18.04.1966
Neðri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 499, 501 og 502, hefur sú sérstaka n., sem kjörin var til þess að fjalla um frv. það til I. um lagagildi samnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium um álbræðslu í Straumsvík og kölluð hefur verið álbræðslunefnd, ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Mér þykir hins vegar rétt í upphafi máls míns að gera grein fyrir störfum n., og inn í það munu að sjálfsögðu fléttast störf þmn., sem starfaði meðan undirbúningssamningar stóðu, en eins og hv. þdm. er kunnugt, var það í byrjun ársins 1965, að hæstv. iðnmrh. óskaði eftir því fyrir hönd ríkisstj., að sett yrði á laggirnar n., sem skipuð væri tveimur þm. frá hvorum stjórnarflokknum svo og Framsfl., til þess að vinna að undirbúningi þessa máls. Síðar komu einnig í n. tveir fulltrúar Alþb., þannig að mestan starfstíma n. störfuðu í henni fulltrúar frá öllum þingflokkunum.

Því hefur verið haldið fram hér á hv. Alþ. undir umr. þessa máls, að það hafi ekki fengið þann undirbúning sem skyldi, og verð ég að telja, að þeir, sem kynnt hafa sér á hvern hátt unnið hefur verið að þessu máli, mæli þar gegn betri vitund. Þmn. starfaði frá því í byrjun ársins 1965 og hélt 26 fundi. Eins og fram kemur í grg. með frv., hafa sérfræðingar ríkisstj. setið alla þessa fundi, og þar hafa verið lögð fram öll uppköst að samningum svo og allir aukasamningar, sem gert er ráð fyrir, að gerðir verði. Á þessum fundum, sem haldnir voru undir forustu hæstv. iðnmrh., voru uppköstin að þeim samningi, sem nú er gert ráð fyrir, að öðlist lagagildi, rædd og skoðuð, og niðurstöður af ýmsum fundum urðu þær, að samningsuppköstin breyttust í meðförum n. Ég held, að þær upplýsingar, sem nm. fengu þar, hafi allar verið með þeim hætti, að segja verður, að þegar slíkt mál er lagt fyrir Alþ.,þm. málið miklu betur kunnugt en flest þeirra mála, sem lögð eru yfirleitt fyrir þingið. Nm. var auk þess gefið tækifæri til þess að fá að sjá rekstur þess fyrirtækis, sem gert er ráð fyrir, að reisi verksmiðju þá, sem fyrirhugað er að reisa í Straumsvík, sjá verksmiðju af sömu stærð, bæði í byggingu svo og með fullum afköstum og einnig gefið tækifæri til að sjá ýmiss konar úrvinnslu þess málms, sem hér er gert ráð fyrir að framleiða. Jafnframt þessu, eins og tekið er fram í nál. meiri hl., fengu nm., þ.e.a.s. þmn., tækifæri til þess að skoða þær módeltilraunir, sem gerðar hafa verið að undanförnu og unnið hefur verið að að undanförnu í Þrándheimi. Þær tilraunir hafa verið gerðar vegna þeirrar sérstöðu, sem hér um ræðir, þegar gert er ráð fyrir að virkja jökulvatn, og þar sem nm. fengu að sjá þessar tilraunir, gafst þeim vitaskuld mikið tækifæri til þess að setja sig inn í þann vanda, sem hér var um að ræða. Það gaf okkur einnig tækifæri til þess að sjá, hvernig unnið er að því að komast fram hjá þeim vandamálum, sem eru þar óneitanlega fyrir hendi. Ég vil segja, að allt starf þmn. hafi verið með þeim hætti, að þeir aðilar, sem fengu tækifæri til þess að vera í þeirri n., standa í dag, þegar mál þetta er nú rætt á Alþ., miklu betur að vígi til þess að ræða það heldur en oft á tíðum áður um þau mál, sem til umr. eru hér.

