29.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. l. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Sú sérstaka n., sem kosin var til að fjalla um þetta mál í þessari hv. d., athugaði þetta frv. aðallega í samvinnu við tilsvarandi n., sem kosin var í hv. Nd., en hélt einnig einn fund milli umr. hér til könnunar sérstaklega á einum þætti málsins, sem ég vík að síðar. Það varð ágreiningur í n., og hv. 10. þm. Reykv. hefur nú gert grein fyrir áliti meiri hl.

Við í 1. minni hl. leggjum til, að samningurinn, sem um er að ræða, verði ekki staðfestur og frv. verði fellt. Ég skal nú gera grein fyrir ýmsum atriðum, sem þetta álit okkar byggist á. Mörg atriði þessa máls eru nú orðin svo mikið rædd, að ég mun ekki hirða svo mjög um að tína þau öll til, en leitast við að ræða nokkur höfuðatriði málsins.

Afleiðingar óðaverðbólgunnar, sem hér er, verða alvarlegri dag frá degi, svo að grundvöllur fyrir heilbrigðum rekstri atvinnuveganna er smám saman að tærast burtu. Verðlag almennra neyzluvara hækkar um þessar mundir mjög ört, svo sem hverjum manni er ljóst, og dýrtíðarskrúfan er í fullum gangi. Orsakir dýrtíðarþróunarinnar eru að sjálfsögðu margvíslegar, m.a. er þær að finna í hallarekstri ríkissjóðs undanfarin ár, en hallarekstur hjá ríkissjóði á þenslutímum er jafnan alvarlegur verðbólguvaldur. Þessi hallarekstur hefur átt sér stað, þrátt fyrir það að fjárveitingar til opinberra framkvæmda hafa verið skornar niður, en það hefur aftur leitt til þess, að framkvæmdir hér innanlands fyrir erlent lánsfé hafa verið vaxandi, hlutur erlends íánsfjár í framkvæmdum hér innanlands. En erlent fé til framkvæmda í landinu hefur einmitt hliðstæð áhrif á verðlagsþróunina og greiðsluhalli hjá ríkissjóði.

Það hefur verið ákveðið með lögum um landsvirkjun frá síðasta ári að ráðast í miklar virkjunarframkvæmdir við Búrfell. Þessar framkvæmdir verða að einhverju leyti unnar fyrir erlent lánsfé, en þær eru bráðnauðsynlegar og óhjákvæmilegar, og þeim verður alls ekki frestað. En jafnframt eru svo hafnar stórfelldar framkvæmdir á vegum erlendra aðila í Hvalfirði. Það fór ekki hjá því, að ég og aðrir tækju eftir því við 1. umr. þessa máls, að hæstv. iðnmrh. lét þau orð falla í þessu sambandi, að til að leysa úr þeim vanda, sem skapaðist á vinnuaflsmarkaðinum í sambandi við byggingu álbræðslunnar, mætti m.a. hnika til um framkvæmdir í Hvalfirði, eins og ég held, að hann hafi orðað það. Þetta var mikilvæg yfirlýsing, sem ég álít, að eigi ekki að gleymast og vildi þess vegna vekja athygli á henni, hversu mikið sem menn vilja svo upp úr henni leggja. En nú á með þessu frv. að bæta ofan á þetta, og heimila erlendum aðilum nýjar stórframkvæmdir á sama tíma og þetta stendur yfir og það getur auðvitað ekki dulizt neinum, hvaða áhrif það hlýtur að hafa á efnahagsþróunina í landinu. En meðan þannig er ástatt í efnahagsmálum þjóðarinnar, teljum við, sem stöndum að því nál., sem ég er að mæla fyrir, að stórframkvæmdir á vegum erlendra aðila hér á landi séu ekki tímabærar, hvað sem svo öðru líður.

Við höfum einnig talið það, að ef framkvæmdir af þessu tagi eigi að koma til greina í landinu, eigi þær að vera liður í skipulegri framkvæmd heildaráætlunar um atvinnuuppbyggingu í landinu. Engin slík heildaráætlun liggur fyrir. Framkvæmda- og þjóðhagsáætlun, sem hér kom fram fyrir 3 árum, hefur reynzt pappírsgagn. Hún nær nú í fyrsta lagi aðeins til opinbera sektorsins, sem kallað er, en af þeirri skýrslu, sem nýlega hefur verið flutt um framkvæmd hennar á undanförnum 3 árum, kemur glögglega í ljós, að þar stendur ekki steinn yfir steini. Í sumum greinum hefur verið framkvæmt minna en helmingur af því, sem áætlunin gerði ráð fyrir, í öðrum allt að 70% meira. Það segir sig raunar sjálft, að eins og efnahagsþróunin hefur verið hér á undanförnum árum, hefur hún ekki farið eftir neinni áætlun, hvorki þessari, sem ég var að gera að umræðuefni, né öðrum.

En eins og ég sagði, þessar framkvæmdaáætlanir, sem verið er að tala um, lúta aðeins að opinbera sektornum, þær lúta ekki að neinu leyti að uppbyggingu atvinnugreinanna í landinu. Umr., sem fóru fram hér í fyrradag í hv. Sþ. um atvinnuuppbygginguna á Skagaströnd, leiddu t. d, glögglega í ljós það fálm og ráðleysi, sem er ríkjandi hjá ráðandi öflum í þessu efni. En einn þátturinn í skipulegri uppbyggingu atvinnulífsins er auðvitað skipuleg staðsetning atvinnugreinanna í landinu. Það er ljóst, eins og ég mun koma nánar að síðar, að einmitt hér á þessu svæði landsins þurfum við Íslendingar sjálfir mest á raforku að halda, þar sem fjölmennið er mest. Það verður dýrara fyrir okkur að flytja þá raforku úr öðrum landshlutum. Sama er að segja um vinnuaflið hér á Faxaflóasvæðinu. Hér þurfum við mest á vinnuaflinu að halda. Annars staðar er frekar um það að ræða, að eitthvert vinnuafi gæti verið til ráðstöfunar. En að þessum málum er núna um þessar mundir unnið algjörlega skipulagslaust. Það er engum ljóst, hvert stefnt er í þessum efnum, eins og glögglega hefur komið fram.

Ég skal nú snúa mér að því að ræða svolítið um nokkur atriði í sambandi við þetta mál, nokkur atriði þess samnings, .sem frv., sem fyrir liggur, gerir ráð fyrir, að sé staðfestur. Ég ætla fyrst að fara nokkrum orðum um það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í sambandi við skattheimtu frá þessari bræðslu.

