18.04.1966
Neðri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. l. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það hefur nú því miður ekki unnizt tími til þess að lesa að fullu og öllu í gegn þau nál., sem liggja hér fyrir í þessu máli. Nál. var útbýtt nú rétt í fundarbyrjun. Þau eru löng og allítarleg, en sem sagt, umr. verður að hefjast hér án þess að það hafi gefizt eðlilegur tími til þess að lesa yfir þau gögn, sem hér liggja fyrir. Þetta er illt út af fyrir sig.

Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni og okkar Alþbm. til þessa máls í sérstöku nál. á þskj. 499. Afstaða okkar er sú, að við viljum fella það frv., sem hér liggur fyrir. En til vara flytjum við eða flyt ég fyrir hönd okkar till. á þskj. 500 um breyt. við 3. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að I. öðlist ekki gildi, fyrr en fram hefur farið þjóðaratkvgr. um múlið, og meiri hl. þeirra, sem tekið hafa þátt í atkvgr., hafi fallizt á samþykkt I. Þetta er sem sagt okkar afstaða til málsins.

Allmiklar umr. hafa nú átt sér stað hér á Alþ. um þetta mál að undanförnu. Ég tel, að í þeim umr. hafi komið í ljós mjög greinilega, að fyrir þeim, sem standa að flutningi þessa máls og samningsgerðinni við Swiss Aluminium. vaki raunverulega að taka upp nýja stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar. Hin nýja stefna, sem þeir vilja taka hér upp, er við það miðuð að heimila útlendingum rétt til atvinnureksturs í landinu. Þeir halda því fram, að atvinnuvegir landsmanna séu ekki lengur nægilega traustir, til þess að hægt sé að byggja á þeim æskilegar framfarir þjóðinni til handa. Þetta sjónarmið kom mjög greinilega fram að mínum dómi í ræðu þeirri, sem hæstv. forsrh. flutti hér um málið við I. umr. Og þetta sama sjónarmið hefur komið enn þá greinilegar fram hjá þeim efnahagssérfræðingum, sem ríkisstj. hefur aðallega beitt fyrir sig í sambandi við þessa samningsgerð alla. Ég tel, að þetta atriði sé alveg meginþungamiðja þessa máls. Sem sagt það, að með þessari samningagerð er verið að leggja inn á nýja braut í atvinnumálum landsmanna. Það er verið að taka hér upp nýja stefnu.

Í nál. mínu bendi ég m.a. á það, að form. þeirrar stóriðjun., sem unnið hefur að þessari samningsgerð, Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, lýsti því yfir á mjög greinilegan og ótvíræðan hátt strax snemma á árinu 1962, þegar hann var á ferðalagi erlendis til þess að ræða við erlenda aðila um það að hefja slíkan rekstur, eins og hér er nú rætt um að taka upp, — lýsti hann því yfir alveg ótvírætt, hvaða ástæður lægju til þess, að það væri verið að fara inn á þessa braut. Orðrétt sagði form. stóriðjun., Jóhannes Nordal. það, sem ég skal nú hér greina, með leyfi hæstv. forseta. Orð Jóhannesar Nordals voru þessi:

„Ein aðalástæðan fyrir þessum ráðagerðum er sú, að íslenzkur sjávarútvegur er ekki talinn geta aukið útflutningstekjur sínar nema um 5% í hæsta lagi á ári næstu ár, og slík tekjuaukning hjá aðalatvinnuvegi landsmanna nægir ekki til að tryggja með góðu móti bætt lífskjör og velmegun í landinu. Íslendingar verða því að leita annarra möguleika til að auka útflutningstekjur sínar.“

Jóhannes Nordal leynir því ekki á neinn hátt, hvað fyrir honum vaki í þessum efnum. Hans verkefni er ekki það að semja við erlendan aðila um byggingu alúminíumverksmiðju á Íslandi, til þess að á þann hátt sé hægt að leysa raforkuframkvæmdir landsmanna. Á það minnist hann ekki. Enda efast ég ekki um, að hann hefur talið það í rauninni allt of fjarstætt að halda því fram, að eins og okkar málum nú væri komið, gætum við ekki með eðlilegum hætti leyst okkar raforkumál sjálfir, án þess að gera slíka samninga sem þá, sem hér liggja nú fyrir. En hans skoðun var þessi, að svo væri komið með atvinnuvegi þjóðarinnar, að það, væri ekki lengur hægt að byggja á þeim, ef tryggja ætti þjóðinni eðlilegar, efnahagslegar framfarir, og af þeim ástæðum þyrfti nú að taka upp nýja stefnu, ná samningum við fjársterka útlendinga og fá þá til þess að taka upp atvinnurekstur i landinu sjálfu.

Ég bendi einnig á það í mínu nál., að aðalefnahagssérfræðingur ríkisstj., Jónas Haralz forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar, staðfesti sams konar skoðun og þessa um svipað leyti eða strax á árinu 1962, þegar hann í ræðu, sem hann flutti á ráðstefnu íslenzkra verkfræðinga, lýsti því yfir, að hann teldi, að það væri þegar sannað mál, að það væri ekki hægt að tryggja eðlilegar, efnahagslegar framfarir í landinu með því að byggja á þeim atvinnuvegum, sem þjóðin hefur byggt á hingað til. En orðrétt sagði Jónas Haralz í þessari ræðu sinni strax á árinu 1962 það, sem hér greinir:

„Ég hef reynt að sýna fram á, að þær atvinnugreinar, sem hingað til hafa verið meginstoðir þjóðarbúskaparins: landbúnaður, sjávarútvegur og framleiðsla iðnaðarvöru fyrir innlendan markað — veiti ekki á næstu árum nægilegt svigrúm til þess vaxtar þjóðarframleiðslu, sem æskilegt er. Til þess að sá vöxtur geti átt sér stað, verður að fara inn á nýjar leiðir.“

Þetta sagði Jónas Haralz í ræðu á ráðstefnu verkfræðinga, þar sem hann ræddi sérstaklega um stóriðju og áhrif hennar á íslenzkan þjóðarbúskap.

Ég hef einnig bent á það, að það voru ekki aðeins þessir ráðunautar ríkisstj. í atvinnu- og efnahagsmálum, seðlabankastjórinn Jóhannes Nordal og forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar Jónas Haralz, sem boðuðu þessa kenningu strax á árinu 1962 og hvað eftir annað síðan, heldur var þessi skoðun, þessi kenning, einnig boðuð af ýmsum öðrum helztu forustumönnum innan ríkisstj. Nákvæmlega sams konar skoðun kom hvað eftir annað fram í ræðum hjá hæstv. forsrh. Hann taldi, að það, sem mestu skipti fyrir Íslendinga, eins og nú væri komið, væri að koma á stóriðju, og það er nú komið í ljós, hvers konar stóriðju hann hefur haft í huga allan þennan tíma til þess að tryggja hér efnahagslegar framfarir, þar sem það mætti telja fullvíst, að þjóðin gæti ekki tryggt sér nægilega örar efnahagslegar framfarir með því að treysta á þá atvinnuvegi, sem hingað til hefði verið treyst á. Og eins og ég sagði hér í upphafi míns máls, staðfesti hæstv. forsrh. þessa sömu skoðun í ræðu sinni við I. umr. þessa máls hér í þessari hv. d. nú fyrir nokkrum dögum.

Á þetta ber vitanlega að leggja áherzlu, vegna þess að það er nauðsynlegt, að menn átti sig á því, hvaða ástæður liggja til þess, að það er verið að gera þá samninga, sem nú liggja hér fyrir til umr., hvað það er, sem veldur því, að út í þessa samningagerð hefur verið farið. Það er vitanlega allt of billeg skýring á þessari samningagerð, þegar einstaka menn úr stjórnarliðinu reyna að halda því fram, að farið hafi verið inn á þessa braut, til þess að við gætum virkjað með hagstæðum og eðlilegum hætti og gætum framleitt raforku vegna þarfa landsmanna.

Samkv. þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir, er það upplýst, að ráðgert er, að tekið verði lán, sem nemur 774 millj. kr., til raforkuframkvæmdanna við Búrfell hjá Alþjóðabankanum, og síðan er einnig gert ráð fyrir því, að tekið verði lán hjá öðrum erlendum aðila vegna þessara framkvæmda, sem nema 408.5 millj. kr., eða erlend lán samtals til þessara framkvæmda I 182 millj. kr. Það er alveg augljóst, að það hefði verið létt verk fyrir Íslendinga að leggja fram talsvert verulegan hluta af þessu fjármagni án lántöku, og hitt efast auðvitað enginn um heldur, að við hefðum getað fengið þetta fé að láni miðað við fjárhagsaðstöðu þjóðarinnar nú, ef eftir því hefði verið leitað, vegna okkar eigin framkvæmda í raforkumálum. Það er því engin nauður, sem hefur rekið okkur til þess að semja við erlendan aðila um atvinnurekstur í okkar landi á þeim grundvelli, sem hér hefur verið markaður, vegna þess að við höfum ekki getað fengið lánin, sem við þurftum að fá til raforkuframkvæmdanna með öðrum hætti. — Nei, grundvöllur málsins er þessi, eins og ég hef bent á, að forustumenn í stjórnarliðinu hafa slegið því föstu, að Íslendingar geti ekki lengur byggt á þeim atvinnugreinum, sem hingað til hefur verið byggt á, og ekki lengur byggt á því, að landsmenn sjálfir eða einir annist atvinnureksturinn í landinu. Þeir hafa hallazt að hinni skoðuninni, að það sé þjóðinni nauðsynlegt vegna þess, hve atvinnuvegir landsmanna séu fábreyttir og vanmegnugir, að leita til fjársterkra útlendinga um það, að þeir komi hingað til landsins með sitt fjármagn og hefji hér atvinnurekstur fyrir okkur.

