29.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Þetta stórmál hefur að sjálfsögðu margar hliðar. Ein af þessum hliðum snýr að heilbrigðismálum þjóðarinnar. Þannig stendur á, að verksmiðjurekstur eins og þessi hefur í för með sér mengun á andrúmsloftinu í víðu umhverfi verksmiðjunnar. Þar við bætist svo, að verksmiðjan er staðsett í nágrenni við mesta þéttbýli landsins. Um þessa hlið málsins hefur ekki verið mikið rætt hér, svo að mér sé kunnugt. Þó hefur hv. 3. þm. Norðurl. v. minnzt á þessa hlið málsins, bæði nú í kvöld og fyrr.

Þetta lagafrv. ásamt samningnum, athugasemdum og fylgiskjölum er allmikið rit, 231 bls. Þar er vikið að mörgum þáttum þessa máls og það allítarlega. En um þá hlið málsins, sem ég minntist á, heilbrigðislegu hliðina, er ekki varið miklu rúmi.

Í samningnum er þó fjallað um þetta lítillega í 12. og 13. gr. Í 12. gr. er talað um mengun frá verksmiðjunni, og þar er sagt, að álmfélagið ISAL skuli bera fulla ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýzt af gastegundum og reyk frá bræðslunni, utan við tiltekið svæði.

Þá er enn fremur tiltekið í þessari gr., að félagið skuli bera takmarkaða ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýzt af gastegundum og reyk frá bræðslunni, innan tiltekins svæðis. Hér er m.ö.o. ákveðið, að álmfélagið skuli bæta tjón, en það er ekki á það minnzt, sem þó er öllu þýðingarmeira fyrir okkur landsmenn og það er, að í samningnum standi ákvæði um, að verksmiðjan og félagið skuli firra tjóni.

Þá er í þessari sömu gr., 12. gr., sagt, að ISAL muni gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar, í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Þetta er ósköp notalega orðað, en mikið er þetta marklítið orðalag að mínum dómi. ISAL muni gera allar eðlilegar ráðstafanir. Þetta stangast á við staðreyndirnar. Það er ekki fyrirhugað með þessum samningi, að gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstrinum, bræðslunni. Þvert á móti, það er gert ráð fyrir því að gera það ekki.

Þetta er nú það helzta, sem um þetta efni, heilbrigðislegu hlið þessa stóra máls, er að finna í sjálfum samningnum.

Þá kem ég að öðrum kafla í þessu allstóra riti. Það er kafli, sem er að finna á bls. 217 og 218 og er skýrsla frá Rannsóknastofnun iðnaðarins, og skýrslan heitir „Mengun“.

Ég vil nú og í því, sem ég segi hér á eftir, gera þá skýrslu sérstaklega að umtalsefni. Eins og ég sagði, þá er á bls. 217 í þessum gilda bæklingi grein undir fyrirsögninni „Mengun“. Greinin er frá Rannsóknastofnun iðnaðarins. Þar er frá því sagt, að iðnmrn. hafi óskað álits Rannsóknarstofnunarinnar á úrgangsefnum og dreifingu þeirra frá áætlaðri álmbræðslu við Straumsvík. Skýrslan er niðurstaða þessarar rannsóknar og greinir frá henni og niðurstöðum hennar.

Það er alkunna, að frá alúminíumverksmiðjum berast margs konar eiturefni út í umhverfið og valda þar meira eða minna tjóni. Gegn þessum ófögnuði, sem ófrávíkjanlega fylgir þessum verksmiðjum, hefur verið háð hörð barátta síðustu áratugi í öllum þeim löndum, þar sem slíkar verksmiðjur eru, bæði austan hafs og vestan. Og enda þótt mikið hafi áunnizt sums staðar, þá hefur þessum ófögnuði hvergi verið útrýmt með öllu. Það má nú, sérstaklega á síðari árum, draga úr eituráhrifunum til muna með sérstökum útbúnaði í verksmiðjunum, en því miður kostar þessi útbúnaður of fjár.

