01.11.1965
Neðri deild: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér liggur nú við að spyrja út frá því, sem hæstv. menntmrh. lauk ræðu sinni með: Meinar ríkisstj. sem heild það í alvöru, að hún sé reiðubúin, helzt sem heild, að ræða landbúnaðarpólitík hér á Alþ. og ræða, hvers konar landbúnaðarpólitík Íslendingar skuli reka? Er hún reiðubúin til þess? Ég held, að það dugi ekki í þessum málum að reyna að koma sér neitt undan þeim umr. með því t.d. að henda því í verkamanna- og bændasamtökin, að segja þeim að ákveða verðlagningu landbúnaðarafurða og ætla svo ekki að gera neitt á neinum öðrum sviðum. Sú pólitík getur ekki gengið áfram. Það, sem hefur gerzt, er það, að verkalýðssamtökin hafa sagt: Nú gengur þetta ekki lengur. Nú verður að finna út almennilega pólitík, sem verður að reka í landbúnaðinum á öllum sviðum. Það er ekki hægt að ráða við vandamál íandbúnaðarins með verðlagningarákvörðunum einum saman, og ég spyr ríkisstj.: Er hún reiðubúin hér á Alþ., þar sem á að ákveða þessa pólitík, að ræða, hvaða landbúnaðarpólitík skuli reka, eða ætlar hæstv. ríkisstj. að halda því áfram, sem hún hefur rekið nú í allmörg ár, að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri? Eina framsóknartungu Ingólfs, eins og sumir mundu kalla, og aðra svona eins konar kaupmannatungu Gylfa? Ætla menn að halda áfram í hæstv. ríkisstj. að halda sína ræðuna sitt á hvað eftir því, hvort menn eru að tala til bænda og keppa við Framsókn eða hvort menn eru að tala hérna í Verzlunarráðinu og tala um, hvernig skuli rasíónalísera landbúnaðinn? Eða á að reyna að finna út eina pólitík Ríkisstj. hefur hingað til ekki getað það. Hún hefur ekki getað fundið út að hafa eina stjórnarpólitík í þessum málum. Hún hefur reynt að skýla sér á bak við samkomulag verkalýðssamtakanna og bændasamtakann . Og það er um þetta, sem A.S.Í. hefur sagt, þetta gengur ekki lengur, vegna þess að það er ekki hægt lengur að leysa þau vandamál, sem íslenzkur landbúnaður á við að stríða, það er ekki hægt lengur að vera við þeim réttlætiskröfum um lífskjör, sem íslenzkir bændur eiga rétt á að gera, með þessum aðferð m. Það verður að taka upp nýjar aðferðir, og þar er ég alveg hreint sammála því, sem hæstv. menntmrh. sagði í síðari hluta ræðu sinnar, þetta ástand gat ekki gengið lengur. Verkalýðssamtökin hafa á alveg sérstakri sanngirni og sérstöku tilliti til þess að reyna að bjarga þessum málum haldið þessu áfram vo að segja lengur en fært var. Og nú er komið að því að við hér á Alþ., sem höfum sett þessa löggjöf og láti fólkið búa við hana, verðum að þora að taka hana il umr., og það er ekki til neins fyrir hæstv. landb h. að láta sér detta í hug, að hann geti sloppið með því einu að ætla að kasta þessum málum í einhverja nýja n. og segja: Ég er búinn að þvo mínar hendur mínum Pílatusarþvotti og landbúnaðarmálaverðlagning og verðbólga í þjóðfélaginu kemur mér ekki lengur við.

Þegar hæstv. landbrh. fór að tala hér áðan, sagði hann: Þetta eru lögbrot hjá A.S.Í. að ætla ekki að leysa þessi vandamál. Mér þykir hann aldeilis vera búinn að finna patentið á, hvernig ríkisstj. eigi að sitja og stjórna landinu. Ég tók eftir, að hæstv. forsrh. var nýleg að kvarta yfir því, að þeir hefðu ekki leyst verðbólgumálin. Ég skal bara undir eins gefa ykkur patentið út frá þessu. Þið getið setið í það endalausa, t.d. setjið þið bara lög og ákveðið, að Hæstiréttur skuli leysa verðbólguvandamálið, setjið það bara í lög og passið að segja „skal,“ skal Hæstiréttur Íslands. Og ef Hæstiréttur ætlar að fara að rísa eitthvað upp á móti þessu, þá bara kærið þið þá og farið í skaðabótamál við þá, allir sparifjáreigendur geta farið í skaðabótamál við Hæstarétt. Hann varð ekki við þessu að leysa að, sem ríkisstj. hafði sagt honum.

