22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Stóriðja hefur lengi verið lausnarorðið í framtíðardraumum stórhuga manna á Íslandi. Og vissulega kemur það engum á óvart. Stóriðja er kall hins nýja tíma í atvinnumálum, og á því sviði kemur auðvitað fjöldamargt til greina, bæði steinefni, málmar, óunnin efni og afurðir af sjó og landi og þá ekki sízt stóriðja í matvælaiðnaði. Með hliðsjón af hinum mörgu möguleikum, sem bjóðast, er það vægast sagt einkennileg staðreynd, að á undanförnum árum virðast valdamenn á Íslandi ekki hafa látið sér til hugar koma nema eina tegund stóriðju. Þeir hafa starað sig blinda á frumefnið alúmin. Þar að auki virðist það hafa verið hálfgert trúaratriði í þessum herbúðum, að stóriðju á Íslandi geti engir byggt nema útlendingar.

Glöggt dæmi um þetta einstrengingslega viðhorf er m.a. að finna í skýrslu, sem einn helzti ráðunautur ríkisstj.,Jóhannes Nordal. samdi og send var alþm. hér fyrir rúmu einu ári síðan. Þar er einmitt keppzt um að sannfæra menn um, að möguleikar til stóriðju á Íslandi séu nú alveg að renna úr greipum okkar og því megi alls ekki glata þessu tækifæri. Orðrétt segir þar m.a., með leyfi hæstv. forseta, að „lítil líkindi séu til þess að Íslendingum bjóðist annað tækifæri í fyrirsjáanlegri framtíð til að koma upp alúmíniðnaði.“

Nú er það svo, að í samningaviðræðum milli tveggja aðila ræður það oftast mestu um skilmála samningsins, að hvaða niðurstöðu aðrir aðilar eða önnur lönd hafa komizt í svipuðum kaupum. En stundum er þessu alls ekki þannig varið. Ef öðrum aðilanum er um það kunnugt, að samningur er einhvers konar sáluhjálparatriði fyrir viðsemjandann og hann ætlar að semja, hvað sem það kostar og hvernig sem kaupin gerast á eyrinni, er aðstaða hans auðvitað allt önnur til að ná hagstæðari samningum, og hann getur þá mótað samningana frá upphafi.

Það mun víst engum dyljast, að í þeim kaupum, sem hér eru til umr., gerþekktu útlendingarnir viðsemjanda sinn og kunnu að nota sér veikleika hans. Hins vegar mun mörgum hafa ofboðið, þegar aðalforstjóri Swiss Aluminium hélt blaðamannafund aðeins einum degi eftir undirritun samninganna og lýsti því yfir sigri hrósandi, að fyrirtæki hans ætti alúmínverksmiðjur um allan heim, en aldrei hefði nokkur þjóð samið við sig um svo lágt raforkuverð. Hann bætti því jafnvel við, að aldrei hefði það áður gerzt í samningum fyrirtækisins við erlent ríki, að stjórnvöld íandsins hefðu afsalað sér dómsvaldi í eigin landi. Í sögu fyrirtækisins er samningurinn einstæður að þessu leyti, hafði fréttamaður útvarpsins eftir hinum sigurglaða forstjóra. — Hvað sagði hæstv. dómsmrh.? (Dómsmrh.: Hafa þeir gert samninga við önnur ríki?) Þeir hafa gert fjöldamarga samninga áður, þessir aðilar, um byggingu alúmínverksmiðja, og það hefur aldrei komið fyrir, að þetta fyrirtæki næði inn í sína samninga neinu því ákvæði, sem undanskildi þá lögum viðkomandi lands. Það er einmitt það, sem er mergurinn málsins. (Gripið fram í.) Ég er að tala hér um það, að þessi auðhringur hafi aldrei áður gert samninga um byggingu alúmínverksmiðja í öðru ríki, þar sem slíkt ákvæði hefur náðst fram, en vitaskuld mundi slíkt ákvæði ekki nást fram nema í samningum við viðkomandi ríki. Það þarf ekki að taka það fram. Hvort viðkomandi samningar hafa verið við ríkisstj. viðkomandi landa, ja, ég hef að vísu ekki upplýsingar í höndunum um það. En ég geri fastlega ráð fyrir, að svo hljóti að vera í flestum tilfellum. En ég vil taka það fram, að það skiptir að sjálfsögðu ekki neinu máli í þessu sambandi. En það er vissulega mjög raunalegt og nánast broslegt í þessu sambandi og í ljósi yfirlýsingar svissneska forstjórans, sem ég gat hér um áðan, að hæstv. iðnmrh. skuli koma hér í umr. eftir umr. og reyna að útmála þessa samningagerð með mörgum fögrum orðum og langri talnarunu sem einstaklega hagkvæman samning.