Það hefur verið valið það form að láta þessa bræðslu borga framleiðslugjald í stað venjulegra almennra skatta til ríkis og sveitarfélaga. Það hefur verið sagt, að þetta form hafi verið valið, vegna þess að það sé einfaldara að hafa eftirlit með álagningu þess og innheimtu, og í öðru lagi vegna þess, að féð komi fyrr inn, þar sem gera megi ráð fyrir því, að fyrstu 10 árin verði lítill eða jafnvel enginn tekjuafgangur á rekstri verksmiðjunnar. Það er alveg ljóst, að þetta fyrirkomulag, ef það væri gegnfært, hefur vissa kosti, og fyrst þegar þessi háttur á skattinnheimtu kom til umr. í þessu sambandi, var gert ráð fyrir því, að þetta mundi verða gegnfært sem aðalregla án tillits til annarra hluta. Síðar var farið að ræða um ýmis frávik frá þessu, svo sem það, að skattar skyldu ekki fara yfir ákveðinn hámarkshluta, að framleiðslugjaldið skyldi ekki fara yfir ákveðinn hámarkshluta af tekjuafgangi bræðslunnar, og einnig þá á móti, að það skyldi ekki fara niður fyrir ákveðið lágmark. Þetta út af fyrir sig er frávik frá þeirri aðalreglu, sem gæti verið, að hefði vissa kosti. Af þessu leiðir t.d. það, að það verður ekki hjá því komizt fyrir íslenzk yfirvöld að gera sér nákvæma grein fyrir afkomu verksmiðjunnar, og þá er hið einfaldara eftirlit, sem átti að vera annað aðalmarkmiðið, auðvitað ekki nema að takmörkuðu leyti uppfyllt.

Sérákvæði um skattgreiðslur eru í sjálfu sér heldur hvimleið, en út af fyrir sig kannske ekki óþolandi í öllum tilfellum, heldur er það eitt af þeim atriðum, sem eðlilegt er að meta hverju sinni. Hér er að vísu um slæmt fordæmi að ræða, vegna þess að það má þá gera ráð fyrir því, að ýmsir aðrir telji, að þeir gætu einnig fengið einhver sérstök kjör um sínar skattagreiðslur, en út af fyrir sig held ég nú samt, að þessi ákvæði um skattamálin séu langt frá því að vera þau verstu í þessum samningum. Og þó að ég telji, að ákvæðin, sem ég nefndi áðan um hámarksskattgreiðslu við 50% tekjuafgang og lágmarksskattgreiðslu, hafi ekki verið til bóta, heldur þvert á móti, þá hafa síðar í þessari samningagerð verið gerðar nokkrar endurbætur á því atriði, þannig að þessi ákvæði, eins og þau liggja fyrir núna, tryggja okkur 20 dollara á tonn í framleiðslugjald, eftir að verksmiðjan er komin í fullan gang.

Hæstv. iðnmrh. vék að því í ræðu sinni hér við l. umr. þessa máls, að í skýrslu, sem Steingrímur Hermannsson verkfræðingur hefði gefið honum eftir kynnisför í Noregi, teldi hann, að Norðmönnum hefði þótt okkar skattákvæði miklu betri en þeirra og skattar skv. þeim hærri. Mér þykir rétt af þessu tilefni að lesa annan kaflann, sem um þetta fjallar í skýrslu Steingríms. Hann er ekki langur, en hann hljóðar svona:

„Mönnum fannst fróðlegt að heyra um hugmyndir okkar um skatta fyrirtækisins. Aðeins eitt fyrirtæki erlent í Noregi hefur greitt fastan skatt á tonn af framleiðslunni, og eru það kanadísku járnvinnslurnar. Þessu var þó breytt fyrir fjórum eða fimm árum, því að norska ríkisstj. taldi, að skatturinn væri allt of lágur, og var þá tekinn upp skattur skv. norskum lögum, en þó með þeirri breytingu, að hlutfallið á milli innflutts hráefnis og söluverðs var ákveðið.

Ekki bar mönnum saman um það, hvort hér væri um mikinn skatt eða lítinn að ræða, samanborið við þá skatta, sem slíkt fyrirtæki mundi greiða í Noregi. Að vísu gera norsku skattalögin ráð fyrir skatti, allt að 54% af hreinum tekjum, en hins vegar eru afskriftarreglur það hagkvæmar, að hinn raunverulegi skattur verður ávallt töluvert minni. Sérstaklega er það mjög hagkvæmt, að rafefna- eða rafmálmiðnaðurinn getur afskrifað allt að 25% af nýbyggingu á einu ári, ef tekjur leyfa.

Ivar Brunborg, yfirverkfræðingur Norsk Hydro, taldi, að $20.00 á tonn í skatt væri mjög viðunandi, og vakti athygli á því, að norskar alúminíumverksmiðjur hafa yfirleitt ekki borgað meiri skatt. Á sl. ári komust aðeins ríkisverksmiðjumar í Arendal og Sunndalsöre nálægt slíkri skattgreiðslu. Þær borguðu 130.00 norskar kr. á tonn, sem samsvarar um það bil $18.50.

Allar aðrar alúminíumverksmiðjur borguðu töluvert minni skatt. Niðurstaðan verður sú, að $20.00 pr. tonn í skatt sé þolanlegt og svipað því, sem gera mætti ráð fyrir, að slík verksmiðja greiddi í Noregi, en hins vegar nokkru hærra en þær hafa yfirleitt greitt.“

Þannig var nú sú umsögn, svo mér virðist, að hún hafi kannske ekki verið alveg eins afdráttarlaus og hæstv. iðnmrh. hefur viljað vera láta.

Ég sagði það áðan, að þetta skattafyrirkomulag veitti okkur $20.00 skattgreiðslu á tonn, eftir að verksmiðjan væri komin í fulla stærð. Og í tilefni af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér áðan, þegar hann var að tala um 31 dollar og 35 dollara, sem síðar yrðu, þá vil ég taka það fram, að það er í bezta falli einhver von til þess, að það gæti orðið eitthvað meira en 20 dollarar eftir langt árabil, kannske einhvern tíma eftir aldamót. Ég hef ekki orðið þess var, að í umr. fram til þessa hati verið gerð viðunandi grein fyrir því, hvernig þessi skattaákvæði verka. Við hljótum að komast að raun um, að á fyrstu árum bræðslunnar hlýtur að skapast, miðað við þær upplýsingar, sem fyrir liggja, allveruleg skattainnistæða álbræðslunnar hjá íslenzkum yfirvöldum, sem síðar á að endurgreiðast með vöxtum. Til þess að gera grein fyrir þessu sjónarmiði skal ég aðeins rekja ákvæði samningsins um það, hvernig þessar skattgreiðslur eiga að vera.

