22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. talaði hér nokkur orð áðan. Ég held, að honum hefði nú verið nær að láta hæstv. iðnmrh. um það að halda uppi vörninni fyrir þessum slæma málstað.

Það er nú búið að minnast á það, sem hæstv. landbrh. sagði, en mig langar til að segja 2–3 orð til viðbótar. Hann margendurtók það í ræðu sinni, að við gætum fengið þetta og þetta og gert þetta og þetta vegna alúminíumverksmiðjunnar. Sannleikurinn var, að við gátum gert þetta allt saman án hennar. Við vorum ekki í neinum vandræðum með að byggja þetta upp og þurftum ekkert að leita til svissneska auðhringsins til þess. Hæstv. landbrh. sagði orðrétt: „Það vill enginn íslenzkur þm. gera neitt, sem getur skaðað þjóðina,“ og hann var að ávíta okkur í stjórnarandstöðunni fyrir hitt og þetta, sem við höfum sagt. Það er þá bara þannig með hann, að það góða, sem hann vill gera, gerir hann ekki, og það illa, sem hann vill ekki gera, gerir hann, vegna þess að hann lætur blekkjast af alls konar fortölum, sem honum væri ekki hollt að vera að hlusta á.

Það var alveg sláandi, þegar hann kom að skattamálum Norðmanna og ætlaði að fara að telja okkur trú um, að Norðmenn hefðu samið verr en við. Fyrir utan vitleysuna í þessu, þá gleymdi hann því, sem er höfuðatriðið. Og höfuðatriðið er það, að Norðmenn ráða sjálfir, hvaða skatta þessi alúminíumhringur á að borga. Það er þeirra Stórþing, sem ræður því og setur skattalög, og eftir þeim verður alúminíumhringurinn að borga. En hvað er verið að gera hér? Hér er verið að setja skattalöggjöf til 45 ára, og það er Swiss Aluminium, sem ræður með aðstoð 32 þm. hér. Það er verið að setja sérstök skattalög í þessu plaggi, sem liggur fyrir okkur, — skattalög sem eiga að gilda til 45 ára, og það er svissneski auðhringurinn, sem setur þessi lög í samráði við stjórnarmeirihl. hérna, og síðan á Alþ. ekki að geta breytt þessu í 45 ár. Nei, hæstv. landbrh. sagði þetta ekki — eða vill hann ekki minnast á það? Ég veit ekki, hvað á að þýða að vera að reyna að gylla þetta fyrir okkur þm. Hann getur logið að sjálfum sér, það þýðir ekki að ljúga að okkur. Við vitum betur.

Hæstv. iðnmrh. svaraði hér nokkrum orðum því, sem ég hafði sagt hér fyrr, og fór að tala um minnimáttarkennd í því sambandi. Ég vildi nú óska, að það væri aldrei meiri minnimáttarkennd í afstöðu hæstv. ríkisstj. og hennar fylgismanna hér á þingi í afstöðunni gagnvart erlendum auðhring heldur en sá ótti var hjá mér við að það yrði slakað á íslenzkum málstað í sambandi við þessa samninga. Hann talaði um, a8 víð værum dauðhræddir við að semja við erlenda aðila. Við skulum heldur segja, að við værum dauðhræddir að láta þá semja við erlenda aðila. Hvað er það, sem hér hefur gerzt í sambandi við þetta? Ég er hræddur um, að það hafi verið slík minnimáttarkennd á ferðinni, að þeir, sem hafa átt um samninga þessa að sjá, hafi lítið þannig upp til auðhringa, af því að þeir voru voldugir og ríkir, að það ætti að semja allt öðruvísi við þá heldur en við einhverja atvinnurekendur hér heima. Af því að þetta félag, Swiss Aluminium, á líklega svona 15 þús. millj. kr. í sínum verksmiðjum, líta þeir þannig á, að það eigi að veita þessu auðfélagi sérstök réttindi hér á Íslandi, réttindi, sem íslenzkir atvinnurekendur eiga ekki að fá, m.ö.o.: minnimáttarkenndin er slík, að þegar verið er að tala við þetta auðfélag, á það að fá sérréttindi. Það ætti svo sannarlega að vera fært um að bera skatta og annað slíkt á við hvern íslenzkan smáatvinnurekanda hérna, hvort sem hann heitir útgerðarmaður eða verksmiðjueigandi, en allir eru þeir smáir í samanburði við þetta félag. Nei, minnimáttarkenndin er svona, að þegar talað er við einn auðhring þarf að beygja sig í duftið og gefa honum sérréttindi, en aftur á móti, ef íslenzkur atvinnurekandi á í hlut, á að leggja sömu kvaðirnar á hann, sem lagðar eru á íslenzkan almenning.

