30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

100. mál, Háskóli Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er, eins og gerð hefur verið grein fyrir, um nokkra fjölgun prófessorsembætta við Háskóla Íslands. Það var enginn ágreiningur um það í menntmn. þessarar hv. d., að efling háskólans væri nauðsyn, og í rauninni var alger samstaða um málið að öðru leyti en því, að við nokkrir nm. vildum sinna ákveðnum tilmælum, sem fram höfðu komið í sambandi við eitt af þeim embættum, sem ætlunin er að stofna.

Upphaflega var þetta frv., að því er ég hygg, í algeru samræmi við þá áætlun, sem háskólaráð hefur samið um eflingu háskólans og fjölgun embætta við háskólann.

En svo bar það við, að hv. menntmn. Nd. tók rögg á sig og bætti við einu prófessorsembætti í samtímasögu. Út af fyrir sig verð ég að lýsa því yfir, að ég tel, að þetta beri vott um æskilega hugarfarsbreytingu hjá hv. Alþ., þegar um er að ræða frumkvæði frá því um eflingu háskólans, því að mér hefur virzt, að það hafi heldur borið á hinu allt of lengi, að Alþ. hefur verið í tregara lagi til að efla þessa æðstu menntastofnun þjóðarinnar og sízt farið í því efni fram úr þeim rökstuddu till., sem jafnan hafa legið hér fyrir frá háskólanum sjálfum, og út af fyrir sig ber að fagna því.

Hins vegar verð ég að segja, að þetta mál bar að því leyti dálítið einkennilega að, að mér er kunnugt um, að um þessa breytingu var ekkert samráð haft við háskólann eða stofnanir hans, ég hygg ekki við háskólaráð, heimspekideild og örugglega ekki við háskólakennara, sem kenna sögu. Og ég veit, að sá háskólakennari, prófessor Þórhallur Vilmundarson, sem kennir einmitt seinni tíma sögu, frétti um þessa breytingu á skotspónum, ef svo má segja, hann frétti fyrst um það, þegar skýrt var frá þessari breytingu í þingfréttum útvarpsins.

Það liggur einnig fyrir, að þetta embætti var ekki á áætlun háskólaráðs um fjölgun prófessorsembætta við háskólann. Þó að þetta mál sé þannig til komið eins og ég lýsti og að vísu með dálítið undarlegum hætti að því leyti til, að það skuli ekki áður eða jafnhliða því, sem það fær meðferð í hv. Nd., vera a.m.k. borið undir þær stofnanir háskólans, sem þar ættu um að fjalla, er þetta allt að einu, að því er ég tel, gleðilegur vottur um það, að alþm. hafi hug á því í ríkara mæli væntanlega en stundum áður að efla þessa bráðnauðsynlegu og mikilvægu menntastofnun.

Það hefur nú komið í ljós, eins og kannske var ekki óeðlilegt, að innan háskólans eru nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort þetta, sem hér er lagt til í frv., er heppilegasta leiðin til að ná því marki jafnvel, sem að er stefnt með brtt., og hv. frsm. menntmn. hefur gert skýra grein fyrir því, að skoðanir eru þarna skiptar og lesið upp þær álitsgerðir, sem fyrir liggja. En í stuttu máli má segja, að það sé fram komið, að sagnfræðiprófessorarnir báðir, Þórhallur Vilmundarson og Guðni Jónsson, æskja eindregið eftir því, að í stað nýs prófessorsembættis að svo stöddu í samtímasögu verði komið á stofn eða heimspekideild gert kleift að hefja gagnasöfnun og nokkra úrvinnslu í sambandi við þessi efni og þannig gæti komizt upp vísir að sagnfræðistofnun, sem ynni að slíkri heimildasöfnun og heimildakönnun undir stjórn prófessora. Til þess að sinna slíkum verkefnum mætti ráða um skemmri eða lengri tíma unga efnismenn, einn eða fleiri eftir atvikum og eftir því sem fé hrykki til. Afstaða annarra prófessora í heimspekideild var í stuttu máli sú, að hér væri ekki um neitt val að ræða. Annaðhvort væri að taka því, sem þarna byðist, prófessorsembætti, ellegar að um ekki neitt væri að ræða í staðinn. Það má segja, að háskólaráð æski eftir hvoru tveggja, prófessorsembætti og sagnfræðistofnun, og þó virðist mér, að það komi fram í umsögn háskólaráðs, að sé um tvennt að velja, annars vegar prófessorsembætti og hins vegar aðstöðu til sagnfræðirannsókna með öðrum hætti eða sagnfræðistofnun, hallist það frekar að því að velja sagnfræðistofnunina.

