22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Allmiklar umr. hafa þegar átt sér stað um þetta mál, sem ekki er að furða, en það eru nokkrar aths., sem ég vildi koma á framfæri, áður en málið verður afgr. úr þessari hv. deild.

Mér finnst hafa einkennt um of umr. andstæðinga þessa máls sú minnimáttarkennd, sem mér finnst með þeim búa, óttinn við það, að við séum ekki menn til þess að semja við útlendinga og hafa erlendan atvinnurekstur eða atvinnurekstur erlendra hér í landinu öðruvísi en að bíða eitthvert tjón á sálum okkar, jafnvel sjálfstæði landsins, eins og margott hefur komið fram. Það er talað af tilfinningasemi um hýðingu Hólmfasts á Kálfatjarnarþingi af erlendum og siðferðisvottorð til danskra kaupmanna, og það er engu líkara en það eigi nú að fara að innleiða slíkar aðfarir hjá okkur að nýju, að menn mættu búast við

því, að þessi erlendi aðili hýddi okkur eða Íslendinga og niðurlægði á annan hátt. Það er talað um kjarkleysi okkar, sem fylgjum þessu máli og að við vantreystum okkar gömlu undirstöðuatvinnuvegum og viljum bjarga okkur með samningum við útlenda aðila. Mér finnst, að eins mætti snúa þessu við og það mætti eins tala um kjarkleysi þeirra, sem ekki treysta sér til þess að semja við erlenda aðila og eru dauðhræddir við það, að við bíðum tjón á því, bæði í sambandi við sjálfstæði og efnahagsmál þjóðarinnar. Að mínum dómi ættum við að vera fyrir löngu vaxnir upp úr þessum hugsanagangi. Þegar við hugsum til tímamóta í sögu þjóðarinnar eins og 1904, þegar við fengum heimastjórnina og sjálfstæði 1918 og lýðveldisstofnunina 1944, er það augljóst mál, að við íslendingar eigum að gera okkur grein fyrir því, að við erum ekkert minni menn en sérhver önnur sjálfstæð þjóð og fullfærir um að semja við útlenda aðila, ef við dæmum það sjálfir hagkvæmt bæði fyrir þjóðina og allan almenning.

Við lifum í sívaxandi mæli í heimi alþjóðlegra samskipta, og þegar við litum til framtíðarlandsins, er framundan gífurlega mikil fólksfjölgun hjá okkur Íslendingum, svo að það er alls ekki að ófyrirsynju að gera ráðstafanir til þess að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið með það í huga, að ekki komi til þess, þó að einhverjir misbrestir kynnu að verða á okkar gömlu atvinnuvegum, að hér skapaðist erfiðleikaástand á vinnumarkaðinum með atvinnuleysi og öðru slíku, sem því fylgir. „Vort land er í dögun,“ held ég, að sé titillinn á einni bók hv. 3. þm. Reykv., sem talaði nú töluvert mikið í anda minnimáttarkenndarinnar, fannst mér. Og það er það sannarlega. Við þurfum ekki annað en að líta til þess, að það mun láta nærri, að það komi svona þúsund farþegar á dag við á Íslandi. Mest eru það að vísu millilendingar, en mikið af því er samt sem áður Íslendingar sjálfir, sem eru að koma og fara til landsins, og þetta minnir okkur á það, að við erum vissulega í „þúsund rasta þjóðbraut allra lýða,“ eins og Einar Benediktsson orðaði það, og yfirfæri ég það þá ekki sízt á loftið og loftferðirnar, sem eru orðnar svo miklar og skapa svo miklu meira samneyti og samskipti milli landa og einstaklinga en áður.

Mér er alveg ljóst, að það fylgja svona samningi mörg vandamál. Það er ekki nokkur vafi á því, og það verður víssulega að gera ráðstafanir til þess að fylgja sem bezt eftir framkvæmd hans og leysa á hverjum tíma úr þeim erfiðleikum, sem upp kunna að koma. Ég hef þegar haft nokkrar áhyggjur af því, að iðnmrn. er ákaflega vanbúið til þess að sinna málum eins og þessum. Það lætur nærri, að maður hafi 11/2 starfsmann í rn., og að mínum dómi þarf auðvitað að verða breyting á þessu, bæði varðandi tækniráðunauta og lögfræðilega ráðunauta. Þetta segi ég ekki til þess að vanmeta þá, sem eru fyrir í iðnmm., því að þeir hafa sýnt og sýna mjög mikinn dugnað og hæfni í sínu starfi.

Það er talað um nýja stefnu, sem nú sé verið að taka hér upp. Það hafa margir þm. vikið að því, að útlendingar megi og geti tekið í sínar hendur að meira eða minna leyti atvinnureksturinn í landinu.

Og hv. 5. þm. Austf. sagði, að það væri furðulegt, eins og hann orðaði það, að nú skyldu koma fram till. um, að horfið yrði frá þeirri uppbyggingu á yfirstjórn atvinnumála þjóðarinnar, sem bezt hefur reynzt, þ.e., að yfirstjórn atvinnumálanna sé í höndum Íslendinga sjálfra. Hver hefur verið með nokkrar till. um breytingar á þessu að yfirstjórn atvinnumálanna sé í höndum Íslendinga sjálfra? Er nokkur að tala hér um að setja yfirstjórn atvinnumála í hendur útlendinga? Yfirstjórn atvinnumálanna, þessa fyrirtækis eins og annarra, er auðvitað enn þá í höndum okkar Íslendinga. Þetta er alveg grundvallarmisskilningur, sem hér kemur fram. Og það er rétt, eins og hv. 3. þm. Reykv. vék að, að ef þessi framkvæmd fer illa úr höndum og það kemur í ljós, að hún sé skaðleg fyrir almenning og okkar efnahagslíf og sjálfstæði, ég tala nú ekki um, er það alveg rétt eins og hann sagði og kom líka fram hjá hæstv. forsrh., að þá eigum við að fá yfirstjórn þessara mála í okkar hendur, taka slíka verksmiðju eða bræðslu eignarnámi bæði samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar og ákvæðum samninganna sjálfra, sem eru hér að lútandi, því að það er beinlínis um þetta fjallað í 35. gr. samningsins, en þar segir, að ríkisstj. skuli ekki gera neinar ráðstafanir, sem beint eða óbeint svipta Alusuisse, minni hl. hluthafa eða ISAL neinum fjárfestingum þeirra eða hluta af þeim nema a) að slíkar ráðstafanir séu gerðar vegna almenningsþarfa og lögum samkv. og b) að slíkar ráðstafanir séu óhlutdrægar og c) slíkum ráðstöfunum sé fylgt eftir með greiðslu fullra bóta, sem nemi sannvirði fjárfestinga þeirra, er í hlut eiga, þær greiðist án teljandi tafa og fáist yfirfærðar í þeim mæli, sem nauðsynlegt er, til þess að slíkar bætur megi koma að haldi fyrir Alusuisse, minni hl. hluthafa eða ISAL, eftir því sem við á. Og þetta er í samræmi við okkar grundvallarlöggjöf eða grundvallaratriði stjórnarskrárinnar. En í 35.03 er líka gengið lengra í þessum efnum heldur en almenn ákvæði stjórnarskrárinnar segja beint um, en mundu þó að vissu leyti mega túlkast þannig, en þar segir a) að ríkisstj. heimilist að grípa til aðgerða, er brjóti í bága við ákvæði gr. þessarar, sem ég var nú að lesa um almennt eignarnám og bætur, ef hún eigi í styrjöld, ófriði eða öðrum alvarlegum þjóðfélagslegum vanda, sem upp komi vegna óviðráðanlegra afla eða ófyrirséðra aðstæðna eða ógna mikilvægum öryggishagsmunum hennar og b) að aðgerðirnar séu framkvæmdar samkv. ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða að till. þess eða Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í þá átt, að varðveita verði eða koma þurfi á aftur heimsfriði og öryggi.