Þá vildi ég út frá því, sem hæstv. ráðh. talaði um í sambandi við verkföllin og annað slíkt, spyrja hann: Vill þessi hæstv. ríkisstj. gefa þá yfirlýsingu, og vill sérstaklega forusta Sjálfstfl. gefa þá yfirlýsingu, að það verði aldrei sett af hennar hálfu og af hálfu þeirra flokka, sem samþykkja þessi lög nú, nein lög, sem banna verkfall við þetta fyrirtæki á Íslandi? Við þekkjum það ósköp vel, hve hrædd þessi ríkisstj. er og ekki sízt hæstv. samgmrh. við þau fyrirtæki, sem eru rík og voldug.

Eitt einasta íslenzkt fyrirtæki, sem er allstórt, eru Loftleiðir. Svo framarlega sem eitthvað vofir yfir um verkfall hjá Loftleiðum, hvað er þá gert hér? Það er tvisvar sinnum núna búið að banna verkföll hjá Loftleiðum. Hvað á þetta að þýða? Er það ekki nógu ríkt til þess að geta borgað það kaup, sem verkamenn heimta? Byggja þeir villurnar fyrir ekki neitt suður á Arnarnesi, forstjórarnir þar? Hvað á það að þýða að láta alltaf undan, ef það er einhver auðugur, sem á í hlut, en vera harðvítugur svo framarlega sem það eru þeir smáu, þeir fátæku. Vilja þessir menn, sem núna gefa þessar yfirlýsingar um, að það sé allt í fínasta lagi með þessa samninga, gefa þá yfirlýsingu, að Sjálfstfl. og Alþfl. muni aldrei standa að því að setja lög, sem banni verkfall við þetta fyrirtæki? Ég vonast til þess, að þeir svari.

Hæstv. iðnmrh. fór að minnast á titil á bók, sem hafði verið gefin út eftir mig „Vort land er í dögun“, og þeir hafa allmikið talað um Einar Benediktsson í sambandi við þessi mál. Það er eitt, sem þeir hafa gleymt í því sambandi og það er, að þegar vort land var í dögun, var mótað það orðatiltæki, að Ísland ætti að vera fyrir Íslendinga, og það þurfa þeir að fara að rifja upp, að Ísland eigi að vera fyrir Íslendinga, en ekki fyrir útlendinga.

Hæstv. iðnmrh. kom inn á það, og þar skildi ég svo, að hans góða samvizka væri að slá hann ofurlítið, hann var að tala um, að það vantaði ráðunaut í iðnmrn. Ég held, að það sé alveg satt, og ég held, að hann hljóti að hafa fundið til þess núna, þegar svissneski auðhringurinn kemur með þrautþjálfaða lögfræðinga, hálærða og hálaunaða, og svo er einhverjum nýbyrjendum att út í það hérna heima að eiga nú að standa í stappinu við þá og láta snúa svoleiðis á sig, að þessir þrælkurteisu forstjórar Swiss Aluminium geti ekki á sér setið að hælast um á eftir, hvað þeir hafi fengið góða samninga út úr þessu. Það er eðlilegt, að hæstv. iðnmrh. tali um, að það þurfi ráðunauta, en ég er hræddur um, að það þurfi að ala þá ráðunauta dálítið vel upp, með öðruvísi hugsunarhætti en þeim, sem hefur verið hjá þeim, sem mestan áróður hafa núna rekið, t.d. í Morgunblaðinu, fyrir því að gera þennan samning.

Hæstv. iðnmrh. var mér sammála um það, að ef allt um þryti, yrðum við að reyna að grípa til eignarnámsins, og ég sé nú í Vísi í dag, að það er þegar farið að óskapast út af því, að við skulum vera farnir að hóta hringnum með þessu svona snemma. Það er nú svo sem ekkert þægilegt, hvernig búið er að semja þar. Það er búið að semja um, að við eigum að borga þetta út og yfirfæra það í dollurum undireins til þeirra. Það verða nú ekki gripnar upp hjá okkur undireins 2500 millj. til þess að borga þeim út. Þeir hafa búið nokkuð vel um hnútana þessir Svisslendingar. Svo framarlega sem íslenzk stjórnarskrá ætti þarna að gilda, mundi verða tekið eignarnám með lögum og Hæstiréttur Íslands mundi ákveða þetta, og Alþ. mundi ákveða á hvern hátt þetta yrði borgað. Þessir herrar eiga að fá þetta útborgað allt saman í þeirri mynt, sem þeir óska eftir. Svona er stjórnarskráin sniðgengin í þessu sambandi líka.