Það mál, sem hér liggur fyrir, verður því að ræðast á þessum breiða grundvelli, — ekki hinum, þar sem umr. snúast eingöngu um einn tiltekinn samning við einn erlendan aðila um byggingu einnar alúminíumverksmiðju hér við Straumsvík sunnan Hafnarfjarðar. Um það snýst þetta mál ekki í rauninni. Það er alveg augljóst, að að því er stefnt af þeim, sem eru forsvarsmenn þessa máls, að halda lengra inn á sömu braut, fá meira af svo góðu, ná fleiri slíkum samningum og vitanlega græða meira á þann hátt, sem þeir halda nú fram, að þeir muni gera á þessum sérstaka samningi.

Á þetta viljum við Alþbm. leggja höfuðáherzlu í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Við vörum alveg sérstaklega við því, að þessi nýja stefna verði tekin upp í atvinnumálum landsmanna, og við bendum á það, að það eru engar forsendur, sem nú liggja fyrir í dag, sem gera það eðlilegt eða knýjandi, að við hverfum frá okkar gömlu stefnu um það, að við skulum sjálfir eiga atvinnutækin í landinu og að við skulum sjálfir stjórna atvinnulífinu og hafa yfirráð þess á allan hátt og hverfa að hinni stefnunni, sem mundi þýða það, að meira eða minna af atvinnulífi landsins kæmist undir forræði útlendinga. Atvinnuvegir þjóðarinnar hafa þvert á móti sýnt það á síðustu árum, að þeir hafa reynzt okkur mun betur en meginatvinnuvegir margra annarra þjóða hafa reynzt þeim. Hér hefur framleiðsluaukningin á síðustu árum orðið meiri en í nálægum löndum. Þjóðartekjurnar hafa vaxið meir hér á síðustu árum en annars staðar. Það er því ekkert, sem kallar á það hjá okkur, að við hverfum frá þeirri stefnu í okkar atvinnuuppbyggingarmálum, sem við höfum byggt á til þessa.

Það hefur að vísu komið hér fram í umr. um þetta mál, að það er ekki fyllileg samstaða í liði ríkisstj. um þetta meginatriði málsins. Af hálfu Alþfl. er það tekið fram og undirstrikað, að hann vilji ekki fyrir sitt leyti viðurkenna það, að það eigi að hverfa inn á þessa braut almennt séð. Hann segist hins vegar hafa fallizt á það, að þessi einstaki samningur skuli gerður á þeim grundvelli, sem hann er, og þeir Alþfl.- menn telja, að það muni ekki þurfa að skipta sköpum, þó að á það sé fallizt, en taka þó fram, að þeir vilji fara mjög með varúð í sambandi við samninga um atvinnurekstursréttindi útlendinga hér í landinu. Það virðist því vera, að ýmsir af forustumönnum annars stjórnarflokksins, sem sé Alþfl., hafi gert sér grein fyrir því, að ýmsar hættur eru því samfara að fara inn á þessa nýju stefnu. Alþfl. segir m.a., að hann hafi sett fram þau skilyrði, að hinn erlendi atvinnurekandi verði t.d. ekki þátttakandi í samtökum atvinnurekenda í landinu. Þeir Alþfl.-menn sjá það sem sagt strax, að það er veruleg hætta á því, að þessi stóri erlendi atvinnurekandi, sem hér á að fá atvinnurekstursaðstöðu, geti gert sig verulega gildandi um þau málefni, sem samtök atvinnurekenda allajafna fjalla um, sem er einmitt um skiptingu á þjóðartekjunum, en það þýðir bein afskipti af pólitískum málefnum í landinu. Mér sýnist því það vera ljóst, að innan Alþfl. gætir nokkurs ótta í sambandi við þessa nýju stefnu á sama tíma sem forustumenn Sjálfstfl. virðast vera miklu harðari af sér í málinu og trúa miklu meira á þessa nýju stefnu, að það sé hagstætt fyrir Íslendinga að semja við útlendinga um það að annast atvinnurekstur í landinu að meira eða minna leyti.

Eins og ég hef sagt, leggjum við Alþb.-menn varðandi afstöðu okkar til þessa máls einmitt megináherzlu á þetta eðli samningsgerðarinnar, að hér sé verið að taka upp nýja stefnu, hér sé verið að fara inn á þá braut í atvinnumálum þjóðarinnar, sem við teljum verulega hættulega fyrir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar á komandi árum. Við teljum, að reynslan frá liðnum árum hafi verið sú, að það sé miklum mun traustara og betra fyrir landsmenn að byggja á eigin framkvæmdum í þessum efnum og eigin getu, en að eiga uppbyggingu atvinnulífsins og rekstur atvinnutækja að meira eða minna leyti undir áhuga eða almennri afstöðu útlendinga.

Hér hafa af skiljanlegum ástæðum einnig orðið allmiklar umr. um ýmis þau efni, sem þessir samningar, sem hér liggja nú fyrir, fjalla sérstaklega um.

Ég skal nú víkja hér nokkuð frekar að þessum efnisatriðum samningsgerðarinnar. (Forseti: Má ég biðja hv. ræðumann að gera svo vel að gera hlé á ræðu sinni. Nú verður fundinum frestað og haldið áfram kl. 5.45, kortér fyrir 6.) — (Fundarhlé.)

Herra forseti. Ég var kominn þar ræðu minni, að ég ætlaði að víkja með nokkrum orðum að ýmsum ákvæðum samninganna. Eins og greinilega hefur komið fram í umr., reyna forsvarsmenn þessara samninga mjög að réttlæta þá með því, að samið sé á hagstæðan hátt um sölu á rafmagni til alúmínhringsins. Mig langar nú til þess að rifja það hér upp með nokkrum orðum, sem fram hefur komið í sambandi við þennan lið samninganna.

Það liggur alveg óumdeilanlega fyrir, að það rafmagnsverð, sem samið hefur verið um við hringinn, er um 28% lægra en Norðmenn sömdu um við sama aðila, þegar þeir sömdu um rafmagnssölu til alúminíumreksturshringsins í Noregi. Í Noregi er gengið út frá því, að þetta rafmagnsverð, sem er þó þetta miklu hærra en hér hefur verið samið um, geti þó hækkað samkv. vísitölu, svo að á næstu 25 árum getur þar verið um allmargar hækkanir að ræða. Hér hins vegar er samið þannig, að það má heita nokkurn veginn víst, að rafmagnsverðið verði óbreytt í 25 ár. Forstjóri Landsvirkjunar upplýsti, að sú endurskoðun, sem að vísu gæti farið fram á raforkuverðinu eftir 15 ár, væri með þeim hætti, að það væri ekki orð á því gerandi, og það gæti varla breytt raforkuverðinu neitt, sem héti, svo að það má segja, að þessir samningar geri ráð fyrir því, að rafmagnsverðið, 10.75 aurar á kw-stund, verði svo að segja óbreytt í 25 ár. Það sjá því allir, að það er mikill munur á raforkusamningum Norðmanna við hringinn og þeim raforkusamningi, sem hér hefur verið gerður. Alþfl.- menn viðurkenna þetta í sínum málflutningi. Þeir viðurkenna það, að í samningunum hafi það farið svo, að það hafi reynzt nauðsynlegt að semja um tiltölulega lágt raforkuverð, til þess að hægt væri að fá hringinn til þess að koma hingað með atvinnurekstur sinn. Það liggur alveg óumdeilanlega fyrir, að það raforkuverð, sem um er að ræða í þessum samningi, er lægsta raforkuverð, sem nú mun vera fáanlegt í allri Evrópu. Hvergi munu vera möguleikar á því að fá rafmagn á svona lágu verði. Einn af þeim alúmínhringjum, sem hafði hug á því eða athugaði möguleikana á því að byggja alúminiumverksmiðju hér á landi, samdi um byggingu slíkrar verksmiðju í Grikklandi og gerði þar samning um kaup á raforku. Þar samdi sá hringur um svipað verð og norska verðið er eða um 3 mill en reynslan varð sú, að það varð svo mikil óánægja í Grikklandi út af þessu lága verði, sem þeir kölluðu, á raforkunni, að þar hrökkluðust menn úr ríkisstj. fyrir þessa samningagerð, og síðan hefur hringurinn orðið að sætta sig við það, að þetta rafmagnsverð, sem hann hafði gert samning um, hefur verið hækkað upp í 4.3 mill. Þar er því um miklum mun hærra verð á raforkunni að ræða heldur en þessi samningur felur í sér.

Það er einnig upplýst, að rafmagnsverðið samkv. þessum samningi er lægra heldur en samið var um af Ghanastjórn í sambandi við mjög mikla stórvirkjun þar í landi og miklar framkvæmdir þar, þar sem þó er talið, að virkjunaraðstaða öll sé miklum mun hagstæðari heldur en hér. En þetta Afríkuríki náði sem sagt mun hagstæðari raforkusamningi en þeim, sem hér liggur fyrir.

