05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að deila lengi við hæstv. forsrh. um það, sem gerðist haustið 1933 í sambandi við Sogsmálið, en ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir og sé að finna m.a. í ævisögu Hjalta Jónssonar, að það var skilyrði frá hans hendi, að ef hann kysi ekki Sigurð Jónasson sem borgarstjóra, þá yrði Jón Þorláksson borgarstjóri.

Hann vildi engan annan sjálfstm. sætta sig við, vegna þess að hann treysti því, að ef nokkur maður í Sjálfstfl., væri líklegur til að vinna að því að koma Sogsmálinu fram, þá væri það Jón Þorláksson. Ef hæstv. forsrh. er búinn að gleyma þessu, getur hann kynnt sér þetta betur með því einu að lesa ævisögu Hjalta Jónssonar, þar sem greinilega er frá þessu sagt.