15.11.1965
Efri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er e. t. v. ekki ástæða til þess að lengja þessar umr. svo mjög, úr því sem orðið er. Aðalatriðin í sambandi við þetta mál eru sjálfsagt komin fram, og ég hef átt þess kost áður að segja mína meiningu um þetta mál. Þó vildi ég aðeins leyfa mér að undirstrika nokkur atriði, sem mér virðast hafa komið fram í þessu máli og liggja nokkuð ljóst fyrir.

Það er þá í fyrsta lagi, að í þessum frv. felst tekjuöflun fyrir ríkissjóð, að fasteignamat er sexfaldað í stað þess sem það er þrefaldað. Nú er hins vegar sagt, að þetta frv. sé flutt til staðfestingar á samkomulagi því, sem gert var við verkalýðsfélögin á sínum tíma s.l. sumar. Í því samkomulagi er ekki að finna neinn staf um það, að fjárframlag ríkissjóðs til húsnæðismálastofnunar skuli aukið. Það er ekki í þessu samkomulagi, að ég fæ séð, neinn staf um það að finna, að framlag ríkissjóðs til húsnæðismálastofnunar skuli aukið, enda er ekki í þessu frv. um neina breytingu á því ákvæði húsnæðismálastofnunarl. að ræða. Það var á sínum tíma í þeim ákveðið 40 millj., og það er óbreytt. Það er ekki í þessu frv. gert ráð fyrir því, að framlag ríkissjóðs hækki neitt. Það, sem hér er þess vegna um að ræða, er það, að ríkissjóður fer fram á aukna fjáröflun, sem byggist á sexfölduðu fasteignamati í stað þrefaldaðs áður, en ætlar ekki eða er ekki lögskylt að leggja fram frekar en áður hærri upphæð en 40 millj. Það eina, sem ég fæ séð að finnist í þessu frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að á þurfi að halda eitthvað aukinni fjáröflun vegna þeirra ráðstafana, sem þar er samið um, er það, að í samkomulaginu er gert ráð fyrir því, að lán til þeirra, sem hófu byggingar á tímabilinu 1. apríl til 31. des. 1964, skuli hækkuð úr 150 þús. í 200 þús., og í samkomulaginu segir, að ríkisstj. tryggi viðbótarfjáröflun til húsnæðismálastjórnar á þessu ári, er nemi því viðbótarfjármagni, sem þessi hækkun krefst. En það er aðeins sagt, að ríkisstj. tryggi þetta viðbótarfjármagn. Það er ekkert sagt um það, með hverjum hætti hún á að tryggja það. Það verður fyrir fram að teljast heldur ólíklegt, að það hafi verið gert ráð fyrir beinni skattlagningu til þess að standa undir því, enda er ekki þarna að finna neitt um það, að fjárframlagið, 40 millj., eigi að hækka. Það helzt alveg óbreytt.

Þetta er í raun og veru fyrsta meginstaðreyndin í málinu, að ríkissjóður hefur ekki tekið á sig neinar skuldbindingar um aukin fjárframlög úr ríkissjóði, sem réttlæti það, að lagður sé á nýr skattur þess vegna, þannig að sú röksemd, sem færð hefur verið fram fyrir þessu, stenzt í raun og veru ekki. Sú röksemd, að ríkissjóður þurfi nú að leggja fram meira fé og hafi með samkomulaginu s.l. sumar skuldbundið sig til þess að leggja fram meira fé til þessara mála en áður, er því ekki fyrir hendi. Fjárframlag ríkissjóðs er eftir sem áður 40 millj. kr., og þetta frv. felur ekki í sér neina breytingu á því. Hitt er svo annað mál, hvort þetta hefur verið rétt útreiknað á sínum tíma, hvað þreföldun fasteignamatsins mundi gefa, hvort hún mundi nægja til þess að standa undir þessum 40 millj. Og það er atriði, sem mér skilst að hæstv. fjmrh. sé nú kominn alveg inn á, að það sé í raun og veru ástæðan til þess, að þetta frv., er nú flutt, þ.e.a.s. þessi hækkun er nú flutt af því, að útreikningarnir á þessu atriði hafi ekki staðizt, þreföldun fasteignamatsins hafi ekki gefið 40 millj., eins og gert var ráð fyrir, heldur 16–20 millj. Það er ástæða til þess að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær skýringar, sem hann kom fram með hér áðan í sambandi við það, sem hefði auðvitað átt að koma fram við 1. umr. málsins. E. t. v. hefði það getað komið í veg fyrir einhvern misskilning í þessu sambandi, ef þessar upplýsingar hefðu komið fram þegar í öndverðu, svo sem rétt hefði verið og skylt var, þar sem hér er að nokkru leyti um skattafrv. að tefla.