Ég ætla, að þessi atriði öll, sem hér hafa verið nefnd, sýni það, að hér er ekki um að ræða hagstæðan raforkusamning, heldur mjög óhagkvæman fyrir Íslendinga. Á það hefur verið bent, að forstöðumenn Landsvirkjunar telja, að framleiðslukostnaður á hverri kw-st. í Búrfellsvirkjun muni verða í kringum 10.4 aurar, miðað við þær áætlanir, sem þeir ganga út frá. En nú er upplýst af forstöðumönnum Landsvirkjunar, að heildarkostnaður virkjunarinnar er áætlaður 1913 millj. kr. Ef stofnframkvæmdir fara 65 millj. kr. fram úr áætlun, er verðið 10.75 aurar á kw-st. augljóslega orðið lægra en beinn framleiðslukostnaður. Það verður nú að segja, að miðað við alla þá reynslu, sem við Íslendingar höfum í sambandi við meiri háttar framkvæmdir, verður það að teljast með ólíkindum, ef heildarkostnaðurinn fer ekki meira fram úr áætlun en sem nemur 65 millj. kr. Það má svona skjóta því hér inn í, í sambandi við þessa áætlun, að ég held, að það hafi verið sama fyrirtækið, sama íslenzka fyrirtækið, sem á að standa að framkvæmdunum við Búrfell, sem gerði fyrir nokkrum árum tilboð í byggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn. Þá ætlaði það fyrirtæki að byggja höfnina í Þorlákshöfn fyrir 40 millj. kr., en nú er talið alveg víst, að byggingarkostnaður á þessari höfn fari yfir 100 millj. kr. Þeir mega vera nokkuð nákvæmari í tilboðum sínum nú en þeir voru í sambandi við byggingarframkvæmdirnar í Þorlákshöfn, ef umframkostnaðurinn á ekki að verða svo mikill, að það verði um augljóst tap að ræða fyrir Íslendinga að selja raforkuna á því verði, sem samið hefur verið um.

En þó að gengið sé nú út frá þeim áætlunum, sem liggja fyrir um stofnkosinað virkjunarinnar, liggur það greinilega fyrir, að þar er margt vantalið. Í áætlununum er t.d. gengið út frá því, að reistar verði varaaflsstöðvar upp á 40 mw. og að þær muni kosta 122 millj. kr. En samkv. samningunum er við það miðað, að lágmarksorka, sem á að vera til staðar fyrir alúminíumverksmiðjuna, á að vera 56 mw., en varaaflsstöðvarnar eru ekki nema upp á 40 mw. Nú getur það vel svo farið, enda hreinlega gert ráð fyrir því af forstöðumönnum Landsvirkjunar, að Búrfellsvirkjunin gæti fallið út með öllu á einhverju tímabili, ef um óhöpp væri þar að ræða. Það er því alveg ljóst, að þar er ekki gert ráð fyrir að byggja þær varaaflsstöðvar vegna þeirrar orku, sem samningurinn raunverulega kallar eftir. Þegar á þetta er bent, segja forstöðumenn Landsvirkjunar: Fari svona, reiknum við með því, að við verðum að taka viðbótarorku út úr hinu almenna kerfi, sem Íslendingar búa við nú. — Hér er sem sagt greinilega reiknað með því að reisa minna af varaaflsstöðvum en bein þörf er á. Á þennan hátt er komizt hjá því að taka með inn í heildarstofnkostnaðinn rúmlega 60 millj. kr., sem 20 mw. viðbótar varastöð mundi kosta.

Samkv. þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir, er gert ráð fyrir því, að ráðizt verði í varúðarráðstafanir fyrir ofan virkjunarstaðinn við Búrfell, sem muni kosta um 24 millj. kr. En ýmsir sérfræðingar hafa bent á það, að þessar ráðgerðu varúðarráðstafanir séu allt of litlar. Ef þær ættu að koma að verulegu gagni, þarf að eyða hér miklu meira fjármagni en 24 millj. Og það eru allar líkur til þess, að áður en langt um líður verði ráðizt í framkvæmdir ofan virkjunarstaðar, sem munu kosta miklum mun meira en þetta. Það hefur t.d. komið fram í umsögn raforkumálastjóra um þessi mál, að hann segir, að það sé líklegt, að í þessar ráðstafanir þurfi að ráðast, en það verði bara gert siðar. M.ö.o.: það er verið að draga hér undan nokkurn hluta af þeim stofnkostnaði, sem menn vita þó um, að muni koma til með að falla á þessar framkvæmdir.

Þegar forstöðumenn Landsvirkjunar reikna með því, að framleiðslukostnaður á hverja kw-stund raforku frá Búrfellsvirkjun verði 10.40 aurar, segjast þeir miða við það, að eytt verði í olíukaup við rekstur varastöðvanna 6–7 millj. kr. á ári. En það þýðir, að þeir reikna með því, að varastöðvarnar verði reknar 6–8 daga miðað við það orkumagn, sem verksmiðjan þarf að fá að lágmarki til. Þegar maður hefur það nú í huga, að það geta skiljanlega orðið afföll á orkunni frá Búrfelli af ýmsum ástæðum, sjá menn, að það er ekki reiknað með mikilli notkun varaaflsstöðvanna í þessu dæmi. Það er kunnugt, að það getur komið fyrir og hefur æði oft komið fyrir í virkjunum, að vélasamstæða bilar og hún liggur biluð nokkurn tíma, og það þarf að leita eftir hlutum til útlanda til þess að koma samstæðunni í fullan rekstur aftur. Vitanlega getur slíkt gerzt þarna við Búrfellsvirkjun. Það getur líka komið fyrir, að orkuflutningslinan frá Búrfelli hingað til Faxaflóa bili af ýmsum ástæðum nokkurn tíma, og fleira getur komið til. En auk þess er svo um að ræða verulegar truflanir í Þjórsá vegna ísmyndunar eða mikils aurskriðs, sem viðurkennt er nú af öllum, að veruleg hætta sé á. Ég held því, að enginn geti efazt um það, að í þessum útreikningum er miðað við svo litla notkun á varaaflsstöðvunum, að það verður að teljast mjög ógætilegt í áætluninni. Upplýsingar liggja fyrir um það, að aðeins olíukostnaðurinn einn nemi um 50 aurum á hverja kw-st. í rekstri þessara varastöðva — og þó að miðað sé við varastöðvar af þeirri gerð, sem áætlunin gerir ráð fyrir, er þó tekið fram, að búast megi við, að olíukostnaðurinn sé í kringum 55 aurar á kw.-st., aðeins olíukostnaðurinn einn, og svo kemur auðvitað þar til viðbótar annar rekstrarkostnaður stöðvanna. Það gefur því auga leið, að það má ekki reka þessar stöðvar lengi, svo að meðaltalsframleiðslukostnaður í virkjuninni hækki ekki talsvert frá því, sem áætlanir eru um. Ég held því, að þessi atriði, sem ég hef minnzt á hér í sambandi við sölu raforkunnar til alúmínhringsins, bendi öll til þess, að hér sé um óhagkvæman samning að ræða og að veruleg hætta sé á því, að svo kunni að fara, að framleiðslukostnaðurinn á rafmagninu verði hærri miðað við hverja kw-st. heldur en það verð er, sem gert er ráð fyrir, að hringurinn eigi að greiða.

Í umr. um raforkusölusamninginn hefur af skiljanlegum áslæðum verið á það bent, að Íslendingar verði líka að taka það með í reikninginn, þegar þeir mela gildi þessa samnings, að þeir eru að selja á leigu eina hagstæðustu virkjun, sem þeir ráða yfir. Búrfellsvirkjun, selja hana á leigu til langs tíma, en á þeim tíma, sem þessi virkjun á að vinna aðallega fyrir útlendinga, þurfa landsmenn sjálfir að ráðast í aðrar virkjanir vegna eigin þarfa. En þá hafa talsmenn þessarar samningagerðar talið sig geta sýnt það með samanburðarútreikningi, að raunverulega hafi Íslendingar verulegan hag af því að semja við alúminverksmiðjuna á þessum grundvelli, því að þeir eigi aðra möguleika til virkjunar, þannig að það mundi verða hagstæðara fyrir þá að hafa samninginn við alúmínfyrirtækið en að búa einir að Búrfellsvirkjun. Og svo er samanburður í þessum efnum gerður á þessum grundvelli. Annars vegar er gert ráð fyrir því, að um sé að ræða Búrfellsvirkjun upp á 210 mw. Íslendingar eiga að fá sjálfir 84 mw., en útlendingarnir 126 mw. eða um 2/3 orkunnar. Hins vegar er svo aftur sett upp í samanburðardæminu það, að Íslendingar hafi þessi 84 mw., sem þeir eiga að fá úr Búrfellsvirkjun, en virki í staðinn Háafoss og fái út úr honum 126 mw. eða jafnmikið eins og í hinu dæminu á að ganga til alúmínverksmiðjunnar. Gert er svo ráð fyrir því, að þessi 126 mw. virkjun við Háafoss eigi að kosta 975 millj. kr. Og þegar þetta samanburðardæmi er síðan gert upp, er því slegið föstu af talsmönnum þessarar samningagerðar, að það sé augljóst mál, að það sé hagkvæmara fyrir Íslendinga að láta 2/3 af orku Búrfells á 10.75 aura, þó að þeir þurfi síðar að virkja Háafoss með þeim kostnaði, sem þarna er reiknað með í dæminu, en að búa einir að Búrfellsvirkjun. Nú hata verið gerðar nokkrar aths. við þennan samanburðarútreikning. M.a. benti ég á það, að þetta væru tortryggilegar tölur, því að nú virtist komið upp, að hægt væri að ráðast í virkjun við Háafoss, sem væri 126 mw. og kostaði ekki nema 975 millj. kr., en það þýddi, að sú virkjun væri orðin hagstæðari en útreikningarnir við sjálfa Búrfellsvirkjun hafa sýnt, — hvert kw. í þessari Háafossvirkjun væri orðið ódýrara. þegar á þetta var bent, komu þessar skýringar til baka: Ja, það er að vísu rétt, að tölurnar benda til þess, að Háafossvirkjun sé ódýrari, en þar á móti kemur það, að Háafossvirkjun er aðallega hugsuð sem toppstöð. Hún gefur ekki þessa orku, 126 mw., nema stöku sinnum. Þar er um þannig vatnsfall að ræða, að í mjög mörgum tilfellum mundi hún ekki gefa nema hálfa þessa orku, en hún gæti aðeins þjónað sem toppstöð í þessu tilfelli. — En þá sjá auðvitað allir, að hér er verið að jafna saman alveg ólíkum hlutum. Annars vegar er um raunverulega virkjun að ræða, sem getur veitt að staðaldri eða stöðugt orku upp á 126 mw., en í hinu tilfellinu er um að ræða virkjun, sem ekki getur veitt þá orku nema stöku sinnum. En þetta er sett upp sem tvennt sambærilegt. Það er því alveg augljóst mál, að hér er verið að blekkja.