Inn í umr. hefur spunnizt það, hvort Alusuisse eða ISAL mundi verða þátttakandi í vinnuveitendasamtökum Íslands, og menn hafa lagt á það áherzlu, að þeir yrðu það ekki, til þess að raska þá ekki jafnvægi í deilu milli íslenzkra vinnuveitenda og verkalýðsfélaganna. Í sambandi við þetta barst mér svo hljóðandi bréf frá Alþfl. dags. 15. apríl s.l.:

„Á fundi miðstjórnar Alþfl. 23. marz s.l. var gerð ályktun um afstöðu flokksins til byggingar álbræðslu í Straumsvík. Í þeirri ályktun er m.a. tekið fram:

Alþfl. telur, að Íslenzka álfélaginu h.f. beri að sjálfsögðu að hlíta íslenzkum lögum um skipti við stéttarfélög, en eigi ekki að ganga í samtök atvinnurekenda, iðnrekenda eða annarra sambærilegra aðila og hafa þannig áhrif á kjarabaráttu þjóðarinnar. Er það skilyrði fyrir stuðningi Alþfl. við málið, að svo verði ekki.“

Hér lýkur tilvitnun í ályktun miðstjórnar Alþfl. En í bréfinu segir svo að lokum:

„Með tilvísun til viðræðna í ríkisstj. óskum við hér með eftir að fá staðfestingu viðkomandi aðila á, að þeir fallist á skilyrði þetta“.

Ég skrifaði svo samdægurs Swiss Aluminium og sendi afrit af þessu bréfi Alþfl. og fór fram á það, að fá staðfestingu á því, að þeir féllust á þetta skilyrði fyrir sitt leyti, áður en umr. lyki hér í hv. d., og mér hefur borizt bréf dags. 19. apríl frá Swiss Aluminium, þar sem segir svo efnislega, að með vísun til þeirrar málaleitunar, sem fram kemur í bréfi yðar 15. apríl 1966, viljum við staðfesta, að ISAL mun ekki gerast meðlimur vinnuveitendasamtaka á Íslandi.

Í umr. um þetta mál beindi hv. 3. þm. Reykv. til mín nokkrum aths. í sambandi við áhrif force majeure eða óviðráðanlegra afla. Það var eitthvað á þessa leið: Getur Alusuisse hagnýtt ákvæðin um óviðráðanleg atvik t.d. þannig, að ef verkfall er gert staðbundið eða almennt, að félagið felli niður greiðslu á raforku og neiti að hefja greiðslu á nýjan leik fyrr en verkfallið er leyst? Enn fremur, hver sker úr deilu um það, hvort Alusuisse hefði ekki getað leyst verkfallið með því að samþykkja kaupkröfurnar eða hins vegar, ef Alusuisse heldur því fram, að ríkisstj. hefði getað aflétt þessum force majeure með því að banna verkfallið? Og hvað felst í þessu sambandi í ákvæðinu um, að hvor aðíli geri það, sem í hans valdi stendur, til þess að greiða úr vandanum? Þýðir það, að annar hvor aðilinn er skyldur til að gera þetta, sem vissulega stendur í hans valdi, Alusuisse að greiða kaupið, ríkisstj. að banna verkföll eða lögskipa gerðardóm, og hver dæmir um, hvorum beri að gera hvað? Þannig voru fsp. frá hv. 3. þm. Reykv. efnislega, og um þær vildi ég fara nokkrum orðum.

Það er spurning þá um það, hvort Alusuisse geti hagnýtt, eins og hv. þm. orðaði það, ákvæðin um óviðráðanleg öfl á þann hátt að fella niður greiðslu á raforku, ef það lendir í verkfalli staðbundnu eða almennu, og neita að hefja greiðslu á ný fyrr en verkfallið hefur verið leyst. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. eigi hér við greiðslu fyrir lágmarksrafmagn eða lágmarksmagn raforku, sem greiða ber, hvort sem raforkan er notuð eða ekki og kemur til skjalanna, þegar orkunotkun bræðslunnar lækkar niður úr því, sem vera mundi við venjulega starfrækslu hennar. Verkfall á Íslandi gæti auðvitað aldrei hindrað Alusuisse í því að greiða fyrir rafmagn, sem bræðslan notar í raun og veru. Svo að farið sé lauslega út í það, hvað í þessu gæti falizt í framkvæmdinni, má því segja, að í fyrsta lagi eru einungis þau verkföll, sem beinlínis lækka orkunotkun bræðslunnar niður fyrir lágmarksmagn, sem geta haft í för með sér hnekki fyrir Landsvirkjun samkv. þessu ákvæði samninganna. Af þessu leiðir, að undir venjulegum kringumstæðum eru það einungis verkföll í bræðslunni sjálfri, sem stöðva sjálfa framleiðsluna þar, sem þarna koma til greina. Það er t.d. engin ástæða til þess fyrir ISAL að draga úr framleiðslu verksmiðjunnar sem neinu nemi, þótt verkfall verði hjá hafnarverkamönnum eða öðrum, sem stöðvar vöruflutninga til eða frá verksmiðjunni, svo að það dæmi sé tekið. Slíkt verkfall mundi yfirleitt þurfa að standa svo mánuðum skipti en ekki vikum, áður en það færi að segja til sín í minnkandi orkunotkun. Bræðslan mundi að jafnaði hafa nægar efnisbirgðir á staðnum, t.d. rúmar alúminíumsíló hennar alltaf hálfs árs birgðir af því hráefni. Og truflanir á útflutningi þurfa að vera verulegar, svo að tilefni sé til samdráttar á framleiðslunni. Þau verkföll, sem verða í verksmiðjunni sjálfri segja auðvitað fyrr til sín, en samt þurfa þau yfirleitt að standa langan tíma miðað við það, sem hér tíðkast, til þess að skipta nokkru máli um skuldbindingu Alusuisse varðandi rafmagnskaup.

