22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég var alveg hættur við það að taka þátt í þessum umr. Ég hafði fylgzt með því, að ekkert hafði á hallað. Hæstv. iðnmrh. hefur staðið fyrir þessu máli og sagt það, sem þurfti að segja. En það var rétt þegar ég var að koma inn í þessa hv. d. áðan, sem hv. 2. þm. Sunnl. sagði: „Við hefðum átt að láta okkur nægja að virkja 70 þús. kw. í Þjórsá og láta okkur nægja þann vísi að stóriðju, sem við nú þegar höfum fengið.“ Og seinni hluti ræðu þessa hv. þm. einkenndist af svo mikilli þröngsýni og innilokunarkennd og rembingi, að ég undrast það, að hv. þm. skyldi eiga slíkt til og tala þannig algjörlega gegn hagsmunum sinna umbjóðenda og þjóðarinnar í heild.

Þessi hv. þm. var að reyna að gera grein fyrir því, hvers vegna hann hefði greitt atkv. gegn frv. Hv. þm. gerir ósköp lítið úr því, þótt hans umbjóðendur og þótt allir, sem raforku fá frá Þjórsárvirkjun, þurfi að greiða allt að því 62% hærra verð fyrir orkuna við það, að ekki er virkjað, þar sem hagstæðast er. Hann gerir ekkert úr því. En allur almenningur í landinu spyr um það, hvort það hafi verið gert, sem hagkvæmast var fyrir þjóðarheildina og fyrir neytendur raforkunnar. Það þýðir ekki að rengja þá útreikninga, sem liggja fyrir í þessum málum með virkjunina, þeir verða ekki rengdir, og það þýðir ekki að slá fram fullyrðingum, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði hér áðan, þegar hann var að tala um það, að útreikningar stæðust ekki, allt yrði miklu dýrara en áætlað er.

Sem betur fer vitum við nú hér um bil allir, hvað virkjunin við Þjórsá kostar, vegna þess að þetta verk hefur verið boðið út, og það er búið að taka ákveðnum tilboðum. 80% af virkjunarkostnaðinum er fastur. Það eru aðeins 20% af kostnaðinum, sem gæti breytzt, það er minnsti hlutinn. Af þessu leiðir það, að það er óhætt að reikna með, að virkjunarkostnaðurinn standist og hækki örlítið þótt kaupgjaldið hækki. Það er þess vegna ekkert vafamál, að það er mikill hagnaður í því að ráðast í hina stærri virkjun.

Við getum ekki heldur látið okkur nægja þann vísi að stóriðju, sem við höfum þegar fengið, ef við eigum kost á að gera meira. Við Íslendingar erum fámennir, en sem betur fer, fer þjóðinni mjög fjölgandi. Við, sem viljum virkja á hagkvæmasta hátt og gera stórvirkjun í Þjórsá, við, sem viljum, að álverksmiðja verði byggð hér, við viljum eigi að síður byggja upp aðra atvinnuvegi þjóðarinnar. Það þýðir ekki að segja það, að við viljum hafa álbræðsluna í staðinn fyrir þorskveiðar, eins og einhver hv. framsóknar-þm. sagði ekki fyrir löngu. Við vitum, að við verðum að stunda sjávarútveginn þrátt fyrir þetta. Við vitum, að við verðum að efla landbúnaðinn þrátt fyrir þetta. Og við vitum, að við verðum að efla iðnaðinn þrátt fyrir þetta, og siglingar í lofti og á legi viljum við efla þrátt fyrir þetta. Þetta liggur í augum uppi, og staðreyndirnar eru þær, að atvinnuvegirnir hafa verið efldir á undanförnum árum og að því er unnið þrátt fyrir þetta. Atvinnan er meiri nú en nokkru sinni áður og öruggari, og nú er helzt kvartað um það, að það vanti fólk, það vanti fólk til þess að geta fullnægt eftirspurninni. Ég mundi segja það, að það sé betra, að það vanti aðeins fólk, heldur en að það sé atvinnuleysi, sem við höfum lengi búið við, og það er ekkert nýtt, þótt útlendir sjómenn hafi verið hér á vertíðum. Það er ekki heldur nýtt, þótt færeyskar stúlkur hafi unnið hér í frystihúsum, og þannig gæti þetta orðið enn um skeið, og hefur íslenzka þjóðin ekkert skaðazt á því.

