29.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ræða hæstv. iðnmrh. gefur mér nú ekki tilefni til margra aths. Hæstv. iðnmrh. svaraði að mjög litlu leyti þeim aths. og þeirri gagnrýni, sem komið hefur fram af okkar hálfu á þeim samningum, sem hér liggja fyrir. Hann reyndi ekki neitt að svara aths., sem gerðar hafa verið t.d. varðandi raforkuverðið og skattamálin o.fl., sem svo greinilega kom fram, m.a. í ræðu hv. 6. þm. Sunnl. Hann svaraði ekki heldur þeim atriðum mörgum hverjum, sem ég benti á og drap á við l. umr. málsins, eins og t.d. atriðum um mengunina, þ.e.a.s. gerði enga grein fyrir því, hvers vegna það hefði ekki verið gerð krafa um það af hálfu Íslendinga, að sett væru upp þau hreinsitæki, sem víðast hvar annars staðar munu vera í hliðstæðum verksmiðjum, og m.a. munu verða, að því er mér er tjáð, í öllum öðrum verksmiðjum, sem Swiss Aluminium hefur sett upp. Hann gerði heldur enga tilraun til þess að svara þeim aths. og þeim spurningum, sem ég bar fram í sambandi við 35. gr. samninganna og ekki gerði hann heldur tilraun til þess að útskýra það, hvernig þessi útlendi dómur ætti að því nánar að fara samkv. 45. gr. að dæma eftir íslenzkum lögum, eftir lögum, sem sá útlendi dómstóll hefur auðvitað enga sérþekkingu á. Það eina, sem hæstv. ráðh. gerði, var að reyna að leiðrétta viss fyrri ummæli sín varðandi það, sem hann hafði sagt sérstaklega um mig, og að ofurlitlu leyti að reyna að réttlæta þau, en sú tilraun var nú mjög þróttlítil, verð ég að segja.

Ég skal nú reyna að eyða ekki mjög löngum tíma í tilefni af þeim aths., sem ráðh. gerði um það atriði. Hann viðurkenndi það nú, að mér hefði aðeins verið sýnt fyrsta uppkast samninganna. En ráðh. spurði enn: Hvers vegna aðvaraði hann ekki þá?

Ja, hvað stóð í þessu fyrsta samningsuppkasti, að því er varðar gerðardóminn því að um önnur atriði í því uppkasti ræði ég ekki. Ég las greinina upp síðast, 22. gr.,í lauslegri þýðingu, eins og ég þá sagði, og í þessari gr. stendur efnislega þetta: Fyrsta aðalreglan er sú, að deilumál skuli útkljáð af íslenzkum dómstóli. Önnur aðalreglan er sú, að deilumálin skuli útkljáð af íslenzkum gerðardómi, ef allir aðilar samþykkja það. Ef allir aðilar samþykkja að ganga fram hjá reglulegum íslenzkum dómstóli, má leggja málin fyrir íslenzkan gerðardóm. Þessari 2. mgr. sleppti nú hæstv. ráðh. í sinni ræðu hér áðan, hvernig sem á því stendur. Svo kemur 3. mgr. og þriðja reglan þessi, að ef þessi SID-samningur verður fullgiltur af nægilegri tölu ríkja og bæði Ísland og Sviss fullgilda hann, lýsir ríkisstj. því yfir, að hún sé reiðubúin að athuga eða ræða þann möguleika að nota eða hagnýta — mér er gersamlega sama hvort orðið er notað — þá leið til sátta eða gerðar, sem í þeirri samþykkt felst.

