05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það kom mér mjög á óvart að verða þess var, að ég hafði sært minn gamla vin og félaga, hv. l. þm. Austf., Eystein Jónsson, með mínum orðum. Því fór fjarri, að það væri mín ætlan, en það sýnir einungis, að komið er við kviku, þegar á þessi mál er minnzt. Ég tók einmitt fram í mínum orðum, að ég efaðist ekki um góðan vilja þessa hv. þm., þegar hann var ráðh. og þáv. ríkisstj. hefði reynt að gera sitt til að bæta úr vandræðunum, þó að henni hefði ekki tekizt að ráða við vandann, en það er allt annað mál. Góður vilji var vafalaust fyrir hendi. Þessi sárindi hv. þm. urðu svo til þess, að hann var með hnútur í mig þessum málum alveg óviðkomandi, að ég hefði átt þátt í einhverjum skammaskrifum um hann frá hans fyrstu ráðherradögum. Ég man ekki eftir því og get raunar fullvissað hann um, að ég átti ekki neinn þátt í birtingu þess plaggs, sem hann var að vitna til, að því er mér skildist. Eins var það algerlega rangt, sem hann sagði um mína afstöðu í landhelgismálinu 1958, — gersamlega tilhæfulaust. Það sýnir einungis, að hv. þm. er farið að förlast, þótt ekki sé hann nú eldri en á grönum má sjá. Hann treystir ekki lengur sínu eigin minni, heldur trúir ósannindum, sem prentuð eru oft í Tímanum, og það má vera honum vorkunn, af því að hann les það blað að staðaldri. En ef hann vildi taka sig til og lesa Morgunblaðið frá sumrinu 1958, mundi hann sjá, að þar var haldið allt öðru fram en hann virðist nú trúa og Tíminn stöðugt boðar. Við skulum láta það mál eiga sig.

Við getum ekki deilt um það, — og það er nauðsynlegt, að við gerum okkur það alveg ljóst, að það varð afturkippur í framfarasókn íslenzku þjóðarinnar á árunum 1930–1940. Það tjáir ekki að ætla að halda því fram, að þegar mörg hundruð manns af fjölskyldufeðrum, meira en 10. hver fjölskylda í Reykjavík, átti við atvinnuleysi að búa, væri það framsókn, framför frá því, sem verið hafði. Þetta var ógæfa, sem yfir þjóðina kom, mesti afturkippur hiklaust að segja, sem orðið hefur á þessari öld. Það er svo allt annað mál, af hverju þetta stafaði, og ég hef ekki sagt, að það stafaði af ráðstöfunum þessa hv. þm. og hans ríkisstj. Ég hef hins vegar sagt, að hún hafi ekki ráðið við það, en ég játaði, að hún hefði gert ýmsar tilraunir til þess að ráða bót á þessu. Hv. þm. nefndi þar á meðal Sogsvirkjunina. Hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Reykv., minntist líka á Sogsvirkjunina, og hann mundi nokkuð betur aðdraganda hennar, þegar bæjarstjórnin í Reykjavík hafði í því máli alla forustu. Sannast bezt að segja hafði það mál verið margoft fyrir Alþ., og tók langan tíma að fá það samþ., og meðan Framsókn hafði hér synjunarvald. var það mál stöðvað. Síðan var það knúið fram með lagasetningu á Alþ. fyrir forgöngu Sjálfstfl. og Alþfl. Síðan beitti Jón Þorláksson sér fyrir öllum framkvæmdum í málinu. En það skal fúslega viðurkennt, að ríkisstj., þegar til átti að taka og þeir voru í hana komnir, Hermann Jónasson, Eysteinn Jónsson og Haraldur Guðmundsson, veitti þessu máli sinn atbeina, sendi Sigurð Jónasson út með Jóni Þorlákssyni. Ég hygg sannast að segja, — þeir eru nú báðir vonandi á góðum stað nú, — en ég hygg, að ég móðgi hvorugan, þó að ég segi, að Sigurður hafi frekar þurft á gæzlu að halda á ferðalögum en Jón Þorláksson, og Jón hefði orðið alveg einfær um að ljúka sínu erindi. Annars er ég ekki að halla á Sigurð. Hann hafði mikinn áhuga fyrir þessu máli og lagði því það lið, sem hann mátti. Málið komst að lokum fram fyrir forgöngu, það má segja allra flokka, áður en yfir lauk. En það hafði kostað langa og harða baráttu, og eins og ég minnti á, var það í þingrofinu 1931 talið eitt af samsærismálunum, sem fjandflokkar Framsóknar hefðu komið sér saman um bændum til óþurftar. Ég hygg, að sá, sem bar lagalega ábyrgð á því skrifi, sé vinur okkar, hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, en vel má vera, að annar hafi stýrt pennanum að því sinni. Ég skal ekki segja um það. En þetta eru sakir, sem er ástæðulaust að vera að rifja upp nú, en líka ástæðulaust að fara rangt með.