Ég vil nú víkja lítillega að nokkrum hagfræðilegum atriðum þessa máls, eins og margir hafa gert á undan mér. Ég hef nú ekki hlustað á ræður þeirra allra og kann nú að vera, að sumt af því, sem ég bendi hér á, hafi áður komið fram, enda má segja, að staðreyndir þessa máls séu aldrei nægilega oft endurteknar.

Það er ein helzta röksemd alúmínmanna, að hagkvæm lausn á raforkumálum landsmanna sé bundin órjúfandi böndum við orkusölu til alúminbræðslunnar. Eins og kunnugt er, er þessi þrælskipulagða áróðursherferð reist á tveimur mjög svo hæpnum röksemdum. Í fyrsta lagi er því haldið fram, að Íslendingar hafi ekki bolmagn til þess að leysa raforkumál sín nema í samstarfi við erlendan auðhring og í öðru lagi, að rafmagnsverð til innanlandsnotkunar verði ódýrara með þeim hætti. Alþm. öllum mun um það kunnugt, að á Alþ. í fyrra var samþ. shlj. að virkja Þjórsá við Búrfell, hvort sem rafmagn yrði selt til alúmínbræðslu eða ekki. Jafnframt er það álit sérfræðinga Landsvirkjunar og kemur m.a. fram í alúmínfrv., að Búrfellsvirkjun sé hagstæðasta virkjun á Íslandi fyrr og síðar. Ef Svisslendingum verður selt rafmagn frá virkjuninni, mun hún endast Íslendingum sjálfum í 10 ár héðan í frá, þ.e.a.s. til 1976, en ef Íslendingar nýta virkjunina einir, mun afl hennar endast þeim í 19 ár, þ.e.a.s. til 1985. Það er þá fyrst spurningin: Geta Íslendingar byggt Búrfellsvirkjun einir, án þess að semja við alúmínhringinn? Í frv. ríkisstj. kemur fram, að slík framkvæmd án raforkusölu til alúmínverksmiðju mundi kosta rúmlega 1100 millj. kr. Það væri 1/3 af útgjöldum ríkisins samkv. fjárl. seinasta árs. En á sínum tíma, þegar Sogsvirkjunin var byggð, kostaði hún á við hálf ríkisútgjöldin. Ég held því, að hverjum manni eigi að vera það ljóst og þurfi ekki framar að deila um það, að hér er ekki um það verkefni að ræða, sem Íslendingar geta ekki risið undir. Ég mundi vilja segja um þessi raforkumál, að væri orka Búrfellsvirkjunar í raun og veru svo gífurlega mikil, að Íslendingar hefðu ekki not fyrir nema örlítinn hluta hennar á næstu áratugum, gæti það burtséð frá öðrum atriðum þessa máls, verið skynsamlegt að semja um verulega orkusölu til útlendinga, sérstaklega, ef bygging orkuversins væri slíkt átak, að Íslendingum væri um megn að standa einir undir þeim kostnaði. En nú er þessu alls ekki þannig háttað, eins og við vitum. Búrfellsvirkjun er hlutfallslega lítið átak fyrir Íslendinga eina, og vegna raforkusölunnar er Búrfellsvirkjun orðin ófullnægjandi fyrir landsmenn þegar árið 1975, aðeins 4 árum eftir að framkvæmdum við Búrfell er lokið.