Átti ég að aðvara gegn þessu? Nei, ég held nú síður. Ef þessi ákvæði væru núna í samningnum, hefði ég ekki nokkra minnstu ástæðu til að gera aths. við þau ákvæði. Ég skil ekki í, að það hefði nokkur haft ástæðu til að gera aths. við þau ákvæði. Það var ekki í þessu fyrsta uppkasti samið um neinn gerðardóm, það var aðeins gefið í skyn, að ríkisstj. væri reiðubúin að taka til athugunar að nota þann möguleika, sem SlD-samþykktin býður upp á. Og hvað segir SID-samþykktin? Hún segir, að það verði að samþykkja í hvert einstakt skipti, sem tiltekið deilumál á að leggja fyrir þann gerðardóm, sem þar er um að tefla, og það verði að samþykkja hann skriflega. Þetta er nú æðimikið annað en ákvæðin í þeim samningi, sem nú liggur fyrir. (Dómsmrh.: Þú segir það núna, já.) Já, ég segi það núna og hef sagt það alltaf. Hæstv. ráðh. var að tala um, að það hefði ekki legið ljóst fyrir, hvað í samþykktinni mundi vera, þegar þetta uppkast var gert. Þetta hygg ég, að sé nú ekki rétt hjá ráðh., því að samþykktin var, að því er ég bezt veit, alveg fullfrágengin til undirskriftar í jan. 1965, en vitaskuld lá það fyrir áður, hvert efni hennar mundi verða, og auðvitað kom þá ekki annað til mála heldur en að þeir aðilar, sem settu þetta í þetta fyrsta uppkast, vissu fullvel, hvað stóð í henni, hvað mundi standa í henni, þannig að það er ekki hægt að ásaka neinn um það, að hann hafi verið að setja þar ákvæði í þetta uppkast, sem hann vissi ekkert, hvað í fælist. (Gripið fram í.) Já uppkastið. (Gripið fram í.) Þá er nú einhver skekkja komin í tímasetninguna. Ég held, að ráðh. verði að athuga dagsetninguna. Nei, ég held, að það sé nú öruggt. Það liggur þannig alveg ljóst fyrir, að það var ekkert athugavert við þetta ákvæði eins og það var í upphaflega uppkastinu, eina uppkastinu að þessum samningi, sem ég sá, þangað til hann var mér sendur sem trúnaðarmál síðast í marzmánuði.

Hæstv. ráðh. var að reyna að leiðrétta þær dylgjur, sem hann hafði í minn garð í ræðu sinni í Nd., og vildi þá halda því fram nú, að hann hefði þá átt við og verið að tala um fyrsta uppkast að samningnum. Það er auðvitað svo ljóslega rangt, að það tekur ekki tali. Ég held, að það taki því nú varla, að ég sé að þreyta hv. þdm. á því að lesa upp ræðu hæstv. ráðh., en ég hef hana hér í Morgunblaðinu, hún stendur þar. Ég las nú upp úr henni kafla síðast, og ef einhverjir skyldu efast um það, hvað stendur þar, gætu þeir rifjað það upp, svo að ég sé ekki að þreyta hv. þdm. á þeim lestri. En það fór ekkert á milli mála um hvað hæstv. ráðh. var þá að tala. Þungamiðjan hjá honum var þau ummæli, sem ég hafði haft um gerðardómsákvæðin í samningunum í minni ræðu við vantraustsumr. Í vantraustsumr. var ég að tala um gerðardómsákvæði samninganna eins og þeir nú liggja fyrir, og hæstv. ráðh. var í sinni ræðu að tala um gerðardómsákvæðin í þeim samningum, og hann gaf það í skyn alveg ótvírætt, svo að ekki verður um villzt, að þau gerðardómsákvæði hefðu verið sýnd mér. Hann talaði að vísu um fyrsta uppkastið, en hann gaf það í skyn, að þar hefðu verið gerðardómsákvæði og meira að segja gaf það í skyn, að þau hefðu verið sýnu verri heldur en gerðardómsákvæðin eru nú, vegna þess að hann sagði berum orðum, að þessi ákvæði hefðu verið að breytast til batnaðar stig af stigi, og þetta er allt hægt að lesa upp fyrir hæstv. ráðh., þannig að það fer ekkert á milli mála, hvað hann sagði þá. Og hann sagði nú meira, hæstv. ráðh., hann sagði það í þeirri ræðu, að gerðardómsákvæðin og hugmyndin um þau væri upphaflega frá Íslendingum komin.