Það á að borga framleiðslugjald, sem frá upphafi rekstrarins og þar til verksmiðjan nær fullri stærð, sem væntanlega verður á árinu 1974 eða 1975, verður 12.50 dollarar á tonn. Þaðan í frá og þar til 15 ár eru liðin frá byrjun rekstrarins á að borga 20 dollara á tonn í framleiðslugjald. Þaðan í frá og þar til 15 ár eru liðin frá því, að annar áfanginn tók til starfa, — þetta verður væntanlega tímabilið 1984–1986 eða eitthvað því um líkt, — á að borga 27.50, og þaðan í frá og þar til 15 ár eru liðin frá því, að verksmiðjan náði fullri stærð, 31.25 dollara, og síðan 35 dollara. En fari þetta framleiðslugjald fram úr 50% af tekjuafgangi á einhverju almanaksári, þá verður það, sem umfram er, skattinnstæða, sem ávaxtast með 5% vöxtum, þangað til hún yrði endurgreidd, en takmörk endurgreiðslunnar eru sett við það, að endurgreiðslan á að borgast af framleiðslugjaldinu síðar, en þó þannig, að það má aldrei fara niður fyrir $20.00, eftir að það er komið upp í það. Og ekki niður fyrir $12.50, meðan það stendur í því.

Þetta þýðir það, ef ekki verða breytingar á verði framleiðslunnar, sem hefðu í för með sér breytingar á framleiðslugjaldinu, að endurgreiðslan á skattinnstæðu gæti hafizt, þegar framleiðslugjaldið á að hækka upp í $27.50, og þá gæti sú endurgreiðsla numið $7.50 af hverju tonni. Síðar gæti hún svo numið $11.25, og að lokum gæti hún numið $15.00 þessi endurgreiðsla.

En hvað er nú líklegt, að þessi skattinnistæða gæti orðið um það leyti sem endurgreiðsla hennar ætti að hefjast? Það kemur fram í gögnum málsins, að það er gert ráð fyrir því, að tekjuafgangur bræðslunnar verði mjög lítill fyrstu 10 árin, og skv. þeim gögnum, sem ég hef getað kynnt mér, er ástæða til þess að ætla, að hann muni ekki fara fram úr tvöfaldri lágmarksskattgreiðslunni á neinu þessara ára.

Ef nú væri gert ráð fyrir því, sem ekki virðist óeðlilegt, af þessum ástæðum, að skattinnstæða skapaðist á fyrstu 10 árunum, sem næmi mismuninum á framleiðslugjaldinu, sem greitt var á þessum árum, og þeirri lágmarksskattgreiðslu, sem verksmiðjan á ekki að fara niður fyrir, þá telst mér svo til, að skattinnstæða verksmiðjunnar um það leyti, sem hún byrjaði að endurgreiða skattinnstæðuna, gæti numið um 10 millj. dollara. Þetta er æðimikil upphæð að endurgreiða. Hún yrði fyrst endurgreidd með 71/2 dollar á tonn, síðar með 111/2 um árabil og þessari endurgreiðslu mundi ekki verða lokið fyrr en eftir aldamót. Ég leyfi mér þess vegna að halda því fram, að það sé borin von, að skattgreiðslurnar geti í raun farið mikið fram úr 20 dollurum. Þetta finnst mér eðlilegt að komi fram, vegna þess að það hefur verið dregið mjög fram af talsmönnum þessa máls, að skattgreiðslan mundi fara upp í 35 dollara, og mér hefur þótt rétt að benda á þessa hlið málsins. Nú er það út af fyrir sig fjarri mér að gera lítið úr því út af fyrir sig, að verksmiðjan borgi 51,6 millj. á ári, ef hún vinnur með fullum afköstum, eftir að hún er komin upp í fulla stærð, en ég tel bara ástæðu til þess, að við gerum okkur ljóst, að við getum ekki heldur gert ráð fyrir því, að það verði miklu meira. Það er sagt, að með þessu móti borgi þessi bræðsla miklu meiri skatta en innlendir framleiðendur gera, og vissulega þætti flestum innlendum framleiðendum svona skattgreiðsla nokkuð há, en á það er að líta, að þeir eru fæstir af þessari stærð, sem þarna er um að ræða, og auk þess er þeim öllum gert að borga tolla af öllum sínum stofnkostnaði.

Það var skýrt frá því í grg. frv. um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, sem var samþ. hér fyrir 2 árum, að tollar af slíkri verksmiðju mundu nema um 20% af stofnkostnaði. Hæstv. iðnmrh. vildi nú gera minna úr þessu hér við l. umr. og sagði, að tollar hefðu verið svo mikið lækkaðir, en svo mikil er lækkun þeirra nú ekki, að það sé a.m.k. ekki óhætt að segja svona 15–20%, sem innlendir framleiðendur mundu þurfa að borga í tolla af stofnkostnaði verksmiðja sinna, og þegar þetta er haft í huga, kemur í ljós, að allur skatturinn, sem bræðslunni er gert að greiða, er svo sem ekki miklu meira en ávöxtun af þeirri tolleftirgjöf, sem hún fær, og svo er að því að gá, að skattgreiðslur verksmiðjunnar eða viðmiðunin við 50%, viðmiðunin, sem tekin er við tekjuafgang verksmiðjunnar til skattgreiðslu, er tekin eftir að bræðslan hefur verið látin skila hinum svissnesku eigendum sínum öðru eins og skatturinn getur numið fyrir ýmiss konar þjónustu að viðbættum litlum 250 millj. kr. fyrir tæknilega aðstoð við byggingu verksmiðjunnar. Ég held, að það sé nú ekki of mikið sagt, þó að ég fullyrði, að svona upphæðir séu í litlu samræmi við það, sem hæstv. ríkisstj. hefur þótt hæfilegt að skammta íslenzkum verkfræðingum með brbl.

