23.04.1966
Efri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Björn Jónsson:

Herra forseti. Með þeim samningi, sem hér liggur fyrir og fyrirhugað er að veita lagagildi með því sérstaka frv., sem hér er til umr., er farið út á algjörlega nýjar brautir í viðskiptum þjóðarinnar við erlent fjármagn, það er farið út á nýjar brautir í þróun íslenzkra atvinnuvega og jafnvel að því er snertir réttarfar og lögsögu. Í þessum efnum er um svo stórfelld nýmæli að ræða og líkleg til þess að verða fordæmi fyrir öðrum og meiri aðgerðum í svipaða átt og hér er stefnt í, að það er útilokað, að þetta mál verði réttilega metið með þeim hætti einum að líta á það sem einangrað fyrirbrigði, sem enga hliðstæðu kunni að eignast í framtíðinni. Mat á þessu máli sem einangruðu fyrirbrigði í atvinnulegum og fjármálalegum efnum kemur að mínu viti í annarri röð, eftir að menn hafa reynt að gera sér grein fyrir því, hvernig sú nýja stefna er, sem þetta frv. boðar, og þeim fordæmum, sem þessi samningur skapar.

Það er að vísu svo nú, eftir að mál þetta er komið til kasta Alþ., að þá er mjög reynt til þess, a.m.k. af sumum forgöngumönnum þess, að láta í veðri vaka, að ekki séu uppi hugmyndir um annað eða meira, heldur en þessa einstöku aðgerð, og nú um sinn a.m.k. hafa mjög hljóðnað þær raddir, sem á undanförnum árum hafa verið einna háværastar um það, að alúminíumsamningurinn ætti aðeins að verða upphaf annars og meira, ætti að vera upphaf tímamóta, atvinnulegra og efnahagslegra, þar sem horfið yrði í ríkum mæli að margháttaðri þátttöku erlendra fjármagnsaðila í íslenzku atvinnulífi.

Morgunblaðið talar nú ekki þessa dagana um stórfyrirtæki erlendra olíuhringa í landinu og alla þá blessun, sem það mundi færa þjóðinni. Það hefur líka um stund leynt áhuga sínum fyrir erlendu áhættufjármagni, eins og það hét á máli þess, í íslenzkum fiskiðnaði og ráðh. tala nú ekki lengur um það, að hér sé aðeins um að ræða mjóan vísi að því að gera Íslendinga að stóriðjuþjóð með tilstyrk erlendra auðhringa, eins og hæstv. forsrh. gerði síðast í áramótaboðskap sínum í Morgunblaðinu. Þetta virðist benda til þess, að svo höllum fæti sem stóriðjumennirnir áreiðanlega telja sig innst inni standa í umr. um þennan samning einan og sérstakan og hagkvæmni hans fyrir þjóðina, telja þeir sig þó bersýnilega standa enn ver að vígi í þeim efnum að sanna þjóðinni nauðsynina á því að leiða erlent fjármagn til öndvegis í íslenzku atvinnulífi og leggja þar með í hættu atvinnulegt og efnalegt sjálfsforræði þjóðarinnar. En hins vegar getur vist fáum blandazt hugur um það, að hugur þeirra, sem nú ráða stjórnarstefnunni er einmitt sá, sem komið hefur nokkuð greinilega fram á síðustu árum í áróðri þeirra fyrir almennri stefnubreytingu varðandi afstöðu til erlends fjármagns, sífelldu tali þeirra um, að núverandi atvinnuvegir okkar væru á svo veikum grunni byggðir, að það væri höfuðnauðsyn að renna þar undir nýjum stoðum og þeim svo stórum og sterkum, að útilokað væri, að við gætum staðið þar einir að verki með okkar fjármagni og fjármagnsmöguleikum, enda getur mönnum varla blandazt hugur um það, að ef það væri nauðsynlegt og sérstaklega hagkvæmt að leysa ákveðið verkefni, í þessu tilfelli raforkuframkvæmdir Suðvesturlands, á þann hátt, sem hér er stefnt að, hlýtur það einnig og ekki síður að koma til álita, og hlýtur reyndar að vera sjálfsagt, að leysa líka önnur fjárhagsleg og atvinnuleg viðfangsefni á líkan hátt. Og þá vaknar spurningin um það, hvar bæri þá að stöðva þá þróun mála, svo að erlendir fjármagnsaðilar yrðu ekki stöðugt stærri hluttakendur og stærri yfirráðasveitir í atvinnulífi okkar og þjóðlífi. Því hafa forgöngumenn þessa máls varla reynt að svara á annan veg en þann, að aðrar þjóðir leyfðu erlendu fjármagni verulega þátttöku í atvinnurekstri sínum og því hlyti slíkt einnig að geta gengið hér og getað reynzt vel hér. En þessir menn vita þó auðvitað eins vel og aðrir, að í þeim efnum skapar smæð okkar þjóðar okkur algjöra sérstöðu, sem gerir okkur á allan hátt ósambærilega við aðrar þjóðir. Eða hvað halda menn t.d. um það, hvaða augum yrði litið á það í Noregi, ef þar kæmi fram hugmynd um að reisa þar í landi með einum samningi 20 alúminíumverksmiðjur af þeirri stærð, sem hér er rætt um, en slík framkvæmd þar mundi vera hliðstæð þeirri, sem hér er rætt um, ef tillit er tekið til fjölmennishlutfalls þjóðanna og jafnvel enn stærri, ef tekið er tillit til stærðar iðnaðarins í hvoru landinu fyrir sig. Ég held, að það þurfi varla getum að því að leiða, að á slíkt yrði litið þar sem fullkomna fásinnu og algert óráð frá öllum sjónarmiðum séð, jafnvel þó svo væri, að samningakjör út af fyrir sig væru hagstæð og engum sérstökum eða annarlegum skilmálum bundin.

Með þeim alúminíumsamningi, sem hér liggur fyrir, væri erlendum auðhring heimilað að ráðast hér í fjárfestingu, sem nema mundi 2500 millj. kr. a.m.k. þegar á allra næstu árum, og sú fjárfesting yrði stærri í sniðum miðað við samanlagða fjárfestingu okkar sjálfra í atvinnuvegum, heldur en þekkt er nokkurs staðar í Vestur-Evrópu um erlenda fjárfestingu, en miðað við allan samanlagðan þjóðarauð okkar væri hér um að ræða, að sem svaraði 1/20 hluti hans yrði þá kominn í eigu útlendinga. Útflutningsverðmæti alúminíumbræðslunnar mundi nema upp undir eða um 1400 millj. kr. á ári, en það svarar til milli fjórða og fimmta hluta útflutnings okkar, eins og hann nú er.

Þó að þetta sé ekki útlistað nánar, er þó auðsætt, að á okkar mælikvarða er hér um að ræða strax í upphafi að gera erlendan auðhring að mjög stórum og mikilvægum þátttakanda í efnahagslífi Íslendinga. Um framhaldið er auðvitað allt óvissara, en það er þó augljóst og ekki umdeilanlegt, að ekki þyrfti að gera marga slíka samninga til þess að svo væri innan tíðar komið, að erlend auðfélög hefðu hér tögl og hagldir á mjög mörgum sviðum atvinnulífsins og um leið á sviði íslenzkra efnahagsmála.

Með slíkum samningi sem þessum væri svo jafnframt því, sem grundvallarreglur okkar, okkar gætilegu grundvallarreglur varðandi erlent fjármagn, væru þverbrotnar, skapað fordæmi fyrir frambúðarframkvæmd þessarar nýju stefnu, sem stjórnarflokkarnir eru nú að ryðja brautina fyrir, og ég veit það, að þetta er forgöngumönnum alúminíumsamninganna, a.m.k. mjög mörgum, vel ljóst, a.m.k. hafa þeir af þeim, sem þetta ættu að taka til greina, verið aðvaraðir greinilega um þetta efni.