Á það hefur einnig verið bent, að þetta samanburðardæmi fær heldur ekki staðizt af þeim ástæðum, að í öðru tilfellinu er gert ráð fyrir því, að öll orkan sé seld, þ.e.a.s. allt umframaflið er þarna látið til alúminíumverksmiðjunnar, en í hinu tilfellinu er ekki gert ráð fyrir því, að Íslendingar geti notfært sér allt aflið, og talsverður hluti af orkunni er því ekki seldur. En vitanlega væri hægt að selja allmikið af þessari orku, ef aðeins verðið væri lækkað, t.d. eitthvað í námunda við 10.75 aura á kw.-st., og þá mundi allur útreikningurinn gerbreytast.

Ég tel, að þessi atriði, sem ég hef minnzt á hér nú, sýni það, svo að ekki verður um villzt, að raforkusamningurinn við alúminíumhringinn er okkur Íslendingum út af fyrir sig ekki keppikefli. Hann er óhagstæður, og það eru mjög verulegar líkur til þess, að svo geti farið, að við höfum beint tap af þessari orkusölu, a.m.k. á talsverðum hluta samningstímabilsins.

Við verðum vitanlega að hafa það í huga, að mjög viðurkenndir sérfræðingar í virkjunarmálum hafa bent á það, að það eru miklar hættur á því, að rennslisvirkjun í Þjórsá geti orðið áhættusöm. því verður ekki neilað, að sá af íslenzkum verkfræðingum, sem langsamlega mesta reynslu hefur varðandi virkjun fallvatna og þessi vandamál. sem ísavandamálin eru, það er Sigurður Thoroddsen, sem hefur verið einn aðalverkfræðingur okkar Íslendinga í rafmagnsmálum nú um langan tíma. Hann hefur varað sterklega við því að ætla að treysta á slíka rennslisvirkjun, sem hér er ráðgerð. Og hann telur, að það sé hreint óvit að leggja út í það að reka þessa virkjun á þeim grundvelli, sem nú er ráðgert með samningum við alúmínverksmiðjuna. án þess að ráðizt verði í verulega kostnaðarsamar öryggisráðstafanir utan virkjunarstaðarins við Búrfell.

Sams konar aðvaranir komu frá norsku ísasérfræðingunum, sem athuguðu mjög allar kringumstæður í Þjórsá. Þeir gáfu beinlínis ábendingar um það, hvað þeir teldu að væri æskilegt að gera til þess að koma í veg fyrir mestu hættuna í þessum efnum, en ábendingar þeirra eru ekki teknar til greina, eingöngu af þeim ástæðum, að ef eftir þeim væri farið, þá mundi stofnkostnaður virkjunarinnar fara alllangt yfir það, sem hann má fara, ef þær tölur eiga að geta gilt, sem ríkisstj. hefur hampað í þessu máli.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að rekstri alúminverksmiðjunnar sjálfrar. Ég hafði hér áður í þessum umr. bent á það, að beinar tekjur mundu Íslendingar ekki hafa af rekstri alúminverksmiðjunnar nema í sambandi við sölu á vinnuafli til fyrirtækisins og í sambandi við skattgreiðslur fyrirtækisins. Ég held, að þetta liggi líka nokkuð ljóst fyrir af því, sem fram hefur komið af hálfu ríkisstj. til frekari upplýsinga um þetta atriði. Að vísu er ágreiningur þar um eitt einasta atriði. Fulltr. ríkisstj. vilja reikna með því, að nokkrar beinar gjaldeyristekjur fáist í sambandi við rekstur verksmiðjunnar og af raforkusölunni til verksmiðjunnar, en ég fyrir mitt leyti vil ekki fallast á að reikna með því, vegna þess að mér sýnist alveg augljóst, að þær greiðslur, sem við eigum að fá fyrir raforku frá verksmiðjunni, muni ekki verða meiri en svo, a.m.k. á fyrsta 25 ára tímabilinu, að þær muni rétt standa undir þeim hluta af stofnkostnaði virkjunarinnar, sem svarar beinlínis til þess orkuhlutfalls, sem fyrirtækið á að fá. Við verðum því að taka erlent lán vegna raforkuframkvæmdanna og greiða aftur það lán með því fé, sem fyrir raforkuna kemur inn, og ég treysti mér ekki til þess að reikna með því, að þar verði um neinar nettógjaldeyristekjur að ræða fyrir Íslendinga.

Segja má, að það skipti ekki höfuðmáli, hvort gjaldeyristekjur af þessari verksmiðju verða reiknaðar 50 millj. kr. hærri eða lægri. Fyrir mér er það a.m.k. ekkert stórt atriði í þessum efnum. En ég held, að útreikningar ríkisstj. um það, að nettógjaldeyristekjur af rekstri verksmiðjunnar verði um 300 millj. kr. eða 250 millj. kr. fyrir utan gjaldeyristekjur af raforkusölunni, — ég held, að þeir útreikningar fái ekki staðizt. Ekki miðað við það, að aðeins 450 Íslendingar eigi að vinna við rekstur verksmiðjunnar.

Þegar óskað var eftir nánari upplýsingum um þetta atriði, þá kom það fram, að reiknað var með, að beinar gjaldeyristekjur vegna vinnusölu til verksmiðjunnar mundu verða 112 millj. kr., en þá er sýnilega reiknað með því, að allir þessir 450 menn verði Íslendingar, en það sýnist mér mjög hæpið að reikna með miðað við það, sem sagt er í samningunum um rétt þeirra til þess að hafa útlendinga í sinni þjónustu. Og einnig er það sýnilegt, að þá á meðalkaup hvers Íslendings, sem þarna vinnur, að verða 280 þús. kr. á ári, en það tel ég vera hærra en greitt er hér fyrir sambærilega vinnu á Íslandi nú. En okkur er hins vegar sagt, að þessi verksmiðja eigi að greiða svipað kaup og innlendir atvinnurekendur gera. Mér sýnist því, að það sé teygt úr þessari tölu. En þó að gengið sé út frá því, að gjaldeyristekjur af vinnusölu 450 manna til verksmiðjunnar verði 112 millj. kr., þá vantar enn allverulega á, og þá er því bætt við, að við munum fá um 58 millj. kr. á ári eða þar um bil vegna viðhaldskostnaðar verksmiðjunnar. Þar er auðvitað augljóslega um það að ræða, að þá er gert ráð fyrir því, að við seljum þar viðbótarvinnuafl, því að ef þar á að vera um að ræða nettógjaldeyristekjur okkur til handa, þá vitanlega kemur það fyrir selt vinnuafl, og þá eru líka mennirnir, sem eiga að starfa við fyrirtækið, orðnir fleiri en 450.

Þá er einnig bætt hér við einum tekjulið, sem er í sambandi við skrifstofuvinnu og aðra yfirstjórn. Þar er auðvitað líka um vinnuafl að ræða. En þegar heildargjaldeyristekjurnar af þessu fyrirtæki voru sagðar mundu verða 300 millj. kr. á ári, og síðan var reiknað út, að gjaldeyristekjur á hvern vinnandi Íslending í þessari verksmiðju mundu verða meiri en t.d. á hvern vinnandi Íslending, sem starfaði að sjávarútvegi, þá var aftur reiknað með því, að við fyrirtækið ynnu aðeins 450 menn. Það er því alveg sýnilega um það að ræða í þessum efnum, að hér er rangt reiknað. Fyrst eru teknar inn í dæmið 50 millj. kr. tekjur af raforkusölu, en það vinna vitanlega ákveðnir menn við framleiðsluna á raforkunni, viðhaldið á þeim mannvirkjum o.s.frv., en þeim er ekki bætt við. Síðan er þarna verið að gera ráð fyrir nokkrum tekjum í sambandi við viðhald á fyrirtækinu og við skrifstofuvinnu við fyrirtækið o.s.frv.

