05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get ósköp vel fallizt á það, að það eigi ekki við að tala í hálfkæringi um látna menn. Ég játa það fúslega. En gæti allir sinnar tungu! Hitt verður að segja eins og er, að það furðaði marga á því á sínum tíma, að það væri talið, að Jón Þorláksson þyrfti barnapíu við, — ekki varðandi það efni, sem hv. þm. var að tala um, heldur varðandi samningsgerð við aðra, við erlenda aðila. Á sínum tíma var óspart látið í það skína, að Jón þyrfti eftirlits með, vegna þess að hann væri ekki málefninu tryggur og að hann væri vis til þess að hugsa um sinn einkahag, ef hann færi einn. Þannig var þetta mál túlkað manna á meðal hér í Reykjavík. Þetta var það, sem var í mínum huga. En eins og ég segi, það er bezt að lála hálfyrði eiga sig, og ég veit, að þessi hv. þm. var vinur Sigurðar Jónassonar, og ég virði hans tilfinningar í þeim efnum. En hann skal þá líka spara sér svigurmæli til annarra. Eins og það, að Jón Þorláksson hafi verið neyddur til þess að vera fylgjandi Sogsvirkjuninni. Það þurfti ekki að neyða hann til þess af Hjalta Jónssyni, það get ég fullvissað hv. þm. um, enda var það Hjalti Jónsson, eftir að hann var kominn í alger vandræði og sjálfheldu vegna sinna viðtala við Sigurð Jónasson, sem gekk á eftir Jóni Þorlákssyni um að verða borgarstjóri og þurfti ekki að setja honum skilyrði um að vera með máli, sem Jón hafði verið bardagamaður fyrir í mörg ár. Hv. þm. skal ekki takast, hvorki hér á Alþ. né í blaði sínu að telja mönnum trú um neina skröksögu um upphaf Sogsvirkjunarinnar.