Hæstv. iðnmrh. vísaði hér mjög til skýrslu Steingríms Hermannssonar, framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs ríkisins, en hann hefur mjög unnið að þessu máli, fór m.a. til Noregs á vegum stóriðjunefndar í nóv. s.l. til þess að kynna sér norsk viðhorf og reynslu í sambandi við rekstur alúminíumverksmiðju, og fyrst hæstv. iðnmrh. hefur svo mjög vitnað til þessarar skýrslu, ætla ég, að mér leyfist einnig að gera það, en um þetta efni, þ.e.a.s. fordæmið, sem yrði skapað með þessum samningum, segir Steingrímur Hermannsson í þessari umtöluðu skýrslu: „Aðspurðir áttu menn“, þ.e.a.s. norskir aðilar, sem hann ræddi við um stóriðjumálin, og ég skal ekkert draga undan um þetta efni, sem þarna er sérstaklega fjallað um. „Aðspurðir áttu menn eðlilega erfitt með að gera sér grein fyrir því, hvort hér væri um æskilega framkvæmd fyrir okkur Íslendinga að ræða. Flestir lögðu þó áherzlu á, að mikilvægt væri að fá slíkan iðnað inn í landið, það væri ómetanlegt fyrir framtíðina. Hins vegar vöruðu þessir sömu aðilar við því, að sá samningur, sem nú er gerður, hlyti að vera fordæmi fyrir öðrum skyldum í framtíðinni.“

Þeir vöruðu við því. Hér fer ekkert á milli mála um þá skoðun hinna norsku sérfræðinga, að með þvílíkum samningi sé ekki aðeins um einangraða aðgerð að ræða, heldur stefnu, sem verið sé að móta um það, hvaða almennum skilmálum enn frekari fjárfesting erlendra aðila eigi að lúta í landinu í framtíðinni, hvaða stöðu hún eigi að öðlast í fjármála- og atvinnulífinu. Ég tel víst, að þegar hinir norsku sérfræðingar viðhöfðu þessi ummæli, hafi þeim verið orðið fullljóst, að samningarnir við Swiss Aluminium, sem þá voru komnir á lokastig að mörgu leyti og voru í aðalatriðum fullgerðir, væru hvað mikilvæg atriði snertir jafnvel aðalatriði, á allt öðrum grunni reistir, heldur en þeir skilmálar, sem erlend fjárfesting í Noregi á við að búa. En það er ekki kunnugt um annað en að þau fyrirtæki, sem að slíkri fjárfestingu standa þar, lúti yfirleitt eða alfarið norskum lögum og njóti engrar undanþágu eða forréttinda frá þeim skyldum, sem norsk fyrirtæki búa við. Enda mun það vera svo, að sérstök forréttindi erlendra fyrirtækja eða dótturfyrirtækja þeirra, sem er algengasta formið, munu vera næsta vandfundin í Evrópu, og það er því vafalaust, að það er fyrst og fremst gegn þessu, sem verið er að vara í hinum tilfærðu ummælum hinna norsku sérfræðinga. En hér á annan hátt á að hafa. Aðalsamningurinn við Swiss Aluminium er að meginefni upptalning á undanþágum frá íslenzkum lögum og einnig á margháttuðum forréttindum, sem hringurinn á að vera aðnjótandi í hartnær hálfa öld fram í tímann umfram íslenzk fyrirtæki. Svo að ég geti helztu forréttindanna, þó stuttlega hvers fyrir sig um sinn, eru þau m.a. þessi:

1. Algjört tollfrelsi á öllum innfluttum efnum, vélum og búnaði, sem til byggingar verksmiðjunnar þarf.

2. Algjört tollfrelsi á öllum innflutningi, sem með þarf til rekstrar verksmiðjunnar allt samningstímabilið eða í 45 ár.

3. Algjört frelsi frá hugsanlegum útflutningsgjöldum af framleiðslu verksmiðjunnar.

4. Algert frelsi á ráðstöfun alls þess mikla gjaldeyris, sem verksmiðjan skaffar með þeirri undantekningu einni, að Íslenzka alúminíumfélaginu er skylt að geyma á Íslandi fé sem svarar til rekstrarkostnaðar fyrirtækisins í 3 mánuði.

5. Algert frelsi til að flytja úr landi allan hagnað sinn og andvirði fyrningaafskrifta.

6. Trygging fyrir hagstæðara gengi en útflutningsgreinar Íslendinga sjálfra njóta að meðaltali, ef um mismunandi gengi yrði að ræða.

7. Réttur til að hafa í þjónustu sinni erlent starfslið, a.m.k. að vissu marki.

8. Trygging gegn öllum hugsanlegum fyrirmælum laga eða reglna, sem veitt gætu innlendum þjónustuaðilum svo sem innflytjendum og skipafélögum vernd gegn keppni útlendinga í sambandi við viðskiptin við Íslenzka alúminíumfélagið. Hins vegar virðist samningurinn gera ráð fyrir því, að ekkert sé við það að athuga, þó að hinum íslenzku aðilum sé mismunað með greiðslu ýmissa skatta, sem hinir útlendu samkeppnisaðilar í þessum viðskiptum þurfa ekki að greiða. Virðist það t.d. vera svo um söluskattinn.

9. Margvíslegar undanþágur frá ákvæðum laga um hlutafélög.

10. Undanþágur frá flestum ákvæðum íslenzkra skattalaga, þ. á m. frá framtalsskyldu, undanþágur, sem í aðalatriðum eiga að tryggja Íslenzka alúminíumfélaginu, að skattabyrði þess verði ekki þyngd umfram það framleiðslugjald, sem sagt er, að miðað sé við núgildandi skattalög og núverandi verðlag á alúminíum.

11. Hringurinn eða leppfyrirtæki hans fær svo, tryggingu fyrir svo til óbreytanlegu raforkuverði í 25 ár a.m.k., hvað sem líða kann breytingum á kostnaðarverði raforku frá Landsvirkjun á samningstímabilinu. Frá þessu eru þó örlítil frávik, sem ekki geta haft teljandi þýðingu, a.m.k. ekki fyrstu 25 árin, en það er aðeins viðmiðun við rekstrarkostnað Búrfellsvirkjunar, sem þar kemur til, að gæti breytt þessu eitthvað lítilsháttar.

12. Undanþágur fyrir Íslenzka alúminíumfélagið, sem þó er skrásett sem íslenzkt hlutafélag, frá því að lúta íslenzku réttarfari.

Hér er stuttlega yfir málin farið, að því leyti sem undanþágunum við kemur, og er þó hvergi nærri upptalið, því að mörg smærri atriði hef ég ekki minnzt á í þessu sambandi. Meðal forréttinda, sem verður að telja óvenjuleg, eru ákvæðin um mengun, sem hæstv. ráðh. gerði hér að umtalsefni og ég mun koma nánar inn á síðar, en verksmiðjan í Straumsvík er sú eina af 10 álbræðslum þessa svissneska hrings, sem ekki mun hafa hreinsunartæki. En af þessari upptalningu, sem ég hef hér minnt á, þá er strax augljóst, að Swiss Aluminium fær hér algjöra sérstöðu umfram allan annan atvinnurekstur í landinu og það með margvíslegum hætti, og betri kjör á flestum sviðum, sem máli skipta fyrir hann, heldur en nokkur annar atvinnurekstur í landinu, þ. á m. raforku, sem er mörgum sinnum lægri, heldur en það verð, sem íslenzkur atvinnurekstur verður almennt að búa við.

Þó að ekki sé nánar út í þetta farið, vil ég þó segja, að það liggi strax fyrir sem bein afleiðing af þessu, að íslendingar, sem atvinnurekstur stunda, verða að þessum samningum gerðum orðnir annars flokks aðilar í sínu eigin landi. Þannig er nú komið fyrir arftökum þeirra, sem eitt sinn bjuggu til kjörorðið „Ísland fyrir Íslendinga“. Þetta er fyrirmyndin, sem á að skapa fyrir hið erlenda fjármagn, sem kynni að leita hingað í framtíðinni og hæstv. ríkisstj. og formælendur þessa máls hafa svo mjög gyllt fyrir mönnum, hversu mikla blessun mundi leiða af því.

Ég held, að þessi forréttindaaðstaða hins erlenda hrings sé bæði óþolandi fyrir okkur og vansæmandi fyrir okkur, jafnvel þótt færðar væru fram einhverjar verulegar líkur fyrir því, að um einhvern stundarhagnað eða frambúðarhagnað væri að ræða, jafnvel þótt um það væri að ræða, að einhverjir verulegir molar hrytu af borðum þessa útlenda hrings til Íslendinga. En til þess sýnast mér engar líkur benda. Áætlanir þær, sem eiga að sanna þetta og að nokkru verulegu leyti eru birtar í grg. með þessu frv., um þær er það í heild að segja, að þær eru síður en svo trúverðuglegar og yfirleitt ákaflega áróðurskenndar. Þar er um að ræða ýmist beint villandi forsendur, sem þeir gefa sér, sem þar standa að útreikningum, en í öðrum tilfellum vantar stórlega á, að tillit sé tekið til fjölda þátta, sem máli skipta.