Ég hef aldrei neitað því og neita því ekki, að nettógjaldeyristekjur af þessu fyrirtæki geti orðið 300 millj. kr., þær gætu jafnvel orðið meiri, en það byggist aðeins á því, að þá ætlum við að selja þangað meira vinnuafi en gert hefur verið ráð fyrir. Ekki 450 menn, heldur 550 menn eða 650 menn eða kannske 700 menn. Gjaldeyristekjur af þessu fyrirtæki fáum við aðeins fyrir það vinnuafl, sem við látum fyrirtækið hafa og svo 50 millj. kr. út úr skattlagningu á fyrirtækið á ári. Um aðrar gjaldeyristekjur frá þessu fyrirtæki er ekki að ræða.

Ég held því svo fram, að sú ráðstöfun á vinnuafli að selja vinnuafi miðað við venjuleg kjör á vinnuafli til erlends aðila, sem býr við þau kjör, sem gert er ráð fyrir samkv. þessum samningi, — þ.e.a.s., að sá aðili á ekki að borga neina tolla eða önnur aðflutningsgjöld af vörum og tækjum, sem hann flytur inn í landið, hvorki til rekstrar né til stofnkostnaðar. Hann fær aðstöðu til að flytja allan þann hagnað, sem verður á rekstri fyrirtækisins, út úr landinu aftur. — Ég segi, að það að selja slíkum aðila vinnuafi fyrir það almenna gjald, sem er á vinnuaflinu í landinu, það er óhagstætt, það er óhagstætt okkar þjóðarbúi, miklum mun óhagstæðara en að nota þetta vinnuafi við þá atvinnuvegi, sem við höfum fyrir í landinu og skila auðvitað margir hverjir miklum hagnaði, óbeinum hagnaði, í okkar þjóðarbú og standa undir öllum þeim margvíslegu gjöldum til þjóðarbúsins, sem nú eru hér í gildi, en þessi á ekki að standa undir þeim öllum.

Ég hef því leyft mér að halda því fram, að það sé ekki hagstætt fyrir Íslendinga að ráðstafa vinnuafli sinu á þennan hátt. Mér sýnist, að þessi verksmiðja hafi nákvæmlega sams konar gildi í íslenzku efnahagslífi í þessum efnum og flugvöllurinn við Keflavík hefur. Auðvitað höfum við Íslendingar fengið nokkurn gjaldeyri fyrir það vinnuafl, sem við höfum ráðstafað þar inn á völlinn, en við hefðum bara fengið meiri gjaldeyri, ef við hefðum notað það vinnuafi til þess að reka betur okkar atvinnuvegi en við höfum gert. Heildargjaldeyristekjur af þessum rekstri, 300 millj. kr. á ári, — þó að sú tala ríkisstj. sé tekin gild, — þá er sú tala ekki ýkja merkileg. Þegar maður hefur það í huga, eins og ég hef bent á áður í þessum umr., að útflutningsverðmæti okkar sjávarútvegs er nú að nálgast 6000 millj. kr. á ári, og aukningin og aðeins aukningin í útflutningsverðmætum sjávarútvegsins hefur verið nú síðustu ár frá 800 og allt upp í 1000 millj. Sannleikurinn er sá, að þegar þessi verksmiðja gerir ekki betur en að veita okkur aðeins gjaldeyristekjur fyrir vinnuafl, sem hún hefur af okkur tekið, þó að hún skilaði í okkar gjaldeyriskassa um 300 millj. kr. á ári, þá er það ekkert keppikefli að ná í slíkt. Við þurfum ekkert á slíku að halda miðað við þá möguleika, sem við ráðum yfir nú.

Mér sýnist af þessu, sem ég hef sagt, að það sé sama, hvort litið er á rafmagnssölusamninginn og byggingu raforkuversins við Búrfell eða litið er á beinan rekstur alúmínverksmiðjunnar. Hvorugt þetta hefur það gildi fyrir okkur Íslendinga, að það sé ástæða til þess fyrir okkur að leggja á okkur öll þau vandkvæði og allar þær hættur, sem fylgja þessari samningsgerð.

Mig langar þá til þess að víkja hér nokkrum orðum að ýmsum þeim fríðindum, sem hinn erlendi aðili á að fá samkv. þessari samningsgerð, því að það verður vitanlega líka að meta þann hugsanlega hagnað, sem ríkisstj. hefur nú verið að reyna að reikna sem allra mestan, t.d. í sambandi við gjaldeyrisöflun. Það verður að meta hann með tilliti til þess, hvað við látum í staðinn í ýmsum efnum.

Samkv. samningunum er gert ráð fyrir því, að alúminhringurinn losni við að greiða alla tolla og öll aðflutningsgjöld í sambandi við byggingu verksmiðjunnar, og í áætlunum þeim, sem ríkisstj. hefur lagt hér fyrir þingið, er þess beinlínis getið, að þessi gjöld muni nema af stofnkostnaði verksmiðjunnar í kringum 500 millj. króna. Nú vitum við það, að annar atvinnurekstur í okkar landi verður að standa undir tollum og aðflutningsgjöldum. Hann verður að greiða slíkar upphæðir, en þessi á að losna við að greiða þessi gjöld. 500 millj. í eftirgjöf af stofnkostnaði jafngildir því, eins og ég hef bent hér á áður í umr. um þetta mál. að fyrirtækið borgi hreinlega enga skatta í 10 ár. Aðeins þessi eftirgjöf nemur því, að fyrirtækið sé með öllu skattfrjálst fyrstu 10 árin, ef við viljum bera þetta saman við önnur fyrirtæki, sem eru starfrækt í landinu.

Þá er í þessum samningum gert ráð fyrir því, að alúmínverksmiðjan þurfi ekki heldur að greiða tolla af rekstrarvörum sínum, vélum og lækjum og efni, sem þarf til rekstrarins. Annar atvinnurekstur í okkar landi verður að greiða þessi gjöld. Þegar flutt er inn vél til endurnýjunar í frystihúsum eða keypt eru ný frystitæki eða fluttar eru til landsins vélar, sem eiga að framleiða hér iðnaðarvörur, þá verður að greiða full aðflutningsgjöld af þessum tækjum. En þessi rekstur á að sleppa við að borga þessi gjöld. Hér er vitanlega um stórkostleg fríðindi að ræða og mismunun á milli atvinnurekstrar, þar sem alúmínverksmiðjan er annars vegar og atvinnurekstur landsmanna hins vegar.

Samkv. samningunum er gert ráð fyrir því, að alúminverksmiðjan þurfi ekki að vera bundin af íslenzkum lögum um meðferð á gjaldeyri. Fyrirtækið má ráðstafa sínum gjaldeyri, eins og það óskar eftir á hverjum tíma. Annar atvinnurekstur í okkar landi verður að afhenda þann gjaldeyri, sem að hann vinnur sér fyrir. Hér er vitanlega líka um mjög mikil fríðindi að ræða.

Þá er að finna það ákvæði í samningunum, að þessi rekstur getur einnig komið til með að njóta vissra fríðinda í sambandi við skráningu krónunnar. Það er beinlínis tekið fram í samningunum, að ef þannig standi á, að mismunandi gengi sé á íslenzku krónunni, þá skuli alúminfyrirtækið aldrei búa við lakari gengisskráningu en sem nemur vegnu meðaltali af þeim mismunandi gengjum, sem í gildi eru á hverjum tíma. Nú hefur það komið fyrir hjá okkur, að til þess hefur þurft að grípa, að það hefur þurft að styrkja vissar útflutningsgreinar með hagstæðri gengisskráningu eða öðru, sem jafngildir því. Það gæti því vel farið svo á þeim næstu 45 árum, sem þessi samningur á að gilda, að það yrði tekið hér upp mismunandi gengi að meira eða minna leyti og þá byggi þessi rekstur, þessi stórrekstur útlendinga, þá byggi hann orðið við hagstæðari gengisskráningu en t.d. meginhlutinn af okkar sjávarútvegi væri látinn búa við. Þetta er eitt af mörgum fríðindum, sem hringurinn hefur tryggt sínum rekstri í sambandi við þessa samningsgerð.

Þá er það ákvæði að finna í samningunum, að hringurinn semur um það, að alúmínverksmiðjan á ekki að þurfa að borga alla þá skatta eða öll þau gjöld, sem kunna að verða lögð á hér á Íslandi á næstu 45 árum. Hann semur um einn fastan skatt, sem á að koma í aðalatriðunum í staðinn fyrir tekju- og eignarskatt og útsvör og aðstöðugjöld og nokkur önnur smágjöld, en þetta framleiðslugjald felur ekki í sér einu sinni öll þau gjöld, sem atvinnureksturinn á Íslandi þarf að borga nú og ýmsir aðilar hér í landinu eiga að borga nú. Og auk þess er svo alveg augljóst, að þessi rekstur mundi sleppa við ýmsar hækkanir, sem ákveðnar yrðu á næstu árum eða ýmis ný gjöld, sem hér kynnu að koma inn og sem eðli málsins samkv. gætu ekki komið inn í þetta framleiðslugjald, þegar það verður endurskoðað. Það er því ekkert um það að villast, að þessi alúmínrekstur, sem hér er ráðgerður, kemur til með að búa við allveruleg skattfríðindi líka.

