30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

100. mál, Háskóli Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Út af þeirri brtt., sem hv. 5. þm. Reykn. og tveir aðrir hv. þdm. flytja hér, vil ég taka fram, að ég hef í sjálfu sér tilhneigingu til þess að fylgja þeirri brtt. og tel hana á margan hátt eðlilega, ekki hvað sízt þegar tillit er tekið til þess, með hvaða hætti til þess embættis var stofnað, sem hér er um að ræða. En samt sem áður tel ég mér ekki fært að fylgja henni og mun greiða atkv. á móti henni, og það er af þeirri ástæðu, að ég tel mig hafa ástæðu til þess að ætla það, að ef sú brtt. yrði hér samþ. og málið þess vegna þyrfti að fara til Nd., væri því teflt í tvísýnu, og það tel ég raunar hafa komið fram og fengið hér nokkra staðfestingu í ummælum þeim, sem hæstv. fjmrh. hafði hér áðan. Ég tel líka, að með yfirlýsingu hæstv. menntmrh. sé tryggt, að þetta embætti verði ekki auglýst nema að höfðu samráði við háskólaráð og heimspekideild og að áður en það kemur til framkvæmda fari fram gagnger athugun á verksviði prófessors þessa. Ég tel raunar, að þrátt fyrir þá ráðagerð, sem fram kemur í nál. frá hv. menntmn.

Nd., hljóti háskólaráð og hver deild að hafa mjög mikið svigrúm til þess að skipta verkefnum á milli prófessora og breyta verkefnum þeirra eftir því, sem aðstæður breytast og þörf kallar á, vegna þess að svo er yfirleitt til hagað um embætti prófessora við Háskóla Íslands, a.m.k. í heimspekideild og lagadeild og að ég hygg í guðfræðideild, að þar eru embættin í lögunum ekki bundin við ákveðnar kennslugreinar, heldur er það á valdi háskólaráðs og deilda að haga því með þeim hætti, sem bezt þykir henta. Ég mun þess vegna, úr því sem komið er, greiða þessu frv., eins og það nú liggur fyrir, atkv. mitt, en verð því miður að greiða atkv. á móti þessari brtt., enda þótt ég geti fyllilega tekið undir það, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn., að það er náttúrlega nokkuð óeðlileg aðferð og óvenjuleg og einkennileg í garð þess prófessors, sem hér á nánast hlut að máli, að fara að samþykkja slíkt nýtt prófessorsembætti á hans tiltekna kennslusviði, án þess að hafa nokkurt samráð við hann. Ég býst við, að hver og einn geti séð sjálfan sig með það, að honum mundi þykja nokkuð nærri sér höggvið, ef þannig væri að farið.