29.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., um lagagildi samnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium um álbræðslu við Straumsvík hefur verið allmjög rætt hérna, og fer ekki hjá því, að um töluverðar endurtekningar verði sjálfsagt að ræða, þegar jafnmiklar umr. hafa farið fram, eins og raun ber vitni um. Ég vil samt ekki láta hjá líða að undirstrika nokkur atriði í sambandi við þetta þýðingarmikla mál.

Með samningi þessum er lagt inn á nýjar brautir í atvinnumálum þjóðarinnar. Það hefur verið ríkjandi skoðun og stefna hér á landi, að landsmenn ættu einir að eiga þau atvinnutæki, sem afkoma þjóðarinnar byggist á. Um þetta hefur fram að þessu enginn ágreiningur verið, a.m.k. ekki opinber ágreiningur. Þjóðin hefur staðið saman um þessa stefnu og byggt þar á þeirri staðreynd, að erlent fyrirtæki geti aldrei jafnazt á við innlent fyrirtæki fyrir þjóðarbúið og sjálfstæði þjóðarinnar, og sjálfstæði þjóðarinnar sé margvísleg hætta búin, bæði efnalega og menningarlega, ef erlendir aðilar ráði hér atvinnurekstri að nokkru ráði. Þetta er bæði gömul og ný reynsla okkar Íslendinga og óþarft að ræða það nánar.

Umr. um þetta stórmál hafa verið tvíþættar. Í fyrsta lagi hefur verið rætt um áhættuna af áhrifavaldi útlendinganna og áhrif hins erlenda fjármagns á íslenzk efnahagsmál og atvinnumál. Í annan stað hafa menn rætt um, hvort hér sé um hagkvæman eða óhagkvæman samning að ræða. Stjórnarandstæðingar hafa talið, að hér væri um óhagstæðan samning að ræða og fært að því mörg rök og að samningnum bæri tvímælalaust að hafna, hvernig sem á hann væri litið. En hvaða ástæður liggja nú til þess, að tekin er upp önnur stefna gagnvart erlendu fjármagni en sú, sem þjóðin fram að þessu hefur staðið saman um og reynzt hefur bezt á umliðnum áratugum í baráttunni fyrir óskoruðum yfirráðum yfir atvinnumálum þjóðarinnar og tryggt þjóðinni efnalegt sjálfstæði?

Sú stefna Íslendinga að byggja sjálfir upp atvinnulíf sitt og nýta sjálfir allar auðlindir landsins hefur gjörbreytt efnahagsstöðu þjóðarinnar, skapað efnalegt sjálfstæði og skapað meiri alhliða framfarir en víða með öðrum og fjölmennari þjóðum.

Því hefur verið haldið fram í umr. og tilvitnunum í sambandi við þennan samning, að undirstöðuatvinnuvegirnir gætu ekki á næstu árum veitt nægilegt svigrúm til þess vaxtar á þjóðarframleiðslunni, sem æskilegur er, þess vegna þyrfti að fara nýjar leiðir.

Íslenzkur sjávarútvegur hefur á undanförnum árum orðið að ganga í gegnum ótrúlegar eldraunir, þrátt fyrir það hefur framleiðsluaukningin í sjávarútvegi á undanförnum árum orðið miklu meiri en það, sem ýmsir efnahagsráðunautar hafa talið, að gæti orðið.

Enda þótt gera megi ráð fyrir, að framleiðsluaukning í sjávarútvegi verði ekki eins mikil á næstu árum og verið hefur undanfarið, er þó augljóst, að ef vilji er fyrir hendi, eru mjög miklir möguleikar á því, að útflutningsverðmæti sjávarafurða verði mun meira en nú er, en til þess þarf a.m.k. vilja til að vinna að þessu. Flestar sjávarafurðir okkar eru fluttar út því sem næst óunnar, fluttar út sem hráefni í stað þess að fullvinna þær. Fiskimálastjóri hefur talið í grein, sem hann skrifaði ekki alls fyrir löngu, að tvöfalda mætti útflutningsverðmæti sjávarafla okkar með því að full vinna hann í stað þess, sem nú er gert. Íslenzkur sjávarútvegur hefur þurft að taka á sig stórkostlegar hækkanir að undanförnu, og nú á einu ári mun allur tilkostnaður m.a. við frystihúsin hafa hækkað um ca. 25%, og allt útlit er fyrir áframhaldandi hækkanir á þessu ári, eins og þróunin í efnahagsmálum blasir nú við. En sé sú skoðun fiskimálastjóra rétt, sem engin ástæða er til að draga í efa, að útflutningur sjávarafurða, sem nú mun vera um 6 þús. millj. kr., geti hæglega tvöfaldazt, ef rétt er á haldið, er sú röksemd haldlaus, að sjávarútvegurinn standi ekki fyllilega að þeim vexti þjóðarframleiðslu, sem ætlazt verður til af honum sem undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.

