21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim tveimur hv. þm., sem talað hafa, fyrir þær undirtektir, sem þeir gefa þessu frv. Aths. þeirra eru sumar, einkum hv. 1. þm. Austf., mjög til athugunar að mínu viti. En það, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, virtist mér að verulegu leyti hvíla á misskilningi. Það er ekki ætlazt til þess samkv. þessu frv., að Seðlabankinn fari að blanda sér í einstakar lánveitingar. Þvert á móti, ég vil segja, að það sé meginbreytingin, að Framkvæmdasjóður eigi ekki lengur eins og Framkvæmdabankinn gerði áður, að lána einstaklingum og einstökum fyrirtækjum, þannig að það verður samkv. þessu frv. einmitt fylgt því meginboðorði, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, að ætti að gilda um Seðlabankann, að hann væri banki bankanna. Hann á þarna einungis að hafa samband við aðrar fjárfestingarstofnanir, og svo að vísu er einnig heimilt að lána fé til meiri háttar opinberra framkvæmda, en það er einnig svo nú, að Seðlabankinn hefur mikil viðskipti við ríkið.

En þá er einnig á það að líta, að sérstök stjórn á að vera fyrir Framkvæmdasjóðnum, og hún á einmitt að taka ákvarðanir um lánveitingar úr honum. Það er ekki á valdi Seðlabankans, það er á valdi stjórnar þessa sjóðs. Svo að jafnvel þó að það væri tekið upp, sem hv. í. þm. Austf. benti á, að hafa einhverja takmarkaða heimild til lánveitinga handa einstaklingum og einstökum fyrirtækjum, þá mundi Seðlabankinn ekki taka ákvarðanir um það samkv. frv., heldur sjóðsstjórnin. Meginbreytingin er sem sagt þessi, að nú á samkv. frv. öll lánveiting til fjárfestingarsjóðanna að fara beint um þeirra hendur, en Framkvæmdabankinn eða Framkvæmdasjóðurinn á ekki að keppa við þá að svo miklu leyti, sem er innan verksviðs hvers um sig.

Þetta er mikil breyting frá því, sem verið hefur, og mér skildist, að athugasemdir hv. 1. þm. Austf. væru ekki til þess að finna að þessari breytingu, heldur bendir hann á, að fjártestingarsjóðirnir, jafnvel með þeirri fjölgun þeirra, sem nú er ráðgerð, nái þó ekki yfir allar þær lánveitingar, sem Framkvæmdabankinn hefur hingað til annazt. Þetta er sjálfsagt að athuga nánar. Ég vil þó benda á, að ferðamálasjóður er til og honum er sérstaklega ætlað að greiða fyrir lánum til gististaða. Hvort ástæða væri til að láta hann einnig fá heimild til þess að lána til samgöngutækja eða setja sérstakan sjóð upp í því skyni, fyndist mér vera til athugunar.

Ég vil ekki segja, hvert sú athugun leiðir að lokum, hvort menn vilja hafa heimild til þess að veita úr Framkvæmdasjóðnum lán til fjárfestingar, þar sem enginn fjárfestingarsjóður nær til, hitt held ég, að sé alveg ljóst, og að því fann hvorugur þeirra hv. þm., sem töluðu, að það er ekki heppilegt, að Framkvæmdasjóðurinn keppi beint við fjárfestingarsjóðina, að svo miklu leyti sem þeirra verksvið nær til. Þá verður tvíverknaður. Þá er erfiðara að hafa nauðsynlegt samræmi í störfum og oft viðbúið, að sá, sem ýtnastur er, hrifsi mest til sín, en ekki sé endilega farið eftir því, sem verðugast er samkv. málefnum hverju sinni.

Þetta er að mínu viti megintilgangur frv., að fá þessari breytingu á komið, og hún er ekki til þess að auka valdsvið Seðlabankans eða afskipti hans af íánum einstakra manna, heldur þvert á móti.

Það má að vísu segja, eins og hv. 5. þm. Austf. segir, að samkv. öðru frv., sem hér liggur fyrir, frv. um Fiskveiðasjóð, þá á Seðlabankinn að öðlast aukinn rétt, þ.e.a.s. fá fulltrúa í stjórn Fiskveiðasjóðsins. En ég bendi á, að hingað til hefur hann haft fulltr. í Stofnlánadeild sjávarútvegsins, meira að segja tvo af fimm. Héðan í frá á hann einungis að hafa einn af fimm í stjórn Fiskveiðasjóðs, sem kemur til að taka yfir bæði núverandi Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeild sjávarútvegsins.

Það má deila um það, hvort þetta séu aukin áhrif eða ekki, en enga gagnrýni hef ég heyrt á því, að það hafi verið óheppilegt, að Seðlabankinn kæmi við sögu Stofnlánadeildar sjávarútvegsins á þann veg, sem gert hefur verið. Og ég sé ekki neitt óheilbrigt í því, þó að hann á þennan veg eigi þátt í stjórn Fiskveiðasjóðs, heldur þvert á móti mundi ég telja það eðlilegt og æskilegt, að þessir þrír höfuðbankar fari sameiginlega með stjórn þess mikla sjóðs, sem upp rís eftir sameiningu sjóðanna tveggja.

Áhrif Seðlabankans, — fyrir utan daglega stjórn, –aukast í þessum efnum fyrst og fremst með því, að í hans höndum verður sameinuð lántökuheimildin eða lánsfjáröflunin, skulum við segja, og ég held, að það sé á engan hallað, heldur sé það nokkuð sameiginleg skoðun okkar allra, sem höfum fylgzt með þessum málum um alllangan tíma, að það sé rétt, að æskilegast sé, að það séu ekki mjög margir aðilar af hálfu Íslands að leita eftir lánum erlendis.

Það hefur komið á daginn, að lánsfjármarkaðurinn er svo takmarkaður og samband á milli þeirra, sem geta hugsað sér að lána fé til Íslands, svo náið, að það hefur beinlínis reynzt óheppilegt og orðið til truflunar oft, þegar fleiri en einn aðili er að reyna að erja þennan akur. Menn hafa gert það í góðu skyni og sumir hlotið nokkurn árangur, en oftar hefur þetta leitt til vandræða og orðið til örðugleika, og ég segi það alveg hiklaust sem mína skoðun. Ég hef aldrei fjallað um þau málefni beint og ekki komið undir mig að standa fyrir lánaumleitunum, en ég hef ekki komizt hjá því að heyra skýrslugjafir um þau efni og fylgjast með þeim vinnubrögðum, sem höfð hafa verið. Og ég hef eftir þá þekkingu örugga sannfæringu um, að það sé heppilegast, að lánsfjáreftirgrennslan sé sem mest í höndum eins aðila af hálfu íslenzka ríkisins og íslenzkra opinberra stofnana og það sé sameinað sem mest í höndum Seðlabankans.

Það er engin regla án undantekninga. Við skulum játa það, og einokun í þessu er ekki endilega æskileg, en hitt er öruggt, að betra er að hafa þetta í umsjá eins aðila, sem hafi þetta sem eitt af sínum meginverkefnum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið. Ég ítreka það, að mér finnast ábendingar hv. 1. þm. Austf. vera þess virði, að þær séu betur skoðaðar í nefnd. Hinu fæ ég ekki við gert, þó að hv. 5. þm. Austf. sé andstæður einu af meginatriðum frv., en ég hygg þó, að hann sjái við betri skoðun, að hans andstaða er byggð að verulegu leyti á misskilningi.