22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður fyrir fundarhléið var hæstv. raforkumrh. Hann er nú ekki mættur og hefur ekki verið mættur, svo að teljandi sé, undir þessum raforkuumr., sem búnar eru að standa í nokkra daga. Hann lét þess getið í byrjun ræðu sinnar, að hann hefði ekki ætlað að taka til máls, það væri ekki þörf á því, þar sem hæstv. iðnmrh. hefði staðið hér fyrir svörum, og ég er náttúrlega sammála honum um það, að þess hafi ekki þurft. En ég kemst ekki hjá því að víkja aðeins að ræðu hans, þó að hann mæti nú ekki, af því að hann fór hinum óviðfelldnustu orðum um einn af prúðmannlegustu ræðumönnum þingsins, hv. 2. þm. Sunnl., sakaði hann um stóryrði, afturhald og annað þess háttar. Ég kalla slíkt alveg furðulegt eftir hina prúðmannlegu ræðu hv. þm., að heyra slíkar ásakanir af hálfu ráðh. Hann hafði það eftir hv. 2. þm. Sunnl., að hann hefði sagt, að hann teldi nóg að virkja 70 þús. kw. í Þjórsá handa Íslendingum sjálfum og meira þyrfti ekki. Hann sneri þannig alveg við orðum hv. þm., sem voru á þá leið, að hann hefði talið réttara að byrja á 70 þús. kw. virkjun í Þjórsá fyrir Íslendinga sjálfa, en halda svo áfram stig af stigi eftir þörfum landsmanna. þannig féllu orð hv. þm. Og út af þessum ummælum hefur hæstv. ráðh. þessi orð um hv. þm.

Menn skyldu veita því athygli, hvað það er rausnarlegt af hálfu hæstv. ríkisstj. og þar með af hálfu hæstv. raforkumrh., að af allri raforkunni úr Þjórsá, 210 þús. kw., eiga Íslendingar aldrei að fá nema 84. Er það hneyksli, að byrja á 70 mw. virkjun og halda svo áfram? Það er orðið nokkuð lítið, þegar á hitt er litið, hverjar eru till. hæstv. ríkisstj. Nei, Íslendingar eiga aldrei að fá úr Þjórsá nema 84 mw.

Þá segir sami hæstv. ráðh., að ekki verði hætta á því, að allar áætlanir standist ekki, því að 80% af stofnkostnaði Búrfellsvirkjunar séu fastur kostnaður, sem breytist ekki, en hæstv. iðnmrh. var að enda við að segja rétt áður í ræðu sinni, að 808 millj. væru fastur kostnaður. Þessu snýr hæstv. raforkumrh. í 80%. M.ö.o., 800 millj. af 1900 millj. eru 80% eftir reikningi hæstv. raforkumrh.

Þá sagði þessi sami hæstv. ráðh., að raforkan í landinu, sem nú væri framleidd, væri 3000 kw. á mann. Ég geri nú ráð fyrir, að þetta hafi verið mismæli, þó veit ég það ekki, kannske hann haldi þetta. En ef raforkan, sem framleidd er nú í landinu, er 3000 kw. á mann, eins og hann sagði, ætti öll orkan í landinu, sem við framleiðum nú, að vera um 579 millj. kw. Öll ræðan var í þessum dúr.

Þá sagði hann, að álverksmiðjan í Noregi borgaði enga skatta í 10 ár, — enga skatta. Þetta er algerlega rangt. Hún borgar þar skatta alveg í samræmi við norsk lög. Hann sagði, að skattar hinnar væntanlegu álverksmiðju hér á landi færu ekki eftir tekjum þeirra, það væri framleiðslugjald, sem þeir yrðu að borga. Þetta er líka rangt, því að í samningnum er það ákvæði, að þetta framleiðslugjald skuli aldrei fara fram yfir 50% af tekjunum, svo að það er sannarlega bundið við tekjur hér.