Hæstv. iðnmrh. las upp yfirlýsingu frá Alusuisse um, að þeir mundu ekki verða í Vinnuveitendasambandinu, og það átti nú að róa vesalings Alþfl., sem var farinn að fá eitthvert samvizkubit út af því, að e.t.v. kynni hann nú einhvern tíma að hafa eitthvað að segja í verkalýðssamtökum, þannig að það væri réttara að hafa sýnt einhverja ábyrgð í þessu. Og hvað segir svissneski auðhringurinn? Hann segir: Ég ætla ekki að vera í Vinnuveitendasambandinu og ekki að láta ISAL vera í Vinnuveitendasambandinu. Máske það væri reynandi að skrifa annað bréf næst og spyrja þá, hvort þeir ætluðu að borga eitthvað til Vinnuveitendasambandsins, hvort þeir hafi kannske þegar gert samning við Vinnuveitendasambandið um það, að þeir skuli hafa þá fyrir ráðunauta hérna, þó að þeir séu ekki í því, og þeir skuli borga til Vinnuveitendasambandsins eins mikið og þeir menn mundu gera, sem í því væru, rétt eins og Ameríkanarnir hafa haft það á Keflavíkurflugvelli. Ætli það komi þá ekki nokkuð í sama stað niður hvað snertir stéttaafstöðuna hérna heima. Við skulum nú segja, að Vinnuveitendasambandið ætti að vera ráðunauturinn fyrir þá, ætli þeir ráðleggi þeim þá ekki að vera jafnharðvítugir og þeir harðvítugustu mundu vera í Vinnuveitendasambandinu við að ganga ekki að eðlilegum kröfum verkamanna? Það er til lítils að ætla að blöffa okkur með svona nokkru. Hins vegar væri annað, ef þeir vildu bæta hérna inn í 3. gr. í lögin, þar sem stæði, að þessum auðhring og hans dótturfélagi hér á Íslandi, ISAL, væri gersamlega bannað að hafa nokkur afskipti af íslenzkum vinnudeilum öðruvísi en ganga að þeim samningum, sem gerðir væru í hvert skipti, og væri bannað að greiða nokkurt fé, hvorki til Vinnuveitendasambandsins né annarra slíkra, svo að ég nú ekki tali um til stjórnmálarekstrar eða blaðaútgáfu eða annars slíks hér á Íslandi. En hitt er svo annað mál, hve mikið þeir færu eftir því, þótt við settum slíkt í lög.

Ég held, að hæstv. iðnmrh. eigi ekki að tala um minnimáttarkennd í sambandi við þessa hluti. Við skulum ekki reyna að snúa því, sem við höfum almennt talið okkar sjálfstæðisbaráttu, upp í það að heita minnimáttarkennd.

Var það minnimáttarkennd að hefja upp Landsbankann á kostnað Íslandsbanka? Var það af því að menn hefðu svona ríka minnimáttarkennd, að menn vildu ekki láta Íslandsbanka hafa seðlaútgáfu, — hálfdanskan hlutafélagsbanka hafa seðlaútgáfuna á Íslandi, — eins og hann hafði fyrst? Var ekki neitt þjóðernislegt í því að vilja ná seðlaútgáfunni í hendurnar á íslenzkum ríkisbanka úr höndunum á hálfdönskum hlutafélagsbanka? Var það einhver minnimáttarkennd, að Alþ. Íslendinga vildi ekki á sínum tíma semja við Sameinaða gufuskipafélagið? Það hafði tilboð frá Sameinaða gufuskipafélaginu um það leyti sem vissir menn voru að brölta í eins óþjóðlegum hlut og reyna að koma upp Eimskipafélagi Íslands. Sameinaða gufuskipafélagið gerði tilboð. Alþ. anzaði því ekki. Var það minnimáttarkennd? Eða var það minnimáttarkennd, er Jón Þorláksson og aðrir slíkir börðust fyrir því, að við Íslendingar réðum sjálfir fossunum, en það væru ekki útlendingar sem ættu þá? Eða var það eðlileg þjóðernistilfinning? Eða það, að Ólafur Thors stóð á móti því, að Titan fengi sérleyfi hérna 1927 og Tryggvi Þórhallsson og Héðinn Valdimarsson stóðu með honum? Var það einhver minnimáttarkennd gagnvart Titan? Eða væri það einhver minnimáttarkennd að vera á móti því, að enskir togaraeigendur legðu hér upp eða norskir menn hefðu hér síldarsöltun? Eða var það minnimáttarkennd, að við vildum, að íslenzkir atvinnurekendur réðu þessu? Nei, Ísland var nýlenda, og nýlenda þýðir það, að það eru útlendir atvinnurekendur, sem eiga atvinnutækin og hirða arðinn af vinnu verkamannanna og auðlindum landsins og flytja þann arð út úr landinu. Það er að vera nýlenda, og það var út úr þessu, sem við vorum að brjótast, og um það var okkar sjálfstæðisbarátta háð, og þess vegna viljum við ekki stíga sporin inn á nýlendubrautina aftur. Það þarf ekki nema 1–2 svona samninga eins og þessi er, þá er meiri hl. af öllu fjármagni í iðnaði og sjávarútvegi á Íslandi orðinn útlendur. Eftir að þetta væri komið í gegn, er það 33% af fjármagninu í iðnaði og sjávarútvegi, sem er orðið útlent, og ef það kæmu 1–2 svona samningar til, er meiri hl. af fjármagninu í þessum greinum orðinn það.