Ég skal með þessu láta útrætt um skattamálin, en undir lok ræðu sinnar hér áðan ræddi frsm. meiri hl. einn þátt þessa máls á þann hátt, að mér finnst fullt tilefni til að gera athugasemd við það. Hann minntist á það, hversu gott það væri, að í samningi þessum er gert ráð fyrir því í 18. gr., að íslenzk framleiðsla, verzlun og þjónusta eigi að njóta góðs af þessu, og sagði hann í því sambandi, að það væri ólíkt betra en í Noregi, þar sem aðeins væri um að ræða viljayfirlýsingu af hálfu Svisslendinganna. Mér þykir því fullt tilefni til þess gefið, að menn fái fullan samanburð á þessum ákvæðum 18. gr. annars vegar og þeim ákvæðum, sem eru í norska konsessjonsbréfinu um tilsvarandi efni. 18. gr. þess samnings, sem hér liggur fyrir, hljóðar þannig:

„Við byggingu og rekstur bræðslunnar skal ISAL veita forréttindi: a) efnum og framleiðsluvörum af íslenzkri gerð og uppruna, að því tilskildu, að þær séu samkeppnisfærar um verð og gæði við efni og framleiðsluvörur af erlendum uppruna, b) þjónustu frá íslenzkum þjónustufyrirtækjum (svo sem verktökum í byggingariðnaði, skipa- og vátryggingarfélögum), að því tilskildu, að þau séu samkeppnishæf um verð og gæði við tilsvarandi erlend fyrirtæki. ISAL mun leitast við að greiða fyrir kaupum á íslenzkum efnum og framleiðsluvörum og skiptum við íslenzk þjónustufyrirtæki með því að haga þannig til afgreiðslutímum og með skiptingu samninga og undirsamninga og á annan hátt, sem félaginu kann að vera fært, en lokaákvarðanir í þeim efnum skulu vera í höndum ISALs. ISAL og ríkisstj. munu í sameiningu taka til athugunar allar kvartanir, er við og við kunna að berast í sambandi við ákvæði þessarar greinar. Til að efla íslenzka verzlun og þjónustuiðnað, sem verzlar með innflutt efni og framleiðsluvörur, mun ISAL kaupa innflutt efni og framleiðsluvörur af íslenzkum kaupmönnum og umboðsmönnum, ef slík kaup eru samkeppnisfær um verð og gæði við efni og framleiðsluvörur, sem ISAL flytur sjálft inn.“

Tilsvarandi ákvæði í leyfisbréfi, sem norska iðnmrn. hefur gefið til þess, að verksmiðjan í Husnes megi leigja afl, eins og það er þar kallað, eða við köllum að kaupa orku, frá ríkisorkuverunum, þar hljóða þessi ákvæði á annan veg. Leyfisbréfið sjálft segir:

„Skv. l. nr. 16 frá 14. des. 1917 leyfist Sör-Norge Aluminium A/S að leigja allt að 130 mw. eða 950 gwst. á ári frá ríkisorkuverunum með þeim kjörum, sem tekin eru fram í fyrirmælum iðnmrn. 26/4 1963. þau kjör, sem ákveðin eru fyrir leyfisbréfinu, eru:“

Svo koma ýmsir töluliðir. Ég ætla að lesa 5. töluliðinn, sem skiptir máli í þessu sambandi:

„Til byggingar og rekstrar þessa rafbúnaðar, véla o.þ. u. l., sem nauðsynlegur er til nýtingar aflsins, skal nota norskar vörur öðrum fremur, svo framarlega sem þær eru jafngóðar erlendri og fáist afgreiddar nógu tímanlega, og þá er gert ráð fyrir, að samið sé um þær tímanlega og verð þeirra sé ekki meira en 10% hærra en verð erlendu vörunnar að tollum meðtöldum. Forsenda er þó, að verðmunur og tollur til samans sé ekki meira en 25% af verði erlendu vörunnar án tolla. Þegar velja skal milli innlendra tilboða, skal velja það tilboð, sem í er fólgin mest norsk vinna og mest innlend framleiðsla hráefna og hálfunninna vara, þó að það tilboð sé dýrara, þegar það bara ekki liggur utan þeirra marka, sem gilda með tilliti til erlendra vara. Viðkomandi ráðuneyti getur veitt undanþágu frá reglum um að nota norska vöru, þegar sérstakar ástæður gera það nauðsynlegt. Umsókn um undanþágur verður að semja ráðuneytinu fyrirfram ásamt öllum upplýsingum, sem nauðsynlegar eru. Ef ákvæði um að nota norskar vörur eru brotin, getur ráðuneytið hverju sinni lagt á leigutakann sekt, sem rennur í ríkissjóð, að upphæð 15% af vöruverðinu. Ráðuneytið gengur út frá því, að leigutaki reyni með öllum hætti að auðvelda innkaup innlendra vara t.d. með því að skipta upp pöntunum eftir föngum og með því að hnika til með afgreiðslutíma og aðra söluskilmála. Þegar um er að ræða innkaup fyrir yfir 5000 norskar kr. á vöru, sem framleidd er í landinu, verður að gera útboð, ef leita skal tilboða erlendis. Í útboðslýsingu skal greina, að þess sé krafizt, að tekið sé fram í tilboðunum, hvort notuð séu erlend hráefni eða hálfunnin efni og þá í hvað stórum mæli. Öll tilboð skal opna samtímis og bóka athöfnina. Sé samið um vöru fyrir yfir 5000 norskar kr., sem framleidd er erlendis, skal strax tilkynna það ráðuneytinu ásamt öllum upplýsingum, sem nauðsynlegar eru, til þess að ganga úr skugga um, hvort skilmálar séu uppfylltir. Þegar ráðuneytið sér ástæðu til, getur það krafizt upplýsinga um það fyrirfram, hvort leigutakinn hafi í hyggju að kaupa vörur erlendis.“

Þannig hljóðar 5. liður skilyrðanna fyrir því leyfi, sem Sör-Norge Aluminium fær til þess að kaupa orku í Noregi. Ég held svo, að menn geti borið þetta tvennt saman, og skal spara mér frekari lýsingar á því.

