18.04.1966
Neðri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 2. minni hl. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir, er eitt hið stærsta og kannske örlagaríkasta, sem Alþ. og íslenzka þjóðin hafa staðið frammi fyrir um langt árabil. Með samningi þeim, sem nú er gerð till. um að löggilda, er stigið spor, sem í vissum skilningi liggur aftur á bak, því að með honum er verið að heimila erlendan alvinnurekstur í stórum stíl í landinu að nýju. Allt fram að þessu, frá því að síðustu tengsl við útlent vald og atvinnuréttindi útlendinga voru rofin fyrir tiltölulega skömmu, hefur atvinnu- og fjármálalíf þjóðarinnar verið algjörlega á ísl. höndum.

Samningurinn við Swiss Aluminium Limited boðar stefnubreytingu að þessu leyti. Hér eftir gerist útlent stóriðjufyrirtæki umsvifamikið í atvinnulífi þjóðarinnar. Innlendir aðilar eru ekki lengur einir um atvinnurekstur í landinu hér eftir. Það er ekki gerlegt að ræða þetta mál, sem hér liggur fyrir, án þess að gera sér fulla grein fyrir þeim tímamótum, sem það markar að þessu leyti. Við þetta atriði ber öllum að staldra, ekki einungis þeim, sem leggjast gegn samningnum, heldur einnig hinum, sem bera þetta mál fram. Má með réttu segja, að stuðningsmönnum þessa máls sé ríkari skylda á herðar lögð um réttan skilning á sögugildi þess, og þeirra er skyldan til að rökstyðja, svo að óyggjandi sé, nauðsyn þeirrar stefnubreytingar í atvinnumálum, sem samningurinn boðar.

Ég skal viðurkenna, að hæstv. ríkisstj., sem ber þetta mál fram, hefur sýnt viðleitni í þá átt að rökstyðja aðgerðir sínar, en viðleitni hennar hefur ekki borið þann árangur, að mér og fjöldamörgum öðrum hafi ljós orðið nauðsyn þessa samnings, eins og hann liggur fyrir. Þvert á móti, samningurinn er þannig að allri gerð, bæði ytra og innra, að við, sem mælum gegn honum, teljum hann óviðunandi og einnig beinlínis fjárhagslega óhagstæðan. Fyrir slíkan samning viljum við sízt af öllu kasta fyrir róða hefðbundinni slefnu um atvinnurekstur í landinu. Þessi samningur er ekki þess virði, að Alþ. ljái honum jáyrði. Ég vil því strax lýsa yfir því fyrir hönd okkar, sem að þessu nál. stöndum, að við leggjum eindregið til. að frv. nái ekki fram að ganga og að því verði vísað frá nú við þessa umr.

Að áliti okkar, sem skipun þann minni hl., sem ég mæli fyrir, eru höfuðröksemdirnar gegn málinu þessar: Í fyrsta lagi: Samningurinn er fjárhagslega óhagstæður, m.a. er raforkuverðið allt of lágt og umsamið til allt of langs tíma. — Í öðru lagi: Efnahagslegt ástand í landinu mælir gegn því, að ráðizt sé í slíkar stórframkvæmdir nú og á næstu árum. — Í þriðja lagi: Á samningunum er óviðfelldinn heildarblær. Þeir eru umbúðamiklir og jafnvel torskildir um margt, og fram kemur greinileg tortryggni í garð íslenzkra laga og réttar. Ákvæðin um réttarfar í ágreiningsmálum eru algjörlega óviðunandi.

Í stuttu máli sagt: Samningur þessi fullnægir á engan hátt þeim hugmyndum, sem ýmsir hafa gert sér um hagkvæmni þess eða sérstakt gildi þess að heimila erlenda stóriðju í landinu. Hins vegar er augljóst, að hann mun raska enn frekar en orðið er eðlilegu jafnvægi í efnahagslífinu og gera byggðavandamálið enn óviðráðanlegra en nokkru sinni fyrr.

Aðalröksemdin fyrir þessum samningi er sú, að með honum sé tryggt að hægt sé að ráðast í hagkvæmustu virkjunarframkvæmdir og tryggja um leið hagstæðast raforkuverð. Jafnvel þessi röksemd fellur um sjálfa sig. Einkum ber að minnast þess, að stóriðja útlendinga er engin nauðsyn eða óhjákvæmilegt skilyrði þess að hægt sé að virkja fallvötn á Íslandi með eðlilegum hraða og í eðlilegum stærðum til þess að fullnægja innlendri raforkuþörf. Fyrirhuguð virkjun við Búrfell er ekki ætluð innlendum þörfum nema að sáralitlu leyti, einkum fyrst í stað. Hún er fyrir útlendinga, þeir munu nota helming eða meira af Búrfellsorkunni í 45 ár. Verður tæplega sagt, að farið sé sparlega með orkulind, sem við vitum, að er ekki ótæmandi.

Mér þykir skylt að gera nokkra grein fyrir afstöðu Framsfl. til atvinnuréttinda útlendinga eða þátttöku erlends áhættufjármagns í atvinnurekstri hér á landi, eins og það hefur líka verið kallað. Mér þykir nauðsynlegt að ræða það mál sérstaklega vegna þess, að sú staðhæfing hefur iðulega komið fram af hálfu meðhaldsmanna fyrirliggjandi álsamnings, að Framsfl. hafi fram að þessu verið talsmaður þess að leyfa erlendan atvinnurekstur í landinu og þá einkum í sambandi við nýtingu raforkunnar til stóriðju. Með skírskotun til þessarar staðhæfingar er því haldið fram, að Framsfl. sé eins og að hlaupast undan merkjum og hverfa frá fyrri afstöðu, þegar hann lýsir yfir eindreginni andstöðu við fyrirliggjandi stóriðjusamninga.

Allt er þetta fullkominn afflutningur á afstöðu Framsfl. Allt, sem Framsfl. hefur ályktað um stóriðjumál og atvinnurétt útlendinga, er á þann veg að vara við þeirri leið nema sem algerri undantekningu frá þeirri höfuðstefnu, að allur atvinnurekstur skuli vera á innlendum höndum. Æ ofan í æ hefur Framsfl. gert um það ályktanir og boðað í ræðu og riti, að hann sé andvígur því að opna landið fyrir erlendu einkaauðmagni og atvinnurekstri útlendinga, nema því aðeins, að um væri að ræða svo skilyrtan samning um það efni, að íslenzkum hagsmunum væri í engu fórnað og að hinir erlendu aðilar lytu í einu og öllu íslenzkum lögum og þ. á m. að sjálfsögðu dómsvaldi og að sérstökum atvinnulegum markmiðum væri náð, og þá er í fremstu röð að greina, að slíkur atvinnurekstur væri staðsettur með það fyrir augum að hann stuðlaði að jafnvægi í byggð landsins, enda fyndust ekki önnur heppilegri eða tiltækari ráð í því efni.

Þetta er í höfuðdráttum stefna Framsfl. og afstaða til atvinnuréttinda útlendinga og þá fyrst og fremst til stóriðjufyrirtækja, sem sækjast eftir raforku frá íslenzkum raforkuverum, því að flokkurinn er undantekningarlaust andvigur erlendri þátttöku í öðrum atvinnugreinum, t.d. sjávarútvegi og fiskiðnaði. Um það er ekki að ræða, að Framsfl. ljái máls á slíkri stefnu. Sú margskilyrta undantekning flokksins um alvinnurétt útlendinga hér á landi er algerlega bundin við stóriðju, sem byggist á mikilli raforkusölu.

Eins og ég hef lýst stefnu flokksins í þessum málum, er engin furða, þó að framsóknarmenn hafi ekki andmælt því, að kannaðir yrðu möguleikar á erlendri stóriðju hér á landi. Því er flokkurinn að sjálfsögðu meðmæltur, en í því felst engin skuldbinding um að skrifa undir hvaða ókjarasamning, sem ráðamönnum þjóðarinnar þóknast að leggja fyrir hv. Alþingi.

Samningur sá, sem nú liggur fyrir til samþykktar, er í öllum meginatriðum af þeirri gerð, að Framsfl. er honum andvigur, enda ekki fullnægt einu einasta skilyrði flokksins um starfsemi útlendra manna í landinu, og ég vil segja, að ef þetta er sá bezti og hagstæðasti samningur, sem hægt er að ná við erlenda atvinnurekendur, liggur næst við að álykta, að við Íslendingar getum ekki vænzt mikils af því, að erlend stóriðja verði lyftistöng fyrir íslenzkt atvinnulíf og almennar framfarir í landinu. Með þessum samningi munu dynja yfir okkur allir ókostir samskipta við erlenda stóriðjuhölda. Þeir munu hafa allan ávinninginn, en við ekkert nema óhagræðið og skömmina, og slíkum samningi ber auðvitað að hafna. Þó að samningar þessir hafi verið ræddir allítarlega við 1. umr. málsins, þannig að meginafstaða þingflokkanna er þegar öllum ljós, og þó að afstaða þess minni hl. í álbræðslunefnd, sem að ég tala fyrir, liggi greinilega fyrir í nál., mun ég eigi að síður fara nokkrum orðum um samningana, til þess að undirstrika helztu málsatriðin og lýsa almennt persónulegri afstöðu minni til málsins.

