22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þessar umr. um álbræðslusamninginn eru orðnar alllangar, og hef ég fram til þessa reynt að hlýða á mál manna, eins og ég hef átt kost á, og finna út úr þeim umr. það, sem fram hefur komið í þeim.

Af því, sem fram hefur komið í þessum umr., er það ljóst, að þessi samningur, sem hér er til umr., er ekki eins hagkvæmur og þeir, sem fyrir honum hafa talað, vilja vera láta. Það er greinilegt, að verð það, sem selja á raforkuna fyrir, er það lágt, að lítið má út af bera til þess að það nái því að vera framleiðsluverð. Það hefur verið margrakið hér í umr. og ekki hrakið, að þetta verð á raforkunni er lítið eitt hærra en gert er ráð fyrir, að framleiðsluverðið verði, miðað við þær áætlanir, sem fyrir liggja. Nú höfum við þá reynslu af þeim áætlunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið okkur í té á hv. Alþ. um ýmsar framkvæmdir, að þær áætlanir hafa ekki staðizt, og í landi, þar sem verð hækkar jafnört og dýrtíð vex jafnmikið, eins og í okkar landi, reynast allar slíkar áætlanir erfiðar og hefur sýnt sig, að þær hafa ekki staðizt í framkvæmd. Þessu til viðbótar kemur það, að vegna samningsins um álbræðsluna verða framkvæmdir við virkjunina við Búrfell að vera hraðari en ella og stærri í sníðum, og enn fremur skapar þessi samningur verulega áhættu í sambandi við sölu á raforkunni til álbræðslunnar. Það gerir það að verkum, að byggja verður fleiri varastöðvar en ella hefði verið, og eins er með annan kostnað við framkvæmdina, hann verður að tryggja betur vegna samningsins en ella hefði verið gert á þessu stigi málsins. Enn fremur eru allir útreikningar hv. stjórnarsinna við það miðaðir, að raforka sú, sem er umfram þarfir Íslendinga í dag, væri óseljanleg á nokkru verði, og þess vegna fá þeir út þær tekjur, sem þeir reikna með.

Í öðru lagi er svo það, að vegna þessa sölusamnings verða Íslendingar sjálfir að fara að virkja fyrr en ella þær virkjanir, sem dýrari og óhagkvæmari eru taldar. Það gerir það að verkum, að tillit þarf að taka til þess, þegar meta á þann ágóða eða á hvaða grundvelli þessi viðskipti fara fram. Þá kemur það einnig í ljós í sambandi við þennan samning, að þessu erlenda fyrirtæki eru ætluð ýmis forréttindi, sem við höfum ekki til þessa veitt íslenzkum fyrirtækjum. Það á að fella niður tolla af öllu því, sem til álbræðslunnar og uppbyggingar álbræðslunnar á að ganga, og nýtur þetta fyrirtæki þess vegna sérréttinda, sem munu valda okkur erfiðleikum í sambandi við atvinnurekstur Íslendinga. Það hlýtur að leiða til þess, þegar erlent fyrirtæki, sem nýtur þessara sérréttinda, er komið hér í landið, að íslenzk fyrirtæki krefjist hins sama, og það verður með öllu óeðlilegt að veita erlendu fyrirtæki sérstaka ívilnun í sambandi við tolla og einnig skattgreiðslu, því að það er ekki gert ráð fyrir því, að þetta fyrirtæki fari að íslenzkum reglum um skattgreiðslu. Þessi tvöfaldi réttur í landinu hlýtur að valda erfiðleikum í framtíðinni, sem stjórnvöld þessa lands eiga eftir að finna fyrir síðar.

í þriðja lagi hefur svo verið á það bent í þessum umr., að þetta fyrirtæki, þó að talið sé íslenzkt framleiðslufyrirtæki, á ekki að hlíta íslenzkum dómstólum, heldur sérstökum gerðardómi, og það er ljóst af því, sem fram kom í ræðu hæstv. dómsmrh. hér áðan, að það geta orðið æðimörg málin, sem verða matsatriði og gætu þess vegna gengið til gerðardóms, þegar til framkvæmdanna kemur í þessu máli.

Þessi þrjú atriði skilst mér, að séu meginatriði þessa máls, og þetta eru þau þrjú atriði, sem mest hafa verið rædd í þeim umr., sem hér hafa farið fram.