Þetta vandamál, sem óneitanlega er mikils virði, þar sem það snertir heilsu fjölda manna, skilst mér, að Rannsóknastofnun iðnaðarins hafi átt að rannsaka, rannsaka fyrst og segja síðan álit á.

Ekki efast ég um, að þessi stofnun sé góð og gild og að hún megi ekki vamm sitt vita og vilji vinna sín verk vel. En því meiri undrunar fær það mér, hvernig þessi álitsgerð er úr garði gerð, þessi álitsgerð, sem prentuð er á bls. 217 og 218 undir heitinu „Mengun“. Sú skýrsla ber vissulega ekki vott um vandvirkni.

Það er mjög eðlilegt og lofsvert, að íslenzk stjórnvöld skuli vilja fá að vita eitthvað um þetta vandamál, sem órjúfanlega er tengt álmbræðslu. Eitrun andrúmsloftsins og jarðvegsins umhverfis verksmiðjuna skiptir ekki litlu máli þann aðilann, sem ætlar að hleypa slíku fyrirtæki inn í sitt land. En það er harla gagnslítið að vita um eitrið og áhrif þess, ef ekki eru um leið gerðar kröfur um ráðstafanir til varnar hættunni. Till. um slíkar ráðstafanir eiga því heima í álitsgerð eins og þeirri, sem ég hér ræði um, og er raunar höfuðmarkmið slíkrar álitsgerðar.

Ef marka má það, sem segir í sjálfri grg. frá Rannsóknastofnun iðnaðarins, þá hefur alls engin rannsókn farið fram af hennar hálfu í þessu máli. Og hún flytur alls engar ábendingar eða till. um ráðstafanir til þess að verjast eituráhrifum frá verksmiðjunni. Verkefnið er m.ö.o. óleyst og engar kröfur gerðar á hendur verksmiðjunni um nauðsynlegan öryggisútbúnað.

Annað og meira en þetta verður ekki lesið út úr álitsgerð Rannsóknastofnunarinnar. Mér virðist, að þessi stofnun hafi unnið þetta verk sitt með þeim hætti að snúa sér til annars samningsaðilans, Swiss Aluminium Ltd. í Zürich, og fá hjá honum allt, sem til þurfti, tilreitt á bakka. Síðan er þetta borið á borð fyrir iðnmrn., og sjá, það er harla gott, hér þarf ekki frekar vitnanna við.

Það er ekki ólíklegt, ég vil segja næsta mannlegt, að grg., sem þannig er unnin, sé nokkuð einhliða. Þar er að vísu, ekki skal ég neita því, tæpt á mörgu, en aðeins mjög lauslega, enda tilhneigingin bersýnilega sú í heild að gera lítið úr þessu vandamáli, gera lítið úr því tjóni, sem eiturefnin valda frá slíkum verksmiðjum. Það var aldrei við því að búast, að talsmenn verksmiðjunnar færu að breiða sig út um þá miklu hættu, sem henni er samfara. Það hafa þeir heldur ekki gert, sannarlega ekki. En vegna þess, hversu menguninni í sambandi við álmverksmiðjur eru gerð ófullkomin skil í frv.-bæklingnum, þykir mér hlýða að fara hér og nú nokkrum orðum um það mál. Ég skal stikla á stóru og halda mér við höfuðatriðin ein.

Alúminíum eða álm, eins og mér fyndist, að ætti að kalla það á íslenzku, er unnið úr hráefni sínu með rafgreiningu við mjög hátt hitastig. Við framleiðsluna er notað bráðið krýolít, sem er samsett efni og inniheldur flúor í mjög ríkum mæli, yfir 50%. Við þessa álmvinnslu myndast margs konar eiturefni, sem berast meira eða minna út í umhverfið, ýmist í formi ryks eða gufu. Á meðal þessara mörgu eiturefna eru tjöruefni og brennisteinssambönd, en þau efnin, sem mestu máli skipta, hvað tjón snertir, eru flúorsamböndin og þá fyrst og fremst flúorvetni. Ég mun því snúa mér eingöngu að flúorefnunum í því, sem ég kann að segja hér á eftir.