Það er líka algerlega rangt, að sjálfstæðismenn hafi verið á móti því að koma hér upp hraðfrystiiðnaði og þáv. ríkisstj. hafi haft um það alla forustu. Sannleikurinn í því máli er sá — og ég hef þann fróðleik úr bók, Skýrslu fiskimálanefndar, sem er samin af Arnóri Sigurjónssyni. Hann rekur þar að a.m.k. 1930 er komið hér hraðfrystihús í Reykjavík, Sænska frystihúsið, og skömmu síðar kemur lítil hraðfrystistöð, sem Ingólfur Espólin hefur. Sænska frystihúsið frysti að vísu með annarri aðferð og öðrum hætti en síðan varð ofan á, en það byrjaði þessar tilraunir og framleiddi samkv. því, sem hér er sagt í þessari bók, eitthvað rúm 1200 tonn 1930. Síðan dró úr þessu, sum árin varð það lítið, önnur árin kringum 500 tonn. Síðan verða í þessu umskipti og nýr háttur tekinn upp. Eftir skýrslu Arnórs Sigurjónssonar, — ég hef ekki kynnt mér það mál sjálfur, — en eftir því, sem hann segir í þessari bók, er það fyrst samkv. till. Ólafs Thors, sem hann segir hann hafa flutt á Alþ. 1934 í samráði við Sjálfstfl., sem till. er gerð um stofnun fiskimálaráðs, sem m.a. á að sjá um að koma upp hraðfrystihúsum sem viðast um landið. Eftir að þetta frv. Ólafs og sjálfstæðismanna er flutt, ber ríkisstj. fram frv. um fiskimálanefnd með nokkuð annarri skipun, og fiskimálanefnd tók síðan við forustu í þessum efnum með þeim árangri, að þegar leið fram að stríði, voru síðustu árin framleidd eitthvað 2500 tonn, og Arnór bendir réttilega á, að framleiðslan hafi nokkuð smáaukizt — með nokkrum afturkippum þó — frá árinu 1930 til 1940.

Það er alveg ástæðulaust að vera að deila nú um það, hver hafi átt hvern þátt í þessu máli. Það er alveg ljóst, að þarna hafa margir aðilar komið að. Ég rek þetta hér, vegna þess að hv. 1. þm. Austf. fullyrti, að sjálfstæðismenn hefðu verið á móti þessum framkvæmdum. Þeir voru á móti frv. eins og það endanlega var samþ., af því að það var sett fram, eins og glögglega kemur fram í lýsingu Arnórs Sigurjónssonar, til höfuðs frv., sem sjálfstæðismenn áður höfðu flutt. Við vitum, hvernig metnaður hleypur í menn á þingi, þegar þannig er farið að. En allir sáu, að hér var nauðsynjamál, sem þurfti að vinna að.