Það er ekki til neins að koma með svona dellur, ef menn eru að ræða eitthvað í alvöru. Samtök, sem hafa sýnt aðra eins þolinmæði og alþýðusamtökin í þessum efnu , eiga kröfu á því, þegar þau loksins segja: hingað og ekki lengra — að hæstv. landbrh. taki þetta mál, sem heyrir sérstaklega undir hann, til alvarlegrar íhugunar og ekki sízt, þegar hann heyrir nú meira að segja frá einum sessunaut sínum, að það þurfi einmitt allt saman endurskoðunar við. En við skulum ekki vera með neinn skollaleik í þessum efnum. Það gengur ekki. Við verðum að þora að ræða þessi mál og taka þau fyrir, þora að ræða þau líka með tilliti til þess, hvað kann að vera snúið út úr og annað slíkt eða reynt í einhverjum kosningaagitasjónum að misnota.

Spurningin, sem liggur fyrir núna, er hvort það á að reyna að breiða einu sinni enn þá skikkju verkalýðs- og bændasamtakanna yfir þessi vandamál og Alþ. láti þau bara lönd og leið, eða hvort eigi að reyna að ræða þau hérna, brjóta þau til mergjar og reyna að leysa þau? 6 manna n. samkomulagið, sem búið er að vera hjá okkur yfir 20 ár, var gott samkomulag á sínum tíma, það var mjög gott. Og eins og hæstv. landbrh. kannske man, vorum við einmitt báðir í þeirri n., fjhn. Nd. ásamt 3 öðrum góðum mönnum, sem tók þá ákvörðun á þeim tíma að gefa fulltrúum launþegasamtakanna annars vegar og bændasamtakanna hins vegar löggjafarvald um að leysa þessi vandamál. Það var ákveðið, að svo framarlega sem þessi samtök og sú 6 manna n., sem þau áttu að skipa, yrðu sammála um, hvernig verðleggja skyldi landbúnaðarafurðir, skyldi þeirra samkomulag gilda sem lög. Við gáfum þeim löggjafarvald. Það hefðu fáir trúað, að þeim mundi takast að gera þetta samkomulag. Og þau leystu þetta mál, og síðan hefur sá grundvöllur að mestu leyti með tiltölulega litlum breytingum verið lög. Þetta var hægt, og það hefur verið reynt að halda þessu mjög lengi, vegna þess að það hefur fólgizt eitt ákaflega dýrmætt í þessu, og það er víst réttlætið til handa bændum, réttlæti, sem þeir mundu ekki fá með venjulegum verðmyndunarreglum þess kapítalíska skipulags. Það hefði verið verðlagt út frá öðru sjónarmiði, það hefði verið verðlagt út frá því sjónarmiði, hvernig ætti að meta þeirra vinnu, til þess að hún væri jafnmikils virði, jafnvel þótt hún væri oft og tíðum kannske ópraktískari en annarra manna í þjóðfélaginu.