Þá sagði þessi hæstv. ráðh., að tveir af framsóknarmönnum hér á hv. Alþ. væru samábyrgir ríkisstj. um afgreiðslu málsins við 2. umr. Þeir bæru ábyrgð á því líka, hv. þm., sem greiddu atkv. með dagskrártill. um að vísa málinu frá. Það er að styðja málið. Og þm., sem sátu hjá, af því að þeir kærðu sig ekkert um að greiða atkv. um málið, eftir að búið væri að drepa frávísunartill., þeir styðja málið! M.ö.o., ef fram kæmi á Alþ. till. um að víkja hæstv. ráðh. frá, væru þeir þm., sem greiddu atkv. með slíkri till., að styðja hann. Svona var allur rökstuðningur hæstv. ráðh. í ræðu hans áðan, eitt reginhneyksli frá upphafi til enda.

Við I. umr. þessa frv. ræddi ég aðallega fjárhagshlið málsins. Ég ræddi um þær áætlanir, sem þá höfðu verið birtar um byggingarkostnað Búrfellsvirkjunar og um rekstrarkostnað hennar. Ég lagði áherzlu á það þá í ræðu minni, að upplýsingar þær, sem lægju fyrir hv. þm. í þessu máli, væru algerlega ófullnægjandi og þm. gætu ekki skapað sér rökstuddar skoðanir um það, hversu hagkvæmur orkusölusamningurinn væri fyrir Íslendinga miðað við þær upplýsingar, sem þá lágu fyrir. Ég veit, að aðrar hliðar þessa máls en raforkusamningurinn eru þýðingarmiklar og alvarlegar og verða kannske enn alvarlegri, þegar fram líða stundir. En þó held ég, að það sé engum blöðum um það að fletta, að menn líti all alvarlegum augum á það, hvort raforkan, sem selja á álbræðslunni, er seld með hagnaði eða tapi, og ég ætla, að hæstv. ríkisstj. muni ekki vitandi vits semja við útlend auðfélög um að selja þeim raforku með tapi, enda hefur hún lagt mikinn þunga á það í umr. að undanförnu, að mikill sé gróðinn af því að selja álbræðslunni raforkuna með því verði, sem samningurinn greinir frá. Þess vegna er það, sem þeir hafa birt töflurnar í blöðum og í grg. frv. um gróðann, sem Íslendingar hafi af því að selja raforkuna á þessu verði í 20–25 ár. Ég lít svo á, að þetta atriði, þessi fjárhagshlið málsins, sé a.m.k. eitt af meginatriðum þess, sé grundvöllur, sem verði að vera traustur, og ef þessi grundvöllur bregzt, ef hægt er að færa að því sterkar líkur, að ég ekki tali um sannanir, að raforkan verði seld með tapi, sé þessi grundvöllur hruninn. Ég mun því aðeins ræða um þessa hluti í þessum fáu orðum, sem ég segi, og leitast við að sýna fram á, hversu mikill gróði er hér í vændum af þessum orkusölusamningi, sem hér er verið að ræða.

Ég lagði á það áherzlu við 1. umr. málsins að fá sem beztar upplýsingar í málinu, svo að hægt yrði að sjá þetta sem rækilegast. Þess vegna var það, sem ég beindi nokkrum fsp. til hæstv. iðnmrh. um þessi atriði og óskaði eftir svörum frá honum eða sérfræðingum hans fyrir 2. umr. Hæstv. ráðh. tók því vel, og hann mun hafa lagt fyrir sérfræðinga sína að láta þn. í té svör við þessum spurningum mínum, og auk þess mun hv. 5. þm. Austf. og sennilega fleiri hafa lagt fram spurningar, sem svarað hefur verið. En áður en ég vík að þessum tölulegu upplýsingum, sem nú liggja fyrir, vil ég vekja athygli á örfáum meginatriðum málsins.