En nú er það svo, að þeir, sem tala um vinnuaflsskortinn, segja: Við viljum nú virkja í Þjórsá, en aðeins 70 þús. kw. Hvað sparast mikið vinnuafi við það, við þá virkjun? Það er talið, að það þurfi um 400 manns við það að virkja 70 þús. kw. og sennilega um 450 manns, ef virkjuð eru 105 þús. kw. Þannig mætti spara um 50 manns. Þá er það álverksmiðjan. Hún tekur vinnuafl, að sagt er, og það er rétt, á meðan á uppbyggingunni stendur. Hefur þetta mál verið rætt hér og fyrir því gerð grein hér í umr., að það er ekki nema lítið brot af þeirri aukningu vinnuafls, sem kemur á vinnumarkaðinn árlega. Vinnuaflsþörfin vex ekki svo mikið, hvort sem virkjað er eða þótt álbræðslan sé byggð, hún vex ekki svo mikið, þegar það er athugað, hvað kemur af vinnuafli á vinnumarkaðinn á hverju ári. Þjóðinni fjölgar um nærri 4 þús. manns, og það er þessi fjölgun, sem útheimtir það, krefst þess, að stjórnarvöld geri ráðstafanir til að atvinnuvegirnir verði efldir og að það verði atvinna fyrir þetta fólk, sem við bætist.

Nú gætu menn sagt sem svo, þetta er sjálfsagt að hafa í huga, en álbræðslan, við getum verið án hennar. Ég gæti fallizt á það, að álbræðslan leysir út af fyrir sig ekki allan vanda, sbr. það, hversu lítið vinnuafl hún tekur. Hún leysir vitanlega ekki allan vanda. En hún veitir þó atvinnu, þegar hún er fullbyggð, um 450 manns, og mikill gjaldeyrir kemur í þjóðarbúið fyrir hverja vinnandi hönd, sem í verksmiðjunni vinnur. Og verksmiðjan borgar virkjunarkostnaðinn í Þjórsá upp að fullu á 25 árum. Hún borgar virkjunarkostnaðinn upp að fullu á 25 árum og gerir það mögulegt, að innlendir rafmagnsnotendur fá raforkuna á miklu lægra verði en annars væri. Álverksmiðjan gerir það mögulegt, að við getum byggt virkjanir miklu örar á eftir heldur en annars væri, og tekjurnar af álverksmiðjunni, meginhlutinn, fara í framkvæmdasjóð ríkisins til framkvæmda í hinum ýmsu byggðarlögum úti um land. Þjóðin fær vegna álbræðslunnar meiri tekjur miðað við hvern mann, sem við hana vinnur, heldur en miðað við aðra atvinnu, og þótt verksmiðjan sé þannig ekki stór út af fyrir sig, er þetta atvinnurekstur í landinu, sem stuðlar að meiri fjölbreytni í atvinnulífinu og skapar drjúgar gjaldeyristekjur og sjóði til uppbyggingar virkjunum í framtíðinni.

Það er talað um, að við virkjum það hagstæðasta og álverksmiðjan sé látin njóta þess, en síðan munum við verða að fara að virkja þar, sem það er óhagstæðara, og nota það sjálfir og borga hærra verð fyrir. Í dag höfum við virkjað aðeins 2% af vel virkjanlegu vatnsafli í landinu, — aðeins 2%. Virkjunin við Búrfell, 210 þús. kw., er aðeins 4% af þeirri raforku, sem við getum virkjað með mjög góðu móti. Við höfum 3.500.000 kw., sem við getum virkjað á mjög hagkvæman hátt, og það er talið, að sjötti parturinn af þessu sé með virkjunarkostnað 10–11 aurar á kw. Það er talið, að þriðji parturinn af þessum 3.500.000 kw. sé með virkjunarkostnað undir 15 aurum á kw. Og reiknað með því, að íslenzka þjóðin, verði um 400 þús. manns um næstu aldamót, og reiknað með því, að rafmagnsnotkunin á mann verði þá 13 þús. kw., þá er gert ráð fyrir, að við séum búnir að virkja 1/6 af því afli, sem við getum virkjað með góðu móti. Við höfum því af anzi miklu að taka. En í þessari áætlun er gert ráð fyrir mikilli aukningu raforkunnar á hvern mann, því að nú er raforkunotkunin á mann yfir árið ekki nema 3 þús. kw.