Núna er svo komið vegna okkar þjóðfélagsþróunar, að það er ekki lengur hægt að verða við því að veita bændum réttlætisgrundvöll, sem þeir eiga kröfu á, réttlætiskröfu á, og eiga við að búa, og það er í öðru lagi ekki heldur lengur hægt að tryggja þjóðfélaginu þann hagsýnigrundvöll, sem þjóðfélagsheildin á kröfu til. Þetta tvennt, réttlætið annars vegar til handa bóndanum og hagsýnin hins vegar til handa þjóðfélaginu, rekst svo hrottalega á í þessum efnum, að sá árekstur heimtar endurskoðun allrar þessarar löggjafar og ekki bara verðlagningarlöggjafarinnar, heldur allrar löggjafar um landbúnaðinn eins og hann leggur sig, og það er það, sem við verðum að horfast í augu við. Og ef við ætlum að reyna að leysa þetta mál á gamla mátann, að segja við verkamanna- og bændasamtökin: Komið þið ykkur saman um, hvað réttlátt er, þá skulið þið fara gömlu leiðina, gefið þið þeim þá valdið, valdið til að ákveða allt viðvíkjandi landbúnaðarpólitík á Íslandi, vitið hvort þeir koma sér saman þá. Það þýðir meira eða minna valdið líka í sambandi við öll fjárframlög ríkisins í því sambandi. Það býst ég við, að engum detti í hug að gera. Þá liggur hitt spursmálið fyrir, eigum við hér á Alþ. að leysa þetta mál? Eigum við að reyna að glíma við það og leysa það? Eða eigum við að henda því frá okkur? Ég held, að við eigum að reyna að glíma við það og leysa það.

Þess vegna er höfuðatriðið, sem við nú stöndum frammi fyrir, þetta: Það dugir ekki lengur að takmarka við verðlagninguna eina saman, verðlagninguna á landbúnaðarvörum, hvaða kjör á að skapa bændum. Kjör bænda og verðlagning á landbúnaðarafurðum er alveg tvennt ólíkt, þannig að verðlagning á landbúnaðarafurðum ein saman getur orðið til þess að mismuna bændum og gera óréttlætið meira, sem meðal þeirra ríkir, heldur en er fyrir, gefa þeim, sem ríkur er, enn þá meira og gefa þeim fátæku miklu, miklu minna heldur en þeim ríka, m.ö.o., vinna í þveröfuga átt við réttlætið.

Ég verð hins vegar að segja það, áður en ég kem að þeim hugmyndum, sem ég hef um þetta mál, að ég undraðist nokkuð fyrra hlutann í ræðu hæstv. menntmrh., er hann var að deila á forseta A.S.Í., vegna þess að mér heyrðist á hæstv. menntmrh., að hann vera allt í einu að lýsa því yfir, að Alþfl. væri svo sérstaklega fylgjandi þessu 6 manna n. samkomulagi. Það kom mér spánskt fyrir sjónir. Ég man ekki betur en Alþfl. hafi frá því að þetta samkomulag var myndað barizt á móti þessu og alltaf gagnrýnt okkur fyrir að hafa komið því í gegn. En það er gott, ef hann er eftir þessi 20 ár farinn að átta sig dálítið á, að það var viss réttlætisgrundvöllur í þessu, sem, þótt hann sé brotnaður nú fyrir þróunina í þjóðfélaginu, átti rétt á sér á sínum tíma og var góður þá og þýddi sérstaklega mikið bæði fyrir bændur og verkamenn í því að tengja þá í viðleitninni til þess að bæta beggja hag, þó að hins vegar forustumenn bændasamtakanna hafi því miður skorið á þau tengsl, sem þar sköpuðust, með ráðstöfunum sínum í haust um að fylkja sér við hlið atvinnurekandans, eins og forseti A.S.Í. kom hér mjög greinilega inn á í sinni ræðu.

Það, sem liggur fyrir okkur að athuga í þessum efnum, þegar við viljum nú fara að ræða þessi mál án alls áróðurs, reyna að komast að nokkurri niðurstöðu, er það, hvernig við getum samræmt þetta tvennt, að reyna að einhverju leyti að veita bændum — og það þýðir þeim þeirra, sem mest þurfa á því að halda, svipuð kjör og verkamenn í bæjunum hafa, en svo hins vegar að reyna að tryggja, að þróun landbúnaðarins sé út frá hagsýnilegu sjónarmiði fyrir þjóðarheildina. Hvernig getum við samræmt þetta tvennt? Ég held, og það er eitt af því, sem þarf mjög alvarlega að rannsaka, ég held, að kjörin innan bændastéttarinnar hafi orðið ójafnari með hverju árinu, sem hefur liðið, þannig að það sé orðið ginnungagap á milli tekna þeirra bænda, sem bezt hafa kjörin og bezt liggja við markaðnum, og hinna, sem afskekktastir búa og á smæstum jörðum og hafa versta aðstöðu til markaðsins.

