01.11.1965
Neðri deild: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir það nú miður, að hv. 5. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson mætir ekki hér í d. í dag og hv. 2. þm. Sunnl. er ekki enn mættur, en það voru þessir tveir hv. þm., sem tóku til máls hér á fimmtudaginn var og ræddu um það frv., sem hér er til umr., til staðfestingar já brbl. um verðlagningu landbúnaðarvara fyrir árin 1965 og 1966. Að vísu er það ekki svo margt, sem þarf að svara þessum ræðumönnum, að það sé ástæða til að tefja málið af þeim sökum, jafnvel þótt hvorugur þeirra mætti. En ég vildi leyfa mér að gera smávegis aths., sem þessir hv. þm. geta þá lesið á eftir og notfært sér við 2. umr. málsins.

Mér fannst það alls ekki gott, þegar hv. 2. þm. Sunnl. var að tala um að gera uppreisn út af þessum brbl. Hann var að tala um það, að ríkisstj. gæfi út allt of mikið af brbl. Ég býst við, að hv. 2. þm. Sunnl. og hans flokksbræður yrðu í nokkrum vandræðum með að svara því, hvernig hefði átt að leysa þetta mál, verðlagningarmál búvörunnar, á s.l. hausti, án þess að grípa til útgáfu brbl. Ég held, að allir hv. þm. geri sér grein fyrir því, að það var enginn annar möguleiki fyrir hendi. Lög um 6 manna n. voru ekki lengur virk. Verðlag þurfti að fá á búvöruna. Hvernig sem það hefði borið að, hefði orðið að grípa til brbl. Ég held, að allir hv. þm. geti þess vegna verið sammála um, að það hafi verið fljótræði hjá hv. 2. þm. Sunnl. að fordæma brbl.-fyrirkomulagið alveg í heild, enda eru ekki gefin út brbl. nema meiri hl. Alþ. standi að baki þeim og núv. ríkisstj. hefur ekki gefið út brbl. nema brýnar nauðsyn hafi borið til til þess að bjarga verðmætum eða koma hlutum í lag, sem ekki voru í lagi. Ég held, að brbl.-fyrirkomulagið geti þess vegna notazt vel, þegar því er beitt á réttan hátt, eins og nú hefur verið gert. En í byrjun fengu þessi lög anzi slæmar viðtökur hjá sumum hv. framsóknarmönnum og Tímanum, og það stóð til að reyna að æsa bændur gegn þessum l. Vissulega var það reynt, en það tókst ekki, þá það var þess vegna óþarfi fyrir hv. 2. þm. Sunnl. að segja sem svo hér við umr. um daginn, að hann vissi ekki, hvernig bændur mundu yfirleitt taka þessum l. Hv. þm. veit það vel, að bændur taka þessum l. vel, enda þótt þeir viti það, að þessi löggjöf bætir ekki hag þeirra fram yfir það, sem aðrar stéttir hafa fengið. Og það hef ég áður sagt. Þessi Iög bæta ekki hag bænda umfram það, sem aðrar stéttir hafa fengið á þessu ári, vegna þess að þau eru miðuð við þann samkomulagsgrundvöll, sem fékkst haustið 1964. Þessi lög eru sett með það fyrir augum, að það sé sanngirni, sem verður ofan á, og það sé á engum níðzt, að boginn sé ekki spenntur of hátt í sambandi við verðlag búvörunnar, en það er einnig tryggt, að hlutur bóndans er ekki fyrir borð borinn. Og þegar bændur hafa athugað þetta, láta þeir ekki segjast, þótt hv. framsóknarmenn á Alþ. eða ritstjóraskrifstofan reyni að æsa þá til óþurftarverka. Bændur verða þess vegna ekki með í uppreisnarleiðangri út af þessu máli.

Hv. þm. sagðist vera friðsamur. Það veit ég, að hann er í eðli sínu og hefur yfirleitt mjög góða framkomu hversdagslega og oftast hér á hv. Alþ. líka og er oftast prúður í ræðumennsku. En það hefur komið fyrir, að hann hefur kannske ekki talað, þegar nauðsyn bar til, en meira þegar ekki var nauðsynlegt að tala, eins og hann gerði í þessu máli.