Ég tek ekki undir neinar hrakspár í sambandi við sjávarútveginn af þessu tilefni. Í sambandi við hann eru svo óteljandi möguleikar, að enda þótt afli minnkaði eitthvað, hljótum við að mæta því með aukinni hagræðingu og tækni. Sjávarútvegurinn verður um langan aldur sá atvinnuvegurinn, sem skapar okkur mestan gjaldeyri, þess vegna er það rangt mat, þegar sagt er, að ekki sé hægt að byggja á sjávarútveginum, svo að hægt sé að bæta afkomu þjóðarinnar til jafns við það, sem gerist með öðrum þjóðum.

Samfara því, sem við aukum tækni okkar í fiskveiðum og fiskvinnslu, nýtum betur hráefni, sem á land berst, verðum við að hagnýta okkur fiskimiðin umhverfis landið og þá ekki sízt að fá viðurkenningu á rétti okkar til landgrunnsins. Samfara eflingu sjávarútvegsins kemur að sjálfsögðu að því, að hér rís upp myndarlegur iðnaður í sambandi við stálskipasmíði, og er þess skemmst að minnast nú, að fréttir berast af því, að víða um land sé verið að reisa dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar.

Stálskipasmíðin gerir okkur færa um að smíða öll okkar fiskiskip, sem við þurfum á að halda sjálfir, í stað þess, sem við höfum verið að gera á undanförnum árum, bókstaflega byggja upp skipasmíðastöðvar erlendis, eins og átt hefur sér stað t.d. í sambandi við ýmsar stöðvar í Noregi. Á því er enginn vafi, að slíkur iðnaður á hér mikla framtíð og hefur mikið efnahagslegt gildi, auk þess sem við vitum auðvitað sjálfir bezt, hvaða skip hæfa okkur bezt. Margt annað mætti nefna í sambandi við aðra atvinnuvegi svo sem landbúnaðinn. Í sambandi við þann undirstöðuatvinnuveg eru óteljandi möguleikar, svo og iðnaðinn, fleiri og stærri verkefni óunnin en við höfum mannafla til að leysa af hendi. Þess vegna eru það sjálfsagðari verkefni að vinna að og mundu vafalaust ekki skila minni arði í þjóðarbúið heldur en við fáum sem vinnumenn erlendra aðila.

Ég hef hér nokkuð rætt um þá atvinnuvegi, sem ráðunautar ríkisstj. telja, að geti ekki skilað nema 5% aukningu á útflutningstekjum næstu árin. Ég er á mjög gagnstæðri skoðun og tel mig hafa leitt að því nokkur rök, að þessir undirstöðuatvinnuvegir verði færir um að veita okkur aukningu á útflutningstekjum til bættrar afkomu þjóðarinnar á mun æskilegri hátt en með byggingu álverksmiðju. Með byggingu slíkrar verksmiðju, sem hér um ræðir, og staðsetningu hennar hér í mesta þéttbýlinu hljóta að skapast mikil vandamál, enda viðurkennt af öllum, að slíkt hlýtur að verða. Þeir landshlutar, sem búa við atvinnuerfiðleika, verða í mikilli hættu vegna stóriðjuframkvæmdanna, sem soga til sín vinnuaflið, því að hér á mesta þéttbýlis- og þenslusvæðinu hefur atvinna verið svo mikil, að vinnuafl hefur bókstaflega verið á uppboði.

Ég tók eftir því í ræðu hv. frsm. fjhn., 10. þm. Reykv., að hann taldi, að það væru miður rökfimir framsóknarmenn, sem hefðu áhyggjur af því, að hér væri of mikið vinnuafl. Það væri sjálfsagt auðleyst verkefni, það væri ekki áhyggjuefni annarra en miður rökfimra framsóknarmanna þetta ástand, sem hér er. Ég held, að það sé nú eitthvað annað. Mig minnir líka, ef mér er ekki farið að förlast allt of mikið, að ég hafi lesið um það um daginn, að vegna mikillar vinnu og manneklu hér syðra, hafi ónafngreint fyrirtæki þurft að ráða til sín erlenda verkamenn til þess að geta sinnt þeim verkefnum, sem þyrfti að vinna að. (Gripið fram í.) Það gæti nú verið, að þetta benti til einhvers annars heldur en frsm. vildi vera láta. Á Faxaflóasvæðinu vantar yfirleitt alltaf vinnuafl, og undirstöðuatvinnuvegirnir munu ekki geta tekið þátt í því kapphlaupi, sem nú þegar byrjar í sambandi við varnarliðsframkvæmdir í Hvalfirði, virkjunarframkvæmdir við Búrfell og í sambandi við framkvæmdirnar í Straumsvík.

