05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að láta þetta mál fara hér út úr hv. d. án þess að blanda mér nokkuð inn í umr. og þá ekki sízt í sambandi við rafmagnsmálin, virkjunarmálin og rafmagnsverðið, en vegna þess að það er nú meiningin að koma málinu til n. í nótt og orðið nokkuð áliðið, hef ég hugsað mér að fresta minni ræðu þangað til við 2. umr. að öðru leyti en því að svara í aðeins örfáum orðum fsp. hv. I. þm. Norðurl.v.

Ég er dálítið undrandi á því, að hann skuli vera með fsp. í þessu formi, vegna þess að ef þessi gr. er lesin öll í gegn, er það alveg ljóst, hvað um er að ræða. Mér dettur í hug, að ástæðan til fsp. sé sú, að hv. þm. hafi í byrjun ekki lesið alla 14. gr., en ef gr. er öll lesin, kemur greinilega í ljós, að það ber að greiða toll af matvælum og neyzluvörum til persónulegra nota o.s.frv., eins og stendur í gr. 14.02. En matvörur til verksmiðjurekstursins, það er ekki gert ráð fyrir, að verksmiðjan sjálf noti matvæli, og ég hef skilið þessa gr. og einnig þá 18. þannig, að það komi ekki til greina, að það verði fluttar inn landbúnaðarvörur sérstaklega með fríðindum til verksmiðjunnar, og ég hygg, að hv. þm., ef þeir lesa bæði 18. gr. og 14. gr., sjái, að það er enginn vafi á því, að þannig beri að skilja það, og það er þess vegna, sem það er tekið fram, að matvæli skuli vera með sérstökum ákvæðum í 14. gr.