Þegar svo málinu var lokið við 1. umr., var kjörin n., sem fjalla skyldi um það fyrir hönd d., og samkv. till. hæstv. iðnmrh. kaus hæstv. Ed. n., sem fjalla skyldi um málið, er til Ed. kæmi, og var gert ráð fyrir því, að n. störfuðu saman, til þess að flýta fyrir afgreiðslu málsins. N. þessar störfuðu saman og héldu nokkra fundi. Á þá fundi komu sérfræðingar ríkisstj., sem unnið hafa að þessu máli, þ.e.a.s. þeir dr. Jóhannes Nordal bankastjóri, Eiríkur Briem framkvstj., Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri, Steingrímur Hermannsson framkvstj., Hjörtur Torfason hdl. Á fundum n. voru lagðar spurningar fram af einstökum nm. og sérfræðingarnir svöruðu því í einu og öllu sem fyrir þá var lagt, og skýrðu einstök atriði samningsins, aðalsamningsins, svo og raforkusamningsins, sem var yfirfarinn einnig. Störf n. voru með ágælum að mínum dómi, og ég vil nota tækifærið hér og þakka bæði meðnm. mínum svo og hv. Ed.nm. fyrir ágætt samstarf.

Þegar svo n. hafði lokið því að yfirfara samninginn svo og raforkusamninginn og komið var til afgreiðslu málsins í álbræðslun. Nd., klofnaði n. eins og fram hefur komið og skilar nál. í þrennu lagi, þ.e.a.s. meiri hl. og tveir minni hl. Meiri hl. n., sem skipa auk mín þeir Benedikt Gröndal, Jónas G. Rafnar og Sigurður Ingimundarson, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Þegar samningur sá, sem hér er farið fram á, að öðlist lagagildi, er ræddur, fer ekki hjá því, að umr. snúist töluvert mikið um raforkumálin, því að hér er beinlínis gert ráð fyrir því, að virkjun sú, sem var samþ. með l. á síðasta Alþ., þ.e.a.s. Búrfellsvirkjun, verði byggð og raforka frá henni seld því fyrirtæki, sem hér er gert ráð fyrir, að reisi álbræðslu.

Þegar gert var ráð fyrir því að ráðast í Búrfellsvirkjun og 1. um Landsvirkjun voru samþ. á síðasta Alþ., hafði komið í hug margra manna, sem unnið höfðu að raforkumálum á Íslandi, á hvern hátt hægt væri að ráðast í svo stóra virkjun á sem hagkvæmastan hátt. Það lá ljóst fyrir, að við urðum að hefja virkjun vegna okkar sjálfra, en spurningin var einfaldlega: Var hægt að ráðast í stærri virkjun og á einhvern hátt hagnýta sér þá hluti, þ.e.a.s. uppsetningu á stóriðnaði, og skapa þannig landsmönnum ódýrari raforku? — Allt frá því, að fyrsta rafstöðin var sett í gang suður í Hafnarfirði 12. desember 1904 og fram til þessa dags, höfum við eingöngu virkjað fyrir okkur sjálfa. Það var lítil virkjun, sem sá stórhuga maður Jóhannes Reykdal réðst í á sínum tíma suður í Hafnarfirði, en hún varð vísir að stærri virkjunum, og á undanförnum áratugum hafa verið byggðar mun stærri virkjanir. En nú er svo komið, að hugurinn stefnir enn hærra, og það er hugsað til þess að ráðast í þá stærstu virkjun, sem við nokkurn tíma höfum ráðizt í, en þá vaknar um leið spurningin um það, hvort við getum á einhvern hátt hagnýtt okkur þá virkjun til þess að gera raforkukostnaðinn fyrir okkur sjálfa lægri. Þess vegna kemur stóriðnaðurinn á dagskrá fyrir nokkuð mörgum árum, og það er farið að kanna það, hvort hægt væri að tengja þetta saman. Þegar þeir hlutir liggja ljósir fyrir fyrir örfáum árum, að slíkt muni hægt, þá lætur ríkisstj. þegar hefjast handa um undirbúning málsins, og í dag stöndum við frammi fyrir því, að á hennar vegum hefur verið gerður samningur, — og hann hefur verið undirritaður af hæstv. iðnmrh., — þar sem gert er ráð fyrir því, að svissneskt fyrirlæki reisi álbræðslu við Straumsvík, sem gert er ráð fyrir að muni kaupa verulegt magn af raforku á næstu 25 árum. Þegar að þessu er komið, þá er ekki óeðlilegt, að ýmsir spyrji: Hvers vegna að ráðast í stóriðju og getum við ekki verið í þessu eingöngu fyrir okkur? Er nokkur ástæða til þess að gera þessa hluti?