En hver er þá ástæðan til þess, að ekki hefur tekizt betur með samningagerðina heldur en raun ber vitni um? Til þess geta að sjálfsögðu verið margar ástæður. Ég vil samt ekki halda því fram, að þeir aðilar, sem að samningsgerðinni hafa komið, geti ekki staðið sig í samningum eins og aðrir, ef sá samningsgrundvöllur, sem þeir hafa, er sambærilegur. En ástæðan til þess, að samningurinn er ekki hagkvæmarí en raun ber vitni Íslendingum, er fyrst og fremst sú auglýsingastarfsemi, sem stjórnarflokkarnir hafa haldið uppi um það, að þeir ætluðu sér að semja.

Það eru nokkur ár síðan það kom fram í umr., bæði á mannfundum og í blöðum, að ljóst var öllum, að ríkisstj. stefndi að því að gera þennan samning. Ég minnist þess, að fyrir einum tveimur árum fóru fram í ríkisútvarpinu undir þættinum „Spurt og spjallað“ umr. um þetta mál, en meðal þeirra, sem þátt tóku í þeim umr., var einn af ritstjórum Morgunblaðsins, aðalmálgagns stjórnarinnar, og varaþm. Alþfl., Pétur Pétursson, en ritstjórinn var Eyjólfur Konráð. Það var öllum ljóst, sem hlustuðu á þær umr., hver þeirra vilji var, og það var líka þeim ljóst, sem hlustuðu, að þetta mundi verða grunntónninn í herbúðum stjórnarsinna.

Það leiðir af sjálfu sér, að þeir erlendu aðilar, sem við Íslendinga ætluðu að semja um þetta mál, hafa fylgzt með öllum hreyfingum hér á landi í sambandi við málið og einnig það, hvað hæstv. ríkisstj. og hennar lið var sólgið í að gera þessa samninga. Mér sýnist, að hæstv. ríkisstj. hafi haft uppi það mikinn áróður hér á landi, að hún hafi alveg gleymt því, að einmitt þessi áróður mundi valda henni erfiðleikum í sambandi við samningana, eins og raun ber vitni um. Árangurinn af samningunum er vegna þessa áróðurs ríkisstj. ekki betri en raun ber vitni um, og ljóst er það, að betur þarf að halda á þessu máli framvegis en hingað til hefur verið gert, ef vel á að fara.

Í sambandi við þetta mál vil ég rifja það upp, að sú stefna, sem íslenzka þjóðin hefur fylgt til þessa í sambandi við notkun erlends fjármagns, hefur verið lántaka erlendis, þar sem Íslendingar sjálfir hafa haft ágóðann af rekstri fyrirtækjanna og jafnframt áhættuna. Reynslan hefur sannað það, að þessi leið til fjáröflunar hefur reynzt vel hér á landi. Á þennan hátt hefur okkur tekizt að byggja upp okkar atvinnuvegi og byggja upp okkar þjóðfélag frá því að við fórum sjálfir að fara með mál okkar. Áður fyrr höfðum við haft bitra reynslu af því, hvernig erlent fjármagn var notað og erlend fyrirtæki voru rekin hér á landi, og sú reynsla sýnir okkur það, að við þurfum að fara með mikilli varfærni. Hins vegar hefur reynslan af viðskiptunum um lánsféð sannað okkur sitt ágæti og hjálpað okkur til þess að koma málum okkar áleiðis.

Nú vil ég ekki í þessu máli frekar en öðru fordæma það, sem mistekizt hefur, og telja, að það geti ekki komið til athugunar síðar meir, þó að mistök hafi einhvern tíma átt sér stað, og þess vegna geti það ekki skeð, að Íslendingar geti hugsað sér, að erlendir menn eigi hér atvinnufyrirtæki, vegna þess að þeir hafi af því slæma reynslu. En ég vil jafnframt undirstrika það, að lítil þjóð verður að gæta sín í skiptum við erlent fjármagn og erlendar þjóðir, ef hún vill halda sjálfstæði sínu. Og það er engin minnimáttarkennd fólgin í því, þó að við viðurkennum það, að þjóð, sem er ekki fjölmennari en íbúar við eina götu í stórborg, getur ekki gert ráð fyrir því, að hún geti verið jafnóhikandi í viðskiptum við aðrar þjóðir eins og stærri þjóðir og auðugri. Eins og minnimáttarkenndin getur verið skaðleg, eins getur of mikið sjálfstraust verið það, því að það er þó um þetta að segja, eins og Einar Benediktsson sagði, að „öfund og bróðerni eru skyld,“ og það er stutt á milli minnimáttarkenndar og of mikils sjálfstrausts. Íslenzka þjóðin verður að muna það, að hún er lítil þjóð, og hún verður að gæta þess, að erlent fjármagn fái ekki of mikil tök í þjóðlífinu, því að henni er það miklu hættulegra en stærri þjóð. En hins vegar, ef á að fara inn á þessa braut og taka upp nýja stefnu í þessum málum, því að hin stefnan hefur verið alls ráðandi, verðum við í fyrsta lagi að fara þar með fyllstu varúð, og svo verðum við að gera okkur grein fyrir því, að þessi stefnubreyting verði okkur hagkvæm, þ.e. í fyrsta lagi, að viðskipti, sem við ætlum að gera, séu augljóslega hagkvæm eða í öðru lagi, að þessi stefnubreyting verði til þess að draga úr eða leysa þau vandamál, sem við er að glíma hverju sinni. Þá vaknar spurningin: Gerir þessi samningur, sem við erum að fjalla um nú, gerir hann það?