Aðalhagnaður okkar af þessum samningi er talinn standa í sambandi við raforkusöluna til hins svissneska hrings. Þó er það nú viðurkennt, sem reyndar er nýtt, nokkurn veginn nýtt í málinu, að kostnaðarverð raforkunnar frá þeirri virkjun, sem fyrirhuguð er, miðað við áætlanir eins og þær eru nú, sé 10.4 aurar rúmir á mótí söluverðinu til hringsins 10.7 aurar. Á þessu hefur orðið athyglisverð breyting frá því í fyrra, þegar hæstv. ríkisstj. eða hæstv. iðnmrh. gaf hér skýrslu um þetta mál, því að þá höfðu sérfræðingar hans reiknað út, að kostnaðarverð raforkunnar frá Búrfelli væri 8.6 aurar kwst., en á þessu eina ári, sem síðan er liðið, hefur þetta færzt upp um 2 aura kwst., — og skyldi það nú ekki geta farið svo, þó að ekki sé nánar út í þetta farið, þegar til lengdarinnar kæmi og reynslan af hinum raunverulega byggingarkostnaði kemur í ljós, að þetta hefði enn hækkað eitthvað ofurlítið?

En sem sagt, miðað við áætlanirnar eins og þær eru nú og sem eru algerar áætlanir að mjög verulegu leyti, eins og hæstv. ráðh. tók hér fram, þá er munurinn ekki meiri en þarna greinir. En ef þetta er reiknað út í stofnkostnaði, þá mundi þetta muna, að mér telst til, 64 millj. kr., sem stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar mætti fara fram úr áætlun til þess að söluverð til hringsins og kostnaðarverð stæði algerlega í járnum, og það kemur reyndar líka heima við það, að áætlaður kostnaður Búrfellsvirkjunar er nú talinn skv. allra nýjustu upplýsingum frá sérfræðingum ríkisstj. 1913 millj. og hefur nú hækkað milli 200 og 300 millj. frá áætluninni, sem sérfræðingarnir gerðu í fyrra, sem leiddi af sér útkomuna um 8.6 aura kostnaðarverð á kwst.

Þessar áætlanir um kostnaðarverðið 10.4 aura eru miðaðar við 25 ára afskriftartíma, 6% vexti á byggingartímanum, tvær varaaflstöðvar 40 mw., sem væru reknar í 6–8 daga á ári með 50 aura olíukostnaði. Þá er einnig gert ráð fyrir í þessum áætlunum 24 millj. til ráðstafana ofan Búrfells og seinni miðlunar í Þórisvatni upp í 86 millj. Með þessum hætti verður kostnaðurinn sem sagt 1913 millj., og mætti fara eftir sömu reglum og hæstv. iðnmrh. gefur. sér, að virkjunin fari 3.5%, eða um 64 millj. fram úr áætlun, þá mundi kostnaðarverð og söluverð hreinlega standa í járnum. En samkv. þeim venjulegu útreikningsreglum, sem hefur verið beitt til þess að athuga um rekstrarkostnað íslenzkra orkustöðva, munar ekki þessum 65 millj., heldur stendur það þá algerlega í járnum. Það hefur venjulega verið reiknað með 10% á ári í vexti og afborganir, og aflögukostnaður yrði þá samkvæmt þessu rúmlega 191 millj., og af því greiðir hringurinn, þegar verksmiðjan er komin í fullan gang, 110 millj. í arð í hæsta lagi. Við þá tölu er hægt að gera mjög miklar aths., sem lækka greiðsluna verulega, en sem sagt samkv. þessari almennu reikningsaðferð, sem hefur verið notuð, stendur söluverð og kostnaðarverð algerlega í járnum, en mætti muna 64 millj., ef gengið er út frá þeim reikningsaðferðum, sem hér er beitt og ég skal út af fyrir sig ekki neitt fullyrða um, hvort geti staðizt.

Það má sjálfsagt deila um það, hvað miklar líkur séu á því, að eitthvað sé við þessa kostnaðarreikninga að athuga. En ég held, að það sé svo margt, sem bendi til þess, að hér sé ekki allt talið í þessum samanburðaráætlunum, að það sé næstum því útilokað, ef ekki algerlega útilokað, að þessar áætlanir standist.

Það er þá í fyrsta lagi við þetta að athuga, að mjög verulegur hluti, um eða nálægt helmingur af kostnaðarverði Búrfellsvirkjunar er byggður á áætlunum, en aðeins nokkur hluti byggður á ákveðnum tilboðum, og þar gæti samkvæmt okkar reynslu varla verið um að ræða breytingar nema til aukins kostnaðar.

Í öðru lagi gæti verið um að ræða meiri hreyfingar á breytilegum kostnaði á byggingartímanum en áætlað er.

Í þriðja lagi gæti verið um það að ræða, að vextir yrðu hærri en ráð var fyrir gert, en þetta byggir allt á því, að öll lán eða lánin að meðaltali fáist með 6% vöxtum. En um þetta liggja ekki fyrir neinar fullnægjandi upplýsingar. Samkv. upplýsingum forstjóra Landsvirkjunar er ráðgert að afla þess fjár, sem þarf til fyrsta hluta Búrfellsvirkjunar, þ.e.a.s. 1538 millj., með þeim hætti að fá lánaðar hjá Alþjóðabankanum 774 millj. kr. með 6% vöxtum og hjá öðrum erlendum aðilum, sem ekki virðist enn vera fullkomlega frá gengið hverjir verði. En reiknað er þó með, að sá hluti hins erlenda fjár, sem ekki kemur frá Alþjóðabankanum, verði með 61/2% vöxtum. En þá er eftir innlenda fjármagnið, sem nemur um 350 millj. rúmum og ekki er vitað neitt um vexti á. En það verður að telja ákaflega ólíklegt, miðað við þau vaxtakjör, sem hér eru í gildi í landinu, að þar geti verið um 6% vexti að ræða. A.m.k. er mér ekki kunnugt um neinar þær fjárfestingarlánastofnanir eða lánastofnanir almennt, sem láni með þvílíkum kjörum. Og auk þess kemur svo sá hlutinn, sem tilheyrði síðari virkjunaráfanganum, sem ekkert er vitað um, hvernig fjár verður aflað til, og því ekki vitað um vaxtabyrðina, en hún skiptir ákaflega miklu máli í þessu sambandi, ákaflega miklu máli. Mér sýnast því allar líkur benda til þess, að vaxtakjör hvað lánsfé snertir verði meiri en hér er gert ráð fyrir.

Í fjórða lagi er í öllum þessum samanburðaráætlunum, sem gerðar eru, reiknað með tekjum frá Íslenzka alúmínfélaginu eða bræðslunni í Straumsvík fyrir 1040 gwst. á ári. En í raforkusamningnum sjálfum er ekki tryggð sala nema á 900 gwst., en þó eru frá því veruleg frávik, því að í truflanatilfellum og öðru slíku fellur greiðsla fyrir raforkuna niður, og gæti þess vegna verið um það jafnvel að ræða, að sala, a.m.k. sum árin, næði alls ekki 900 gwst., hvað þá 1040. Það fer mikið eftir því, hvað truflanirnar eru miklar. En þó að verksmiðjan við Straum væri keyrð á fullu, aldrei yrðu neinar truflanir af nokkru tagi, þá gæti orkunotkun þessarar verksmiðju samt ekki orðið meiri en 1060 gwst., en þarna er aðeins reiknað með í þessum áætlunum öllum, að þetta geti minnkað niður í 1040.

Ég hygg, að gætnir menn í fjármálum hefðu ekki reiknað í sínum áætlunum með miklu hærri tekjum af orkusölunni til álbræðslunnar við Straumsvík en nokkurn veginn er tryggt með samningunum. Og það er a.m.k. vitað, að í stjórn Landsvirkjunar hefur orðið ágreiningur um þetta atriði, og a.m.k. einn stjórnarmaður hefur talið ógætilegt að reikna með tekjum af meiru en 900 gwst., þ.e.a.s. að gera ráð fyrir því, að það geti orðið meira langtímum saman, en hins vegar truflanirnar kæmu þar á móti.

Það hefur komið fram, m.a. í viðræðum þmn. við sérfræðinga, að truflanir af völdum ísa sérstaklega eru óþekkt stærð, og ég minnist þess frá síðasta fundinum, sem ég mætti á í þmn., að þá nefndi raforkumálastjóri, Jakob Gíslason, að hann teldi að vísu hægt að leggja í Búrfellsvirkjun, en hins vegar væri ísvandamálið algerlega óþekkt stærð. Hins vegar teldi hann það fært vegna þess, að jafnvel þótt raforkuverð færi upp í 13 aura kwst., væri samt um hagstæða virkjun að ræða, og vissulega er það rétt. En ef það færi nú svo, að hann reyndist sannspár um það, að truflanirnar gætu orðið meiri en reiknað er með og orkuverðið færi t.d. bara strax af þeirri ástæðu upp í 13 aura kwst., sjá náttúrlega allir, hversu hagkvæmt það er að selja orkuna á 10.7 aura kwst.