Í fyrsta lagi, að ekki hefur verið borið við að rannsaka, hversu mikið mætti selja af umframorku frá Búrfellsvirkjun til Ísíendinga sjálfra, t.d. til aukinna iðnaðarframkvæmda, til upphitunar húsa, þar sem ekki er jarðhiti, eða til annarra þarfa Íslendinga. Þó má ætla og er reyndar víst, að sú orka, sem þannig yrði seld Íslendingum, yrði seld á tvöföldu ef ekki þreföldu verði móts við það, sem á að selja álbræðslunni, og væri þó ódýr miðað við verð á raforku nú á tímum.

Í öðru lagi bendi ég á það, að samkv. samningnum verða Íslendingar að tryggja alúminíumbræðslunni 56 þús. kw. af raforku frá varastöðvum, þegar Þjórsá bregzt eða þegar vélar eða háspennulínur bila. En þó að Íslendingar séu þannig skyldir til að sjá álbræðslunni fyrir 56 þús. kw. af raforku á þennan hátt, á ekki að byggja varastöðvar fyrir nema 40 þús. kw., 16 þús. kw. á að taka frá núverandi raforkukerfi landsmanna handa álbræðslunni, þegar óhöppin vilja til við Búrfell eða annars staðar. Annaðhvort verða Íslendingar þarna að missa af þeirri raforku, sem þeir hafa nú, eða Íslendingar verða að byggja þriðju varastöðina, en ekki er gert ráð fyrir því í þessari kostnaðaráætlun, sem nú liggur fyrir.

Í þriðja lagi bendi ég á það, að í þeim áætlunum, sem við nú höfum, á að verja vegna ísvandamálsins 86 millj. kr. til miðlunar í Þórisvatni, en ekki nema 24 millj. vegna íshættunnar í Þjórsá sjálfri. Ætla ég, að þetta stingi nokkuð í stúf við till. sumra annarra sérfræðinga, sem að þessum málum hafa unnið.

Í fjórða lagi bendi ég á það, að áætlun um svokallaða Háafossvirkjun er mjög lausleg, segja sérfræðingar hæstv. ríkisstj. Þeir segja, að þar muni árskílówatt kosta 775 kr. þetta mun líklega vera ritvilla hjá hv. sérfræðingum eða þá hafa ruglazt í meðferðinni, þetta eigi að vera 7750 kr. En þeir segja líka, þessir sérfræðingar, að þetta verð á árskílówatti sé enginn mælikvarði á verð hverrar kwst. M.ö.o., þessi áætlun, ef áætlun skyldi kalla, um Háafossvirkjun virðist vera ágizkun ein. Enda væri það svo, að ef hvert árskílówatt í Háafossvirkjun kostaði ekki nema 7750 kr., er Búrfellsvirkjun, þessi ódýrasta virkjun landsins, orðin 10–11% dýrari heldur en Háafossvirkjun. Og ef svo væri, hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna er ekki byrjað á að virkja Háafoss fyrir Íslendinga, fyrst virkjun þar er svona ódýr?

Í fimmta lagi sé ég ekki á þeim svörum, sem ég hef fengið í hendur frá sérfræðingum hæstv. ríkisstj., hvort reiknað er með verðbólgu á byggingartímanum eða ekki. Að vísu benti hæstv. iðnmrh. á það í ræðu sinni í dag, að þar væru 137 millj. kr. fyrir óvissum útgjöldum, og skildi ég hann svo, að þetta væri vegna væntanlegrar verðbólgu. Ef það er svo og hitt líka rétt, að 808 millj. kr. af heildarkostnaðinum sé fastur kostnaður, sem ekki breytist, er þessi upphæð, sem hann nefndi og er í svörum sérfræðinganna, í kringum 12% af þeim kostnaði, sem er ekki fastur kostnaður. En þar sem byggingartíminn er 6 ár, mundi einhverjum þykja þetta heldur lítið í lagt að gera ráð fyrir 12% verðbólgu á 6 ára tímabili, því að á s.l. 6 árum var verðbólgan hvað snertir byggingarframkvæmdir 112%. Í þessu sambandi vil ég þó líka drepa á það, að í þessum áætlunum er talað um innlendan fastakostnað. Ég verð að segja eins og er, að ég veit ekki, hvað það getur verið. Hver er þessi innlendi fasti kostnaður, sem verðbólgan hefur engin áhrif á? Ég þekki engar þær framkvæmdir hér í landinu, hvað innlendan kostnað snertir, þar sem verðbólgan hefur ekki haft sín áhrif á. Er það bara það, sem búið er að vinna? Þá má vera búið að verja allmikilli upphæð þarna fyrir austan, ef það er ekkert annað en það.