Ég skal þá koma að því að fara nokkrum orðum um rafmagnsverðið, sem gert er ráð fyrir í þessum samningum og sem mjög mikið hefur verið rætt um, og skal nú, til þess að komast hjá allt of miklum endurtekningum, fara létt yfir þá þætti þess, sem frekast hafa verið ræddir, og aðallega ræða málið frá svolítið annarri hlið en við oftast höfum litið á. Aðalrökin hjá talsmönnum þessa samnings eru þau, að það sé um að ræða mikla hagkvæmni í raforkumálum. Á hinn bóginn er ekki ágreiningur um það, að raforkuverðið er mjög lágt. Ég held, að hæstv. iðnmrh. hafi lýst því yfir í hv. Nd., — ef hann gerði það ekki einnig hérna, — að við höfum orðið að bjóða mjög lágt rafmagnsverð til þess að koma til greina í samkeppninni við aðrar þjóðir, sem vildu bjóða rafmagn. En ef það er svo, virðist mér nú, að ekki sé frítt við, að þarna sé nokkur mótsögn, ef við á annan bóginn verðum að undirbjóða alla aðra í raforkuverði, en á hinn bóginn á svo raforkusalan að vera hagkvæmasta atriðið í þessum samningi. En hvað um það, reikningar hafa verið birtir um það, hversu miklu hagkvæmara sé að selja þessa orku en að virkja bara fyrir heimamarkaðinn, og ég hef áður gert þá útreikninga svolítið að umræðuefni. Hv. frsm. meiri hl. kom svolítið inn á þetta hér áðan og minnti á þessa frægu tölu 860 millj. kr., sem ávaxtaður þessi sparnaður allur ætti að nema á árinu 1985. Hann viðurkenndi að vísu, að fyrir ábendingu mína hefði þessi tala verið leiðrétt um 200 millj., og sagði, að 660 millj. væru ekki heldur neitt til að slá hendinni á móti. Mig langar að taka þessa tölu svolítið til athugunar, þessa tölu, 660 millj. kr. (Gripið fram í.) Er talan ekki rétt? Nú, 180 eða hvað? Það breytir náttúrlega ekki málinu stórkostlega. Við skulum bara segja, að þetta væru 680 millj. Þessi tala er tilkomin þannig, að allar greiðslur eru framreiknaðar til ársins 1985 og þá bornar saman. Nú er það að sjálfsögðu alkunnugt, að til þess að geta borið saman greiðslur, sem fara fram á mismunandi tímum, þarf að færa þær til sama tíma miðað við þá vexti, sem um er að ræða. Um þetta segir prófessor Árni Vilhjálmsson í bók, sem hann hefur nýlega gefið út á vegum Stjórnunarfélags Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að hægt sé að leggja saman stærðir verða þær að vera sambærilegar. Peningastærðir frá ólíkum tímamörkum eru gerðar sambærilegar með því að gera upp virði þeirra á sömu tímamörkum t.d. við upphaf fjárfestingar. Peningastærðir eru þá afvaxtaðar — diskonteraðar — með einhverjum viðeigandi vöxtum, segjum t.d., að þessir vextir væru 10% pro anno — 100 kr. greiðsla á viðmiðunardegi er þá 100 kr. virði, en 100 kr. greiðsla ári síðar hefur virðið 90 kr. 91 eyri á viðmiðunardegi. 100 kr. greiðsla, sem á að falla 2 árum eftir viðmiðunina, hefur virðið 82 kr. og 64 aurar. Með vöxtum og vaxtavöxtum munu 82 kr. og 64 aurar vera orðnar 100 kr. eftir 2 ár. Viðmiðunarmörkin má setja eftir geðþótta. Algengt er að setja þau við upphaf fjárfestingar, og er þá virði framtíðargreiðslu á viðmiðunardegi nefnt núvirði greiðslunnar. T.d. hefur 100 kr. greiðsla, er til fellur eftir 2 ár, núvirðið 82 kr. 64 aurar.“

Hér skýrir prófessor Árni mjög glögglega frá því, sem þarna er um að ræða, nefnilega að færa allar greiðslur til eins dags, en hann vekur jafnframt athygli á því, að peningastærðirnar eru þá afvaxtaðar með einhverjum viðeigandi vöxtum, og viðmiðunin er venjulega við upphaf fjárfestingar, og þá er talað um núvirði greiðslunnar. Þeir, sem þessa útreikninga hafa gert í seinni tíð, hafa hins vegar kosið að miða við árið 1985, og þá hafa þeir komizt upp í 680 millj. kr., eftir því sem ráðh. segir nú og vill ekki fallast á töluna 660, sem hv. frsm. meiri hl. var með áðan.

En hvað er þá núvirði þeirra greiðslna, hvað er virði þeirra greiðslna á árinu 1966, sem eru þetta háar á árinu 1985? Miðað við þá 6% vexti, sem hér er rætt um, er núvirði þessarar greiðsluraðar, ef miðað er við 660, 206 millj. kr., og ef miðað væri við 680, væri það um 212 millj. kr. Ég held, að í þessu sé kannske fólgin skýringin á því, hvers vegna það hefur þótt hentugt að miða samanburð þessara greiðsluraða við árið 1985. Nú vil ég í sjálfu sér ekkert gera lítið úr tölu, sem er rúmlega 200 millj. kr. að núvirði, og allra sízt ef það væri víst, að það væri þannig, að þessi sparnaður fengist, en það er því miður mjög óvíst. Það hefur komið fram óvefengjanlega frá sérfræðingum, sem taka verður mark á, eins og t.d. raforkumálastjóranum sjálfum, að það sé mjög mikil óvissa um þetta atriði. Hann hefur látið sér um munn fara tvívegis í mín eyru og í bæði skiptin á fundum með mörgum fleiri þingmönnum, að þrátt fyrir þessa óvissu teldi hann gerlegt að virkja Þjórsá við Búrfell, en hann hefur um leið undirstrikað þessa óvissu, og hann hefur bætt því við, að hann telji þá virkjun hagkvæma virkjun miðað við íslenzkar aðstæður og virkjunarskilyrði. Hann lét þess jafnframt getið, að þegar hann talaði um hagkvæma virkjun, þá ætti hann við þær virkjanir, sem orkan kostaði innan við 13 aura frá.

Í sambandi við þetta þykir mér rétt að rifja það upp, að hæstv. iðnmrh. sagði í ræðu sinni hér við I. umr. þessa máls, að ef Búrfellsvirkjun færi fram úr áætlun, mundi hún eins gera það, þó að við virkjuðum fyrir okkur eina. Og ekki verður þessu í móti mælt með neinum rökum, en það er þá um leið rétt að benda á það, að með þeim hætti tökum við ekki á okkur að greiða annað en verðhækkanirnar af þeirri orku, sem við notum sjálfir, en ekki hallann á orkusölu til annarra, sem taka tvöfalt meira af þessari orku en við sjálfir.

En ég kem nú að þeirri spurningu, sem ég ætlaði að velta svolítið fyrir mér í þessu sambandi, og það er þessi spurning: Er afkoma þessarar einu virkjunar, Búrfellsvirkjunar, eðlileg viðmiðun um það, hvaða raforkuverð skuli bjóða erlendum fyrirtækjum, sem hér vilja reka orkufrekan iðnað?

Þegar frv. um landsvirkjun var lagt fyrir hv. Alþ. fyrir rúmlega ári, fylgdi því mjög ítarleg grg. Þeirri grg. fylgdi m.a. yfirlit yfir verðdreifingu vatnsafls á Íslandi, sem er mjög athyglisvert gagn. Af því línuriti og þeirri frásögn, sem því fylgir, kemur í ljós, að sú orka, sem við getum virkjað hér á landi við þeim kostnaði, að orkuverðið færi ekki fram úr 13 aurum t.d. — til þess að miða við þá tölu, sem raforkumálastjóri hafði í munni — það orkumagn er ekki svo ákaflega mikið. Það virðist vera svona í kringum 5–6 sinnum meira en það orkumagn, sem nú á að selja með þessum eina samningi, og það er sú orka, sem virkjanleg er með kostnað innan við 13 aura pr. kwst.