Á sameiginlegum fundi álbræðslunefnda beggja d., þegar málið var í athugun hjá hv. Nd., sagði forstjóri Landsvirkjunar, Eiríkur Briem, og það er orðrétt eftir honum haft: „Reynslan getur sannað, að þörf sé á einni varastöð til viðbótar.“ En ein slík varastöð, sem þarna er átt við, er 20 mw. stöð, sem kostar um 60 millj. kr. Það er líka auðsætt af þeim áætlunum, sem eru um varaþörfina, og þeim skuldbindingum, sem gefnar eru í raforkusamningnum um a.m.k. 56 mw. varaafl til handa álbræðslunni, að til þess að fullnægja því duga ekki tvær 20 mw. varastöðvar, og þyrfti þess vegna, þegar álbræðslan er komin í fullan gang, að ganga á það varaafl, sem Íslendingar hafa fyrir sjálfa sig, ef hægt á að vera að fullnægja samningsákvæðunum um 56 mw. til álbræðslunnar án þess að byggja nýja varastöð. Enda segir sem sagt forstjóri Landsvirkjunar þetta: Reynslan getur sannað, að það sé nauðsynlegt að byggja eina varastöð til viðbótar. — Og þó að ekkert annað komi til, eru foknar því sem næst þessar 64 millj., sem ég gat um, að munaði til þess að kostnaðarverð og söluverð stæði í járnum.

Það bætist svo enn við þau 6 atriði, sem ég hef hér nefnt og gætu breytt verulega þeim dæmum, sem sett eru upp í samanburðardálkinum um hagkvæmni orkusölunnar. Olíukostnaðurinn er t.d. áreiðanlega of lágur í áætlununum. Það er reiknað með 50 aurum, enda þótt vitað sé, að olían kosti núna 55 aura, og það er reiknað með óbreyttu olíuverði um allt viðmiðunartímabilið, en hins vegar vitað, að olíuverð fer stöðugt hækkandi á heimsmarkaði, a.m.k. þegar litið er yfir lengra tímabil, og þess vegna er algerlega óraunhæft að reikna með föstu verði á olíunni.

Þá er reiknað með því, að þessar olíustöðvar, sem eru ákaflega dýrar í rekstri, þurfi aðeins að reka 6–8 daga á ári, og verður það að teljast með ólíkindum miðað við það, að hér er um rennslisvirkjun að ræða og alveg sérstaka og mikla örðugleika í sambandi við ísvandamálið. Þeir sérfræðingar, sem hér dvöldu svo á vegum Sameinuðu þjóðanna við rannsóknir á ísvandamáli í Þjórsá, hafa bent á þörf á miklu meiri aðgerðum ofan Búrfells en gert er ráð fyrir í áætlununum og jafnvel svo að skipti mjög miklum upphæðum.

Þá er loks þess að geta í sambandi við þessar samanburðartölur allar, sem um þetta eru gerðar, að ég fæ a.m.k. ekki betur séð, — ég er að vísu ekki verkfræðingur og alger leikmaður í þeim efnum, — en það sé bundið með samningnum meira af hinu uppsetta afli heldur en verð fæst fyrir gegnum selda orku, því að þar eru skuldbindingar um það að hafa tiltækt ekki aðeins 120 mw. uppsett afi handa álbræðslunni, heldur afl, sem svari til augnabliksgildis 130 megawatta, og utan við orkunotkunartappa á vetrarmánuðunum og lágrennslistímabil, þá er einnig skuldbinding um það, að ofan á þetta skuli koma tiltækt afl, 16% viðbót, 16% ofan á bæði 120 sem það almenna afl, og 16% ofan á 130 sem augnabliksgildi.

Þetta atriði var að mínu viti ekki nægilega skýrt í þmn., og ég vildi vekja athygli á því enn, að þetta yrði athugað betur. Ég hef spurt aðra sérfræðinga en þar voru mættir um þetta, og þeir telja, að það geti vel farið svo, að þetta ákvæði mundi geta þýtt síðar, að við værum raunverulega að ráðstafa afli, ráðstafa orku og afli, sem við annars gætum haft til annarra nota.

Ég hef þá nefnt hér tíu atriði a.m.k., sem gætu gerbreytt flestum eða öllum þeim dæmum, sem hafa verið sett upp um það, að hér standist á söluverð og kostnaðarverð. En þegar talsmenn þessa máls kannske fást að meira eða minna leyti til að viðurkenna það, að hér sé teflt á tæpasta vað, þá er sagt, að þetta sé samt hagkvæmt fyrir okkur, vegna þess að ef við byggjum ekki álbræðslu, þá sé virkjunarfyrirtækið óhagstæðara fyrir okkur heldur en það er með álbræðslu, jafnvel þótt við seljum orkuna undir kostnaðarverði, og það hafa jafnvel verið búnar til nokkuð háar tölur um þetta, 700 millj. nefndi hæstv. iðnmrh. hér áður. En það er alveg með þessar röksemdir eins og hinar fyrri, að hér er margt, sem ekki er tekið með í reikninginn. Það er í fyrsta lagi, að það skiptir auðvitað langmestu í sambandi við þann samanburð, að hér er gengið út frá hinum fyrri hæpnu forsendum, sem ég minntist á og auðvitað hafa algerlega eins áhrif á þetta samanburðardæmi og hin, og það kannske skiptir höfuðmáli, að allt dæmið er skekkt með því, að það er ekki reiknað með neinum möguleikum fyrir okkur að skapa okkur með neinum öðrum hætti orkumarkað heldur en þeim að selja orkuna til álbræðslunnar. En það er vitanlega mál, sem er að miklu leyti óathugað, hvort ekki gæti verið annar orkumarkaður fyrir hendi í landinu, jafnvel þótt hér kæmi ekki til erlendur auðhringur með sinn stórrekstur.

Ég nefni sem dæmi, og það er kannske okkur nærtækast í þeim efnum, að það hefur verið sýnt fram á það með miklum líkum, ef ekki fullkomnum og fullgildum sönnunum, m.a. af einum færasta verkfræðingi okkar, Gunnari Böðvarssyni, að það væri mjög hagkvæmt fyrir okkur að leysa það orkumál ökkar, sem lýtur að upphitun híbýla, með því að taka rafmagnið frá okkar eigin raforku í staðinn fyrir það að flytja inn olíu, og ég hygg, að það sé ekkert ofmælt, að ef að slíkri ráðagerð yrði horfið, þá mundi skapast alveg gerbreytt viðhorf í okkar stórvirkjunarframkvæmdum, bæði markaður, sem þyldi miklu hærra verð en hér er gert ráð fyrir til erlenda hringsins, en væri þó lægri en sá kostnaður, sem við höfum af þessu. Við vitum, að olíuinnflutningur okkar er með stærstu liðum í okkar gjaldeyriseyðslu, og það mætti lækka þennan kostnað um mörg hundruð millj. á ári, ef horfið væri að því ráði að hita þau híbýli í landinu upp með rafmagni, þar sem ekki er aðstaða til þess að koma á hitaveitu, og reyndar sýna útreikningar dr. Gunnars Böðvarssonar, að það eru miklar líkur á því, að raforkan sé hagkvæmari heldur en hitaveita í Reykjavík, þar sem ekki þarf þó annað en bora beint niður í jörðina til þess að fá heitt vatn. En það er auðvitað hægt að búa til ýmsar tölur, ef algerlega ósambærilegir hlutir eru vegnir saman eins og hér er gert, annars vegar reiknað með ákveðnum orkumarkaði sem að vísu er ekki hagstæður, en hins vegar ekki reiknað með neinum orkumarkaði, sem fullir möguleikar eru til að skapa.