Þá er oft rætt um það, að virkjanir fyrir ofan Búrfell og Háifoss geti ekki tekið við, þegar við þurfum að fara að virkja aftur, eftir að virkjunin við Búrfell er ekki lengur fullnægjandi, og ég heyrði hér áðan, að hv. 2. þm. Sunnl. talaði um Háafoss með mikilli lítilsvirðingu. Það er nú eins með okkur báða, að við erum ekki sérfræðingar á þessu sviði og verðum að nota það, sem sérfræðingarnir gefa okkur upplýsingar um, og Háifoss hefur verið nefndur í þessu efni, vegna þess að sérfræðileg athugun hefur leitt í ljós, að þetta væri hentugt og af engu öðru. Og virkjanir fyrir ofan Búrfell, við Hrauneyjarfoss, í Sultartanga og víðar, eru taldar vera mjög hagstæðar, e.t.v. ekki dýrari en við Búrfell, en ef þær verða dýrari þá mjög lítið dýrari.

Hv. 2. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að Norðmenn hefðu gert miklu hagstæðari samninga við Svisslendinga heldur en við. Rafmagnið væri miklu betur borgað í Noregi,en hér ætti 35 gera. Swiss Aluminium borgar í Noregi 3.2 mill fyrir rafmagnið á móti 2.5 mill hér og 3 mill til að byrja með, en í Noregi borgar Swiss Aluminium enga skatta fyrstu 10 árin vegna afskriftafyrirkomulagsins, enga skatta. Það eru þess vegna aðeins þessi 3.2 mill sem Norðmenn fá í raun og veru, því að þar greiðast skattarnir eftir því, hverjar tekjur fyrirtækisins eru skv. norskum skattalögum. Hér er þessu öðru vísi varið. Hér er gert ráð fyrir, að í raforkugjald sé borgað 3 mill fyrstu árin og síðan 2.5 mill, en hér á ekki að borga skatt eftir því, hversu tekjurnar veróa miklar hjá fyrirtækinu, heldur framleiðslugjald, 20 dollara á tonn.

Frá mínu sjónarmiði er það aðalatriðið, hvað við fáum frá Swiss Aluminium greitt samanlagt fyrir rafmagn og í skatta. Það hefði ugglaust verið hægt að semja um hærra raforkuverð við alúminíumhringinn, t.d. 3.2 mill eða jafnvel 3.5 mill og lægri skatt, en það var ekki betra fyrir Íslendinga. Það, sem skiptir máli fyrir Íslendinga, er það, hvað við fáum samanlagt. Og ef við reiknum það út, hvað við fáum samanlagt, t.d. segðum, að þetta væri bara raforka, fáum við 3.83 mill, þegar Norðmenn fá 3.2 mill. Og ef við breytum þessu í kwst. til áð sjá, hvað við fáum fyrir kwst. í aurum, þá eru það 16.5 aurar á kwst. á meðan framleiðslugjaldið er 20 dollarar, en eftir 15 ár fer framleiðslugjaldið í 35 dollara, og þá samsvarar það 21.5 aurum á kwst. Ég held, að það verði að segjast, að það væri gott raforkuverð, ef við gætum samið um það að virkja stórvirkjun, Dettifoss eða annars staðar, og selja raforkuna úr landi fyrir 161/2 eyri eða jafnvel 211/2 eyri, og hver hefði ekki viljað gera slíkan samning fyrir ákveðið magn af raforku? Raforkumálastjóri reiknaði út einu sinni, að það gæti verið hagkvæmt að flytja út raforku, ef við fengjum 11 aura á kwst. En hér er ekki um það að ræða. Hér er um miklu meira að ræða, eins og sjá má, og þegar við leggjum þessar tölur niður fyrir okkur, kemur það í ljós, að við fáum meira heldur en Norðmenn samkv. þeim samningi, sem hér er um að ræða. Ég á við verksmiðjuna í Noregi, sem Svisslendingar byggðu; þar og reka, en í Noregi eru ýmsar fleiri verksmiðjur, sem búið er að afskrifa, og það er auðvitað meiri hagnaður af þeim.