Í framsöguræðu sinni við I. umr. gerði hæstv. iðnmrh. grein fyrir þeim samningi, sem hér liggur fyrir, og ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um einstaka kafla eða greinar hans. Ég hefði hins vegar kosið í örfáum orðum að yfirfara eða athuga þau áhrif, sem slíkur samningur getur haft fyrir okkur Íslendinga og leitast við að svara spurningunni, hvort hér sé um að ræða jákvæðar aðgerðir eða ekki.

Í grg. með frv. eru gefnar ýmsar ábendingar í sambandi við þau þjóðhagslegu áhrif, sem bygging álbræðslunnar getur haft. Og þá í fyrsta lagi í sambandi við þann raforkusamning, sem gert er ráð fyrir, að Landsvirkjunin geri við það félag, sem ráðgert er að stofnað verði og reisi álbræðsluna við Straumsvik. Af eðlilegum ástæðum hlýtur þetta dæmi að verða setl þannig upp, að annars vegar sé Búrfellsvirkjun án álbræðslu og svo hins vegar með álbræðslu. Landsvirkjunin hefur reiknað út þessi tvö dæmi, þessi tvö tilvik, og niðurstaðan, samkv. þeirra reikningi, er, að á árunum 1969–1975 verður raforkan 62% ódýrari miðað við álbræðsluna, 1976–1980 22% og 1981–1985 12%, þ.e.a.s. að meðaltali á árunum 1969–1985 28% ódýrari. Þessar tölur hafa ekki verið vefengdar, og aðrir útreikningar hafa ekki komið fram af hálfu þeirra, sem hér hafa talað í þessu máli og andmælt þeim samningum, sem hér er ætlað að gera og þeim samningi, sem ætlað er, að öðlist lagagildi. Á sama tíma, sem hér hefur verið komið fram með þær aths., að samkv. raforkusamningnum sé gert ráð fyrir allt of lágu verði á raforkunni, þá hefur jafnframt verið gerð aths. við, að fyrstu 6 árin er gert ráð fyrir hærra raforkuverði heldur en síðar, þ.e.a.s. 3 mill í staðinn fyrir 21/2.

Þegar þessir hlutir eru bornir saman, þá stangast þeir á, og gefur auga leið, að annað getur ekki átt sér stað, þegar um er að ræða ábendingar, án þess að grundvöllur sé raunverulega fyrir því, sem sagt er. Síðan hefur því verið haldið fram, að eftir 1985 sé málið enn þá óhagkvæmara fyrir okkur. Það sýnist hreint óskiljanlegt, hvernig það ætti að vera, því að 1985 hefur Búrfellsvirkjun skilað sinum greiðslum, og þá kemur álbræðslan, sem þá hefur möguleika á viðbótarsamningi, til með að greiða á ári 110 millj. kr., sem eru nánast því nettóhagnaður, þar sem, eins og ég sagði áðan, búið verður að greiða niður virkjunina. Hvort þá verður haldið áfram að selja álbræðslu raforkuna eða þá, að hún verður notuð fyrir okkur sjálfa, hvort tveggja getur verið fyrir hendi, en það sýnist augljóst mál, að þegar við þá verðum að hefja virkjanir fyrir okkur sjálfa, þá er það ekki svo lítil búbót fyrir okkur að hafa sem tekjur frá álbræðslunni 110 millj. á ári fyrir þá raforku, sem hún mundi kaupa frá Búrfellsvirkjun. — Þær tölur, sem ég minntist á hér áðan, eru miðaðar við, eins og ég sagði, að fullnægja raforkuþörf okkar sjálfra til ársins 1985.