Í þessari ræðu hæstv. ráðh. við umr. í Nd. eru þrjú ranghermi. Í fyrsta lagi þetta að gefa það í skyn, að mér hafi verið sýnd gerðardómsákvæðin, og gefa það í skyn, að ég hafi með þögninni lagt blessun mína yfir þau. Í öðru lagi það að segja, að gerðardómsákvæðin hafi verið að breytast stig af stigi til batnaðar. Í þriðja lagi það, að gerðardómsákvæðin hafi upphaflega verið komin frá Íslendingum. Það er upplýst í málinu, að allt þetta er rangt og er ekki í samræmi við það rétta í málinu. Hitt gleður mig í sjálfu sér, að hæstv. ráðh. skuli nú segja það bæði beint og óbeint, að hann hafi nú ekki meint þetta, sem hann sagði, að hann hafi ekki viljað gefa það í skyn, að ég hafi látið uppi neitt álit um gerðardómsákvæðin, eins og þau eru nú, eða hafi ekki viljað gefa það í skyn, að mér hafi verið sýnd þau. Hann hafi heldur ekki viljað geta það í skyn, að gerðardómsákvæðin hafi alltaf verið að batna, heldur hafi hann meint, að þau hafi batnað frá því sem þau voru verst í þessu svissneska uppkasti, og mér skilst, að hann hafi ekki heldur meint, að gerðardómsákvæðin hafi upphaflega komið frá okkur.

Þetta er í sjálfu sér ánægjulegt, að ráðh. vill þannig með vissum hætti leiðrétta það, sem hann hefur þó áður sagt í þessu, og það er sjálfsagt að taka það að vissu leyti til greina, vegna þess að mönnum getur orðið það á að segja meira heldur en þeir ætla að segja. En þá hefði hæstv. ráðh. að mínum dómi samt átt að koma nokkuð með öðrum hætti fram á eftir, vegna þess að út af þessum ummælum lagði Morgunblaðið, færði þau í stílinn og jók við, og hæstv. ráðh. gerði ekki aths. við þau ummæli og þær dylgjur, sem Morgunblaðið flutti dag eftir dag. Það hefði hann vitaskuld átt að gera, ef hann hefði talið, að hann hefði ekki meint, ekki viljað segja það, sem hann sagði. Það gerði hann ekki, og það, sem kannske er nú enn þá verra og a.m.k. enn þá athyglisverðara í þessu máli, er það, að eftir að ég hafði rækilega leiðrétt þetta hér á þingi, hefur Morgunblaðið ekki sagt eitt einasta orð um þetta. Það hefði þó verið ástæða til fyrir það að leiðrétta þá sín fyrri svigurmæli, og það hefði ekki verið úr vegi fyrir hæstv. ráðh. að hlutast til um það, að Morgunblaðið hefði gert það. (Gripið fram í.) Já, ég efast ekki um það, að Morgunblaðið flytji ræðu hæstv. dómsmrh. á morgun með viðeigandi hætti og reyni þá að gefa viðeigandi skýringar á þeim straumhvörfum, sem orðið hafa í framsögn hæstv. ráðh. um þetta mál. En hæstv. ráðh. kemst ekki fram hjá því, sem hann hefur sagt um þetta mál, og það liggur alveg ljóst fyrir og liggur svo ljóst fyrir í minni síðustu ræðu við I. umr. málsins, að ég sé í raun og veru ekki ástæðu til þess að vera að endurtaka það hér, vegna þess að þær aths., sem ráðh. gerði hér áðan, högguðu ekki að neinu leyti við þeirri ræðu. Það stendur alveg, sem ég sagði þar, og hæstv. ráðh. gat ekki heldur gert neina alvöru úr því áðan að gera neinar aths. við mína lauslegu þýðingu á 22. gr., enda var það í raun og veru ekki hægt, því að efnislega er þýðingin rétt, þó að það kynni að mega setja einhver orð í staðinn, nota einhver önnur orð á einstaka stað eftir málsmekk manna. En auk þess skoraði ég á hann við l. umr. málsins að leggja fram þetta fyrsta uppkast af samningunum, ef hann vefengdi mína þýðingu. Ég gerði reyndar meira. Ég skoraði á hann hvort heldur væri að leggja þetta fyrsta uppkast af samningunum fyrir þá n., álnefndina, sem fjallaði um málið. Hæstv. ráðh. átti nú því miður ekkert frumkvæði að því að leggja það uppkast fyrir álnefndina, og á fundi í álnefnd óskaði ég eftir því og áréttaði þessi tilmæli mín um að fá þetta uppkast fram, því að ég leit svo á, að í því væri mikill fróðleikur fólginn fyrir hv. meðnm. mína að sjá þetta uppkast. En svo virtist augljóslega vera, að á þeim fundi væri ég eini maðurinn, sem hefði séð það uppkast. Aðrir hv. þm. og flokksmenn hæstv. ráðh. virtust alls ekki hafa séð það og ekki hafa hugmynd um það, hvað stæði í því uppkasti. En svo einkennilega brá nú við, að hv. nm. virtust hafa mjög takmarkaðan áhuga á því að fá að sjá það uppkast, og mínum tilmælum um það að fá það lagt fram í n, var ekki sinnt. Hins vegar lofaði hv. formaður n. að eiga tal við ráðh. og fara þess á leit við hann, að hann sendi hverjum nm. eintak af þessu fyrsta uppkasti. Nú veit ég ekki, hvort hv. formaður hefur gert það, en hitt veit ég, að ég hef ekki fengið neitt uppkast, og má það líka vera óþarfi, en fróðlegt er að vita það, hvort aðrir nm. hafa fengið þetta uppkast.