Það hefur verið sýnt fram á það í þessum umr., eins og ég drap á áðan, að samningurinn er okkur ekki hagkvæmur. Það, sem við fyrst og fremst ætlum að selja með þessum samningi, er vinnuafl. Það er það, sem við ætlum að selja hinum útlenda aðila, sem hér á að fá að reisa atvinnufyrirtækið. Eins og nú standa sakir skortir okkur mikið frekar vinnuafl heldur en hitt, og við getum ekki látið af hendi vinnuafl, til þess að vinna fyrir útlendinga, nema draga úr okkar eigin framkvæmdum. Það kom fram á sl. ári, að farið var verulega að gera í því að draga úr framkvæmdum íslenzka ríkisins, og það er áframhald á því á þessu ári. En þar eru sem annars staðar mörg verkefni, sem ekki þola mikla bið. Við getum ekki dregið það lengi að halda áfram eðlilegri uppbyggingu í skólum, við getum heldur ekki gert það í samgöngukerfinu, svo að aðeins tvö dæmi séu nefnd. Þetta er heldur ekki eina framkvæmdin, sem á að fara að vinna að hér fyrir erlenda aðila. þegar ég er að fara á milli míns heimilis og Alþ., sé ég stórar framkvæmdir, sem farið er að hefja uppi í Hvalfirði á vegum erlendra aðila. Þar er líka verið að binda íslenzkt vinnuafl til þess að leysa verkefni, sem ekki eru miðuð við þarfir þjóðarinnar. Ef ganga á langt í þessa átt, hlýtur það að verða til þess, að verkefnin, sem við þurfum að leysa sjálfir, verða óleyst, vegna þess að vinnuaflið er hjá hinum erlendu aðilum. Þess vegna mun þessi samningur verða til þess að auka þennan vanda, en ekki að draga úr honum. Þessi samningur verður heldur ekki til þess að leysa þann vanda á öðrum sviðum, sem við er að fást.

Það eru tvö meginvandamál í okkar þjóðlífi núna. Það er efnahagsmálið og það er byggðajafnvægísmálið. Þessi samningur mun verða til þess að auka á þennan vanda, eins og ég mun nú víkja að.

Það er öllum ljóst, að tilflutningur landsmanna í byggð, ef hann er mikill, er mjög erfiður fyrir hverja þjóð, sem fyrir verður. það er mjög dýrt að flytja byggð sína, koma sér upp heimilum og atvinnutækjum á nýjum stöðum og ganga frá verðmætum annars staðar, sem ekki eru nýtt. Þannig hlýtur það að verða, ef fólksflutningar innan lands fara að verða geysilega miklir eins og nú stefnir því miður að. Ef byggðin dregst hér mjög saman í landinu, þá hlýtur það einnig að leiða til þess, að þjóðarframleiðsla minnkar. Á hinum ýmsu stöðum úti um landsbyggðina er framleitt tiltölulega mjög mikið af útflutningsframleiðslu okkar, og framleiðsla á hvern íbúa þar hefur verið geysilega mikil hin síðari ár. Það hlýtur einnig að fara svo, að ef verulegar eyður koma í landsbyggðina, þá hefur það þau áhrif að lama þrek þjóðarinnar til þess að halda hér uppi sjálfstæðu þjóðfélagi. Þess vegna er þetta mál þegar orðið vandamál og kemur þó til með að verða það enn frekar.

Á síðari árum hefur nokkur iðnaður skapazt úti um landsbyggðina, og útlit var fyrir, að hann mundi verða til þess að draga úr þessum fólksflutningum. Iðnaður okkar hefur notið, eins og kunnugt er, nokkurrar tollverndar, en á hinum síðari árum hefur þetta breytzt mjög, svo að iðnaðurinn nýtur nú, a.m.k. margs konar iðnaður, miklu minni tollverndar en áður var, og úti um landsbyggðina er iðnaður af þessum sökum í verulegri hættu. Það er alveg vonlaust og þarf engan að undra, þó að íslenzki iðnaðurinn, svo ungur að árum og fjármagnslítill eins og hann hefur verið, geti ekki keppt við innfluttan iðnað frá háþróuðum iðnaðarlöndum og löndum, sem hafa mikið kapítal í sínum iðnaði. Íslenzki iðnaðurinn þyrfti lengri tíma til þess að búa sig undir þá samkeppnisaðstöðu.