Hæstv. iðnmrh. sagði í sambandi við mínar spurningar um verkföllin, að ríkisstj. hefði engar sérstakar skyldur. Það er alveg rétt, og það gladdi mig að heyra, að hæstv. ríkisstj. lítur svo á. Ríkisstj. hafði heldur engar sérstakar skyldur gagnvart Loftleiðum, að banna verkföll með lögum hjá þeim. En það, sem þarna kemur til greina, er, að það eru vissar tilhneigingar oft hjá vissum ríkisstj. til að líta svo á, að þær eigi að skipta sér af því, hvort stór atvinnufyrirtæki séu rekin eða ekki. Og þegar þar að auki bætist ofan á, að hagsmunir ríkisfyrirtækja eins og Laxárvirkjunarinnar og annarra slíkra gætu verið þarna í veði, þegar ríkið er þar að auki ábyrgt fyrir Hafnarfjarðarkaupstað, fyrir Landsvirkjuninni, fyrir höfninni, sem þarna er reist, væru það vissir hagsmunir ríkisins, sem kynnu að freista ríkisstj. til þess, ef þeir sæju, að verkfall ætlaði að standa mjög lengi hjá svona félagi, að fara að banna verkfall hjá þessu fyrirtæki. Það stóð a.m.k. ekki á því gagnvart Loftleiðum um árið. Þess vegna erum við hræddir í þessum efnum, og þess vegna þætti mér mjög vænt um að fá slíka yfirlýsingu frá hálfu Sjálfstfl., að hann mundi aldrei standa að löggjöf um að banna verkföll við þetta fyrirtæki.

Hæstv. iðnmrh. svaraði því réttilega, að þegar kæmi til spursmálsins um deilu út af þessu, — alveg eins og ég hafði nú skilið það, — væri að lokum hægt að skjóta henni til alþjóðlegs gerðardóms, og þá erum við komnir út í það, að alþjóðlegur gerðardómur verður farinn að dæma um verkföll hérna á Íslandi, og hvernig stöndum við þá að vígi? Við höfum allt aðrar venjur hér á Íslandi um verkföll en menn hafa í flestöllum löndum Evrópu, sem þessi alþjóðadómstóll ætti að fara eftir. Aðstaða verkamanna hér er yfirleitt miklu sterkari í slíku. Það er bannað með lögum að reyna t.d. að hafa verkfallsbrjóta hér. Það gætu orðið ótal árekstrar í sambandi við útlenda verkamenn, er þetta félag mundi telja sig hafa rétt til að hafa hér og það væri kannske búið að flytja inn undir öðrum kringumstæðum og vildi fá að halda lengur. Það gæti jafnvel komið til, að það yrðu reynd verkfallsbrot í svona verksmiðjum. Allt svo, það þýðir, að við erum farnir að hafa útlend afskipti af þeim vinnudeilum, sem hér eru háðar. Hv. 5. þm. Vesturl. þótti ég hafa verið nokkuð hvass í minni ræðu við 2. umr. Ég hafði skipt í tvennt þeim mönnum, sem ég áleit, að stæðu að því að koma þessu máli í gegn: annars vegar menn, sem ég taldi beina erindreka fyrir erlent auðvald, hins vegar menn, sem vildu vel, en breyttu rangt, af því að þeir áttuðu sig ekki á afleiðingunum af því, sem þeir væru að gera.

Hvað snertir þá menn, sem eru beinir erindrekar fyrir erlent auðvald hér, eru það sumpart menn, sem eru slíkir ofstækisfullir dýrkendur auðmagns, að þeir álíta auðmagn gott, hvaðan sem það komi, bara að fá auðmagn hér inn, hvaðan sem það kemur, það sé gott og blessað. Og þessi áróður hefur verið rekinn svo lengi í Morgunblaðinu, að ég er hissa á því, ef hv. 5. þm. Vesturl., sem sjálfur hefur verið ritstjóri, hefur aldrei orðið var við það.