Svo var spurt, hvað Alusuisse gæti gert í því að bera fyrir sig verkföll sem óviðráðanlegt afl, þegar á það félli skylda til þess að greiða fyrir lágmarksmagn raforku. Svarið við því er það, sem í samningnum stendur, að fyrirtækið verður sjálft að sýna fram á það, að það hafi orðið fyrir verkfalli, sem það geti ekki komið í veg fyrir eða bundið enda á með öllum eðlilegum ráðum, sem því eru tiltæk, eins og segir efnislega í 39. gr., og það sé bein afleiðing af þessu verkfalli, að orkunotkun þess fór niður fyrir hið tilskilda lágmark. Það er í gr. 40.03. Fyrirtækið verður líka að sanna það, að það hafi reynt eftir megni að draga úr áhrifum verkfallsins á þessa skuldbindingu sina gagnvart Landsvirkjun samkv. ákvæðum 40.06. Í þessu felst það fyrst og fremst, þar sem félagið er aðili að verkfallinu, að það verður að hafa rekið vinnudeiluna í góðri trú og sýnt fullan samstarfsvilja við verkalýðsfélögin. Ef um allsherjarverkfall er að ræða, liggur það nokkuð ljóst fyrir, að ekki verður ætlazt til þess, að félagið geri miklu meira en aðrir atvinnurekendur, en ef það neitar að gera jafnmikið og þeir, t.d. að veita starfsmönnum sínum svipuð kjör og þau, sem aðrir atvinnurekendur samþykkja í allsherjarverkfalli, mun það vera talið í hæsta máta óeðlilegt. Ef um er að ræða staðbundið verkfall, t.d. hjá starfsmönnum bræðslunnar, má líta til þess, hvort fyrirtækið hafi stofnað til illdeilna við verkamenn sína, t.d. með óviðunandi aðbúnaði á vinnustað, hvort það beitir óeðlilegum samningsaðferðum eða hvort það er að reyna að sveigja kjör þeirra í aðra átt en þá, sem almennt gerist um svipaða vinnu eða þá venju, sem skapazt hefur um bræðsluna sjálfa. Ef um flutningaverkfall er að ræða, mundi félagið ekki geta afsakað síg, ef það hefði t.d. vanrækt að sjá fyrir eðlilegum hráefnisbirgðum í bræðslunni, þ. á m. öllum þeim birgðum, sem fyrirframvitneskja um vinnudeilur gaf tilefni til að safna fyrir, og þannig mætti lengi telja og setja fram ýmis tilvik þessa máls. Í sambandi við fsp. er einnig rétt að benda á, að þegar talað er um eðlileg ráð í samningnum, er átt við það, sem eðlilegt eða sanngjarnt er frá almennu sjónarmiði.

Fyrirspyrjandi eða hv. þm. spurði um það, hvernig aðstaða ríkisstj. væri í sambandi við þessi verkföll, t.d. hvort Alusuisse gæti bent á það, að ríkisstj. gæti leyst málið og aflétt hinum óviðráðanlegu öflum með því t.d. að banna verkfallið með brbl. eða lögum. Því er þar til að svara, að ríkisstj. hefur engar sérstakar skyldur gagnvart verkföllum í bræðslunni fremur en á vinnustöðum yfirleitt. Alusuisse á enga heimtingu á því, að ríkisstj. grípi til sérstakra ráðstafana til að tryggja vinnufrið í bræðslunni. það er misskilningur hjá hv. þm., ef hann heldur, að samningurinn skyldi hinn samningsaðilann til að leysa úr vanda þess aðila, sem verður fyrir force majeure. Hann sjálfur á að reyna að leysa vandann með eðlilegum ráðum eins og ákveðið er í 40.03 og draga úr áhrifum vandans sbr. 40.06.

Spurt var að lokum um það, hver ætti að leysa úr deilunni um það, hvort Alusuisse hefði gert sitt til þess að afstýra verkfalli eða binda endi á það. Um það mundu fjalla þeir aðilar, sem yfirleitt eiga að úrskurða um deilur milli ríkisstj. og Alusuisse, þ.e. íslenzkir dómstólar, íslenzkur gerðardómur eða alþjóðlegur gerðardómur eins og samningurinn gerir ráð fyrir. Slík deilumál yrðu metin á sama hátt og önnur sakarefni milli aðilanna í þessu sambandi.

Það mun hafa verið hv. 5. þm. Vesturl., sem vék að því í ræðu sinni, að samningarnir hefðu nú ekki alltaf verið snurðulausir og iðnmrh. hefði á vissu stigi málsins tjáð sér, að hann væri alveg efins um það, að ganga mundi saman með samningsaðilum. Að þessu vék hv. 5. þm. Vestf. í sinni ræðu þar á eftir og spurði þá, hvaða hnútur var það þá, sem þarna var á ferðinni og sem leystist. Vildi hann gjarnan fá upplýsingar um það, og ég skal aðeins víkja að þessu atriði.

Fyrstu samningsdrögin frá hálfu Íslendinga voru, held ég, send Svisslendingum í janúar 1965, þar sem samningsuppkast var formað. Því var svo aftur svarað með samningsuppkasti frá Swiss Aluminium, sem er dags. 21.5. 1965 eða í maí. Við komum svo til Zürich skömmu eftir þetta, þmn. og ég einnig. Ég var kominn þar um sama leyti og þeir komu frá Noregi, þar sem þeir voru að kynna sér og skoða verksmiðju, sem þar var í byggingu hjá Alusuisse og módeltilraunirnar í Þrándheimi. Ég hafði þá skömmu áður en ég fór að heiman fengið þetta uppkast í hendurnar og hafði verið að lesa það undanfarna daga. Ég gerði þá strax fyrirvara um það og óskaði eftir fundi með Alusuisse, og það var 17. júní um morguninn fyrir hádegi, að við Jóhannes Nordal mættum á fundi með Alusuisse. Þótt þessir samfundir þarna væru ekki ætlaðir sem viðræðufundir heldur kynnisferð ísl. þm., óskaði ég eftir þessum fundi og það var til þess að láta ekki undir höfuð leggjast að gera strax fyrirvara um það, að mér mislíkaði í verulegum atriðum samningsuppkastið, sem þeir hefðu sent okkur, sérstaklega að formi til. Það voru nokkur efnisatriði, sem við gerðum fyrirvara um þá þegar, en formið fannst mér einnig þurfa að taka miklum breytingum, og þetta vildi ég láta þá vita strax við fyrsta tækifæri, sem ég hefði til þess, en þegar þmn. kæmi heim, mundum við fara gegnum samningsuppkastið og senda þeim svo grg. okkar um málið að því búnu.

Í gegnum þetta samningsuppkast fór svo þmn. á fundum í júlímánuði, mörgum fundum, lið fyrir lið, gr. fyrir gr., og það var ýmislegt, sem menn höfðu við það að athuga, og upp úr því var samin allvíðtæk grg. um viðhorf Íslendinga til breytinga á þessu samningsuppkasti, og þessi grg. var svo að sjálfsögðu borin undir þmn. áður en hún var send Alusuisse. Og sannast að segja stóðu fyrir dyrum fundahöld við þá aftur, sem urðu svo í október, 12. og 14. október, og það var það margt í þessu samningsuppkasti, sem ég taldi það veruleg atriði, að ég mun á þessu stigi málsins hafa látið það uppi, að mér sýndist alveg ósýnt um það, hvort samningar gengju eða ekki.

Þegar þeir komu svo hér til fundarhaldanna í októbermánuði, voru það alveg sérstaklega ákvæðin um deilur á milli aðilanna og þau lög, sem fara ætti eftir, og þau lög, sem voru enn í því formi, þrátt fyrir okkar aths., sem ég taldi, að ekki gætu verið þannig. Ég boðaði því forstjóra Alusuisse, Meyer og Müller, til mín upp í iðnmrn. og sagði þeim, að gr. um deilurnar, eins og þær væru í samningunum, gætum við ekki gengið að, og ef það gætu ekki orðið á þeim breytingar, sem ég gerði nánar grein fyrir, þyrftum við ekki að tefja hvorir aðra lengur á neinni samningsgerð. Ákvæði samningsuppkastsins frá þeim um deilurnar var það, að við úrskurð á gildi og áhrifum samninganna skyldi fara eftir grundvallarreglum íslenzkra og svissneskra laga, og ef ekki væru fyrir hendi sameiginlegar grundvallarreglur svissneskra og íslenzkra laga, skyldi fara eftir alþjóðalögum og vitnað til 38. gr. samþykktar Alþjóðadómstólsins. Meyer sagði þá, aðalforstjórinn, að þeir gætu ekki gengið inn á það, að deilurnar ættu að úrskurðast eftir grundvallarreglum íslenzkra laga, og það yrði þá að vera lokið þessum samningatilraunum. Ég man eftir, að ég sagði við hann, að það væri leiðinlegt eftir svo mikið sem við værum búnir að leggja á okkur, en, þó yrði það svo að vera.