Ég held — þó auðvitað sé aðalatriðið nú, hvernig þeir samningar eru, sem hér liggja fyrir — að það skipti vissulega máli að athuga það, hvernig samningarnir hafa þróazt stig af stigi, og ekki skiptir það minnstu máli að athuga það, hverjar hugmyndir menn höfðu um þetta í upphafi, þegar af stað er farið, en það var ekki af stað farið út í bláinn, því að vitaskuld höfðu miklar samningaumr. átt sér stað áður en þetta fyrsta uppkast var lagt fram, og það fyrsta uppkast af Íslendinganna hálfu var auðvitað byggt á því, sem fram hafði komið í viðræðum og þeir höfðu einhverja ástæðu til að ætla að væri aðgengilegt fyrir viðsemjendur. Vitaskuld er enginn að finna að því, þótt slíkt fyrsta samningsuppkast hafi tekið einhverjum breytingum. Það má telja í alla staði eðlilegt, að það sé ekki gengið að því óbreyttu. En það hefði í alla staði verið fróðlegt að athuga það, hverjum breytingum það hefur tekið, þetta mál, frá því að það var lagt fram í upphafi af Íslendinga hálfu og þangað til þessi samningur var undirritaður, sem hér liggur fyrir til staðfestingar. En það er ekki mín sök, að það hefur ekki komið fram, heldur þá áhugaleysi hv. nm. á því að fá að sjá það og kynna sér það. Nú skal ég þó láta útrætt um það, en ég verð að segja það, að ég hefði talið það fróðlegt að mörgu leyti fyrir menn að fá að sjá það.

Hæstv. ráðh. gerði heldur lítið úr þeirri aðvörun, sem hefði komið frá okkar hálfu við vantraustsumr., og gaf í skyn, að vantraustsumr. hefðu verið settar fram af annarlegum ástæðum, sem sé þeim, að það hafi verið vitað, að stjórnarflokkarnir mundu fara fram á það, að útvarpað væri l. umr. um þetta svokallaða álfrv. En þetta er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh. Framsfl. hafði haldið sinn miðstjórnaraðalfund í marzmánuði, 11. marz, ef ég man rétt. Þar hafði hann gert ákveðna ályktun um stjórnmál, og í niðurlagi þeirrar ályktunar var áskorun um þingrof og kosningar. Það var öllum skiljanlegt, sem skilja vildu, að þeirri ályktun mundi verða fylgt eftir með till. á Alþ. um vantraust og þingrof, og þeir gátu ekki verið í nokkrum vafa um það, hæstv. ráðh., að þess mundi von, og ég vil fullyrða, að það var alls ekkert samband á milli kröfunnar um vantraustsumr. og þeirrar hugmyndar, sem hv. stjórnarflokksmenn voru með um að fá útvarpað l. umr. um álsamninga, og ég hygg, að það hefði ekki verið fyrirstaða á því af okkar hálfu að taka þátt í útvarpsumr. um álfrv., og enn er þess kostur, því að 3. umr. er enn eftir hér. En auk þess kom aðvörun, eins og ég líka sýndi ljóslega fram á, síðast í öllu falli í des. 1965, þegar formaður Framsfl. lýsti afstöðu flokksins hér á Alþ. til þessa máls með þeim hætti, sem þá var unnt að gera það. Það var auðvitað enginn kostur þá að fara að ræða einstök atriði í þessum samningi, vegna þess að þar var um trúnaðarmál að ræða. Og um þessa samninga er það að segja, að auðvitað létu þm. þeir, sem störfuðu í þmn., flokksmenn fylgjast með í þeim efnum, en þeir voru vitaskuld ekki að afhenda einstökum þm. uppkast að samningum, og ég verð að segja það, að ég sá ekki þessi gerðardómsákvæði fyrr en þau voru send út sem trúnaðarmál til þm. Vitaskuld var mér kunnugt um efni þeirra af þeim skýrslum, sem þm. í þmn. höfðu gefið sem trúnaðarmál.