Það er algengt í heiminum, að flúorvetni og önnur uppleysanleg flúorsambönd valdi mönnum heilsutjóni og dauða, enda eru þau talin í röð allra sterkustu eiturefna, sem til eru. Sjúkdómseinkennin, sem þessar eiturtegundir valda, geta verið með margvíslegu móti og fara aðallega eftir því, hvernig efnin berast inn í líkamann. Ef áhrifin eru sterk og snögg og verka á líkamann utan frá, erta þau og særa húð og slímhúðir, geta valdið brunasárum á húð og skaddað stórlega slímhúðir, valdið lungnakvefi með hósta og andarteppu og fleiri hastarlegum einkennum. Þessi tegund eitrunar þekkist svo sannarlega í sambandi við rekstur álmverksmiðju. Berist flúorefnin inn í líkamann í gegnum meltingarfarveginn, verða einkennin önnur, aðallega frá innyflunum og valda oft bráðum bana. Ég get þessa, þótt þetta vilji kannske ekki oft til eða jafnvel mjög sjaldan til í sambandi við álmverksmiðjur. Þetta er sú bráða eitrun, sem fylgir sterkum áhrifum flúors.

Hægfara flúoreitrun er til, og hún lýsir sér fyrst og fremst með mjög sérkennilegum breytingum í beinum ííkamans og bandvef. Beinin verða eins og mölétin, beinaukar vaxa út úr beinunum hér og þar, og kalk sezt í liðaböndin. Þessu fylgja ýmiss konar þrautir og óþægindi. Þessi tegund eitrunar, sem nefnd er fluorosis, þessi hægfara eitrun, er algeng í sambandi við verksmiðjurekstur. Frægust er þessi tegund flúoreitrunar sem atvinnusjúkdómur í krýolítverksmiðjunum í Danmörku, og það var einmitt landi okkar Skúli Guðjónsson, sem var annar þeirra vísindamanna, sem fyrstir bentu á samhengið milli flúors og þessa sjúkdóms.

Flúorinn og sambönd hans eru, eins og ég hef tekið fram, mjög eitruð. Ef 70 kg þungur maður neytir 5–10 gramma af uppleysanlegu flúorsalti, er honum dauðinn vís innan fárra klukkustunda. Ef flúorvetni í andrúmsloftinu nær því að vera 100 mg í einum rúmmetra, þolir það enginn maður í eina mínútu. Sé magnið fjórum sinnum minna eða 25 mg í nímmetra, má þola það í nokkrar mínútur. Þessar tölur sýna, hve baneitrað efni hér er um að ræða, og það er einmitt flúorefni, sem mest ber á í sambandi við rekstur álmverksmiðjanna.

Hvað snertir hina hægfara eitrun, má upplýsa það, að ef maður fær í sig 20–80 mg af flúor daglega í 10–20 ár, fær hann örugglega áðurnefndan beinasjúkdóm á háu stigi. Þessi möguleiki er til alls staðar, þar sem flúorefni finnast, og verður að staðreynd, ef aðgæzla er ekki höfð. Hættan á flúoreitrun er víða, miklu víðar en í sambandi við álmverksmiðjur, bæði úti í sjálfri náttúrunni og í sambandi við ýmiss konar verksmiðjurekstur og iðnað. Vegna þess að við búum í eldfjallalandi, má geta þess, að það verður oft tjón af völdum flúorefna, þegar eldfjöll gjósa. Þeirri eitrun höfum við Íslendingar kynnzt í kvikfénaði á eldgosatímum, og var hún kölluð því sérkennilega orði „gaddur“, lýsti sér sem beinsjúkdómur hjá skepnunum og tannáta og tannskemmdir. Ég skal ekki ræða þetta frekar, en halda mér við þær flúorskemmdir, sem verða af völdum álmbræðslu.

Allir þeir menn, sem vinna í þessum verksmiðjum, eiga á hættu flúoreitrun, bráða eða hægfara, nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar þeim til verndar. Sama og svipað gildir um fólk, sem býr í nágrenni verksmiðjanna. Það verður fyrir óheilnæmum áhrifum, ef strangrar varúðar er ekki gætt, og það að staðaldri.

