30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, eins og fram hefur komið, lýtur að þrennu. í fyrsta lagi því að stofna Framkvæmdasjóð Íslands, sem komi í staðinni fyrir núverandi Framkvæmdabanka, sé undir sérstakri stjórn og í vörzlu Seðlabankans. Í öðru lagi lýtur það að því að skapa lagagrundvöll fyrir störf Efnahagsstofnunarinnar, en lagalegan grundvöll fyrir starfi þeirrar stofnunar hefur fram að þessu skort alveg. Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir stofnun hagráðs, sem kallað er, sem sé vettvangur fulltrúa stjórnarvalda, atvinnuvega og stéttarsamtaka til þess að skiptast á skoðunum um efnahagsmálastefnuna í landinu.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Við, sem að nál. minni hl. stöndum, álítum, að þessi þrjú lagaatriði, sem ég hef nefnt, séu eðlileg og væntanlega til bóta. En á hinn bóginn eru nokkur einstök atriði frv., sem við teljum, að ætti að breyta, og brtt. um það flytjum við á þskj. 632.

Samkv. I. um Framkvæmdabanka Íslands eru föst ákvæði um það, hvernig bankaráðið skuli halda fundi, og um heimildir einstakra bankaráðsmanna til þess að krefjast bankaráðsfunda. Við teljum, að þessi ákvæði séu eðlileg og nauðsynleg og eigi ekki síður við um sjóðsstjórnina, sem tekur við verkefni bankaráðs Framkvæmdabankans, og l. brtt. okkar lýtur að því að taka upp í l. um Framkvæmdasjóð Íslands þessi ákvæði, hliðstæð ákvæði þessum úr 1. um Framkvæmdabanka. Við teljum enn fremur eðlilegt, að í stjórn Efnahagsstofnunarinnar séu fulltrúar frá þingflokkunum til þess að efla samband þingsins við þessa þýðingarmiklu áætlunarstofnun. Hv. frsm. meiri hl. virtist ekki vera okkur sammála um þetta, en eigi að síður lét hann í ljós skoðun, sem að mínum dómi hefði átt að nægja honum til stuðnings við þessa till., því að hann gerði einmitt að umtalsefni nauðsyn þess að skapa traust tengsl á milli stjórnmálaflokkanna eða þingflokkanna og Efnahagsstofnunarinnar. Ég er þeirrar skoðunar, að það verði ekki með öðrum hætti betur gert en með samþykkt þeirrar brtt., sem er 3. tölul. á þskj. 632.

Fyrr í vetur fluttum við nokkrir þm. héðan úr Ed. frv. um stofnun framleiðnilánadeildar við Framkvæmdabanka Íslands. Þetta frv. höfðum við flutt áður hér á hv. Alþ., og þá hafði það sofnað í n. Nú virtist allt útlit fyrir það, að það mundi gera það á nýjan leik. Þegar á hinn bóginn liggur nú fyrir frv. um það, að stofna Framkvæmdasjóð Íslands, sem komi í stað Framkvæmdabankans, þykir okkur eðlilegt að gera ráð fyrir því í l. um Framkvæmdasjóðinn, að þessi deild verði til. Og við höfum því tekið upp í 2. tölulið brtt. okkar efnisatriði frv. okkar um framleiðnilánadeildina. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. sé kunnugt um meginefni þess, og skal ég ekki rekja það. Það var til umr. hér á sínum tíma, en ég vil vekja athygli á því, að fjhn. sendi frv. í vetur til umsagnar ýmissa aðila. Ef ég man rétt, var það sent fjórum aðilum. Það var sent Búnaðarfélagi Íslands, Fiskifélagi Íslands, Iðnaðarmálastofnun Íslands og Seðlabankanum. Umsagnir hafa ekki borizt frá Seðlabankanum né heldur frá Fiskifélaginu, en frá Búnaðarfélagi Íslands og Iðnaðarmálastofnun Íslands hafa borizt umsagnir, sem báðar eru jákvæðar. Í umsögn Búnaðarfélags Íslands segir, að á fundi stjórnar Búnaðarfélagsins þann 12. apríl hafi erindi þetta verið tekið fyrir og gerð um það eftirfarandi bókun:

„Lagt fram frá fjhn. Ed. Alþ. frv. til l. um framleiðnilánadeild Framkvæmdabanka Íslands. óskar n. umsagnar Búnaðarfélags Íslands um frv.

Stjórn Búnaðarfélags Íslands mælir eindregið með samþykkt frv. þessa og leggur áherzlu á, að efld sé lánastarfsemi landbúnaðarins og annarrar framleiðslustarfsemi.“

Í umsögn Iðnaðarmálastofnunar Íslands, sem líka er jákvæð, segir svo í niðurlaginu, ég skal ekki þreyta hv. þdm. á að lesa það allt, vegna þess að það er líka prentað sem fskj. með áliti okkar í minni hl., en í niðurlaginu segir:

„Á því getur vart leikið vafi, að lánastarfsemi, sem hefði þann tilgang að auðvelda stjórnendum hagræðingaraðgerðir í fyrirtækjum sínum, mundi bera árangur. óbeinu áhrifin, sem fólgin væru í hvatningu til stjórnenda um að bæta rekstur sinn, yrðu þar án efa þung á metunum. Að þessu athuguðu virðist æskilegt, að stofnað sé til lánastarfsemi í anda ofangreinds frv.“

Þannig hafa borizt jákvæðar umsagnir um þetta frv. frá Búnaðarfélagi Íslands og Iðnaðarmálastofnun Íslands. Frá Seðlabankanum og Fiskifélaginu hafa ekki borizt umsagnir, og ég skal ekki leiða neinum getum að því, hverjar kunna að vera skoðanir þeirra aðila um þetta efni, en þessar jákvæðu umsagnir, sem ég hér hef gert grein fyrir, styðja með sama hætti að samþykkt þeirra brtt., sem hér liggja fyrir í 2. tölul. á þskj. 632, eins og þær lúta að meðmætum með samþykkt frv., þar sem efnislega er hér um sömu ákvæði að ræða.

Að svo mæltu vil ég leyfa mér, herra forseti, að mæla með samþykkt brtt. okkar í minni hl., sem eru á þskj. 632, og með samþykkt frv. svo breytts.