Í fimmta lagi vil ég benda á það, að árlegur kostnaður af stjórn, eftirliti, gæzlu og viðhaldi Búrfellsvirkjunar og varastöðvanna, sem var í fyrra talinn 1.5% af stofnkostnaðinum, er nú kominn niður í 1% í þessum áætlunum, sem við höfum fengið í hendur. Þessi kostnaður hefur lækkað um þriðjung síðan í fyrra. Ég hef enga skýringu heyrt, hvernig á þessari lækkun getur staðið. Í sívaxandi verðbólgu lækki þessi kostnaður um þriðjung á einu ári. Það kalla ég vel að verið.

Í sjötta lagi bendi ég á það, að í svörum sérfræðinga hæstv. ríkisstj. segir, að olíukostnaðurinn einn við framleiðslu raforku frá gastúrbínustöðvum sé 55 aurar á kwst. og þennan kostnað áætla þeir 6–7 millj. kr. yfir árið. En ef maður miðar nú við ákvæði samningsins, að Íslendingar skuli láta álbræðslunni í té 56 þús. kw. orku frá varastöðvum, ef orkan bregzt frá Búrfelli, samsvarar þessi upphæð því, að slíkar varastöðvar séu starfræktar 91/2 sólarhring á ári. 56 mw. varastöðvar, sem ekki kosta, hvað olíuna snertir, meira en þetta, samsvara að mér sýnist 91/2 sólarhring yfir árið. Og hræddur er ég nú um, að þessi áætlun mundi ekki hafa staðizt þennan vetur, sem nú var að kveðja.

Eins og ég nefndi áðan, höfum við fengið í hendur eða a.m.k. ég hef fengið í hendur og sjálfsagt ýmsir fleiri svör hæstv. ríkisstj. og sérfræðinga hennar við spurningum, sem við höfum borið fram um stofnkostnað Búrfellsvirkjunar og rekstrarkostnað og þar með um framleiðslukostnað raforkunnar frá Búrfelli. Þessi svör eru að vísu ekki tæmandi, en þau eru mjög mikilsverð, og í þeim er mikill fróðleikur, og ég tel enga frágangssök fyrir hv. þm. að gera sér allglögga grein fyrir því, hvað raforkan kostar í raun og veru frá Búrfellsvirkjun fullbyggðri, eftir að þessar upplýsingar eru komnar fram, og skal ég þá nefna þá liði, sem fram koma í þessum síðustu upplýsingum hæstv. ríkisstj. og sérfræðinga hennar.