Sú orka, sem þarna er um að ræða, mundi ekki endast okkur til eigin notkunar meira en svo sem 30 ár. Og svo erum við fljótt komnir upp í töluvert hærra orkuverð. Það er eðlilegt að spyrja sig þeirrar spurningar, hvaða orkuverði menn hafi yfirleitt gert ráð fyrir í þeim umr., sem hafa orðið um þessi mál t.d. orkusölu til stóriðju á undanförnum árum, áður en þessi samningur, sem hér liggur fyrir núna, kom til sögunnar.

Árið 1962 hélt Verkfræðingafélag Íslands ráðstefnu hér í Reykjavík, sem fjallaði einmitt um raforkumál og hugsanlega stóriðju. Þarna fjölluðu um þetta ýmsir fagmenn, ekki bara á sviði raforkumála og tækni, heldur voru þar ýmsir gestir á þessari ráðstefnu, sem lögðu þýðingarmikil erindi til málanna. Meðal þeirra var dr. Jóhannes Nordal Seðlabankastjóri, sem hélt þarna erindi — eða hann mun nú víst ekki hafa haldið það, því að hann fór í burtu, en hann lét flytja það fyrir sína hönd, — erindi, sem hét „Um stóriðju og fjármál virkjana á Íslandi.“ Hann ræðir þar um þrjár leiðir í sambandi við það að koma hér upp orkufrekum iðnaði. Fyrsta leiðin, sem hann ræðir nú aðeins lauslega, er sú, að erlendir aðilar eigi bæði orkuverin og verksmiðjuna, og um það hafa menn lengi verið sammála hér, að ekki kæmi til greina, og sú skoðun kom að sjálfsögðu fram hjá dr. Jóhannesi Nordal líka. Önnur leiðin, sem hann ræddi stuttlega um, var, að Íslendingar eigi sjálfir bæði orkuverið og verksmiðjuiðnaðinn, en síðan segir: „Ég kem þá að þriðju leiðinni,“ — og það er sú, sem hann gerir mest að umræðuefni, — „að samið verði við erlent fyrirtæki, sem byggir alúminíumverksmiðju, er geri langan samning, t.d. til 20–25 ára, um kaup á raforku.“ Og síðan segir um raforkuverðið:

„Í dæmum þeim, sem sýnd verða hér á eftir um afkomu Búrfellsvirkjunar, er árskw. selt á 25 dollara til allra notenda. Eins og fram kemur síðar, er þetta verð, sem gerir mögulegt að reka orkuver samkv. dæmi 1 án greiðsluhalla, ef allur stofnkostnaður er fenginn að láni.“ Enn fremur segir: „Fyrir alúminíumverksmiðju eru 25 dollarar á kw. ekki óhagstætt verð, enda þótt ekki sé víst, að um það yrði unnt að semja hér á landi. Alúminíumverksmiðjur þurfa að ganga stöðugt og hafa því mjög háan nýtingartíma. Miðað við 8 þús. stundir á ári svarar þetta verð til 3.12 mill pr. kwst., en ef miðað er við 100% nýtingu, þ.e.a.s. við 8760 stundir á ári, er verðið á kwst. 2.85 mill.“

Þetta sagði Jóhannes Nordal þá. Það er ljóst, að engin verksmiðja getur haft 100% nýtingu, og þess vegna er það verð, sem þarna er reiknað með, mjög nálægt því að vera 3 mill eða 13 aurar. Nú segir að vísu dr. Jóhannes Nordal í þessu, að hann telji ekkert vist, að unnt sé að semja um þetta verð. En á hinn bóginn er það hafið yfir allan vafa, að hann hefur talið þetta eðlilegan reikningsgrundvöll fyrir sínu dæmi. Og enn fremur hefur hann séð ástæðu til þess að geta um það, að langur samningur um kaup á raforku væri t.d. til 20–25 ára. Ég get svo til gamans getið þess, þó að það skipti kannske ekki miklu máli í þessu sambandi, að öll þau samanburðardæmi, sem dr. Jóhannes Nordal reiknar í þessu erindi sínu, eru miðuð við núvirði. Ef hann hefði haldið þeim sið áfram, hefði hann ekki fengið 680 millj. út úr sínu dæmi, heldur ca. 210. En þarna var nú líka verið að semja erindi fyrir fagmenn og ekki til þess að birta í Morgunblaðinu.

Annar maður flutti erindi á þessari ráðstefnu, sem mér þykir rétt að geta um. Það var Eiríkur Briem, forstjóri Landsvirkjunarinnar. Hann gerði í erindi sínu að umtalsefni áætlanir, sem þá lágu fyrir um virkjun við Búrfell og virkjun Dettifoss. Það voru að vísu aðrar áætlanir heldur en nú liggja fyrir, en það breytir ekki því, sem er meginatriði þessa máls. Hann segir um þetta í niðurstöðu sinni: „Eins og áður segir, er orkuverðið frá Búrfelli og Dettifossi 13–14 aurar á kwst., og er þá reiknað með varalínu í báðum tilfellum. Þetta verð á orkufrekur iðnaður að geta sætt sig við.“ Og náttúrlega ekki síður, ef varalínur yrðu ekki byggðar fyrst í stað og ef hægt væri að ná betri lánskjörum en reiknað er með. Af þessu virðist mér ljóst, að um þetta leyti reiknuðu menn með því, að eðlilegt orkuverð til erlends stóriðnaðar væri 13 aurar. Og ég vil leyfa mér að halda því fram, að það séu ekki nein rök, sem mæli með því, að þessi mörk hafi lækkað síðan. Það sjáum við m.a. af því, að Alþjóðabankinn taldi ekki annað viðunandi en að raforkuverðið væri hækkað upp í 3 mill fyrstu árin a.m.k. með þeim hætti, sem það var svo gert, að flytja af skattgreiðslunni yfir á rafmagnsverðið. Og þegar við lítum á það, sem ég gat um áðan, hvernig verðdreifingin á virkjanlegri vatnsorku er í landinu, sjáum við það, að það að selja orku í svona stórum stíl á minna en svona ca. 13 aura er ekki bara meðgjöf, heldur líka slæmt fordæmi.