Í þessum umr. hefur mikið verið rætt um raforkuverðið og af þeim upplýsingum virðist það liggja ljóst fyrir, að Íslendingar geti sjálfir reiknað sér rafmagnið frá Búrfellsvirkjun á heildsöluverði um 30 aura kwst. Í Noregi er söluverðið til Svisslendinga um 13.75 aurar. Hér eiga Svisslendingar að kaupa orkuna á 10.75 aura, og samkv. seinustu útreikningum Landsvirkjunar verður kostnaðarverð orkunnar aðeins brot úr eyri lægra, þ.e.a.s. 10.3 aurar. Um þetta atriði hefur nú verið skrifað svo mjög í blöðin og rætt um hér í þessum umr., að ég sé ekki ástæðu til að rökstyðja frekar þá staðreynd, að söluverð orkunnar mun tæpast verða yfir kostnaðarverði og jafnvel sennilega undir. En vegna þess að mér er ekki kunnugt um, að neinn hafi bent á það í þessum umr., þá langar mig til að vekja athygli hv. þm. á þeirri staðreynd, að það virðist vera álit Alþjóðabankans, að raforkuverðið, 10.75 aurar á kwst. eða 2.5 mill, sé alls óviðunandi. Í skýrslu til stóriðjunefndar í des. 1964 segir á bls. 28, með leyfi forseta:

„Í rekstraráætlun Svisslendinga hafa þeir reiknað með raforkuverðinu 2 mill á kwst., en að meðalskattar á Íslandi væru 33% af nettótekjum. Og er þá ekki reiknað með rétti til frádráttar vegna arðgreiðslu til hluthafa.“ Seinna segir: „Alþjóðabankinn lætur í ljós þá skoðun, að þennan grundvöll þurfi að bæta um 0.5 mill, ef framkvæmdin á að vera efnahagslega réttlætanleg. Með hagkvæmari kjörum væru verksmiðjunni veitt óeðlileg fríðindi. Bankinn telur því, að stefna beri að því sem lágmarki, að alúmínbræðslan greiði 2.5 mill á kwst. af raforkunni og skatta, er nemi 33% af nettótekjum.“

Þetta stendur í fyrrnefndri skýrslu. Þetta kemur nú kannske ekki hv. þm. sérlega mikið á óvart. En ég vil þá minna á, að þegar hér er verið að tala um orkusölu til útlendinganna, er verið að tala um orkusölu til 30 þús. tonna verksmiðju, verksmiðju, sem framleiðir 30 þús. tonn af alúmíni á ári. Alþjóðabankinn segir sem sagt, að það sé algert lágmark, að raforkuverðið verði 10.75 aurar á kwst. og 33% af nettótekjum, þ.e.a.s. það, sem seinna var um samið. En það, sem mestu máli skiptir, er það, sem stendur á bls. 30 í þessari sömu skýrslu:

„Alþjóðabankinn hefur lagt áherzlu á, að þau kjör, sem nú hefur verið rætt um að bjóða alúmínbræðslunni, væru réttlætanleg vegna þeirrar þýðingar, sem alúmínbræðslan hefur fyrir fjárhagslega afkomu 1. áfanga Búrfellsvirkjunar. Verði alúmínbræðslan stækkuð í framtíðinni, telur bankinn hins vegar ekki rök fyrir því að bjóða jafnhagkvæm kjör.“

Þetta segir stóriðjunefnd um skoðun Alþjóðabankans, þegar verksmiðjan átti að vera 30 þús. kw. En nú vitum við, að seinna var gripið til þess ráðs að stækka áætlanir um verksmiðjuna upp í 60 þús. tonna verksmiðju. Sem sagt, það hefur gerzt, sem Alþjóðabankinn ræddi um í þessari skýrslu. Það hefur gerzt, að alúmínbræðslan hefur verið stækkuð, og þar af leiðandi telur bankinn ekki vera rök fyrir því að bjóða þau hagkvæmu kjör, sem nú hefur verið samið um. Það kemur sem sagt á daginn, að raforkuverðið er ekki aðeins það lægsta, sem viðkomandi auðhringur hefur nokkru sinni fengið, heldur raunar eitt hið lægsta, sem nokkurn tíma hefur þekkzt í heiminum. Að vísu munu vera til dæmi um sölu á rafmagni fyrir minna verð. En þar að auki kemur það í ljós, að Alþjóðabankinn, helzti ráðunautur ríkisstj., lýsir því yfir, að þeir samningar, sem nú eru gerðir, séu alls óviðunandi og við bjóðum allt of hagkvæm kjör.