Þá er samið um að í þessum samningum, að alúmínreksturinn eigi ekki að lúta íslenzku skattaeftirliti. Í þeim tilfellum, sem það þykir nauðsynlegt að líta eftir uppgjöri fyrirtækisins og bókhaldi, er fyrirtækið ekki skyldugt að leggja bókhald sitt eða aðrar upplýsingar fyrir íslenzk skattayfirvöld. Það semur um það, að ef fram þurfi að fara athugun í þessum efnum, skuli óháð erlend endurskoðunarskrifstofa vinna þetta starf. Óháð erlend endurskoðunarskrifstofa á þá að vinna þetta starf. Þó að stofna eigi að nafninu til íslenzkt hlutafélag. Íslenzka álfélagið hf., sem á að fá atvinnurekstraraðstöðu hér í landinu í 45 ár og njóta allra réttinda samkv. íslenzkum lögum um hlutafélög og ýmis önnur réttindi þar til viðbótar samkv. þessum samningi, þá þarf það ekki að beygja sig undir það að lala við íslenzk skattayfirvöld. Það hefur eitt rétt til þess að stefna þessum málum sínum til athugunar hjá erlendum aðila.

Þá er það atriði í samningunum, sem talsvert hefur verið hér rætt um, þar sem hinn erlendi aðili hefur tryggt sér það ákvæði í samningunum, að rísi upp ágreiningur á milli dótturfélags hans hér á landi, Íslenzka álfélagsins hf., og t.d. Hafnarfjarðarkaupstaðar eða Landsvirkjunar eða íslenzkra stjórnarvalda, geti hann skotið slíkum ágreiningsmálum undir úrskurð erlends gerðardóms en þurfi ekki að beygja sig fyrir úrskurði íslenzkra dómstóla. Það hefur verið reynt hér í þessum umr. af hálfu forsvarsmanna þessa samnings að réttlæta þetta ákvæði með því, að það væru til ýmis fordæmi hér á landi um slík gerðardómsákvæði sem þetta. M.a. hefur verið fært fram, að í viðskiptasamningum á milli Íslands og Sovétríkjanna væri ákvæði svipað þessu um gerðardómsúrskurð. Ég tel, að þessi afsökun forsvarsmanna samninganna sé lýsandi dæmi um það, hvað þeir eiga erfitt með að réttlæta sinar gerðir í sambandi við ýmis ákvæði þessa samnings. Þeir vita auðvitað mæta vel, að hér er engu líku saman jafnað. Það hefur enginn ágreiningur verið um það, að gerðardómsákvæði gætu verið fullgild út af fyrir sig til þess að skera úr um deilur. Við vitum, að í mörgum tilfellum hefur um það verið að ræða, þar sem Ísland hefur samið við önnur ríki, og við vitum líka, að í fjöldamörgum tilfellum hefur verið um gerðardómsákvæði að ræða, þar sem íslenzk fyrirtæki eða íslenzkar stofnanir eiga í viðskiptasamningum við erlendan aðila. Þar hafa málin eðlilega legið þannig, að annars vegar var aðili, sem átti að njóta íslenzkrar réttarverndar, en hins vegar var samningsaðili, sem naut réttarverndar í einhverju öðru landi. Þegar þessir aðilar áttu saman samningsviðskipti, var það vitanlega ekkert óeðlilegt og hefur alltaf verið viðurkennt, að í þrætum þeirra á milli gæli verið úrskurðað af gerðardómi. En hér er ekki um það að ræða í sambandi við þá deilu, sem upp hefur risið um þetta gerðardómsákvæði. Hér er um það að ræða, að stofnað er svonefnt íslenzkt félag, Íslenzka álfélagið hf., þar sem fram er tekið, að það skuli njóta allra réttinda, sem íslenzk hlutafélög njóta. Þetta félag á að fá hér atvinnurekstraraðstöðu í 45 ár, en síðan er bara ákveðið, að þetta íslenzka félag skuli hafa rétt til þess, þegar ágreiningur kemur upp á milli þess og annarra innlendra aðila, að skjóta slíkum ágreiningsmálum undir úrskurð erlendra aðila. Engin fordæmi hafa verið nefnd, sem réttlæta samningsgerð eins og þessa. Ekkert fordæmi neins staðar frá. Þetta kom mjög greinilega fram í viðtali, sem blaðamenn áttu við forstjóra Swiss Aluminium, þegar hann var spurður um þetta atriði. Fyrirtæki hans hefur komið upp alúmínverksmiðjum og dótturfyrirtækjum í mörgum löndum, en hann viðurkenndi, að í engu landi hefði hann fengið ákvæði sem þessi inn í sína samninga. Hvergi! Á það hefur líka verið bent, að við vitum það, að ýmis stór auðfyrirtæki t.d. í Bandaríkjunum eða í Þýzkalandi eða Englandi eiga nú fyrirtæki í Noregi eða Danmörku. Stóru olíuhringarnir eiga t.d. olíuhreinsunarstöðvar í mörgum löndum. Þeir hafa komið þar upp sinum dótturfyrirtækjum. En í öllum greinum verða þessi dótturfyrirtæki þeirra vitanlega að lúta l. viðkomandi lands. Talsmenn þessarar samningsgerðar hafa ekki getað nefnt eitt einasta dæmi ekki eitt einasta dæmi — um það, að í slíkum tilfellum hefðu þessi fyrirtæki rétt til þess að fara með ágreiningsefni, sem upp koma varðandi rekstur þeirra í þessum löndum, út úr réttarlögsögu viðkomandi lands og til annars lands. En sem sagt, hæstv. ríkisstj. vill treysta á það í þessum efnum, að hún hafi nægilegan blaðakost til að endurtaka það nógu oft, að það séu til mörg fordæmi um gerðardómsákvæði eins og þetta, t.d. í olíusamningunum, og Alþýðublaðið slær því síðan upp, að í Ed. hafi allir þeir, sem fundu að þessu samningsákvæði, legið hreinlega í rusli, þegar þeim var bent á það af hæstv, viðskmrh., að svona ákvæði væri í olíusamningum Íslendinga og Sovétmanna. Ja, það vantar ekki. Þeir lágu bara í rusli, þegar bent var á þetta fjarstæðukennda dæmi. — Nei, hér er vitanlega um það að ræða, að hinn erlendi aðili tryggir sér í þessum efnum alveg óvenjulegt ákvæði, sem ekkert fordæmi er til um annars staðar frá, nema þá frá löndum, — það er hugsanlegt, — sem eru að verulegu leyti efnahagslega ósjálfstæð og verða því kannske að lúta einhverjum neyðarkjörum í sínum samningum við volduga erlenda aðila. Þegar þetta ákvæði er t.d. borið saman við samninga Swiss Aluminium í Noregi, kemur það auðvitað í ljós, að þar er greinilega tekið fram í samningunum, að hinn erlendi aðili skuli ekki njóta forréttinda í einu eða neinu. Og þar verður hann að beygja sig undir norsk lög í öllum greinum.

Þessi atriði, sem ég hef hér minnzt á, um ýmiss konar fríðindi, sem hinum erlenda aðila eru tryggð með þessari samningagerð, sýna það, að það er verið að skapa hið mesta misrétti á milli erlenda atvinnurekandans og innlendra atvinnurekenda í landinu. Innlendir atvinnurekendur eiga að sjálfsögðu að keppa við hinn erlenda bæði um vinnuafi og annað, en sá erlendi fær margs konar fríðindi sér til handa, sem innlendir atvinnurekendur fá ekki. Og þegar menn meta síðan hugsanlegan hagnað í krónum talið af skattgreiðslu fyrirtækisins eða af raforkusölu til fyrirtækisins, verður vitanlega að hafa í huga, hvað búið er að veita þessum aðila mikil fríðindi einnig í peningum talið, því ef fríðindin væru metin, yrði ákaflega lítið eftir af beinum hagnaði. Ég veit, að það er vitanlega hægt að taka ýmis íslenzk fyrirtæki og segja: Ja, skattgreiðslur þeirra eru nú ekki ýkja miklar til hins opinbera, vegna þess að fjárhagsafkoma þeirra er heldur bág, — en segja aftur jafnhliða: Þetta erlenda fyrirtæki ætlar bara að borga heilmikinn skatt. — En innlendu fyrirtækin eru búin að borga í opinbera þjónustu mikla tolla og önnur aðflutningsgjöld af stofnkostnaði sinna fyrirtækja, og þau verða að borga árlega meira og minna í tolla og önnur aðflutningsgjöld og ýmiss konar gjöld til opinberrar þjónustu, áður en skattstiganum er beitt á þá úlkomu, sem reikningar þeirra kunna að sýna. Og það verður vitanlega að taka fullt tillit til þess, þegar samanburður er gerður á milli þessara aðila.