En það sorglega í þessu er það, að þrátt fyrir þessa góðu viðleitni, þrátt fyrir Sogsvirkjunina, sem bætti mjög úr atvinnuleysinu á sínum tíma, þrátt fyrir stofnun þessara mörgu iðnfyrirtækja, sem hv. 1. þm. Austf. minnist á, og ég efast ekki um, að ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, léttir atvinnuleysinu hér ekki fyrr en herinn kemur til landsins 1940. Og áður hafði þó það gerzt, að fyrst slitnaði upp úr samvinnu Framsfl. og Alþfl. og síðan var mynduð þjóðstjórn, samsteypustjórn Framsóknar, Sjálfstfl. og Alþfl. En ástandið í heild var þannig, að menn réðu ekki við þann vanda að létta af atvinnuleysinu, þrátt fyrir margfaldar tilraunir, fyrr heldur en hernaðarvinnan kom til. Þetta eru staðreyndir, sem ekki tjáir að neita, alveg eins og það er ljóst, að aukning hraðfrystingar á fiski fer fyrst að verða veruleg, eftir að stríðið kemur, — ekki vegna þess að þá hafi skyndilega aukizt svo framleiðslumöguleikinn, heldur opnast þá markaður, sem áður var ekki fyrir hendi. Ég var að rifja þessi efni upp áðan það lítið, sem ég fór inn á þau, sumpart til að svara því, sem hv. 1. þm. Austf. hafði sagt hér á dögunum og sumpart og aðallega til þess að sýna fram á, hversu hættulegir einhæfir atvinnuvegir hafa reynzt okkur Íslendingum og við ættum allir að vera búnir að læra, að slíkt er engum til heilla.

Hv. 1. þm. Austf. vildi halda því fram, að það væri alveg óvíst, að nokkur iðnaður eða fleiri störf fylgdu í kjölfar álbræðslunnar, og sagði, að það væri þvert á móti því sem sagt væri frá Noregi. Ég veit ekki, hvort mig hefur verið að dreyma, en ég held, að ég hafi einhvers staðar lesið það og jafnvel heyrt hv. þm. segja það hér í ræðu sinni á dögunum, að það hafi verið sagt frá því af ekki ómerkari manni en hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísla Guðmundssyni, að hundrað þúsund tonna álbræðslu væri sagt að fylgdi 10 þús. manna byggð, þegar allt kæmi til alls. Sagt er, að það þurfi 450 manns í 60 þús. tonna álbræðslu. Við skulum segja, að það þyrfti eitt þús. manns í 100 þús. tonna bræðslu. Með fimm manna fjölskyldu er þetta þó ekki meira en 5 þús. manns. Eftir málflutningi þessara manna er þá jafnstór hópur manna, sem fær ýmiss konar vinnu í kringum þetta eins og þeir, sem vinna við fyrirtækið sjálft. Í öðru hvoru tilfellinu er um einhvern misskilning að ræða í málflutningi hjá þessum hv. þm. Þegar verið er að tala um hættuna á fólksflutningum hingað, halda þeir sig að kenningu hv. þm. Norðurl. e., en þegar á að gera sem allra minnst úr þýðingu fyrirtækisins og hvaða örvun það gæti haft á atvinnulíf landsmanna, er látið eins og þetta sé ekki til. Slíkur málflutningur er engum til góðs og bætir sízt mjög hæpinn málstað hjá þessum hv. þm.

Svipað kemur fram hjá þessum hv. þm., þegar þeir í öðru orðinu segja, að alls ekki megi nú ráðast í þessa framkvæmd vegna vinnuaflsskortsins, þó að þeir gætu undir vissum kringumstæðum ella hugsað sér að ráðast í framkvæmdina.

