30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

100. mál, Háskóli Íslands

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð, sem ég ætlaði að segja í sambandi við þetta mál. Ég var meðal þeirra, sem fögnuðu þeim áhuga, sem hv. menntmn. Nd. sýndi málefnum háskólans, þegar hún fjallaði um þetta frv. Eins og segir í nál. frá þessari hv. n., hefur hún ekki aðeins rætt um fjölgun embætta við háskólann, heldur hefur hún og fjallað um stöðu skólans almennt og framtíð hans. Það er einnig sagt frá því, að hæstv. menntmrh. og háskólarektor hafi mætt á fundum n. og tekið þátt í umr. þar. Kom fram, að því er segir í nál., mikill áhugi n. fyrir því að bæta aðstöðu háskólans og kennsluhætti alla og að efla vísindastarfsemi innan hans.

Það er í tilefni af þessu, að ég stend hér upp og leyfi mér, fyrst hæstv. menntmrh. er nú staddur hér í þessari d., að beina til hans einni spurningu sérstaklega. Við vitum, að það er ekki nægilegt að fjölga embættum við skólann. Það þarf einnig að skapa kennurunum aðstöðu til þess að sinna störfum þar með sóma. Einstakar deildir háskólans eru áreiðanlega misjafnlega settar hvað þetta snertir, en það er ein deild, eða hluti úr deild kannske réttara sagt, sem er sérstaklega illa sett í þessu efni, svo illa sett, að það er naumast, eins og sakir standa, nokkur grundvöllur til kennslu. Ég á hér við tannlæknadeildina. Eins og hv. þdm. muna, var það mál lítillega rætt í Sþ. á s.l. hausti, en þá vildi það til, að loka varð algerlega þessari deild fyrir nýstúdentum. Nú er mér ekki kunnugt um annað en að ástandið hvað þetta snertir í háskólanum sé nákvæmlega það sama enn í dag og að við blasi, að enn verði á hausti komanda að loka deildinni fyrir nýjum nemendum. Það er þess vegna, að ég leyfi mér að standa upp og ræða þetta mál háskólans sérstaklega, því að ég tel þetta ekki aðeins eitt af brýnustu vandamálum hans, heldur að nokkru leyti einnig vandamál þjóðarinnar allrar, vegna tannlæknaskortsins, sem ríkir hér á landi. Það er ekki nóg, að þessari deild, tannlæknadeildinni, hafi á s.l. hausti verið lokað og að útlit sé fyrir, að henni muni verða lokað enn um óákveðinn tíma, heldur veit ég ekki betur en ástandið sé svo slæmt, að nokkrir nemendur, sem nú eru í miðju námi þar, verði að hrökklast úr deildinni. Þeim mun að vísu hafa verið útveguð vist við útlenda háskóla. En það er ekki nóg að útvega nemendum vist, þeir verða að hafa efni á að dveljast við slíka háskóla erlendis. Og ég held, að á því hafi strandað og strandi hjá þessum ungu mönnum, sem eru við nám í Háskóla Íslands og verða, að því er ég bezt veit, að hrökklast þaðan. Þeim er vísað í útlegð, en hafa þar litla möguleika til að lifa.

Þetta vildi ég láta koma fram og beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh., hvort þetta vandamál háskólans hafi verið rætt í hv. menntmn. Nd. og hvort nokkur ákvörðun hafi verið tekin þar um þetta mikla vandamál.