Fullbyggð Búrfellsvirkjun er áætluð 1913 millj. kr. að meðtöldum 40 mw. varastöðvum. Fjármagnið til virkjunarinnar á að fást á eftirfarandi hátt: Erlend lán 1182.5 millj. kr. Innlend lán og framlög 356 millj. Og svo er loks 374.5 millj., sem ég hef engar upplýsingar séð um, hvernig eigi að afla. Mér er tjáð, að það sé hugsað að taka það að láni innanlands, en ég hef ekki þær upplýsingar frá sérfræðingunum. Þannig er heildarupphæðin fengin. Lánskjörin á erlendu lánunum eiga að vera þannig samkv. svörum sérfræðinganna: Lán í Alþjóðabankanum 774 millj. með 6% vöxtum til 25 ára, afborgunarlaust fyrstu 5 árin, en endurgreiðist eftir annuitetsreglu á 20 árum. Samkv. þessu verða afborganir og vextir 67 millj. 493 þús. á ári eða 8.72%. Og þær greiðslur verða óbreyttar árlega a.m.k. til 1993, en það fer eftir hvaða ár lánið er tekið, því að lánað er til 25 ára. Í öðru lagi segja sérfræðingarnir, að ráðgerð séu erlend lán til viðbótar 408.5 millj. með 6.5% vöxtum til 15 ára, afborgunarlaus á byggingartímanum, en það skil ég svo, að séu 3 ár, og verða þau þá endurgreidd á 12 árum eftir annuitetsreglu, og þá er ársgreiðslan af þessum lánum 50 millj. 41 þús. á ári eða 121/4%, og þessar greiðslur munu a.m.k. standa fram til 1985. Þessi erlendu lán nema um 61% af heildarkostnaði Búrfellsvirkjunar. Afborganir og vextir af þeim allt fram til 1985 a.m.k. verða 117 millj. 534 þús. kr. á ári eða að meðaltali 9.94% á ári.

Ég vil skjóta því hér inn út af því, sem hæstv. iðnmrh. sagði hér í dag, hversu þýðingarmikið það væri að fá raforkuna í erlendum gjaldeyri, að þó að gengislækkanir eigi sér stað á Íslandi hækkar verðið á raforkunni í samræmi við það. En þarna kemur það fram, að raforkan, sem við seljum álverksmiðjunni, mun kosta tæpar 113 millj. 950 þús. á ári, en afborganir og vextir af lánunum fram til 1985 a.m.k. eru 117 millj. 534 þús. eða rúml. 4 millj. meiri heldur en allur gjaldeyririnn fyrir raforkuna.

Ég hef þá greint frá ársgreiðslum af hinum erlendu lánum eða 61% af heildarkostnaði Búrfellsvirkjunar. Þá er eftir hinn hlutinn, 39% af kostnaðinum eða 730.5 millj., sem vantar á fullan kostnað. Ég hef engar upplýsingar fengið um það, eins og ég sagði áðan, hvernig á að afla þessa fjár, en ég hef heyrt þess getið, að það muni ætlunin að afla þess innanlands með lánum. Ef fjármagnskostnaðurinn af þessari upphæð verður hinn sami og af erlendu lánunum eða 9.94% á ári af heildarupphæðinni, verður greiðslan af þeim 72 millj. 612 þús. á ári. Og ef það er rétt, að þessa fjár eigi að afla innanlands, hef ég ekki mikla trú á því, að lánin verði ódýrari heldur en hin erlendu lán eða fjármagnskostnaðurinn af þessum hlutanum verði tiltölulega lægri, en af hinum erlendu lánum. Þvert á móti býst ég við, að innlendu lánin verði dýrari og ársgreiðslurnar þar af leiðandi meiri. En þessi ársgreiðsla, 9.94% af upphæðinni, samsvarar því, að tekið sé lán með 6.5% vöxtum til 17 ára, eða lán með 7% vöxtum til 18 ára og ársgreiðslur samkv. annuitetsreglu, og mér þykir ólíklegt, að Íslendingar geti aflað sér innanlands fjármagns á ódýrari hátt en þennan.