Hæstv. iðnmrh. og sérfræðingar hans hafa mjög gumað af miklum gjaldeyristekjum, eins og hv. alþm. er kunnugt, 300 millj. kr. gjaldeyristekjum. Nú hafa aðrir hér á undan mér sýnt fram á, að þessar gróðavonir eru mjög ýktar og óraunhæfar, og sé ég því ekki ástæðu til að endurtaka það. Það er þegar búið að þrátta hér svo mikið um þessar gjaldeyristekjur, sem bersýnilega eru ýktar hjá hæstv. ráðh. En ég vil benda hér á annan áróðursútreikning hæstv. ráðh. og sérfræðinga hans, sem er svo yfirgengilega ósvífinn, að ég fæ ekki betur séð en hann slái öll fyrri áróðursmet og yfirborðsmennsku hæstv. ríkisstj. Þegar alúmínfrv. var lagt fram á Alþ. nú í lok síðasta mánaðar, birti dagblaðið Vísir fréttina með miklum uppslætti, og þar var talað um allt það mikla góðgæti, sem landsmönnum hlotnaðist með verksmiðjunni. þar er að sjálfsögðu minnzt á skattinn, sem Íslendingar eiga að fá. Þar er einnig talað um hinar miklu gjaldeyristekjur, og þar segir líka með stórri fyrirsögn: „Álbræðslan mun auka tekjur þjóðarinnar árlega um 1200 millj. kr.“ Þessi speki er höfð beint upp úr alúminíumfrv. á bls. 100, en þar er verið að fjalla um þjóðhagsleg áhrif af byggingu álbræðslunnar. Þar segir sem sagt, með leyfi forseta:

„Reynslan hefur sýnt, að aukning þjóðartekna hér á landi er mjög háð því, hver aukning á sér stað í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Gjaldeyrisöflunin er á vissan hátt undirstaða annarrar tekjuöflunar, svo sem í formi framleiðslu á innlendum neyzluvörum og hvers konar þjónustu. Reynslan hefur bent til þess, að í grófum dráttum þurfi hrein gjaldeyrisöflun að nema um 1/4 af þjóðartekjum. Þetta þýðir m.ö.o., að aukning hreinna gjaldeyristekna skapi svigrúm til allt að fjórfaldrar aukningar þjóðartekna. Þetta hefur komið skýrt í ljós í því, að undanfarin 20 ár hafa öll tímabil ört vaxandi þjóðartekna verið í beinu samhengi við mikla aukningu gjaldeyristekna. Samkv. þessum reikningi má áætla, að álbræðslan skapi svigrúm til aukningar þjóðartekna, er nemi allt að 1200 millj. kr., sem að sjálfsögðu mundi dreifast um hagkerfið.“

Eins og hv. alþm. sjá, er þarna beinlínis gefið í skyn, að þjóðartekjurnar vaxi um 1200 millj. kr. Nú skal ég auðvitað ekki neita því, að þessi fullyrðing kann að eiga sér nokkra stoð í raunveruleikanum, þ.e.a.s., það kann að hafa sýnt sig um innlendan atvinnurekstur, að þjóðartekjurnar séu fjórum sinnum meiri heldur en gjaldeyristekjurnar. En sá hagfræðingur, sem hvíslaði þessum orðum í eyru ráðh., sem væntanlega hefur verið formaður stóriðjunefndar, Jóhannes Nordal, lætur eins og hann viti ekki af því, að gjaldeyristekjur Íslendinga verða í þessu tilfelli aðeins hluti af útgjöldum fyrirtækisins, en allur ágóði þess, allt afskriftaféð, rennur út úr landinu og verður því ekki uppistaða í þjóðartekjum, eins og ef innlendur atvinnurekstur ætti í hlut. Nú vil ég ekki trúa því, að hæstv. iðnmrh. hafi látið þetta fara frá sér í grg., ef hann hefur gert sér ljóst, hvílík endemis blekking þessi útreikningur er. Og ég þykist sjá, að hæstv. iðnmrh. hljóti bara að hafa svona lítið vit á hagfræði og hann hafi bersýnilega trúað því, sem einhver ósvífinn sérfræðingur taldi honum trú um. En ég vil spyrja: Hvernig heldur hæstv. ráðh., að við þm., að ég tali nú ekki um kjósendur, getum trúað nokkurri tölu í þessum hagfræðilegu milljónaröðum og kílówattabunum, sem hann hefur slíkt yndi af að vitna til, þegar sýnt er, á hvaða stigi hin tölfræðilega ósvífni er í þessu máli?