Ég hlustaði ekki á alla ræðu hv. þm. Norðurl. e., Gísla Guðmundssonar, í gær, en svo mikið heyrði ég af hans ræðu, að hann taldi mál málanna fyrir sig og sína skoðun og skoðanabræðra vera það að virkja Dettifoss og koma upp mannvirkjum til nýtingar þeirri orku. Og hann lagði áherzlu á, að það mál væri allt annað en virkjun Búrfells. Hann lagði áherzlu á, að virkjun Dettifoss mætti ekki dragast út frá þeim rökum, sem hann færði fyrir því, um leið og hann viðurkenndi, að það væri eðlilegt, að Sunnlendingar virkjuðu við Búrfell, vegna þess að þeir þyrftu á þeirri orku að halda. En þá eru þessir hv. þm. komnir í þá sjálfheldu vegna sinnar rökfærslu, að í öðru tilfellinu segja þeir, að það sé ekki hægt að ráðast í álbræðslu á Suðurlandi vegna mannaflaskorts, en það er hægt í senn að byggja tvær stórvirkjanir, aðra við Búrfell, hina við Jökulsá á Fjöllum, og a.m.k. að byggja álverksmiðju fyrir norðan. Það er auðsjáanlegt af þessu, að hér stangast rökfærslan mjög, enda er því ekki að neita, að alltaf er í öðru orðinu sagt: Undir vissum kringumstæðum mundum við nú vera með þessum ráðagerðum.

Það var nærri komið að mér að vikna, þegar hv. I. þm. Austf. var að tala um Atvinnujöfnunarsjóðinn, sem hv. 5. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, vildi að vísu kalla „samvizkubitið,“ en hv. 1. þm. Austf. sagði skilgetið barn Framsóknar, hvernig sem stendur nú á því, að það er samvizkubit út af þessu skilgetna barni, ég veit það ekki. (Gripið fram í.) Látum það nú eiga sig. — Já, það er í slæmu fóstri, sagði þm., það er alveg rétt. Hann var nefnilega að minna á, að það væru til einhverjir, sem vildu koma og passa barnið í fóstrinu. Hann er í öllum sínum málflutningi að gefa í skyn eins og hv. 5. þm. Vestf. réttilega vakti athygli á um daginn, að ef Framsfl. kæmi í ríkisstj., þá sé hann ekki búinn að segja neitt í þessu álmáli enn, sem hindri að hann gæti greitt atkv. með því. Þegar maður verður var við þessa löngun, er auðvitað ósköp eðlilegt, að hv. l. þm. Austf. verði sár við mig, þegar hann heldur, að ég sé að snupra sig. Hann býst við allt öðrum viðtökum, blessaður maðurinn. En hann fær að bíða um sinn.

Það er furðulegt með svo glöggan mann, sem hefur jafngóðan tíma til íhugunar, meðan á biðinni stendur, að hann skuli ekki átta sig á jafneinföldum orðum eins og hvað það þýðir að vera undir íslenzkum lögum. Hann heldur, að þó að íslenzka stjórnin semji um að leggja mál undir gerðardóm, þótt erlendur gerðardómur sé, sé þar með málið farið undan íslenzkum lögum, þó að sagt sé í samningnum sjálfum, að eftir íslenzkum lögum eigi að dæma. Þetta snýst svo gersamlega við, að mér er óskiljanlegt, að hv. þm. meini í alvöru það, sem hann um þetta segir.

Annars sé ég enga ástæðu til þess að vera að karpa við hv, þm. frekar og eltast við einstakar fullyrðingar hans. Aðalatriðið er ekki, hverjum eitthvað er að kenna af því, sem misfarið hefur í fortíðinni, heldur hitt, að menn reyni að læra af henni og sjá, hvað til þess þarf, að betur megi fara héðan í frá.