En það er bara sá hængur á þessu, að hæstv. fjmrh. verður að koma hér og gera grein fyrir því, að starfsmenn hans, þ. á m. ríkisskattstjóri, geti í raun og veru alls ekki um það sagt, hve mikill hluti eignarskattsins s.l. ár stafi af þessari hækkun, sem gerð var á fasteignamatinu. Það treystir sér enginn til þess að staðhæfa neitt með nokkurri nákvæmni um það. Þetta játaði hæstv. fjmrh. Þar af leiðandi er nú ekki einu sinni hægt að segja um það, hvort þessi eignarskattsviðauki, ef svo mætti segja, eða fasteignaskattur eða hvað sem menn vilja kalla hann, hafi numið 16 millj., hafi numið 20 millj. eða hafi kannske numið 30 millj. Það er ómögulegt að segja, hvað miklu af heildareignarskattinum þessi viðbót hafi numið. Og þegar þannig er í pottinn búið, sést, hversu það er gersamlega ástæðulaust og út í hött að ætla að fara að hækka þetta til þess að mæta fjárframlaginu til húsnæðismálastofnunarinnar.

Hitt er náttúrlega alltaf fyrir hendi og getur verið gott og gilt, að hækka skatta til þess að mæta þörfum ríkissjóðs. Og það er enginn, sem dregur það í efa, að ríkissjóður þurfi á ýmsu að halda nú. En grunnurinn er ekki öruggari en þetta, sem við er miðað, að það er ómögulegt að reikna það út, hverju þessi viðbót hafi numið eða komi til með að nema. En samt er á þessum óvissa grunni byggð till. um það að tvöfalda nú hækkunina, þ.e.a.s. sexfalda nú fasteignamatið, og virðist helzt í grg. gengið út frá því, að það muni gefa aftur helmingi hærri viðbótareignarskatt eða eignarskattsviðauka. En það sjá allir, að það nær auðvitað engri átt, og ég þarf þar í raun og veru engu við það að bæta, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir, þegar málið var síðast hér til umr.

Það eru mörg augljós atriði, sem valda því, að auðvitað hlýtur sexföldun fasteignamats að gefa meira en tvöföldun þess eignarskattsviðauka, sem þar er til staðar. Það blasir alveg við, þannig að hér er í meira lagi um óvissa upphæð að tefla. Og þegar lítið er til þessa, finnst mér meira en lítið hæpið að halda því fram, að það sé eðlilegt að setja þessa fjáröflun samt í húsnæðismálastjórnarl., af því að þessum skatti sé ætlað að standa undir fjárframlögum til húsnæðismálastofnunarinnar, því að ég þykist með þessum orðum hafa sýnt fram á, að það er gersamlega ómögulegt að vita, hve miklu þessi skattur nemur. Það viðurkenndi reyndar hæstv. fjmrh. áðan. Þess vegna er algerlega út í hött að vera að tala um það, að hann sé ætlaður til að mæta sérþörfum húsnæðismálastjórnarinnar. Ef í því ætti að vera vit, ef ætti að innheimta hann með þessum hætti og leyfa hann í þessum l., ætti auðvitað að halda þessum viðbótareignarskatti sérstökum og leggja hann til hliðar í sjóð fyrir húsnæðismálastjórn. Slíkt væri hægt að hugsa sér, ef á annað borð væri hægt að halda honum sérskildum, sem auðvitað er ekki hægt í þessu tilfelli. En af þessu er ljóst, að þarna er ekki um að ræða sköttun vegna sérþarfa húsnæðismálastofnunarinnar. heldur hreina tekjuöflun fyrir ríkissjóð, enda rennur þetta beint í ríkissjóð og verður þar, hvort sem það nemur meira eða minna en 40 millj. Alveg án tillits til þess, hve mikilli fjárhæð þessi skattur nemur, 20 millj., 30 millj.. 50 millj., þá á ríkissjóður að borga til húsnæðismálastofnunarinnar 40 millj. samkv. þessum 1., sem þetta lagafrv. er flutt til breytinga á.

Ég fæ þess vegna ekki betur séð en með þessu sé sýnt fram á, að það séu harla lítil rök fyrir þeirri margföldun fasteignamatsins, sem hér er lögð til grundvallar nýrri skattheimtu, og hvorki útreikningurinn á skattinum eða þessum eignarskattsviðauka sé nokkurs virði og því síður áætlunin, heldur algerlega út í hött, eins og hæstv. fjmrh. varð að játa. Og þegar þetta er þannig í pottinn búið, að þarna er um algerlega óvissa áætlunartekjuöflun fyrir ríkissjóð að ræða, á hún auðvitað hvergi heima nema í skattal., en alls ekki heima í lögum eins og þessum. Það hljóta allir að sjá.