Eitt af þeim atriðum, sem ég benti nú sérstaklega á í ræðu minni við l. umr. málsins og óskaði skýringa hæstv. ráðh. á, var 35. gr., sem fjallar um meðferð fjárfestingar, en hún er þannig úr garði gerð, að mér finnst sérstök ástæða til þess, að hún sé nokkuð athuguð, en hún er þess efnis, að upp í hana eru tekin ákvæði úr 67. gr. stjórnarskrárinnar sem skilyrði fyrir eignamámi. Og skilyrði 67. gr. stjórnarskrárinnar eru þar með gerð að atriði í þessum samningi.

Nú er það viðurkennd venja hér á landi, að dómstólar dæmi um það, hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrána og þar með t.d. hvort lagasetning um eignarnám brjóti að einhverju leyti í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar. En það er ekki í okkar stjórnarskrá tekið berum orðum fram, að dómstólarnir hafi þetta úrskurðarvald, heldur byggist það hér aðeins á venju, á réttarvenju. Þess vegna rís sú spurning, hvort ný lög — hvort sett lög — geti breytt þeirri réttarvenju. Það er auðvitað almenna reglan, að lög geti breytt réttarvenju og breyti eldri réttarvenju. Spurningin er, hvort eitthvað sérstakt gildi um venjur, sem fjalla um svona atriði á sviði stjórnskipunarréttarins. Sumir telja, að svo sé ekki. Mjög merkur fræðimaður og mikið „átoritet“ í þessum efnum, prófessorinn við Kaupmannahafnarháskóla í stjórnlagafræði, A. Ross, heldur því fram, að slík réttarvenja á sviði stjórnskipunarréttarins hafi ekkert meira gildi heldur en réttarvenja á öðrum sviðum. Þess vegna geti sett lög breytt þeirri réttarvenju alveg eins og hverri annarri réttarvenju. Skv. þeirri kenningu ættu sett lög að geta tekið úrskurðarvaldið af dómstólunum um það, hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrána hér hjá okkur, af því að það er ekkert bert ákvæði um þetta í stjórnarskránni.

