30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft frv. þetta til meðferðar, en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki getað náð samstöðu um afstöðu til málsins. Við, sem að meirihlutanál. á þskj. 619 stöndum, leggjum til, að það verði samþ. óbreytt, en tveir hv. nm., þeir hv. i. þm. Norðurl. e. og hv. 6. þm. Sunnl., hafa skilað minnihlutaáliti og flutt brtt. við frv. á þskj. 632.

Efni þessa frv. er þríþætt. Í fyrsta lagi fjallar það um Framkvæmdasjóð Íslands, sem gert er ráð fyrir að taki við meginhluta þeirra verkefna, sem Framkvæmdabankinn nú hefur með höndum. Í öðru lagi er starfsemi Efnahagsstofnunarinnar lögfest samkv. frv. Og í þriðja lagi eru í frv. ákvæði um stofnun hagráðs.

Svo sem hæstv. forsrh. gat um í framsöguræðu sinni við 1. umr. málsins var frá upphafi gert ráð fyrir því, er Framkvæmdabankinn var stofnaður, að starfsemi hans yrði í nánum tengslum við sjálfstæðan seðlabanka, sem þá var gert ráð fyrir að stofna. Sem dæmi um þetta má nefna 20. gr. gildandi l. um Framkvæmdabanka Íslands, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Seðlabankinn annast dagleg afgreiðslustörf fyrir Framkvæmdabankann gegn hæfilegri þóknun.“ En árið 1951 var skipuð milliþn. í bankamálum, sem gera skyldi till. um nýskipan peningamála, m.a. stofnun sjálfstæðs seðlabanka, en aldrei varð samkomulag um lögfestingu þeirra till., sem n. gerði, en hins vegar voru Framkvæmdabankanum falin ýmis verkefni, sem eru eðlilegt verkefni seðlabanka og hlutu því að flytjast til hans, þegar hann var stofnaður með lögum frá 1961. Jafnframt annaðist bankinn þjóðhagsreikningagerð og var ríkisstj. til ráðuneytis í efnahags- og fjárfestingarmálum, en þessi verkefni voru svo síðar falin Efnahagsstofnuninni, sem nú er ráðgert að lögfesta. Sem dæmi um verkefni, sem Framkvæmdabankanum var falið að gegna skv. gildandi l. um hann, má nefna, að í 7. gr. núgildandi I. um Framkvæmdabankann stendur m.a.: „Að efla sparifjársöfnun og verðbréfaviðskipti og stuðla að öðru leyti að þróun heilbrigðs markaðs innanlands fyrir lánsfé til langs tíma.“ Og í öðru lagi stendur í sömu gr. l., þar sem talin eru verkefni bankans: „að afla lánsfjár erlendis til framkvæmda, sem eru í samræmi við tilgang Framkvæmdabankans“ o.s.frv.

Hvort tveggja þessara verkefna heyrir eðlilega undir Seðlabankann, þannig að það er ljóst, að frá upphafi var gert ráð fyrir því, að Framkvæmdabankinn yrði í nánum tengslum við Seðlabankann, þó að það kæmi aldrei til framkvæmda. Þannig, að löggjöf sú, sem nú er í gildi um Framkvæmdabankann, er, hvað sem öðru liður, algerlega úrelt og ekki í samræmi við framkvæmd þeirra verkefna, sem honum voru ætluð samkv. löggjöfinni, eins og hún er í dag. Jafnframt þessu frv. hefur svo verið lagt fram frv. um Fiskveiðasjóð Íslands, sem hæstv. sjútvmrh. mælti fyrir áðan, en það gerir ráð fyrir sameiningu Fiskveiðasjóðs og Stofnlánadeildar sjávarútvegsins, og ætti það að vera augljóst, að sameining þessara tveggja fjárfestingalánastofnana sjávarútvegsins í tengslum við þá viðskiptabanka, er aðallega lána til útvegsins, er skynsamleg ráðstöfun, sem ætti að tryggja samræmdari nýtingu þess fjármagns, sem á hverjum tíma er hægt að ráðstafa í þessu skyni, en nú er.

Ég fjölyrði svo ekki meira um þann kafla frv., sem fjallar um Framkvæmdasjóð. Ég tek undir það með hæstv. forsrh., að það er raunar smekksatriði, hvort sagt er, að Framkvæmdabankinn sé með þessu lagður niður eða að breytt sé um skipan þeirra verkefna, sem hann nú gegnir.