Síðan hugsuðu þeir málið nánar, og það var upp úr þessu, sem þeir gengu inn á 45. gr., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta, að samning þennan beri að skýra og túlka og framkvæma samkv. ákvæðum hans og hinna fskj., eftir því sem unnt er, og að öðru leyti sé farið við skýringu, túlkun og framkvæmd, gildi og áhrif samnings þessa að íslenzkum lögum. Þessi niðurstaða kemur fram í frásögn af fundum okkar 12. og 15. okt. Þar segir:

Lagareglur, sem beita á, og ágreiningsmál, niðurstaða í umr.: Fella þarf niður alla 52. gr., sem þá var, gr., sem kvað á um þetta, nema ákvæði í mgr. 52.01 á þá leið, að samninga skuli túlka samkv. efni þeirra, og lagareglur, sem beita á, skuli vera íslenzk lög og þær reglur úr alþjóðarétti, sem við kunna að eiga og eru taldar meginréttarreglur, sem almenni eru viðurkenndar af siðmenntuðum þjóðum.

Þessa fundargerð eða frásögn lagði ég svo fyrir þmn. á fundi 28. okt. Þar er 2. liður fundargerðar svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Tekin til umr. frásögn af fundum fulltrúa íslenzku ríkisstj., Alusuisse og Alþjóðabankans í Reykjavík 12. og 14. okt. 1965. Rætt um ýmis atriði skýrslunnar einkum: 1) Force majeure, sem menn voru sammála um, að æskilegt væri að túlka þröngt, 2) aðstöðu til að nota erlent vinnuafl einkum á byggingartímanum, sem talið var, að ætti að fara eftir hinum almennu reglum, sem um slíkt gilda hér á landi og 3) gerðardómsákvæði, sem talið var æskilegt, að hægt væri að takmarka.“

Þessa fundargerð hafa hv. nm. þmn. allir farið yfir og undirskrifað síðan, og þarna kemur það fram, að þegar ákvæðin um grundvallarreglur íslenzkra l., sem eru í þessum kafla, — næsta gr. er um deilur og gerðardóminn — þegar þetta er lagt fyrir þmn., hafa menn ekki annað á því stigi málsins við það að athuga, þegar málið var komið í þetta form, en að það væri æskilegt að takmarka gerðardómsákvæðin, og upp úr þeim aths. var svo sett inn í samningana á siðara stigi málsins sú viljayfirlýsing, sem fram kemur í lok 46. gr., þar sem sagt er, að það sé ekki ætlun aðila samnings þessa að leita til alþjóðlegs gerðardóms til að jafna neina deilu, sem eigi varðar verulegar fjárhæðir eða mikilsverð málefni. Það var með þetta í huga og margt annað, að ég furðaði mig mjög á því við l. umr. þessa máls, hvernig tekið var á þessum gerðardómsákvæðum og þeim dómum, sem það fékk og ég hafði ekki heyrt af hálfu þeirra þm., sem fjölluðu um þetta mál í þmn., og heldur ekki aðrir hv. þm. höfðu gert aths. við, eftir að þeir höfðu haft samningsuppköstin til meðferðar.

Það má segja, að deilur hafi snúizt einna mest um rafmagnsverðið og svo gerðardóminn, sem ég vék að, og hv. þm. finnst grundvallarverðið of lágt. Það get ég auðvitað vel skilið, að þeir óski eftir að hafa það hærra. En við komumst ekki lengra áleiðis með rafmagnsverðið, eins og ég hef áður skýrt, en vegna þess sérstaklega hafa menn tahð, að samningurinn væri óaðgengilegur og ekki hagkvæmur fyrir okkur Íslendinga. Þessu furða ég mig stórlega á. Því ég tel samninginn mjög hagstæðan fyrir okkur íslendinga með þessu rafmagnsverði, sem i honum er.

Grundvallarverðið, 21/2 mill, gefur okkur miklu sterkari og betri aðstöðu til virkjunarframkvæmda en við hefðum ella. Á þetta hef ég lagt mikla áherzlu og bent á, og þær ábendingar, sem fram koma í grg. um það, hafa ekki verið hraktar, en þar er það m.a. tekið fram, að ef litið er á framleiðslukostnað hverrar raforkueiningar með eða án álbræðslu, þá kemur í ljós, að á árunum 1969–1975 mundi viðbótarorkan kosta 62% meira, ef álbræðslan væri ekki byggð, 22% meira á árunum 1976–1980 og 12% á árunum 1981–1985, og yfir allt þetta tímabil mundi raforkukostnaðurinn verða nærri 30% hærri, ef Búrfellsvirkjun væri eingöngu byggð fyrir almenningsnotkun og enginn sölusamningur gerður við álbræðslu. Þessir útreikningar hafa ekki verið vefengdir. Ég hef leiðrétt töflu, sem fylgir þessum útreikningum, um samansafnað fé og samanburð á áætlun nettóhagnaðar Landsvirkjunar í heild með og án orkusölu, sem er á bls. 110–111, vegna þess að fyrstu sex árin er raforkuverðið 3% og reiknað inni í þessum töflum, en skatturinn lægri, sem því nemur. Það þýðir það, að hið samansafnaða fé á 25 ára tímabili verður tæpar 700 millj. kr. í stað 860 millj. á bls. 110, og samanburður á áætluðum nettóhagnaði Landsvirkjunar í heild með og án orku til álbræðslu er 620 millj. kr. á þessu tímabili í staðinn fyrir 700 millj. kr., þ.e. án vaxta, eins og fram kemur á bls. 111.

Menn segja, að þeir fái ekki staðizt þessir reikningar. Það er það eina, sem menn hafa sagt í þessu sambandi, vegna þess að það geti enginn sagt fyrir um kostnaðinn af virkjuninni en um Búrfellsvirkjunina liggja fyrir mjög ýtarlegar áætlanir á bls. 226, og eru þær ekki nema að litlu leyti áætlanir heldur fast verð um það, hvað Búrfellsvirkjunin muni kosta. Það er fyrst 105 mw. Búrfellsvirkjun, og það er gert ráð fyrir því, að hún kosti 1354 millj. kr. Þar eru tilboðin, sem komin eru, 808 millj. þau eru föst og búin. Það, sem lokið er við, eru vegir og brýr ofan Ásólfsstaða og undirbúningskostnaður. Það eru 11.5 millj. fyrri liðurinn, 39.5 millj. seinni liðurinn. Sá eini áætlaði kostnaður þarna eru 103 millj., sem enn þá er áætlunarupphæð, kostnaður vegna helztu tækja í spennustöð og vegna rafbúnaðar o.fl., kominn á hafnarbakkann hér. Verk ofan Búrfells, íbúðarhús og helmingur kostnaðar við þjóðvegi. Það eru 103 millj. kr. það gæti orðið einhver breyting á því. Það er hins vegar skoðun starfsmanna Landsvirkjunarinnar, að þessi kostnaður muni ekki fara fram úr þessari áætlun, hún sé mjög rífleg.

