18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls lét hæstv. fjmrh. þess getið, að hann líti á þá hækkun fasteignamatsins eða margföldun fasteignamatsins, sem um er að ræða í þessu frv., sem bráðabirgðaráðstöfun og að mér skildist þangað til því yrði við komið að gefa út nýtt fasteignamat, en hann gerði ráð fyrir því, að það gæti orðið á árinu 1967. Að gefnu þessu tilefni frá hæstv. fjmrh. lét ég þess getið við 1. umr. málsins, að ég teldi eðlilegast, að þessi viljayfirlýsing, sem þá kom fram af hálfu fjmrh., væri sett inn í l. og það væri beinlínis tekið fram í l. í sambandi við þessa sexföldun fasteignamatsins, að hún ætti aðeins að gilda þangað til nýtt fasteignamat tæki gildi. Þessi ábending mín hefur ekki fundið náð fyrir augum n. þeirrar, sem um þetta fjallaði, og er þess varla von, því að það voru minni atriði, sem ég benti á og ekki heldur fundu náð fyrir augum meiri hl. En að gefnu þessu tilefni og til þess að reyna að taka af allan vafa í þessu efni og til þess að fasteignaeigendur geti strax vitað það, hvort þeir mega eiga von á því, þegar hið nýja og væntanlega verulega miklu hærra fasteignamat kemur í gildi, — hvort þeir þá mega eiga von á því, að það nýja fasteignamat verði sexfaldað og eignarskattur við það miðaður, vil ég leyfa mér að bera fram til hæstv. fjmrh. svo hljóðandi fsp.: Vill hæstv. fjmrh. gefa hér yfirlýsingu um, að margföldun fasteignamatsins við eignarskattsútreikning verði niður felld, um leið og nýtt fasteignamat gengur í gildi? Samkv. orðum ráðh. verður það 1967. Í öðru lagi og til öryggis ætla ég að beina annarri fsp. til ráðh., sem ég tel þó raunar fyrir mitt leyti að hann hafi þegar svarað, en það sakar ekki, að það liggi alveg hreint og óvefengjanlega fyrir, og hún er sú: Er það ekki alveg öruggt, að með álagningu eignarskatts á þessu ári verður miðað við þrefaldað fasteignamat, en ekki við sexfaldað, enda þótt frv. það, sem hér liggur fyrir, verði að l. á þessu ári?