21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Eysteinn Jónsson:

Það er aðeins til þess að benda á, að þessi liður, lán til samgangna, sem hæstv. forsrh. benti á í yfirliti Framkvæmdabankans um lánveitingar, gefur ekki tæmandi hugmynd um þann vanda, sem ég benti á og kemur af því, að ýmis starfsemi fellur utan við stofnlánastarfsemina, ef engu verður breytt í frv. Í öðrum liðum er áreiðanlega eitthvað af slíkum lánum einnig, eins og t.d. í því, sem flokkað er undir iðnað eða annan iðnað í þessari skýrslu. Ég er ákaflega hræddur um, að ýmislegt af því, sem þar er, mundi ekki verða talið koma til greina hjá Iðnlánasjóði. Enn fremur er þarna um að ræða talsvert af þjónustufyrirtækjum allmargvíslegum og fyrirtækjum, sem annast dreifingu, og það getur orðið mjög mikið af álitamálum í þessu sambandi. Ég hygg, að menn muni fljótlega reka sig á, að það veldur hinum mestu vandkvæðum, ef þetta verður afgreitt eins og það er, og mér þykir vænt um að heyra, að hæstv. forsrh. vill taka undir, að þetta verði athugað í n. ásamt öðru, sem ég nefndi. Ég vildi benda á þetta, og einfaldasta leiðin í þessu hygg ég að væri sú að skoða í n. löggjöf Iðnlánasjóðs, Fiskveiðasjóðs og Stofnlánadeildar landbúnaðarins, skoða þessi ákvæði og líta síðan yfir lánveitingar Framkvæmdabankans um nokkur ár, en upplýsingar um þær, hvert einasta lán, eru prentaðar í ársskýrslum sjóðsins, þannig að þá fæst hugmynd um, hversu víðtækt vandamál þarna er um að ræða.