Upplýst er, að hreinar gjaldeyristekjur Íslendinga af álbræðslunni verði 300, kannske 320 millj. kr. á ári, þegar hún hefur náð fullri stærð, en ekki nema 150 millj. af 30 þús. tonna áfanganum. Við verksmiðjuna munu starfa um 450 manns, eftir að fullri stærð er náð, en um 300 manns á meðan að afköstin eru 30 þús. tonn á ári. Augljóst er, að mikil óbein umsvif alls konar þjónustustarfa safnast í kringum verksmiðjuna og starfsfólk hennar, og gæti hún ein orðið undirstaða allstórs kaupstaðar á íslenzka vísu. Verksmiðjan hefur þannig mikið aðdráttarafi og tekur mikið til sín at starfandi fólki beint og óbeint. Ekki getur hjá því farið. að hennar gæli mjög í atvinnu- og þjóðlífi Íslendinga, enda verður hún langstærsti vinnustaður á landinu, þó að nefna megi nokkur félög og fyrirtæki, sem hata fleira fólk í þjónustu sinni. Varla verður sagt, að gjaldeyristekjurnar af verksmiðjunni séu svo miklar, að þær skeri úr um gjaldeyrisafkomu þjóðarinnar, og hugsanlegt er. að tekjurnar gætu orðið minni en þetta, m.a. ef þörf verður fyrir mikið erlent vinnuafl, en það mundi lækka þann hagnað, sem við hefðum af vinnulaunagreiðslunum að sama skapi, því að erlendu starfsfólki er að sjálfsögðu ekki skylt að skila íslenzkum bönkum launatekjum sínum. Það hefur heimild til að yfirfæra allt sitt kaup til útlendra banka og eyða kaupi sínu erlendis.

Samið hefur verið um að selja raforkuna til álbræðslunnar fyrir verð, sem nemur 10,75 aurum á kwst. Í samanburði við orkuverð í öðrum löndum, þar sem Swiss Aluminium rekur álbræðslur, er verð þetta mjög lágt, enda er það 13,75 aurar í Noregi, og talað er um, að það muni vart undir 17 aurum suður á Grikklandi. Miðað við það, að kostnaðarverð á raforku frá Búrfellsvirkjun er áætlað 10,4 aurar á kwst., sést enn betur, hve kostnaðarverðið til álbræðslunnar er lágt. Má sáralitlu muna á virkjunarkostnaði til þess. að svo fari, að raforkan verði seld undir raunverulegu framleiðsluverði. Þetta mun þó koma enn betur í ljós, þegar fram í sækir og Íslendingar fara að virkja við verri skilyrði en fyrir hendi eru í Þjórsá við Búrfell. Því miður er vatnsafli okkar ekki almennt svo háttað, að hægt sé að gera ráð fyrir, að það verði virkjað fyrir þetta verð í framtíðinni. Með raforkusamningunum við Swiss Aluminium erum við því að ráðstafa hagstæðustu orkunni á mjög lágu verði til mjög langs tíma, sem hlýtur, þegar fram í sækir, að koma niður á innlendum raforkunotendum. Við þetta bætist, að ekki er gert ráð fyrir, að raforkuverðið verði endurskoðað fyrr en árið 1994. Það verður aðeins leiðrétt að nokkru leyti árið 1984 og síðan á 5 ára fresti, en leiðréttingin miðast einvörðungu við kostnaðarbreytingar í sambandi við viðhald og gæzlu orkuversins, en ekkert tillit tekið til fjármagnskostnaðar, sem hefur þó hvað mest áhrif á raforkuverðið. Það er varla að undra, þó að forstjóri Swiss Alumínium lýsi yfir fögnuði sínum með svo hagstæðan samning, eins og hann hlýtur að vera frá hans sjónarmiði. Raforkuverðsákvörðunin er vissulega gagnrýni verð, en hitt er ekki síður athugavert, að ekki skuli vera gert ráð fyrir tíðari endurskoðunum á raforkuverðinu en samningurinn ákveður. Ber hér enn mjög á milli hins norska raforkusamnings og hins íslenzka við sama fyrirtæki. Í norska samningnum er gert ráð fyrir, að raforkuverðið sé endurskoðað á 5 ára fresti.

Um skattlagningu álbræðslunnar gilda allflóknar reglur, enda er fyrirtækið óháð og undanþegið venjulegum íslenzkum skattalögum. Í stað þess að skattleggja álbræðsluna með eðlilegum hætti er svo umsamið, að hún greiði ákveðið framleiðslugjald miðað við hvert tonn, sem verksmiðjan framleiðir. Ekki munu þessar skattareglur eiga sér fordæmi annars staðar, en þær styðjast við þau rök m.a., að talið er örðugt að ákveða raunverulegan hagnað fyrirtækis af þessu tagi, þar sem um er að ræða eins konar keðjuframleiðslu, sem öll er undir einum og sama hatti og vel hugsanlegt, að hægt sé að koma við ýmiss konar bókhaldsbrellum í þessu sambandi. Að mínum dómi mælir ýmislegt með því, að þessi skattlagningaraðferð sé notuð. Upplýst hefur verið, að framleiðslugjaldið sé við það miðað, að skattlagning álbræðslunnar verði ekki minni en vera mundi skv. íslenzkum skattareglum, ef þeim væri beitt, en í því efni hefur ekki verið komizt hjá því að leggja til grundvallar rekstraráætlanir fyrirtækisins sjálfs, sem telja verður mjög hæpna viðmiðun. Er óhjákvæmilegt, að íslenzk skattayfirvöld fái aðstöðu til að athuga reikninga álbræðslunnar með tilliti til þessa atriðis, enda takmarkast skattgreiðslan einnig við það, að bræðslan greiði aldrei meira en 50% af tekjuafgangi sínum, og það ákvæði gerir það nauðsynlegt, að íslenzk yfirvöld fylgist með því, hvernig tekjuafgangurinn er ákvarðaður. Að vísu mun bræðslan skyld til að greiða skattinn í bili, þótt hann fari fram úr þessu marki, og ríkissjóður fær þannig til ráðstöfunar fé um sinn, en að samningstíma loknum skal gera upp slíkar umframgreiðslur og eigi bræðslan þá inni hjá ríkissjóði, ber að greiða skattinnstæðuna til baka með fullum vöxtum. Getur skattgreiðslan því í praxís komið fram sem lán til ríkissj. fremur en raunverulegt skattgjald. En hins er skylt að geta, að skattgreiðslan mun aldrei fara niður fyrir 20 dollara á tonn. Það er því hið raunverulega og trygga skattgjald, en vafi leikur á um það, hvort nokkurn tíma verður í raun hægt að ná því hæsta framleiðslugjaldi, sem um er rætt í 25. gr. aðalsamningsins, en þar er talað um 35 dollara á tonn. Fer það algerlega eftir því, hvernig reksturinn kemur út og hvort skattinnstæður safnast fyrir á samningstímabilinu.

Það fer ekki fram hjá neinum, að álbræðslan nýtur verulegra og mjög óvenjulegra tollfríðinda. Verksmiðjan er undanþegin aðflutningsgjöldum af efni og tækjum, sem hún eða verktakar hennar flytja inn á meðan á byggingu stendur, og sama gildir um hráefni, vélar o.s.frv., sem verksmiðjan þarf á að halda, þegar til rekstrarins kemur. Þetta atriði ásamt fleiru skapar álbræðslunni mikla sérstöðu umfram önnur fyrirtæki í landinu. Þau verða öll að borga af sínum rekstrarvörum og sínum byggingarvörum aðflutningsgjöld og tolla. Það er einnig augljóst, að hafa verður sérstaka tollvörzlu og löggæzlu í sambandi við álbræðsluna, ef koma á í veg fyrir smygi út af bræðslulóðinni. Og við getum svona nokkurn veginn sagt okkur sjálfir hverjar tilhneigingar verða í þá átt. Við þekkjum það af langri reynslu, hversu smygltilhneigingin er mikil í sambandi við slíka staði sem þann er rísa mun í Straumsvik.

Þá verður það að teljast til óvenjulegra fríðinda, að álbræðslan er undanþegin því að koma upp gaseyðingartækjum. Það er algert einsdæmi, að Swiss Aluminium hafi sloppið við að gera slíka varúðarráðstöfun — algjört einsdæmi. Allar verksmiðjur félagsins, hvar sem er í heiminum, eru búnar slíkum gaseyðingartækjum. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, eru að vísu líkur fyrir því, að þeirra sé ekki þörf við aðstæður, sem gerast í Straumsvík, en engin tvímæli eru tekin af um eiturverkanir flúorgassins. Meðan svo er, er vissulega óvarlegt, að ekki sé meira sagt, að undanþiggja álbræðsluna þeirri skyldu að koma upp gaseyðingartækjum. Það er nóg af hæpnum ákvæðum og undanslætti í þessum samningum, þótt ekki sé slakað á, hvað snertir heilbrigðisráðstafanir í sambandi við þessa verksmiðju.

