30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

100. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það vandamál tannlæknadeildar, sem upp kom á s.l. hausti, hefur verið til athugunar í háskólanum og menntmrn. í vetur, og ég lít þannig á, að full lausn hafi fengizt á þeim vanda, sem við var að etja á s.l. hausti. Tannlæknadeildin tók þá að vísu ekki við neinum nýjum nemendum að forminu til, en þeir stunduðu hins vegar nám í læknadeildinni í þeim greinum, sem eru kenndar á fyrsta ári í tannlæknadeild, og sama fjölda og að meðaltali hefur verið tekinn í deildina undanfarin ár mun verða veitt formleg innganga í tannlæknadeildina nú einhverja næstu daga, þannig að þeir munu geta haldið áfram reglulegu tannlæknanámi á næsta hausti. Þeim nemendum, sem augljóst var, að ekki yrði hægt að sjá fyrir síðari hluta kennslu í tannlæknadeildinni, en eru þar nú, hefur öllum verið útveguð námsvist erlendis, þannig að þeir geta haldið áfram námi sínu algerlega ótruflaðir, og auk þess hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að þeir fái sérstaklega fjárhagslega fyrirgreiðslu, þannig að þeim verði unnt að stunda námið.