Svo er þess getið, að um 15% af heildarstofnkostnaði verði háður launum skv. kjarasamningum. Annar kostnaður verður á föstu verði og er á föstu verði. Þessi 15% af heildarkostnaðinum eru 182 millj. kr. Það eru sem sagt rúmar 180 millj. kr., sem eru þá háðar verðbreytingum eða háðar breytingum á launum skv. kjarasamningum, og ég hef reiknað með því, að laun gætu breytzt um 50% á þriggja ára tímabili, 50%. Þá fer til þessa um 90 millj. kr., sem þarna hækka, en í áætluninni á bls. 226 er ófyrirséð 137 millj. kr. Þá eru enn eftir 50 millj. kr. til þess að mæta öðrum ófyrirséðum kostnaði. Það eru þess vegna sáralitlar, ef það eru nokkrar, líkur til þess, að þessi virkjun fari fram úr því, sem þarna er gert ráð fyrir og reiknað með. Nú er þessi fyrri partur virkjunarinnar, vegna þess að flutt hefur verið til frá síðara stigi á fyrra, langstærsti hlutinn af framkvæmdunum, en það er á bls. 227 gert ráð fyrir 210 mw. virkjun án vaxta á byggingartímanum á 1660 millj., en þetta var fyrri parturinn eins og hann er nú áætlaður á 1354 millj. Það er þess vegna þarna aðeins um 300 millj. kr. aukning frá fyrra stiginu og yfir á síðara stigið, og það mun vera um helmingur af þessum 300 millj., sem eru vélar, og fyrir þeim liggja föst tilboð í dag, sem standa, og Landsvirkjun á kost á samkv. föstu tilboði. Sem sagt, helmingurinn af þessum kostnaði á seinna stigi virkjunarinnar er þegar fastur, og þá eru að vísu eftir 150 millj. af seinna stigi virkjunarinnar, sem kynni að taka einhverjum breytingum.

Þetta er um grundvallarverðið og áhrif þess á hagkvæmni þessara samninga, en svo segja menn, að það séu allt önnur ákvæði hér um endurskoðun á samningunum, rafmagnsverðinu, heldur en t.d. í Noregi og vitna til þess, að það eigi að endurskoða rafmagnsverðið þar eftir samningum við dótturfyrirtæki Alusuisse á fimm ára fresti, en hér sé bara endurskoðaður reksturskostnaðar eftir 10–15 ár og síðan fari fram endurskoðun á verðinu eftir tilteknum reglum eftir 25 ár. En það verða menn að hafa í huga, að hér er alveg ólíku saman að jafna. Í Noregi er rafmagnið greitt með norskum krónum. Hér er rafmagnið greitt í dollurum, og þessar norsku krónur eftir norsku samningunum eiga að endurskoðast miðað við heildsöluvísitölu sem þeir hafa í Noregi. það er á ýmsum helztu hráefnum eins og járni og timbri og öðru slíku, sem þeir finna þessa heildsöluvísitölu út, og þá á það að færast eftir þessari vísitölu, en þó ekki nema 60% af heildsöluvísitölunni, sem hefur áhrif á rafmagnsverðið, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, held ég, að þessi vísitala, sem rafmagnsverðið á að fara eftir, hafi ekki breytzt neitt eða alveg sáralítið á síðustu 10–15 árum í Noregi. En ef við hugsum okkur hins vegar, að við hefðum gert þennan samning fyrir tuttugu árum, þá var dollarinn kr. 6.50, en er núna 43 krónur, — þá væri rafmagnsverðið komið upp í um 70 aura, 61/2 sinnum hækkun á rafmagnsverðinu. Nú er ég ekki að óska eftir því, að slíkar gengisbreytingar eigi sér stað, sem átt hafa sér stað hjá okkur á liðnum tíma, en ég bendi á þetta atriði til þess að sýna, hversu gífurlega mikils virði það er fyrir okkur, að greiðsla fyrir rafmagníð sé í dollurum, í þeirri mynt, sem við eigum að borga erlendu lánin í, og verði einhverjar breytingar á gengi íslenzku krónunnar, þá hefur það út af fyrir sig ekki áhrif á rafmagnsverðið, að svo miklu leyti, sem erlend lán eru og greiðsla í erlendri mynt fyrir rafmagnið.

Við sjáum, hvað þetta hefur mikla þýðingu, ef við setjum upp dæmi í þessu sambandi. Ef reiknað væri nú með 7.8% fjármagnskostnaði, eins og yfirleitt hefur verið reiknað með hér í grg., fyrir vatnsaflsstöðvum og 10% fyrir gastúrbínustöðvum, þá hækka erlendar lánagreiðslur að frádregnum erlendum tekjum þannig, — ef dollarinn hækkaði við skulum segja um 50% eða upp í 64.50 kr., og við hefðum álbræðsluna allt tímabilið, — um 81 milljón króna. En erlendu lánin án álbræðslu mundu á sama tíma hækka um 615 millj. kr. Þetta er auðvitað gífurleg trygging fyrir rafmagnsnotendurna, sem menn hafa alveg gengið fram hjá og ekki rætt um einu sinni og eins, þegar þeir hafa verið að tala um hagkvæmni samninganna og rafmagnsverðsins. En ef það ætti sér nú stað, að dollarinn hækkaði um 50%, þá mundi viðbótarorkan á árunum 1969–1975 kosta 95% meira, nærri tvöfaldast, ef álbræðsla væri ekki byggð með virkjuninni á árunum 1969–1975, og 58% meira á árunum 1976–1980 og 30%, ef reiknað er fram til ársins 1985 skv. þeim áætlunum, sem hér hafa verið gerðar, eða yfir allt þetta tímabil um 56%, ef álbræðslan væri ekki með, en að öðru leyti þyrfti rafmagnsverðið af þessum sökum ekkert að hreyfast. Og segjum, að dollarinn hækki um 100%, sem mönnum finnst nú kannske glannalegt, en ég minnti á, að það er ekki langt síðan hann var kr. 6.50, þá mundu erlendar greiðslur á tímabilinu hækka með álbræðslu um 162 millj. kr., en án álbræðslu um 1231 millj. kr. Þá þyrfti rafmagnsverðið að hækka um 124%, ef við hefðum byggt 70 megawatta Búrfellsvirkjun án álbræðslu og slíkt kæmi fyrir, 124% á árunum 1969–1975, 1976–1980 um 95% og 1981–1985 um 46% eða að meðaltali yfir þetta árabil um 82%. Ég vil vekja athygli á þessu. Á þessu byggi ég mína niðurstöðu, að þessir samningar séu mjög hagkvæmir með þessu rafmagnsverði fyrir okkur Íslendinga. Og þó að mismunurinn á áætluðu kostnaðarverði og söluverðinu til Alusuisse sé ekki mikill á hverja kílówattstund, þá munar þetta miklu, vegna þess að kwst. eru anzi margar, sem á að selja. Við getum reiknað með yfir þúsund gwst., og ein gwst. er ein milljón kwst., og það mundi vera um 41/2 millj. mismunurinn á 10.75 og 10.30, sem reiknað er með að kostnaðarverðið sé.

Þm. hafa stundum talað um 10.4 aura. Ég veit ekki í hverju sá misskilningur liggur, en í grg. er gert ráð fyrir, að kostnaðarverðið sé 10.3 aurar, og það er mismunur um 45 aura, sem mundu vera 41/2 millj. kr., og það mundi með 7% vöxtum nægja til þess að kapítalisera 65 millj. kr., og ef svo þetta er miðað við afskriftir á 25 árum, og ef við reiknuðum með afskriftum af lánum til virkjunarinnar á 40 árum, sem er nú alveg sanngjarnt, eða samningstímann allan, og það er nú það algenga um afskriftir af slíkum vélum, sem geta alveg eins vel enzt 100 ár eins og 40 ár, eins og ég hef áður tekið fram, þá er kostnaðarverðið 9.9 aurar, eins og gert er ráð fyrir í grg., og mismunurinn væri þá 8.5 millj. kr., og það nægði til að kapítalísera með 7% 120 millj. kr. Þegar á allt er litið og miðað er við hina miklu sölu á rafmagni, sem við höfum strax, og fyrir þetta verð, þá verður þetta okkur í alla staði mjög öruggur samningur og mjög hagkvæmur.