Eitt þeirra atriða, sem allir ættu að vera sammála um að mæli harðast gegn því að samþykkja fyrirliggjandi stóriðjusamninga, er ástandið í efnahagsmálunum. Og hvert er þá ástand efnahagsmálanna í dag? Hvað er það, sem setur svip sinn á efnahagsmálin í dag? Því er auðsvarað. Það er verðbólgan og það er dýrtíðin og það er ofþensla á vinnumarkaði, sem ekki er sjáanlegt, að sé í neinni rénun. Þetta er höfuðvandamálið í efnahagslífi þjóðarinnar. Þetta viðurkenna allir í orði a.m.k., þó að kannske finnist ráðamenn, sem reyna að blekkja bæði sjálfa sig og aðra með því að gera lítið úr verðbólgunni, eða eins og þeir frekast geta. En sem betur fer eru þeir ekki margir, sem eru svo glámskyggnir, að þeir sjái ekki þá háskalegu þróun, sem hér er að verki.

hæstv. ríkisstj., sem nú situr að völdum, hefur ráðið efnahags- og fjármálastefnunni nærri tvö kjörtímabil. Meginráðstafanir hennar í efnahagsmálum tóku gildi í febrúarmánuði 1960, viðreisnarstefnan. sem svo var nefnd af höfundum sínum í bjartsýni og eldmóði fyrstu stjórnardaganna. Hún hefur þannig 6 ára reynslutíma að baki. En árangurinn er því miður sá, að verðbólgan og dýrtíðin hafa aldrei verið magnaðri, enda á góðri leið með að kaffæra eðlilega fjárhagsafkomu atvinnulífsins í landinu. Raunar er ekki hægt að tala um neina skipulagða stefnu hjá hæstv. ríkisstj. lengur, því að allt rekur á reiðanum undir kjörorðinu „flýtur á meðan ekki sekkur“. Hæstv. ríkisstj. lifir í voninni um það, að hlutirnir geti dankast áfram eitthvað enn þá, eins og af gömlum vana, en lökin á stjórn efnahagsmálanna hefur hún löngu misst. Metnaður hennar er ekki í því fólginn að leysa neinn vanda, heldur er hann sá einn að setja met í þrásetu uppi í stjórnarráði og viðurkenna ekki ósigur sinn, sem þó er fyrir löngu augljós staðreynd.

M.ö.o.: megineinkenni efnahagslífsins eru verðþensla, dýrtið og óðaverðbólga. Þessi ósköp fara eins og eldur um allt atvinnulífið og eru að sliga ríkissjóð, svo að ofan á allt annað þá er ríkisbúskapurinn rekinn með halla ár eftir ár, enda er ekki við öðru að búast, því að ríkissjóður er öllu öðru fremur viðkvæmur fyrir verðbólgu og gengisfellingu. Þetta veit ég, að hæstv. fjmrh. gerir sér grein fyrir, enda sagði hann réttilega í ræðu, sem hann hélt við 2. umr. fjárl. í vetur, að verðbólgan væri aðalógnvaldur ríkissjóðs. Hæstv. fjmrh. gerir sér fullkomlega ljóst, að það er eitthvað athugavert við efnahagsástandið á meðan verðbólgan hámar í sig síhækkandi ríkissjóðstekjur og sporðrennir öllum viðbótarsköttunum, án þess að fá fylli sína, enda er fjárhagskerfi ríkisins að molna niður að meira eða minna leyti, og ríkissjóður treystir sér ekki til að standa undir nauðsynlegustu útgjöldum, jafnvel ekki þeim, sem eru lögbundin.

Og hvað er að segja um atvinnulífið? Ætli verðbólgan hafi einhver áhrif á rekstur atvinnuveganna? Þótt efnahagsástandið sé ótryggt vegna verðbólgunnar og ekki sé við það búandi lengur, þá er það eigi að siður staðreynd, að framleiðslustarfsemin hefur aldrei verið meiri en undanfarin 5–6 ár, einkum 3 síðustu árin. Þetta hafa, þegar á heildina er litið, verið sannkölluð veltiár. Að vísu hefur velgengnin ekki náð til allra landshluta. Um norðan- og norðvestanvert landið hefur verið mjög misærasamt samhliða góðærinu annars staðar á landinu. Það hefur svo magnað vandræðin norðanlands, að ekki hefur fengizt nægur skilningur á því, að nauðsynlegt var að mæta þessum erfiðleikum með sérstökum aðgerðum, sem vænta mátti árangurs af, ef rétt hefði verið á málum haldið. Það hefði m.a. mátt gera meira af því að dreifa síldaraflanum skipulega til vinnslu á Norðurlandshöfnum, þar sem allt atvinnulíf er grundvallað á slíkum iðnaði. Það hefði a.m.k. mátt haga síldarflutningunum þannig, að hagsmunum Norðlendinga hefði verið gert jafnhátt undir höfði, þegar farið var að styrkja síldarflutninga og veita ríkisábyrgðir til kaupa á síldarflutningaskipum, eins og hagsmunum Reykvíkinga, þó að þeir séu alls góðs maklegir. En atvinnuerfiðleikar Norðlendinga eru þáttur út af fyrir sig.

Þó að mér sé málið skylt og ég vilji ekki láta neitt tækifæri ónotað til að minna á atvinnuerfiðleikana fyrir norðan og þau vandræði, sem af þeim hafa leitt fyrir framfarir í þessum landshluta, verður hinu ekki neitað, að síðustu árin og öll stjórnarár núv. ríkisstj. er ein samhangandi keðja af góðæri til lands og sjávar. Þjóðarauðurinn hefur vaxið. Verðmætasköpunin hefur vaxið. Sjávaraflinn hefur aldrei verið meiri og vaxið með hverju árinu. Verkamenn og sjómenn hafa unníð tvöfaldan vinnudag ár út og ár inn, m. ö. o. hér hefur verið rífandi atvinna og meiri þjóðarframleiðsla en um getur í allri Íslands sögu. Og ekki nóg með það, að aflinn, sem á land er dreginn, sé meiri en nokkru sinni fyrr, heldur kemur það og til, að afurðasalan er algerlega hindrunarlaus. Það hefur ekki staðið á, að framleiðsluvörurnar seldust og það fyrir allgott verð miðað við það, sem oft hefur verið, enda er það eitt af einkennum viðskiptalífsins, að viðskiptakjörin hafa aldrei verið betri en síðustu ár. Það hefur ekki haft lítil áhrif á þjóðarafkomuna, þegar svo er. Satt að segja hefur það bjargað því, sem bjargað varð, í því óstjórnarfeni verðbólgu og dýrtíðar, sem hæstv. ríkisstj. er einkum fræg fyrir.

Þrátt fyrir allt góðærið, þrátt fyrir aflamokið, þrátt fyrir viðskiptakjörin, þrátt fyrir allan dugnaðinn og vinnuálagið þá berjast atvinnuvegirnir fjárhagslega í bökkum. Ástæðan er ofureinföld. Það gerist nákvæmlega það sama hjá atvinnufyrirtækjunum og hjá ríkissjóði. Verðbólgan slokar í sig bróðurpartinn af því, sem góðærið og viðskiptakjörin færa þeim af gróða og velgengni. Mundi ekki einnig sömu sögu að segja um afkomu almennings, bænda og launþega? Þrátt fyrir afurðaverðshækkanir og kauphækkanir hrakar raunverulegri afkomu þessara stétta. Verðbólgan og dýrtíðin sjá dyggilega fyrir því. Efnahagsástandið er því gersamlega óviðunandi.

Það er útilokað, að hægt sé að ráðast í fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir í því stjórnleysi á efnahagsmálum, sem nú ríkir í landinu. Og það er ætlunin að ráðast í þessar framkvæmdir, þar sem þenslan er mest, þar sem hver vinnandi hönd er á uppboði og þar sem framkvæmdirnar eru svo miklar og svo óskipulegar, að ekki ræðst við neitt. Ofan í þessa hít á að dengja stóriðjuframkvæmdunum. Menn geta gert sér í hugarlund, hvernig ástandið verður hér næstu árin, ef fram heldur sem horfir. Hæstv. ríkisstj. ætti að gera sér grein fyrir því og hún viðurkennir í öðru orðinu a.m.k., að fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir og allt sem þeim tilheyrir, hljóti á næstu árum að auka svo um munar verðbólguáhrifin og vinnuaflsvandræðin. Auðvitað fer ekki hjá því, að stóriðjuframkvæmdirnar sogi til sín vinnuaflið. Þær munu ekki einungis soga til sín vinnuaflið frá Norðurlandi, þar sem atvinnuerfiðleikar eru fyrir hendi, heldur munu þær draga að sér vinnuafl frá sjávarútvegi og öðrum undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, — þeim atvinnuvegum, sem rísa undir þjóðarbúinu og eru grundvöllur þess, að hér er sjálfstælt og allauðugt þjóðfélag, sem að menningu og félagslegum framförum jafnvel gnæfir yfir obbann af öðrum löndum heimsins.