Ég hef rætt um áhrif flúors og flúorsambanda á heilsu mannanna, en hann er varasamur fleiri lífverum en mönnum. Þannig er hann einnig skaðlegur bæði jurtagróðri og dýrum. Ég átti þess kost nýlega að lesa fróðlega ritgerð eftir norskan prófessor, Håkon Robak að nafni. Greinin ber nafnið „Álmverksmiðjur og skógur“ og hefst með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Blöðin segja öðru hvoru frá tjóni,“ — þetta gerist í Noregi — „sem orðið hefur á skógi, graslendi og húsdýrum umhverfis nokkrar af álmverksmiðjum okkar. Tjónið hefur stundum verið mjög mikið og hvað skógana snertir jafnvel hrein eyðilegging. Harðast hefur barrskógurinn orðið úti, en lauftré hins vegar orðið fyrir engum eða litlum skemmdum, nema þau stæðu mjög nálægt reykupptökunum. Reynslan í þessu efni hefur þó stundum orðið á annan veg erlendis. Mest hefur eyðileggingin orðið á furuskóginum, en ræktað greni hefur einnig skemmzt mikið á sömu landssvæðum. Það, sem tjóninu veldur, er að langmestu leyti í öllu falli flúor frá reyk álmverksmiðjanna. Í reyknum eru bæði föst og loftkennd flúorsambönd, hin síðarnefndu aðallega flúorvetni. Það dregur ört til sín vatn og breytist í þoku, eftir því sem reykurinn fjarlægist upptök sín og kælist.“

Þannig er upphaf þessarar greinar hins norska prófessors. Hann telur, að rokgjörn flúorefni smjúgi inn í barrnálar og blöð gróðursins og skemmi hann með þeim hætti. Hins vegar hafi það flúorryk, sem lendir á jörðinni, lítil áhrif á gróðurinn í fyrstu lotu. Síðar meir geti þau flúorsambönd að vísu sogazt upp í gróðurinn um ræturnar og valdið tjóni, en til þess þurfi langan tíma.

Það eru til fjöldamargar aðrar frásagnir frá öðrum löndum um skemmdir á ýmsum gróðri af völdum flúors frá þessum verksmiðjum, og virðist ræktaður nytjagróður einkum viðkvæmur, en villtur gróður hins vegar hafa meira viðnám.

Reynsluna af flúormengun íslenzkra grasa höfum við, enda er til hennar vitnað í erlendum fræðiritum um flúoreitrun. Sauðfé, sem á þeim grösum nærðist, veiktist hastarlega, eins og ég tók fram áðan, og féll, og íslenzka orðið „gaddur“ er haft að alþjóðlegu heiti á þessum kvikfjársjúkdómi. Sami sjúkdómur þekkist enn í dag og kemst á hátt stig í sauðfé, geitum og nautpeningi, sem étur gróður úr nágrenni verksmiðja, sem dreifa flúorefnum út í andrúmsloftið. Þetta á sér stað enn í dag í sambandi við álmverksmiðjur bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum.