Ég er auðvitað ekki með þessu móti að segja það, að það hefði ekki verið mjög æskilegt að fá hærra raforkuverð, og það liggur í hlutarins eðli, en mér finnst ekki, að menn þurfi að fordæma þann árangur sem hefur náðst.

Menn hafa borið þennan samning saman við norsku samningana án þess að gera sér grein fyrir því, hvaða skuldbindingar dótturfyrirtækið í Noregi tekur á sig um kaup á raforkunni. Það skuldbindur sig ekki nema til tlu ára. Þá getur það sagt upp raforkusamningnum. Hér er fyrirtækið skuldbundið í 45 ár að greiða hina svokölluðu lágmarksorku, þó að fyrirtækið noti hana ekki, þó að álbræðslan verði lögð niður og raforkan yrði ekki notuð. Svo að hér er afskaplega ólíku saman að jafna.

Til viðbótar því, sem ég áðan vék að um gerðardómsákvæðin, þá vildi ég aðeins árétta það, sem ég reyndar hef nú tekið áður fram, vegna þess að því hefur verið haldið fram, að það sé ekkert sambærilegt dæmi um gerðardóm, sem við, stuðningsmenn þessa máls, höfum getað nefnt, jafnvel eftir að maður hefur bent á margar hliðstæður. Að ýmsu leyti er það, sem ég nú skal nefna, mjög hlíðstætt því, sem hér er um að ræða, og er í eðli sínu svipað.

1. Á vorinu 1962 var gerð ítarleg endurskoðun á gerðardómsreglum fasta gerðardómstólsins í Haag, The Permanent Court of Arbitration, og þeim var m.a. breytt í það horf, að dómurinn gæti úrskurðað um deilur milli ríkja og einkaaðila, en áður hafði honum einungis verið ætlað að leysa úr milliríkjadeilum.

2. Gerðardómum á vegum verzlunarstofnunarinnar eða alþjóðlegu verzlunarstofnunarinnar í París, The International Chamber of Commerce, sem lengi hefur starfað, var aðallega ætlað það hlutverk að leysa úr viðskiptadeilum milli einkaaðila í mismunandi löndum. Þessi stofnun og gerðardómur hans hefur hins vegar í seinni tíð leyst úr fjölmörgum deiluatriðum milli ríkja og einkaaðila. Ég nefndi dæmið, er þessum gerðardómi var falið að leysa úr deilum út af samningnum, sem Ghana hafði gert við bandarískt álfélag um byggingu álbræðslu í Ghana á árinu 1961.

3. Ameríska gerðardómssambandið, The American Arbitration Association, hefur í vaxandi mæli leyst úr deilumálum milli ríkja og einstaklinga. Nefndi ég það

sem dæmi, að Frakkland, Holland og Indland hefðu öll skotið málum sínum við einkaaðila til úrskurðar þessa gerðardóms.

Um atriðin undir 2 og 3 vil ég vitna til eftirfarandi, sem segir um slíka tegund gerðardóma í nýjustu útgáfu af Encyclopedia Britannica, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Gerðardómar í deilum milli ríkja og þegna annarra ríkja eða einkaaðila og ríkis á sviði erlendra fjárfestingarmála eða milliríkjaviðskipta eða alþjóðlegra viðskipta hafa einnig verið kallaðir alþjóðlegir gerðardómar, þótt venjulegra sé að nota um það hugtakið alþjóðlegir viðskiptalegir gerðardómar. Slík gerðardómsmeðferð hefur oft átt sér stað á vegum International Chamber of Commerce eða The American Arbitration Association, og það felur í sér aðferð skjótrar og hagkvæmrar úrlausnar á sviði viðskipta milli erlendra aðila — in the field of international business — eins og þar stendur.“

Þarna er beinlínis verið að segja frá því, að þetta ryðji sér mjög til rúms, gerðardómsmeðferð, einmitt á milli ríkja og einkaaðila, en það hefur verið gert að deiluefni hér og talið óeðlilegt, og því var beinlínis haldið fram strax hér í vantraustsumr. á dögunum af prófessor Ólafi Jóhannessyni, að ef þetta hefði verið milli tveggja ríkja, þá væri í sjálfu sér ekkert við þetta að athuga, en það sem væri við að athuga væri það, að þetta væri milli ríkis og einkaaðila, og fyrir því væru engin fordæmi. Þetta benti ég síðar á, að væri alveg á misskilningi byggt.

4. Ég hafði bent á gerðardómsákvæði, sem íslenzka ríkisstj. hafði fallizt á í samningum við sovézkt verzlunarfyrirtæki í sambandi við olíusamningana. Það er ekki við ríkisstj. Sovét-Rússlands. Það fyrirtæki er að vísu ríkisfyrirtæki, en ekki sovétríki, heldur sjálfstæður aðili. Gerðardómsákvæði þessara samninga hljóða svo:

„Sérhver deila eða misklíð, sem upp kann að koma við framkvæmd þessa samnings eða í sambandi við hann, skal útkljáð af gerðardómi um utanríkisvíðskipti í verzlunarráði Sovétríkjanna í Moskvu samkvæmt reglum þessa gerðardóms.“

Ég tel í sjálfu sér miklu hæpnara ákvæði að vísa deilu, sem kann að koma upp, til gerðardóms, sem er í landi annars aðilans, og rússneskur gerðardómur fjallar um utanríkisviðskipti. Það er miklu hæpnara. Þetta hefur nú hins vegar ekki komið að neinni sök

5. Ég nefndi dæmi þess, að bandarísk og evrópsk einkafyrirtæki hefðu oft samið við sovézka aðila um, að deilumál þeirra út af viðskiptasamningum skyldu fara fyrir gerðardóm í heimalandi fyrirtækisins eða í óháðu ríki, t.d. í Svíþjóð.

6. Ég nefndi dæmi þess, að Sovétstjórnin sjálf hefði á sínum tíma verið aðili að einu þekktasta gerðardómsmáli, sem upp hefur komið í skiptum ríkja og erlendra einkaaðíla á síðari árum, hinu svokallaða Lena Goldfields-máli 1930, en þar var um að ræða deilu út af samningi, sem enskt fyrirtæki hafði gert við Sovétstjórnina um gullgröft þar í landi, og hún var úrskurðuð af gerðardómi, sem sat í London. Þetta gerðardómsmál og úrskurður gerðardómsins er af fræðimönnum talinn hafa verulega þýðingu sem lögskýringaratriði á sviði alþjóðaréttar.

7. Ég nefndi dæmi þess, að franska stjórnin hefði ekki alls fyrir löngu orðið að hlíta úrskurði ensks gerðardóms um skipti sín við grískt skipafélag gegn vilja sínum og að boði eigin dómstóls 1957.

8. Ég nefndi dæmi þess, að í Grikklandi væru yfirleitt gerðir yfirgripsmiklir samningar í sambandi við erlenda fjárfestingu við hvern einstakan aðila á grundvelli fjárfestingarlaga landsins og þá allajafna með gerðardómsákvæðum.

