05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þm. þurfa ekki að vera smeykir við það, að ég fari að halda hér langa ræðu og halda fyrir þeim vöku. En það var ekki ætlun mín að ræða þetta mál við þessa umr., og ég mun heldur ekki gera það, en ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú, að hæstv. forsrh. lét hér falla orð um látinn mann, sem mér fannst, að ég gæti ekki látið standa ómótmælt í þingtíðindunum.

Hæstv. forsrh. minntist á ferðalag þeirra Jóns Þorlákssonar og Sigurðar Jónassonar til Svíþjóðar til að taka lán fyrir Sogsvirkjunina og komst þannig að orði efnislega, að á ferðalögum mundi frekar hafa þurft að gæta Sigurðar Jónassonar en Jóns Þorlákssonar. Ég held, að allir þeir, sem til þekkja, skilji það, hvaða aðdróttun felst í þessum orðum ráðh. og hvað hann á hér við. En það vil ég segja, að þessi aðdróttun er að mínu áliti og ég veit margra eða flestra annarra algjörlega ómakleg, því að ég hygg, að það séu fáir menn, sem hafa starfað í þjónustu hins opinbera, sem hafi rækt störf sín betur, heldur en einmitt Sigurður Jónasson, og hvergi í þeim efnum hafi hann brugðizt þeim trúnaði, sem honum var sýndur, og það ekki síður í þeim ferðalögum, sem hann fór allmörg á opinberum vegum erlendis.

Og fyrst hér hefur verið minnzt á Sogsmálið allmikið og það af hæstv. forsrh., þá finnst mér rétt, að það komi fram, að einmitt Sigurður Jónasson var meiri forgöngumaður þess máls en nokkur annar. Hann var sá maður, sem fyrstur hóf baráttu fyrir Sogsvirkjuninni í bæjarstjórn Reykjavíkur og er tvímælalaust sá maður, sem átti meiri þátt í því en nokkur annar að koma málinu þar fram, því að eftir að Sjálfstfl. hafði lengi sýnt mikla tregðu í því máli og þrátt fyrir yfirlýsingar og tillöguflutning á Alþ. og í bæjarstjórn engan lit sýnt á því að koma því máli fram, þá var svo komið haustið 1933, að einn af fylgismönnum Sjálfstfl. í bæjarstjórn Reykjavíkur neitaði að styðja flokkinn lengur, nema hann hefðist handa um framkvæmdir í því máli, og hótaði því að kjósa Sigurð Jónasson fyrir borgarstjóra, ef málið væri ekki lálið ganga fram. Það stóð þannig í alllöngu þófi um það innan Sjálfstfl., að hann mundi missa borgarstjóraembættið og Sigurður Jónasson verða kosinn borgarstjóri af þessum ástæðum. Það var fyrst, þegar Jón Þorláksson gaf kost á sér sem borgarstjóri með því ákveðna loforði að sjá um að hrinda Sogsvirkjuninni í framkvæmd, sem þetta mál leystist, og á þennan hátt, eins og margan annan, þá hafði Sigurður Jónasson meginþýðingu í því sambandi að koma Sogsvirkjunarmálinu fram.

En þetta var ekki eina umbótamálið, sem Sigurður Jónasson var forgöngumaður um. Sigurður Jónasson fór fyrstur manna af opinberri hálfu til Bandaríkjanna til að ryðja þar braut fyrir sölu á íslenzkum freðfiski, sem var upphaf þess, að þar er nú einn af okkar beztu mörkuðum. Hann var einnig upphafsmaður eða sá, sem fyrstur kynnti sér fyrir opinbera aðila möguleika á því að koma hér upp sementsverksmiðju og áburðarverksmiðju, og þannig mætti margt fleira nefna. Þess vegna finnst mér algjörlega óþarfi hér á Alþ. og ómaklegt, að það sé verið að kasta steini að honum látnum. En hitt vil ég líka láta koma fram og finnst rétt að komi fram,að tvímælalaust mundi sá samningur, sem hér liggur fyrir til umr., líta öðruvísu út og vera í betra horfi, ef maður eins og Jón Þorláksson hefði um það mál fjallað, en ekki þeir, sem það hafa gert. Og það byggi ég ekki sízt á atburði, sem Sigurður Jónasson sagði mér frá, að hefði gerzt í Stokkhólmi, þegar þeir voru þar saman hann og Jón Þorláksson að semja um lántöku fyrir Sogsvirkjun.

Þá stóð málið þannig um skeið, að Íslendingum voru settir þeir kostir, sem íslenzku samningamennirnir töldu með öllu óaðgengilega. Og þá gerist það einu sinni síðari hluta dags, að Jón Þorláksson biður Sigurð Jónasson að sjá um það, að keyptir séu fyrir þá járnbrautarmiðar til Kaupmannahafnar daginn eftir, því að hann muni fara þangað. Hann sjái ekki ástæðu til þess að sitja lengur í Stokkhólmi yfir þessu samningaþófi. Sigurður Jónasson gerði þetta, en það jafnframt um leið, að hann lét hina sænsku bankamenn vita um það, að Jón væri búinn að gera ráðstafanir til þess að fara til Kaupmannahafnar daginn eftir og slíta samningunum, jafnvel þó að það kynni að þýða það, að ekkert lán fengist að þessu sinni. Nú, viðbrögð hinna sænsku bankamanna, þegar þeir fréttu þetta, urðu þau, að íslenzku samningamennirnir voru kvaddir á fund sænsku bankamannanna daginn eftir og þá boðin mun betri og aðgengilegri kjör heldur en áður hafði staðið til boða, og þá fyrst náðust samningarnir.

Ég er alveg sannfærður um það, að ef þeir menn, sem unnu að þessum samningum, hefðu í mörgum tilfellum þorað að tefla eins djarft og Jón Þorláksson gerði í Stokkhólmi, þegar Sogslánið var tekið, þá mundu þessir samningar líta öðruvísi og betur út en þeir gera í dag. En það er vegna þess, að þeir menn, sem að þessum samningum hafa staðið, hafa aldrei þorað að láta sverfa til stáls, hafa alltaf verið hræddir um, að þeir mundu missa af strætisvagninum, sem samningarnir lita þannig út, að það eru hagsmunir Svisslendinganna, sem eru fyrst og fremst tryggðir, en ekki okkar.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri að sinni, en ég vil aðeins að endingu segja það, að við skulum spara okkur öll drykkjuskaparbrigzl um látna menn, það er frekar ástæða til að fylgjast með þeim, sem lifandi eru en látnir, í þeim efnum.