Hv. þm. vitnaði oft í það í sinni ræðu, að það hefði verið örðugt á árunum frá 1934–1939 og sagði, að þá hefði ekki verið hægt að leita neinnar samvinnu eða samhjálpar erlendis. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Ein af höfuðorsökunum til þess, að efnahagsástand er ekki aðeins miklu betra hér á Íslandi, heldur víðs vegar í heiminum, a.m.k. í vestrænum löndum, nú eftir seinni styrjöldina en áður, er sú víðtæka samvinna, sem tekin er upp á milli þjóðanna. Í þessu er meginmunur og það er vafalaust alveg rétt hjá hv. þm., að í þeim glundroða, sem í þessum efnum ríkti á millistríðsárunum, og með þeirri fjármálastefnu, sem þá var haldið uppi og var kennd ekki sízt við aðalbankastjóra Englandsbanka, sem var lengi á þessu tímabili, var kreppa meira eða minna óviðráðanleg, og a.m.k. smáþjóð eins og Íslendingar átti ákaflega erfitt með að ráða ein fram úr málum sínum, þó að kunnugir menn, hagfræðingar þ. á. m., fullyrði, að bati hafi komið mun seinna á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Það er önnur saga. En það er alveg vist, að menn lærðu af ástandinu á millistríðsárunum og þ. á m. orsökunum til valdatöku Hitlers, þ. á m. af þeim hörmungum, sem urðu með seinni heimsstyrjöldinni, að sá algeri glundroði og það, að hver reyndi einungis einn að bjarga sér eins og var á þessu tímabili, dygði ekki. Þess vegna hafa menn tekið upp allt aðra starfshætti en áður var, miklu ríkari samvinnu sín á milli heldur en þekktist fyrr. M.a. er fjárfesting erlendra borgara í öðrum vinveittum ríkjum, m.a. í Evrópu, miklu tíðkanlegri nú en áður. Það er t.d. lærdómsríkt dæmið af Hollendingum. Margir héldu, að þeir hefðu sótt auðlegð sína fyrir seinna stríðið á þessari öld í nýlendur sínar í Austur-Asíu. Það hefur hins vegar komið í ljós, að eftir að þeir misstu ítök sín þar, eru þeir efnaðri og standa sig mun betur heldur en nokkru sinni fyrr. Þetta á m.a. rætur sínar að rekja til þess, hversu áfjáðir erlendir auðhringir, eins og hér eru kallaðir, hafa verið í að koma upp ýmiss konar fyrirtækjum þar í landi, sem hafa gerbreytt efnahagsástandinu, dregið mjög úr fólksflutningum frá Hollandi og endurvakið trú þjóðarinnar á mátt sinn og megin. Ekki vegna þess, að Hollendingar telji sig þræla erlends auðvalds, heldur að með þessari samvinnu hafa þeir öðlazt mátt til þess að rétta sig við á ný og eru nú, eins og ég segi, efnaðri en nokkru sinni fyrr í sinni sögu. Þetta er aðeins eitt dæmi.

Það er nokkuð til í því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði hér á dögunum, að segja má, að þetta frv. og þessi samningur sé til þess að ná nokkru af því sama, sem við mundum hafa náð af hagræði við að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Það er enginn maður, sem efast um það, að margs konar hagræði mundi fylgja því að ganga í slíkt efnahagsbandalag. Það, sem veldur því, að t.d. hv. Alþbm., flestir framsóknarmenn, ég og ýmsir fleiri höfum verið ýmist á móti því að ganga í bandalagið eða mjög hikandi við að taka afstöðu til þess og gert okkur ljóst, allur þingheimur, að ekki kæmi til mála að nálgast það nema með einhvers konar sérsamningi, er, að við höfum ekki viljað játa okkur undir þeirra lög, þeirra lögsögu, þeirra löggjöf, láta þá ráða málum fyrir okkur. Ef við hins vegar getum sjálfir samið við einstaka aðila og náð sams konar hlunnindum eins og þessar þjóðir hafa náð með þessu stóra bandalagi sínu og við getum gert það á þann veg, sem við sjálfir teljum tryggilegt, þá tel ég það ekki einungis vandræðalaust, heldur tel ég það stóran ávinning fyrir okkur, að við á þann veg njótum góðs af þeirri alþjóðlegu samvinnu, sem svo mjög hefur færzt í vöxt og hefur skapað gjörsamlega nýtt andrúmsloft og miklu betri efnahag hjá vestrænum þjóðum eftir stríðið en þær nokkru sinni áður hafa haft við að búa.