Hitt er svo annað mál, sem ég skal ekki fara mörgum orðum um nú, af því að það er búið að ræða um það áður, hvort hún sé rétt og eðlileg, þessi leið að margfalda fasteignamatið svo sem hér er gert. Ég hef sagt þar um það, að ég viðurkenni fúslega, að fasteignamatið er nú of lágt. Ég held því líka fram, að fasteignaskattur geti vel komið til greina sem tekjustofn. En ég held, að ef þá leið á að fara, eigi að breyta fasteignamatinu með þeim reglulega og eðlilega hætti, sem ráð er fyrir gert í l., og ekki er langt síðan þau lög voru afgreidd hér á Alþ., lög um fasteignamat og fasteignaskráningu. Ef á að gera fasteignirnar að tekjustofni, á að hraða fasteignamatinu og byggja á því. en ekki fara þá leið, sem hér er farin, að margfalda fasteignamatið, sexfalda það, því að það er algert handahóf. Það getur vel verið rétt hjá hæstv. fjmrh., ég efa það ekki, að fasteignaverðmæti sé á mörgum fasteignum mun hærra í raun og veru heldur en sem nemur sexfölduðu fasteignamati. Hitt er líka jafnvíst, að á mörgum stöðum í landinu er ástandið þannig, að það er engin sanngirni í að margfalda fasteignamat þar með sex. Þetta þekkjum við báðir, ég og hæstv. fjmrh., þannig að það er ekkert hóf á því að haga skattlagningu þannig að ákveða hana með einu slíku pennastriki.

Um þær afleiðingar, sem þessi hækkun kann svo að hafa á húsaleigu, skal ég ekki fjölyrða. Það var minnzt á það síðast.

Ég vil svo enn undirstrika það, að það er vitaskuld alger orðaleikur, hvort hér er talað um fasteignaskatt eða eignarskattsviðauka. Þarna er um að ræða skatt, sem menn verða að greiða, vegna þess að þeir eiga fasteignir, vegna þess að þeir eiga þær tilteknu eignir. Aðrar eignir þeirra, hversu miklar sem eru, skipta ekki máli í þessu sambandi, aðeins fasteignirnar einar. Þess vegna held ég, að það fari ekki á milli mála, að þarna er í raun og veru um að ræða skatt vegna fasteigna einna. Og þá stendur það, sem áður hefur verið sagt, þrátt fyrir það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að á sínum tíma voru í gildi lög um fasteignaskatt til ríkisins. Þau voru frá 1921, ef ég man rétt, en hafa þó kannske verið eldri að stofni til. 1954 eða þar um bil var gerð breyting á þeim fasteignaskattsl. á þá lund, að sá fasteignaskattur skyldi eftirleiðis renna til bæjarfélaganna, og fyrir fasteignaskatti sem sérstökum tekjustofni bæjarfélaga og sveitarfélaga er gert ráð nú í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, eins og allir vita. En það er út af fyrir sig, ef menn vilja breyta um stefnu í því efni og taka fasteignaskatt til ríkisins nú í stað þess að áskilja sveitarfélögunum forgang að þeim tekjustofni. Það er út af fyrir sig. Því geta menn auðvitað breytt, ef menn vilja, en heppilegt tel ég það ekki. En ég undirstrika enn og aftur, að aðalatriðið í þessu máli er það, að þarna er um að ræða beina tekjuöflun í ríkissjóð, sem ekki verður sagt að standi í neinu eðlilegu sambandi við þá staðfestingu á samkomulaginu, sem gert var við verkalýðsfélögin á s.l. sumri, sem verið er að lögfesta með þessu frv., sem hér liggur fyrir, í fyrsta lagi vegna þess, að sú lítilfjörlega fjáröflun, sem þar er aðeins nefnd á nafn, er fjáröflun, sem gert er ráð fyrir að sé í eitt skipti fyrir öll. Auðvitað getur verið, að það samkomulag, sem þá var gert, og þetta frv., sem hér er verið að staðfesta, hafi einhver útgjöld í för með sér fyrir ríkið. Það eru fá lagafrv., sem hér eru afgreidd, sem hafa ekki einhver útgjöld í för með sér fyrir ríkið. En það þykir ekki af þeim ástæðum þörf á því að fara að setja inn í hvert og eitt frv. ákvæði um sérstaka tekjuöflun til þess að mæta þeim útgjöldum, enda er það vitaskuld ekki meiningin með þessu ákvæði hér, heldur hefur a. m. k. upphaflega og var í fyrra, þegar þetta ákvæði var sett, auðvitað höfð í huga skuldbindingin um 40 millj. kr. framlag ríkissjóðs til húsnæðismálastofnunarinnar. En sem sagt, hér er um hreina skattheimtu fyrir ríkissjóð að ræða, og hending ræður algerlega um, hvort hún verður nær 40 millj. eða 50 millj. eða eitthvað annað. Þessi tekjuöflun er, eins og ég hef sýnt fram á, byggð á áætlun, sem enginn vill í raun og veru við kannast og enginn telur sig geta gert, og þess vegna engin stoð í henni.

