05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Eysteinn Jónsson:

Það er m.a. til þess að segja mönnum frá því, hvernig vinnuaðferðirnar eru, að ég tek til máls. Ég bað hæstv. forseta að gefa mér ekki orðið með fyrri athugasemdina, fyrr en iðnmrh. væri búinn að tala, ef hann ætlaði að tala aftur. Ég veit því, að þegar hæstv. forseti gaf mér orðið, þá hefur hann auðvitað staðið í þeirri meiningu, að iðnmrh. ætlaði ekki að tala. En iðnmrh. finnst það víst eðlilegust málsmeðferð að tala, þegar andstæðingarnir eru það sem kallað er dauðir, og þegja þangað til. Hann um það, hann um þær starfsaðferðir, svo viðkunnanlegar, sem þær eru. En þær eru nú heldur óvenjulegar satt að segja. En nú, þegar hæstv. ráðh. tekur í sig kjark til að standa upp, af því að hann heldur, að allir aðrir verði að þegja, þá er það til þess að byrja að pexa upp á nýtt um gerðardómsákvæðið og endurtaka það, að þó að menn hati sett skýran fyrirvara um, að þetta fyrirtæki yrði að vera undir íslenzkum I., þá séu þeir menn líklegastir til að hafa verið með því, að fyrirtækið væri undir erlendri lögsögu. En, eins og ég sagði áðan, þá er hér alveg hreinlega um orðhengilshátt að ræða og útúrsnúninga, vegna þess að öllu venjulegu fólki skilst, að það fyrirtæki er ekki undir íslenzkum l., sem er undir erlendri lögsögu, at þeirri einföldu ástæðu, að íslenzk dómaskipun er hluti af íslenzkri löggjöf og íslenzkum l., því er hér um hreinan orðhengilshátt að ræða. Hæstv. ráðh. væri einna sæmst að viðurkenna það, sem rétt er, að þessi gerðardómsákvæði eru á hans ábyrgð og einskis annars, því að það er hann, sem stendur fyrir þessari samningsgerð. Það væri drengilegast af hæstv. ráðh., en hann ætti ekki að vera að reyna að koma ábyrgðinni af því, sem hann hefur sjálfur gert, yfir á aðra, þar sem að hann veit, að þetta er hans verk.