Það fer þannig ekki á milli mála, að úrgangsefni frá álmverksmiðjunum eru hættuleg mönnum, dýrum og jurtum og valda þannig tjóni, ef ekki er sérstök gát höfð á. Eitrið er, eins og ég hef margsagt, fyrst og fremst flúor, sem myndast við álmbræðsluna og berst út í umhverfið að meira eða minna leyti. Áhrifin fara eftir magni þess og því, hve lengi það fær að verka. Flúormagn í andrúmsloftinu umhverfis verksmiðjurnar er breytilegt og ýmsu háð. Í fyrsta lagi fer flúormagnið í andrúmsloftinu eftir framleiðsluafköstum verksmiðjunnar. Í öðru lagi fer það eftir möguleikum hennar til þess að hefta reykinn og hreinsa hann og því um leið, hvernig þessir möguleikar eru nýttir. Þá fer flúormagnið einnig mjög mikið eftir staðháttum og þá fyrst og fremst eftir landslagi og eftir veðurfari. Því stærri sem verksmiðjan er, því meir berst af hættulegum efnum frá henni út í andrúmsloftið, eins og ég sagði, að öðru jöfnu. Þannig myndast helmingi meira flúorvetni í 60 þús. smálesta verksmiðju heldur en í 30 þús. smálesta. En það eru, eins og hér hefur komið fram, möguleikar á að draga til muna úr þessari mengun andrúmsloftsins, ef notaður er sérstakur útbúnaður í sjálfum verksmiðjunum. Reykeyðingar- og lofthreinsitæki eru til af ýmsum gerðum, mismunandi góð að vísu og engin þó svo góð enn í dag, að unnt sé með öllu að koma í veg fyrir, að skaðleg úrgangsefni berist út. En það gildir um þennan útbúnað, eins og ég tók fram áðan, að hann er dýr og því dýrari sem hann dugar betur. Landslag og veðurfar hefur að sjálfsögðu mikil áhrif hvað snertir dreifinguna og þynninguna á þessum eiturefnum í loftinu. Í þröngum dölum er hættan meiri en á bersvæði, og vindasöm veðrátta og votviðrasöm dregur úr þeirri hættu, sem útblæstri verksmiðjanna fylgir. Mjög alvarleg slys hafa orðið af völdum verksmiðja, sem framleiða flúor í öðrum löndum. Þau slys hafa einkum orðið í þröngum dölum, þar sem veðurfar er kyrrt. Þar hafa slysin orðið það alvarleg, t.d. árið 1932 í Vestur-Evrópu, að mörg hundruð manna veiktust snögglega af flúoreitrun og tugir manna þar af létust á fáum dögum.

Nú er ástæða til þess að spyrja, hvernig um hnútana verði búið í Straumsvík. Hvað verður gert til þess að hefta útrás eiturloftsins frá verksmiðjunni? Mér skilst, að harla lítið sé fyrirhugað í því efni, að ég ekki segi alls ekki neitt. Í skýrslu Rannsóknastofnunar iðnaðarins á bls. 217 í frv.-ritinu er réttilega á það bent, að magn úrgangsefna sé breytilegt eftir því, hvaða ofnategund er notuð. Síðan er fullyrt í skýrslunni, að í Straumsvík eigi að nota opna ofna svokallaða, það er notað yfir það enskt orð „Prebaked Anodes“, en það eru opnir bræðsluofnar, sem öllum ofnategundum fremur hleypa flúorefnunum út í andrúmsloftið. Í þessum ofnum myndast 33 g af flúor fyrir hvert einasta framleitt kg af álmi, og 70% af þeim flúor fer beint út í andrúmsloftið. Verksmiðja, sem framleiðir 30 þús. smál. af álmi á ári, dreifir út í umhverfið hvern einasta dag ársins 1900 kg af flúorsamböndum, 1900 kg á hverjum einasta degi ársins. Þetta fer allt út í nágrennið, nema sérstakur hreinsiútbúnaður sé byggður í verksmiðjunni.

Það eru til aðrar tegundir bræðsluofna en þessir opnu ofnar, sem nota á hér í Straumsvík. Ein tegundin er t.d. svokallaðir Söderbergsofnar, sem mest eru notaðir nú í Noregi og víðar. Það eru lokaðir ofnar og auk þess útbúnir loftsogstækjum, þ.e.a.s. loftsogtæki eru í beinu sambandi við þá. Frá þessum ofnum tapast ekki 70% af eitrinu út í andrúmsloftið, heldur aðeins 40%. Frá þeim tapast aðeins 40% þess flúors, sem myndast, út í verksmiðjusalina og umhverfið. Af þessum Söderbergsofnum eru til nýrri gerðir, sem víða eru nú notaðar í vaxandi mæli. Það eru líka lokaðir ofnar, og frá þeim fer aðeins 30% flúorsins út, en ekki 70% eins og er um þá ofna, sem hér á að nota. En jafnvel þessir ofnar eru taldir ófullnægjandi sem vernd. Jafnvel 30% flúor út í andrúmsloftið er talin of mikil mengun, og því eru flestar verksmiðjurnar nú auk þess útbúnar margbrotnum hreinsitækjum, og það er stöðugt leitazt við síðustu 19–20 árin af félögunum, sem verksmiðjurnar reka, að fullkomna þau tæki sem mest.