Þá eru ýmis smærri atriði, sem ég hef ekki minnzt á, sem varða einnig þetta dæmi. það er t.d. ekki reiknað með því, sem augljóst er og viðurkennt er af öllum sérfræðingum, að truflanahættan er a.m.k. á fyrri stigum Búrfellsvirkjunar miklu minni, ef við virkjum aðeins fyrir okkur sjálfa, þ.e.a.s., ef aðeins væri farið í 70 mw. virkjun, m.a. vegna þess, að þá væri alltaf fyrir hendi meira vatn til þess að skola út ísinn. Þetta vita auðvitað þessir menn, sem búið hafa til þessar samanburðartöflur, en gera það áreiðanlega vitandi vits að leyna réttum staðreyndum um fjöldamarga þætti í málinu, sem miklu geta skipt. Og loks er svo þess að geta í sambandi við þetta allt, að áætlanirnar, samanburðaráætlanirnar, þær eru allar miðaðar við árið 1985, en upp úr því, vegna þess að við erum búnir að ráðstafa þeirri orku, sem þessi tiltölulega ódýra og hagkvæma virkjun skapar okkur, verðum við að ráðast í dýrari virkjanir, og þegar þess er nú gætt, að það er ekki til nú í landinu virkjanlegt vatnsafi upp á meira en 8000–9000 gwst. á ári, sem hægt er að virkja fyrir verð, sem er undir 15 aurum kwst., þá er það auðsætt, að a.m.k. á næstu áratugum þá hljótum við að þurfa, ef við eigum að geta leyst okkar orkumál, að ráðast í miklu dýrari virkjanir heldur en hér er um að ræða, og þá munu allir geta séð það, hversu hagstæður sá samningur er, sem hér er verið að gera, þegar við þurfum að fara að virkja vatnsafl, sem miðað við nútímaverð kostar kannske jafnvel helmingi eða þrisvar sinnum meira en nú er verið að selja orkuna á til langs tíma.

Það eru ýmis önnur ákvæði raforkusamningsins, sem miklu máli skipta. Eins og ég gat um áðan, þá er verðið svo að segja óbreytanlegt í 25 ár. Eftir 15 ár getur það að vísu breytzt í samræmi við breyttan kostnað Búrfellsvirkjunar frá því sem hann reyndist vera þrjú fyrstu árin, en það er augljóst, að rekstrarkostnaður Búrfellsvirkjunar verður einmitt langsamlega mestur á fyrstu árunum, meðan verið er að komast yfir vandamál af völdum ísalaga og kraps, og það er þess vegna afskaplega ólíklegt, að á fyrstu 15 árunum vaxi út af fyrir sig rekstrarkostnaður Búrfellsvirkjunar og þannig fáist ástæða til þess að hækka raforkuverðið.

En sannast að segja minnist ég þess vel, þegar ég sá skýrsluna í fyrra um stóriðjumálið, að maður rak þá fljótt augun í það, að raforkuverðið ætti að miðast við kostnaðarverð Búrfellsvirkjunar, og ég benti sessunaut mínum á þetta, og hann sagði: Þetta hlýtur að vera prentvilla. Það hlýtur að vera átt við kostnaðarverð Landsvirkjunar. Og auðvitað hefði það verið algert lágmark í samhandi við raforkusöluna, að vatnasvæði Þjórsár, a.m.k. vatnasvæði Þjórsár og helzt allar virkjanir, sem Landsvirkjun virkjar á samningstímabilinu, að meðalkostnaðarverðið frá því væri lagt til grundvallar, þegar sölusamningur var gerður til hringsins.

Hæstv. iðnmrh. var hér áðan að bera saman hvernig Norðmenn gætu breytt raforkuverðinu og vildi gera lítið úr því, sagði m.a., að heildsöluvísitala, sem miðað væri við, hefði sama og ekkert hækkað í 15 eða 16 ár eða var það 10 eða 15 ár? Ég skal nú ekki alveg segja, hvort heldur var. En sannleikurinn er sá, að þessi vísitala hefur hækkað mjög mikið og hækkaði t.d. á s.l. ári skv. frásögn Steingríms Hermannssonar, sem hæstv. ráðh. var með í höndunum, þegar hann sagði þetta, um 6 stig á einu ári, úr 103 stigum í 109 eða um rúmlega 5%, milli 5 og 6%. Ef fleira af því, sem hæstv. ráðh. hefur sett í grg. með frv: og byggir sínar ályktanir á, er á álíka traustum grunni byggt eins og þessar upplýsingar, sem hann hér gaf hv. d., þá gef ég ekki fyrir þær, þá býð ég ekki fé fyrir þær.

Nei, sannleikurinn er sá, að þessar áætlanir allar, sem settar eru upp, og þessar háu tölur, sem búnar eru til og reynt er að gylla fyrir mönnum með því að áætla tekjurnar fyrir nógu langt árabil o.s.frv., þær hafa ekki, þegar þær eru athugaðar ofan í kjölinn, neitt gildi, ekki einu sinni sem líkindasönnun fyrir því, að hér sé verið að ráðast í hluti, sem séu Íslendingum hagkvæmir. Og allra sízt, þegar þess er gætt, að hér erum við að gera samning um vöru eða vörujafngildi, sem nú er ekki fáanlegt yfirleitt í Vestur-Evrópu, kannske að Noregi einum undanskildum, á minna en milli 20 og 30 aura kwst. á móti rúmlega 10 aurum, sem á að selja hana á hér. En mér er sagt, að meira að segja sá hringur, sem að þessum samningi stendur, hann sé nú þegar með í athugun að byggja verksmiðjur í Vestur-Þýzkalandi, sem fái raforku frá kjarnorkuotnum, en verðið á þeim er eins og ég sagði varla undir 20–25 aurum kwst.

Þá er sagt; þegar þangað er komið flóttanum í sambandi við röksemdafærslurnar, að þetta sé nú kannske ekki út af fyrir sig mjög hagkvæmt, en við séum þó allar götur að nota auðlindir, sem annars færu forgörðum og séu okkur í raun og veru algerlega ónýtar, því að innan fárra ára þá komi kjarnorkan til skjalanna og þá sé fossaflið og vatnsaflið á Íslandi einskis virði.

Ég held, að það sanna í þessu máli sé það, að ekkert liggi fyrir um þetta í dag og meira að segja engin líkindi til þess, að raforka frá kjarnorkuofnum geti orðið samkeppnisfær við a.m.k. betri hlutann af okkar vatnsföllum á næstu áratugum eða jafnvel árhundruðum. Og jafnvel þótt svo kynni að fara, að kjarnorkan yrði meðal stórra þjóða notuð almennt sem orkugjafi, þá eru engar líkur til þess, að það mundi vera hagkvæmt fyrir litla þjóð eins og Íslendinga að reisa svo stórt orkuver, sem þar er um að ræða, því að nú í dag er það ekki til í málinu að reisa kjarnorkuofna nema af slíkri stærð, og það væri algerlega útilokað fyrir okkur a.m.k. næstu hundrað árin að ráðast í slík fyrirtæki fyrir okkur. Þegar þess er gætt, að vatnsafl okkar er engan veginn óþrjótandi, heldur mundi að mestu leyti verða notað á næstu 50–60 árum, það sem vel er virkjanlegt, þá er greinilegt, að við erum að ráðstafa hér náttúruauðæfum, sem við höfum fulla þörf fyrir og munum þurfa að nota undir öllum kringumstæðum á litlu lengri tíma heldur en þessi samningur á að standa eða jafnvel á samningstímabilinu. (Gripið fram í : Við fáum það aftur.) Já, já, þá eftir 45 ár kannske, en ekki fyrr. En það er svo aftur eins og ég sagði áðan, að allur samningurinn er af því tagi, að hann verður því óhagstæðari sem lengra líður, og það er einmitt af þeirri ástæðu, sem allt talið er, að það er eins og allt stoppi 1985, það er eins og allt stöðvist þá, töflurnar má ekki gera lengur, vegna þess að þá fara þær að sýna verri útkomu fyrir okkur.

En svo er þetta mál nú botnað þannig í grg. frv., að ef einhver hagnaður yrði, sem menn gera sér nú áreiðanlega ljóst, hversu líklegt er eða hitt þó heldur, þá á hann ekki að koma fram í raforkuverðinu til neytenda, það er alls ekki meiningin, og þannig er fokið um algerlega það, sem hæstv. ráðh. var að segja um 28% lægra verð, ef við réðumst í þennan samning og seldum til álbræðslunnar. Í grg. er þvert á móti skýrt tekið fram, að það komi a.m.k. fullkomlega eins mikið til greina að yfirfæra þennan hagnað á síðari virkjanir, en hann eigi ekki að koma fram í raforkuverðinu skv. þeim till., sem hafa verið uppi fram að þessu í stjórn Landsvirkjunar um raforkuverð til Íslendinga, þá bendir ekkert til þess, að þessi hagnaður, þó að hann yrði einhver, sem ég að vísu álít, að ekki muni verða, hans sjáist stað í raforkuverðinu næstu ár.

Fjárhagslegur ávinningur eða tap af þessum samningi, hann er, eins og menn gera sér ljóst, aðallega bundinn við raforkusöluna og söluna á íslenzku vinnuafli. Ég hef nokkuð gert að umtalsefni og gert grein fyrir mínum skoðunum, hversu hagkvæmur muni reynast okkur samningurinn um raforkusöluna, en vil þá aðeins örlítið víkja að sölunni á vinnuaflinu.