Annar meginkafli þessa frv. fjallar um Efnahagsstofnunina. Það var stofnun, sem umdeild var á þeim tíma, er henni var komið á fót. Þá var því haldið fram af sumum aðilum, að hér væri í rauninni um óþarfa stofnun að ræða, vegna þess að Hagstofa Íslands gæti vel haft með höndum þau verkefni, sem Efnahagsstofnuninni voru falin. Ég tel út af fyrir sig, að þetta hafi verið á misskilningi byggt, því að þau verkefni, sem Hagstofan hefur gengt og er ætlað að gegna, eru talsvert annars eðlis en þau verkefni, sem Efnahagsstofnunin hefur frá upphafi haft með höndum. En hvað sem því líður, hygg ég, að sá ágreiningur, sem upphaflega var um það, hvort Efnahagsstofnunin væri nauðsynleg eða ekki, sé nú úr sögunni, þannig að allir séu í rauninni sammála um, að hún gegni mikilvægu hlutverki, og á hin myndarlega forstaða núv. forstjóra Efnahagsstofnunarinnar, Jónasar Haralz, vafalaust mestan þátt í því. Hef ég ekki orðið var við það í seinni tíð, að sá ágreiningur, sem áður var um nytsemi þessarar stofnunar, væri enn við lýði. Hins vegar virðist samkv. þeim till., sem gerðar hafa verið af hv. minni hl. fjhn. og einnig voru bornar fram í Nd., vera skiptar skoðanir um það, hvernig Efnahagsstofnuninni skuli stjórnað, þannig að í þessum till. er lagt til, að Alþ. kjósi stjórn stofnunarinnar. Að mínu áliti er þessi till. að talsverðu leyti byggð á misskilningi á eðlilegum verkahring þessarar stofnunar, því að starfsmenn þessarar stofnunar geta ekki verið stjórnmálaráðunautar og hlutverk þeirra ekki stjórnmálalegs eðlis.

Í rauninni er það þannig, að þau hagfræðilegu viðfangsefni, sem Efnahagsstofnuninni eru falin, eru ekki stjórnmálalegs eðlis. Hagfræðin er í sjálfu sér ekki tengdari stjórnmálum en hvaða vísindagrein önnur, eins og t.d. efnafræði. Hún fjallar um orsakasamhengi efnahagsmálanna, og þekking á því samhengi getur vissulega að mínu áliti verið mjög nytsöm og nauðsynleg við lausn ákveðinna raunhæfra viðfangsefna og getur haft sín áhrif á viðhorf manna til slíkra mála, en í rauninni er hagfræðin ekki tengdari stjórnmálunum heldur en t.d. efnafræðin, og væri jafnmikil ástæða til þess, að Alþ. kysi t.d. stjórn efnafræðilegra rannsóknarstofnana, en slíkar till. hafa, svo að mér sé kunnugt um, ekki komið fram. Hins vegar er auðvitað eðlilegt, að stjórnmálaflokkarnir hafi aðstöðu til þess að fylgjast með því, hvernig þau störf, sem unnin eru á þeim vettvangi, séu af hendi leyst, eins og við á um allar mikilvægar, opinberar stofnanir. En það tel ég, að í rauninni sé tryggt með þeim tengslum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að verði á milli Efnahagsstofnunarinnar og væntanlegs hagráðs, en gert er ráð fyrir því, að allir starfandi stjórnmálaflokkar eigi fulltrúa í hagráði, og mun ég þá að síðustu víkja að III. kafla frv., sem fjallar um hagráð.

Hliðstæðum stofnunum hefur verið komið á fót í flestum eða öllum nágrannalöndum okkar, og eru áhrif þeirra á þá stefnu, sem hverju sinni er rekin í efnahagsmálum þar mjög mikil og jafnvel oft raunverulega meiri en löggjafarsamkomu og ríkisstj., þó að að formi til séu þær að vísu yfirleitt aðeins ráðgefandi aðilar. Ekki mun ágreiningur um það, að fyllilega sé tímabært að koma slíkri stofnun á fót hér á landi, en hins vegar hefur það verið gagnrýnt af sumum hv. stjórnarandstæðingum, að störf þau, sem hagráði eru ætluð, séu of laust mótuð í þessu frv. Ég er í hópi þeirra, sem lengi hafa haft mikinn áhuga fyrir því að koma þessari stofnun á fót og tel, að hún geti gegnt mikilvægu hlutverki, ef rétt er á haldið. Mundi ég því sízt vilja gerast dragbítur á neitt, er verða mætti til þess að efla hana. Samt tel ég þá stefnu hyggilega, sem í þessu frv. er mótuð, en hún er sú að fara af stað í þessu efni í smáum stíl og nánast í tilraunaskyni, því að það er grundvallarskilyrði fyrir því, að störf stofnunar af þessu tagi komi að gagni, að fyrir hendi sé vilji hjá forustumönnum þeirra hagsmunasamtaka, sem hlut eiga að máli, að vinna að þeim stéttarlegu sérhagsmunum, sem þeir eru fulltrúar fyrir, á málefnalegan hátt.