Það er gefið, að nú er svo komið, að ýmsir bændur á landinu eru tekjulægstu mennirnir á Íslandi, fátækustu og tekjulægstu mennirnir á Íslandi. Og þessum mönnum er svo að segja engin endurbót í því, að mjólkin og kjötið þeirra sé hækkað. Þeir hafa kannske 1/3, kannske 1/5, kannske 1/10 og enn þá minna af þeirri framleiðslu, sem ríkur stórbóndi á Suðurlandi hefur. Og það, sem ríkasti bóndinn á Suðurlandinu fær, er tífalt eða fimmfalt eða meira á við það, sem fátækur bóndi í Dalasýslu eða einhvers staðar í Þingeyjar- eða Norður-Múlasýslu eða á afskekktum stöðum á Vestfjarðakjálkanum fær. Það er þess vegna réttlætisspursmál, hvernig eigi að fara að því að tryggja fátækustu bændunum, sem þræla alveg eins og hinir, en við miklu verri aðstæður, afkomu, sem sé frá sjónarmiði réttlætisins svipuð og verkamanna í bæjum. Þetta verður ekki gert með neinni verðbólguhækkun. Þetta verður aðeins gert með því eina móti að tryggja þessum bændum lágmarkskaup yfir árið.

Ef menn þannig slá því föstu, að menn þurfi að hafa t.d. hundrað og eitthvað þús. kr. til þess að framfleyta fjölskyldu sinni, yrði að setja löggjöf um það, að hver bóndi, sem ekki nær þessu fyrir sína fjölskyldu, skuli fá greitt frá ríkinu það, sem upp á vantar. Þetta er því það eina, sem væri í samræmi við 6 manna n. grundvöllinn, meðan jöfnuður ríkti meiri á milli bænda en nú er. Ef á að bæta úr þeim ójöfnuði, sem nú er, er það einvörðungu hægt með svona ráðstöfunum að tryggja slíkum bónda það kaup, sem hann á að hafa. Það er engin sérstök ástæða til fyrir þjóðfélagið að tryggja einhverjum ríkum bónda á Suðurlandi margfalt kaup á við einhvern bónda t.d. vestur í Dalasýslu. Það er engin ástæða fyrir þjóðfélagið til þess að grípa inn í með löggjöf til að gera slíkt, og 6 manna n. samkomulagið var ekki gert til slíks. 6. manna n. samkomulagið var gert til þess að tryggja bændum almennt álíka afkomu, en ekki gera afkomuna innan þeirra eigin stéttar miklu misjafnari og ójafnari en hún hefur verið.

Ég veit, að þá koma menn að öðru spursmáli, og það er, hvernig á að borga svona, ef ætti að fara inn á þetta? Hvernig er þetta frá hagsýnisjónarmiði, eða er praktískt fyrir þjóðfélagið að vera að þessu? Ég rakti áðan, hvað Norðmenn gerðu fyrir nokkrum árum, þegar þeir voru að ræða sína landbúnaðarpólitík. Þeir skiptu öllum jörðum í landinu niður í þrennt svo að segja, þrjá flokka. Varðandi þann flokkinn, sem verst stóð, minnstu jarðirnar, vonminnstu framtíðina, tóku þeir þá ákvörðun að gefa þeim bændum með sérstökum kjörum kost á að yfirgefa þær jarðir, þ.e. ríkið sem slíkt. Ég vil segja, að þeir, sem líta enn þá meira á hagsýnisjónarmiðið en réttlætissjónarmiðið, ef þeir vilja eftir nákvæma rannsókn á þessum hlutum athuga þessar jarðir, munu þeir komast að þeirri niðurstöðu, að svo og svo mikið af jörðunum á Íslandi eru raunverulega óbyggilegar, eins og sakir standa. Ég. veit, að það er ekki nema tímaspursmál. Ég veit, að það á eftir að koma, áður en þessari öld lýkur, að allar jarðir, bæði þær, sem nú eru í eyði, og aðrar, verða byggðar á Íslandi, vegna þess að það þarf á því að halda í heiminum, að það sé ræktað allt, sem ræktanlegt er. En í augnablikinu er það svo, að stór hluti af íslenzkri bændastétt býr við eins konar bændaánauð, máske eldri hjón, sem þræla á sínu búi, litlu búi, búin að leggja allt ævistarf sitt í að gera þetta bú sæmilega úr garði og fá engan til að taka við því og hafa það lágar tekjur af sínum þrældómi, að það er minna en almennt er hjá verkamönnum í bæjunum. Hvað á að gera undir slíkum kringumstæðum? Á að láta þessi hjón vera þarna og börn þeirra, þangað til þetta flosnaði allt saman upp og þau missa eignir sínar, eða á ríkið að kaupa þessar jarðir með sæmilegu verði? Ríkið getur ósköp vel, þegar svona stendur á, farið út í það, og það á að rannsaka það mjög vel, að kaupa þær jarðir með sæmilega góðu verði, sem bændur þannig vilja losna við. Það er bezta fjárfesting, sem ríkið getur gert, ef hugsað er í öldum, en ekki árum. Og það þýðir um leið út frá hagsýnisjónarmiðinu að fækka smæstu búunum og út frá réttlætissjónarmiðinu að hjálpa þeim bændum, sem þarna eru erfiðast staddir. Ég vil hins vegar taka það fram um leið, að þegar ég minnist á þetta, er ég eingöngu að ræða þetta frá ökonómísku sjónarmiði, frá hagsýnisjónarmiði, að nokkru leyti þó út frá tilfinningasjónarmiði gagnvart þeim bændum, sem þarna eiga í hlut.