Í öðru lagi er það því miður til, ekki sízt eins og okkar þjóðfélag er að verða, að það eru til svo litilsigldir menn, svo peningagráðugir, að bara fyrir þá mola, sem detta af borðum erlendra auðhringa, fara þeir að vinna fyrir þá hér heima, búast við meiri gróða af slíku. Hins vegar hef ég ekki borið brigður á, að þeir menn, og ég hef nefnt tvo af hæstv. ráðh. í því sambandi, sem hér hafa nú því miður úrslitavaldið um að koma þessu í gegn, muni vilja vel, en breyta rangt, af því að þeir átta sig ekki á afleiðingunum af því, sem þeir eru að gera og eru komnir of langt út í þetta. Það er engin tilviljun, að bæði hæstv. iðnmrh. og hæstv. forsrh. hafa sjálfir farið að tala um nauðsyn á hugsanlegu eignarnámi á þessari verksmiðju vitandi þó um erfiðleikana. Og ég minni í þessu sambandi á það, sem hæstv. menntmrh. hefur hvað eftir annað sagt hér, að svo framarlega sem hann og menn hefðu vitað um afleiðingar stækkunar á sjónvarpsstöðinni á Keflavíkurflugvelli, hefðu menn ekki leyft þá stækkun. Menn leyfa þessa hluti, af því að menn gera sér ekki ljósar afleiðingarnar af því, og þegar við hér reynum svo að segja að berja höfðinu við steininn með því að prédika nú yfir þessum mönnum, eru þeir orðnir of langt leiddir í þessu og búnir að ganga svo langt í samningum, að þeir geta ekki farið að kippa hendinni til baka allt í einu. Þess vegna er það, að þeir munu ekki átta sig á, hvað gerzt hefur í þessu, fyrr en þeir sjá afleiðingarnar af því, rétt eins og hefur orðið með sjónvarpið. Hins vegar þurfa þeir ekki að líta langt til þess að sjá spillingaráhrifin nú þegar. Þeir þurfa ekki nema að líta hérna suður í Reykjaneskjördæmið og sjá þau spillandi áhrif, sem þetta er byrjað að hafa núna undireins á kjósendurna og jafnvel allt upp í suma þm. Sannleikurinn er, að því miður er það svo, að það er verið að ala þannig upp peningahugsunarháttinn hjá þjóðinni, að það er verið að reyna að skapa þá afstöðu hjá mönnum að líta ekki á neitt nema peningana í sambandi við þetta.

Ég tók eftir því, að Alþfl. var eitthvað ofurlítið smeykur, og þó að þetta sé nú heldur lítill plástur, þetta bréf frá Aluminium, sættir hann sig kannske við það. „Litlu verður Vöggur feginn.“ En hitt efast ég ekki um, að eftir nokkurn tíma muni Alþfl. átta sig á því, hvaða vitleysu hann hefur gert. Það hefur komið áður fyrir hann. Það var líka svo, að fyrrv. formaður Alþfl., hann var eitt sinn forsrh., sagði, þegar hann mælti fyrir Atlantshafssamningnum: „Ef við værum að tala um herstöðvar á Íslandi í sambandi við þetta, mundum við aldrei samþykkja þennan samning.“ Tveimur árum seinna komu herstöðvarnar.

Ég þykist vita, að svo framarlega sem Alþfl. áttaði sig á því núna eftir nokkurn tíma, að hann hefði gert vitleysu með þessu, kippir hann að sér hendinni og fer að berjast þarna á móti. Svo skulum við bara hugsa okkur, að þessi sami Swiss Aluminium hringur komi með tilboð um að reisa aðra alúminíumverksmiðju fyrir norðan og nota Dettifoss. Mér er sem ég sjái, að við og Alþfl. berðumst hér af fullum krafti á móti, ef Sjálfstfl. eða meginhlutinn af honum væri með. Skyldi hann þá ekki fá einhverja menn úr Framsókn með sér til þess að geta komið þessu í gegn? Hættan er sú, að þegar við einu sinni erum búnir að opna fyrir þessum erlendu hringum, fari hver þeirra að koma á fætur öðrum. Og hérna var útbýtt í dag frv., þar sem verið er að breyta fyrirtæki, sem ríkið átti að eiga svo að segja eitt fyrir ári, í það að vera fyrirtæki, þar sem einn af stærstu auðhringum Ameríku, — auðhringur, sem varð á síðasta ári einn af 15 auðugustu hringum heimsins, — á að eiga 39% minnst, kannske upp í 49% á móti 51% hjá ríkinu í því hlutafélagi, sem á að mynda um kísilgúrinn. Og það er einmitt sá auðhringur, sem einokar kísilgúrinn í heiminum. Það stendur ekki á því, að það skuli vera opnað fyrir fleiri auðhringum en Swiss Aluminium. Og svo var hv. 5. þm. Vesturl. að óskapast yfir því, að mér skyldi detta í hug, að þessi auðhringur gæti haft einhver pólitísk áhrif hérna á Íslandi með tímanum, en í sömu ræðunni, sem hann hélt, skauzt það upp úr honum, að einn hringur hefði verið að gera samning í Grikklandi, ég held einmitt þessi sami, og hann hefði nú samið um dálitið hærra verð en sums staðar annars staðar, en um leið tryggt sér hugsanleg pólitísk áhrif, sem gætu bætt honum það upp. Hv. forsvarsmönnum þessa frv. er þannig ljóst, að þessir auðhringar verða eitt sterkasta valdið í þeim löndum, þar sem þeir eru komnir inn, og þegar búið er að hleypa þeim inn, getur verið of seint að svipta þá því valdi.