Það er sérstök ástæða finnst mér til þess að undirstrika þetta, sem ég sagði, að þeir opnu ofnar, sem hér á að nota og taldir eru fullgóðir í Íslendinginn, eru mjög lítið notaðir í Noregi. Þar eru þessir svokölluðu Söderbergs-ofnar mest notaðir. Þá vitum við það, að verksmiðjan í Straumsvík mun í byrjunarstærð sinni spúa 1900 kg af flúorsamböndum út í andrúmsloftið. Þetta mikla magn af eitri dreifist síðan út um nágrennið með veðri og vindi og mengar jarðveginn og sjóinn í kring, auk þess sem það að sjálfsögðu berst að meira eða minna leyti í menn og skepnur, sem lifa í nágrenni verksmiðjunnar. Nú er mér spurn: Hlýzt tjón af þessu, og ef svo er, hve mikið verður það tjón? Við þessari spurningu fæ ég ekkert svar í þessum stóra frv.-bæklingi. Mér skilst, að landslagið og veðurfarið í Straumsvík eigi að bjarga einhverju í þessu efni, en hve miklu, veit enginn maður nú. Hitt er hins vegar ljóst, að í þessari verksmiðju, verksmiðjunni sjálfri, á að forsóma gersamlega allar ráðstafanir, sem alls staðar annars staðar, að ég hygg, eru nú taldar sjálfsagðar, ráðstafanir, sem draga úr eitrunarhættunni, en eru að vísu dýrar. Ég fullyrti, að þessar nauðsynlegu ráðstafanir væru gerðar alls staðar annars staðar. Það er kannske ekki alveg rétt hjá mér. Ég veit, að þær eru gerðar í Evrópulöndunum og í Vesturheimi. Ég veit ekkert, hvort þær eru gerðar í álmverksmiðjum, sem kunna að finnast einhvers staðar í Afríku. Um það er mér ekki kunnugt. En þessar ráðstafanir eru dýrar, og það á að spara þær hér á landi og í stað þess að treysta á guð og lukkuna.

1900 kg af eiturefnum á hverjum degi árið um kring og 3800 kg, þegar verksmiðjan verður stækkuð, er það magn, sem hér er um að ræða og munar áreiðanlega um, hvar sem það lendir. Það dylst engum, sem les skýrslu Rannsóknastofnunar iðnaðarins á bls. 217, að þar er reynt að gera lítið úr þessari hættu. Þar er raunar viðurkennd berum orðum alger vanþekking á efninu, í öðru orðinu a.m.k. Ég tel þá játningu góðra gjalda verða. Verra er hitt, ef ekki má með öllu marka þær tölur, sem í skýrslunni eru birtar og eiga að sanna, að öllu sé tiltölulega óhætt. Ég varpa þessari spurningu fram: Getur það verið, að þessi skýrsla sé vilhöll í garð svissneska félagsins? Sumar tölumar geta bent til þess. Ég fullyrði þetta ekki, en ég segi: Sumar tölurnar geta bent til þess, og ég skal nefna dæmi. Í skýrslunni segir, að heildarmagn flúors, sem fari út í andrúmsloftið, sé 12 kg á hverja smálest álms. Norskur verkfræðingur, Olav Erga frá Þrándheimi, fullyrðir í fræðilegri ritgerð, að það séu um 20 kg flúorsambanda, sem losni út í umhverfið. Hér ber nokkuð á milli, annar segir aðeins 12 kg, hinn segir 20 kg, hvor sem rétt hefur fyrir sér. Þá er það fullyrt í skýrslunni, að hvað heilsufar manna snertir, liggi hættumarkið við 3 mg flúors í 1 rúmmetra lofts. Í mjög merku fræðiriti útgefnu árið 1965 í London og New York er þetta hættumark sett við 2 mg hvað flúorvetni snertir og 21/2 mg, þegar um önnur flúorsambönd er að ræða. Hér munar einnig verulega eða um þriðjung.