Nú er ég að vísu ekki á sömu skoðun og þessi mjög merki fræðimaður um þetta. Ég hef leyft mér að halda fram þeirri kenningu, að það ætti sérstakt að gilda um þær venjur, sem ég vil kalla stjórnskipunarvenjur, þ.e.a.s. réttarvenjur, sem hafa beinlínis breytt stjórnarskrárákvæðum, eða réttarvenjur, sem fjalla um afstöðuna á milli handhafa ríkisvaldsins. Þær vil ég kalla stjórnskipunarvenjur og telja, að þeim sé ekki hægt að breyta nema með stjórnarskrárbreytingu. En þetta er mikið vafamál og langt frá því óyggjandi. En ég fæ ekki betur séð en að á þessa fræðilegu spurningu, sem menn vilja kannske kalla, geti reynt í sambandi við þessa samninga, vegna þess að þessi samningur er lögfestur, hann er gerður að almennum lögum, og hann segir, að um atriði, sem varða túlkun og framkvæmd o.s.frv. á þessum samningi, eigi tiltekinn dómstóll að hafa úrskurðarvald. Á þá að telja, að þar með sé úrskurðarvaldið um það, hvort skilyrðum 67. gr. sé fullnægt, að því er varðar framkvæmd á þessum samningi, tekið undan íslenzkum dómstólum og fengið í hendur þessum gerðardómi? Mér skilst, að sú niðurstaða gæti mjög komið til álita, ég segi mjög komið til álita, ef menn aðhylltust kenningar hins merka fræðimanns, A. Ross. Ég vil alls ekki halda þeirri stefnu fram. Ég vil halda því fram, að eftir sem áður og þrátt fyrir þetta ákvæði eigi íslenzkir dómstólar að dæma um það, hvort skilyrðum til eignarnáms, jafnvel þó að væri á eigum þessa félags eða stofnunar, sé fullnægt eða ekki. En vafamál og deilumál getur það sjálfsagt orðið, og þess vegna væri það fróðlegt að fá yfirlýsingu ráðh. þar um, og gæti það hugsanlega haft sína þýðingu einhvern tíma, ef á reyndi.

Það er nú búið að tala svo mikið um það, hvort þetta gerðardómsákvæði, sem er í þessum samningum, sé einsdæmi hér og hjá nálægum þjóðum, að það er ekki ástæða til að fjölyrða um það. Það er auðvitað einsdæmi hjá okkur, og það hefur ekki verið nefnt neitt dæmi, sem afsanni þá staðhæfingu, að þetta sé einsdæmi hjá nálægum þjóðum, og ég hélt nú satt að segja, að það væri eiginlega búið að sýna svo rækilega fram á það, að það væru ekki hliðstæð ákvæði, sem hægt væri að benda á hjá nágrannaþjóðum, að það þyrfti ekki að fara að tala hér nánar um það. Og hæstv. ráðh. gerði það ekki heldur.

Hins vegar sé ég það, að hv. nefndarmeirihl. hefur farið út í þá sálma að telja upp það, sem mér skilst, að hann telji vera fyrirmyndir fyrir þessu ákvæði, sem hér er um að tefla. Að vísu verð ég að segja það, að ég sakna mjög þar eins ákvæðis, sem hér hefur borið á góma í þessum umr., sem sé olíuviðskiptasamninganna við Rússa. Þeir eru horfnir, þeir eru ekki nefndir lengur. Þeir eru úr sögunni, og það er nú gott, en það er þá samt verið með mannréttindadómstólinn og verið að blanda honum inn í þetta.

Ég þykist nú sjá, hvar sú hugmynd á upptök sín, sem sé hjá hæstv. forsrh. í ræðu, sem hann hélt í Nd., en það er nú svona, að það er ekki alltaf það sama að smíða vopnin og nota þau. Það getur verið dálítið hættulegt að smíða vopn og fá þau í hendur mönnum, sem ekki kunna að fara með þau. Og ég held, að það sé ákaflega misheppnað í þessu sambandi að fara að benda á mannréttindadómstólinn sem eitthvert fordæmi fyrir þessu. Og nú dettur mér ekki í hug að fara að ætlast til þess, að hv. nm. meiri hl. fari að leggja nokkurn trúnað á það, sem ég kynni að vilja segja um það atriði, en það vill svo vel til, að ég hef hér í höndunum grein um mannréttindadómstólinn, sem rituð er af Einari Arnalds hæstaréttardómara, þar sem hann gerir nokkuð grein fyrir því, hvers eðlis mannréttindadómstóllinn er, og ég vildi aðeins mega benda á örfá atriði í þeirri grein, með leyfi hæstv. forseta, sem sýna það, hversu fjarstætt það er að vera að tala um mannréttindadómstólinn í þessu sambandi. Þar segir m.a. í þessari grein, sem birt er í Tímariti lögfræðinga 2. hefti 1961 á bls. 116.:

„Samkvæmt því, sem nú var lýst, hafa einungis aðildarríki og nefndin rétt til að leggja mál fyrir dómstólinn. Einstaklingur eða hópur einstaklinga, sem hafa lagt mál fyrir nefndina á hendur aðildarríki, eiga ekki beinan aðgang að dómstólnum, geta ekki orðið málsaðilar.“