Það er í fyrsta lagi þá þess að geta í sambandi við það, að það virðist vera nokkuð mikið á reiki áætlanir og ágizkanir um það, um hve stórfellda ráðstöfun á vinnuafli er hér að ræða, og það er kannske ekki að undra, þó að þetta sé svolítið á reiki, því að það er samtímis reynt að gera sem allra minnst úr því, að við séum að selja íslenzkt vinnuafl, og reynt er að íála líta svo út sem það séu sem allra fæstir, sem við glötum frá íslenzkum atvinnurekstri, en hins vegar sem mest úr tekjuhorfunum. En í áætlunum, sem um þetta eru, þá er gert ráð fyrir því, að til rekstrar bræðslunnar þurfi 450 manns. Steingrímur Hermannsson segir hins vegar í sinni skýrslu eftir athuganir sínar í Noregi, að þar hafi verið álit manna, að það væri ekki undir 550–600 manns, sem þyrfti í slíka verksmiðju.

Hins vegar benda tölurnar um gjaldeyristekjurnar af sölu vinnuafls og þjónustu til þess, að hér sé um að ræða allt að því helmingi hærri mannatölu heldur en 450 manns. Ég skal ekkert fara út í það að fullyrða, hvort réttara er, en mér sýnist auðséð, að ef tölurnar um gjaldeyristekjurnar af sölu vinnuaflsins eru réttar, þá hljóti hér að vera um að ræða miklu meira vinnuafi en 450 manns, og ég held raunar, að það sé það sanna í málinu, að það kunni að vera út af fyrir sig rétt, að hér sé um upp undir það eins miklar gjaldeyristekjur að ræða eins og gert er ráð fyrir. Ég skal a.m.k. ekkert vefengja það, því að mér þykir sannast að segja miklu líklegra, að þegar allt kemur til alls og athugað er allt það, sem er í kringum svona verksmiðju, allt það vinnuafl, sem þarf til ýmissa óbeinnar þjónustu við þetta fyrirtæki, þá sé hér um stórfellt hærri tölu að ræða eða allt að helmingi hærri en hér er gert ráð fyrir.

Það er auðvitað atriði út af fyrir sig, sem þarfnast rækilegrar athugunar, hvort það geti verið hagkvæmt fyrir okkur að selja útlendingum vinnuafl fyrir það kaup sem gengur og gerist í landinu, við skulum segja vinnuafl, sem lægi einhvers staðar á milli 600 og 1000 manns, og binda það fólk í slíkum störfum. Hagkvæmni þessa í framtíðinni hlýtur nokkuð að byggjast á því, hvaða skoðun við höfum á getu íslenzkra atvinnuvega til þess að skaffa okkur lífvænleg kjör, en reynsla okkar hefur nú verið af því síðustu árin, að við erum nú meðal tekjuhæstu þjóða í heiminum með okkar íslenzku atvinnuvegum, og þetta hefur verið mjög dregið fram m.a. af hæstv. ráðh. Það er ekki lengra síðan en í síðustu útvarpsumr. frá Alþingi, að hæstv. forsrh. gat um það, að þjóðarauður okkar hefði vaxið frá árinu 1958, minnir mig, um 50%. Hvernig skyldi þessi þjóðarauður hafa skapazt öðruvísi heldur en sem hagnaður af okkar atvinnurekstri? Hann hefur skapazt vegna þess að gróðinn af atvinnurekstrinum, bæði sá beini og óbeini, hefur orðið eftir í landinu, en hefur ekki verið fluttur burt til Sviss eða til annarra landa. Það er auðvitað svo, að við íslenzka atvinnuvegi þá er það ekki aðeins kaupið klippt og skorið, sem kemur til Íslendinga, heldur er það einnig hagnaðurinn, sem atvinnureksturinn skapar, bæði í gegnum skatta og tolla, sem hann greiðir, og gegnum hreinan hagnað af rekstrinum, og það er þannig sem þjóðarauður okkar hefur farið vaxandi. Ég held, að það væri fróðlegt, að þeir menn, sem mest hafa lagt sig fram um að búa til gylltar samanburðartöflur í þessu. máli, þeir settu það dæmi upp, hvað þjóðarauðurinn okkar væri líklegur til þess að vaxa mikið, ef við byndum allt okkar vinnuafl í álíka arðbærum atvinnurekstri fyrir okkur eins og alúminíumverksmiðjuna við Straum, og ég er a.m.k. fyrir mitt leyti ekki í neinum vafa um, hvernig það dæmi mundi líta út. Við höfum í einu tilviki reynsluna af hagkvæmni þess að selja vinnuaflið beint út úr landinu, þ.e.a.s. í sambandi við rekstur Keflavíkurflugvallar og framkvæmdir þar, og við vorum einu sinni með þrjú þúsund Íslendinga þar í vinnu. Ég hef engan heyrt halda því fram, að sú verzlun, sá útflutningur á vinnuafli, sú sala á vinnuafli, hafi raunverulega verið þjóðhagslega hagkvæm, en hins vegar vitað, að hún skapaði margan þjóðhagslegan vanda fyrir okkur og margan efnahagslegan vanda.

Ég vil víkja hér örlítið að kenningu forgöngumanna þessa máls um stóru árgangana í sambandi við vinnuaflsþörfina. Ég held, að það, sem hefur verið sagt um þá og hins vegar um vinnuaflsþörf þeirra framkvæmda, sem hér er verið að ræða um, þá sé mjög málum blandað, að ekki sé meira sagt. Ég vil byrja á því að minnast á það, að í grg. eða í töflunum, sem Efnahagsstofnunin hefur gert um þessa stóru árganga, þá kemur greinilega í ljós, ef það er athugað ofurlítið niður í kjölinn, að árgangarnir, sem eru að koma á vinnumarkaðinn núna á næstu árum, eru sáralítið stærri en þeir árgangar, sem við höfum verið að fá til starfa á undanförnum árum. Árið 1962 var aukning atvinnufólks skv. þessum töflum Efnahagsstofnunarinnar tæplega 900 manns, 900 karlar. Árið 1964 voru þeir 945, árið 1965 voru þeir 1062, árið 1966 945, en á næstu árum til 1970, þá fer þessi tala hæst upp í 1198 menn, og þessar tölur eru fengnar með þeim hætti að gera ráð fyrir því, að sama hlutfallstala skili sér á árgöngunum eins og verið hefur að undanförnu, sem er þó ákaflega hæpið, vegna þess að málum okkar er svo háttað, að stöðugt fleiri af ungu fólki, sem skiptir þarna mestu máli, á aldrinum frá 16 til 20 ára, er í skólum eða að undirbúa sig á margvíslegan hátt undir lífið með öðrum hætti heldur en að taka þátt í atvinnulífinu, og þess vegna er líklegt, að þessir stóru árgangar minnki af þeim sökum, en jafnvel þótt við gerðum ráð fyrir alveg sams konar hlutfallstölu eins og þarna er lagt til grundvallar, þá er ekki um neina teljandi stóra árganga að ræða á því tímabili, þegar vinnuaflsþörfin verður mest í sambandi við þessar framkvæmdir, sem hér er fyrirhugað að gera.

Í áætlunum um mannaflaþörfina komast sérfræðingarnir að þeirri furðulegu niðurstöðu, að það jafnvel geti farið svo, að til allra þessara framkvæmda samanlagðra þurfi ekki meira en 670 menn á árinu 1967 og 835 menn á árinu 1968. Hins vegar liggja núna fyrir, voru núna lagðar fyrir álbræðslunefndina, nýjar áætlanir um þetta, sem sýna, að á árinu 1967 er gert ráð fyrir 520 mönnum við Búrfellsvirkjun eina og á árinu 1968 sömu tölu, að vísu ekki alveg allt árið, en meginhlutann af árinu, og væru þá ekki eftir nema eitt eða tvö hundruð menn, sem ættu að vinna við framkvæmdirnar við Straum.