Jórturdýr þola flúormagn, sem er allt að 30–40 ppm af þurrefni fóðursins, segir í skýrslunni, en í áður nefndu fræðiriti er sagt, að 25 ppm geti nægt til þess að framkalla sjúkdóminn fluorosis hjá grasbítum. Eftir annarri heimildinni er öllu óhætt, þó að magnið sé 30–40 ppm, þ.e.a.s. 30–40 mg í einu kg, en í hinni heimildinni segir, að lægri tala, 25 ppm, geti nægt til þess að framkalla sjúkdóm hjá grasbítum. En hvað sem um þessar tölur er, hlýtur það að vera ljóst, að í skýrslunni er rennt blint í sjóinn í þessum mikilsverðu efnum. Skýrsluhöfundar vita ekkert, hver hætta verður í Straumsvík og nágrenni, og þeir hugga sig við, að nauðsynlegar rannsóknir megi gera síðar, þegar reynslan í Straumsvík er fengin. Ég spyr enn og aftur: Er það ekki nokkuð seint að byrgja brunninn, eftir að barnið er dottið ofan í hann? Ég tel það a.m.k. of seint. Rannsóknastofnun þessari bar að rannsaka málið ítarlega og sjálfstætt, en ekki kasta til þess höndunum, eins og hún bersýnilega hefur gert. Erlend reynsla er mjög mikil og víðtæk á þessu sviði, og úr henni er auðvelt að vinna á hlutlægan hátt, án þess að láta skammta sér eitthvert hrafl, e.t.v. valið verksmiðjueigendunum í vil.

Ég tel, að í þessum samningi við álmfélagið hafi okkar samningamönnum borið að gera vissar lágmarkskröfur þegar í upphafi. Þær kröfur áttu að snerta sérstaklega gerð bræðslukeranna og hreinsiútbúnað. En um þetta skilst mér, að ekkert hafi verið hirt. Eiturloftið á að fá að fara allt út í veður og vind án heftingar, og síðan skal ráðast af vindi, hvað um það verður. Þetta tel ég vera mikla yfirsjón af hálfu okkar samningsmanna. Alls staðar annars staðar eru nú orðið gerðar víðtækar, öflugar ráðstafanir til reykeyðingar, en hér á að vanrækja þetta. Ég veit, að verksmiðjan sparar sér með því mikil útgjöld, og hún gerir það í trausti til landshátta í Straumsvík og í trausti til íslenzkrar veðráttu. En er óhætt að treysta á þessi atriði? Ég efast stórlega um það.

Samkv. skýrslu Rannsóknastofnunar iðnaðarins nær aðalhættusvæðið að mörkum Hafnarfjarðarkaupstaðar. Séu nú tölur færðar til rétts vegar, skv. því, sem ég hef þegar upplýst, verður þessi kaupstaður allur innan hættusvæðisins. Ef skepnur veikjast af gróðri, sem þar vex og það gera þær skv. áliti Rannsóknastofnunarinnar, hvað þá um mannfólkið, sem þarna býr og andar að sér eiturmenguðu lofti? Það bráðveikist líklega ekki, og þó gæti það komið fyrir, ef reykinn t.d. legði frá verksmiðjunni inn yfir bæinn í óvanalega langan tíma samfellt. Hitt er þó miklu líklegra, að Hafnfirðingar fengju flúorinn inn í sig í vægari skömmtum, sem þó gætu með tímanum leitt til sýkingar. Sérstaklega má að sjálfsögðu búast við því, eftir að afköst verksmiðjunnar hafa verið tvöfölduð.