Ég geri ráð fyrir, að flestum landsmönnum muni nú orðið ljóst, að með alúminsamningnum hafa valdamenn landsins gert óhagstæðari viðskipti heldur en dæmi eru til um aðrar þjóðir í hliðstæðum samningum. Auðvitað er nauðsynlegt, að þjóðin geri sér þess grein hve fráleit þessi samningsgerð er frá sjónarmiði íslenzkra efnahagsmála, atvinnumála og raforkumála. En Íslendingar verða um leið að skilja, að þetta mál er ekki aðeins spurning um kílówött, krónur og aura, hér eru í húfi verðmæti, sem ekki verða metin til fjár. Ef Alþ. staðfestir alúmínsamninginn, er það víst, að baráttan gegn áhrifavaldi útlendra auðhringa á eftir að verða eitt örlagaríkasta sjálfstæðismál Íslendinga.

Hér hefur hvað eftir annað verið minnzt á þá staðreynd, að verið er að byggja nýtt borgríki í ríki okkar, ríki sem verður fullkomin hliðstæða hins bandaríska borgríkis í Keflavík. Þar verður bannsvæði fyrir íslendinga, umgirt tollmúrum með viðeigandi braskarahringi bak við tjöldin, gósenland fyrir smyglara og aðra lögbrjóta, í þessu nýja ríki mun gilda sérstök stjórnarskrá, sú viðamikla og óumbreytanlega löggjöf, sem Alþ. er ætlað að leggja blessun sína yfir. Stjórnendur þessa borgríkis þurfa ekki að lúta íslenzkum lögum og í viðskiptum sínum við íslenzka ríkið eru þeir óháðir íslenzkum dómstólum. Hæstiréttur Íslands kemur þeim ekki við frekar en hver annar saumaklúbbur hér í bæ.

Undanfarna daga hefur hæstv. viðskmrh. og raunar fleiri ráðh. borið á borð ótrúlegustu blekkingar til þess að reyna að réttlæta þá kröfu sína að undanskilja alúmínbræðsluna íslenzku dómsvaldi. M.a. hafa þeir reynt að þyrla sem mestu moldviðri í kringum samning, sem vinstri stjórnin gerði um olíukaup frá Sovétríkjunum, en þar er einmitt gert ráð fyrir því, að gerðardómur í Sovétríkjunum leysi úr ágreiningi, sem rísa kann út af afhendingu olíunnar. Ég held, að það sé hverjum manni ljóst, að út af fyrir sig er það alls ekki óeðlilegt, að sovézkur dómstóll fjalli um ágreining út af afhendingu þessarar margumræddu olíu, að það sé sovézkur dómstóll, en ekki íslenzkur dómstóll, þar sem um er að ræða ágreiningsmál í sovézkri lögsögu. Hið eina óvenjulega við olíusamninginn er hins vegar það, að sovézkur gerðardómur á að skera úr ágreiningsmálum, en ekki almennur sovézkur dómstóll. Auk þess er olíusölusamningurinn gerður milli tveggja fullvalda ríkja og er því einnig að því leyti gjörólíkur alúmínsamningnum, sem er gerður milli íslenzka ríkisins og einkafyrirtækis.

Ýmsir mætir menn, bæði innan þings og utan, hafa snúist til andstöðu við alúmínsamninginn á þeim forsendum, að raforkuverðið sé lágt, í landinu sé dýrtíð og verksmiðjan sé staðsett á Suðurlandi en ekki Norðurlandi. En þeir virðast samt vera þeirrar skoðunar, að rétt væri að hleypa erlendri stóriðju inn í landið, ef skilmálar væru aðrir og betri. Oftast er þá fyrirmyndin erlend stóriðja í Noregi.