Af því að hér hefur oft verið vitnað til þeirrar skýrslu, sem Steingrímur Hermannsson verkfræðingur gaf hæstv. iðnmrh., þegar hann hafði farið kynnisferð fyrir hann til Noregs, ætla ég að leyfa mér að gera það einu sinni enn, enda er full ástæða til þess að láta skoðanir þess ágæta verkfræðings koma fram í sambandi við þetta, vegna þess að hann mun ýmsum þáttum slíkra mála mjög vel kunnugur og öðrum betur. Ég ætla að leyfa mér að benda á það, sem hann segir um þetta efni, sem ég var nú síðast að nefna, nefnilega það fordæmi, sem gefið er með því að byrja að selja orku til stóriðnaðar á 21/2 mill eða 10.75 aura. Steingrímur segir í skýrslu sinni um viðtöl sín við Norðmennina:

„Aðspurðir áttu menn eðlilega erfitt að gera sér grein fyrir því, hvort hér væri um æskilega framkvæmd að ræða fyrir okkur. Flestir lögðu þó sérstaka áherzlu á þýðingu þess að fá slíkan iðnað inn í landið. Það væri ómetanlegt fyrir framtíðina. Hins vegar vöruðu þessir sömu aðilar jafnframt við því, að sá samningur, sem nú er gerður, hlyti að verða fordæmi fyrir öðrum slíkum samningum í framtíðinni.“

Það er raunar ástæða til þess að minna einnig á það, sem Steingrímur segir í þessari sömu skýrslu um viðhorf Norðmanna til þess raforkuverðs, sem hér er gert ráð fyrir að semja um. Þar segir m.a.:

„Raforkuverðið barst iðulega í tal, og þótti mönnum það verð, sem við höfðum sett upp, lágt. Í Noregi er raforkuverðið ákveðið þannig: Grundvallarverð 1.8 norskur eyrir á kwst., flutningsgjald, sem miðað er við, að vegalengdin sé 50 km, 0.3 norskir aurar á kwst. og skattur 0.2 norskir aurar á kwst., samtals 2.3 norskir aurar pr. kwst. eða 3.2 mill. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að raforkuna megi hækka í sama hlutfalli og 60% af heildsöluvísitölu. Hækkun kemur næst til greina 1972, og er talið, að raforkuverðið verði síðan endurskoðað á 5 ára fresti. Heildsöluvísitalan hækkaði á s.l. ári úr 103 stigum og í 109 stig. Þessu atriði kem ég að aftur, þegar ég ræði um endurskoðunarákvæði raforkuverðsins.“

Ég skýrði frá því hér við 1. umr. þessa máls, að ákvæðin um lagagrundvöll og úrlausn deilumála hefðu ekki fengið sitt endanlega form fyrr en á allra síðasta stigi þessa máls. Þar er öðru máli að gegna um raforkuverðið. Ég geri ráð fyrir, að flestum, sem fylgdust með þessu máli, hafi nokkuð snemma verið ljóst, að samningaumleitanirnar mundu bera að þeim brunni, að verðið yrði 2.5 mill. Okkur framsóknarmönnunum í þmn. þótti því alveg nauðsynlegt að koma við ákvæðum um mjög tíða endurskoðun, sem ekki miðaðist aðeins við breytilegan rekstrarkostnað Búrfellsvirkjunarinnar, heldur einnig við breytilegan virkjunarkostnað í landinu, a.m.k. á orkuveitusvæði Landsvirkjunar, sem við gerum okkur væntanlega vonir um, að verði áður en mjög langt um líður landið allt. Þess vegna var einn liðurinn í þeirri bókun, sem við gerðum á 14. fundi n., sem ég skýrði hér frá við 1. umr., þannig, að samningarnir ættu að miðast við það, að það gjald, sem verksmiðjan greiðir fyrir raforku, nægi í raun til þess, að verksmiðjan standi undir stofn- og rekstrarkostnaði virkjana á hverjum tíma, m.a. með samningsákvæðum um tíða endurskoðun raforkuverðsins.

Í þeim samningi, sem núna liggur fyrir, er ekki um aðra endurskoðun á raforkuverðinu að ræða heldur en í fyrsta lagi þá sem á að fara fram eftir 15 ár og aðeins nær til rekstrarkostnaðar sjálfrar Búrfellsvirkjunarinnar, en ekki til neinna atriða í sambandi við virkjunarkostnað eða almennan virkjunarkostnað í landinu og er þess vegna algert smáræði, og svo þá endurskoðun, sem fara á fram fyrst eftir 25 ár. Þar hefur samningurinn að geyma tvær viðmiðanir, annars vegar þá, að orkuverðið geti hækkað um sama hundraðshluta og orkuverðið til Husnesverksmiðjunnar hefur hækkað, eða það geti orðið sem svaraði 1% af verði alúmíns á hvert enskt pund, en eins og nú er gert ráð fyrir að semja, er raforkuverðið lítið eitt hærra heldur en verðið á einu pundi, mjög lítið hærra eða mjög svipað. Og ef alúmínverðið er tekið til viðmiðunar, þá á að taka til viðmiðunar meðalverð undanfarandi þriggja ára. En þess er að gæta, að það eru hinir svissnesku viðsemjendur okkar, sem eiga að ákveða, hvor viðmiðunin er tekin. Það kemur þess vegna ekki að haldi fyrir Landsvirkjun eða okkur Íslendinga, þó að mjög myndarleg hækkun eigi sér stað á þessu tímabili á raforkuverði í Husnesi, ef ekki hefur átt sér á sama tíma stað veruleg hækkun á álverðinu.

Það var eitt atriði, sem ég verð að nefna í þessu sambandi, sem kom fram í ræðu hæstv. iðnmrh. við 1. umr. þessa máls, og ég verð að leiðrétta. Hann gerði lítið úr þeim endurskoðunarákvæðum, sem gilda í Noregi og sem ég var að lýsa áðan, og taldi, að sú heildsöluvísitala, sem við er miðað, hefði ekki hækkað neitt sem máli skipti að undanförnu. Þá vil ég aftur benda á það, sem ég las hér áðan, að bara á s.l. ári hækkaði hún úr 103 stigum og í 109 eða um 6 stig, 6%. Þarna rétt um hundrað eru stigin, og prósentan er það sama, það þarf ekki að fara út í karp um það, eins og stundum hefur verið gert í sambandi við dýrtíðarvísitöluna, og hækkunin á þessu eina ári réttlætir því hækkun á raforkuverðinu sem nemur 3.6%, þegar kemur að endurskoðun á árinu 1972. (Dómsmrh.: Ef Stórþingið hefur þá hækkað raforkuna.) Ef Stórþingið hefur þá hækkað raforkuna, segir hæstv. ráðh., og þetta er alveg rétt aths. En í þessari sömu setningu, sem ég benti á hér áðan, þá hafði hæstv. ráðh. víst gengið út frá því, segir Steingrímur Hermannsson, sem athugaði þetta fyrir ráðh., að það sé gert ráð fyrir, að endurskoðun eigi sér stað á 5 ára fresti.