Þá er um að ræða áhrif álbræðslunnar á gjaldeyristekjur þjóðarinnar, en það hefur verið reiknað út, að þær munu nema um 300–320 millj. kr. eins og fram kemur í grg. með frv. Hv. stjórnarandstæðingar hafa viljað halda því fram, að hér sé allt of hátt reiknað, og hv. 5. þm. Austf. hélt því fram hér í sinni framsöguræðu, að það væri u.þ.b. helmingi of hátt reiknað, það mætti búast við í hæsta lagi allt að 150 millj. kr. gjaldeyristekjum. Þessu var einfaldlega slegið fram án þess, að því fylgdi nokkur röksemd, en grundvöllurinn að þeim tölum, sem hér eru, er byggður upp á þann hátt, að það er reiknað með vinnuaflskostnaði fyrir 120 millj., skrifstofukostnaði og viðhaldi fyrir 58 millj., kostnaði í álsteypu 21 millj., sköttum 52 millj. og raforku 112 millj. Þetta gerir 363 millj. kr., en frá dragast 55% af erlendum kostnaði virkjunarinnar, þ.e.a.s. 63 millj., þannig að hér er um að ræða 300 millj. kr. Það er hins vegar Ijóst, að afkastageta verksmiðjunnar yrði í reynd nokkru meiri en 60000 tonn, og má gera ráð fyrir, að gjaldeyristekjur mundu, þegar fram í sækti, verða ca. 20 millj. meiri.

Þegar hv. 5. þm. Austf. reiknaði þetta út, þá miðaði hann við þann mannafla, sem gert er ráð fyrir, að notaður verði í sambandi við verksmiðjuna, þ.e.a.s. þegar hún er komin í fullan gang, 450 manns. En þegar hann kom að þeim kafla sinnar ræðu, þar sem hann ræddi um vinnuaflið og vildi gera sem mest úr þeim vandræðum, sem af því hlytust, þá reiknaði hann orðið með því, að hér mundi verða um að ræða allt upp undir 700 manns, sem þyrfti til þess að fullnægja þeirri eftirspurn, sem álbræðslan krefðist. Það liggur náttúrlega í augum uppi, að ef um það væri að ræða, að sú tala væri rétt, þá væri dæmi hans í sambandi við gjaldeyristekjurnar rangt reiknað, því að þar var hann aðeins með 450 manns, en þegar hann kom að síðari kaflanum, var hann kominn með um 700. Þannig hefði hann þurft að leiðrétta sinn reikning í sambandi við gjaldeyristekjurnar.

Þegar við komum að sköttum þeim, sem hér um ræðir, þá liggur það í hlutarins eðli, að það er mikill ávinningur, sem við höfum af því, að slík stóriðja mundi verða hér reist. Það er gert ráð fyrir því, að miðað við óbreytt verð á áli, þá muni skattgreiðslurnar verða um 1400 millj. króna, og samtals mundi verða greitt í skatt og raforku um 4100 millj. kr. Þessar tölur hafa heldur ekki verið vefengdar eða komið með neina þá útreikninga, sem sýna, að þær standist ekki.

Þá liggur það í augum uppi, að ef slík verksmiðja yrði hér reist, þá mundi það gefa tækifæri til mjög mikillar aukningar á nýjum iðnaði. Hér mundi þá skapast í landinu hráefni, sem er mikið notað til alls konar iðnaðar og þar af leiðandi gæfi okkur tækifæri til þess að setja upp slíkan iðnað í landinu. Þetta gefur auga leið og skilur hvert mannsbarn, sem skilja vill.