En þó að ég hafi tekið fram, að ég álít, að vel geti komið til mála að nota fasteignaskattinn í ríkara mæli, og þó að ég persónulega.sé alls ekki andvígur því, ætla ég í þessu sambandi að benda á það ákvæði, sem á sínum tíma var sett hér á Alþ. í sambandi við afgreiðslu l. um fasteignamat og fasteignaskráningu, l. nr. 28 1963. þ.e.a.s. fyrir um það bil tveimur árum. Í þeim l. er svofellt ákvæði til bráðabirgða, sem ég vildi leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur svo:

„Áður en nýtt aðalmat fasteigna samkv. l. þessum gengur í gildi, skal fara fram endurskoðun á gildandi ákvæðum l., sem fasteignamat hefur áhrif á, og miðist endurskoðunin við, að skattar á fasteignum hækki ekki almennt vegna hækkunar fasteignamatsins.“

Nú dettur mér auðvitað ekki í hug að halda því fram, að þessu sé ekki hægt að breyta. Auðvitað getur Alþ. breytt þessu. Það er ekkert skuldbundið til þess að standa við það, sem það hefur sagt. Löggjafinn getur ekki bundið hendur sjálfs sín. En í þessu felst, hvað sem öllu lagagildi líður, viljayfirlýsing Alþ. — og ég mundi nú vilja segja eins konar siðferðisleg yfirlýsing. Ég fæ ekki betur séð en það sé nú gengið mjög á svig við þessa yfirlýsingu með því frv., sem hér liggur fyrir.

Svo vil ég nú enn og aftur benda á það, hversu það er alveg fráleitt fyrir Alþ. að láta frv. fara frá sér í þeim búningi, sem það er í, að láta það sem sagt standa í frv. áfram og 2. gr. vera á þá lund, sem hún nú er, að þar segir bara: „Í stað orðsins „þrefaldað“ í 2. málsl. b. liðs 4. gr. komi orðið: sexfaldað.“ Þetta frv. á ekki samkv. orðum sínum að fella inn í l. um húsnæðismálastjórn, heldur á þetta að standa framvegis sem sjálfstæð lög, þetta frv., sem hér er verið að ræða um. Þá er það þannig, að í 2. gr. þeirra l. stendur þetta framvegis, að það verði sexfaldað, en það er ekkert tekið þar fram, hvað eigi að sexfalda. Náttúrlega má segja það, að lögfræðingar séu ekki of góðir til þess að leita að hinum l., sem vísað er til. En hvaða háttur er þetta, og til hvers er athugun í n. á svona frv., ef það er ekki hægt að breyta jafneinföldu atriði og þessu og gera það þannig úr garði, að það sé ofurlítið boðlegra venjulegum lesendum?

Ég skal svo aðeins, áður en ég lýk máli mínu. víkja að því atriðinu, sem hér bar einna mest á góma fyrst við þessa umr. hér áðan, húsaleigul. eða l. um hámark húsaleigu. Mér sýnist nú ekki í raun og veru svo mikill munur á skoðunum manna í því efni, að það ætti að vera frágangssök að samræma þær. Mér skilst, að það séu allir, þeir sem hafa talað um það, sammála um, að það sé eðlilegt að hafa einhver slík lög í gildi framvegis, lög um hámark húsaleigu, og ég er því sammála og get á það fallizt. Og þá er aðeins spurningin um það, hvernig á að brúa það bil, sem er milli þess, að ný lög séu sett og þessi séu niður felld. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég lít nánast á till. hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Vesturl. sem vott þess, að við viljum hafa einhver húsaleigulög eða lög um hámark húsaleigu og viljum ekki sleppa þessu sem er, fyrr en slík lög hafa verið sett. Hitt tek ég alveg undir, sem kom fram hjá hæstv. félmrh. og raunar fjmrh. líka, að það muni ekki vera mikið hald í þessum lagaslitrum, sem enn eru í gildi um þetta efni, og ég get út af fyrir sig tekið undir það, að það sé óheppilegt að hafa lög þau lengi í gildi, sem vitað er að lítt eða ekki er eftir farið. En ég get ekki séð, að það sé ástæða til að fella þau þó strax úr gildi. Þegar því er lýst yfir, að endurskoðun fari nú fram og ný lög verði sett innan tíðar, þá finnst mér eðlilegra að láta þessi gömlu slitur gilda, þangað til hin nýju lög koma, og fella þau þá úr gildi með þeim. En frá mínu sjónarmiði er þetta ekki mikið atriði í sambandi við þetta mál, sem hér er um að ræða.