Ég held, að það ætti að vera alveg ljóst af því, sem ég rakti hér áðan um verðdreifingu vatnsorkunnar í landinu, að við verðum mjög fljótt komnir það langt á virkjunarbrautinni, jafnvel bara fyrir okkur sjálfa, að við verðum komnir í þær virkjanir, þó að við byrjum á ódýrasta enda, sem kosta 13–15 aura pr. kwst. Mér er spurn: Hvernig getur okkur verið útbært rafmagn til 45 ára á 10.75 aura, ef við vitum það, að á næstu áratugum þurfum við sjálfir að virkja og þá, m.a. vegna þess, að við höfum látið þessa orku, á eina 13 kannske 15 aura?

Það kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. áðan, að við ættum að reyna að nota vatnsaflið, áður en það væri orðið úrelt og annað nýtt kæmi í staðinn. Maður hefur heyrt þessa röksemd áður, að alveg á næstu grösum væru aðrar orkulindir, sem mundu gera okkar vatnsorku verðlausa. Hvað er trúlega til í þessu? Hvað segja þeir færustu menn, sem við höfum á þessu sviði? Hvað segir raforkumálaskrifstofan um þetta, sem tekur fullan þátt í störfum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar og fylgist á þeim vettvangi með framvindu í orkumálum? Í fskj. með þessu merka Landsvirkjunarfrv., sem ég var að geta um áðan og vitna til, er kafli, sem raforkumálastjórnin hefur skrifað um þetta mál. Hann er stuttur og ég vil — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa hann:

„Vinnsluverð raforku frá stærstu nýtízku orkuverum, sem kynt eru með kolum eða olíu, er nú í stærstu löndum Evrópu, svo sem Stóra-Bretlandi, 25–30 aurar á kwst. Svo ódýr raforka fæst þó aðeins í allra stærstu orkuverum, svo sem t.d. í Englandi, þar sem í smíðum eru 2000 millj. kw. stöðvar með 500 þús. til 1 millj. kw. vélasamstæðu. Í Danmörku og Svíþjóð er enn ekki farið að byggja svo stórar rafstöðvar. Stærstu vélasamstæður, sem þar eru settar upp til raforkuvinnslu, eru ekki nema 250–300 þús. kw. Og í öllum löndum er enn tiltölulega lítið af þessum stóru og hlutfallslega ódýru samstæðum, en mjög mikið enn í notkun af eldri og smærri vélaeiningum, þar sem vinnsluverð raforkunnar er til muna hærra.“

Síðan segir:

„Frá kjarnorkustöðvum Evrópu og Ameríku er raforkuverðið enn þá æðihátt, í kringum 50 aurar á hverja kwst. Hins vegar er reiknað með, að innan skamms, e.t.v. á næstu 10 árum, muni verðið frá stærstu kjarnorkuverunum, sem þá verða tekin í notkun, komast niður í 25 aura pr. kwst. eða þar um kring. Er þá einnig um að ræða 500 þús. til 1 millj. kw. vélasamstæður í orkuverum og jafnframt gert ráð fyrir mjög háum nýtingartíma eða 7 þús. klst. eða þar yfir. Ekki eru miklar líkur á því, að raforka frá kjarnorkuverum fari í náinni framtíð að marki niður fyrir þetta verð, og þetta lága verð fæst aðeins frá mjög stórum vélasamstæðum.“

Mér virðist, að með þessu séu af hálfu okkar færustu manna tekin af tvímæli um það, að orkan í fallvötnum okkar er okkur ekki útbær fyrir slikk. Hún er okkur mikils virði til frambúðar, og við eigum að meta gildi hennar rétt, en ekki bjóða hana á of lágu verði.

Herra forseti. Ég skal nú fara að ljúka máli mínu, og draga saman í stutt mál þau atriði, sem mér virðast mestu skipta í þessu sambandi. Og þá get ég gert það með því að gera samanburð á þeim skilyrðum og skilmálum, sem við framsóknarmenn höfum talið, að þyrftu að vera fyrir hendi í sambandi við samninga af þessu tagi annars vegar og hins vegar á ákvæðum þess samnings, sem liggur fyrir.

Við höfum lagt á það megináherzlu, að við teljum erlenda stóriðju í sjálfu sér enga lausn á atvinnumálum okkar og að slíkt komi því aðeins til greina, að það sé liður í skipulegri framkvæmd heildaráætlunar í framkvæmda- og efnahagsmálum okkar. Núna liggur engin slík áætlun fyrir og ríkisstj. er raunar stefnulaus í atvinnu- og efnahagsmálum. Við höfum lagt á það áherzlu, að slíkur erlendur rekstraraðili hér á landi lúti í einu og öllu íslenzkum lögum og þá auðvitað um leið íslenzkri lögsögu. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því að fá útlendan gerðardóm yfir íslenzkt ríkisvald. Ég hef gert grein fyrir því í máli mínu hér áðan, að við yrðum að miða það raforkuverð, sem við seldum fyrir orku í stórum stíl, við virkjunarkostnaðinn í landinu á hverjum tíma. Nú á að miða raforkuverðið til langs tíma við ódýrustu virkjun, sem völ er á í dag. Við höfum talið, að slíkum iðnaði ætti að velja stað í landinu miðað við okkar þjóðarhagsmuni og okkar viðleitni til skipulegrar þróunar byggðarinnar í landinu. Nú á að staðsetja þetta stórfyrirtæki einmitt þar sem þörf okkar Íslendinga sjálfra, eftirspurn okkar sjálfra eftir raforku og eftir vinnuafli er mest. Það er því alveg ljóst, að þessi meginskilyrði eru ekki uppfyllt við þá samningagerð, sem hér er um að ræða. Þess vegna leggjum við til, að samningurinn verði ekki staðfestur og frv. verði fellt. Ég verð enn fremur að benda á það, sem ég nefndi í ræðu minni hér áðan, að þessi samningur felur í sér ákvæði, m.a. þau, sem ég hef verið að ræða, sem eru hættulegt fordæmi fyrir okkur í framtíðinni, raforkuverðið o.fl. og þá ekki síður gerðardómurinn, og af þeirri ástæðu einnig beri að fella þetta frv.