18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég verð nú sannast sagna að segja, að mér finnast þessar ábendingar til mín vera álíka óeðlilegar og fjarri lagi eins og ábendingar hv. 3. þm. Norðurl. v. voru eðlilegar.

Í fyrsta lagi kemur mér auðvitað ekkert á óvart og ég býst ekki við hv. 9. þm. Reykv. heldur, að það sé talað um, að skattar og tollar séu gagnrýndir. Ég held, að það yrði ákaflega mikið kraftaverk, ef ég sem fjmrh. fyndi t.d. nú upp eitthvert gjald, sem hv. 9. þm. Reykv. teldi ekki ástæðu til að gagnrýna, þannig að það eitt út af fyrir sig, að það séu rök fyrir því að jafnvel afturkalla till. um skattheimtu, að það hafi komið fram gagnrýni á henni hér á hinu háa Alþ., það eru auðvitað engin rök. Hann beindi því til mín, hvort ég vildi ekki fallast á það að afturkalla það ákvæði, sem er í l. um húsnæðismálastjórn um fjárframlag til húsnæðismála. Nú er það að vísu svo, að þetta er ekki frv., sem ég formlega stend að, þó að ég sé ekki að mæla mig undan því að hafa átt hlut að því, að þessi fjáröflun ætti sér stað. En að hinu leytinu get ég ekki fallizt á, að neitt hafi komið fram í málinu, sem gefi ástæðu til slíkrar afturköllunar, enda sé ég ekki, með hvaða hætti hún mætti vera.

Ég hef tekið það fram hér, hvað væri hægt að fara næst varðandi upphæð þess skatts, sem hér er um að ræða, eða tekna af þessari margföldun fasteignamats til eignarskatts. Og það hefur komið fram, að þetta gæti verið nokkurra millj. kr. munur til eða frá. Ég vil nú spyrja hv. þm.: Hvenær hefur verið lagður á hér skattur, sem hefur nákvæmlega verið hægt að fullyrða um, hvað gæfi miklar tekjur? Þetta er allt meira og minna áætlað. Stundum hafa skattar annaðhvort orðið miklum mun minni, eins og t.d. þessi skattur varð í fyrra, hann reyndist helmingi minni en áætlað var, stundum hafa skattar farið langt fram úr áætlun, þannig að ég held, að það sé ákaflega erfitt um vik að gera kröfu til þess og í rauninni svo óraunsætt sem hugsazt getur, að það megi ekki leggja á neinn skatt nema vita nákvæmlega upp á krónu, hvað hann gefur af sér. Svo sem þetta mál liggur fyrir, hefur það verið kannað eins og mögulegt er, bæði af ríkisskattstjóra og í áætlunum Efnahagsstofnunarinnar, og áætlanir hennar gera að vísu ráð fyrir lægri upphæð en ríkisskattstjóri er með í sínum áætlunum. En miðað við það, sem sennilegt má telja að sé það hæsta, sem hann geti farið, er hugsanlegt, að hann geti farið 5–6 millj. kr. fram úr áætlun. Þetta er það, sem fyrir liggur, þannig að hér er um skatt að ræða, sem getur ekki numið, eftir því sem fyrir liggur, nema nokkrum milljónum, tiltölulega fáum milljónum, til eða frá, hvað hann kunni að gefa. Og að það sé einstakt og óhæfa, að fjmrh. geti ekki gert nákvæma grein fyrir því upp á eyri, það finnst mér í rauninni, og ég veit, að hv. þm. raunverulega meinar það ekki, að það sé ekki frambærilegt að leggja skattinn á engu að síður, ekki sízt þegar það er alveg ljóst, og það veit ég, að hv. þingdeildarmenn skilja, að það er gersamlega ómögulegt að fullyrða þetta fyrr en við skattálagninguna á næsta ári.

Þessi hugmynd er því ekki framkvæmanleg, að ætla að bíða með að lögfesta þetta gjald, þangað til þetta liggur endanlega fyrir. Það verður þá að vera búið að fara í gegnum öll skattaframtöl til þess að komast að raun um þetta, því að eins og ég gat um og allir hv. þdm. munu gera sér ljóst, þá getur skuldasöfnun manns nú á þessu ári haft veruleg áhrif á það, hvort hann borgar eignarskatt eða ekki, þannig að það er gersamlega ómögulegt að fullyrða um það, hvort það kemur út nettó-eignarskattsauki hjá þessum eða hinum. Þó að hann kannske hafi haft eignarskatt í ár, þá er ekki víst, að hann hafi það næsta ár. Hafi hann engan borgað í ár, þá getur hann greitt hann næsta ár. En það er ómögulegt að átta sig á því, fyrr en farið er í gegnum hvert einasta framtal, þannig að þetta eru í rauninni einhver óraunhæfustu tilmæli að fara fram á, að það sé beðið til þess að fá endanlega reynslu á það, hverju þetta skattgjald nemur. Og sannast sagna held ég, að geti naumast verið, að hv. 9. þm. Reykv. beri í nokkurri alvöru fram tilmæli sem þessi, að fresta þessari tekjuöflun, sem hér er um að ræða, á jafnfráleitum forsendum og hann byggir þá frestun. Hann getur verið á móti þessari skattlagningu, það hefur hann sagt, að hann sé, og hann um það. Það er sjónarmið út af fyrir sig, hvort menn vilja afla tekna til að standa undir gjöldum ríkisins eða ekki, og þýðir ekkert fyrir okkur að vera að karpa um það.

Varðandi svo tilvitnun um það, að fargjaldaskattur sá, sem ég hafi boðað í fjárlfrv., það muni hafa komið í ljós, að það mál hafi ekki verið hugsað, það er algerlega út í hött. Það var hugsað alveg fullkomlega, áður en ég sagði þau orð, sem þar voru sögð, og hefur ekkert nýtt komið í ljós í því efni, sem ekki hafði verið fullkomlega tekið til athugunar, þegar það var rætt. Varðandi alla þá skattlagningu, sem ég gerði þar grein fyrir, að ríkisstj. áformaði til þess að jafna hallann á fjárl., þá var sú skattlagning athuguð til hlítar og hvað þar væri um að ræða, og væntanlega næstu daga fær hv. þm. eitthvað af þeim frv. til þess að gleðja hjarta sitt yfir.