En það er annað sjónarmið, sem við verðum að ræða líka, sem kemur inn í þessi mál, þegar um bændastéttina er að ræða, og er alveg fyrir utan hin tvö, réttlætissjónarmiðið og hagsýnisjónarmiðið, og það er það þjóðernislega sjónarmið. Það má vel vera, að við viljum gera sérstakar ráðstafanir til þess að viðhalda bændastétt á búum, sem ekki borga sig, bara til þess að halda bændastéttinni lengur við lýði í landinu, til þess að sú mikla bylting, sem þjóð okkar er að upplifa núna, að breytast á einni einustu kynslóð úr bændaþjóð í borgarþjóð, verði ekki allt of hröð, þannig að hún slíti rauða þráðinn í þjóð okkar. Það getur verið, að okkur finnist þess vegna frá þjóðernislegu sjónarmiði nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að viðhalda bændabyggð, þar sem það frá hagsýnisjónarmiði og meira að segja frá réttlætissjónarmiði gagnvart þessum bændum væri ópraktískt, en þá verða menn líka að þora að borga fyrir það, því að við getum ekki ætlazt til, að einstakir menn t.d. úr bændastéttinni eigi að fórna sér fyrir þjóðarheildina og vera nógu ríkir til þess að geta það.

Hvernig eigum við að fara að gagnvart landbúnaðinum í heild? Hæstv. menntmrh. tók að nokkru leyti af mér ómakið að færa fram rökin fyrir, hvernig komið er. Hann sýndi með tölum svo greinilega fram á, hver þróunin er og í hve vitlausa átt sú þróun stefnir. Og það er óhjákvæmilegt, ef við ætlum að stjórna þessum málum og ekki að skipuleggja stjórnleysið og þurrka bara af okkur á þeim bréfum, sem maður sendir verkalýðssamtökum frá ríkisstj., það er óhjákvæmilegt fyrir okkur að stjórna þessari þróun, þora að horfast í augu við að stjórna þessari þróun, að ráða því, hver þróunin verður í landbúnaðinum.