Það hefur okkur tekizt, Íslendingum, þó að við séum óheppnir með ríkisstj. þessa stundina, að verða sú þjóð í heimi, þar sem fátæktin og misskipting auðsins er minnst. Mér þykir strax rétt að slá þann varnagla, að hæstv. ríkisstj., sem nú situr, á minnstan þátt í því, að Íslendingar eru í hópi þeirra þjóða, þar sem búið er að sverfa broddana af verstu agnúum auðvaldsins. Þó að tölur sýni, að nú um þessar mundir sé Ísland í hópi þeirra landa, þar sem tekjur á hvert mannsbarn eru hæstar, verður það ekki þakkað þeirri ríkisstj., sem nú er við völd. Þetta gerist þrátt fyrir það og þrátt fyrir hina slæmu stjórn, sem við höfum. Það er heldur ekki nýtt, að skýrslur sýni sams konar útkomu. Árið 1958, þegar vinstri stjórnin sat að völdum, var Ísland meðal þeirra landa, þar sem meðaltekjurnar voru langhæstar. Ætli hæstv. ríkisstj. vilji þakka það vinstri stjórninni, að svo var? — Nei, hún vill það áreiðanlega ekki, enda verður engri einni ríkisstj. þakkað allt, en auk þess ber ég heldur ekki saman vinstri stjórnina og þá, sem nú situr, því að á þeim er mikill gæfu- og manndómsmunur.

Nei, ástæðan til þess, að samanburðarskýrslur um efnahagsmál hafa alllanga tíð sýnt kjarajöfnuð og minni stéttaskiptingu hér en annars staðar, á sér pólitískan og sögulegan aðdraganda, sem er lengri en stjórnferill núv. hæstv. ríkisstj. Það er síður en svo, að hún hafi komið að auðu og tómu landi, þegar hún settist að völdum. Hæstv. ríkisstj. er hvorki skapari himins né jarðar, en manni gæti stundum dottið í hug, þegar maður hlustar á hæstv. ráðh. suma hverja a.m.k. að þeir imyndi sér, að Íslandssagan hefjist í febrúarmánuði 1960, þegar viðreisnarlögin voru samþ. Þá hafi kviknað ljós, sem lýsi um alla heima, þá hafi eldurinn verið fluttur frá guðunum til mannanna. Að vísu var eldur kveiktur með viðreisnarlöggjöfinni frá 1960, en það var ekki sá eldur, sem Prómeþevs sótti upp á Ólympstind, — það er sá eldur, sem er í ætt við Surtarloga. Síðan hefur eldur óstjórnarinnar brunnið á Íslandi, en það kviknaði líka Ijós, þótt síðar yrði, í sambandi við efnahagsaðgerðir ríkisstj. Fram að þeim tíma trúðu ráðamiklir hagfræðingar og ráðh. því statt og stöðugt, að öruggasta ráðið til þess að stjórna efnahagslífinu á Íslandi væri í gegnum svokallaðar peningalegar aðgerðir. Þeir bentu á, að í öllum nálægum löndum væri efnahagslífinu stjórnað með slíkum aðgerðum fyrst og fremst. Trúin á vaxtahækkanirnar og aðrar peningalegar ráðstafanir sem úrbætur í efnahagsmálum hefur þó dvínað ögn hin síðari ár, þó að ekki sé hún með öllu horfin. Viðreisnin hefur, þótt heldur sé dimmt yfir henni, kveikt örlitla skilningstýru í höfði hæstv. ríkisstj. og hennar manna. — Ég ætla að leyfa mér að vitna til einnar mgr. í síðustu ársskýrslu Seðlabanka Íslands. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reynsla undanfarinna ára bendir hins vegar eindregið til, að ráðstafanir í peningamálum og fjármálum ríkisins séu ekki einhlítar til lausnar verðbólguvanda af því tagi, sem við er að etja hér á landi.“

Ja, öðruvísi mér áður brá. Þarna er loks fengin nokkur viðurkenning á því, að allt hringlið með vextina undanfarin ár hefur ekkert haft að segja til þess að draga úr verðbólgunni. Það hefur anzi lítið haft að segja, þó að vald Seðlabankans hafi verið aukið á kostnað Alþ. í þessum efnum, þannig að Alþ. ræður ekki lengur vaxtastefnunni fremur en ýmsu öðru, sem smám saman er verið að hrifsa úr höndum þess og fela ríkisstj. eða embættismönnum. Sennilega er nú loks að renna upp skilningsljós fyrrv. hæstv. ríkisstj. um það, að atvinnulíf okkar og efnahagskerfi er með nokkuð sérstökum hætti og ekki beinlínis náskylt því hagkerfi, sem gildir hjá iðnaðarstórveldunum. Enn þá eru það fiskimenn og bændur, sem eru grundvallarstéttir í þjóðfélaginu, og það eru hinir fornu atvinnuvegir, sem standa undir þjóðarbúinu. Framleiðslan er fyrst og fremst komin frá þeim. Iðnaður okkar, sem mestu varðar fyrir þjóðarbúið, stendur í nánum tengslum við þessa atvinnuvegi. Allar framfarir í þjóðfélaginu standa í sambandi við framfarirnar í sjávarútvegi og landbúnaði og þeim iðnaði, sem þeim er tengdur. En peningalegar aðgerðir ríkisstj. og Seðlabankans hafa komið harðast niður á þessum undirstöðuatvinnuvegum. Þær hafa stóraukið rekstrarkostnaðinn, svo að þessir atvinnuvegir verða sífellt harðar úti og standa verr að vígi í samkeppni um markaðsverðið. Þar er óðaverðbólgan að verki, þessi eldur, sem kviknaði m.a. af misskilningi hæstv. ríkisstj. á eðli efnahagslífsins á Íslandi. Og ekki mun þetta ástand batna, þegar stóriðjan á mesta þenslusvæði landsins hefst handa með milljarðaframkvæmdir sínar. Þá fyrst mun keyra um þverbak á efnahagsdrög hæstv. ríkisstj. Ástandið í efnahagsmálunum er því það atriði af mörgum, sem mest mælir gegn því, að ráðizt verði í þá stóriðju, sem fyrirhuguð er.