Staðsetning verksmiðjunnar á Norðurlandi hefði orðið annað mál en það er nú, því að þá hefði það lagzt á þá sveif að leysa vandamál, sem erfitt verður við að fást, í staðinn fyrir það, að með þeirri staðsetningu, sem verksmiðjunni er ákveðin, þá verður það til þess, að auka vandann, en ekki að leysa hann. Þess vegna, eins og komið hefur fram í þessum umr. og áður, var um höfuðbreytingu að ræða, er ljóst var, að verksmiðjan yrði staðsett suður í Straumsvík.

En það vandamálið, sem mest er við að fást í okkar þjóðlífi og verður æ alvarlegra með degi hverjum, er verðbólgan og sú dýrtíð, sem er í þessu landi. Það hefur komið fram í umr. hér á hv. Alþ. oft og mörgum sinnum áður, hversu alvarlegt þetta vandamál væri, og ég minnist útvarpsræðu fyrrv. forsrh., Ólafs Thors, þeirrar síðustu, sem hann hélt sem slíkur, þegar hann sagði, að ef ekki tækist að stöðva verðbólguna, þá væri allt annað unnið fyrir gýg. Það er nú öllum ljóst, að það hefur ekki tekizt að stöðva verðbólguna nema síður sé, og við fjárl. afgr. í vetur sýndum við framsóknarmenn fram á það eins ljóslega og hægt var, hvernig verðbólgan er að grafa undan atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar og hvernig fjárhagur ríkisins er leikinn af verðbólgunni m.a. á þann veg, að það fé, sem íslenzka ríkið getur varið til framkvæmda minnkar ár frá ári, en rekstrarkostnaðurinn og útgjöld vegna verðbólgu fara síhækkandi. Síðan fjárlagaafgreiðsla fór fram hér á hv. Alþ. hefur haldið áfram að síga á þessa hlið, þar sem gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að styðja sjávarútveginn með fjárframlögum, sem löggjöf var sett um hér, og nú er farið að sækja fjármagnið til þess ama með því að fella niður niðurgreiðslur á vöruverði, og því er lýst yfir, að þær vöruhækkanir, sem af þessum ráðstöfunum leiði, verði bættar aftur upp með hækkaðri vísitölu og hækkuðu kaupi. Þess vegna er það augljóst, að þessi vandi, verðbólgan, er að verða æ meiri með hverjum deginum, sem liður, og hver ráðstöfun á fætur annarri er gerð, sem leiðir til þess eins að hraða verðbólgunni ennþá meira, en fleyta okkur aðeins fram hjá þeim erfiðleikum, sem við er að fást í það og það skiptið.

Það verkefni, sem lá okkur því næst, Íslendingum, var að fást við verðbólguna og reyna að finna leið út úr þeim vanda, sem efnahagslíf þjóðarinnar er í. Þessi samningur kemur til með að auka á þann vanda, þar sem spennan verður enn þá meiri en verið hefur einmitt á þeim stöðum, þar sem hún er mest. Hann hlýtur því að verða til þess að auka á vandræðin, en ekki að leysa úr þeim, eins og hefði þó mátt gera ráð fyrir, fyrst horfið var að því ráði að semja við útlendinga um staðsetningu á atvinnufyrirtæki hér í landinu.

En hver er þá ástæðan fyrir því, að þessi samningur er gerður? Ástæðan er fyrst og fremst sú, — og það kom fram hjá hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkunum þegar í upphafi valdatíma þeirra, — að þeir treystu ekki á íslenzka atvinnuvegi og trúðu ekki á land og þjóð til þess að sjá sér borgið. Ég er sannfærður um, að það góðæri, sem hefur verið nú síðustu árin, hefur í raun og veru tafið hæstv. ríkisstj. í því að framkvæma þennan vilja sinn. Það kom greinilega fram hér í upphafi valdatímabils núv. stjórnarflokka, að að þessu stefndu þeir, og þá, eins og í umr. núna, gætti oft og mörgum sinnum þess viðhorfs þeirra, að okkar atvinnulíf væri fallvalt, og þó að nú væri góðæri, þá mundi draga úr því. Þetta hefur greinilega komið fram í þessum umr. öllum. Því hefur verið mjög á lofti haldið, að okkar atvinnulíf væri ekki eins traust og það þyrfti að vera, og þetta átti svo að bæta úr því.