Og ég býst við, að þá komi ég að því, sem er viðkvæmasta málið máske frá ýmissa hálfu í sambandi við þessi mál. Ég veit ósköp vel, að það er búið að prédika hér yfir okkur frelsi í öllum þessum hlutum í 6 ár. Þetta á allt saman að leysast af sjálfu sér um leið og menn fengju að vera frjálsir. Ég veit nú, að þetta frelsi hefur aldrei náð til landbúnaðarins. Hæstv. landbrh. hefur séð um að reka þar þá góðu, gömlu haftapólitík Framsóknar og allt saman slíkt, svo að það hefur hvorki frelsi né skipulag komizt þar að. Ef við ættum að hafa frelsið, sem svo mikið hefur verið talað um í sambandi við verzlun í þessum málum, er það náttúrlega gefið mál, að bændurnir eiga sjálfir að ákveða sitt verð, kaupmaðurinn ákveður sitt. Og þá náttúrlega á að vera frjáls innflutningur á landbúnaðarafurðum. Það er ekki frelsi, ef landbúnaðinum er veitt einokun í því sambandi. Ef sem sé hæstv. ríkisstj. ætlar að framkvæma sína frelsispólitík, ætti frá hennar sjónarmiði að vera sjálfsagður hlutur, að bændur ákvæðu verðið á sínum vörum og kaupmenn fengju að flytja inn frjálst það, sem þeir vildu af landbúnaðarafurðum og annað slíkt.

En allt þetta frelsishjal er ekki sízt á sviði landbúnaðarins svo hringavitlaust, að meira að segja hæstv. ríkisstj. hefur ekki dottið í hug að reyna að framkvæma aðra eins idjótastefnu og hún hefur verið að prédika á öðrum sviðum.

En hvað er þá, ef menn vilja ekki hafa blessað frelsið á sviðum landbúnaðarins. Þá er ekkert um annað að ræða, ef eitthvert vit á að vera í því, en skipulagningu. Að tvístíga þarna á milli með þeirri pólitík, sem nú er rekin, þýðir bara, eins og hæstv. menntmrh. var að sýna fram á, að þetta fer allt í hringavitlausa átt, m.ö.o. stefna ríkisstj. er hringavitlaus, það að þora hvorki að láta frelsið ráða né þora að taka upp skipulagningu. Hvað verðum við þá að gera í þessum efnum? Við verðum að þora að taka upp heildarstjórn á framleiðslu landbúnaðarafurða, skapa okkur áætlun um það, hve mikið við ættum þarna að framleiða. Ég veit, að það verður að vera viss margína í því. Það verður að vera með tilliti til þess, hve háðir við erum þar veðráttu eða öðru slíku, en engu að síður stefna að alveg ákveðnum hlut í þessum efnum.

Það var hér fyrir 20 árum á Alþ. lagt fram frv. af hálfu Sósfl., þar sem farið var fram á að heimila að koma á svæðaskiptingu á Íslandi, þannig að sérstök svæði landsins skyldu fyrst og fremst hugsuð sem mjólkurframleiðslusvæði, önnur sem kjötframleiðslusvæði og slíkt er ákaflega eðlilegt. Það er engin sérstök ástæða til þess, að bændur, t.d. á þeim svæðum landsins, sem liggja bezt að aðalmjólkurneyzlusvæðunum, séu að reka sauðfjárbúskap og fá uppbætur á sauðfé í stórum stíl. Og frá hagsýnisjónarmiði er það ekki heldur praktískt, að á þeim svæðum landsins, þar sem sauðfjárbúskapur væri eðlilegastur og fjarri liggur góðum mjólkurmörkuðum, sé verið að stórauka mjólkurframleiðslu og koma upp mjólkurbúum og borga uppbætur á þá mjólk eða þær mjólkurafurðir. Það mætti gjarnan athuga það að skipta landinu niður í ákveðin svæði til þess að halda dálítið aftur af mönnum í þessum efnum, gera mönnum ljóst, að uppbæturnar séu ekki óendanlegar á þessum sviðum.

Uppbæturnar eins og þær eru núna stefna alveg til stjórnleysis. Það er hægt að stjórna þessum málum að miklu leyti með uppbótunum, ef það er planlagt. En planlausar uppbætur þýðir planlaus framleiðsla, það þýðir þróun, sem stefnir í vitlausa átt. Það þýðir, eins og hæstv. viðskmrh. var að sýna hérna fram á áðan, að kjötframleiðslan minnkar, mjólkurframleiðslan eykst, offramleiðslan á mjólkurafurðunum eykst, sem við fáum ekki nema 22% fyrir, ef við flytjum út, en kjötframleiðslan, sem við fáum þó 40–60% fyrir miðað við innanlandsverðið, minnkar, og þarna verðum við að þora að setja þannig löggjöf, að sú löggjöf hafi áhrif á, hver þróunin verður í þessum efnum.