Það ætlast enginn til þess af stéttarsamtökunum, að þau létti vandanum af því að stjórna landinu af ríkisstj. og þeim þingmeirihl., sem hún styðst við hverju sinni. En til þess að vissulega nauðsynlegt samstarf ríkisstj. og stéttarsamtaka geti borið jákvæðan árangur, þarf það hugarfar að vera ríkjandi hjá stéttarsamtökunum að vilja vinna að hagsmunamálum sínum í samræmi við efnahagslegar staðreyndir í þjóðfélaginu, en ekki í trássi við þær. Þetta hugarfar hefur ekki verið fyrir hendi hér á landi í nægilega ríkum mæli, svo að ekki sé meira sagt. Pólitísk spákaupmennska hefur átt allt of rík ítök innan hinna mikilvægustu stéttarsamtaka, þannig að meiri áherzla hefur verið lögð á það að knýja fram eitthvað, sem gæti skapað stjórnarvöldum vanda og þannig haft áhrif á stjórnmálaþróunina, heldur en hitt, að raunhæft mat sé lagt á þá möguleika, sem fyrir hendi eru hverju sinni, til þess að bæta hag viðkomandi stétta og aðgerðum hagað í samræmi við það. Innan verkalýðshreyfingarinnar hafa hugmyndir, sem svöruðu e.t.v. til þeirra aðstæðna, sem voru fyrir hendi um s.l. aldamót, en ekki eru í samræmi við þjóðfélagslegar aðstæður nú, í allt of ríkum mæli sett svip sinn á kjarabaráttuna. Þetta hefur m.a. komið fram í því, að einblínt hefur gjarnan verið á það að knýja fram sem hæsta kauphækkunarprósentu í þeirri sjálfsblekkingu, að samsvarandi raunhæfar kjarabætur hlytu að nást með slíku. Þetta gat átt við miðað við þær þjóðfélagslegu aðstæður, sem fyrir hendi voru um s.l. aldamót, þegar atvinnurekendur höfðu vegna innlendrar og erlendrar samkeppni ekki aðstöðu til þess að velta kauphækkunum, sem þeir sömdu um, yfir í verðlagið, en urðu að greiða þær af eigin ágóða. Nú eru aðstæður aðrar, svo að árangur af þeirri kjarabaráttu, sem á þessum grundvelli hefur verið ljáð, hefur fyrir verkalýðinn orðið hinn hörmulegasti eins og skýrslur um þróun kaupmáttar launa frá því í lok síðari heimsstyrjaldar, sem oft hafa verið birtar hér í þskj., eru órækt vitni um. Stórfelldar kauphækkanir hafa að vísu oft verið knúðar fram, en þar sem allir endar voru að öðru leyti lausir í þeim kjarasamningum, sem gerðir voru, runnu þeir á fáum vikum út í sandinn, þannig að eini árangurinn varð rýrt verðgildi peninga, en allur herkostnaður verkalýðsins í mynd tapaðra vinnudaga varð fyrir gýg.

Vissulega hafa þess sézt merki síðustu missirin, svo sem m.a. kom fram í júnísamkomulaginu 1964, að forustumenn verkalýðsins óháð stjórnmálaafstöðu þeirra séu að átta sig á því, að nýjar leiðir í kjarabaráttunni til samræmis við breyttar þjóðfélagslegar aðstæður séu vænlegri til árangurs en það að hjakka alltaf í sama fari. En sú þróun er þó meira hægfara en æskilegt er. Að ég nefni þetta, sem ég býst að vísu ekki við, að allir hv. þdm. séu mér sammála um, er ekki gert af löngum til þess að fara að hefja hér neinar almennar stjórnmáladeilur, en að mínu áliti er þetta einmitt kjarni málsins í sambandi við ágreining um það, hvað stór verkefni sé hægt og skynsamlegt að fela hagráði að svo stöddu. En hvað sem því líður, má þó að mínu áliti vænta þess, að þær viðræður og málefnaleg athugun, sem gert er ráð fyrir með till. þessa frv. um stofnun hagráðs, megi verða til þess að flýta fyrir því, að sá hugsunarháttur skapist hjá forustumönnum hinna ýmsu stéttasamtaka, sem er skilyrði fyrir því, að slík stofnun geti hér á landi gegnt svipuðu mikilvægu hlutverki og hliðstæðar stofnanir gera í nágrannalöndunum. Í trausti þess leggur meiri hl. fjhn. til, herra forseti, að þessar till. og frv. í heild verði samþ.