Í menntmn. þessarar d. kom það fram, að ýmsir nefndarmanna höfðu verulega tilhneigingu til að styðja það sjónarmið, sem kemur fram í umsögn sagnfræðiprófessoranna, að það liggi nokkurn veginn í augum uppi, að það væri eðlilegra að byrja á því í þessu efni að safna heimildum og gögnum um síðari tíma sögu, síðan kæmi úrvinnsla heimildanna og síðast væri þá að því komið, að skipulögð háskólakennsla gæti farið fram á grundvelli þeirrar heimildasöfnunar og þeirra rannsókna, sem þá lægju fyrir. Enn fremur var á það bent í n., að það er engan veginn vandalaust fyrir þann mann, sem yrði skipaður prófessor í samtímasögu, að gegna því starfi þannig, að ekki stæði um það meiri eða minni styr. Þar er um að ræða svo viðkvæmt mál, að þar verður vissulega að fara mjög varlega, einkum að því er varðar það að fara að leggja út af hlutum, sem eru e.t.v. enn deilumál, jafnvel pólitísk deilumál, og mikið álitamál, meðan þau eru ekki komin í nægan fjarska. Þetta var nm. yfirleitt ljóst, og ég vil eindregið vara við því, að í þessu efni verði gálauslega að farið. Ég geri ráð fyrir því, að ef þetta embætti verður stofnað, verði þetta sjónarmið mjög haft í huga, að þarna er um afar vandasaman og viðkvæman hlut að ræða og mikil spurning, hversu nálægt samtíðinni er hægt að ganga í því að kenna sögu um atburði, sem enn eru mjög umdeildir og umdeilanlegir.

Niðurstaða af þessum hugleiðingum okkar þriggja nm. í menntmn. var sú, að við leggjum hér fram brtt. á þskj. 630, sem við teljum að fari mjög svo hóflega millileið milli þess sjónarmiðs, sem mótaði ákvörðun hv. Nd. um nýtt prófessorsembætti í nútímasögu Íslands, og hins sjónarmiðsins, að byrja á hinum endanum, byrja á því að afla heimildanna og gagnanna og fara að vinna úr þeim, áður en prófessorsembætti verði stofnað. Við leggjum sem sagt til, að aftan við frv. komi ákvæði til bráðabirgða, aðeins í heimildarformi, sem heimili að fresta um allt að 5 ára skeið veitingu prófessorsembættis í íslenzkri nútímasögu, en meðan það embætti sé óveitt, fái heimspekideild Háskóla Íslands að verja árlega fjárhæð, sem nemur einum prófessorslaunum, til að láta safna gögnum og efna til rannsókna í íslenzkri nútímasögu.

Það kom fram hjá hv. frsm. menntmn., að í rauninni sé hann efnislega sammála þessu ákvæði til bráðabirgða og þeirri millileið, sem þar er farin. En hann lagði áherzlu hins vegar á, að það mætti ekki stefna frv. sjálfu í hættu, og vitanlega skal ég taka undir það, að það er alls ekki vilji okkar fim. þessarar brtt., að það verði gert. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að segja það, að mér finnst þess vera farið að gæta ískyggilega mikið nú á þessum síðustu dögum, að menn risa upp, sérstaklega frsm. nefnda eða meiri hl. nefnda, og lýsa því yfir, að ef farið yrði að lagfæra eitt eða annað í frumvörpum, jafnvel sem allir eru sammála um að væri til bóta að breyta, gæti það stofnað málunum í hættu og þau kunni þá að daga uppi. Þetta er orðið afar hvimleitt, en það kemur nú fyrir í hverju málinu á fætur öðru. Ég fæ ekki séð, að þótt þessi brtt., þessi mjög svo milda millileið, sem er í algeru heimildarformi, yrði samþ. hér í þessari hv. d. og málið þyrfti með þessari litlu breyt. að koma til einnar umr. í hv. Nd., þyrfti það að stofna framgangi þessa máls í hættu. Ég vona að minnsta kosti, að Háskóli Íslands eigi það marga formælendur hér á þingi, að engum detti í hug að bregða fæti fyrir jafnstórt mál og þetta, þó að þessi litla brtt., þar sem mjög svo vægilega er í sakirnar farið, verði samþ. Ég tel, að hér sé um heppilega málamiðlun að ræða og hún hvort tveggja í senn ætti að ná algerlega þeim tilgangi, sem vakti fyrir hv. Nd., með því að ákveða, að stofna skuli prófessorsembætti í samtímasögu, en það verði einnig hægt að koma allverulega til móts við þær mjög svo eðlilegu og ég vil segja skynsamlegu og á allan hátt æskilegu tillögur, sem prófessorarnir í sögu hafa gert í sambandi við þetta mál, þ.e.a.s. að byrja á gagnasöfnuninni, úrvinnslan komi næst, en kennsla í fræðunum komi síðast.