Þorum við að hugsa um þetta þannig? Þorum við að gera okkur grein fyrir því, að við verðum að þora að skipuleggja þessa hluti? Ég held, að það dugi ekki annað, ef menn ætla að brjóta þessi mál til mergjar, en kasta svona hugmyndum fram. Ég fann ekki neina stefnuyfirlýsingu fyrir neinna hönd, en ég er að benda á það, sem óhjákvæmilega þarf að ræða í þessum efnum. Menn verða að þora að taka á þessum málum og það hér á Alþ. Hér er staðurinn til þess. Ef menn þora ekki að taka á þessum málum hérna og vilja halda hinni aðferðinni að segja við verkalýðssamtökin og bændasamtökin, að þau komi sér saman um þetta, þá vil ég segja: Látið þið þá þá ráða um leið, hvort ríkið megi fara inn á að kaupa upp jarðir í svo og svo stórum stíl, hvort þeir megi setja löggjöf um þróunina, heppilegustu þróun í þessum efnum í landbúnaðinum og hvort þeir megi ráða, hvernig uppbætur eru og annað þess háttar, og ég er anzi hræddur um, að þegar komið væri að þessu, færi hæstv. fjmrh. nú að segja, að við mættum nú ekki sleppa kassanum alveg við þessi samtök, þótt góð séu. M.ö.o., við skulum ekki reyna að skjóta okkur undan að ræða þessi mál hér á Alþ. og taka ákvörðun um þau hér á Alþ., því að þau hanga öll sömun saman.

Hæstv. landbrh. var að barma sér yfir því, að A.S.Í. hefði slitið þessu. Ég tek undir með hæstv. menntmrh. Það var aldeilis tími til kominn, og það var alveg nauðsynlegt einmitt að knýja fram þá endurskoðun, sem hefur beðið allt of lengi í þessum efnum, að kasta því inn hér á Alþ. að fara að ráða eitthvað við þá röngu þróun, sem er í þessum málum. Hæstv. menntmrh. var að reyna að deila á A.S.Í. í því sambandi, hvort þeir vildu ekki, að neytendur hefðu nein áhrif á verðið. Það er ekki hægt að hafa áhrif á það, sem þarf að gera í landbúnaðinum, með verðlagningunni einni saman. Það þarf að gera það með því að endurskoða alla landbúnaðarpólitíkina frá rótum. Ég býst við, ef A.S.Í. ætti að fá löggjafarvald, eins og ég var að tala um áðan, í þessum efnum, mundi það þora að taka við því. Hitt efast ég um, hvort hæstv. ríkisstj. vill gefa því það. Það er hægt að leysa þessi mál, en það er viðkunnanlegra, að við reynum að leysa þau hér á Alþ. með því að ræða þau og með því að koma okkur niður á, hvað gera skuli, heldur en reyna að koma okkur hjá því að ræða þau með því að biðja bara A. S. Í. og önnur samtök, bændasamtök og önnur að leysa þau. M.ö.o., það þarf margháttaða löggjöf héðan frá Alþ. til þess að leysa þessi mál, löggjöf, sem snertir öll svið landbúnaðarins og kemur kannske inn á ýmislegt fleira líka.

Það er það, sem ég vildi leggja áherzlu á. Ég held einmitt, að það, sem hér verði að vera til umr. nú, sé ekki bara þessi brbl., sem hér liggja fyrir, það sé ekki bara, hvort A. S. Í. eða önnur samtök vilja taka að sér að reyna að leysa hluta af þessum málum að nýju, heldur hitt, hvort Alþ. treysti sér til þess að móta landbúnaðarpólitík, og þá kemur náttúrlega fyrsta spursmálið, sem er það, hvort hæstv. ríkisstj. treystir sér til þess að móta nokkra landbúnaðarpólitík. Hún hefur ekki gert það núna í 6 ár, og það er ekki hægt að komast hjá því lengur. Og það er það, sem almannasamtökin í landinu urðu að segja ríkisstj., og þess vegna er þetta mál nú komið hér inn, og það er gott, að svo er.