Það virðist nefnilega ríkja sá misskilningur eða hefur komið fram, að einstaklingar geti sótt mál fyrir mannréttindadómstólnum. Svo er alls ekki. Einstaklingar geta skotið máli til mannréttindanefndarinnar, en mannréttindanefndin er þá sá hreinsunareldur, að það komast ekki önnur mál fyrir mannréttindadómstólinn heldur en þau, sem mannréttindanefndin vill taka upp á sína arma og bera upp fyrir dómstólnum eða einstök aðildarríki. Og um hvað á svo mannréttindadómstóllinn að dæma? Á hann að dæma eða byggja dóm á landslögum einstakra ríkja? Nei, hann á aðeins að dæma um það, hvort brotið hefur verið í bága við tiltekinn milliríkjasamning, mannréttindasáttmálann. Um þetta segir í sömu grein:

„Mannréttindadómstóllinn er enginn yfirhæstiréttur. Ekki er hægt að áfrýja dómum æðstu dómstóla aðildarríkjanna til hans. Hann dæmir eingöngu um, hvort aðildarríki hafi brotið gegn þeim mannréttindum, sem Evrópusáttmálinn helgar. Hins vegar hafa æðstu dómstólar aðildarríkjanna fjallað um öll þau mál, sem koma til kasta mannréttindadómstólsins, þar sem mannréttindanefndin getur því aðeins tekið mál til meðferðar, að leitað hafi verið til hlítar leiðréttingar í heimalandinu. Má því segja, að mannréttindadómstóllinn dæmi í þessum tilvikum um, hvort úrlausn æðsta dómstólsins sé í samræmi við ákvæði sáttmálans, en ekki; hvort hún hafi verið rétt að landslögum.“

Og ekki held ég, að hitt dæmið, sem hv. nefndarmeirihl. nefnir sem hliðstæðu þess gerðardómsákvæðis, sem er í þessum samningi, sé betur valið, þ.e.a.s. dómstóll Efnahagsbandalagsins, en Efnahagsbandalagið er alveg sérstök tegund af milliríkjasamvinnu eins og flestir vita og eins konar millistig á milli bandalaga og bandaríkja, og þar er um að ræða eins konar yfirríkjastofnanir, og allar þær stofnanir byggjast náttúrlega eins og mannréttindadómstóllinn á milliríkjasamningi, en ekki á samningi milli ríkis og einkafyrirtækis eins og hér er um að tefla. Og það sérstaka í Efnahagsbandalagssáttmálanum er það, að hann veitir þessum stofnunum bandalagsins vald til þess að taka ákvarðanir, sem eru ekki aðeins bindandi fyrir ríkið, heldur verður beitt innan ríkjanna beint án milligöngu hlutaðeigandi stjórnar bandalagsríkjanna. Og það er svo með aðild að Efnahagsbandalaginu og öðrum slíkum alþjóðlegum stofnunum, að mörg ríki hafa einmitt tekið upp í sína stjórnarskrá sérstakt ákvæði, sem heimilar þeim aðild að slíkum stofnunum. Slík ákvæði hafa t.d. verið tekin upp í stjórnarskrá Danmerkur, stjórnarskrá Noregs, stjórnarskrá Vestur-Þýzkalands, stjórnarskrá Frakklands, stjórnarskrá Hollands og stjórnarskrá Ítalíu. Ég þekki það ekki og veit það ekki, hvort slík ákvæði eru í stjórnarskrá Luxemburgar og Belgíu. Ég get getið þess líka vegna þess, sem kom fram hér síðast í sambandi við umr. um lausn fjárfestingardeilna, þar sem ég held, að það hafi verið hv. 8. þm. Reykv., sem taldi það, að einn merkur fræðimaður í Noregi, Castberg, hefði haldið því fram, að það þyrfti ekki að gera breytingar á stjórnarskrá Noregs, þótt Noregur gerðist aðili að Efnahagsbandalaginu. Það er rétt, að Castberg hélt því fram. Hins vegar voru margir norskir fræðimenn á annarri skoðun, og það leiddi til þess, að það var gerð breyting á stjórnarskrá Noregs, 93. gr. stjórnarskrárinnar, og þar er þess krafizt, til þess að Noregur geti gerzt aðili í slíku alþjóðasamstarfi eins og t.d. Efnahagsbandalaginu, að 3/4 Stórþingsins samþykki. Í Danmörku eru svo enn ríkari ákvæði um þetta, m.a. er heimilt að krefjast þjóðaratkvgr. með tilteknum skilyrðum.