Nú segir e.t.v. hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson: Þetta staðfestir enn grun minn um það, að Bjarni Benediktsson sé með því að taka hér inn áframhaldandi erlent fjármagn. Ég svara: Um það segi ég ekki neitt. Ég segi: það er atriði, sem verður að ákveða í hvert sérstakt skipti, alveg eins og hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, sagði áðan. Hann sagði: Við verðum að skoða slík mál um tækniframfarir í hvert einstakt skipti. Þessu er ég alveg sammála. Við megum ekki afsala til annarra því úrslitavaldi, sem við viljum áskilja okkur, af því það er rétt, að við erum of litlir, höfum ekki þá þýðingu fyrir aðra, að við getum vænzt þess, að þeir taki nægilegt tillit til okkar, ef við eigum að lúta þeirra meiri hl. ákvörðun. Ég segi hins vegar: Hér er ekki stefnt í stærra verk en svo, að það er okkur fyllilega viðráðanlegt að hafa hömlur gegn því, að við verðum ofurliði bornir.

Það er síður en svo, að það geti komið okkar viðsemjendum á óvart, eins og hv. 3. þm. Reykv. gaf í skyn, að ég drap á það, að e.t.v. gæti til þess komið, að þessar eignir yrðu teknar eignarnámi. Það er beinlínis ráðgert í samningunum. Þessir menn eru engin börn. Þeir hljóta að vita hvað við liggur og hvernig á stendur í heiminum bæði hér og annars staðar. Þeir vita það ósköp vel, að eins og þeir öðlast hér vissa aðstöðu, þá eru þeir seldir undir íslenzk lög, undir okkar yfirráð og verða að koma þannig fram, að meiri hl. þessarar þjóðar vilji una því að hafa þeirra atvinnurekstur í þessu landi. Þetta er alveg ljóst, og ég er fyllilega sammála því, að varlega beri að fara í þessum efnum, að það eigi ekki að opna allar gáttir. Ég er alveg sammála hverju einasta orði, sem hv. 3. þm. Reykv. las hér upp eftir mínum ágæta vini Ólafi Thors. Það kemur auðvitað ekki til neinna mála, að við samþ. sérleyfi handa útlendingum einungis vegna þess, að þeir setji tryggingu fyrir því, að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar. Það verður að athuga það mál miklu betur hverju sinni.

Af því litla, sem hv. þm, las upp og rifjaði upp um Titanmálið, kom það ljóslega fram, að þar stóð allt öðruvísi á en um þetta mál. Samningurinn átti í fyrsta lagi að gilda um 70 ár. Við höfum þó ekki gengið inn á meira en 45 ár með þeim skildögum, sem á því eru. En þar að auki var, að því er ég hygg, um að ræða virkjun fossanna. Þeir áttu vatnsaflið sjálfir á þeim tíma, ætluðu að virkja sjálfir, ætluðu bæði að eiga rafmagnið og þá verksmiðju, sem reka átti fyrir aflið.

Auk þess sem þá var engin Sogsvirkjun komin, og ljóst var, að Ísland, a.m.k. Suðurlandsláglendið og sennilega Reykjavík líka mundu verða þessum mönnum háð um alla sína rafmagnsneyzlu. Það er alveg greinilegt, að það mál horfði allt öðruvísi við, var miklu viðurhlutameira en það mál, sem við nú erum að tala um. Ég er ekki reiðubúinn til þess að segja meira um það án þess að rifja upp fyrir mér málið í einstökum atriðum. En það sýnir einungis, að það er rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. segir, að svona mál verður að skoða í hverju einstöku tilfelli og það hefur engum manni komið til hugar að afsala til útlendinga úrskurðarvaldi yfir þeim efnum.