Mergurinn málsins er auðvitað sá, að Norðmenn eru að vísu smáþjóð, en Íslendingar eru dvergþjóð. Það er ekki stigsmunur á mannfjölda þessara þjóða heldur eðlismunur. Norska þjóðin er 20 sinnum fjölmennari en Íslendingar. Ef við lítum á allan iðnað á Íslandi, öll frystihús, síldarverksmiðjur, mjólkurstöðvar, sláturhús, áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju og yfirleitt allan iðnað á Íslandi, þá er verðmæti þessara fjármuna á núgildandi verðlagi talið um 5 þús. millj. kr. Sú fjárfesting, sem fyrirhuguð er í alúmínbræðslu í Straumsvík, nemur hins vegar um 2500 millj. kr. Hin erlenda fjárfesting er því helmingur af verðmæti miðað við allan þann iðnað, sem til er á Íslandi. Í Noregi er erlend fjárfesting innan við 10% af fjárfestingu í iðnaði. En með þessu eina fyrirtæki væri erlend fjárfesting í íslenzkum iðnaði komin í einni svipan upp fyrir 30%. Aðeins þetta eina fyrirtæki kallar yfir landsmenn margfalda áhættu á við þá, sem Norðmenn hafa nokkru sinni leyft sér að taka. Þetta ætti að sýna svo ljóst sem verða má, að erlend stóriðja er algerlega ósamrýmanleg íslenzkum aðstæðum. Hún er og verður í æpandi mótsögn við umhverfi sitt. Ég held, að yfirlýsingar aðalforstjórans, sem ég gat um áðan, um hin einstæðu samningsákvæði, sem hvergi annars staðar þekkjast, sé endanleg sönnun um þá sérstöðu Íslendinga í viðskiptum við aðrar þjóðir, sem ávallt verður að virða, en ráðamenn þjóðarinnar virðast vísvitandi loka augunum fyrir.

Í þessum umr. hefur hvað eftir annað verið á það bent, að efnahagslíf landsins muni ekki eflast mikið við, að útlendingar fái tækifæri til að arðræna þjóðina og flytja úr landi milljónagróða, sem skapaður er með íslenzku vinnuafli. Auðvitað hefur íslenzkt atvinnu- og efnahagslíf því aðeins einhvern verulegan hag af stórrekstri í landinu, að eigendur láti ágóðann og afskriftaféð renna jafnóðum til frekari uppbyggingar íslenzks atvinnulífs. En því hefur einmitt margsinnis verið lýst yfir af stjórnendum Swiss Aluminium, að þeir hyggist taka ágóðann allan út úr landinu, en ekki nota hann til að eignast fleiri atvinnutæki hér á landi. Aðalforstjórinn lýsti því m.a. yfir í blaðaviðtali nú fyrir skömmu, að það væri ekki ætlunin að koma á fót smáiðnaði, sem grundvallaður væri á alúmíni, en hins vegar gæti komið til greina, að veita einhverja tækniaðstoð. Eins og ég sagði áðan, væri þá fyrst hugsanlegt að starfsemi erlends auðhrings gæti orðið til styrktar efnahagslífi landsins, ef ágóðinn og afskriftaféð rynni jafnóðum inn í íslenzkt atvinnulíf. En eins og fram hefur komið, þá mun það ekki verða. Það er ekki ætlunin. Og segi aðeins: Hvílík hamingja, að við erum þó lausir við það! Eða erum við það? Ætli slíkar yfirlýsingar aðalforstjórans hafi í rauninni ýkjamikið gildi, þegar allt kemur til alls. En ég spyr: Gera menn sér ljóst, að verksmiðja eins og þessi, sem er afskrifuð á 25 árum og er 2500 millj. kr. virði og hefur í ágóða hundruð millj. kr. á hverju ári, verksmiðja, sem er 1/3 af allri fjárfestingu Íslendinga í iðnaði, — gera menn sér ljóst, hvað mundi eiginlega eiga sér stað, ef ágóðinn og afskriftaféð rynni jafnóðum í önnur fyrirtæki hér á landi? Þar með hefði það gerzt á fáum árum, að verulegur hluti af íslenzku atvinnulífi væri kominn í eigu erlendra manna.