Ég hef, eins og ég sagði síðast, aldrei haldið því út af fyrir sig fram,, að þessi samningur, sem hér liggur fyrir, bryti í bága við stjórnarskrána eða að það þyrfti stjórnarskrárbreytingu til að gera hann. Ég hef sagt, að það væri rannsóknarefni. En ég hef hins vegar áður látið uppi skoðun um það, hvort það þyrfti stjórnarskrárbreytingu til þess að Ísland gæti gerst aðili að Efnahagsbandalaginu, og það álit var ekki gert í neinu sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir. Þar komst ég að þeirri niðurstöðu, að ef Ísland ætlaði að gerast aðili að Efnahagsbandalaginu, þá mundi þurfa stjórnarskrárbreytingu, og um það flutti ég afmæliserindi í Háskólanum 14. okt. 1962, og sú grein er birt í Tímariti lögfræðinga, 1. hefti 1962, og ég ætla nú ekki að fara að lesa úr henni hér, en aðeins, með leyfi hæstv. forseta, benda hér á örfáar setningar, þar sem segir svo:

„Þegar litið er til þess, sem hér hefur verið stuttlega rakið, virðist mér augljóst, að stjórnarskrárbreyting eða sérstök stjórnlagaheimild væri óhjákvæmileg, ef Ísland ætlaði að gerast fullgildur aðili að Efnahagsbandalaginu. Ísland yrði þá að veita stofnunum bandalagsins víðtækt vald til ákvarðana, sem fyrirfram og án nokkurs atbeina íslenzkra stjórnarvalda væri gefið gildi hér á landi. Þar með hefði það afsalað valdi í tilteknum málum, sem stjórnarskráin beint eða óbeint fær handhöfum ríkisvaldsins. Þar sem ekkert uppsagnarákvæði er í sáttmálanum, er vafasamt, að íslendingar gætu heimt aftur það vald, sem þeir hefðu afsalað. Þvílíkar fullveldistakmarkanir eru að minni hyggju óheimilar nema að undangenginni stjórnarskrárbreytingu eða skv. sérstakri stjórnlagaheimild.“

Ég hef aðeins minnt á þessi tvö atriði til þess að sýna enn fram á og undirstrika, hversu það er gersamlega útilokað að benda á fordæmi hér hjá nálægum þjóðum fyrir gerðardómsákvæði samninganna og undirstrika það, að þau dæmi, sem hv. stjórnarstuðningsmenn hafa viljað vera að reyna að nefna í því sambandi og sem rökstuðning fyrir þessum gerðardómsákvæðum svo sem ákvæði í viðskiptasamningi við Rússa, svo sem ákvæði um mannréttindadómstól í mannréttindasáttmálanum og svo sem ákvæði um dómstól í Efnahagsbandalagssáttmálanum, eru á engan hátt sambærileg við þau gerðardómsákvæði, sem hér liggja fyrir. Gerðardómsákvæðin eru allt annars eðlis og miklu víðtækari og byggjast ekki á samningi á milli ríkja heldur á samningi milli ríkis og einkafyrirtækis.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri. Ég held, að það hafi ekki verið neitt, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. viðvíkjandi því, sem ég hef áður um þetta sagt, sem gefur mér tilefni til þess að hafa fleiri orð um þetta, og skal ég þess vegna láta máli mínu lokið, vegna þess að þó að margt mætti segja enn um þetta mál, bæði undirstrika það, sem þegar hefur verið um það sagt, og eins benda á ný atriði í þessu sambandi, þá ætla ég nú ekki að lengja tímann, en það er svo með þessa samninga, að þeir eru, eins og ég hef áður sagt, mjög margbrotnir og flóknir, og það má alltaf finna í þeim ný og ný ákvæði, sem tilefni gefa til umhugsunar og aths.