Það hafa ýmsir verið að taka hér dæmið af Noregi. Það þýðir ekki að taka það dæmi til þess að bera saman. Í Noregi er útíent auðmagn milli 5–10% af því fjármagni, sem í Noregi er. Það er eins og það hefðu verið byggð kannske 1–2 hótel hérna á Íslandi með útlendu fjármagni. Ég væri ekkert hræddur um, að sjálfstæðið væri í hættu, þó að einhverjir útlendingar hefðu lagt í að byggja hér 1–2 hótel, sem kostuðu nokkur hundruð millj. En þegar 1/3 fjármagnsins í iðnaði og sjávarútvegi Íslands á að fara að verða útlendur og meira á svo að fara að bætast við, er ég hræddur við þau áhrif.

Við skulum gá að því, hvað verið er að gera með þessu. Við höfum verið að mynda ríki hér á Íslandi, sjálfstætt ríki, lýðveldi. En hvað erum við að gera með þessu? Við erum að mynda svo að segja sjálfstæð ríki, borgríki, hérna rétt fyrir sunnan okkur. Það var myndað eitt slíkt ríki suður á Keflavíkurflugvelli, ekki háð íslenzkum lögum. Það er verið að mynda annað suður í Straumsvík, girða það af og gera það óháð íslenzkum lögum. Alþ. á ekki næstu 45 ár að geta breytt lögum um það svæði og svona á kannske að halda áfram. Við erum að slíta í sundur lögin. Og þegar við slítum í sundur lögin, slítum við og í sundur friðinn. Suður í Keflavík voru þessi lög slitin í sundur til 25 ára og þetta ástand með borgríkið þar hefur staðið nú í 25 ár. Nú á að slíta lögin hvað snertir Straumsvík til 45 ára, skapa borgríki þar. Svona er verið að höggva skarð í varnarmúra lýðveldisins. Svona er verið að svipta Alþ. löggjafarvaldi lengur en nokkur þeirra manna, sem nú situr á þingi, kemur til með að sitja hér.

Ég spurði að því við 2. umr. þessa máls, hvernig væri með lánssamninginn við Alþjóðabankann. Það er ekki farið að gera þann lánssamning enn þá. Mér er sagt, að nú hafi menn verið sendir út til þess að gera þann samning. Er öruggt, að sá samningur fáist með þeim vöxtum, sem hér hafa verið lagðir fyrir okkur? Og hvernig verður með þessa samninga við Alþjóðabankann? Hvaða kröfur kæmi Alþjóðabankinn til með að gera, ef t.d. við ættum eftir að taka að einhverju leyti þennan hring eignarnámi eða hans eignir hér heima? Mér skilst, að þessi hringur eigi að standa sem eins konar tryggjandi gagnvart parti af því láni, sem við tökum til Búrfellsvirkjunarinnar. Á þessi hringur að hafa sérstakt vald í slíku sambandi, sem gæti komið þvert á það, sem Alþjóðabankinn vildi? Við vitum ósköp vel, að Alþjóðabankinn er með harðdrægustu og svívirðilegustu bönkum í veröldinni, sérstaklega hvað snertir þær þjóðir, sem eru fátækar, og reiknar sér háa vexti, okurvexti, eins og hann reiknar okkur. Og við vitum um leið, að hann notar sitt vald pólitískt, eins og hann hefur reynt áður að nota gagnvart Íslandi. Hann hefur áður reynt að beita sér fyrir því, að fyrirtæki, sem við ætluðum að setja hér upp, eins og Sementsverksmiðjan, yrði ekki ríkisfyrirtæki, heldur einkafyrirtæki. Hvernig mundi slíkur banki líta á, ef við ætluðum að gera það fyrirtæki, sem núna er að nokkru leyti reist í samráði við hann suður í Straumsvík, að ríkisfyrirtæki? Mundi hann kannske slá harðvítugar í borðin en hann gerði 1953? Það er rétt, að menn muni þetta um leið og menn eru að ræða þessa hluti.

Hæstv. atvmrh. sagði, að það væru ekki nema 110 menn, sem mundu vinna 1967, þ.e. við að byggja verksmiðjuna. 285 1968 og 215 1969, og það mundu ekki vinna nema 75 við höfnina öll þessi ár þarna suður frá. En hvernig var það í Noregi? Ég er hræddur um, að þmn. hafi fengið þær upplýsingar, að sums staðar hafi unnið 1200 manns við þetta. Það er eins og ekkert af öllum þessum upplýsingum, sem við fáum í þessu sambandi, standi heima.