Í grg. Rannsóknastofnunar iðnaðarins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ekki vitað svo sannanlegt sé, að menn í nágrenni álbræðslna hafi veikzt af völdum flúors.“ Þetta er alls ekki sannleikur. Árið 1949 skýrði fræðimaður frá því opinberlega, að fundizt hefðu sjúklegar breytingar í tönnum skólabarna í nágrenni álmverksmiðja í Skotlandi. Þetta hef ég skv. áreiðanlegri heimild. Þetta er sennilega aðeins eitt dæmið um það, að menn sýkist í nágrenni álmverksmiðja. Það er a.m.k. möguleiki, sem alltaf verður að reikna með, að þeir, sem búsettir eru innan 5–10 km fjarlægðar frá álmverksmiðjunni í Straumsvík, geti sýkzt af völdum flúors. Þeir eiga á hættu hægfara eitrun, þessa hægfara eitrun, sem ég lýsti áðan og nefnd er fluorosis. Og svipað má segja um allt kvikt á þessu svæði. Ég skal taka það fram, að vindur á suð-vestan er tiltölulega mjög algengur í Straumsvík og í þeirri átt leggur reykinn frá verksmiðjunni beint inn yfir Hafnarfjarðarkaupstað. Ef við þetta bætist svo það, sem ég hygg vera rétt, að lognstundir ársins séu tiltölulega margar í Hafnarfirði og nágrenni Hafnarfjarðar, þá verður sá tími nokkuð langur á hverju ári, sem eiturloftið berst til Hafnarfjarðar, annaðhvort í logninu eða með suðvestanvindinum. Þá berst eiturloftið yfir Hafnfirðinga í verulegu magni og auðvitað ekki sízt eftir að verksmiðjan hefur verið stækkuð. Þá verður flúormagn í þurrefni fóðurs, sem aflað er í nágrenni Hafnarfjarðar, 30–50 ppm, sem er talsvert yfir hættumarki, og í og umhverfis Reykjavík verður flúormagnið eftir stækkunina 20–30 ppm, sem er alveg á mörkum þess að sýkja búpening. Og ég tel það mjög ólíklegt, að flúormagn, sem er svona mikið, sé hættulaust mönnum, þegar til lengdar lætur.

Ég hef gerzt nokkuð margorður um þetta. Ég hef viljað benda á, að hér verður um stórfellda mengun andrúmsloftsins að ræða. 1900 kg af flúoreitri og eftir fá ár 3800 kg af sama eitri á hverjum degi berst til og frá með veðri og vindi, mengar jarðveginn og vatnið og berst inn í líkama manna og dýra. Og gegn þessu á fólkið að standa varnarlaust. Sjálfsagðar, kunnar varúðarráðstafanir eru forsómaðar, eða ég hef ekki annað skilið. Og þær eru forsómaðar, af því að þær kosta mikið fé. Að þessu leyti erum við Íslendingar settir skör neðar en aðrar siðmenntaðar þjóðir, sem álmbræðslu hafa. Það er eins og auðhringunum finnist, að þeir þurfi ekki að vanda okkur kveðjurnar frekar en vanþróuðu löndunum. Mér finnst það óskiljanlegur trassaskapur að hafa ekki staðið betur á verði í þessu efni. Og ég tel það nánast ræfildóm að láta bjóða sér slíkt í samningum.

Ég skal nú láta orðum mínum lokið, en bendi aðeins á enn og aftur, að hér er um stórt heilbrigðismál að ræða og kannske miklu stærra heldur en okkur órar fyrir í dag. Það er alkunna, að mengun andrúmsloftsins í þéttbýli nútímans er vaxandi vandamál. Enda þótt reykingum sé kennt um vaxandi tíðleika krabbameins í lungum, þá eru ekki allir á því máli. Margir fræðimenn efast nú um það og vilja kenna öðru um, svo sem ýmiss konar mengun í andrúmsloftinu, eins og t.d. kolsýringi og uppgufun tjöruefna úr asfalti. Hvað um flúorinn, sem berst frá verksmiðjunum, hve miklu tjóni getur hann valdið á mörgum árum í mannslíkamanum? Um þetta veit enginn í dag. Þetta er rannsóknarefni. Við getum allt eins búizt við því, að hér sé á ferðinni miklu stærra heilbrigðislegt vandamál en okkur órar fyrir nú. En sá möguleiki á einmitt að gera okkur varkárari.

Ég læt þá mínu máli lokið. Með réttu, að mínu áliti, hefur álmsamningnum verið fundið margt til foráttu og jafnvel flest, en ég tel þó þetta ekki sízt forkastanlegt, að gera engar teljandi ráðstafanir til verndar heilsu manna. Þau afglöp ein ættu að mínum dómi að nægja þessu frv. til falls.