Eitt atriðið, sem á hefur verið bent og mjög margir stjórnarandstæðingar hafa fundið að, það er, að við skulum fara erlendis til þess að fá fjármagn í atvinnulíf hér á Íslandi. Þetta er hlutur, sem mjög hefur verið ræddur á undanförnum áratug, og ég held, að miklu fleiri en stjórnarsinnar séu á þeirri skoðun, að ef slíkt sé hagkvæmt, þá sé það sjálfsagt. Hins vegar verða því að vera reistar þær skorður, sem við þurfum skiljanlega, ekki stærri þjóð en við Íslendingar erum. En hvort það, að við ráðumst í raforkuver eins og Búrfellsvirkjun á svo skömmum tíma, geti valdið því, að lánsfjármöguleikar okkar versni til annarra framkvæmda, þá held ég, að það liggi líka í augum uppi, að það sé ekki, þar sem við höfum tryggt okkur með raforkusölusamningnum við væntanlegt fyrirlæki, að greiðslur þess standi straum af þeim lánum, sem við þar þurfum að taka. Ég mundi miklu fremur vilja meina, að þetta gæti skapað okkur aukna möguleika til lántöku í sambandi við aðrar framkvæmdir.

Það er að sjálfsögðu ýmislegt, sem hægt er að benda á í þessum samningum, sem einhverjir hefðu kosið að verið hefði öðruvísi. Það fer aldrei hjá því, þegar um samninga er að ræða. Hvort eitt atriði er haft á einn veg fremur en annan, slíkt verður auðvitað að meta með tilliti til heildarinnar, en það er ákaflega auðvelt, þegar eitt einstakt atriði er tekið út úr, að gera það tortryggilegt. Ef við lítum á þá áhættu, sem við höfum í sambandi við það að reisa slíkt fyrirtæki, sem hér er gert ráð fyrir, þá verður hún verulega lítil, ef hún verður nokkur, eftir því sem hér sýnist um hnútana búið. Það er gert ráð fyrir lágmarksgreiðslu fyrir rafmagn, og það er gert ráð fyrir því, að ef framleiðsla á áli dregst saman á einhvern hátt hjá hinu svissneska fyrirtæki, þá verði það engan veginn látið bitna á því fyrirtæki, sem hér er, fram yfir önnur fyrirtæki, sem þetta fyrirtæki rekur. Auk þess eru settar háar tryggingar í sambandi við byggingu fyrirtækisins.

Í sambandi við Búrfellsvirkjunina sjálfa, þá er spurning um áhættuna þar. Því hefur verið haldið fram, að útreikningar þeir, sem gerðir hafa verið, þeir muni ekki standast. Hitt liggur hins vegar fyrir, að tilboð eru nú þegar komin í virkjunina og flestar vélasamstæður, og sýna þau, að þar er um að ræða sáralítinn lausan kostnað, mikið af því fast, hvernig svo sem verðlag breytist. Hins vegar er í sambandi við útreikninga Landsvirkjunarinnar engu að síður gert ráð fyrir hækkunum og þær teknar inn í þann reikning, sem hér hefur verið gerður.

Þá hefur mikið verið bent á það, að ístruflanir í Þjórsá mundu geta valdið töluverðum aukakostnaði. Það er gert ráð fyrir því, að til þess að fyrirbyggja slíkt, verði eytt a.m.k. 200 millj., og þær umframtekjur, sem Landsvirkjunin hefur á næstu 15 árum, eru margfalt meiri en svo, að nokkru þurfi að kvíða um þau efni. Hins vegar, eftir því sem bezt verður séð, þá munu þær ráðstafanir verða gerðar, sem tryggja, að truflunin þar verði sem allra minnst.