Ég hef hér minnzt með nokkrum orðum á samninga hins svissneska auðhrings um byggingu og rekstur alúmínverksmiðju í Noregi. Ég vil aðeins endurtaka þessi atriði í sambandi við samanburð á samningum fyrirtækisins við Norðmenn og við Íslendinga: Það liggur fyrir alveg óumdeilanlega, að Swiss Aluminium hefur samið um 28% hærra verð á raforkunni þar. Það liggur líka fyrir alveg óumdeilanlega, að í Noregi fær fyrirtækið engin forréttindi. Það er skýrt og greinilega fram tekið, að það skal engra sérréttinda njóta. Í Noregi var staðsetning alúminverksmiðjunnar ákveðin þannig, að þar er hún byggð á afskekktum stað í miklu strjálbýli og á ýmsan hátt við heldur óaðgengilega aðstöðu. Þar var um að ræða skilyrði af hálfu norskra yfirvalda, en hér fær hinn erlendi aðili að ákveða staðsetningu verksmiðjunnar við mesta fjölbýli landsins. Í Noregi verður þetta erlenda fyrirtæki, sem á að mestu leyti verksmiðjuna þar, að leggja fram verulegt fjármagn til að byggja yfir þá starfsmenn, sem eiga að vinna í verksmiðjunni, og það verður jafnvel að taka á sig veruleg útgjöld af ýmsum opinberum framkvæmdum þar á staðnum, eins og vegalagningu, byggingu félagsheimilis eða samkomuhúss o.fl., o.fl. En hér er greinilega tekið fram í samningunum, að það sé gengið út frá því, að starfsmenn fyrirtækisins geti búið í Reykjavík eða Hafnarfirði og að þeir skuli undir öllum kringumstæðum njóta jafngóðra réttinda og aðrir Íslendingar um aðstöðu til þess að fá sér lán til íbúðabygginga og annars þess, sem þeir þurfa á að halda. Það er ekkert um það að villast, að á þennan hátt er fyrirtækið að spara sér marga tugi milljóna hér, borið saman við það, sem það verður að greiða í Noregi. Í Noregi verður fyrirtækið að byggja sína alúminverksmiðju þannig, að það séu sett upp fullkomin reykhreinsunartæki. Talið er, að slík tæki á svona verksmiðju kosti í kringum 100 millj. kr., en hér er um það samið, að fyrirtækið þurfi ekki að leggja á sig þessi útgjöld.

Þannig er það auðvitað alveg greinilegt mál, að þessir samningar, sem hér liggja nú fyrir til umr., eru mjög óhagkvæmir, mjög óhagstæðir, miklum mun lakari í öllum greinum vil ég segja en hliðstæðir samningar, sem við höfum fréttir af annars staðar frá.

En hvaða almennar afleiðingar hljóta svo að verða af þessari samningsgerð, ef til framkvæmdanna kemur með þessar stórframkvæmdir allar? Á það hefur verið bent, að jafnmiklar stofnframkvæmdir, sem koma að verulegu leyti á tveggja eða þriggja ára tímabil. muni reynast íslenzkum vinnumarkaði verulega erfitt vandamál. Samkv. upplýsingum, sem liggja fyrir, telur Steingrímur Hermannsson verkfræðingur, sem fór til Noregs að kynna sér þessi mál, að þar hafi unnið um 1200 manns við byggingu líkrar verksmiðju og hér á að byggja. Og samkv. upplýsingum, sem forstöðumenn Landsvirkjunar hafa gefið, reikna þeir með, að það muni vinna beinlínis við Búrfellsvirkjunina um 520 manns. En til viðbótar við þennan mannafla kemur svo mannafli við að byggja hafnarmannvirkin við Straumsvík og mannafli við að reisa eða koma upp varaaflsstöðvunum, sem byggja á hér sunnan Hafnarfjarðar. Og til viðbótar við þetta kemur svo allt það þjónustulið, sem kemur til með að snúast í kringum þetta vinnuafl á beinan eða óbeinan hátt. Ég tel því, að það sé enginn vafi á því, að það verði að reikna með, að á árunum 1967 og 1968 þurfi Íslendingar að binda að verulegu leyti um 2000 manns við þessar stórframkvæmdir. Þar er vitanlega um svo mikið vinnuafi að ræða á íslenzkan mælikvarða, að það hlýtur að segja alvarlega til sín. Nú er ástandið þannig á okkar vinnumarkaði, eins og allir vita, að það skortir verulega vinnuafl beinlínis við framleiðslustörf, og það er engan veginn hægt að koma áfram með þeim hraða, sem æskilegt væri, ýmsum framkvæmdum, sem fjármagn er til að vinna að.

Það er því alveg ljóst, að það að efna til þessara stórframkvæmda á þann hátt, sem hér er ráðgert, hlýtur að leiða það af sér, að eitthvað af framkvæmdum Íslendinga verður að sitja á hakanum. Það verður að draga úr framkvæmdum þeirra, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í sumum þeim grg., sem koma frá ríkisstj. eða sérfræðingum hennar, að það muni þurfa að gera ráðstafanir til þess að draga úr ýmsum framkvæmdum Íslendinga, á meðan mest vinnuafi þurfi til þessara framkvæmda. En hvað kostar það íslenzkan þjóðarbúskap, ef þessar framkvæmdir, að verulegu leyti vegna útlendinga, verða til þess að draga úr ýmsum framleiðsluþáttum þeim, sem Íslendingar eiga sjálfir? Hvað kostar það okkar þjóðarbúskap? — Nú vitum við það, að þessar framkvæmdir ganga auðvitað yfir og þá þarf miklum mun minna af fólki á eftir til þess að halda þessum mannvirkjum við og annast reksturinn, og þá leitar þetta vinnuafl að sjálfsögðu eitthvað annað á eftir. Ég held, aði afleiðingarnar af þessu hljóti að verða þær, að það muni hefjast meira uppboð á vinnuafli á íslenzkum vinnumarkaði en áður hefur þekkzt. En uppboð á vinnuafli leiðir vitanlega til þess, að dýrtíðin stóreykst í landinu. Það hefur alltaf farið svo, og það mun fara svo enn. Og hvað kostar það svo íslenzkt efnahagskerfi, ef þessar framkvæmdir leiða til þess, að dýrtíðarvandamálið verður mun meira og þyngra en það hefur verið? Það gæti þýtt það, að ýmsar þær framleiðslugreinar, sem nú eiga fullan rétt á sér og fá staðizt undir núv. kringumstæðum, að þær gætu ekki lengur haft rekstrargrundvöll, því að því eru vitanlega takmörk sett, hvað íslenzkur iðnaður og jafnvel hinn afkastamikli íslenzki sjávarútvegur, hvað þessar starfsgreinar þola hátt verðlag. Það er því mjög hættulegt að mínum dómi að etna til slíkrar spennu á íslenzkum vinnumarkaði, sem hér er greinilega efni til.

Þá er hitt atriðið, að vel getur komið til þess, að talsvert af vinnuafli flytjist utan af landi hingað suður í sambandi við þessar framkvæmdir. Sérstaklega má búast við því frá þeim landshlutum, þar sem aðstaðan til framkvæmda hefur verið tiltölulega veikust um skeið. En flutningur á vinnuafli í slórum stíl, t.d. frá Norðurlandi eða Vestfjörðum, þar sem ástandið er tiltölulega lakast nú í vinnumálum, — verulegur flutningur á fólki þaðan hingað suður til þess að taka þátt í þessum framkvæmdum mundi vitanlega skapa stóraukinn vanda í sambandi við byggðajafnvægið í landinu. Till. um það frá hæstv. ríkisstj. að taka hluta af skattgreiðslu alúmínverksmiðjunnar, þegar sá skattur fer að falla til, taka hluta af honum eftir á og senda hann til baka aftur til þeirra landshluta, þar sem atvinnuástandið er veikast, það vitanlega breytir litlu, þegar fyrst er búið að gera ráðstafanir til að flytja fólkið í hundraðatali frá þessum svæðum hingað suður og festa það hér við vinnuframkvæmdir í nokkur ár. Ég a.m.k. óttast fyrir mitt leyti, að þeir menn, sem taka sig upp af Norðurlandi og flytjast hingað suður og verða við þessar vinnuframkvæmdir í 2–3 ár, að það fari svo, að margir þeirra fari ekki heim til sín aftur. Þar miðar maður aðeins við fengna reynslu. Alveg sams konar fólksflutningar áttu sér stað í sambandi við Keflavíkurframkvæmdirnar og við vitum mætavel, hver niðurstaðan var, hver reynslan varð af því. Ég held því, að afleiðingarnar af framkvæmd þessa samnings verði m.a. þær, að þær stórauki það vandamál, sem við höfum átt við að glíma í sambandi við byggðina í landinu.

Þau svör, sem komið hafa frá talsmönnum þessara samninga í sambandi við þessar athugasemdir, sem ég hef verið að gera, finnst mér segja heldur lítið. Þegar bent er á vinnuaflsvandamálið, koma þau svör frá talsmönnum samninganna, að það séu nú alltaf að koma stærri og stærri árgangar inn á okkar vinnumarkað og þetta muni því ekki verða svo tilfinnanlegt. Ég hef aftur bent á það á móti, og því hefur ekki verið hnekkt á neinn hátt af hálfu ríkisstj., að það er alveg óumdeilanlegt, að þessir stærri árgangar, sem hafa verið að koma inn á vinnumarkað, hafa verið að koma inn á okkar vinnumarkað síðustu 10 árin. Og það er ekkert, sem bendir til þess samkv. þeim útreikningum, sem liggja fyrir, að það verði um meiri fjölgun að ræða á okkar vinnumarkaði á næstu 10 árum en var á undanfarandi 10 árum. Það er aðeins um smávægilegan mun að ræða. Vinnuaflsvandamálið mun því ekki leysast á þann hátt, að hér komi inn á okkar vinnumarkað einhver óvæntur fjöldi. Slíku er ekki til að dreifa. Og einmitt á s.l. 10 árum, þegar hinir stærri árgangar hafa verið að koma inn á vinnumarkaðinn, hefur vinnuaflsvandamálið í landinu verið að aukast meira og meira. Og það er, eins og ég hef bent á áður, ofur eðlilegt, vegna þess að það hefur verið mikil gróska í íslenzku atvinnulífi á þessu tímabili, framleiðslan hefur stóraukizt í landinu, til hefur komið ný tækni og ný vinnuaðstaða, og þessi stóraukna framleiðsla hefur auðvitað kallað á aukið vinnuafl, og aukin framleiðsla hefur líka kallað á verulega auknar framkvæmdir í ýmsum greinum. Og ég tel, að það sé allt, sem bendi til þess, að það sé hægt að halda áfram svipuðum vexti í íslenzku atvinnulífi og verið hefur nú um skeið.