Við lestur álsamninganna hljóta menn strax að reka sig á það, hve óviðfelldinn heildarblær eða tónn er yfir samningunum. Hið fyrsta er, að samningarnir, einkum aðalsamningurinn, líkjast einna helzt því að vera milliríkjasamningur. Auk þess er aðalsamningurinn fullur af endurtekningum og óþarfa málalengingum eða því, sem heitir á prentsmiðjudönsku „selvfölgeligheder“. Ofan á þetta bætist svo, að íslenzka gerð samningsins er meira og minna ónákvæm og beinlínis röng. Hún er flausturslega unnin og að ýmsu leyti misþyrming á móðurmálinu. Það er ríkisstj. ekki til sóma að leggja svona plagg fyrir Alþ., því að hún ber ábyrgð á því, að þýðendur, sem annars eru vel færir í starfi sínu, hafa orðið að hlaupa yfir þetta verk á hundavaði í kapp við bráðræði hæstv. ríkisstj. og prentvélarnar í Gutenberg. Það er hart til þess að vita, að svona plagg skuli koma frá ríkisstj., sem nýtur forustu manns, sem hlotið hefur opinbera viðurkenningu fyrir snjöll tök á íslenzku máli, — og ég hygg, að við séum flest sammála um, að hæstv. forsrh. hafi átt þá viðurkenningu fullkomlega skilda. Hin íslenzka gerð samningsins er eins og hálfunnið verk, og það er rétt að minna á það hér, að það er illt til afspurnar, ef meiri hl. Alþingis ætlar að láta slíkt plagg frá sér fara og láta geymast í þingskjölunum næstu aldirnar. En óviðfelldinn málblær ásamt bögumælgi og þýðingarvillum ríða ekki við einteyming, því að aftan í þessi ósköp er hnýtt í eina lest fráleitum efnisatriðum, sem runnin eru af sömu rót og menguð af lítilsvirðingu á íslenzkum lögum og réttarfari. Það er jafnvel ekki skirrzt við að efast um gildi sjálfrar stjórnarskrárinnar um vernd eignar- og mannréttinda, með því að drita ákvæðum um svo sjálfsagða hluti hér og þar í samninginn. Formælendur samningsins segja, að ekki sé skaði að því, þótt samningurinn sé þannig úr garði gerður, það sé í fullu samræmi við íslenzkan rétt og ekki saki, þó að stjórnarskrárákvæði séu tekin í samninginn. Má vera, að það saki ekki efnislega, en það hlýtur þó að saka sjálfsvirðingu manna, ef þeir hafa hana einhverja. Lítilsvirðingin á íslenzku réttarfari nær þó hámarki í 46. og 47. gr. aðalsamningsins, þar sem kveðið er á um úrlausn deilumála, sem rísa kunna út af samningsgerðinni. Þar hefur hæstv. ríkisstj. gengizt undir þá smánarlegu kvöð að semja sig undan íslenzkum dómstólum með því að fallast á, að utanaðkomandi gerðardómur skeri úr ágreiningsefnum. Enginn vafi er á því, að svissneski álhringurinn pressaði þetta ákvæði inn í samninginn af þeirri einni sök, að forráðamenn hans treysta ekki íslenzkum dómstólum, þeir treysta ekki íslenzku réttarfari. Um það liggur fyrir skýlaus yfirlýsing aðalforstjóra Swiss Aluminium, sem hann gaf í blaðaviðtölum fyrir fáum dögum. En ég leyfi mér að spyrja: Hvert er þá orðið okkar starf? Er ekki á einu leitinu verið að hrópa húrra fyrir Íslandi sem hinu elzta lýðræðis- og réttarríki og hylla það í skálaræðum og vináttuheimsóknum þjóðarleiðtoga okkar út um allan heim, en þegar á reynir og þegar við höfum raunverulega þörf fyrir það traust, sem ætti að felast í öllum skálaræðunum, þá er þúsund ára lýðræðishefð og réttarhugmyndum Íslendinga sýnd sú virðing, sem birtist í samningunum við auðhringinn Swiss Aluminium Ltd. Og þetta gera hæstv. ráðh. sér að góðu. Að vísu er það ekki ný bóla, að núv. hæstv. ríkisstj. sé flöt fyrir útlendingum í samningum. Hvað það snertir tala staðreyndirnar sínu máli. Eitt nýjasta og átakanlegasta dæmið er sjónvarpsleyfið frá 1961, þegar ríkisstj. heimilaði stækkun sjónvarpsstöðvar herliðsins á Keflavíkurflugvelli. Það mál er mörgum ofarlega í huga, og ekki hefur vegur hæstv. ríkisstj. vaxið mikið með því máli. Mér er líka í minni óðagot hæstv. ríkisstj. fyrir þremur til fjórum árum í sambandi við Efnahagsbandalag Evrópu. Þá munaði ekki nema hársbreidd, að hæstv. ráðh. létu útlendinga telja sig á að sækja um upptöku í þetta nýja bandaríki Evrópu. Það virtist vera heilög sannfæring hæstv. ríkisstj., að Íslendingar ættu sér hreinlega ekki viðreisnar von í nútíð og framtíð nema þeir kæmust undir verndarvæng slíkrar voldugrar ríkjasamsteypu, sem hafði þó það markmið að útþurrka sjálfstæði þjóðríkja á borð við það litla ríki, sem við Íslendingar höfum verið að reyna að halda uppi síðan 1918. Þeir menn, sem valdir höfðu verið til þess að stjórna málefnum þjóðarinnar og höfðu tekið í arf sjálft fullveldið og lýðveldið, sem fram að þessu hafði verið talið fjöregg þjóðarinnar, endurheimt eftir margra alda nýlenduþrælkun, þessir menn létu sig hafa það hver um annan að spá þjóðinni eymd og ófarsæld, ef hún byndist ekki meira eða minna nánum stjórnarfarstengslum við ríkjabandalag suður í Evrópu. Sem betur fer tókst að koma vitinu fyrir þessa herra, áður en ósköp hlytust af. Sumpart munu þeir hafa séð að sér, þegar þeir fóru að hugleiða nánar afleiðingarnar, en sumpart stafaði það af því, að bandalagshugmyndin komst ekki í framkvæmd. Því miður er ekki örugg vissa fyrir því, að þetta mál verði ekki vakið upp einhvern tíma síðar. Um það er ómögulegt að segja. En við skulum vona, að á því verði bið. Ég geri mér þær hugmyndir um hæstv. forsrh. og raunar fleiri ráðh., að þeir viti, hvað það gildir að tengjast stjórnmálaböndum við útlend stórveldi, hvað sem um hina er að segja, sem renna niður ótuggnum öllum tízkuhugmyndum um efnahagsbandalög og eru tilbúnir að trúa því, að fullveldi og sjálfstæði smáþjóða standi í vegi fyrir efnahagslegum framförum. Ég skal játa það, að álsamningurinn er hreinasta smáræði hjá því, sem það hefði verið að tengjast Efnahagsbandalagi Evrópu. En hins vegar mátti svo sem við því búast, að þeir, sem gátu hugsað sér að tengjast því með aðild eða aukaaðild, sem enginn vissi hvað var, og lúta þannig útlendu valdi, bæði löggjafar- og dómsvaldi, hikuðu ekki við að semja sig undan íslenzkum dómstólum í tilviki eins og því, sem hér liggur fyrir. Það var raunar ekki við öðru að búast. Ég sagði áðan, að samningarnir við Swiss Aluminium hefðu á sér blæ milliríkjasamninga. Slíkt er mjög óviðeigandi og óæskilegt fordæmi. Þó að Swiss Aluminium sé voldugt og ráði kannske yfir meira auðmagni en allt íslenzka ríkið, er þó alveg óþarfi að hossa því svo hátt í samningunum, sem gert hefur verið. Það er óþarfi að veita því sömu réttar- og virðingarstöðu sem fullvalda ríki. Fyrr má nú vera respektin.

Samkvæmt aðalsamningunum við Swiss Aluminium Ltd. heimilast nefndu fyrirtæki að stofna hér á landi dótturfélag, sem nefnast skal Íslenzka álfélagið h.f. Þetta félag á að skrá á íslenzka hlutafélagaskrá með heimilisfang hér á landi, og skal það verða hlutafélag samkv. íslenzkum lögum með þeim breytingum, er af staðfestingarlögunum leiðir, og skal sem slíkt eiga og mega notfæra sér öll félagsleg réttindi, sem veitt eru með stofnskrá þess og samþykktum og íslenzkum lögum þannig breyttum. Ákvæðin um réttarstöðu Íslenzka álfélagsins h.f. eru vægast sagt óviðkunnanleg. Það er að nafni til íslenzkt félag, en um það gilda svo margar sérreglur samkv. samningunum, að ekki á sér hliðstæðu, hvað önnur félög snertir. Réttarstaða Íslenzka álfélagsins er með allt öðrum hætti en menn hefðu getað vænzt. Ástæða var til að ætla, að rekstrarfélagið yrði algerlega undir íslenzkum lögum og háð íslenzkri lögsögu og dómsvaldi. Skipti þá ekki máli, þó að Swiss Aluminium ætti meiri hluta i félaginu eða væri jafnvel einkaeigandi þess. Þar sem félaginu er ætlað að starfa á Íslandi, reka stórverksmiðju og stofna til mikilla viðskipta við innlenda aðila, bæði á einu og öðru sviði, var ekkert sjálfsagðara en félagið lyti íslenzkum I. og þá fyrst og fremst dómsvaldi. En það er nú eitthvað annað. Málaferli við Íslenzka álfélagið verða ekki útkljáð á Íslandi. Nei, þau á að leggja fyrir alþjóðlegan gerðardóm, eins og um milliríkjamál væri að ræða. Það er því ekki nóg með, að íslenzka ríkisstj. líti á Swiss Aluminium sem eins konar sjálfstætt ríki, heldur má segja, að hún liti sömu augum á dótturfyrirtæki þess hér á landi. Komið hefur fram í umr. um mál þetta, að álsamningarnir geyma margs konar einsdæmi. Og mundi það ekki eitt af einsdæmunum, að ætlast til þess, að úrlausn deilumála milli réttaraðila, sem báðir eru að formi íslenzkir, fari fyrir alþjóðlegan gerðardóm? Þannig getur þó farið í þessu tilfelli. Íslenzka álfélagið, sem reka á álver í Straumsvík, skrásett íslenzkt hlutafélag, og Landsvirkjun, íslenzkt raforkusölufyrirtæki, gera með sér raforkusamning, og rísi deilur milli þessara tveggja íslenzku lögpersóna, skal útkljá þær með alþjóðlegum gerðardómi. Einnig gerir Íslenzka álfélagið hafnar- og lóðarsamning við heimilissveit sína, Hafnarfjarðarkaupstað, og rísi deilur milli þeirra um eitthvað í samningnum, skal útkljá þær með alþjóðlegum gerðardómi. Látum svo vera, að ríkisstj. gangist undir alþjóðlega gerð í deilumálum við Swiss Aluminium, sem er alútlent fyrirtæki, út af samningsgerðinni. En er það ekki helzt til langt gengið að veita Íslenzka álfélaginu heimild til að skjóta ágreiningsmálum sínum við Landsvirkjun og Hafnarfjarðarkaupstað til alþjóðlegs gerðardóms? Finnst mönnum það virkilega ekki óeðlilegt að hafa slíkan hátt á, þegar um samskipti rekstrarfélagsins og annarra íslenzkra aðila er að ræða? Mér finnst það fráleitt og alveg óviðunandi. En svona er blærinn á þessum samningum. Samningsformið, andi þeirra og heildarblær, ákvæðin um lausn deilumála fyrir alþjóðlegum gerðardómum, málalengingarnar og vanmatið á íslenzkum lögum og rétti, þ. á m. á stjórnarskránni, allt þetta og hvert eitt atriði út af fyrir sig er nægileg ástæða til þess að hafna þessum samningum: Þeir eru í fyrsta lagi óviðeigandi og óviðunandi fyrir fullvalda réttarríki, sem á að baki sér óslitna lýðræðishefð í aldaraðir, og auk þess er hér skapað hættulegt fordæmi í samningsgerð, fordæmi, sem kann að draga dilk á eftir sér.