Þá hafa stjórnarandstæðingar viljað gera mjög mikið úr vinnuaflsþörf þessa fyrirtækis og talið, að hér væri um að ræða svo óskaplega mannfrekar framkvæmdir, að það gæti alveg riðið okkur að fullu á næstu árum. Með frv, er fskj. frá Efnahagsstofnuninni, þar sem sýnt er fram á, hver vinnuaflsþörfin verður á næstu árum í sambandi við virkjunina, í sambandi við byggingu verksmiðjunnar svo og hafnarinnar. Af þeirri skýrslu verður ekki séð, að hér sé um að ræða neina verulega hættu fyrir okkur, en að sjálfsögðu verður tekið tillit til þess í sambandi við aðrar framkvæmdir, að á þessum árum, 1967 og 1968, þá er talið, að vinnuaflsþörfin vegna þessara framkvæmda muni verða á milli 700 og 800 manns. Í þessari skýrslu, sem ég gat um áðan, er ítarleg grein gerð fyrir þessum hlutum, og ef menn kynna sér hana, þá geri ég ráð fyrir því, að þeir átti sig á því, að hér er ekki um þá hættu að ræða, sem margir hafa viljað vera láta.

Ég hef nú drepið á örfá atriði í sambandi við þennan samning svo og raforkusamninginn, sem mér hefur þótt máli skipta.

Hér hafa stjórnarandstæðingar við l. umr. málsins gert mikið veður út af orkuverðinu. Því hefur verið svarað. Og einnig út af gerðardómsákvæðinu. Því hefur verið svarað líka og því hefur verið vísað heim til föðurhúsanna. Þeir hafa talið, að hér væri um of langan samningstíma að ræða. Því hefur verið svarað einnig. Það eru tvö atriði, sem þeir hafa sérstaklega gert að umtalsefni. Það er í fyrsta lagi framlagning málsins svo og einn þátturinn af þessu máli, þ.e.a.s. staðsetning verksmiðjunnar.

Það var hv. I. þm. Austf., sem minntist á það í upphafi síns máls, að framlagning þessa máls eða vinnubrögðin í sambandi við það væru með alveg sérstökum hætti. Hér undirritaði hæstv. ráðh. samningana fyrst og legði þá svo fyrir Alþ. eingöngu til þess að binda þm. stjórnarflokkanna. Ég varð satt að segja dálítið undrandi, þegar ég heyrði þennan hv. þm., formann Framsfl., segja þetta eftir þær yfirlýsingar, sem Framsfl. hefur gefið í þessu máli. Þegar hann samþ. á sínum tíma andstöðu við þetta mál, þá er ekki hægt að lesa út úr þeirri samþ. annað en það, að hvenær sem væri gætu þeir fyrir sitt leyti samþ. samninginn. En það skin einn hlutur í gegn, eins og hér hefur verið sagt, og hann er sá, að það þýði, að þeir fái stjórnarstóla.

Þegar hv. l. þm. Austf. minnist á það, að þm. stjórnarliða sé stillt upp við vegg og þeir píndir til þess að samþykkja þetta mál, þá vil ég vekja athygli hans á því, að þetta mál hefur verið til umr. á fundum beggja stjórnarflokkana, landsfundum þeirra svo og annarra, þar sem þm. flokkanna hafa haft tækifæri til þess að koma fram með sínar skoðanir. Það hefur ekki komið fram neinn ágreiningur hjá þeim í sambandi við þetta mál, og þeir styðja málið allir heilshugar. En það skyldi ekki vera, að í röðum þm. Framsfl. sé ekki jafnmikil ánægja með samþykkt þá, sem gerð var af hálfu Framsfl., og þær samþ., sem Sjálfstfl. og Alþfl. hafa gert í þessu máli. Það skyldi þó aldrei vera, að einhverjir þm. Framsfl. væru svo víðsýnir menn, að þeir vildu standa með þessu máli, en þeir fengju það ekki. Grunur minn er sá, að svo sé. Um það er ég sannfærður, því að málið er þannig vaxið, að það væri óeðlilegt, að flokkur, sem er íslenzkur flokkur eins og Framsfl., að innan hans vébanda væru ekki einhverjir þeir menn, sem mundu vilja styðja þetta mál. Það er hægt að skilja afstöðu hins stjórnarandstöðuflokksins, hún getur verið skiljanleg út af fyrir sig.