9. Ég nefndi dæmi þess, að ýmis ríki Vestur-Evrópu hefðu gert gagnkvæma vináttu- og viðskiptasamninga við Bandaríkin, þar sem fjárfestingu bandariskra aðila er heitið fyrirgreiðslu og vernd gegn eignarnámi og öðrum harðræðum og það lagt á vald alþjóðadómstólsins í Haag að meta, hvort út af því hafi verið brugðið. Nefndi ég, að á Norðurlöndum hefðu Danir gert slíkan samning.

10. Ég skal svo nefna það dæmi, sem ég hef ekki fyrr vitnað til en vitnar um það sama, sem við erum hér að ræða, að á vegum Sameinuðu þjóðanna var haldin ráðstefna um gerðardóma í viðskiptum milli ríkja og erlendra einkaaðila árið 1958, sem átti að hafa þann tilgang að finna úrræði til þess að efla áhrif slíks gerðardómsfyrirkomulags, þar sem deilan stendur milli ríkis annars vegar og þegna annars ríkis hins vegar. Þessi conference er að vissu leyti svipaðs eðlis og þær ráðstefnur, sem haldnar hafa verið á vegum Alþjóðabankans, og með þeirri niðurstöðu, sem fengizt hefur í samþykktinni um úrlausn deiluaðila ríkis og einstaklinga, sem ríkisstj. hefur nú lagt fyrir þingið.

Það er að vísu sagt svo, að ISAL sé íslenzkt fyrirtæki og það sé það óeðlilega við þetta, að deila milli ISALs, þessa íslenzka fyrirtækis, og t.d. Landsvirkjunar fari fyrir erlendan gerðardóm. Það er nú að vísu í hinu orðinu talað um ISAL sem erlent fyrirtæki, og að efni til er það alveg rétt. Það, sem í raun og veru er um að ræða, er það, að Alusuisse er leyft að byggja og reka álbræðslu í Straumsvik, og það kom mikið til álita, að það yrði engin hlutafélagssamþykkt um þetta fyrirtæki, heldur væri félaginu bara veitt leyfi til þess að reka verksmiðjuna. En þeir óskuðu fyrst og fremst eftir því að hafa þetta í því hlutafélagsformi, sem samningsákvæðin þar um segja til um, vegna þess að það gæti komið til þess, að þeir þyrftu á því að halda að selja einhverja hluti og fá meðeigendur í þetta fyrirtæki hjá sér. En það er hins vegar gert ráð fyrir því, a.m.k. í upphafi, að það sé alveg þeirra einkaeign, og það er vegna þess, að þeir bera ábyrgð á öllum skuldbindingum þessa fyrirtækis gagnvart Landsvirkjun, ríkisstj. og Hafnarfjarðarkaupstað, og ríkisstj. og Alusuisse verða málsaðilar fyrir þeim gerðardómi, sem um er að ræða, þegar málið fer fyrir þennan alþjóðlega gerðardóm, sem ákvæði eru um í samningnum.

Í áliti minni hl. álbræðslunefndar er í raun og veru eðli málsins alveg réttilega skýrt. Þar segir um þetta atriði: „Það er alkunna, að gerðardómsákvæði hafa í mörg ár verið í ýmsum samningum Íslendinga við önnur ríki og varðandi erlend verzlunarviðskipti.“

Lúðvík Jósefsson segir þetta í sínu nál.: „Slík ákvæði hafa af öllum verið talin eðlileg, því að þar hefur verið um að ræða hérlenda og erlenda aðila.“

Það er það, sem hér er um að ræða. Ábyrgðaraðilinn er erlendur og ríkisstj. er hérlend. Ég held, að Lúðvík Jósefsson hafi ekki getað betur skýrt þetta. „Annar hefur átt eðlilega lögvernd á Íslandi,“ segir hann, „hinn erlendis. Þessir aðilar hafa skiljanlega komið sér saman um gerðardóm til þess að úrskurða deilumálin.“ Ég veit ekki, hvað menn vilja hafa þetta skýrar.

Það eru svo nokkur smáatriði, sem ég aðeins vildi að lokum víkja að. Ég man eftir því í umr., að hv. 5. þm. Austf. talaði um, að tollaeftirgjöfin væri um 500 millj. kr. Það mun vera í einhverjum gömlum skýrslum stóriðjunefndar, þegar reiknað var með 35% tolli af öllu aðfluttu efni og vélum til álbræðslunnar. Síðan hafa tollar hjá okkur lækkað á vélum til iðnaðar í 25% og sérstaklega niður í 10%, þegar vélarnar eru til útflutnings. Það væri miklu nær að miða þarna við 10% á vélum, en auk þess er útflutningsatvinnuvegur okkar að verulegu leyti tollfrjáls. Það er enginn tollur á bátum eða skipum, sem keypt eru til landsins, og það er enginn tollur á vöruflutningaskipum og enginn tollur á flugvélum. Á veiðarfærum er, held ég, 2 eða 4% tollur, svo að það væri miklu nær að miða hér við sennilegan meðaltoll útflutningsatvinnuvega okkar, sem er sennilega eitthvað um 5% eða kannske innan við það, og þá er þetta ekki nema nokkrir tugir milljóna króna í þessu dæmi, þegar talað var um 500 millj. kr. eftirgjöf. Svo er stefnt að því að öðru leyti, eins og ríkisstj. hefur lýst yfir, að lækka tolla, halda áfram að lækka tolla á vélum og öðrum varningi, sem fluttur er til landsins.

Menn hafa eðlilega haft mismunandi skoðanir á staðsetningu verksmiðjunnar og tala mikið um, að það sé glæfralegt að staðsetja hana hér í mesta fjölbýlinu, og það hefði átt að staðsetja hana í strjálbýlinu. Ég hef lýst því yfir, að ég hefði verið því hlynntur og var því hlynntur og lét sérstaklega kanna, eins og kunnugt er, eða ríkisstj., — möguleikana á að staðsetja verksmiðjuna í strjálbýli, en á það er hins vegar að líta, að e.t.v. er mesta fjölbýlið hagkvæmasti staðurinn fyrir svona verksmiðju, einmitt frá því sjónarmiði, að hún verði minni sogkraftur á mannafla heldur en annars staðar. Mér er sem ég sjái þessa verksmiðju staðsetta við Eyjafjörð. Hún mundi sennilega hafa dregið að sér afskaplega mikið af fólki einmitt úr sjávarþorpunum og minni stöðunum í kringum Eyjafjörð, bæði austan og vestan. Það hefði svo sem ekki verið vandalaust. Og mannaflaþörfin er miklu minni við þessar byggingar og framkvæmdir en menn vilja vera láta.

Ég vil benda hv. þm. á að veita því sérstaka athygli, að í áætlun Efnahagsstofnunarinnar á bls. 214 er gerð grein fyrir, hvað álbræðslan þurfi mikið við bygginguna af mönnum eftir þeirra eigin áætlunum. Og það eru 110 menn 1967 og 285 menn 1968. Þá er á sama tíma gert ráð fyrir 75 mönnum við höfnina 1967 og 75 manns við höfnina 1968, og árið 1969 er þetta 215 manns við álbræðsluna og 75 manns áfram við höfnina, og mesti mannaflinn er þarna yfir sumartímann. En á öðrum stað í grg. Efnahagsstofnunarinnar er vikið að því, hver fjölgun sé á vorin á vinnumarkaðinum og mest í júlí. Svo minnkar hann, þegar kemur fram á haust, og yfir vetrarmánuðina er gert ráð fyrir, að á þessum árum verði fjölgunin á vorin eða um sumartímann um 8400–8800 manns. Ég held þess vegna, að menn mikli fyrir sér erfiðleikana á vinnumarkaðinum, sem af þessari framkvæmd, álbræðslunni, stafar. Það þarf öll þessi ár miklu meiri mannafla til Búrfellsvirkjunar, og ég held, að hann sé nokkurn veginn sá sami, þótt Búrfellsvirkjun hefði verið eitthvað minni, hún hefði verið virkjuð án álbræðslu eða orðið 70 mw. í staðinn fyrir 105 mw.