Engum heilskyggnum manni getur dulizt, að fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir í Straumsvík munu stórauka jafnvægisleysi í byggð landsins. Það er óhætt að fullyrða, að þeir landshlutar, sem nú eiga við atvinnulega erfiðleika að stríða, eru í stórhættu vegna þess sterka aðdráttarafls, sem stóriðjuframkvæmdirnar óneitanlega hafa. Hvað þessu vandamáli viðvíkur erum við Íslendingar þó reynslunni ríkari, og hefði mátt ætla, að ríkisstj. hefði haft vit og þroska til þess að draga af henni réttar ályktanir, þegar til þess kom að velja stóriðjunni stað. Því miður hefur það brugðizt allhrapallega, og mun þó e.t.v. öðru til að dreifa, því að ekki verður annað séð af gangi þessa máls en ríkisstj. hafi beinlínis skort vilja að því er varðar þetta mikilvæga atriði. Yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. um það. að kannaðir hafi verið til hlítar möguleikar á staðsetningu álbræðslu á Norðurlandi, ber að taka með mikilli varúð. Hið sanna er, að ríkisstj. hefur aldrei gert staðsetningu álversins að neinu stórmáli. Um það vitnar undirbúningur raforkuáætlananna og samningarnir við Swiss Aluminium. Forsenda ríkisstj. fyrir álmálinu er ekki sú að nota hina erlendu stóriðju til þess að efla atvinnulífið á Norðurlandi. Ef svo hefði verið, hefði raforkuáætlunin verið með öðrum hætti og samningsviðræður við Swiss Aluminium og jafnvel Alþjóðabankann reistar á allt öðrum grundvelli. Álsamningarnir hafa frávikalaust að kalla snúizt um stórvirkjun í Þjórsá við Búrfell og staðsetningu álversins í nágrenni Reykjavíkur á þeirri forsendu, sem flestir kunna nú orðið utan að, að með því væri verið að tryggja hagkvæmustu virkjunaraðferðir og lægst raforkuverð. Jafnvægi í byggð landsins og atvinnuuppbygging á Norðurlandi og allt slíkt var aukaatriði í þessu máli. Ríkisstj. taldi engu fyrir það fórnandi, og er ekki ofmælt, þó að sagt sé, að á þessu atriði framar mörgum öðrum hafi skilið leiðir með Framsfl. og stjórnarflokkunum í stóriðjumálinu. Framsfl. lítur á staðsetningu stóriðjufyrirtækisins sem eitt af grundvallaratriðum málsins, eins og ályktun miðstjórnar flokksins frá 1965 ber með sér. Að dómi miðstjórnar flokksins er því aðeins hægt að taka áhættuna af erlendri stóriðju, að alveg sérstakar ástæður mæli með því. Og þar er fyrst að greina áhrif hennar á uppbyggingu í þeim landshlutum, sem eiga við að búa ótraustan atvinnugrundvöll og ónóg afkomuskilyrði fyrir vaxandi fólksfjölda. Norðurland mun löngum hafa verið einna fjölmennasti landshlutinn, en á nú mjög í vök að verjast vegna yfirvofandi fólksfækkunar, sem ómótmælanlega hlýtur að leiða til afturfarar.

Í fyrstu stóriðjuskýrslu, sem alþm. barst sem trúnaðarmál frá ríkisstj., dags. 14. nóv. 1964, er frá því greint, að í ársbyrjun 1963 hafi legið fyrir fullnaðaráætlanir um 133 mw. virkjun við Dettifoss og 180 mw. virkjun við Búrfell. Á grundvelli þessara áætlana var gerður samanburður á þessum virkjunum, og kom í ljós, segir í skýrslunni, að orkan frá Dettifossi afhent við Eyjafjörð yrði 20% dýrari en orkan frá Búrfellsvirkjun afhent við Faxaflóa. Segir svo orðrétt í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta þurfti út af fyrir sig ekki að þýða, að Dettifossvirkjun hentaði ekki fyrir alúminíumverksmiðju. Hitt var verra, að eina fyrirtækið, Swiss Aluminium, sem ræddi alúminíumverksmiðju hér í alvöru, taldi sig ekki vilja ráðast í stærri verksmiðju en sem svaraði til 60 mw., 30 þús. tonna, og vildi ekki skuldbinda sig til að stækka hana innan ákveðins líma. Raforkuverði frá Dettifossi, sem til umræðu getur komið í þessu sambandi, verður hins vegar ekki náð nema virkjunin sé a.m.k. 100 mw. og vegna smæðar hins almenna raforkumarkaðar fyrir norðan, var hér um að ræða meira vandamál en talið er leysanlegt.“

M.ö.o.: stærð álbræðslunnar útilokaði það, að hagkvæmt væri að virkja Dettifoss að sinni, en ekki raforkuverðið. Játa verður, að hér var um frambærileg rök að ræða gegn álbræðslu við Eyjafjörð, og að mínum dómi hefðu frekari umræður um stóriðju útlendinga mátt niður falla, án þess að það hefði í nokkru þurft að tefja undirbúning undir nauðsynlegar raforkuframkvæmdir til innanlands þarfa, meðal annars vegna raforkuþarfar á Suðurlandi á orkuveitusvæði Sogsins, sem þá var löngu fullvirkjað. En nú líða nokkrir mánuðir. Í febrúar 1965 barst þm. ný skýrsla hæstv. ríkisstj. um alúminíumverksmiðju og stórvirkjun. Í henni greinir m.a. frá því, að Swiss Aluminium, sem áður hafði að sögn ekki viljað reisa nema 30 þús. tonna álbræðslu á Íslandi, krefjist þess nú að fá að koma á fót 60 þús. tonna álbræðslu í landinu, þ.e. fyrirtæki, sem þarf á að halda 100–120 megawatta orkuveri. Ýmsir hefðu talið, að þessi nýju viðhorf sköpuðu grundvöll undir frekari umræður um staðsetningu álbræðslu við Eyjafjörð og virkjun Jökulsár á Fjöllum. Því sjónarmiði hreyfðu framsóknarmenn strax, þegar þessar upplýsingar lágu opinberlega fyrir. Virtist liggja beint við, að þessi leið yrði könnuð til hlítar, en ríkisstj. sýndi þá, svo að ekki verður um villzt, að hún hafði engan áhuga á virkjun Dettifoss né á álbræðslu á Norðurlandi. Allt tal hennar í þá átt reyndist augljós markleysa. Í stað þess að láta gera ítarlega áætlun um Dettifossvirkjun og álbræðslu á Norðurlandi, sá ríkisstj. aldrei aðra leið en fullvirkjun Þjórsár við Búrfell og staðsetningu álbræðslu í Straumsvík. Ríkisstj. hafði að vísu áður sett á svið stuttan milliþátt í þessum sjónleik, sem reistur var á þeirri hugmynd að leiða raforku frá Búrfellsvirkjun norður yfir hálendið til Eyjafjarðar, enda væri alúminíumverksmiðjan staðsett þar. Ekki reyndist þessi hugmynd álitleg og hefur löngum verið notuð sem röksemd gegn staðsetningu verksmiðjunnar á Norðurlandi, og er það vafalítið, miðað við þær forsendur, sem hæstv. ríkisstj. gengur út frá í þessu máli.

Þá er það fært fram sem rök gegn staðsetningu álbræðslunnar við Eyjafjörð, að stofnkostnaður hennar yrði að verulegum mun meiri þar en í Straumsvík. Var sú staðhæfing reist á upplýsingum frá Swiss Aluminium meðan enn var rætt um 30 þús. tonna verksmiðju, en stóriðjunefnd taldi Swiss Aluminium að vísu ofreikna þennan mismun um nokkra milljónatugi. En eigi að síður gerði hún ráð fyrir, að kostnaðarmismunurinn yrði 50–100 millj. kr., eftir því hvort setja þyrfti upp gaseyðingartæki í Straumsvík eða ekki, en ljóst var, að þeirra væri þörf við Eyjafjörð, vegna veðurfars og vegna landslags og atvinnuhátta, en síður í Straumsvík. Raunar er engin vissa fyrir því, að ekki sé þörf gaseyðingartækja í Straumsvík, eins og ég hef áður sagt, því að athuganir um þetta eru vægast sagt mjög ófullkomnar. Þó má vera, að það yrði eitthvað dýrara að reisa álbræðslu við Eyjafjörð. En stóriðjunefndin bendir réttilega á það í einni af sínum skýrslum, að sá munur hlýtur fyrst og fremst að liggja í gaseyðingartækjunum. Að þeim slepptum getur tæpast verið um stórvægilegan kostnaðarmun að ræða. Varla hefði Swiss Aluminium látið stranda á þessu eina atriði, ef ríkisstj. hefði staðið öðruvísi að málinu, vegna þess að félagið getur almennt ekki vænzt þess að fá leyfi til að reisa álbræðslur án slíkra tækja, enda fullvist, eins og ég hef áður sagt, að allar álbræðslur fyrirtækisins, hvar sem er í heiminum, eru búnar gaseyðingartækjum. Straumsvíkurbræðslan er að þessu leyti alger undantekning. Með undanslætti sínum hvað þetta atriði varðar hefur ríkisstj. því gert ófýsilegra að reisa álbræðslu við Eyjafjörð en í Straumsvík. Þetta lýsir með öðru viljaleysi hæstv. ríkisstj. að því er tekur til staðsetningar álbræðslunnar norðanlands.

