ég tel, að það sé ekki hægt að skilja þetta öðru vísi en þeir eigi að hafa frelsi til að flytja inn m.a. landbúnaðarvörur til notkunar handa sínu fólki þar í Straumsvík. Hefur þetta alveg farið framhjá hæstv. landbrh. eða hefur hann gert sér þetta ljóst, og hefur hann samþ. þetta eða ætlar hann að samþykkja það? Mér þykir það ákaflega ótrúlegt, að hann hafi gert það eða ætli að gera það, en mér þætti mjög fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðh. um þetta einmitt nú, áður en þessari umr. lýkur.

Hæstv. forsrh. sagði í sinni löngu ræðu hér í kvöld, að þéttbýlið væri undirstaða landbúnaðarins eða eitthvað var það á þá leið, sem orð hans féllu. En ef þetta verður nú svona, að ISAL getur flutt inn eftir vild landbúnaðarvörur erlendis frá handa sínu fólki, sýnist mér, að þéttbýlið í Straumsvík verði ekki örugg undirstaða undir íslenzkum landbúnaði. Ég fæ ekki séð það. Ég tel þetta mjög alvarlegl mál.

Eins og ég sagði í dag, er náttúrlega margt fleira í þessum samningi, og aðrir hafa gert það að umtalsefni, en ég tel þetta mjög alvarlegt mál, eitt af þeim, sem hefði þurft að athuga betur, og ég tel ekki hægt fyrir okkur að samþykkja þetta frekar en ýmislegt annað, sem í þessu frv. er.