Þá hygg ég, að hv. framsóknarmenn viti það, að í sambandi við undirbúning þessara l. var talað við fulltrúa bænda í 6 manna n. og einnig þá fulltrúa neytenda í 6 manna n., sem enn voru til viðtals. Og það var reynt að leysa þetta mál sem mest með samkomulagi. Og ég hygg, að það út af fyrir sig, sá undirbúningur, sem varð fyrir þessa löggjöf, hafi nú einnig verið grundvöllurinn að því, að það er friður um löggjöfina meðal bænda og meðal neytenda, því að það sjá allir, sem vilja kynna sér þetta mál, að þarna hefur verið farinn meðalvegurinn, sú leiðin, sem sanngjörnust var.

Hv. framsóknarmenn hafa að því fundið, að það skuli vera miðað við bætur almannatrygginganna, þegar um það var að ræða að bæta bændum þeirra hlut í sambandi við kauphækkanirnar. Og það hefur verið talað um, að það væri lítilfjörlegt fyrir bændur, að þeirra hlutur væri miðaður við þær bætur, sem gamalmenni og sjúklingar fá. Ég hef nú ekki heyrt bændur sjálfa tala í þessum tón. Ég veit miklu frekar, að bændur eru það skynsamir og hafa það mikla reynslu og reyndar vita það, að almannatryggingarnar tryggja gamalmennum og sjúklingum fyllstu bætur og þeir, sem með þessi lög fara, hafa aldrei látið sér til hugar koma að snuða gamalmenni og sjúklinga um þær bætur, sem þeim ber að fá vegna aukinnar dýrtíðar. Og það er þess vegna, sem bændur hafa gert sér ljóst, að einmitt vegna þess að þeirra bætur eru miðaðar við þetta, er þeirra hlutur að fullu greiddur. Það er ekki viðeigandi að vera að tala í þeim tón, sem hv. framsóknarmenn hafa gert í þessu efni, að það sé ekki viðeigandi og það sé lítilfjörlegt að vera að miða hlut bænda við bætur almannatrygginganna til sjúkra og gamalla. Og ég vænti þess, að þeir geri sér grein fyrir því, að sjúkir og gamalmenni fá fullar bætur. Þeir eru ekki snuðaðir af dýrtíðinni samkv. þeim l., sem sett voru hér á síðasta Alþ.

Þá þarf ekki að taka það fram, að rekstrarvöruhækkunin hefur verið tekin inn í verðgrundvöllinn. Framsóknarmenn hafa talað um, að það hefði átt að miða við úrtakið svokallaða, sem sýnir hækkaðar launatekjur viðmiðunarstéttanna. Það hefði ekki verið gert núna og þess vegna hafi bændur verið snuðaðir. En þetta segja aðeins þeir, sem ekki þekkja neitt verulega til verðlagningar landbúnaðarvara. Þetta segja ekki þeir, sem hafa haft með verðlagninguna að gera, vegna þess að þeir vita, að það er óuppgert mál, hvort mundi vigta meira, úrtakið eða framleiðsluaukningin og stækkun meðalbúsins. Það er óuppgert mál. Og það er engin vissa fyrir því, að bændur hefðu tengið meiri hækkun, þótt miðað hefði verið við úrtakið, því að þá hefði framleiðsluaukningin og stækkun búsins verið tekin til greina. Það er engin vissa fyrir því og gæti jafnvel skeð, að hækkunin hefði ekki orðið svona mikil, ef allt hefði verið gert þannig upp. Þess vegna er það, að það er varasamt fyrir þá menn, sem ekki hafa komið nálægt þessum málum, að koma hér á hv. Alþ. með fullyrðingar út í bláinn, sem ekki styðjast við þekkingu eða veruleika.

Þá er það einkennilegt að tala um þetta frv. hér og brbl. eins og þau eigi að vera það varanlega. Það er spurt að því, hvað taki við, hvort þetta eigi að vera til frambúðar, að bændur hafi ekki samningsrétt. Það er spurt út í hött, vegna þess að það er vitað, hvað ríkisstj. vill í þessu efni og að hverju er stuðlað með því að skipa menn í n., 3 fulltrúa frá neytendum og 3 frá bændum, til þess að endurskoða verðlagslöggjöfina og leitast við að ná samkomulagi, sem hægt verður að byggja á í framtíðinni með verðlagninguna. Þetta er vilji ríkisstj., og það verður að reyna á það, hvort það tekst að ná þessu samkomulagi. Þeir aðilar, sem farið hefur verið fram á, að tilnefndu menn í n., munu verða við því, og fyrirfram vil ég ekki reikna með, að ekki verði samkomulag um þessi atriði.