Og svo er því ekki að leyna, að ýmsir eru í vafa um það, hversu ítarleg virkjunarrannsókn hafi átt sér stað í Jökulsá á Fjöllum, en um það skal ég ekkert dæma. En því fer fjarri, að verkfræðingar séu á einu máli um virkjunaráætlun Dettifoss og raunar um virkjunaráætlanir í landinu í heild. Mér virðist að þar sýnist sitt hverjum, op meðan svo er, verður því ekki almennt trúað, að einhver ein leið sé alfullkomin og óyggjandi. Ég held því, að það muni margur trúa því, að það hefði allt eins mátt haga virkjunarframkvæmdum á annan veg en ráðgert er.

Það er svo til marks um áróðursmálflutning ríkisstj. í þessu máli, að hún heldur þeirri kenningu á loft og lætur málgögn sín og málsvara básúna það út meðal almennings, að stóriðjusamningarnir verði beinlínis til þess að efla jafnvægi í byggð landsins, þar sem ákveðið sé að láta hluta af skattatekjum vegna álbræðslunnar renna í svonefndan Atvinnujöfnunarsjóð, sem ráðgert er að stofna. Með þessari kenningu hyggst hæstv. ríkisstj. fá almenning úti um land til þess að sætta sig við samningana, en hér er auðvitað um mestu falskenningu að ræða. Þó að uppbyggingarsjóður af svipuðu tagi sé eitt hið brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar, eins og framsóknarmenn hafa lengi bent á og barizt fyrir, m.a. með flutningi frumvarpa hér ár eftir ár um sérstakar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, lýsir það mikilli skammsýni, ef menn trúa því, að tiltölulega litlar upphæðir, miðað við það gífurlega fjármagn, sem stóriðjuframkvæmdum fylgír, verði til þess að vega upp á móti röskunaráhrifum hins erlenda risafyrirtækis. Þess er og að gæta, að röskunaráhrif frá álbræðslunni og öðrum stórframkvæmdum, sem á döfinni eru, dynja snögglega yfir, áður en Atvinnujöfnunarsjóður fer að fá tekjur af skatti álbræðslunnar. Sjóðurinn er því satt að segja allmáttvana til þess að hindra það, að vinnuaflið leiti brott frá þeim stöðum, þar sem atvinnuleysi eða ónóg afkomuskilyrði eru fyrir hendi.

Því miður er skipuleg uppbygging landshlutanna svo fjarlæg enn sem komið er og allar aðgerðir í þeim efnum svo lítilfjörlegar, að ný stóriðja á mesta þéttbýlis- og þenslusvæði landsins mun um ófyrirsjáanlega framtíð feykja um koll öllum skynsamlegum vonum manna um vaxandi fólksfjölda, þróttmeira athafnalíf og aukna framleiðslu utan þessa svæðis. Sá jafnvægissjóður, sem fyrirhugað er að stofna, hlýtur að verða sem dropi í hafi þeirra stórframkvæmda, sem ráðgerðar eru annars staðar í landinu.

Því er talsvert á lofti haldið í umr. um þessi mál, að aðrar þjóðir sækist eftir erlendri fjárfestingu og telji sér ávinning að. Þá er framar öðru bent á fordæmi Norðmanna, sem lengi hafa leyft erlenda fjárfestingu í landi sínu og gera vist ekki stanz á þeirri stefnu, nema síður sé. Mjög hafa formælendur álbræðslusamningsins hér á landi visað á aðgerðir Norðmanna í þessum efnum og talið æskilega fyrirmynd okkur Íslendingum. Ég skal ekki gera neitt lítið úr þessu, en í því sambandi er ástæða til að minnast á annan þátt þessara mála, sem ekki er síður athyglisverður.

Noregur er stórt og strjálbýlt land, á margan hátt örðugt til búsetu og beinlínis harðbýlt og mundi þykja ærið óblítt og óbyggilegt víða, í augum sumra hagspekinga á Íslandi. Enda fer ekki hjá því, að Norðmenn eiga við mikið byggðavandamál að etja og ef til vill engu minna en við Íslendingar. Einstakar sveitir, héruð og heilir landshlutar eru ofurseldir öryggisleysi um afkomu og jafnvel landauðn vegna fólksfækkunar. Norskir stjórnmálamenn hafa fyrir löngu, hvar í flokki sem þeir eru, sameinazt um þá stefnu, að sporna við því, að héruð eða heilir landshlutar tæmist af fólki, svo að við blasi auðnin tóm, og þar í landi er þessi stefna engin sérvizka talin. En það gæti þó gerzt, landauðnin gæti þó orðið, ef ekki hefði verið gripið til sérstakra ráðstafana því til hindrunar. Eitt hið mikilvægasta vopn í höndum norskra stjórnarvalda í því að stuðla að jafnvægi í byggð landsins er að dreifa atvinnufyrirtækjum, og þá fyrst og fremst nýjum iðjuverum, sem víðast um landið. Atvinnuleyfi er jafnvel því aðeins veitt, að fyrirtækin gangist undir staðsetningarskilyrði ríkisstjórnarinnar. Upplýst er í meðferð stóriðjumálsins hér á Alþ., að Swiss Aluminium varð að gangast undir slíkt skilyrði í sambandi við byggingu álbræðslunnar í Husnesi. Þetta skilyrði, staðsetningin á Husnesi, er þó talin hafa haft það í för með sér, að álbræðslan varð að verulegum mun dýrari í byggingu en ef hún hefði verið þar staðsett, sem Swiss Aluminium vildi fremur. Og auk þess augljóst, að hún verður talsvert miklu dýrari í rekstri. En um þetta átti svissneska fyrirtækið ekkert val. Staðsetningin var ákveðin af hálfu norsku ríkisstj., og að þessu skilyrði var gengið, enda þótt það hefði í för með sér stóraukinn byggingar- og rekstrarkostnað fyrir Swiss Aluminium. Ég verð að segja, að hér er ólíku saman að jafna, óhvikulli og markvissri stefnu norsku ríkisstj. og stefnuleysi hinnar íslenzku.

Um það er rætt, að nauðsynlegt sé að auka fjölbreytni íslenzkra atvinnuvega. Þetta er hverju orði sannara, og undir það tek ég af heilum hug. En það er illt, þegar hugleiðingar um atvinnumál og þróun þeirra leiða til vanmats á undirstöðuatvinnuvegum landsmanna. Slíkt lýsir hinni mestu skammsýni. Það, sem máli skiptir um framtíðaruppbyggingu og aukna fjölbreytni í íslenzku atvinnulífi, er öðru fremur að nýta betur afurðir lands og sjávar, fullvinna fiskaflann og búfjárafurðirnar. Þó að mikið hafi áunnizt síðustu áratugi á þessu sviði, þá er enn langt í land, að því marki sé náð, sem talizt getur viðunandi. Enn flytjum við út hálfunna vöru í stórum stíl. Það er okkar meginútflutningur. T.d. er síldarframleiðsla okkar enn á algjöru frumstigi að kalla, og okkur verður miklu minna úr aflanum en vera mundi, ef átak væri gert til þess að nýta aflann betur. Enn leggjum við höfuðáherzluna á veiðarnar, en gerum næstum ekkert raunhæft til þess að vinna úrvalsvöru úr síldinni og afla markaða fyrir þá vöru.

Við sækjumst eftir fjármagni og tækniaðstoð erlendis frá. Við erum í ýmiss konar efnahagslegri samvinnu við aðrar þjóðir, og sumt hefur reynzt okkur til góðs. Við leitum jafnvel efnahagslegra ráðlegginga hjá erlendum stofnunum og sérfræðingum, en því miður oft með litlum eða neikvæðum árangri.

Yfirleitt held ég, að okkar efnahagslega samvinna og leiðbeiningarstarf útlendinga um íslenzkt atvinnulif sé á hreinum villigötum. Að öllum líkindum liggur það í eðli þessara samskipta að einhverju leyti, þ.e. að þær alþjóðlegu efnahagsstofnanir og fjármálastofnanir, sem við eigum aðgang að, hafa engan skilning á sérþörfum okkar, og starfsaðferðir þeirra henta okkur ekki. Þær eru ekki sniðnar fyrir það þjóðfélag, sem hér ríkir, og þess vegna sést þeim oft yfir það, hverjar þarfir okkar eru.

Að sjálfsögðu vantar okkur Íslendinga verulegt fjármagn til þess að endurskipuleggja atvinnuvegina. Sumpart væri hægt að afla þessa fjár innanlands, en að nokkru hljótum við að vera háð því að afla fjárins erlendis. Okkur vantar aðgang að lánum, sem hægt er að nota til skipulegrar uppbyggingar. Það ætti að vera stefna hverrar ríkisstj. að afla slíkra sambanda. Það verður að gera alþjóðlegum efnahags- og fjármálastofnunum ljóst, að við getum ekki þegið af þeim ráð eða aðstoð, nema forráðamenn þeirra setji sig inn í íslenzkar aðstæður og íslenzkan hugsunarhátt. Það verður að gera þeim það ljóst, að almennt er það til stórtjóns fyrir íslenzkt þjóðfélag, að erlent einkafjármagn ryðjist inn í landið, hvort sem slíkt kann að vera öðrum þjóðum til gagns eða ekki. Við höfum vonda reynslu af atvinnustarfsemi útlendinga, og við erum ófúsir til að taka þá stefnu upp að nýju, að hér verði um verulegan erlendan atvinnurekstur að ræða í framtíðinni.