Ég vil leyfa mér að benda á, þegar menn eru að reyna að draga úr ótta manna í dreifbýlinu við strauminn hingað suður, að 500 eða 600 manna verksmiðja eins og þessi er grundvöllur a.m.k. 5000 manna bæjar, og hún verður grundvöllur að miklu meiru, vegna þess að ástandið er þannig úti um land, að vonirnar, sem vakna við það að geta komizt í þessa vinnu, valda því, að það koma miklu fleiri hingað suður en þeir, sem fá atvinnu við þetta. Menn koma til þess að keppast um að komast í þessa atvinnu, og menn koma til með að hafa nóg að gera til að byrja með, m.a. við að byggja hús og annað slíkt fyrir það fólk, sem kemur suður til að hafa vinnu og fyrir þá, sem vonast til þess að fá vinnu við þetta. Þetta verður miklu meiri straumur en þarf til að skapa 5000 manna bæ í Straumsvík í viðbót við það þéttbýli, sem hér er fyrir.

Ég vil svo leyfa mér að spyrja út frá því valdi, sem meiri hl. hér á Alþ. er að taka sér með því að samþykkja þessi lög: Lítur meiri hl. svo á, að það sé virkilega hægt að gefa íslenzku félagi sérréttindi til 45 ára með lögum frá Alþ.? Lítur hæstv. dómsmrh. svo á t.d., að Sjálfstfl. og Alþfl. gætu með sínum meiri hl. í dag samið við hvaða íslenzkt fyrirtæki, sem væri, um að næstu 45 ár skyldi þetta íslenzka fyrirtæki hafa ákveðin réttindi viðvíkjandi sköttum, sem ekki væri hægt að hagga næstu 45 ár? Líta þeir svo á, að þeir hafi heimild til slíks? Og ef þeir geta samið þannig við eitt fyrirtæki, geta þeir þá ekki samið þannig við 2 fyrirtæki eða 10 fyrirtæki eða 100 fyrirtæki? M.ö.o.: er lagalega séð hægt að semja í dag við hvaða atvinnurekendur á Íslandi sem vera skal um það, að næstu 45 ár skuli þeir hafa þá skatta, sem þar með er ákveðið, og það sé ekki hægt að breyta þeim í 45 ár? Ég vil bara spyrja. Er þetta hægt? Og ég vil gjarnan fá yfirlýsingar um þetta. Við skulum segja, að Alþfl. kæmi hér og mótmælti og segði: Ég álít, að það sé ekki hægt að semja svona við eitt íslenzkt fyrirtæki. Þá vil ég spyrja Sjálfstfl., og við skulum segja t.d., ef Sjálfstfl. væri fyrir meiri hl. á Alþ., mundi hann þá álíta sig hafa rétt til þess að semja við hvaða íslenzkt fyrirtæki sem væri um skatta til 45 ára? Ég vildi gjarnan, að það væri gengið alveg úr skugga um þetta atriði, hvort Alþ. telur sig hafa rétt til þess að semja þannig, og þá vil ég spyrja að öðru: Ef þeir svara mér því, að þeir geti ekki samið þannig og álíta sig ekki geta samið þannig við íslenzkt fyrirtæki til 45 ára, álíta þeir sig þá hafa rétt til þess að semja við íslenzkt fyrirtæki, ef viðkomandi íslenzkt fyrirtæki hefur komið sér upp vinsamlegu fyrirtæki t.d. í Bretlandi eða Bandaríkjunum? Gæti t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða hraðfrystihúsaeigendur hér fengið slíkan samning, ef fyrirtæki í Bandaríkjunum hefði eitthvert vinsamlegt samband við þau? Álíta þeir sig hafa rétt til þessa? Er m.ö.o. hægt að tryggja sérréttindi til handa ákveðinna atvinnurekenda eða ákveðinna fyrirtækja til næstu 45 ára á Íslandi? Er það hægt samkv. stjórnarskránni? Stjórnarskráin bannar sérréttindi, svo framarlega sem þau eru tengd við aðal eða annað slíkt, en er þetta hægt? Er hægt að svipta Alþ. löggjafarvaldinu um skatta í næstu 45 ár, þegar í hlut eiga ákveðin fyrirtæki? Getur núv. meiri hl. Alþ. tekið sér þetta vald? Ég er ekki lögfræðingur, hæstv. dómsmrh. er það. En mér virðist þetta einkennilegt. Og ég verð að segja það, að ef þetta er hægt lagalega, upp á hvað er þá verið að bjóða? Er þá verið að bjóða bara upp á það að gera t.d. íslenzka atvinnurekendastétt, ef hún hefur vissa verndara erlendis sama sem skattfrjálsa eða tryggja henni ákveðinn skatt í 45 ár, sem Alþ. getur ekki breytt? Ég vil, að menn viti alveg hreint, hvað þeir eru að byrja á með löggjöf eins og þeirri, sem hér liggur fyrir. Þetta er samsvarandi löggjöf þeirri, sem annars staðar í heiminum hefur leitt til þess, að menn hafa háð sjálfstæðisbaráttuna svona lengi eða menn hafa gert byltingar. Það, að aðall varð skattfrjáls í Frakklandi, leiddi að lokum til þess, að borgararnir og bændurnir og verkamennirnir gerðu byltingu þar. Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fá að vita um þetta.