Ég tel og sérstaklega þá vegna þess, að hv. 2. þm. Sunnl. er ekki viðstaddur, ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um hans ræðu. En ég vil fullyrða, að það verður eftir því tekið af bændum, ef hv. framsóknarmenn hér á Alþ. vilja ekki ljá þessu máli stuðning. En ég skildi hv. 2. þm. Sunnl. þannig, að framsóknarmenn mundu ekki ljá þessu máli stuðning, og ég geri ráð fyrir því, að bændur taki eftir því og þeir verði ýmsir bændur, sem spyrja að því: Hvað vildu framsóknarmenn? Hvað vildu þeir? Og það hefur oftar verið spurt að því, þegar hv. framsóknarmenn hafa ýmist setið hjá eða verið á móti. Hvað vildu þeir? Hvernig ætluðu þeir að leysa málið? Eða átti ekki að leysa málið? Átti ábyrgðarleysið að vera ráðandi? Við sjáum, hvað setur, og við tölum um þessi mál seinna.

Hv. 5. þm. Vestf., forseti A.S.Í., flutti hér alllanga ræðu, og það er vissulega leiðinlegra að gera hana að umtalsefni, þegar hann er fjarverandi. En eins og ég sagði áðan, er sá munur, að það, sem ég segi hér, er allt tekið upp og verður skrifað og hv. ræðumenn geta lesið það og svarað því þá seinna. En hv. 5. þm. Vestf. (HV) byrjaði á að lesa yfirlýsingu A.S.Í. út af því, að það hætti við að tilnefna mann í 6 manna n. Þessa yfirlýsingu hafa vitanlega allir hv. þm. heyrt og lesið áður og þar var ekkert nýtt, og vissulega er það ekki sannfærandi, sem þar er fram fært. Það er t.d. ekkert sannfærandi, þegar forseti A.S.Í. eða Alþb.-menn tala um það, að þeir hefðu ekki getað tilnefnt mann í 6 manna n., vegna þess að dreifingarkostnaðurinn sé hár og fulltrúi A.S.Í. eða fulltrúar neytenda hafi enga aðstöðu til þess að hafa áhrif á verðlagið yfirleitt. Í 22 ár hefur 6 manna n. starfað, skipuð fulltrúum sömu aðila. Oft hefur orðið ágreiningur um það verð, sem bændur eiga að fá, en það hefur aldrei orðið ágreiningur um dreifingarkostnaðinn. Það hefur alltaf orðið samkomulag um smásölu- og heildsöluverð. Það dugir því ekki að láta nú eins og menn komi af fjöllum ofan og viti ekkert, hvað áður hefur gerzt. Og mér finnst það dálítið hlálegt, ef fulltrúar 6 manna n. hafa samþ. dreifingarkostnaðinn í öll þessi ár án þess að fá viðhlítandi gögn til að sannfæra sig um það, hvort sá dreifingarkostnaður, sem var verið að samþykkja, væri eðlilegur eða ekki. Ég vil taka undir það með hv. 5. þm. Vestf., að það eru ekki aðeins hagsmunir neytendanna, að dreifingarkostnaðurinn sé sem lægstur. Það eru vitanlega einnig hagsmunir bænda, og það eru hagsmunir alþjóðar, að svo muni verða, að fyllstu hagsýni sé gætt í þessum efnum, og það er áreiðanlegt, að ríkisstj. amast ekki við því, að það verði rannsakað ofan í kjölinn, hvort dreifingarkostnaðurinn sé eðlilegur eða ekki. Ég ætla engan dóm á það að leggja, mig skortir kunnugleika þar til, en úr því áð 6 manna n. hefur komið sér saman um hann í öll þessi ár, hefði ég ætlað, að þetta væri með eðlilegum hætti.