Það virðist því miður yfirleitt ekki koma til greina að staðsetja fyrirtækin annars staðar en í mesta þéttbýlinu. Hér á ég við, að ekki alls fyrir löngu var stofnuð verksmiðja í Hafnarfirði, sem nú hefur því miður orðið að loka vegna skorts á hráefni. Ég held nú samt, að ef ætti að segja allan sannleikann um það ævintýri, yrði það varla gert með þeim orðum, að það væri vegna skorts á hráefni, en það er önnur saga, sem ég skal ekki fara út í. En hitt má benda á, að í sambandi við stofnun þeirrar verksmiðju munu ekki hafa verið athugaðir neinir möguleikar annars staðar, jafnvel þó að þar væri um að ræða betri möguleika heldur en virtust vera í Hafnarfirði.

En það virðist sem það sé þó ýmsum ljóst, að þessar stóriðjuframkvæmdir hér muni hafa óheppileg áhrif á dreifbýlið, því að jafnhliða álmálinu er flutt frv. um atvinnujöfnunarsjóð til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Ég skal síður en svo mæla gegn því frv. svo langt sem það nær. En ég held því miður, að gegn þeirri milljarðafjárfestingu, sem kemur til með að eiga sér stað í sambandi við álið, virkjanirnar og varnarliðsframkvæmdir hér syðra, dugi þær 40–50 millj., sem árlega á að ráðstafa nú fyrstu árin, mjög skammt, því að stórframkvæmdirnar dynja svo snögglega yfir allar á sama tíma, að þær koma til með að verka eins og sogdæla á vinnuafl hjá landsbyggðinni. Ég held því miður, að menn geri sér ekki almennt ljóst, hvað lítið má út af bregða til þess að fólksfækkunin víða úti um land verði svo mikil, að atvinnulífi verði ekki haldið uppi af fullum krafti. Það er ekki ástæðulaus ótti, þegar verið er að vara við þeim afleiðingum, sem þessi mikla fjárfesting kann að hafa víðar úti um landið.

Þau efnahagslegu áhrif, sem allar þessar stórframkvæmdir kunna að hafa, eru meiri en svo, að við verði ráðið á auðveldan hátt. Það sannar ástand efnahagsmálanna undanfarin ár.

Í samningi þeim, sem hér um ræðir, eru ákvæði varðandi deilumál. Ég skal ekki hætta mér út á þá hálu braut að fara að ræða um þau spursmál, en þessi ákvæði samningsins skulu gilda, hvort sem ágreiningurinn snertir sjálfan aðalsamninginn, orkusölusamninginn, hafnar- og lóðasamninginn eða aðstoðarsamninginn. Öll þau ágreiningsmál virðast tekin undan lögsögu íslenzkra dómstóla nema samkomulag verði milli aðila um að vísa slíkri deilu til íslenzkra dómstóla. Fyrirsvarsmaður Alusuisse gaf þá skýringu á þessu, að Íslendingum væri varla treystandi til að fara með þessi mál, vegna þess að hann taldi okkur skorta reynslu í þessum efnum. Það er með öllu óvenjulegt, að svona sé um hnútana búið hér. Hér er ekki um venjulegan gerðardóm að ræða. Deilan stendur um það, hvort tveir íslenzkir aðilar, tvö íslenzk fyrirtæki, geti, þegar þau lenda í deilum sín á milli, skotið ágreiningi sínum undir erlendan gerðardóm, ef annar hvor aðilinn óskar þess. Íslenzka Álfélagið á að vera skráð samkv. íslenzkum l. og á að njóta hér réttinda með starfsemi sína sem íslenzkt væri. Ef álfélagið lendir í deilum við Hafnarfjarðarbæ t.d. eða Landsvirkjun getur það skotið ágreiningi til erlends gerðardóms, ef það telur sér það hagstætt, og fengið úrskurð um það.