Hæstv. iðnmrh. minntist á, að í Noregi, ef ég man rétt, væru aðeins samningar til 10 ára, hérna hins vegar tryggðum við okkur með að geta selt raforkuna í 45 ár og það ætti að vera svo óskaplega miklu betra. Ég vil nú segja, að ég vildi heldur vera í aðstöðu Norðmanna, að vera bara skuldbundinn þeim til 10 ára og láta þá verða að sækja undir okkur, hvaða verð þeir fengju á raforkunni eftir 10 ár og standa með sína verksmiðju hérna og verða að semja við okkur. Ég held, að það væri þægilegra fyrir okkur. Við þurfum ekki að vera mikið hræddir um, að við komum ekki raforkunni út.

Mér hefur ekki litizt á, hvernig þetta mál hefur verið sótt. Það að reyna að gylla þetta svona gefur mér þá hugmynd, að það eigi að reyna að smækka þjóðina, fá hana til þess að gleypa við svona beitu og finnast eitthvað óskaplega fínt og gott að geta fengið svona auðhring inn í landið. Við erum að veita þessum auðhring íslenzka auðlind til þess að ausa af, 30% af allri landsframleiðslu. Við erum að veita þessum auðhring íslenzkt vinnuafl til þess að græða á. Fyrir þetta eigum við að reyna að skapa þakklæti hjá þjóðinni í staðinn fyrir, að við eigum einmitt að brýna það fyrir þjóðinni, að þessi hringur sé að græða á henni, sé að hagnýta okkar auðlindir. Það væri hreinskilnara að segja það, þó að menn álíti að einhverju leyti, að þeir væru knúðir til þess að gera svona samning, hvaða ástæður sem það svo eru. Við erum að stíga inn á nýlendubrautina aftur með þessu. Nýlendubrautin er það, þegar arðurinn af vinnu verkamannanna og auðurinn, sem sprettur upp af auðlindum landsins, fer út úr landinu. Þess vegna er þetta spor aftur á bak. Við gátum gert svona sjálfir, við gátum líka komið upp alúminíumverksmiðju sjálfir. Við getum gert þetta allt saman sjálfir, Íslendingar. Við erum alveg orðnir nógu ríkir og voldugir og sterkir til þess. En með þessu, sem nú er verið að gera, fer arðurinn út, en hættan af valdi hringsins verður hér heima. En það allra, allra hættulegasta í sambandi við þetta allt saman er þó það, sem áróðurinn fyrir því, að svona auðhringur sé einhver blessun, getur gert í því að minnka þjóðina, að smækka hana andlega. Það er það hættulegasta.

Skáldin okkar ræddu þessa hluti mjög á fyrsta áratug aldarinnar, Einar Benediktsson, Þorsteinn Erlingsson og Stephan G. Stephansson segir í sínum Fossaföllum eftirfarandi: lætur fossinn tala til þjóðarinnar:

„En magnið mitt, en iðjuleysið ekki, til illra heilla gæti sljóva leitt.

Ég kann að smíða harða þrælahlekki á heilan lýð, ef mér er til þess beitt. Ég orðið gæti löstur mesti í landi og lækkun þjóðar — öðrum þannig fer sé gamla Þóris gulli trylltur andi, sem gekk í fossinn, vakinn upp í mér.“

Það er þetta, sem er mesta hættan í sambandi við þetta mál. Það er, þegar verið er að gylla fyrir þjóðinni, hvað það sé dásamlegt að fá útlendan auðhring inn í landið. Það á að reyna að skapa hjá henni þá hugmynd, og sú smitun á sér nú þegar stað suður í Reykjaneskjördæmi, að þetta sé eitthvað, sem hún eigi að þakka fyrir og hún megi helzt ekkert gera, sem þessum auðhring kunni að vera á móti. Í staðinn fyrir að vara þjóðina við, að hvetja hana frá upphafi til þess að standa á verði gegn þessu, — þó að mönnum af einhverjum undarlegum ástæðum kunni að hafa fundizt nauðsynlegt að hleypa honum inn í landið, einmitt með því að skapa ekki varðstöðu þjóðarinnar eru menn óbeint að ganga í þjónustu þessa hrings, þá eru menn óbeint að leiða hættuna af því yfir þjóðina, að þetta erlenda auðvald geti drottnað yfir henni. Þess vegna er, þrátt fyrir allt það tap, sem kann að verða á rafmagnsverðinu, þrátt fyrir alla þá vitleysu, sem þetta skapar í okkar efnahagskerfi, það langsamlega hættulegasta, sem af þessu leiðir, vald þessa auðhrings, sem inn í landið kemur, og sú smækkun þjóðarinnar andlega, sem verið er að berjast fyrir í sambandi við að hleypa þessum auðhring inn.