Ég hika ekki við að ítreka enn, að við fáum miklu sterkari aðstöðu gagnvart okkar viðsemjendum heldur en þeir gagnvart okkur. Annars var ég sammála ýmsu, áreiðanlega flestu af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði nú, og get raunar tekið undir margt af því, sem 5. þm. Austf. sagði í því, sem hann vék að mér. Ég hygg, að það sé ekki ákaflega mikill munur á okkar skoðunum, ef hann heldur staðfastlega við það, sem hann sagði í þeim efnum.

Ég hef allra sízt gert lítið úr þýðingu sjávarútvegs og fiskiðnaðar fyrir Íslendinga. En það er gömul regla, að það þykir ekki gott að hafa öll eggin í einni körfu. Þetta vitum við allir og það er auðvitað ekki lausn á því máli eingöngu það, sem hv. þm. sagði, að við eigum að nýta aflann betur. Það er rétt, við komumst þá af með minni afla, en við erum engu að síður háðir aflanum. Eitt, sem hv. þm. stundum gáir ekki að, er að ein ástæðan til þess, að ekki hefur verið farið lengra í nýtingu aflans hér á landi, — og það veit hv. þm. ósköp vel. — er sú, að ef það væri gert, þá mundum við lenda í miklu hærri tollum erlendis, þannig að innflutningur yrði stöðvaður. Svo viðbúið er, að frekari nýting á aflanum, þannig að hann verði líkari venjulegri iðnaðarvöru í stað matvöru, getur átt stórkostlegan þátt í því að neyða menn til að ganga í einhver af þeim efnahagsbandalögum, sem einmitt hv. Alþb.-menn annars virðast vera lítt hrifnir af. Þessi mál eru engan veginn eins einföld og stundum mætti ætla af orðum hv. þm. og við út af fyrir sig mundum vilja kjósa.

Hv. þm. gerir lítið úr þeim gjaldeyristekjum, sem við táum af álbræðslunni, látum það vera. En hann gerir hins vegar ekki lítið úr því, þegar verið er að tala um, að við getum selt niðursuðuvörur til Rússlands fyrir 25 millj. kr. Þá þykir þetta stórkostlegt stórmæli og merkilegt. Það er gefin út fréttalilkynning af ýmsum helztu mönnum heims, austantjalds og vestan um slík stórmæli.

Hv. þm. spyr, hvað verði eftir, þegar þessir erlendu menn hverfi héðan að samningstíma liðnum, hvað verði þá eftir, hvað sitji eftir af þeirra verkum hér? Í fyrsta lagi geta þeir aldrei alveg flutt verksmiðju sína og mannvirki. Höfnin stendur, og eitthvað af mannvirkjunum stendur. En einkanlega ráðum við þá yfir aflinu óbundið. Við vitum það með löngum fyrirvara, hvort þeir fara og getum þá ráðstafað atvinnu til okkar eigin þarfa, eftir eigin vild, eins og sú kynslóð, sem þá er uppi óskar helzt. Ég legg áherzlu á það, að hv. þm. sagði, að fróðir menn héldu því fram, að við hefðum vatnsafi til 40–50 ára, ef notkun rafmagns ykist hér svipað og hjá öðrum vestrænum iðnaðarþjóðum, — hjá iðnaðarþjóðum, — en þær þurfa auðvitað miklu meira rafmagn en þjóð, sem er komin jafnskammt í iðnaði og við. Þó skulum við muna það, sem ég sagði í dag, að enginn af okkar höfuðatvinnuvegum, sjávarútvegi, iðnaði eða landbúnaði, getur lifað nú án mikillar rafmagnsnotkunar. En rafmagnið endist, þó að við tækjum upp — eftir því sem hv. þm. segir, — venjulega iðnaðarnotkun eins og hún tíðkast í vestrænum löndum, þá endist aflið í 40–50 ár, þ.e.a.s., að þegar þessi samningur er útrunninn, þá erum við einnig frjálsir að ráðstafa þessu afli, og hver græðir á því að láta það eða annað tilsvarandi afi vera ónotað allan þennan tíma? Hv. þm. sagði alveg réttilega, að hvað sem líður seinni tíma notkun, þá er það auðvitað hagur Íslendinga, að notkunin byrji sem fyrst á þessu tímabili. Vatnsaflinu verður ekki eytt. Það er ekki eins og annað, sem af er tekið og við getum ekki fengið í staðinn. Vatnið heldur áfram að renna. Hvaða hag höfum við af því að láta það renna ónotað?