Í umr. um þetta mál, tel ég, að aldrei sé nægilega minnt á þá staðreynd, að með því að hleypa hinum erlenda auðhring inn í landið eru valdamenn landsins að kalla yfir þjóðina pólitíska íhlutun erlendra aðila, sem aldrei skortir fé á íslenzkan mælikvarða. Sumir virðast þó ímynda sér, að þessir prúðu og kurteisu útlendingar muni standa alla daga með nefið ofan í bræðslupottunum í Straumsvík, en engan áhuga hafa á grautarpotti íslenzkra stjórnmála.

Ég drap á þetta mál í útvarpsumr. fyrir skömmu, og ég vil enn minna á það. Hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, kom inn á þetta atriði núna við 2. umr. málsins og spurði þá, hvort frétzt hefði, að erlendir auðhringir í Noregi ættu dagblöð eða byðu fram til þings, eins og hann orðaði það, eða hefðu afskipti af stjórnmálum. Ég býst við, að hv. þm. geri sér ljóst, að fleira gerist á bak við tjöldin, heldur en við hér á Íslandi höfum vitneskju um. En það er reyndar ekki aðalatriði þessa máls. Kjarni málsins er auðvitað sá, eins og ég hef áður getið hér, að erlend fjárfesting er margfalt minni í Noregi heldur en verða mun á Íslandi með tilkomu þessarar alúmínbræðslu. Bara þetta eina fyrirtæki gerir að verkum, að erlend fjárfesting í iðnaði er allt í einu orðin þrisvar sinnum meiri en hún er í Noregi. Þar af leiðandi hlýtur dæmið að líta allt öðru vísi út hér en þar. En þar að auki er þess að gæta, að þar skiptist samanlögð fjárfesting erlendra aðila á fjöldamörg fyrirtæki. Hv. þm. sagði í sinni ræðu, að það mundu vera 98 erlend fyrirtæki í námugrefti og iðnaði Noregs. En hér er það aðeins eitt fyrirtæki, sem kemur til með að hafa feikileg völd í þjóðlífinu, aðeins eitt. Það hlýtur hverjum hugsandi manni að vera það ljóst, að þá stórvaxa líkurnar fyrir því, að fyrirtækið og stjórnendur þess noti sér aðstöðu sína.

Skylt þessu máli er það, að í ályktun flokksstjórnar Alþfl. um alúmínmálið segir:

Alþfl. telur, að Íslenzka álfélaginu beri að sjálfsögðu að hlíta íslenzkum lögum um skipti við stéttarfélög, en eigi ekki að ganga í samtök atvinnurekenda, iðnrekenda eða annarra sambærilegra aðila og hafa þannig áhrif á kjarabaráttu þjóðarinnar. Er það skilyrði fyrir stuðningi Alþfl. við málið, að svo verði ekki.“

Í þessum orðum kemur berlega fram, að Alþfl. gerir sér þess fyllilega grein, að veruleg hætta er á því, að hinn erlendi auðhringur leitist við að hafa áhrif á íslenzk stjórnmál og á kjarabaráttuna sjálfa. Flokksstjórnin viðurkennir þetta berum orðum í ályktuninni. En lausnin á vandamálinu, lykillinn að því, er sá, að hringurinn fái ekki tækifæri til að ganga í atvinnurekendasamtökin. Í eitt skipti fyrir öll hefur verið komið í veg fyrir það, með því að Alþfl. setur það að skilyrði í ályktun, sem hann gerir. Nú vita auðvitað allir, að þetta skilyrði Alþfl. er auðvitað hvergi til nema í heilabúi þeirra, sem sömdu þessa vitleysu. Ef samningurinn verður samþ. af báðum d. Alþ. og síðan staðfestur af forseta lýðveldisins, þá er hann endanlega löggiltur. Daginn eftir getur Íslenzka álfélagið gengið í Vinnuveitendasamband Íslands og setzt í þann heiðurssess, sem því ber þar. Þegar ritari Alþfl., Benedikt Gröndal. hv. þm. Vestlendinga, kemur svo askvaðandi og segir: Hvað á þetta eiginlega að þýða? Alþfl. gerði að skilyrði fyrir því, að hann samþ. samninginn, að þetta gerðist ekki. Hvað gerist, þegar þm. kemur og ber fram mótmælin? Ja, við vitum allir, að það gerist ekki annað en að það verður hlegið að þessum hv. þm. Skilyrði Alþfl. stóð ekki og stendur ekki undir nafni. Auðvitað er það ekkert annað en óskhyggja. Þegar hv. þm., Benedikt Gröndal, reynir svo að sannfæra þingheim um, að þessi auðhringur muni engan áhuga hafa á íslenzkum stjórnmálum, þá er það auðvitað nákvæmlega sama óskhyggjan. Við skulum vona, að það sé rétt hjá hv. þm. En við verðum hins vegar að gera okkur það ljóst, að það er harla ólíklegt, að sú von standist próf veruleikans.