Það er upplýst af einum hv. þm. Framsfl., að staðsetningin ein sé nægjanleg til þess, að þeir geti ekki hugsað sér að greiða atkv. með málinu. Ég gat skilið hann sem slíkan, en ég átti erfitt með að skilja það, aí5 hv. 3. þm. Norðurl. e. væri að gefa yfirlýsingu fyrir alla aðra þm. Framsfl., þar sem hann sagði, að staðsetningin ein nægði til þess, að þeir væru á móti málinu. Ég spyr: Hvers á það byggðarlag að gjalda, sem þessi verksmiðja verður væntanlega staðsett í? Eru það ekki útreikningar sérfræðinga, sem valda því, að staðsetningin er ákvörðuð þar? — Og mér þætti gaman að heyra, hvort hv. 3. þm. Norðurl. e. hafi talað fyrir hönd þm. Framsfl. héðan af Suðvesturlandi, þegar hann upplýsti þetta.

Ég hef þá trú, að það mál, sem hér er til umr., sé um marga hluti mjög nytsamt, og það sé með þeim hætti, að af því getum við Íslendingar haft stóran ávinning í framtíðinni. Ég held, að það liggi í hlutarins eðli, þegar skoðuð er sú mótbára stjórnarandstöðunnar og þá sérstaklega hv. framsm., að ekkert liggi á, þegar hún er skoðuð í ljósi þeirra staðreynda, sem við höfum fyrir okkur, þá komist menn að þeirri niðurstöðu, að ef við biðum, þá getum við e.t.v. misst af því tækifæri, sem við höfum í dag. Það er engum vafa undirorpið, að fjölmargir framsýnir, stórhuga Íslendingar hafa velt því fyrir sér áður fyrr, á hvern hátt við gætum hagnýtt okkur þær geysimiklu orkulindir, sem þjóðin á ónotaðar í stórám Íslands. Þrátt fyrir þessar hugmyndir og þau góðu áform, þá hefur okkur enn ekki tekizt eða enn ekki reynzt kleift að ráðast í stórvirkjanir á borð við Búrfellsvirkjun. Og það er einn hlutur, sem kannske hefur valdið því, að við höfum ekki ráðizt í það eða gert tilraunir til þess og það er, að við höfum talið okkur örugga um, að að því kæmi, að við gætum hagnýtt okkur þessar orkulindir. Hitt liggur svo ljóst fyrir, að á s.l. 20 árum hafa átt sér stað mjög miklar vísindalegar og tæknilegar framfarir, sem m.a. munu valda því að vatnsföllin eignast harða keppinauta um framleiðslu á ódýrri orku svo sem kjarnorkustöðvar og gasstöðvar. Þetta gæti valdið því, að við mundum ekki fá tækifæri til þess að virkja okkar stórfljót eins og við nú höfum tækifæri til. Og ef við lítum til nágranna okkar Norðmanna, þá sjáum við, hvað þeir eru að gera. Áður en þeir missa af tækifærinu, þá reyna þeir að virkja eins mikið af sinum vatnsföllum og hægt er.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta mál. Það kemur fram í nál. meiri hl. á þskj. 502, hver afstaða hans er. Og leyfi ég mér í lokin að lesa upp niðurlagið:

„Leggur meiri hl. n. áherzlu á, að með samningi þessum sé Íslendingum tryggður mikill fjárhagslegur ávinningur. Okkur verður gert kleift að ráðast í Búrfellsvirkjun á fjárhagslega hagkvæmum grundvelli, sem kemur fram í lægra raforkuverði en ella og örari uppbyggingu raforkukerfisins. Gjaldeyrisstaðan mun halda áfram að batna og mun skapa möguleika fyrir auknum þjóðartekjum og þar með auknum vaxtarmöguleikum allra atvinnuvega landsmanna. Meiri hl. n. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt.“