Samkv. þessu, sem ég hef nú rakið, verður fjármagnskostnaðurinn allur að fullbyggðri Búrfellsvirkjun ásamt varastöðvum 190 millj. 146 þús. kr. á ári. Og ég vil endurtaka það, að það er ekkert af þessu áætlað af mér nema fjármagnskostnaðurinn af þessum 730 millj., sem ég nefndi áðan. Hitt er allt eftir þeim lánskjörum, sem sérfræðingar ríkisstj. hafa skýrt frá. Við fjármagnskostnaðinn bætist svo kostnaður af stjórn, eftirliti, gæzlu og viðhaldi Búrfellsvirkjunar og varastöðvanna, sem nú er reiknað 1% af stofnkostnaði, og er greint frá því í svörum sérfræðinganna, að það muni verða 19 millj. 300 þús. á ári. Loks kemur olíukostnaður af rekstri varastöðva. Hann er talinn á ári í svörum sérfræðinganna 7 millj. Og þá er upptalinn allur árlegur kostnaður af Búrfellsvirkjun, a.m.k. fram til 1985, þ.e. framleiðslukostnaður raforkunnar, sem fæst frá Búrfellsvirkjun, og þessi kostnaður verður þá á ári 216 millj. 446 þús. Ég endurtek það, að allar þessar tölur, sem ég hef hér tekið upp og skýrt frá, eru teknar upp úr svörum sérfræðinganna til þn., að því einu undanteknu, að fjármagnskostnaðinn af þessum 730.5 millj., sem engar upplýsingar liggja fyrir með hvaða kjörum verða fengnar, hef ég áætlað hinn sama og fjármagnskostnaðinn af erlendu lánunum. Ekkert annað í þessum upplýsingum er frá mér komið.

Auðvitað eru allar þessar niðurstöður á því byggðar, að þessar áætlanir ríkisstj. standist. Þessi árlegi kostnaður, 216 millj. 446 þús. kr., er það, sem framleiðsla raforkunnar kostar á ári frá fullbyggðri Búrfellsvirkjun. Í grg. frv. er skýrt frá því, að raforkan frá fullbyggðri Búrfellsvirkjun verði 1720 millj. kwst. Nú getur hver og einn reiknað meðalverðið á kwst. þegar þessar tvær stærðir eru þekktar. Meðalverðið á hverja kwst. verður þá 12.58 aurar. Skv. samningnum á álbræðslan að fá 1060 millj. kwst. á ári á 10.75 aura hverja kwst. Verður þá tap á hverri kwst. 1.83 aurar eða á ársraforkunni til álverksmiðjunnar 19 millj. 398 þús. Hér má svo bæta því við, að fari stofnkostnaðurinn fram úr áætlun eða fari rekstrarkostnaðurinn fram úr áætlun, verður þetta árlega tap meira. Af þessu tapi leiðir það, að raforkan frá Búrfellsvirkjun til Íslendinga verður dýrari en til álbræðslunnar. Íslendingar fá ekki raforkuna á 10.75 aura handa sér heldur á 15.53 aura. Íslendingar eiga að sitja að raforku frá Búrfellsvirkjun, sem er 44% dýrari en til álbræðslunnar. Ef kostnaður á stjórn, eftirliti, gæzlu og viðhaldi Búrfellsvirkjunar og varastöðvanna verður 1.5% af stofnkostnaði, eins og hæstv. ríkisstj. sagði Alþ. í fyrra, en ekki 1%, eins og nú er sagt, hækkar þetta árlega tap um 9–10 millj. Ef starfrækja þarf varastöðvar til orkuframleiðslu handa álverksmiðjunni í 20 daga á ári í staðinn fyrir 91/2, bætast enn við hið árlega tap 6–7 millj. á ári. Að lokum vil ég benda á það, að árið 1976 verða Íslendingar að vera búnir að byggja nýtt 126 þús. kw. raforkuver handa sjálfum sér, af því að þeir selja álverksmiðjunni svo mikla raforku. Ef það raforkuver verður tiltölulega dýrara en Búrfellsvirkjun, verður raforkan þaðan líka dýrari, og þá bætist enn við þetta tap.

Ég ætla, að ég hafi þá sýnt nokkurn veginn fram á, hversu hagkvæmur raforkusölusamningurinn er fyrir Íslendinga. Ég byggi þetta allt saman á gögnunum, sem ég hef fengið í hendur frá fulltrúum ríkisstj. og afhent voru þn., og nú bíð ég eftir því, að þessar tölur verði hraktar.