Hins vegar kemur það stundum fram í sambandi við þessar umr. og kom m.a. fram í ræðu hæstv. dómsmrh. hér áðan, að hér væri ekki um stórt atriði að ræða í okkar atvinnulífi, og ég mundi vilja segja, að vonandi yrði það ekki, því að því stærra atriði, sem það er fyrir íslenzkt atvinnulíf, að útlendingar séu þar að verkí, því meiri hætta er á ferðum. Það hefur hins vegar sýnt sig, að íslenzkt atvinnulíf hefur komið þjóðinni til þeirra bjargálna, sem hún býr nú við. Íslenzkum atvinnurekendum hefur tekizt að byggja upp atvinnureksturinn með þeirri stefnu, sem ég hef lýst, við batnandi hag, eftir því sem reynsla þeirra hefur orðið meiri og árunum hefur fjölgað, er við höfum ráðið málum okkar sjálfir. Hins vegar er það nú mjög uggvænlegt, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa gefizt upp við að ráða við efnahagsmál þjóðarinnar eða ráða fram úr þeim vanda, sem efnahagsmál eru í, eins og hún er nú greinilega búin að gera, og á þann hátt að skapa erfiðleika, sem hægt hefði verið að komast hjá.

Að lokum vildi ég svo segja það, að hæstv. núv. ríkisstj. hefur fengið betra árferði en nokkur ríkisstj. önnur. Þrátt fyrir það hefur hún gefizt upp við að framkvæma stefnu þá, sem hún setti sér í upphafi. Hún hét því í upphafi valdatímabils síns, að atvinnuvegirnir skyldu verða reknir styrkjalaust. Það hefur henni ekki tekist, heldur eykur hún þá styrki ár frá ári. Hún lýsti því yfir, að hún ætlaði að afnema vísitölu á kaup. Hún hefur nú tekið upp vísitölu á kaup, og aðalmálgagn hennar segir frá því, þegar niðurgreiðslurnar eru felldar niður, eins og gert var nú fyrir stuttu, að þetta komi bara fram í kauphækkun í gegnum vísitöluna. Hæstv. ríkisstj. hét því að skipta sér ekki af kjarasamningum. Það hefur engin ríkisstj. gengið jafnbeint í kjarasamninga og núv. hæstv. ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. hét því að vera með greiðsluhallalausan ríkisbúskap. Hún hefur fengið meira góðæri og meiri umframtekjur í ríkissjóð en nokkur önnur ríkisstj., en þrátt fyrir það mun greiðsluhalli tveggja síðustu ára vera yfir 300 millj. kr. Og hæstv. ríkisstj. hét því að stöðva dýrtíðina. Dýrtíðin vex nú hraðar en nokkru sinni fyrr og er í raun og veru að verða skrímsli í okkar atvinnu- og efnahagslífi.

Þannig hefur hæstv. ríkisstj. tekizt að fást við þau mál, sem hún setti sér stefnu um, hvernig hún ætlaði að taka á, og henni bar að fást við samkv. því umboði, sem hún hefur, og þeim völdum, sem hún hefur í þessu landi.

Takmark hæstv. ríkisstj. hin síðustu ár hefur verið að ýta sér frá einu skerinu til annars, eftir því hvernig horft hefur í það og það skiptið. En einu hefur hún aldrei misst sjónar á, og það er að sitja áfram í ráðherrastólunum, hvernig sem gengið hefur um stjórn landsins.

Ég lít á þennan samning sem einn þátt hæstv. ríkisstj. til þess að lengja sína lífdaga og ýta sér frá því skeri, sem hún telur sig nú vera að bera að.

Enginn vafi er á því, að ef þessir samningar eiga ekki að verða íslenzku þjóðinni alvarlegir eða valda auknum vanda í þjóðlífi Íslendinga, þá þarf dugmeiri ríkisstj. en hæstv. núv. ríkisstj. er til þess að framkvæma þá. Hún hefur sýnt það, að hún getur ekki leyst efnahagsvandamálin, þegar bezt lætur í ári. Það eitt mundi því hafa nægt til þess, að ég væri andstæður slíkum samningum, sem svo mikinn dug þarf til að framkvæma í skiptum við aðra þjóð, að ég mundi ekki hafa talið það framkvæmd hæstv. ríkisstj., sem ekki hefur tekizt að halda á málefnum þjóðarinnar svo að vel fari, þegar náttúruöflin hafa þó lagt tækifærin upp í hendur hennar.