Ég held, að þessar áætlanir séu alrangar. Ég minnist þess í því samhandi, að þegar við í þmn. komum til Husnes í Noregi á sl. sumri, þá voru þar í vinnu 1250 menn, og vafalaust hafa hundruð manna verið þá einnig í vinnu annars staðar á vegum verktaka við þessar stórframkvæmdir. Að vísu var þarna líka um höfnina að ræða, og það er auðvitað sjálfsagt að geta þess, að þarna í Husnesi var um það að ræða að byggja verksmiðjuna í einum áfanga, og það skiptir auðvitað verulegu máli, ef hins vegar kæmi samanburður um að vinna þetta í fleiri áföngum hér, en ég verð nú að segja það sem mína skoðun, að ég tel ákaflega líklegt, að alúmínhringurinn leitist við að hraða þessum framkvæmdum meira, og það eru í raun og veru opnaðar leiðir til þess í samningnum, það er ekkert, sem bendir til annars heldur en að hann muni hafa beina hagsmuni af því að koma verksmiðjunni í fullan gang fyrr en gert er ráð fyrir, og þess vegna er næsta sennilegt, að framkvæmdir verði hraðari og krefjist miklu meiri mannafla en gert er ráð fyrir.

En reynsla okkar um þessa stóru árganga, sem hafa verið að koma inn á vinnumarkaðinn á undanförnum árum, hefur verið sú, að við höfum þurft á þeim að halda í okkar eiginn atvinnurekstur, og þeir hafa ekki einu sinni dugað okkur. Eins og hæstv. ráðh. viðurkenndi búum við nú þegar við stórfelldan vinnuaflsskort í landinu, og við gerum það þrátt fyrir þessa stóru árganga, sem hafa verið að koma inn á vinnumarkaðinn á þessum síðustu árum. Og ég verð að segja það, að ef maður lítur til þeirra verkefna, sem blasa við í landinu, bæði almennra framkvæmda, sem nú verður að telja, að séu í lágmarki, og til þeirra miklu verkefna, sem við getum haft við okkar hefðbundnu atvinnuvegi, þá eru engar líkur á því, að á næstu árum komum við til með að hafa afgang af vinnuafli til þess að selja útlendingum. Við höfum þurft á þessum stóru árgöngum að halda, og við þurfum þá framvegis, þó að engin stóriðja komi til. Og ég er a.m.k. viss um það, að þessir árgangar skila okkur varanlegri arði í þjóðarbúið, ef við nýtum þá við okkar eigin atvinnurekstur, t.d. að reyna að nálgast það mark, sem fiskimálastjórinn okkar, Davíð Ólafsson, var að tala um núna ekki alls fyrir löngu, að það lægi fyrir okkur að tvöfalda útflutningsverðmæti þjóðarinnar með því að nýta aflann með svipuðum hætti og almennt gerist meðal fiskveiðiþjóða í VesturEvrópu.

Þar fyrir vil ég alls ekki segja það, að stóriðja geti ekki komið til greina undir neinum kringumstæðum fyrir okkur. Ég álít, að þó að okkar hefðbundnu atvinnuvegir hafi reynzt okkur vel og betur en stóriðjuþjóðunum hefur reynzt sinn rekstur almennt á undanförnum árum, þá geti það vel komið samt sem áður til greina, að við hverfum að því fyrr eða síðar að taka upp einhverjar tegundir stóriðju, en að mínu viti kemur hún vegna smæðar okkar þjóðar aðeins til greina á íslenzkum eignarréttargrundvelli og ekki í stærra mæli en vinnuafl okkar og fjármagn og fjármagnsmöguleikar standa til á hverjum tíma.

Ég mun nú fara að leitast við að stytta mál mitt, en það er auðvitað margt annað í sambandi við þessa samninga en hin beinu hagsmunaatriði, sem ástæða væri til að ræða um og athuga niður í kjölinn. Ég gat hér áðan um það furðulega fyrirbrigði, að þetta yrði eina verksmiðjan í eigu Swiss Aluminium-hringsins, sem ekki væri skylduð til að setja upp hreinsitæki og látið við það sitja skv. samningnum að kveða svo á, að Íslenzka alúminíumfélagið skuli vera ábyrgt fyrir tjóni, sem kann að leiða af mengun lofts, skemmdum á eignum og öðru slíku, en um þetta segir á bls. 12:

„lSAL skal bera fulla ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýzt af gastegundum og reyk frá bræðslunni utan við svæðið með ummáli reiknuðu frá miðju bræðslukerasalarins í fyrsta áfanga bræðslunnar, sem sýnt er á uppdrætti 2.“

Og síðan er sagt:

„ISAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.“

Og loks er sagt, að ISAL skuli sjálft framkvæma reglulegar athuganir með vissu millibili á gróðri, efnum og eignum í fyrir fram ákveðnum athugunarstöðvum. Það er hvergi sagt í þessari grein það, sem hæstv. ráðh. var að halda hér fram áðan, að hringurinn sé skyldugur að byggja hreinsitæki við verksmiðjuna, ef tjón verður. Það er aðeins sagt, að hann skuli vera ábyrgur fyrir því, og eftir venjulegum skilningi orða mætti skilja það svo, og ég skil það svo, að það þýði það, að í vissum tilfellum gæti verið um það eitt að ræða, að hringurinn væri skyldugur til þess að greiða tjón, greiða tjónið, sem beint yrði af þessu, án þess að það leiddi til þess, að hann yrði skyldaður til þess að setja upp hreinsitæki, því að um það er ekkert. Ef svo hefði verið, að það væri átt við það, að hringurinn væri skyldugur til þess að reisa hreinsitæki, ef einhver skaðleg áhrif frá bræðslunni kæmu í ljós, því má það þá ekki standa í samningnum? Hvaða ástæða er til þess, að það er þá ekki tekið fram? Það hlýtur eitthvað að liggja á bak við það, og það getur ekki verið annað, sem þarna liggur á bak við, heldur en það, að ef það kostar hringinn minna að bæta tjónið með beinum peningum til þeirra, sem verða fyrir skaðanum, þá á ekki að reisa hreinsitækin. Það kæmi ekki til fyrr en tjónið næmi svo miklu, að það yrði dýrara fyrir hringinn að borga það heldur en að reisa hreinsitæki sem kosta 100 millj. kr., og ég verð að segja það, að það er ekki há upphæð í samanburði við þann rekstur, sem þarna á að fara fram. Þetta er milli 6 og 7% af eins árs útflutningsverðmæti frá álverksmiðjunni við Straum, sem þarna er um að ræða í eitt ár at 45, sem hann á að hafa þarna aðstöðu. Það er ekki heldur sagt, að ISAL „skal“ gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar. Það er ekki sagt „skal“. Hann „mun gera“, það er viljayfirlýsing nánast frá hringnum, að hann muni gera það, en ekki skylda. Og loks er svo ákveðið, að dótturfyrirtæki hringsins sjálft skuli annast rannsóknir með því að taka sýnishorn af gróðri, efnum og eignum, í samvinnu við hlutaðeigandi rannsóknastofnanir. Í Noregi er þetta þannig, að rannsóknirnar eru framkvæmdar af opinberri hálfu, en kostaðar af dótturfyrirtæki Swiss Aluminium, og í því felst auðvitað mikið öryggi, að við framkvæmum rannsóknimar sjálfir, en treystum ekki viðsemjandanum, sem á fjárhagslega undir því, að rannsóknirnar sýni sem minnstan hugsanlegan skaða. Sú vartærni hefði a.m.k. ekki sakað, að þetta verkefni hefði verið lagt í hendur íslenzkra rannsóknastofnana, en ekki viðsemjandans sjálfs og honum raunverulega þarna selt meira og minna sjálfdæmi um það, hvað út úr þessu kæmi. En það þykja ástæður til þess í Noregi að gera athuganir á þessu í allt að 20 km fjarlægð frá bræðslunum.

Það hlýtur svo líka að vekja athygli, a.m.k. þeirra, sem ekki eru með einhverja glýju fyrir augunum af allri þeirri dýrð, sem af þessum samningi stafar, að þessar rannsóknir á aðeins að binda við gróður, efni og eignir. Það er hvergi minnzt á það, að það eigi að athuga heilsufar fólksins, sem verður að vinna í námunda við þetta fyrirtæki eða í því. Það virðist vera aukaatriði, en hins vegar mundi það þarfnast þarna rannsóknar, ef t.d. Hafnfirðingar hættu að sjá út um gluggana hjá sér vegna þess að glerið yrði matt, en það er kunnugt, að flúorreykurinn hefur þau áhrif á gler, og það er ein af hinum skaðvænlegu áhrifum, sem hann getur haft.