Ég hef rætt við framkvstj. Framleiðsluráðs landbúnaðarins nýlega út af dreifingarkostnaðinum, og hann hefur tjáð mér, að það væri sjálfsagt að leggja öll skjöl á borðið og láta þá n., sem nú sezt á rökstóla, fá allar upplýsingar viðvíkjandi dreifingarkostnaðinum. Og hann taldi reyndar, að 6 manna n. hefði alltaf átt kost á að fá þetta. En það verður engin fyrirstaða á því, að sú n., sem nú tekur til starfa, fái að sjá öll skjöl, sem þessi mál varða, dreifingarkostnaðinn. Og ég, veit, að allir hv. þm. og alþjóð, neytendur og bændur, vilja, að dreifingarkostnaðurinn verði sem lægstur, og væntanlega ber þá að vinna að því, að það geti orðið.

Hv. 5. þm. Vestf. minnti á það, að það hefði sennilega komið fyrst frá mér sú aðdróttun, að A.S.Í. væri að brjóta lög. Og hann vildi alls ekki halda því fram, að hér væri um lögbrot að ræða. Hv. þm. segir: Já, hvers vegna vorum við ekki settir í tugthúsið, ef við höfum verið að brjóta lög? Hv. þm. segir: Það er aðeins heimilt fyrir A. S. Í. að tilnefna mann, en það er alls ekki skyldugt til þess. En ég vil biðja hv. alþm. að lesa 5. gr. l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins og verðskráningu. Þar er beinlínis sagt, að þessir aðilar skuli tilnefna mann og þeir, sem lesa þessa gr., geta sjálfir um það dæmt, hvort þetta var lögbrot eða ekki lögbrot. Hitt veit ég, að Stéttarsamband bænda og Framleiðsluráð landbúnaðarins skrifuðu A.S.Í. harðort bréf að ráði hæstaréttarlögmanns, þar sem það hafði allan fyrirvara á að geta gert skaðabótakröfu á A.S.Í. vegna þessa verknaðar. Ég hef ekki álitið það mitt hlutverk að ákæra A.S.Í., að fá það dæmt í fésektir út af þessu. Ég hef gert mér grein fyrir því, að það út af fyrir sig leysti ekki vandann. Ég hef gert mér grein fyrir því, að það bar að gera allt, sem unnt var, til þess að bæta úr því ástandi, sem skapaðist við brotthlaup fulltrúa A.S.Í. úr 6 manna n., og stuðla að því að fá varanlegt samkomulag á ný. Og ég hygg, að þótt A.S.Í. hefði verið dæmt í fésektir eða verði dæmt í fésektir, breyti það út af fyrir sig litlu um verknaðinn. Hann er gerður, og A.S.Í. hefur að þessu leyti gert nokkurs konar frumhlaup, sem margan hefur hent. En með því að tilnefna mann á ný í n. til þess að athuga þessi mál, tel ég, að það hafi að nokkru bætt fyrir þetta frumhlaup. Það verða svo aðrir að taka á vörðun um það, hvort málssókn verður hafin á hendu A.S.Í., en eins og ég minnti á áðan, hefur stjórn Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráð landb naðarins skrifað A.S.Í. og áskilið sér rétt til skaðabóta frá hendi þess.

Ég verð nú að segja það, að mér fannst talsverður munu á málflutningi hv. 5. þm. Vestf. og hv. 2. þm. Sunnl. að því leyti, að hv. 5. þm. Vestf. talaði alls ekki um það að gera uppreisn vegna þessara l. Hann sagði ekkert um það, hvort hann eða hans flokkur mundi veita þessu máli stuðning eða ekki, og þótt hann væri með fullyrðingar að ýmsu leyti, sem ekki standast, verðu að segja það, þegar málið er gert upp, að það var meiri stilling í hans málflutningi en hv. fulltrúa FramsfI. Ég vil hins vegar vænta þess, að þegar hv. stjórn randstæðingar gefa sér tíma til þess að hugsa um þessi mál í alvöru og kynna sér málið, skoði þeir huga inn um það að snúast gegn því eða að sitja hjá við atkvgr. Og það er áreiðanlegt, að eins og málum var komið við brotthlaup fulltrúa A.S.Í. úr 6 manna n., var ekki um annað að ræða en leysa málið með þeim ætti, sem gert hefur verið, og það má segja það, að bæði bændur og neytendur hafi gert sér grein fyrir því og uni því, sem gert hefur verið.