Ég benti á það í upphafi míns máls, að það, sem þó skipti mestu máli í sambandi við þessa samningagerð, væri fyrst og fremst það, að með þessum samningum eru aðalforsvarsmenn þeirra raunverulega að marka nýja stefnu í okkar atvinnumálum. Þeir hafa lýst því yfir hver um annan þveran á undanförnum árum, að það sé að þeirra dómi óhjákvæmilegt að leita til útlendinga um þátttöku í atvinnurekstri í okkar landi, vegna þess að okkar aðalatvinnuvegir væru ekki nægilega öflugir til þess að hægt væri að byggja á þeim góð lífskjör á komandi árum. Það er einmitt sú nýja stefna, sem hér er verið að marka með þessari samningsgerð, sem er það hættulegasta. Það er þáttur út af fyrir sig, að samningarnir, sem hér liggja nú fyrir, eru óhagkvæmir, þeir eru áhættusamir, — þeir munu jafnvel geta leitt af sér bein töp fyrir okkur í krónutali í ýmsum greinum. Það er líka auðvitað býsna stórt atriði, að samningarnir fela í sér niðurlægjandi ákvæði fyrir okkur, og það er líka bölvað, að þeir fela í sér mikið misrétti, sem hér á að innleiða á milli innlendra og erlendra í atvinnurekstri. En það, sem mestu máli varðar, er, að hér er verið að taka upp þá stefnu, að það á að leiða erlent einkafjármagn til áhrifa í landinu. Það er enginn vafi á því, að hér er ekki um einangraða samninga að ræða. Hér er að vísu um fyrsta stóra samninginn af þessari tegund að ræða, en það er ætlun þeirra, sem fyrir þessu máli standa, að fleiri slíkir samningar komi á eftir. Auðvitað kemur þeim ekki til hugar, að þessi eina alúmínverksmiðja, sem samkv. þeirra útreikningi ætti að færa í okkar þjóðarbú kringum 300 millj. kr. á ári, geti haft afgerandi áhrif á þróun íslenzkra efnahagsmála á komandi tímum. Það dettur þeim ekki í hug. Nei, þeir ætla sér margar slíkar verksmiðjur sem þessa. Þeir eru á þeirri skoðun, að við eigum að leiða hér erlent einkafjármagn til forustu í sambandi við uppbyggingu okkar atvinnulífs. Þeir voru á sínum tíma mjög ginnkeyptir fyrir kenningunum um Efnahagsbandalag Evrópu, en grundvallaratriðin, sem þar var byggt á, voru einmitt þau sömu og felast í þessum samningum. Þar voru að verki auðhringarnir í Vestur Evrópu, sem vildu fá frjálsari hendur en þeir hafa haft til að færa fjármagn sitt á milli þeirra landa, sem í bandalaginu væru, til þess að geta fært vinnuafl á milli landa og til þess að þeir fengju betri aðstöðu til gróðasöfnunar sér til handa. Þeir vildu fá þetta í gegnum Efnahagsbandalagið sem almenna reglu, sem byggja átti á, en hér í þessu tilfelli er að vísu um að ræða samning við einn aðila, en aðalforsvarsmenn þessara samninga hafa lýst því yfir, að þeir stefni hér inn á nýjar brautir í sambandi við okkar atvinnumál. Þeir hugsa sér þetta sem fordæmi, eru að brjótast hér í gegn. Þeir eru að víkja til hliðar þeirri gömlu stefnu, sem við höfum byggt á, að það væri heilladrýgst fyrir okkur, að við landsmenn sjálfir ættum atvinnutækin og stjórnuðum þeim og hefðum fullkomin yfirráð yfir atvinnutækjunum og yfir atvinnulífinu í landinu.

Forsvarsmenn þessara samninga reyna stundum að halda því fram, að við, sem séum á móti þessum samningum, séum á móti stóriðju og að við séum á móti því, að íslenzkt atvinnulíf verði gert fjölbreyttara og öflugra en það hefur verið. Hér er vitanlega um alrangar sakargiftir að ræða. Við Alþb.-menn erum ekki á móti stóriðju, en við erum á móti erlendri stóriðju á Íslandi. Við teljum, að það sé sjálfsagt að vinna að því, að landsmenn sjálfir komi sér upp þeim stóriðjufyrirtækjum, sem með eðlilegum hætti er hægt að rúma hér í íslenzku atvinnulífi á hverjum tíma og að þessu sé unnið stig af stigi og þannig, að við spillum ekki því, sem fyrir er. En við erum algerlega andvígir því, að erlendir auðhringar fái aðstöðu til að koma upp sinni stóriðju hér á Íslandi. Við erum líka því fylgjandi, við Alþb.-menn, að það sé unnið að því að gera íslenzkt atvinnulíf fjölbreyttara, og við höfum í þeim efnum alveg sérstaklega bent á það, að það verkefni, sem sé næst okkur í þeim efnum, væri að vinna að fullnýtingu eða góðri úrvinnslu á þeim afurðum, sem hér falla til í landinu, bæði frá sjávarútvegi og landbúnaði. Þar eigum við mikið verk óunnið og gífurlega mikla möguleika til að stórauka okkar þjóðartekjur. Þetta eru verkefni, sem að okkar dómi eru næst okkur. Fleira getur komið til. Vissulega getur komið til greina að koma upp ýmiss konar atvinnurekstri í landinu, en við leggjum á það áherzlu, að sá atvinnurekstur verði undir íslenzkri stjórn og að hann búi við þau almennu kjör, sem sett eru um atvinnurekstur í okkar landi.

Það er því till. okkar í sambandi við þetta mál, að frv. um lagagildi þessa samnings verði fellt, en við flytjum sem varatill. till. um það, að lögin skuli þó ekki öðlast gildi, fyrr en fram hefur farið þjóðaratkvgr. um lögin og meiri hl. þeirra, sem þátt taka í atkvgr., samþykki þau. það væri létt verk fyrir ríkisstj. út af fyrir sig að fallast á þessa till. okkar, ef hún virkilega tryði á sinn málstað. Það mundi ekki á neinn hátt trufla þær framkvæmdir, sem hér er stefnt að, að leggja þetta mál undir þjóðardóm nú eftir einn mánuð eða svo, það væri innan handar. En þá líka reyndi á það, hvort meiri hl. þjóðarinnar vildi fallast á þá stefnu, sem ríkisstj. er að reyna að knýja í gegn nú, eða ekki. Ég fyrir mitt leyti efast ekkert um það, að það er mikill meiri hl. íslenzku þjóðarinnar, sem er á móti þessari samningsgerð. Hik það, sem fram hefur komið hjá Alþfl., og ýmis þau skilyrði, sem hann er að minnast á í umr. um málið, benda til þess, sem vitað er, að innan þess flokks eru margir aðilar, sem eru andvígir þessari samningsgerð. Ýmsir nafnkunnir forustumenn Sjálfstfl. víða á landinu hafa látið alveg ótvírætt uppi þá afstöðu sína, að þeir séu á noti þessum samningi. Á Alþ. standa málin þannig, að rétt tæpur helmingur þm. er greinilega á móti samningsgerðinni. Og það er ekkert, sem bendir til annars en þess, að allir stuðningsmenn bæði Alþb. og Framsfl. í landinu séu á móti samningunum. Hér er því að mínum dómi verið að knýja í gegn stórkostlegt alvörumál gegn vilja meiri hl. landsmanna. Hér er því ekki til að dreifa, að ríkisstj. geti afsakað það að neita um þjóðaratkvæði um þessa lagasetningu, vegna þess að með því sé verið að setja málið í hættu. Ef það er meiri hl. landsmanna á bak við þessa samningagerð, kæmi hann að sjálfsögðu fram við almenna atkvgr. eftir svo sem mánuð eða svo, og málið héldi áfram sínum eðlilega gangi. Engar truflanir hlytust af slíku. En hér er um það að ræða, hvort ríkisstj. þorir að leggja þetta mál undir dóm þjóðarinnar. Það er vitanlega ólýðræðislega að verið í jafnslórkostlegu máli og þessu að neila um slíka atkvgr., en það mega þeir menn vita, sem að þessari samningsgerð standa, að þó að þeir neiti þjóðinni nú um það að fá að greiða atkvæði um þetta mál með eðlilegum hætti, þá getur þjóðin talað, áður en langt um liður, og hún getur talað þannig við þá, að það verði hægt að hnekkja þessu máli í framkvæmd.