Um það atriði í þessum samningum, sem lýtur að réttarfari og lögsögu,ætla ég ekki að ræða mikið. Við erum svo heppnir að eiga hér í deildinni prófessor í stjórnlagafræðum, og ég a.m.k. tel það ráð fyrir aðra óbreytta dm. að bíða ofurlitið með sína dóma, þangað til þeir hafa leitt saman hesta sína um þau efni hæstv. iðnmrh., sem sjálfur er lögfróður maður, og hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ), en það verð ég þó að segja sem leikmaður í þeim efnum, að undarlega kemur það heim við þær hugmyndir, sem ég hef gert mér um merkingu 2. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, að dómendur fari með dómsvaldið, undarlega kemur mér sá samanburður fyrir augu annars vegar og hins vegar sá háttur, sem hér á að hafa, að íslenzkt fyrirtæki, fyrirtæki, sem skráð er íslenzkt skv. íslenzkum lögum, þ.e.a.s. Íslenzka alúminíumfélagið, að það geti skotið málum sínum til erlends dómstóls. Ég verð að segja, að það er í mínum leikmannsaugum lítið samræmi þarna á milli, og aldrei hafði ég skilið þetta svo, að það gæti verið um útlenda dómendur að ræða, sem ættu að fara með dómsvaldið skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Um þetta hafa verið höfð sterk orð m.a. af hálfu hv. 3. þm. Norðurl. v., svo sterk orð, að hann sagði, að undir þetta gæti engin fullvalda þjóð skrifað, en ég mun sem sagt fylgjast af áhuga með þeim umr., sem um þetta fara milli þeirra manna, sem betur hæfir að kljáist um þetta.

En ég vildi leyfa mér í sambandi við þetta sem alger leikmaður að spyrja hæstv. ráðh. um annað atriði, sem ekki hefur borið eins á góma í sambandi við réttarfarið, hvaða þýðingu 35. gr. um meðferð fjárfestinga hafi að því leyti sem þar eru tekin upp efnisákvæði stjórnarskrárinnar um eignarréttarvernd. Hvað á það að þýða að setja inn í 35. gr. samningsins efnislega ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarréttarvernd og þjóðnýtingu? Er það kannske gert til þess, að það geti verið úrskurðaratriði fyrir erlendan dómstól hvað sé almenningsheill á Íslandi eða ekki? Er það kannske gert til þess, að ekki verði dæmt eftir þessu ákvæði sem stjórnarskrárákvæði hjá okkur, ef það kynni að fara til erlends dómstóls, heldur sem samningsatriði í þessum samningi, en skv. samningum ber fyrst að líta á samninginn sjálfan. Það gæti þá, sýnist mér, verið hugsanlegt, að þegar stjórnarskrárákvæði eru tekin þannig beint inn í samninginn, þá yrði ekki litið á þau sem slík þar, heldur sem samningsákvæði og gæti þess vegna verið fjallað um þau af erlendum dómstól sem samningsákvæði, en ekki sem stjórnarskrárákvæði í okkar landi. (Forseti: Ég vildi nú aðeins spyrja hv. þm., hvort hann hefur nærri lokið ræðu sinni.) Já, ég mun nú reyna að stytta mjög mál mitt. (Forseti: Það þyrfti að fara að fresta umr.) Ég hef áhuga fyrir því líka, en ég verð enn að biðja hæstv. forseta að hafa örlitla biðlund með mér. Ég skal reyna að vera eins stuttorður og ég get.

Þessi samningur hlýtur, — svo að ég reyni að fara fljótt yfir það mál, sem ég á eftir, — hann hlýtur að hafa margvísleg áhrif, þjóðfélagsleg, atvinnuleg og efnaleg. Hann þýðir alveg vafalaust, samningurinn og þær framkvæmdir, sem í kjölfar hans mundu koma, stórfelldan straum fólks til þéttbýlissvæðisins hér við Reykjavík, og hann mundi þýða stóraukið kapphlaup um vinnuaflið, sem þegar er ónógt miðað við þau verkefni, sem er að vinna í landinu, og ég vil segja það, að sú friðþægingaraðgerð, sem hæstv. ríkisstj. hyggst gera til þess að jöfnuð séu metin varðandi straum fólksins hingað til þéttbýlissvæðisins um atvinnujöfnunarsjóð, hann nær ekki tilgangi sínum að því leyti og getur aldrei vegið upp á móti því aðdráttarafli, sem slíkar stórframkvæmdir hlytu að leiða af sér. Og slíkar framkvæmdir ásamt stóraukinni samþjöppun fólks hér í þéttbýlinu við Faxaflóa hljóta svo að verða stórkostlegur verðbólguvaldur í efnahagslífinu. En verðbólgan er eins og við vitum eitt mesta vandamálið, sem við eigum við að etja og einn versti þrándur í götu raunhæfra kjarabóta fyrir almenning í þessu landi.

Ég vil svo einnig segja það, að ég tel, að þessi samningur, að tilkoma erlends auðhrings inn í landið muni hafa ýmis önnur áhrif, sem ástæða væri til að ræða hér nákvæmlega um, og ég hef sérstakan áhuga að ræða um, þótt ég hafi ekki tíma til þess nú, og það eru áhrif hans á vinnumarkaðinn að því leyti sem þessi hringur verður áhrifaaðili annaðhvort í samtökum vinnuveitenda í landinu eða við hlið þeirra í kjaradeilum verkafólks. Ég hef áður rætt það atriði þessa máls hér á hv. Alþingi, og tímans vegna þá vísa ég til þess, sem ég hef um það sagt. Ég tel líka nokkurn veginn auðsætt, að þessi hringur eða a.m.k. þeir, sem hann setur fyrir sig til þess að stjórna Íslenzka álfélaginu svonefnda, að þeir mundu fljótlega sem umboðsmenn hringsins fá ýmsar stjórnmálalegar „interessur“, sem þeir mundu reyna að rækja til sem mestra hagsbóta fyrir sína yfirmenn. Það má vel vera, að forstjórar Swiss Aluminium standast þá freistingu að skipta sér af íslenzkum stjórnmálum, en reyna að hafa bein eða óbein áhrif á íslenzk stjórnmál í sambandi við rekstur sinn hér og hagsmuni sína hér. En ég treysti ekki leppunum, sem þeir ætla að setja fyrir sig, til þess að reyna ekki það, sem þeir geta til þess að hafa áhrif í þeim efnum. Enda er reynslan sú hvarvetna þar sem hringavald hefur orðið sterkt í atvinnulífinu, erlent hringavald, þá hafa pólitísku áhrifin verið nokkurn veginn í réttu hlutfalli við fjármagnið, sem þeir hafa lagt í atvinnureksturinn, og eru t.d. þjóðir Suður-Ameríku eitt gleggsta dæmið um það.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns tel ég þó, að sú stefnubreyting, sem þetta frv. mundi boða, sé algert meginatriði þessa máls, meginatriði, sem hlyti að móta afstöðuna til þess, jafnvel þótt um einhverja stundarhagsmuni væri að ræða, sem ég allt þó ekki vera til að dreifa. Þessa stefnubreytingu í atvinnumálum og viðskiptum við erlent fjármagn, sem það felur í sér að hleypa erlendu fjármagni í stórum stíl inn í landið til beinnar þátttöku í atvinnurekstri í landinu og leyfa því síðan hömlulausan útflutning þess arðs, sem íslenzkt vinnuafi skapar úr íslenzkum auðlindum, þessa stefnu teljum við Alþb.-menn hættulega og höfum varað við og vörum við afleiðingum hennar. Við teljum það vera óhæfu, að erlendum auðhring séu veitt margvísleg forréttindi umfram Íslendinga sjálfa og íslenzkan atvinnurekstur. Við vörum við þeim áhrifum, sem þessi samningur hefur á efnahagskerfið og vinnumarkaðinn í landinu. Við teljum þennan samning á flesta grein óhagstæðan og að því er einstök samningsákvæði snertir vansæmandi fyrir Íslendinga. Við teljum hann engan vanda leysa en vera líklegan til þess að auka á margvíslega erfiðleika og vandkvæði og skapa hættulegt fordæmi. Og af þessum ástæðum leggjum við áherzlu á, að þessi samningur verði felldur hér á hv. Alþ. En það teljum við svo hins vegar algert lágmark pólitísks siðgæðis, að samningurinn yrði borinn undir kjósendur í landinu við þjóðaratkvgr. Hér er um slíka grundvallarstefnubreytingu á mörgum sviðum að ræða, að það er ekki verjandi fyrir nokkra ríkisstj. eða tæpan þingmeirihluta að láta hana koma til framkvæmda án þess að þjóðin öll fái að láta vilja sinn í ljós, né heldur sé það fært fyrir nokkra ríkisstj. eða hæpinn þingmeirihluta að binda hendur þjóðarinnar og réttra stjórnarvalda í hálfa öld fram í tímann með þeim margvíslegu og varhugaverðu skuldbindingum, sem sjálfur samningurinn hefur að geyma. Til slíks hefur hvorki ríkisstj. né þinglið hennar nokkurt umboð frá þjóðinni.