Ég tel, þegar á allt er litið, að þetta sé svo þýðingarmikið fyrir okkur, að við eigum ekki að vera að mála eitthvað ljótt á vegginn, eins og hv. 2. þm. Sunnl. gerði hér áðan, tala t.d. um það, að okkar þjóðerni stafaði jafnvel hætta af því, að það ætti að dæma eftir íslenzkum lögum samkv. gerðardómi um ágreiningsmál. Það væri náttúrlega mjög slæmt, ef það ætti að dæma eftir öðrum lögum en íslenzkum lögum, en er það nú ekki aðalatriðið í þessu sambandi, að það á að dæma eftir íslenzkum lögum? Og við getum nú deilt um það, hvort það er rétt að vera þjóðernissinni í orðsins merkingu eða ekki, en það er ekkert deilumál, að við eigum allir að vera þjóðlegir og við eigum að standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar. En þetta tal um réttindaafsal og að við séum að fara illa með okkar sjálfstæði t.d. í sambandi við þennan gerðardóm, sem á að dæma eftir íslenzkum lögum, það er úrelt, og það er ekki eðlilegt fyrir einn hv. þm., þótt hann sé á móti þessu máli, að vera að gefa það í skyn, að við aðrir þm., sem fylgjum þessu máli, viljum ekki standa vörð um þjóðernið og landsréttindin. Og ég verð nú að segja það, að hv. þm. er með aðdróttanir til sinna eigin flokksmanna í sambandi við þetta. Ég man ekki betur en tveir hv. framsóknarmenn sætu hér hjá við atkvgr. í fyrradag, og þá væru þeir meðsekir í því að vilja afsala landsréttindum og setja þjóðernið í hættu og sjálfstæði landsins.

Þetta tal er í fyllsta máta óviðeigandi. Allir íslenzkir þm. vilja standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar, og það vill enginn íslenzkur þm. gera neitt, sem getur skaðað þjóðina. Hitt er svo eðlilegt, að menn geti greint á um ýmis mál og haft skiptar skoðanir, til þess er lýðræðið, til þess er ritfrelsi, málfrelsi og fundafrelsi, og til þess er þingræði, að menn deili og færi fram rök með málunum og á móti, en stóryrði eins og þessi eru alls óviðeigandi, enda hljóta þau að vera sögð í fljótræði.

Hér hafa, eins og ég sagði, tveir hv. þm. setið hjá, framsóknarmenn, og kom mér það í rauninni ekkert á óvart. Það hefði vitanlega verið betra, að þeir hefðu farið alla leið. En þetta sýnir það, að málflutningur og aðstaða hv. framsóknarmanna í þessu máll er ekki sterk, og ég hef tekið eftir því, að það fylgir tæplega hugur máli, þegar þeir eru að tala gegn þessu máli. Og kannske er það þess vegna, sem þeir freistast til að grípa til stóryrða, eins og hv. 2. þm. Sunnl. gerði hér áðan. Og grunur minn er sá, að það séu fleiri framsóknarmenn, sem þykjast heppnir að þurfa ekki að taka afstöðu til þessa máls.

Herra forseti. Ég get svo látið máli mínu lokið. Þetta mál hefur verið mikið rætt, og eins og ég sagði í upphafi máls míns, hefur hæstv. iðnmrh. haldið þannig á þessu máli, að það var vitanlega alls ekki þörf á að bæta þar við. En eins og ég sagði, mér ofbauð þröngsýni, fullyrðingar og fjarstæður hv. 2. þm. Sunnl., og það var þess vegna, sem ég bað um orðið stutta stund.