Í sambandi við Búrfellsvirkjun er þeirri röksemd haldið fram, að óhjákvæmilegt sé, að alúmínhræðsla fylgi Þjórsárvirkjun, að bein tengsl séu á milli, að Þjórsárvirkjun og álbræðsla séu samofin og óaðskiljanleg mál. Slíkt eru að minni hyggju haldlítil rök. Þjórsárvirkjun nú er að flestra dómi ekki stærra fyrirtæki en Sogsvirkjunin var á sínum tíma. Ég hef einhvers staðar séð það fyrir þó nokkuð löngu, og það hefur verið endurtekið nú á prenti, og ég hef ekki orðið var við, að því hafi verið mótmælt, að Írafossvirkjunin hafi á sínum tíma, 1953, kostað um 520 millj. miðað við gengi á dollar, eins og það er í dag. Búrfellsvirkjunin, sem er meira en helmingi stærri, er áætluð um 1100 millj. kr. Miðað við þessar tölur var Írafossvirkjunin örlítið hagstæðari en Búrfellsvirkjunin er nú. En íslendingar eru nú vafalaust miklu betur undir það búnir að ráðast í Búrfellsvirkjun en þeir voru, þegar ráðizt var í virkjun við Írafoss. Þess vegna er það fjarstæða að vera að fullyrða, að Búrfellsvirkjun án álbræðslu sé óhugsandi eða að þetta séu óaðskiljanleg mál. Þjórsárvirkjun er aftur á móti, að því er flestir telja, mjög hagstæð virkjun, og allar líkur benda til, að hið lága raforkuverð til álverksmiðjunnar verði til þess að hækka rafmagnsverð til innlendra aðila a.m.k. fyrst um sinn, þar sem óhjákvæmilegt verður að ráðast í nýja, dýrari virkjun mjög fljótlega.

Ég hef ekkert minnzt á tollaívilnanir og ekki heldur á skattamál. Þetta hefur verið margoft minnzt á, enda er ástæðulaust að vera að fjölyrða um það, því að það verður um hreinar endurtekningar að ræða. En það verður að gera strangar ráðstafanir til þess að ekki verði um ólöglegar ráðstafanir, smygl eða annað slíkt, að ræða í Straumsvík í sambandi við þessa virkjun.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. miklu meira. Ég vil að lokum aðeins taka þetta fram: Með samningi þessum, sem hér liggur fyrir, er farið inn á nýjar brautir varðandi erlent fjármagn, hafnað þeirri stefnu, sem bezt og farsælust hefur reynzt þjóðinni, að Íslendingar sjálfir ættu atvinnutækin, þau, er afkoma þjóðarinnar byggðist á. Í stað þess er farið inn á þá braut, að erlendir aðilar eigi og reki hér atvinnutæki og hirði arð, sem fluttur er úr landi. Íslendingum hefur alltaf gefizt það illa, þegar erlendir aðilar hafa átt hér atvinnutækin. Staðsetning verksmiðjunnar hér í mesta þéttbýlinu mun auka mjög á jafnvægisleysi í byggð landsins. Þessar stóriðjuframkvæmdir samfara miklum varnarliðsframkvæmdum í Hvalfirði koma yfir þjóðina á örstuttum tíma allar í senn og hljóta að verka eins og sogdæla á landsbyggðina, soga til sín vinnuaflið utan af landi. Eftir verða byggðarlög máttvana gegn þessum fjárfestingarframkvæmdum, sem hljóta að auka á dýrtíðina og verðbólguna, þannig að óviðráðanlegt verður með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir allt etnahagslíf í landinu. Með samningi þessum er skapað stórhættulegt tordæmi í samningsgerð við erlenda aðila, sem hlýtur að verða fordæmi við aðra skylda samninga í framtíðinni. Íslendingar hafa mikla og góða möguleika á að auka fjölbreytni atvinnuvega sinna með því að nýta auðlindir hafs og lands til hagsbóta fyrir þjóðina alla. Erfiðasta vandamálið okkar í dag eru efnahags- og verðlagsmálin. Dýrtíðin er hraðvaxandi, stórfelld fjárfesting, sem nemur milljörðum kr., á örskömmum tíma hér suðvestanlands mun valda því, að allt vinnuafl fer á uppboð. Undirstöðuatvinnuvegirnir geta ekki keppt um vinnuaflið á þeim markaði af augljósum ástæðum. Allt tel ég að þetta mundi valda þeim óheillaafleiðingum, að seint yrði bætt. Ég vil ekki taka þátt í þeim leik og fyrir því mun ég greiða atkv. gegn því, að samningar þessir verði staðfestir.