Ég vil hér líka minna á annað atriði, sem ég gat um í útvarpsumr. fyrir skömmu, en er ákaflega mikilsvert í þessu sambandi. Í sérstakri leyniskýrslu, sem ríkisstj. sendi okkur alþm. fyrir rúmu ári og er víst ekki lengur leyniskýrsla og ég hef vitnað í áður, er minnt á það, að alúmínhringurinn verði að greiða gífurlegt fé í tolla, vegna þess að Ísland sé ekki í Efnahagsbandalagi Evrópu. Í skýrslunni er það sérstaklega tekið fram, ja, ég finn þetta nú ekki í skýrslunni, enda nokkuð stór skýrsla, — en þar er sérstaklega tekið fram, að hringnum sé það svo mikið kappsmál að koma Íslandi í Efnahagsbandalagið, að hann muni jafnvel fús að hækka raforkuverðið verulega, ef af því gæti orðið.

Hver sá, sem eitthvað fylgist með þróun stjórnmála í Evrópu, veit, að slagurinn um innlimun Íslands í Efnahagsbandalagið er sennilega á næsta leiti, sennilega þegar á næsta kjörtímabili Alþingis. En þegar úrslitahríðin hefst, þá er kominn inn í landið fjársterkur útlendur aðili, sem hefur gífurlegra hagsmuna að gæta, hagsmuna, sem metnir eru á hundruð milljóna kr. Og ég spyr: Dettur hv. þm. Benedikt Gröndal í hug, að hringurinn muni láta málið afskiptalaust? Þessir menn hafa víst áreiðanlega sýnt það nú seinustu dagana, að þeir gleyma ekki viðskiptavitinu heima, þegar hagsmunir þeirra eru í húfi. Ég held við getum leyft okkur að segja, að nokkrar millj. í mútufé eru ekki nema skiptimynt í slíku fjárhættuspili, þar sem milljarðar eru í veði. Efnahagsbandalagsmálið er kannske augljósasta — (Gripið fram í: Áttu við mig í þessu sambandi?) Það voru ekki mín orð, enda er mér alls ókunnugt um afstöðu hv. þm. til Efnahagsbandalagsmálsins. En ég var einmitt að segja, að það kynni að vera, að hringurinn mundi ef til vill styðja þá, sem mundu vilja berjast fyrir hagsmunum hans í því máli. Þeir einir fá auðvitað mútufé, sem það mundu vilja þiggja. Hv. þm. veit það jafnvel og ég, að ég mundi ekki trúa slíku á hann. Þetta getur því ekki átt við hann. En eins og ég segi: Efnahagsbandalagið er alvarlegasta dæmið um hugsanlega íhlutun hins erlenda auðhrings, og auðvitað mætti mörg önnur dæmi nefna. Í litlu landi er auðvelt að spinna þræði í allar áttir, og áhrif auðhringsins á íslenzka atvinnurekendur eru vissulega óútreiknanleg.

Ég held ég láti nú staðar numið, enda komið nokkuð fram yfir miðnætti. Það mætti vissulega telja hér fram fjöldamörg atriði enn. En ég vil aðeins minna á kjarna þessa máls, sem ég tel vera þennan: Auðmagn er vald. Erlent auðmagn hlýtur að jafngilda erlendu valdi í landinu. Það er sannleikur, sem hver einasti hv. þm. verður að muna um leið og hann greiðir atkv. um þetta mál.