Íslenzka þjóðin er andvíg slíkri stefnu. Hún vill sjálf hafa yfirráð sinna atvinnutækja, og almenningur á Íslandi er enn ekki orðinn sá hugsunarlausi múgur, sem ekki gerir sér grein fyrir því, að arðurinn af atvinnurekstri útlendinga flyzt alltaf burt úr landinu. Að fylla hér allt af erlendum atvinnurekstri endar með því, að við eignumst ekkert. Við höfum í hæsta lagi einhverjar launatekjur, en við eignumst ekkert af varanlegum verðmætum. Þess vegna getum við ekki byggt atvinnulíf okkar að neinu ráði á erlendum atvinnurekstri. Okkur ríður á, að byggja atvinnuvegi okkar upp sem alíslenzka starfsemi að öllu verulegu. Einkafjárfesting útlendra aðila á ekki að koma til greina, nema sem algjör undantekning, og þá með mjög ströngum skilyrðum. Þó að haldið sé fast við þá stefnu, þá á það ekkert skylt við það, að menn vilji ekki auka fjölbreytni í atvinnulífinu. En það má ekki kaupa fjölbreytni í atvinnulífinu allt of dýru verði. Þróun atvinnulífsins verður að byggjast á skynsamlegu mati á öllum aðstæðum hér á landi, bæði pólitískum og þjóðlegum, og möguleikum þeirra auðlinda, sem landið býr yfir.

Nú er í ráði að stofna til stóriðju útlendinga hér á landi. Gjaldeyrislegur ávinningur af því er talinn vera um 300 millj. kr. á ári. Þ.e.a.s., þegar álbræðslan er komin í fullan rekstur. Samningur liggur fyrir um það að selja hinu útlenda fyrirtæki raforku í allt að 45 ár, frá virkjun, sem okkur er sagt, að sé hagstæðasta virkjun á landinu. Fyrir liggur, að næstu virkjanir hljóta að verða miklu dýrari. Í slíkar virkjanir þarf að ráðast löngu áður en samningstímanum við erlenda fyrirtækið lýkur. Það tekur ekki á sig neinn aukakostnað af nýjum og dýrari virkjunum. Sá kostnaður verður allur borinn uppi af innlendum notendum, þ.e. almenningi og atvinnurekendum á Suður- og Suðvesturlandi. Þjórsárvirkjunin, bezta og hagstæðasta virkjunin að sögn, er ekki ætluð innlendum aðilum, nema bara að nokkru leyti, og þá ekki fyrr en einhvern tíma í fjarlægri framtið. Hér er því ekki um að ræða hagstæða ráðstöfun á raforkunni frá okkar sjónarmiði, og gjaldeyrislegur ávinningur er hverfandi lítill, þar sem aðeins er um að ræða 300 millj. fyrir raforkusölu, skatta og laun og þjónustu samanlagt. Þetta er allt og sumt, sem þjóðarbúið fær frá álbræðslunni.

Ég er sannfærður um það, að hægt væri að tífalda þessa upphæð á skömmum tíma, ef önnur stefna yrði upp tekin í því skyni að auka fjölbreytni atvinnulífsins hér á landi og leitað væri fjárhagslegrar aðstoðar, ef þörf reyndist til þess að koma því í kring. Ég nefni enn þá fullvinnslu sjávarafurða ásamt skipulegri markaðsleit fyrir slíkar vörur. Ég vil nefna fiskrækt í ám og vötnum, sem gæti orðið framtíðaratvinnuvegur, ef skipulega yrði að því máli unnið. Eins og nú horfir í þeim málum er varla við miklu að búast. Veiðimálalöggjöfin býður ekki upp á neinar stórframfarir á því sviði, og fullyrða má, að rannsókn á möguleikum í fiskrækt er ekki fyrir hendi. Til slíkra rannsókna þarf að veita meira fé og skipuleggja starf sérfræðinga á því sviði í stórum stíl.

Það er trú mín, að unnt væri að gera fiskrækt, að meiri háttar búgrein í flestum sveitum og byggðarlögum á Íslandi og skapa útflutningsverðmæti, sem skiptu hundruðum millj. kr.

Danir flytja út svokallaðan regnbogasilung, sem þó er ekki talinn í háum verðflokki, fyrir fullar 300 millj. ísl. kr. á ári. Þetta gætum við alveg eins gert. Við höfum alveg einstök skilyrði til ræktunar nytjafiska í ám okkar og vötnum. Vatnasvæði landsins er að þessu leyti nær óþrjótandi, og við þurfum ekki að óttast, að ár okkar og vötn eyðileggist sem veiðistaðir sakir úrgangsefna og mengunar frá iðnaðarstöðum og vaxandi stórborgum, eins og raunin er í Evrópu og Ameríku og víðar, þar sem vatna- og fljótafiskur missir smám saman öll lífsskilyrði og er nú að þurrkast út. Það þarf áreiðanlega ekki andvirði einnar álbræðslu til þess að ná þeim gjaldeyrisverðmætum, sem koma frá álbræðslunni, á fiskeldi einu saman, ef í slíkt væri ráðizt af myndarskap. Og ég vil nú líka. leyfa mér að nefna minkaræktina. Hún á að geta orðið mikilvæg búgrein hér í landinu, ef menn hefðu vilja á að notfæra sér þann atvinnuveg, enda hlýtur líka að því að koma, þegar skynsemin leysir fordómana af hólmi í því máli. Og sú stund mun koma, að ullar- og skinnaiðnaði verður sýndur meiri sómi en nú er, og þá verður hægt að margfalda verðmæti þessara afurða og auka fjölbreytnina í vinnslu þeirra. Möguleikarnir hér á Íslandi til þess að auka atvinnufjölbreytnina eru sennilega óþrjótandi, en hins vegar gerum við afar lítið til þess að koma nokkru slíku fram. Við þurfum því, Íslendingar, ekki að óttast það, að það verði ekki möguleikar til þess að auka fjölbreytni atvinnuveganna, án þess að gera það að aðalstefnuskráralriði að „laða“ hingað erlent einkafjármagn eins og það er kallað. Sízt af öllu megum við fara að trúa því, að orkulindir okkar verði að engu gagni, ef við flýtum okkur ekki allt hvað af tekur að virkja fyrir útlendinga. Ég hygg, að orkulindir okkar, sem virkjanlegar eru á hagstæðu verði, séu ekki svo miklar, að við höfum efni á því að offra þeim með þeim hætti, sem nú er ráðizt í. Vatnsorka okkar er ekki óþrjótandi, og það getur beinlínis verið hættulegt að binda sig í löngum samningum um ráðstöfun hennar til útlendra fyrirtækja. Og alveg sérstaklega held ég, að það sé óskynsamlegt að ráðstafa Þjórsárorkunni fram í tímann, þegar þess er gætt, að á Suður- og Suðvesturlandi er orkuþörfin til innlendra nota langmest og vex örast vegna þess mikla fólksfjölda og mikla atvinnurekstrar, sem þar er, og það er ekkert lát á því, að þar verði mesta fólksaukningin á Íslandi. En það gildir annað á Norðurlandi. Þar er nú vandræðaástand vegna ótraustra afkomuskilyrða. Þar er þörf á nýjum atvinnugreinum, og þar er næg raforka, næg skilyrði til mikillar raforkuframleiðslu, sem ekki er sýnilegt, að notuð verði í náinni framtíð. Ég leyfi mér því að gera höfuðmun á því að heimila útlendingum að setjast að með atvinnurekstur á Norðurlandi, að vissum skilyrðum fullnægðum, og því að staðsetja slíkan rekstur á því landssvæði, þar sem atvinnan er nú mest. Og ég viðurkenni ekki, að í þessu felist nein mótsögn.

Ein af ástæðunum til þess, að ég er á móti álsamningnum, er því sú, að ég felli mig ekki við staðsetningu álbræðslunnar. Hitt vil ég þó taka fram, að önnur atriði, sem ég hef þegar rakið, ráða einnig afstöðu minni. Ég tek afstöðu til þessa samnings eins og hann liggur fyrir. Ég tel hann í öllum meginatriðum óviðunandi. Sú er afstaða okkar í minni hl. þeirrar n., sem ég tala fyrir, og þess vegna leggjum við til, að þetta mál nái ekki fram að ganga og að því verði vísað frá nú þegar við þessa umr. Við höfðum einnig gert till. um það, eða látið í það skína í nál., að við mundum flytja till. um þjóðaratkvgr. við 3. umr., ef þessi till. okkar yrði felld, en nú hafa hv. Alþb.-menn flutt slíka till., og mér sýnist þá a.m.k. formsins vegna, að það sé ekki hægt fyrir okkur að flytja slíka till., og reikna ég því ekki með, að það verði gert.