Það má vel segja: Sjávarútvegurinn er okkar mesta auðlind. En sveiflurnar í honum viðurkenna allir, þótt svo hafi viljað til, eins og hv. þm. sagði, að stundum hafi eitthvað orðið til bjargar. Það hefur ekki ætið orðið, en það hefur stundum orðið. En hver veit, hvort þær tilviljanir halda áfram? Fólksfjölgunin heldur a.m.k. áfram. Og hvaða vit er í því fyrir komandi kynslóðir að nota ekki þetta afl, sem allra fyrst til þess að auka auðlegð í landinu og búa betur í haginn fyrir þá, bæði fyrir þá sjálfa og fyrir þá, sem landið eiga að erfa? Og ég legg enn áherzlu á það, sem er alveg örugglega rétt og Norðmenn hafa í opinberum skýrslum lagt á ríka áherzlu, að það er ekki einungis, að þeir telji sig hafa unnið með því að geta selt orkuna, með því að fá venjulega vinnu fyrir sitt verkafólk, heldur segja þeir líka, að hún hafi urðið til ómetanlegs gagns fyrir allsherjar uppbyggingu iðnaðar í Noregi, sú tæknilega þekking, sem hefur komið inn í landið, með því að erlent fjármagn hefur fengið leyti til þess að taka við ýmiss konar atvinnurekstri. Í opinberum skýrslum er lögð á það áherzla, að þetta sé e.t.v. það mikilsverðasta. Ef Norðmenn, sem hafa í þessum efnum miklu meiri reynslu en við, líta svona á, hversu miklu fremur ætti þetta ekki að verða okkur til gagns?

Það er talað um það með réttu, að land eins og Danmörk, sem ekki hefur miklar náttúruauðlindir, hafi efnast vel á þekkingu og hugkvæmni sinna borgara. Það er rétt. En þeir hafa líka mikinn aðgang að rafmagni og ýmis konar orku, þótt þeir verði að kaupa hana að. Og vitanlega er það dýrara fyrir þá að kaupa hana að, heldur en ef þeir ættu hana hjá sér sjálfum. Og Svisslendingar hafa sagt við mig, löngu áður en þessir menn komu hingað, þeir hafa sagt: Við búum í landi, sem í raun og veru er ekkert annað en steinar og fjöll, ís og nokkrir dalir. Þarna hefur þó vaxið upp einhver efnaðasta þjóð í heimi. Þeir segja: Það er þekkingin, sem hefur hjálpað okkur mjög, en þó fyrst og fremst vatnsaflið og gjörnýting þess á síðustu áratugum.

Því fer sem sagt svo fjarri, að það verði til þess að draga úr okkar þekkingarmöguleikum, möguleikum okkar til þess að byggja skóla og vegi, að við fáum nýjan, stóran gjaldanda inn í landið, sem borgar tugi millj. í skatta, fyrir utan það, sem hann geldur í vinnulaun. Það þvert á móti gerir okkur auðveldara að sinna öllum þeim verkefnum, sem við játum, að eru óleyst, en okkur hefur vantað fjármagn til að leysa eins og við kysum.

Annars sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta. Þessar umr. eru orðnar alllangar. Ég endurtek hryggð mína yfir því að hafa sært hv. 1. þm. Austf. og orðið þannig til þess, að hann talaði ekki eins skynsamlega um málið og hann ella hefði gert, því að það er sannast sagt leitt, að það skuli vera svo bert, hversu fulltrúar Alþb. taka skynsamlegar á málum heldur en aðaltalsmaður Framsfl.