Í áætlunum Efnahagsstofnunar er einnig gert ráð fyrir 350 manna aukningu á hverju ári í byggingariðnaðinum. En ég vil vekja athygli á því, að þar liggur hundurinn grafinn í þessu sambandi, að milli áranna 1963 og 1965 er áætlað, að fjölgað hafi um 1470 manns í byggingarstarfseminni, þ.e.a.s. um 735 manns að meðaltall hvort árið. Þetta er auðvitað óeðlilega mikill mannafli, og það mundi ekki skaða, þótt eitthvað minnkaði þessi mannafli þau 2–3 ár, sem verið er að vinna að þessum framkvæmdum við álbræðsluna og virkjunina, Búrfellsvirkjunina. Og það gæti vel verið, að þetta minnkaði líka verulega, ef heppileg framkvæmd verður á því að flytja inn tilbúin hús, eins og mönnum er kunnugt um, að unnið er nú að á vegum ríkisstj. af n., sem þar til hefur verið kosin og var efnt til í samráði við samninga við verkalýðsfélögin, þannig að þessi mikli mannafli gæti af þeim sökum stórkostlega minnkað einmitt á þessum árum, 1967, 1968 og 1969, ef vel tækist til með slíka framkvæmd. En það er alveg óeðlilegt, að mannaflaaukningin í byggingariðnaði haldi áfram að vera 10%, eins og hún er á þessum árum.

Það er misskilningur, að fyrirtækið hér, álbræðslan, sé undanþegin ákvæðum gjaldeyrislaga. Hún situr að því leyti við sama borð og aðrir aðilar, sem hafa erlendan gjaldeyri, bæði flugfélög og skipafélög, að hún hefur heimild til þess að ráðstafa sínum gjaldeyri. Er ekkert óeðlilegt við það og ekki um að ræða nein forréttindi fram yfir íslenzk fyrirtæki í því sambandi.

Um hreinsunartæki hélt hv. 5. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, því fram, — það kemur víst fram í nál. 2. minni hl., — að það væri sýnilegt, að ríkisstj. hefði samið af sér, með því að það væri ekki skylt að setja upp hreinsunartæki. Þessu mótmæli ég alveg. Þetta er ekki réttur skilningur á ákvæðum 12. gr., sem fjalla um þessi mál. Þar segir í 12.02: „ISAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til þess að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.“

Ef það kemur í ljós, að hér sé einhver hætta á ferðinni, verða þeir að setja upp hreinsunartæki í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum, og hv. þm. hafa vitnað til þess, að annars staðar hefðu þeir hreinsunartæki í öllum sínum bræðslum, að ég hygg. Að það skuli vera talið fært að hefja þessa framkvæmd án þess að hafa hreinsunartæki, — sem, eins og réttilega hefur verið tekið fram, eru dýr, — er vegna þess, að það er lítill gróður þarna, og þetta er á opnu svæði, en hættan er langmest, þar sem slíkar verksmiðjur eru reknar í námunda við landbúnaðarhéruð og einkum og sér í lagi í dölum og dalverpum, þar sem loftið sezt að og úrfallið liggur yfir að staðaldri, eins og við sáum t.d. í Suður-Sviss, þar sem Swiss Aluminium á álbræðslu, sem þmn. skoðaði í sumar.

Ég skal nú ekki þreyta þm. meira að þessu sinni, en ég taldi ástæðu til þess að koma þessum aths., sem ég nú hef gert að umtalsefni, á framfæri. Það er sagt, að við eigum ekki að ráðast í þessa framkvæmd, eins og hv. minni hl. álbræðslunefndar, Lúðvík Jósefsson, segir í þskj. 499, vegna þess að aldrei áður hafi þjóðin haft jafngóða og mikla möguleika til mikilla framkvæmda og framfara hér á landi. Þetta er út af fyrir sig mjög ánægjulegur vitnisburður, við skulum segja um viðreisnina, þó að hv. þm. vilji nú kannske segja, að þetta sé þrátt fyrir viðreisn. En við munum, að þegar ríkisstj. tók við á sínum tíma, voru allt aðrir spádómar um atvinnuástandið og möguleikana til lands og sjávar. En þó að okkar möguleikar séu miklir, held ég, að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að það dettur engum í hug að draga úr, heldur þvert á móti að efla hina gömlu atvinnuvegi. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að það er eðlilegt og skynsamlegt að gera sérhverjar ráðstafanir á hverjum tíma til þess að auka og efla atvinnulífið, til þess fremur á þann hátt að geta varizt áföllum í okkar stopulu atvinnuvegum til lands og sjávar, þar sem eins og kunnugt er bæði veðrátta og veiði geta brugðizt.

Það hefur líka verið bent á það, að Íslendingar verði, þegar þessi samningur rennur út, um 400 þús. manns, rúmlega tvöföld tala á við það, sem er nú, og í sambandi við rafvirkjanirnar hefur verið talað um það, að þá mundi senn líða að því, að það væri fullvirkjað hér á Íslandi. Ég skal ekki leggja dóm á það. Fáum áratugum síðar væri búið að nota allar okkar vatnsaflsvirkjanir, en á þessum tíma, eða árið 2014, fáum við þó 120 mw. virkjun til okkar nota, virkjun, sem álbræðslan hefur notað fram að þeim tíma, ef við óskum þess sjálfir, því að lengur erum við ekki bundnir til þess að láta þá fá þessa raforku. Og það gæti einmitt komið mjög í góðar þarfir þá að fá þessa virkjun til okkar þarfa, á þeim tímum, er við eigum orðið lítið virkjanlegt afl, ef það er rétt, að svo sé. Og árið 2057, held ég, að það hafi verið, er gert ráð fyrir, að Íslendingar séu orðin þjóð upp á í millj. íbúa, og 2118 minnir mig, að áætlanir segi, að Íslendingar verði orðnir 3 millj.

Allt eru þetta atriði, sem eru þess eðlis, að við höfum fulla þörf á því að líta til framtíðarinnar og hagnýta á hverjum tíma alla þá möguleika, sem við höfum, til þess að gera efnahagsstarfsemina í þjóðfélaginu fjölþættari, og eigum við ekki að staldra við á þessu sviði, heldur reyna að nota aðrar auðlindir okkar, sem ýmsar rannsóknir liggja nú fyrir um, þó að þær séu ófullkomnar.

Ég er ekki að segja, að það eigi endilega að vera útlendingar, sem þarna leggi hönd að, það segi ég alls ekki og vil ekki, að það sé sagt, að með þessu hafi ég sagt, að þetta væri bara byrjunin á erlendum atvinnurekstri. Það hef ég ekkert sagt um. Það verður að metast á hverjum tíma. En ég legg áherzlu á það, að við verðum virkilega að huga að okkur og nota okkur sérhverja möguleika umfram þá ágætu og gömlu atvinnuvegi, sem hafa framfleytt þjóðinni fram til þessa, og eins og réttilega hefur verið tekið fram, oft verið gjöfulir og skilað Íslendingum úr sárri fátækt í góð efni.